Gálgaklettar

Gengið var vestur eftir Fógetastíg (Álftanesgötu) og þvert yfir Garðahraun.

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Gatan er greinileg í gegnum hraunið. Við hana eru gömul vörðubrot á nokkrum stöðum. Á a.m.k. tveimur stöðum eru grashólar er gætu þess vegna verið gamlar dysjar eða önnur ummerki. Þegar stígnum er fylgt er komið út úr hrauninu við Hrauntunguflöt. Hrauntunga er sá tangi, sem skagar lengst til vesturs út úr hrauninu að vestanverðu. Þó, skammt áður en komið er komið út úr hrauninu, rétt sunnan vörðubrots, liggur stígur til vinstri. Það er Garðagata. Hún liggur síðan áfram til vesturs upp norðanvert Garðaholt þar sem hún fer m.a. í gegnum skotgrafir og skotbyrgi áður en komið er upp á háholtið.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.

Beygt var út af Fógetastíg sunnan Garðagötu. Þaðan liggur stígur að Garðastekk. Áður en komið var að stekknum var staldrað við og skoðuð, að því er virðist, allstór fjárborg uppi á hraunkantinum ofan við stekkinn. Borgin er greinilega mjög gömul. Þarna gætu einnig verið um að ræða leifar af húsi eða byrgi ofan við stekkinn. Stekkurinn undir vesturhraunbrúninni er allstór og gæti þess vegna hafa verið breytt í rétt undir það síðasta. Norðan stekksins, inni í stekkjargerðinu, er greinilega gömul tótt og vinkillaga garður norðan hennar. Ekki er vitað hvað sú tótt gæti hafa verið því hvorki er minnst á hana né fjárborgina í örnafnaskrám.

Garðahverfi

Presthóll.

Gengið var áfram til vesturs áleiðis upp á Garðaholt. Við gatnamót Álftanesvegar og Garðaholtsvegar er stór hóll – Presthóll eða Prestahóll. Utan í honum er miklar skotgrafir og hlaðið smáhús.

Haldið var áfram til suðurs og upp á hæð, sem í seinni tíð hefur verið nefnd Völvuleiði. Á henni er Mæðgnadys skv. örnafnalýsingu. Utan í henni er skotgröf, sem og víðar í holtinu.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Áfram var haldið til vesturs og þá komið að hinu eiginlega Völvuleiði skv. lýsingu Ágústar frá Miðengi. Það er við hinn gamla Kirkjustíg, sem lá þarna frá Engidal að Garðakirkju. Gömul sögn segir að valva hafi orðið þar úti og verið dysjuð við stíginn.
Eftir stutt staldur við Garðaholt var guðað á glugga á Króki, gömlu uppgerðu húsi skammt neðan við veginn. Það mun nú vera í eigu Garðabæjar og er látið halda sér að innan eins og það var yfirgefið á sínum tíma. Gengið var niður með Austurtúnsgarði Garða og niður fyrir kirkjugarðinn, eftir Lindargötu og að Garðalind. Lindin er undir stórum steini og liggur hlaðinn stokkur niður frá henni. Yfir stokkinn er brú upp við lindina og önnur aðeins neðar. Neðan og vestan við lindina var Garðhúsabrunnur, en hann var fylltur upp eftir að dauð rolla fannst í honum. Þarna skammt frá voru Garðhús (gæti verið áberandi tótt sunnan við Garðalind, fast upp við kirkjugarðsgirðinguna.

Fógetagata

Fógetagata.

Gengið var til norðurs að bæjarhóls þurrabúðarinnar Hóls við norðvesturhorn kirkjugarðsins, upp túnið norðan hans, framhjá Ráðagerði og upp á Garðaholt. Þaðan sést vel Hallargerðið, þar sem bærinn Höll stóð, í suður. Staðnæmst var við þann stað, sem Garðaviti stóð. Þar á stórri vörðu var höfð lukt á 19. öld að skipan Garðapresta. Framhjá henni til austurs liggur Garðagata niður holtið – þvert í gegnum hlaðnar skotgarfir og tvö steypt skotbyrgi. Litið var á þau og síðan haldið áfram niður eftir Garðagötu. Miðja vegu í holtinu, vinstra megin og alveg við götuna, er gömul ferköntuð hleðsla. Gömul hringlaga hleðsla er utan um hana. Þarna er eitthvað, sem skoða þarf nánar. Í örnafnalýsingu segir m.a. að “frá Garðatúnshliði lá Garðagata (Stekkjargatan) vestan Götuhóls, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól við vegamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar”.

Garðahverfi

Hallargerði.

Í örnefnaskránni segir að Presthóll sé við fyrrnefnd gatnamót. Það segja og Ágúst á Miðengi og Guðjón á Dysjum.

Um Mæðgnadys segir einnig í örnefnalýsingunni að hún sé “í norðanverðu Garðaholti sunnan við Presthól”. Hér gætir ónákvæmni. Ekki er ólílegra að Mæðgnadysin kunni að vera þessi því hún er við götu eins og flestar dysjar, sbr. Völvuleiðið, sem er við Kirkjustíg. Því eru hér uppgefnir GPS-punktar af báðum stöðunum.

Gálgahraun

Fiskbyrgi í Gálgahrauni við Sakamannastíg.

Síðan var haldið áfram að Sakamannagötu eða Gálgastíg, eins og hann hefur stundum verið nefndur. Þarna lá gatan, nyrst í vesturjarði Gálgahrauns, austur með sjónum að Gálgaklettum. Á leiðinni eru m.a. hleðslur við stíginn og garðar á stangli. Þeir voru fyrst og fremst notaðir sem þurrkgarðar fyrir þang, sem skorið var þarna í fjörunni. Gengið var framhjá Hrauntanga, en ofan þeirra er fallegt útsýni að klettunum.
Gálgaklettar voru skoðaðir í krók og kima. Þeir eru gamall aftökustaður frá Bessastaðavaldinu. Í lýsingum er talað um Gálgaflöt þar sem hengdir voru grafnir, en óljóst er hvar hún er nákvæmlega. Þó má sjá á einu korti af svæðinu að flötin sé nokkru norðaustan við klettana, svo til alveg niður við sjó, á milli Hrauntanga og Vatnagarða. Skoðað síðar. Tækifærið var notað og skimað eftir skútum við Gálgakletta, en engir fundust að þessu sinni.

Gálgahraun

Gálgahraun – Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í fornleifakönnun FÍ 1999 segir m.a. um Gálgakletta: “Við Lamhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim…. Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirravar lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessi klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.”
Um Garðastekk segir jafnframt: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana… Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930”, segir í örnefnalýsingu.
“Fógetastígur er mjög sérstæð og óvenjuleg fornleif. Hún getur engan vegin talist greiðfær fyrir hesta, en engu að síður ber hún vitni um mikla umferð á þessari leið um aldir. Gatan er enn þann í dag skemmtileg gönguleið og hefur ótvírætt varðveislugildi…. [Fógetastígur] greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.”
Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk að skoða stígana í Garðahrauni, skoða Garðastekk og kíkja á Gálgaklettana í Gálgahrauni. Aðkoman að þeim eftir Sakamannagötunni úr vestri er áhrifarík.
Frábært veður. Gangan, fram og til baka, tók 3 klst og 3 mín.

Garðavegur

Garðagata ofan Garðakirkju.