Bessastaðanes

Þegar gengið var um sunnanvert Bessastaðanes mátti á nokkrum stöðum sjá forna jarðlæga grjótgarða,, bæði neðan við kirkjuna og út á svonefndum Vestaritanga. Þar er greinileg tóft skammt ofan við fjöruborðið og liggja garðarnir í boga út frá henni að sjó. Góð lending er neðan við tóftina. Frá henni er styst sjóleiðina yfir að Gálgaklettum í Gálgahrauni.

Svæðið

Í örnefnaskrá Kristjáns Eldjárns segir m.a. um þetta svæði: “Suður frá bæ voru áður mikil svöð, en nú eru þar ræktuð tún. Er mér ekki kunnugt um nein nöfn þar nema Kringlumýri sem Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík. Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, sem nú eru alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi, og er þar mikið æðarvarp, en stóra víkin austan við þá heitir Músavík (eða Músarvík). Nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem mætast Skerjafjörður og Lambhúsatjörn, og allra fremst á Rananum heitir Ranatá hefur B.E. eftir Jakob bróður sínum, sem er eldri en hann. Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber á Bessastaðanesi, er hóll, sem heitir Skothús, og segir B.Gr. nokkuð frá því. Þar hefur verið eitthvert mannvirki, en engar sagnir eru um það.”
GrjótgÍ Árbók hins ísl. fornleifafélags 1981 fjallar KE um svæðið og leggur örnefnalýsinguna til grundvallar. Auk þess segir hann um framangreinda tóft á Vestaritanga: “Tóftarbrot lítilfjörlegt er einnig fremst á Vestaritanga. Rennur mjög saman við þýfið þar og verður ekki séð til hvers verið hefur.”
Í frásögn sinni um sama efni í Árbókinni skrifar hann: “Suður frá staðnum, fyrir sunnan brekkuna sem húsin standa á, er land mjög lágt og hefur verið votlent, en er nú ræktað tún. Einhversstaðar þar voru Akrarnir, sem svo voru kallaðir og Benedikt Gröndal talar um, „stórir ferhyrndir blettir, mig minnir tveir samfastir með lágum torfgarði á milli, mátti vel sjá móta fyrir „akurreinum” eða löngum þverdældum.” (Dægradvöl útg. 1965, bls. 11).
TóftÞessir „akrar” eru nú löngu horfnir. Eitthvað töluvert austar hefur verið mýri sú sem Kringlumýri nefndist og Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík. Er helst svo að sjá sem þetta hafi verið sama mýrin og Björn Gunnlaugsson kallar Heimamýri á uppdrætti sínum. Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi. Er mikið æðarvarp á þessum slóðum. Mýrina upp af
GarðTöngunum nefnir Björn Gunnlaugsson Miðmýri) og virðist það nafn vera gleymt nú. Stóra víkin austan við Tangana heitir Músavík eða Músarvík. Björn Gunnlaugsson notar seinna afbrigðið, en uppmæling hans mun vera elsta heimild sem til er um þetta nafn. Langa nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem Lambhúsatjörn opnast út í
Skerjafjörð. Fremst á Rananum heitir Ranatá, og hefur Björn Erlendsson það eftir Jakob bróður sínum, sem eldri var en hann. Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber í Bessastaðanesi, er töluvert reisulegur hóll sem heitir Skothús og segir Benedikt Gröndal nokkuð frá því. Á hólnum hefur verið eitthvert mannvirki en engar sagnir eru um það. Um Skothúsið segir: “Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber í Bessastaðanesi, eða eins og Gröndal segir í Dægradvöl: ,,Þar hæst á bungunni er kringlóttur grasblettur og rúst eftir gamalt byrgi, þar sem fálkarar hafa líklega legið við fyrrum, það var kallað „skothúsið”, og er þaðan víðsýni mikið og fagurt.” (2. útg. 1965, bls. 4). Hvað sem líður ummælum Gröndals um fálkara, má telja mjög sennilegt að þarna hafi verið skotbyrgi. Gæsir eru t.d. tíðir gestir í nesinu. Hóllinn sem tóftirnar eru á, er 9 m í þvermál við grunninn, sýnist að upphafi hafa verið náttúruverk en þó má vera að hann hafi smám saman hækkað af mannavöldum. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.”
Tóftin og garðarnir á Vestaritanga eru forvitnilegar minjar. Þarna gæti auðveldlega hafa verið sjóbúð og garðarnir þurrkgarðar. Þá gæti húsið hafa tengst fangaflutningum frá Bessastöðum yfir að Gálgaklettum meðan aftökur tíðkuðust þar. Önnur notagildi koma og vissulega til greina.

Heimildir:
-Örnefnalýsing KE fyrir Bessastaði.
-Árbók hins ísl. fornleifafélags, 78. árg. 1981, bls. 132-147 – Kristján Eldjárn.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – minjar og örnefni: ÓSÁ