Víkingaaldaskáli

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ 2009 er m.a. fjallað um Hofsstaði:

Hofstaðir

Hofstaðir – Túnakort 1918.

GK-177 Hofsstaðir
1395: “Skrá um jarðir þær, er komið hafa undir Viðeyjarklaustr síðan Páll ábóti kom til Viðeyjar. … Hofstader.vij. c.” DI, III, 598.
1703: Konungseign. JÁM, III, 226.
1847:10 hdr. Konungseign.
1965: Búskapur leggst af. GRG, 20.
1966: Jörðin seld Garðahreppi undir íbúðarhúsalóðir. GRG, 20.
1890: “Jörðin eigi sitt eigið tún en ekkert land utan túns.”GRG, 2001.
Túnakort 1918: Tún, sléttað, 2,9 teigar. Kálg. 700 m2”

Hofstaðir

Hofstaðir – loftmynd 1954.

Í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi segir: “Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Jörðin átti sitt eigið tún, en ekkert land utan túns. Beit átti býlið í óskiftu Garðastaðalandi. Gömul munnmæli herma eftirfarandi: Hofsstaðir eiga beit utan túns fyrir hest í stokk og kýr í hafti.
Hofstaðabærinn: Hann stóð austan til við láganhól í túni miðju.” “Hofsstaðir býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, stóð á Hofstaðahól eða Bæjarhólnum,” segir í örnefnaskrá GS.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – byggðir 1923.

Hofsstaðir eru næsta hús vestur af Vídalínskirkju og sunnan götunnar frá Hofstöðum er Tónlistarskóli Garðabæjar og sýningarsvæði Hofstaðaskálans. Að sunnan markast lóð Hofstaða af götunni Kirkjulundi.
Hofsstaðir eru nú inni í þéttri byggð, þótt engin bygging sé fast upp við bæinn. Talsverður trjágróður vex á lóð Hofstaða.
Hofstaðabærinn sem nú stendur er byggður 1923 og er tvílyft steinhús með kjallara. Sennilega eru talsvert miklar búsetuminjar í kringum Hofstaði, bæði á lóðinni sem og undir malbiki fjær frá húsinu, en skálinn skammt sunnan við ber vott um búsetu frá fyrstu tíð. Erfitt er að gera sér grein fyrir stærð og umfangi bæjarhólsins sökum sléttaðs og malbikaðs umhverfis í kring. Fyrir nokkrum áratugum síðan kom upp úr túni nærri Hofstaðabænum hraunhella 50x30x10 sm að ummáli. Gat, um 2 sm í þvermál, er klappað í gegnum hana nærri annarri langhlið. Hugsanlega er um að ræða myllustein eða eitthvað slíkt. Gripurinn stendur í dag upp við húsvegg Hofstaða til skrauts.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – fyrirmyndar frágangur eftir fornleifauppgröft.

“Ofan við þetta hraun er bærinn Hofsstaðir og er ekki úti á nesinu sjálfu. Jónas Hallgrímsson segir frá, að hann hafi rannsakað hæð sem nefnist “Hofhóll” og er þar í túninu, en þar reyndist aðeins venjulegur öskuhóll, grasi vaxinn.” FF 1, 19. Hóllinn er á grasflöt 20 m SA af Lögreglustöð Garðabæjar og 30 m SV af Tónlistarskóla Garðbæjar. Var áður innan túns, er nú á opnu grænu svæði. Nokkuð er búið að byggja og malbika í kring en hóllinn hefur enn sem komið er sloppið.
“Hof eller Tingstæd tales ikke heller om i dette Sogn [Reykjavík]; de som boede her sögte först Kialarnes, og siden til Hofstad paa Alftenes inden Garde Sogn, hvor endnu sees Ruster af en betydelig Bygning,” segir í Frásögur um fornaldarleifar frá 1821. Fremur lágur hóll, rís hæst um 0,7 m. Erfitt er að henda reiður nákvæmlega á ummálinu, virðist vera um 6 m NA-SV, en SA hluti hólsins rennur algerlega inn í umhverfið, gæti þó allt eins verið rúmlega 10 m langur.

Hofsstaður

Hofsstaður eftir fornleofauppgröft.

Á túnakorti frá 1918 er sýnt útihús innan kartöflugarðs rétt vestan við bæjarhúsin. Nú er svæðið sléttuð lóð Hofstaða.
Gróinn bakgarður, sléttaður og í honum er talsverður trjágróður. Einnig er í dag sólpallur SV við húsið sem teygir sig að líkindum inn á það svæði sem kálgarðurinn náði áður yfir.

Í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi segir: ,,Hofstaðabrunnur: Hann var í túnjaðrinum sunnan bæjarins. Aflagður.” “Hofstaðatúngarður lá umhverfis túnið á alla vegu, hlaðinn að mestu af torfi og grjóti. Sér nú ekkert af honum nema garðbrot fram undan húsinu niðri í mýrinni, en þar nálægt var Hofstaðabrunnur, og frá honum heim til bæjar lá Brunngatan,” segir í örnefnaskrá GS. Brunnurinn er horfinn undir byggð. Hann var þar sem nú stendur fjölbýlishúsið Garðatorg 17.
Brunnurinn er nú undir byggð og malbiki.
Samkvæmt heimildamanni þornaði brunnurinn oft og þá þurfti að sækja vatn til Lindarinnar og seinna meir til Hafnarfjarðar. Í bakgarði Hofstaða fast við grindverk að Kirkjulundi 8 eru tveir þvottasteinar sem stóðu áður við Hofstaðabrunn en voru fluttir þegar Garðatorg var byggt. Steinarnir voru áður 3 en 1 glataðist. Þvottur var lagður á steinana og klappaður með viðarspaða.
Steinarnir eru hvor um sig um 1x1x0,5 m í þvermál.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – loftmynd 2020.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1703 segir: ,,Torfrista og stúnga og móskurður hjálplegt.” Ekki er ljóst hvar móskurðurinn fór fram sem rætt er um í Jarðabók en í minni heimildamanns var mótak þar sem Mýrarhverfið er nú risið og sérstaklega þar sem nú stendur Hofstaðaskóli, neðan Bæjarbrautar og niður að Arnarneslæk.

Skálinn er á lóð Tónlistarskóla Garðabæjar. Hann fannst og var kannaður við fornleifauppgröft sem fór fram árin 1994-1998, í tengslum við byggingu leikskólans Kirkjubóls. Skálinn er um 35 m ASA af bæjarstæði.
Minjagarður hefur verið hannaður um skálann.
Skálinn er talinn frá lokum 9. aldar. Hann er 30×8 m að stærð og snýr nokkurn veginn N-S.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – skálinn.