Á upplýsingaskilti við Bala (Garðabæjarmmegin) í Hafnarfjarðarhrauni má lesa eftirfarandi um Búrfellshraun:
“Við stöndum á jaðri Búrfellshrauns sem stur sterkan svip á ásýnd Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Hér nefnist hraunið Klettar en norðan á nesinu nefnist sama hraun Gálgahraun þar sem það nær í sjó fram. Héðan eru 9 km í beinni loftlínu í gíginn Búrfell þar sem hraunið á upptök sín.
Náttúrulegt vinasamband
Með þessu skilti innsigla Hafnarfjörður og Garðbær yfir náttúrulegu vinasambandi.
Markmið friðlýsingar er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hrauumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri.
Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og þar er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Það er ósk bæjamma að þessi staður, Bali, sé táknrænn fyrir sambandið og að almenningur geti komið hér og notið náttúru og friðsældar.
Aldur
Búrfellshraun rann frá Búrfelli í sjó fram fyrir um 8000 árum yfir gömul hraun og berggrunn svæðisins. Búrfell er stakur gígur á miklu sprungu- og misgengissvæði sem teygir sig frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Búrfellsgígurinn er það eldvarp sem næst er höfuðborgarsvæðinu, af þeirri gerð sem nefnist eldborg.
Hrauntraðir
Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð þegar hrauná rann úr gígnum í lengri tíma og myndaði hraunfarvegi. Þekktastar eru Búrfellsgjá og Selgjá, en Búrfellsgjá á sér fáa sína líka. kringlóttagjá er all sérstæð og hefur orðið til í lokahrinu gossins. Hraunelfan rann meðfram Vífilsstaðahlíð og þar myndaðist Selgjá í tröð og rásum undir storknuðu yfirborðinu. Neðan við Selgjá undir Vífilsstaðahlíð rann hraunáin bæði á yfirborðinu og í rásum undir storknuðu yfirborðinu.
Hellar
Í Búrfellshrauni eru fjölmargir skútar og hraunhellar, þeir þekktustu Maríuhellar. Flestir hellarnir við Vífilsstaðahlíð eru svokallaðir hraunrásarhellar, sem mynduðust þegar kvikan barst ekki lengur til hraunrásarinnar, en rennsli úr henni hélt áfram þar sem landhalli var nægur. Þannig tæmdist hraunrásin og hellar mynduðust. Iðulega hefur þakið á hraunrásinni veriðs vo þunnt að víða hefur það fallið niður í hrauntröðina. Því er erfitt að segja hvar einn hellir endar og annar byrjar.
Jökulmenjar
Jökulruðningur sem ísaldarjökullinn skildi eftir þegar hann hopaði fyrir um tíu þúsund árum hylur víða holt og hæðir. Af jökulrákuðum klöppum má sjá síðasta skrið jökulsins á svæðinu. Ummerki hæstu sjávarstöðu í lok ísaldar eru í um 40 metra hæð yfir sjó hér í næsta nágrenni. Sjór hefur því náð í skarðið á milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í lok ísaldar.
Glögg ummerki eftir ísaldarjökulinn má finna víða í nágrenninu, s.s. á Hamrinum í Hafnarfirði, á holtunum ofan Garðabæjar og á hryggjarhæðum Kópavogs,s.s. Borgarholti og Víghólum.
Sprungur og misgengi
Við Selgjá má víða sjá sprungur og misgengi sem hafa verið virk eftir að Búrfellshraun rann. Þar skera Hjallamisgengið og nokkur minni misgengi hraunið þvert og hefur land sigið austan þeirra um u.þ.b. 12 m síðan hraunið rann. Vatnsgjá er sprunga sem opin er niður í grunnvatnsborð, svo í botni hennar er ágætt neysluvatn. Sömu aðstæður má sjá við misgengið í Helgadal og í Kaldárbotnum. Gleggstu misgengin á Reykjanesskagnum eru í Voga- og Strandarheiðinni.
Hin mörgu heiti Búrfellshrauns
Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli nefnist einu nafni Búrfellshraun, en hefur fjölmörg sérnöfn svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.
Athyglisverðir staðir
Eldstöðin Búrfell, Búrfellsgjá með Gjáarrétt og Vatnsgjá, hrauntröðin Selgjá þar sem fundist hafa 11 seljasamsæður, Maríuhellar sem eru fyrrum fjárhellar, hrauntanginn út í Urriðavatn og Gálgahraun með Gálgakletti og Fógetagötu.”
Við Maríuhella er jafnframt upplýsingaskilti um Búrfellshraun og hellana. Þar stendur:
Maríuhellar
“Maríuhellar er samheiti á þremur hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru áður fyrr notaðir sem fjárhellar en víða í Búrfellshrauni er að finna hella og skúta sem voru fjárskjól. Fjárhellar eru fornleifar og friðaðir samkvæmt þjóðminjalögum. Maríuhellar eru líklega kenndir við Maríu guðsmóður. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um “fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellar”. Ef til vill er talið gæfulegt fyrir féð að kenna fjárhella við hana.
Draugahellir
Draugahellir er vestastur Maríuhella, um 65-70 m langur inn í botn en mjög lágur innst. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr hrundu loftinu.
Urriðakotshellir
Urriðakotshellir er sá hellir sem mest ber á, opin hraunrás í miklu jarðfalli, 24 m á lengt. Gengið er ofan í hann að vestanverðu og niður nálega 20 m langa rás uns komið er í grasi gróið jarðfall. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í sal og er gat í háu loftinu þar sem sér til himins. Fremst í hellismunnanum eru hleðslur og gólfin bera merki þess að þarna var fé geymt. Í jarðfallinu fyrir framan skútann mótar fyrir hleðslum. Virðist hafa verið hús þar og ef til vill kví.
Margir hafa tengt rás í austurhluta jarðfallsins við Vífilsstaðahelli, en það er misskilningur.
Vífilsstaðahellir
Vífilsstaðahellir er nyrstur Maríuhella, skammt norðan Urriðakotshelli. Hann er í hraunkatli, kanturinn liggur norðvestur og austur og er 19 m langur. Hægt er að ganga beint inn í hann til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og rásveggnum hins vegar. Á gólfinu í hellinum sést að hann hefur verið notaður sem fjárskjól. Hleðslur eru ekki greinilegar við opið en þar hefur orðið nokkurt hrun á seinni tímum. Framan við opið er grasgróður, ólíkt því sem gerist umhverfis. Gróðurinn gefur skýra vísbendingu um nýtinguna.
Jónshellar
Jónshellar eru þrír skútar og ekki hluti af maríuhellum. Þá er að finna rétt norðan við Draugahelli. Einn skútinn er sýnu mestur, um 50 m langur, og annar hefur greinilega verið fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum en fyrir innan er slétt moldargólf.
Fleiri hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Þeir sem eru mektir á kortinu eru Ketshellir (22 m), Kershellir (34m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43m), Sauðahellir nyrðri (32m), Skátahellir syðri (237m), Skátahellir nyrðri (127 m), Selgjárhellir syðri (8 m), Selgjárhellir eystri (11 m) og Sauðahellir (12).
Fyrir utan kortið (hér að ofan) má m.a. finna Hundraðmetrahellir (Fosshelli) (102m ), Níutíumetrahellir (93 m), Rauðshelli (65m), Hraunsholtshelli (23 m) og Vatnshelli (23 m).”