Færslur

Búrfellshraun

Á upplýsingaskilti við Bala (Garðabæjarmmegin) í Hafnarfjarðarhrauni má lesa eftirfarandi um Búrfellshraun:

“Við stöndum á jaðri Búrfellshrauns sem stur sterkan svip á ásýnd Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Hér nefnist hraunið Klettar en norðan á nesinu nefnist sama hraun Gálgahraun þar sem það nær í sjó fram. Héðan eru 9 km í beinni loftlínu í gíginn Búrfell þar sem hraunið á upptök sín.

Náttúrulegt vinasamband
BúrfellshraunMeð þessu skilti innsigla Hafnarfjörður og Garðbær yfir náttúrulegu vinasambandi.
Markmið friðlýsingar er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hrauumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri.
Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og þar er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Það er ósk bæjamma að þessi staður, Bali, sé táknrænn fyrir sambandið og að almenningur geti komið hér og notið náttúru og friðsældar.

Aldur

Búrfell

Búrfell.

Búrfellshraun rann frá Búrfelli í sjó fram fyrir um 8000 árum yfir gömul hraun og berggrunn svæðisins. Búrfell er stakur gígur á miklu sprungu- og misgengissvæði sem teygir sig frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Búrfellsgígurinn er það eldvarp sem næst er höfuðborgarsvæðinu, af þeirri gerð sem nefnist eldborg.

Hrauntraðir

Búrfellshraun

Á þessu korti má sjá hversu víðfeðmt Búrfellshraunið er eða um 16 ferkílómetrar. Einng sést hvernig það hefur greinst í tvær meginkvíslar sem svo hafa sameinast og runnið í sjó fram, bæði í Skerjafjörð og Hafnarfjörð.

Búrfellsgjá

Skýringar með korti hér að ofan.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð þegar hrauná rann úr gígnum í lengri tíma og myndaði hraunfarvegi. Þekktastar eru Búrfellsgjá og Selgjá, en Búrfellsgjá á sér fáa sína líka. kringlóttagjá er all sérstæð og hefur orðið til í lokahrinu gossins. Hraunelfan rann meðfram Vífilsstaðahlíð og þar myndaðist Selgjá í tröð og rásum undir storknuðu yfirborðinu. Neðan við Selgjá undir Vífilsstaðahlíð rann hraunáin bæði á yfirborðinu og í rásum undir storknuðu yfirborðinu.

Hellar

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir – fjárhellir.

Í Búrfellshrauni eru fjölmargir skútar og hraunhellar, þeir þekktustu Maríuhellar. Flestir hellarnir við Vífilsstaðahlíð eru svokallaðir hraunrásarhellar, sem mynduðust þegar kvikan barst ekki lengur til hraunrásarinnar, en rennsli úr henni hélt áfram þar sem landhalli var nægur. Þannig tæmdist hraunrásin og hellar mynduðust. Iðulega hefur þakið á hraunrásinni veriðs vo þunnt að víða hefur það fallið niður í hrauntröðina. Því er erfitt að segja hvar einn hellir endar og annar byrjar.

Jökulmenjar

Jökurispur

Jökulrispur í Heiðmörk.

Jökulruðningur sem ísaldarjökullinn skildi eftir þegar hann hopaði fyrir um tíu þúsund árum hylur víða holt og hæðir. Af jökulrákuðum klöppum má sjá síðasta skrið jökulsins á svæðinu. Ummerki hæstu sjávarstöðu í lok ísaldar eru í um 40 metra hæð yfir sjó hér í næsta nágrenni. Sjór hefur því náð í skarðið á milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í lok ísaldar.
Glögg ummerki eftir ísaldarjökulinn má finna víða í nágrenninu, s.s. á Hamrinum í Hafnarfirði, á holtunum ofan Garðabæjar og á hryggjarhæðum Kópavogs,s.s. Borgarholti og Víghólum.

Sprungur og misgengi

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Við Selgjá má víða sjá sprungur og misgengi sem hafa verið virk eftir að Búrfellshraun rann. Þar skera Hjallamisgengið og nokkur minni misgengi hraunið þvert og hefur land sigið austan þeirra um u.þ.b. 12 m síðan hraunið rann. Vatnsgjá er sprunga sem opin er niður í grunnvatnsborð, svo í botni hennar er ágætt neysluvatn. Sömu aðstæður má sjá við misgengið í Helgadal og í Kaldárbotnum.  Gleggstu misgengin á Reykjanesskagnum eru í Voga- og Strandarheiðinni.

Hin mörgu heiti Búrfellshrauns

Búrfellshraun

Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.

Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli nefnist einu nafni Búrfellshraun, en hefur fjölmörg sérnöfn svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Athyglisverðir staðir
Eldstöðin Búrfell, Búrfellsgjá með Gjáarrétt og Vatnsgjá, hrauntröðin Selgjá þar sem fundist hafa 11 seljasamsæður, Maríuhellar sem eru fyrrum fjárhellar, hrauntanginn út í Urriðavatn og Gálgahraun með Gálgakletti og Fógetagötu.”

Við Maríuhella er jafnframt upplýsingaskilti um Búrfellshraun og hellana. Þar stendur:

Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

“Maríuhellar er samheiti á þremur hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru áður fyrr notaðir sem fjárhellar en víða í Búrfellshrauni er að finna hella og skúta sem voru fjárskjól. Fjárhellar eru fornleifar og friðaðir samkvæmt þjóðminjalögum. Maríuhellar eru líklega kenndir við Maríu guðsmóður. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um “fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellar”. Ef til vill er talið gæfulegt fyrir féð að kenna fjárhella við hana.

