Garðahverfi

Í Fornleifaskráningu Garðabæjar 2009 segir m.a. um Hausastaði, Katrínarkot og Selskarð:

Hausastaðir
Ekki hluti af Hafnarfirði 1367, eign Garða, DI III, 220. 1565, skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: “Gudmunde Hausastade fyrer malnytu kugillde. miöltunnu. manslán ad vertid. med jördenne eitt kugillde.” DI XIV, 427. 1703: ” … lögbýli kallað því það hefur fult fyrir svar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðadýrleiki óviss.” JÁM III, 189 Garðakirkjueign.
1703: “Túninu er hætt við að spilli sjáfargángur. Engjar öngvar. úthagar sem heima á staðnum i óskiftu landi.” JÁM III, 191.
1918: “1,8 teigar teigar og 720 m2”

Hlíð

Hausastaðir og nágrenni – Túnakort 1918.

Í skráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið í miðju túni og er þar ein bygging úr torfi og snýr nokkurnveginn í suður. Aftan við hana eru húsatóftir upp við garðvegg. Líklega er þetta Austurbærinn sem nefndur er í Örnefnaskrá 1964. Vesturbærinn fór í eyði um aldamótin 1900 en ,,Bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var”. Í Örnefnalýsingu 1976-7 er lýst nýrri vistarverum: ,,Hausastaðir eru í norðvestur frá Grjóta. Húsið stendur nokkuð hátt, og er útsýni gott frá því. Það var byggt árið 1920 á sama stað og gamli bærinn var áður. Fast norðan við íbúðarhúsið er hlaða með sambyggðu fjósi og fjárhúsi og einnig vatnsgeymi, sem regnvatni var safnað í. Vatnið úr honum rann svo í fjósið. Hlaðan var byggð um 1930.” (Bls. 10). Með gamla bænum er átt við Austurbæinn því Katrínarkot var um 1930 flutt þangað sem Vesturbærinn hafði staðið. Skv. Fasteignabókum 1932 (bls 23) og 1942-4 (bls. 81) var nýja húsið úr timbri og járnvarið.”
“Að hluta undir núverandi húsi,” segir í Fornleifaskrá RT og RKT.

Hausastaðir

Hausastaðir 2021 – loftmynd.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið í miðju Hausastaðatúni. Á jörðinni var tvíbýli og er í örnefnaskrá 1964 talað um Austurbæ og Vesturbæ: “bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var” […] Bygging sem sést á Túnakortinu mun vera Austurbærinn en Vesturbærinn var samkvæmt Örnefnalýsingu 1976-7 “tómthús”. Hann “fór í eyði um aldamótin 1900, og var húsið þá flutt til Hafnarfjarðar” en hjáleigar Katrínarkot síðar fært í vesturstæðið: “Íbúðarhúsið í Katrínarkoti stendur norðvestan hlöðunnar og fjóssins á Hausastöðum, en þangað var það flutt árið 1930. Fjós og hlaða, byggð um svipað leyti, standa fast norðvestan við húsið. […] Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.” […] Stæði Vesturbæjarins og síðar hins yngra Katrínarkots var því norðvestan gamla Austurbæjarins og núverandi íbúðarhúss.”

