Garðaflatir

 Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann. Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Ýmis merki megi sjá þar enn í dag að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma. Skammt fyrir neðan

Garðaflatir er stórt holt, sem nefnt er Smyrlabúð.” Þessa staðs er hvergi annars staðar getið í heimildum.
Smyrlabúð er 125 m há hæð syðst í Smyrlabúðarhrauni. Leitað var í kringum Smyrlabúð. Á einum stað, uppi í hlíðinni að vestanverðu, mótaði fyrir hleðslu. Trúlegra er þó að garðar og hús hafi verið á völlunum fyrir neðan. Þar er talsvert gras og nokkrir vellir, sem hraunið hefur runnið að, en skilið þá eftir hluta þeirra á milli þess og grágrýtisholtanna austan Sléttuhlíðar. Gamla Selvogsgatan liggur þarna með hraunkantinum og yfir þessa velli, sem hugsanlega hafa einhvern tímann heitið Garðavellir, en Garðakirkja átti land þarna fyrrum, skv. sögunni.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Garðaflatir eru hins vegar nefndir í örnefnaskrám og öðrum lýsingum ofan og austan við Búrfellsgjá. Þar hefur FERLIR fundið nokkrar tóftir utan í hæð. Þær eru greinilega mjög gamlar. Þeirra er þó ekki getið í örnefnaskrá fyrir Garðabæ.
Þá hefur fundist hlaðið gerði utan í Smyrlabúðarhrauni, utan um slétta gróna kvos. Selvogsgatan gamla liggur með garðinum. Grjótið hefur greinilega verið tekið úr holtinu þar skammt frá og notað í garðinn. Hvort þar sé komið hin gamla Smyrlabúð, sem getið er um og hraunið er nefnt eftir, skal ósagt látið. Dæmi eru þó um að hraun hafi verið nefnd eftir mannvirkjum, sem í þeim hefur risið, sbr. Fjárskjólshraun.
Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar og aðrir á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjaldi og dvalið yfir nótt með það fyrir augum að komast árla til til að versla við kaupmanninn í kaupstaðnum. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé.
Þótt aðrir hafi ekki rekið augun í gerðið utan í Smyrlabúðarhrauni(og einnig tóftirnar á Garðaflötum) er ekki þar með sagt að það hafi aldrei verið til.
Frábært veður – gangan tók 1 klst og 11 mín.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.