Garðahraun

Gengið var um Garðahraun. Við fyrstu sýn virðist hraunið erfitt yfirferðar, en ef rétt er farið er hvergi auðfarnara utan gangstétta Garðabæjar.
MálverkÞegar gengið er inn á hina fornu leið Fógetastíg að austanverðu inn á hraunbrúnina og henni fylgt spölkorn inn á slétt hraunið er tilvalið að venda til hægri, áleiðis að klettaborgum innan seilingar. Ofan við þær eru leifar af lítilli fjárborg (ævagamalli) og fyrirhleðslum. Augljóst er að þarna hefur verið setið yfir fé fyrrum. Hraunbollar eru grösugir og víða má sjá gróin vörðubrot, garðleifar og lítil skjól. Hið 8000 ára gamla hraun ber aldurinn vel. Í tilefni hans var boðið upp á allt sem alvöru gömul hraun geta boðið upp á; grónar sprungur, háa klapparkolla, innfelldar hraunæðar og alls kyns kynjamyndir. Á þessu svæði eru mannvistarleifar á grónum hól ofan við Eskines (sjá meira HÉR). Utar er hleðsla í sprungu, líklegt aðhald eða nátthagi. Þegar gengið var upp (suðvestur) hraunið birtust fleiri kynjamyndir og hraunstandar. Enn ofar sléttist hraunið og auðvelt er að fylgja yfirborðinu til suðurs. Á hægri hönd er svo “ógurlegt” Gálgahraunið. Á stöndum þess stóðu gráðugar veiðibjöllur og biðu eftir bráð vorsins, eggjum mófuglanna.

Fyrirmynd

Garðahraunið er ótrúlega fljótfarið enda á millum. Fyrirvaralaust komust tvífætlingarnir upp undir suðurbrún þess, að svonefndu “Kjarvalskletti” eftir að hafa lagt lykkju á leiðina til að komast niður í eina myndarlegustu klettagjána. Hvarvetna á leiðinni mátti sjá hvar fyrirmyndirnar að verkum meistarans biðu léreftsáfestingar. En líftími mannsins er bara svo skammur þegar horft er til líftíma hraunsins – nema maðurinn breyti því til hins verra. Það er nefnilega svo auðvelt og það tekur svo skamman tíma að skemma viðvarandi fegurð ef ekki er að gætt. Stundarskemmarverk (sbr. stundarbrjálæði) getur svipt komandi kynslóðir ánægjunni af fá að njóta fyrrum dásemda. Þær sá meistari Kjarval í hrauninu og þær sjá allir aðrir er hafa næmt auga fyrir fegurð landsins. Auðvitað getur sú skynjun tapast í ölduróti annarra hagsmuna, s.s. kröfu til aukinna lífsgæða og þörf á landrými undir íbúðir og vegi.

Móslóði

Ætlunin var m.a. að skoða eina af fyrirmyndum Kjarvals. Með afrit af málverki við hendina fannst staðurinn. Umhverfis voru miklar klettaborgir, en fyrirmyndin virtist léttvæg þar sem hún var þarna í hinu tilkomumikla landslagi. En af einhverri ástæðu valdi Kjarval þennan stað, enda hafði hann næmt auga fyrir myndefninu.
Austan við þennan stað og vestan við annan stað, sem hann málaði einnig á, liggur gata; Móslóði.
KjarvalÍ örnefnalýsingu segir að eftir 
honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. Slóðanum var fylgt til norðurs. Áður en langt var komið varð gróin varða á leiðinni. Frá henni lá gatan áleiðis yfir slétt gróið hraunið og síðan undan halla þess, áleiðis niður að uppruna Fógetastígs (þar sem hann kemur inn á Garðahraunið). Gatan er vel greinileg alla leiðina, allt þar til hún mætir Fógetastíg. Þar er mosavaxin varða er gefur til kynna hvar gatnamótin eru.
Frábært veður. Gangan um Garðahraunið tók 2 klst og 2 mín.

Garðahraun

Litir eftir Kjarval í Garðahrauni skammt frá Móslóða.