Garðahverfi

Hausastaðir 2020.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Auk kálgarðsins sunnan bæjarhúsanna sýnir Túnakortið 1918 ómerktan garð sem nær næstum að landamerkjagarði Hausastaða og Hausastaðakots. Ef til vill er þetta svo nefndur Húsagarður en um hann segir í B-gerð Örnefnaskrár 1964: ,,Austan við Hausastaðahúsið eru ummerki garðs, þar er sagt að staðið hafi Thorkelliisjóðsskólinn.” […] Skv. A-gerð var þessi garður sunnan bæjarins […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Hliðhallt, rétt austan við húsið, var gamall ferhyrndur garður, sem kallaður var Húsagarður. Hausastaðaskóli stóð áður í þessum garði. Nú er garður þessi nær alveg horfinn, þó má enn sjá hver stærð hans hefur verið. Þegar Ólafía [Eyjólfsdóttir á Hausastöðum] man fyrst eftir, mátti sjá hlaðna bekki þvers í garðinum.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 liggur garðurinn “rétt suður af Hausastöðum upp við og samsíða girðingu sem þarna er”. […] Þarna er greinilega verið að fjalla um sama garðinn þótt ýmist sé hann sagður sunnan eða austan við húsið en e.t.v. Er kálgarðinum sunnan megin að nokkru leyti ruglað saman við Húsagarð.”
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Meintur Húsagarður er á Túnakortinu ferhyrndur, afmarkaður með hlöðnum veggjum og hefur stefnuna austur-vestur. Austan og sunnan megin virðist vera gamalt garðlag sem ekki er haldið við.
Milli þessa garðs og kálgarðsins liggur gata yfir í átt að Hausastaðakoti. Uppistandandi garður er ferhyrndur, fallega hlaðinn úr grjóti með tveimur hleðslubrúnum og yfirgróinn. Hann er 8,75 m á lengd og 9,8 m á breidd, veggir um 1,1 m breiðir og 0,6 m háir, stefnan austur-vestur. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta taldi garðinn hafa legið kringum Hausastaðaskóla og eystri vegginn hafa verið hluta landamerkjagarðsins milli Hausastaða og Hausastaðakots.”

Garðahverfi

Hausastaðir – kort.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Nokkuð vestar og nær sjó en Hausastaðabærinn sést á Túnakorti 1918 hið gamla Katrínarkot. Bærinn er úr torfi og skiptist í sjö hólf. Hlaðnir veggir kringum garða ganga út frá framhúsunum. Í Örnefnaskrá 1964 er einnig talað um Niðurkot, e.t.v. vegna þess að býlið var niður við sjó: “Hjáleiga eða nýbýli stofnað um 1850 úr Hausastaðalandi […] í Garðahverfi vestast […] tún býlisins lá norðan og vestan Hausastaðatúns” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Þar byggðu fyrst hjón að nafni Eyjólfur og Katrín, líklega snemma á 19. öld, og dregur býlið nafn af konunni. Katrínarkoti fylgdi alltaf grasnyt. Bærinn var fluttur um 1930, þangað sem hann er nú, […] og útihúsin einnig. Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.” […]
Við Fornleifaskráningu 1984 segir að stæði gamla Katrínarkots sé “í túninu norð-vestur af núverandi Katrínarkoti niður við sjóinn” en kotið var flutt ofar “undan ágangi sjávar”. Núna er þarna lítill ávalur hóll í mjög grónu túni.”

Katrínarkot

Katrínarkot – heimtröðin.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Hliðsnesgata sem “lá frá Sjávarhliðinu vestur Skreflu yfir Oddakotsós eða um Sandeyrina út að Hliðsnesi” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Vegurinn liggur á milli Hausastaða og Katrínarkots til sjávar, en þá beygir hann til vesturs út í Hliðsnes.””

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum tún Hausastaða á alla vegu og einnig milli þess og Katrínarkots. Í Fasteignabókum árin 1932 […] og 1942-4 […] er talað um túngarð og hagagirðingu. Garðatúngarður er norðan megin en Hausastaðatúngarður sunnan megin, nefndur í Örnefnaskrá 1964: “Hann lá á Sjávarkampinum, mikill grjótgarður” […] og nefnist framhald hans Katrínarkotstúngarður. Auk þess eru þarna Hausastaðatúngerði neðri neðan Guðrúnarvallar og Högnavallar […], e.t.v. Milli Hausastaða og túnspildu frá Hausastaðakoti er sýnd vírgirðing á Túnakortinu en samsíða henni fannst við Fornleifaskráningu 1984 gamall yfirgróinn túngarður hlaðinn upp í 0,6 m hæð.”

Garðahverfi

Katrínarkotsbrunnur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum allt Katrínarkotstún en skv. Fasteignabókum 1932 […] og 1942 […] er þar túngarðar og hagagirðingar. Garðatúngarður er norðan megin og í Örnefnaskrá 1964 er Katrínarkotstúngarður sagður sunnan megin: Hann var framhald Hausastaðatúngarðs og “lá niður undir sjó, frá Sjávarhliðinu vestur undir Dal” á Skreflu ,,vestan og neðan Katrínarkotstúns” […] Á Túnakorti sést girðing við túnið vestan megin en skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var a.m.k. byggður þar garður þegar kom fram á 20. öld: “Vestan við túnið í Katrínarkoti er hlaðinn torfgarður til varnar sjávargangi frá Skógtjörn, sem liggur vestan lands Katrínarkots og Hausastaða. Sigurjón Sigurðsson hlóð þennan garð um 1930.” […] Garðurinn við Skógtjörn sést enn þá mjög skýrt.”

