Krókur

“Á Túnakorti 1918 má sjá bæjarstæði Króks, austan Garða, alveg upp við túngarð (185-42) og er girt kringum tún býlisins.
Sunnan við Krók er Nýibær. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og krokur-222enn ofar er gamli skólinn [185-32].” (Bls. 3). Skv. Örnefnaskrá 1964 var Krókur “hjáleiga og stundum þurrabúð frá Garðastað, suður með Garðatúngarði […] Krókstún: tún býlisins, ekki ýkjastórt, en þó nytsamt” (B65-6). Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: “Fyrir ofan Nýjabæjartún er túnið í Króki, og stendur húsið efst í því, rétt upp við veginn. Fjós og hlaða eru rétt austan þess. Samkomuhús er rétt ofan vegar, sunnan við Garðaholtsveg (þ.e. veginn yfir Garðaholtið).”

Árið 1918 samanstóð Króksbær af sex torfhúsum og snéru framgaflar með standþili suðvestur að Króksbrunngötu (185-26) og garði (185-29). Við gerð Fasteignabókar 1932 var torfbærinn enn uppistandandi (bls. 23) en skv. Fornleifaskráningu 1984 var nýtt íbúðarhús byggt þremur árum síðar (“1300-74”), timburhúsið með járnvörðum veggjum sem tilgreint er í Fasteignabók 1942-4 (bls. 81). Þessi bær stendur enn með þremur bárujárnsklæddum burstum og var sú sem er í miðjunni raunar byggð upp úr gamla torfbænum árið 1923. Austurburstin er frá 1934 en þá hafa torfveggirnir sennilega verið teknir niður og vesturburstin er frá 1945. Bærinn stendur nánast óbreyttur frá 1950 og er sérstakt að hann hefur haldið svipmóti torfbæjar, einnig hvað herbergjaskipan varðar. Fjósið og hlaðan á bak við eru frá 1920-30.
krokur-321Í Manntali árið 1801 er Krókur kallaður “húsmannspláss” en þar bjuggu þá tvær jarðnæðislausar útgerðarfjölskyldur: hjónin Árni Einarsson og Ólöf Torfadóttir ásamt Unu Ögmundsdóttur, frændkonu mannsins, og hjónin Þórður Jónsson og Guðrún Ásbjörnsdóttir ásamt Steinunni Jónsdóttur, fátæku barni (bls. 355). Þegar Manntal var tekið 1816 voru þau fyrrnefndu flutt en þau síðarnefndu bjuggu enn á jörðinni. Þórður hafði fengið titilinn “kirkjuforsöngvari”, Steinunn var orðin vinnukona á heimilinu og í fjölskylduna hafði bæst dóttirin Guðríður og fóstursynirnir Jón og Jakob. (Bls. 409). 29 árum síðar voru þau öll farin og hjónin Þorvarður Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir flutt úr grasbýli sínu á Hausastöðum í Krók en honum fylgdi einnig grasnyt. Hjá þeim voru Þorvarður 23 ára sonur og Ólöf 12 ára fósturdóttir. (Bls. 392). Býlið er ekki nefnt í Jarðatali 1847 en hins vegar í Jarðabók 1861 (bls. 38). Það var í eigu Garðakirkju fram um miðja 20. öld. Árið 1934 fluttust hjónin Vilmundur Gíslason og Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir í Krók og bjó hún þar til 1986, þá orðin 87 ára gömul. Síðan stóð bærinn mannlaus en 1990 gáfu afkomendur þessara síðustu ábúenda húsið ásamt innbúi til Garðabæjar og stendur nú yfir viðgerð. 
krokur-4Árið 1861 var jörðin talin 5 ný hundruð en 1932 var hún metin á 17 hundruð kr. Kúgildi voru tvö, úr 1500 m² matjurtagarði fengust 12 tunnur og af 1 ha túni 36 hestburðir af töðu. 1942-4 hafði matsverð jarðarinnar hækkað í 29 hundruð kr., auk kúgildanna voru 8 sauðir og eitt hross, garðurinn gaf af sér 15 tunnur og túnið 58 töðuhestburði. Hlunnindi voru hrognkelsaveiði, útræði, mótak og ýmislegt fleira en í Örnefnalýsingu segir frá Birni bónda í Króki sem var þar fram um 1917: “einn þeirra, sem sótti þang til eldiviðar í Lambhúsatjörn, og mun hafa verið sá síðasti, sem það gerði. Taldi hann þangið úr Lambhúsatjörn betri eldivið en þangið úr fjörunni í Garðahverfinu. Bar hann allt heim á sjálfum sér, því hest átti hann ekki.”

Heimildir:
-Garðahverfi. Fornleifaskráningu 2003. Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands, bls 40-41 – Ragnheiður Traustadóttir og Rúna Knútsdóttir.
-Ari Gíslason: Örnefnalýsing Garðahverfis. 1958.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 41, 8. sept. 1931, öðlast gildi 1. apríl 1932.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 3, 6. jan. 1938. 1942-1944.
-“Smábýlið Krókur í Garðaholti verður endurbætt í varðveisluskyni. Fágæt innsýn í líf um og fyrir miðja öld.” Morgunblaðið 9. maí 2000. Bls. 14.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A69-70 / Garðaland B65-6, Bæjatal A477 / B462.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir: “1300-74”. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.
-Kristján Eiríksson: Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna. 1976-7.
-Ný Jarðabók fyrir Ísland, samin eptir tilskipun 27. maímánaðar 1848 og allramildilegast staðfest með tilskipun 1. aprílmánaðar 1861.
-Manntal á Íslandi 1801 suðuramt. Rvk. 1978.
-Manntal á Íslandi 1816 V. hefti. Rvk. 1973.
-Manntal á Íslandi 1845 suðuramt. Rvk. 1982.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi: Garðar, Krókur, Nýibær frá 1918.

Krókur

Krókur.