Hausastaðir

Hausastaðir – túngarður.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 kemur fram að Péturssteinar eru á Hausastaðagranda: ,,Þrír steinar er liggja úti á Grandanum miðsvæðis […] Péturssteinn innsti: Allstór steinn á Grandanum ausatanverður […] Pétursstein mið: Steinn þessi liggur nokkuru utar og vestar […]
Péturssteinn ysti: Steinn þessi er yztur […]” […] Grandanum og mismunandi hlutum hans er lýst nákæmlega í Örnefnalýsingu 1976-7: “Fram af miðju Hausastaðatúni gengur skerjagrandi mikill í sjó fram […] Grandi þessi kemur aðeins upp úr á fjöru […]. Kringla heitir á Grandanum næst utan Gedduóss. Þar er Grandinn hæstur, og er kringla því það fyrsta, sem upp úr kemur af honum. Þrír stórir steinar á Hausastaðagranda, út af Kringlu, heita Péturssteinar. Þeir koma upp úr næst á eftir Kringlu, og er steinninn í miðið þeirra stærstur […]” Þar eð kirkjan í Görðum var helguð heilögum Pétri hafa steinarnir e.t.v. verið kenndir við hann.” Í skráningu RT og RKT kemur fram að ekki sjáist lengur til Péturssteina.
“Á rifi fram undan Garðahverfinu eru þrír steinar sem kallaðir eru Péturssteinar með bókstöfunum S.P.S.T. áhöggnum. Þeir eru taldir merkissteinar milli prestssetursins og nágrannajarðanna árið 1677 til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni.”

Garðafjara

Husastaðir- fjaran.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Jarðabókinni 1703 segir um Hausastaði: “Heimræði er árið um kring, en lending bág og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Inntökuskip hafa hjer sjaldan verið og mega þó vera, tekur þá ábúandinn undirgift af þeim. En Selskarð, Garðastaðar kirkjujörð, brúkar hjer skipsuppsátur frá um lángan aldur og nær undir 30 ár verbúðar stöðu, sem ákomin skal vera eftir dispensation staðarhaldaranna.” […] Líklegt virðist að lendingin eða vörin við Hausastaði hafi verið fyrir enda Hausastaðasjávargötu, utan við sjávarhliðið. Skv. Örnefnaskrá 1964 voru tvær varar vestan Hausastaðagranda en frá þeim var róið fram á Vöðla, ,,grynningar framan við Skreflu langt í sjó fram” […]
Þetta voru Katrínarkotsvör og Hausastaðavör […] Sú síðarnefnda lá næst fyrir austan þá fyrrnefndu […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Hausastaðavör er vestast niður af Hausastaðatúni. í henni fengur Selskarðsmenn oft að hafa bát, en ekki var talað um séstaka Selskarðsvör. Vestast niður af Katrínarkotstúni […] var Katrínarkotsvör.” Vöðlar eru staðsettir “milli Kringlu og Oddakotsóss […] Þar eru leirur og hægt að vaða um fjörur.””

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 virðist mega sjá op eða hlið á sjógarðinum fyrir enda götu sem liggur frá Katrínarkoti eldra og er þar e.t.v. Katrínarkotsvör.
Skv. Örnefnaskrá 1964 var hún “vestust allra varanna” í Garðahverfi, “aðeins vestan við sjávarhliðið” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Vestast niður af Katrínarkotstúni, fyrir vestan Draugasker, var Kartínarkotsvör. Hún hefur ekki verið notuð lengi.”” Vettvangslýsing á minjunum fylgir ekki skráningu RT og RKT.

Aukatjörn

Aukatjörn.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 var Kaldakinn býli eða “þurrabúð frá Hausastöðum”, norðan þeirra eða “norðast í Hausastaðatúni […] niður undir Aukatjörn”. Köldukinnargerði hét “lítið gerði umhverfis þessa þurrabúð” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Köldukinn, þurrabúð frá Katrínarkoti, var norðan þess (þ.e. Katrínarkots), niður undir Skógartjörn. Tættur hennar sjást enn. Ólafíu [Eyjólfsdóttur á Hausastöðum] rámar aðeins í byggð í Köldukinn, en hún fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900.” […] Skv. Örnefnalýsingu 1958 var Högnavöllur niður undir sjó en “þar norðar […] Köldukinnarvöllur […]” Við Fornleifaskráningu 1984 er Kaldakinn sögð vera “norðaustan við Katrínarkot, neðan heimkeyrslu og kálgarðs sem þarna er, rétt við sjóinn. Austan þess er lítið steinsteypt hús, reist fyrir barnaheimili”.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Þarna er mjög grasi vaxið […] mest áberandi er veggjarbrot, um 8,5 m á lengd og 0,5 m á hæð. Brotið stefnir til sjávar en út frá því “í vesturátt virðist hafa verið ferhyrndur garður, nú fremur óljós”, um 11,5 m á breidd. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta telur líka byggðina hafa lagst af í kringum aldamótin.”

Háteigur

Háteigur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 sést steinhús með þrískiptum garði norðan Katrínarkota og Hausastaða. Þetta er nánar tiltekið rétt austan við götu í útjaðri túnsins. Hlaðnir veggir liggja kringum garðinn, milli norðurhluta hans sem er kálgarður, vestur hlutans sem er órækt og austurhlutans sem er túnblettur. Þetta gætu verið Rústirnar sem nefndar eru í Örnefnaskrá 1964: “Litlu norðar en Kaldakinn voru rústir, líklega af bæ.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Rústir eru rétt norðan vð Köldukinn, en ekki veit Ólafía, af hverju þær eru.” […] Auk ábúenda í Vesturbæ og Austurbæ Hausastaða nefna Manntöl fjölskyldur í nafnlausum hjáleigum og tómthúsum og gætu Rústirnar og aðrar slíkar sem eru nær Litlutjörn verið af einhverju þeirra.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á þessum stað eru enn þá mjög greinilegt grjóthlaðið gerði og má vel vera að ein þurrabúðin hafi verið þarna.”

Hausastaðir

Hausastaðatúngarður.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 er brunnur rétt utan Garðatúngarðs við enda Hausastaðabrunngötu og Katrínarkotsbrunngötu. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Hausastaðabrunnur: “Brunnur norðan bæjarins. Hlaðnar voru tröppur niður í hann. Vatnið spilltist af aðrennslisvatni.” […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var Hausastaðabrunnur Katrínarkotsmegin: “rétt fyrir austan (u.þ.b. 8 m) endann á Stíflisgarði, sem lá milli Skógartjarnar og syðsta hluta hennar, Litlutjarnar. “Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar sex til sjö tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927, og var þá grafinn brunnur frá Katrínarkoti. Slóðar frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefndust Brunngötur. Var ein frá hverjum bæ.” […] Brunnurinn sem var grafinn við Katrínarkot reyndist illa og var því aftur gerður brunnur á slóðum gamla Hausastaðabrunnsins: “Litlamýri er fast austan við Litlutjörn, og flæðir sjórinn upp að henni. Á seinni árum gróf Valgeir, bróðir Ólafíu [á Hausastöðum], brunn í Litlumýri, og reyndist ágætt vatn í honum.””

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá götu sem liggur norður frá bænum meðfram garði eða girðingu sem skilur milli Hausastaða og Katrínarkots. Hún endar í hliði á Garðatúngarði en þar fyrir utan er brunnur. Þettta er líklega Hausastaðabrunngata sem nefnd er í Örnefnaskrá 1964: “Brunngatan lá frá Brunninum heim til bæjar.”” Í örnefnaskrá segir: “Rétt fyrir austan (u.þ.b. 8 m) endann á Stíflisgarði, Katrínarkotsmegin, var Hausastaðabrunnur. Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar 6-7 tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927 … Slóðir frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefnust Brunngrötur. Var eins frá hverjum bæ.” Búið er að raska Brunngötunum með sléttun og vegagerð, t.a.m með Sjávargötu.

Skógtjörn

Garður/brú yfir Aukatjörn. Hausastaðir fjær.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Norðan við Köldukinn og Rústirnar, eru aðrar rústir sem gætu verið af þriðja býlinu. Þetta er á bakka Litlutjarnar við Skógtjörn. Hjábýlis- og tómthúsfólk sem nefnt er í Manntölum gæti hafa búið þarna eða þar sem nú eru Rústirnar, ein fjölskylda árið 1703 […], tvær 1801 […] og aðrar tvær 1845 […]”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Fornleifaskýrslu séra Markúsar Magnússonar árið 1820 segir: ,,Dómhringar (afmörkuð svæði þar sem dómar voru kveðnir upp). Merki sjást til eins slíks á jörð Garðakirkju, Hausastöðum, gömlum þingstað; hann er kringlóttur, um 30 faðmar að ummáli, en annars er ekkert merkilegt við hann.” Skv. Örnefnaskrá 1964 var á Hausastöðum “þingstaður fyrir Álftaneshrepp, Hausastaðaþinghá.” Hann var fluttur að Görðum eftir konungsbréfi 23. feb. 1816.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Sunnan við bæjarhúsin er á Túnakortinu kálgarður og veggir hlaðnir meðfram honum að vestan og sunnan.” Í skráningu RT og RKT kemur fram að ekki sjáist lengur til kálgarðsins.

Hausastaðir

Hausastaðir – garðar austan við bæjarstæðið.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 […] og Örnefnalýsingu 1976-7 […] stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði í austanverðu Hausastaðatúni.” Vettvangslýsing á minjunum fylgir ekki skráningu RT og RKT.
Í skýrslu RT og RKT segir: “Í manntali 1801 hafði aðalábúandinn Þorvaldur Böðvarsson auk búskapar og útgerðar umsjón með Hausastaðaskóla sem stofnaður var 1791 fyrir gjafafé Jóns Þorkelssonar Skálholtsrektors. Þorvaldur hafði 11 heimilismenn og í heimavist skólans voru 14 börn […] Skólinn var þó lagður niður árið 1812.”
Á öðrum stað segir: “Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi séstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur […] Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf…Börnin voru á lsrinum sjö til sextán ára en gert var ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur.” Nú stendur minnisvarði um skólann sem reistur var um 1980 um skólann sem stendur enn við bugðu á leið til bæjarins.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 liggur gata frá Hausastöðum milli garða, um túnið austur að Hausastaðakoti og þaðan norður að hliði í Garðatúngarði. Hlaðnir veggir eru meðfram henni báðum megin síðasta spölinn. Þetta hljóta að vera Hausastaðatraðir, Hausastaða-Norðurtraðir eða Kotatraðir en “svo voru traðirnar heim að Hausastöðum og Kotinu kallaðar” […], þær lágu “austur frá Hausastöðum […] norður í hlið á Garðatúngarði”, þ.e. Hausastaðahlið eða Kotahlið.”

Hausastaðir

Hausastaðir – Dalurinn.

[…] Bakkinn eða tanginn allvel gróinn.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 er svo veginum lýst: “Sléttur og grasi gróinn tangi liggur út í Hliðsnes á milli sjávar og Skógtjarnar. Vegurinn út í Hliðsnes liggur eftir honum. Tangi þessi heitir Skrefla. Næst túninu, norðan við Skreflu, er lægð, sem heitir Dalur.
[…] Óshólmar ganga út í Skógtjörn, út frá vesturenda Skreflu, grasi gróið land og bleytusandur á milli. Þeir fara í kaf á flóði. Vestan við Óshólma var Ósinn. Um hann féll áður sjór á milli Hliðsness og Skreflu. Var þá eingöngu hægt að fara út í Hliðsnes á báti eða um fjöru. Ósinn var einnig nefndur Oddakotsós eftir býli, sem stóð rétt fyrir vestan hann, austast á Hliðsnesi. Nú hefur verið fyllt upp í Ósinn og því bílfært út í Hliðsnes, sem áður var eyja. Í Skógtjörn, fyrir vestan Ósinn, er Sandeyri. Hún stóð lengi vel nokkuð upp úr, og var hægt að fara hana út í Hliðsnes, þótt nokkuð væri fallið í Ósinn. Austan við veginn, þar sem hann liggur niður að sjónum, suðvestur af Hausastaðahúsi, er tún Hausastaða. Það nær einnig alveg út að vegi til norðausturs.” […]  Núverandi vegur hefur trúlega verið lagður ofan á gömlu götuna.”

Katrínarkot

Katrínarkot.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er nefnt Arndísarkot: “Kot þetta stóð á Skreflu. Sér enn rústirnar […] Þurrabúð […] Þar bjó Arndís. […] Dalur: Vestan og neðan Katrínarkotstúns var lægð, í hana féll sjór úr Skógtjörn. Lægðin nefndist Dalur.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Sléttur og grasigróinn tangi liggur út í Hliðsnes á milli sjávar og Skógartjarnar. Vegurinn úr í Hliðsnes liggur eftir honum. Tangi þessi heitir Skrefla. Næst túninu, norðan við Skreflu, er lægð, sem heitir Dalur. Á flóði fellur sjórinn (úr Skógartjörn) inn í hann. Þó er Dalurinn gróinn. Tóftarbrot er nálægt miðjum dalnum. Þar var eitt sinn tómthús, nefnt Arndísarkot.” Áður var Dalurinn minni og tilheyrði Arndísarkot þá Skreflu.” […] Tóftirnar eru enn sýnilegar.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í landi Hausastaða austan bæjanna, nokkru utan Garðatúngarð, er útihúsatóft, nánar tiltekið staðsett í vegkrikanum rétt norðan heimreiðarinnar að húsinu Brautarholti.”

Hnausastaðakot

Hausastaðakot

Hausastaðakot – loftmynd.

Garðakirkjueign. 1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði ” … hjáleiga í óskiftu Garðastaðar landi, og segja menn hún hafi til forna legið til Hausastaða og verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslá og mjeltunnu, sem hvoritveggja var áður skilið í landskuld auk þeirra sem nú er.” JÁM III, 189.
1918: “Tún 1 teigur og 1160 m2 kálgarðar.”

Garðahverfi
Í Fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Túnakortið 1918 virðist sýna tvö bæjarstæði með húsaþyrpingum í Hausastaðakotstúni og er hið suðaustara merkt Hausastaðakot. Miðað við aðrar heimildir og upplýsingar heimamanna er þetta þó villa: húsin sem eru norðvestar nær Hausastöðum, hafa tilheyrt Hausastaðakoti, en í hinu stæðinu var þurrabúðin Grjóti. Í norðvestara stæðinu eru tvær byggingar og kálgarðar. Nyrðra húsið er úr torfi, skiptist í þrennt og er líklegra kotið en skv. Örnefnaskrá 1964 var það hjáleiga eða þurrabúð frá Hausastöðum (A161). Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Grjóti […] er norðaustur af Hlíð. […] Býlinu fylgir land Hausastaðakots, en það stóð mitt á milli Grjóta og Hausastaða.” (Bls.9).
Þetta kemur saman við Fornleifaskráningu 1984 þar sem segir að kotið sé ,,í hánorður frá núverandi Grjóta og í vestur frá Brautarholti, sem er nýtt hús. Mitt á milli Grjóta og Hausastaða.” Þarna er sléttlent og þar sem bærinn stóð er nú kálgarður “girtur á háhólnum”.
Í Fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Bæjarstæðið hefur verið jafnað út og eru lítil merki um húsaskipan. Grjót úr veggjum er þó sjáanlegt og virðast húsin hafa staðið í röð og snúið göflum í vestur út á sjó. “Komið mun hafa verið fyrst austan. Aftan við norðurenda húsalengjunnar var hlaða sem vísar hornrétt á framhúsin, eða í N (10°) – greinilega yfirgróin, grjóthlaðin tóft. Lengd líkl. 4.1 og breidd 2.1.””

Garðahverfi

Hausastaðakotsbrunnur.

Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Brunnhola, nálægt einum metra á dýpt, u.þ.b. 20 m suðaustur af Hnausastaðakotsbæ, var nefnd Hausastaðakotsbrunur.” (Bls. 9). Skv. Fornleifaskráningu 1984 er brunnurinn í sléttu mólendi “rétt suðaustan við kálgarðshleðslu bæjarins”.”
Í Fornleifaskráningu RT og RKT 2003 segir: “Brúnir hans sjást ekki en fyllt hefur verið upp í hann með smágrjóti sem myndar hring og er þvermálið um 1,20 m.”

Selskarð

Selskarð

Selskarð – Túnakort 1918.

Jarðardýrl. óviss 1703. Garðakirkjueign. Fyrst getið 1367, þá meðal jarða Garðakirkju – DI III, 220, sbr. 1397 – DI IV, 107. 1565, skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: “Asbirne Selskard fyrer iij. vætter fiska. áskilinn kyrfödurs vallar slattur. med jordunne ij kugillde.” DI XIV, 437. 1703 var einn ábúandi, landskuld 60 álnir, 1 leigukúgildi – JÁM III, 221.
Túnið er á norðurhlið eiðisins milli Garða og Álftaness. Það er náttúrulega slétt valllendi og hefur sennilega ekki verið jafnað mikið með vélum. Austantil tekur við mýri en sjórinn brýtur af norðanmegin.
Sunnan og vestan við eru flagmóar. Álftanesvegur liggur eftir endilöngu túninu. Túnið er varið af sjávarnargarði norðanmegin vestast en sunnan með því er einnig hleðsla, varla meir en girðingarundirstaða, og skurður utanmeð henni.

Selskarð

Selskarð – húsgrunnur.

“Jörðin Selskarð er á milli Lambhústjarnar og Skógatjarnar. Hún er nú komin í eyði fyrir nokkrum árum. Gamalt íbúðarhús stendur norðan við veginn út á Álftanes. Á sama stað stóð gamli bærinn áður.” segir í örnefnalýsingu. Húsið er nú horfið en eftir er allhár hóll fast norðan við núverandi Álftanesveg þar sem eiðið milli Álftaness og lands er mjóst.
Í túni (nú hrosshagi) á eiði og eru um 100 m til sjávarmáls í Lambhústjörn að norðan en um 300 m að sunnan. Þjóðvegur liggur upp að hólnum að sunnan og er mögulega á honum að hluta.
Syðsti hluti steyptra undirstaða síðasta íbúðarhússins sést enn, um 10 m frá veginum. Nyrðri og meiri hluti grunnsins er hinsvegar horfin því gríðarmikil hola, um 25×20 m að stærð, hefur verið grafin ofan í bæjarhólinn. Hún er 2-3 m djúp og hafa rofin úr henni verið sett á barmana að austan og vestan. Er hóllinn af því mjög hár að norðvestan. Hliðar holunnar eru grónar en sjá má að hleðslugrjót hefur oltið úr sárinu.
Bærinn hefur staðið á náttúrulegri upphækkun en mannvistarlög eru varla undir 1 m á þykkt. Sunnan og vestan við bæinn hefur verið allstór kálgarður og er hlaðinn garður meðfram honum. Hleðslustubbur sést gegnt húsgrunninum fast við veginn og síðan kantur meðfram veginum en að norðvestan er hleðslan skýr og allt að 0,8 m há.

Selskarð

Selskarð – brunnur.

Um 150 m austur af bæjarhólnum í Selskarði er útihústóft, um 20 m sunnan við sjóvarnargarð og fast vestan við litla hestarétt úr tré.
Í túnjaðri – nú hestagirðing. Austan og norðan við er talsvert rask og síðan blautur flagmór.
Tóftin er illa hlaðin úr mjög stóru og mjög litlu grjóti. Torf, eða í það minnsta grasrót, er utan á veggjunum en steypuleifar eru ofaná á nokkrum stöðum. Hleðslurnar eru að miklu leyti hrundar inn í tóftina, einkum austur-gafl. Timburþil hefur verið á vesturgafli. Mikið rusl er í tóftinni. Samkvæmt túnakorti var þetta kálgarður.

Selskarð

Selskarð – gerði.

Fyrir botni Lambhústjarnar er lágur sjóvarnargarður, sem einnig er túngarður Selskarðs vestast.
Garðurinn er lítilfjörlegur austast, varla meir en girðingarundirstaða en á móts við Selskarð gildnar hann og standa þar 2-3 umför uppúr. Garðurinn er byggður ofanvið sjávarmál og fylgir bakkanum með hvössum hornum. Á köflum eru nokkrir metrar milli garðs og sjávarbakka en annarsstaðar er garðurinn fast á bakkanum.

Heimild:
-Fornleifaskráning Garðabæjar  2009.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.