Draugahellir
Draugahellir er vestastur Maríuhella, um 65-70 m langur inn í botn en mjög lágur innst. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr hrundu loftinu.

Urriðakotshellir

Maríhellar

Urriðakotshellir – fjárhellir.

Urriðakotshellir er sá hellir sem mest ber á, opin hraunrás í miklu jarðfalli, 24 m á lengt. Gengið er ofan í hann að vestanverðu og niður nálega 20 m langa rás uns komið er í grasi gróið jarðfall. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í sal og er gat í háu loftinu þar sem sér til himins. Fremst í hellismunnanum eru hleðslur og gólfin bera merki þess að þarna var fé geymt. Í jarðfallinu fyrir framan skútann mótar fyrir hleðslum. Virðist hafa verið hús þar og ef til vill kví.
Margir hafa tengt rás í austurhluta jarðfallsins við Vífilsstaðahelli, en það er misskilningur.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir.

Vífilsstaðahellir er nyrstur Maríuhella, skammt norðan Urriðakotshelli. Hann er í hraunkatli, kanturinn liggur norðvestur og austur og er 19 m langur. Hægt er að ganga beint inn í hann til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og rásveggnum hins vegar. Á gólfinu í hellinum sést að hann hefur verið notaður sem fjárskjól. Hleðslur eru ekki greinilegar við opið en þar hefur orðið nokkurt hrun á seinni tímum. Framan við opið er grasgróður, ólíkt því sem gerist umhverfis. Gróðurinn gefur skýra vísbendingu um nýtinguna.

Jónshellar

Jónshellar

Í Jónshellum.

Jónshellar eru þrír skútar og ekki hluti af maríuhellum. Þá er að finna rétt norðan við Draugahelli. Einn skútinn er sýnu mestur, um 50 m langur, og annar hefur greinilega verið fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum en fyrir innan er slétt moldargólf.

Fleiri hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Þeir sem eru mektir á kortinu eru Ketshellir (22 m), Kershellir (34m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43m), Sauðahellir nyrðri (32m), Skátahellir syðri (237m), Skátahellir nyrðri (127 m), Selgjárhellir syðri (8 m), Selgjárhellir eystri (11 m) og Sauðahellir (12).

Fyrir utan kortið (hér að ofan) má m.a. finna Hundraðmetrahellir (Fosshelli) (102m ), Níutíumetrahellir (93 m), Rauðshelli (65m), Hraunsholtshelli (23 m) og Vatnshelli (23 m).”

Búrfellshraun

Búrfellshraun – loftmynd (FERLIR).

Garðahraun

Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata “frá Garðahliði norður holtið hjá Prestahól í Stekkinn“, þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, “klapparhóll litlu norðar en Prestahóll, rétt við Garðagötu”. Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Í Örnefnalýsingu 1958 er Garðastekkur sagður vera norðaustan Presthóls, “niður við hraun“. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hann “í hraunbrún Gálgahrauns miðs vegar milli Garðaholtsenda og Lambhúsatjarnar […] spölkorn niður frá vegamótum. Þar eru hleðslur og tættur gamla stekksins.” Við hann eru kennd Garðastekkatún “grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […] Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.”

Garðastekkur- fjárborg

Fjárborg ofan við Garðastekk.

Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið.
Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.”

Garðastekkur

Garðastekkur – tóft.

Kristján Eldjárn skoðaði svo minjarnar og lýsti þeim árið 1978: “Beint austur af [Presthól], við jaðar Gálgahrauns, heitir Stekkur og er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti. Vafalítið mun hafa verið þarna stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis. Talsverðar minjar er enn að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul. Mætti ef til vill segja að réttin sé almenningur og þrír dilkar. Hún er um 20 x 6 m og hlaðin upp að hraunbrúninni. Auðséð er að réttin hefur verið byggð á einhverjum rústum sem mótar fyrir inni í almenningnum og í krika milli norðurveggjar hennar og dilkveggjar þar. En rétt fyrir norðan réttina er grasivaxin tóft, um 10 m löng og 4-5 m breið. Ekki er skynsamlegt að fullyrða hvað þetta er, en sennilega eru öll þessi gömlu ummerki á einhvern hátt tengd stekkjarlífinu. Mikill graslubbi torveldar að gera sér grein fyrir rústunum. Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt. Heim að Görðum er hæfilegur stekkjarvegur og staðurinn er upplagður sem stekkjarstæði.”

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Kristján rissaði upp réttina, hugsanlegar stekkjarleifar og tóft en suðurveggur hennar liggur nokkurn veginn samhliða norðurvegg réttarinnar. Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta um 350 m í norðaustur frá Bessastaðavegi. “Þarna er ræktað tún sunnan undir hraunbrúninni, tveir túnbleðlar, og rústirnar þar upp við hraunið. Í vestsuðvestur sést lítill grýttur hóll. Um 10 m eru milli réttarinnar og tóftarinnar en hún er í vestari túnblettinum. Tóftin er skýr þótt hún sé grasi vaxin en lögunin ógreinileg. Hún mælist 10,1 m á lengd og 5,2 á breidd, veggirnir um 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Skrásetjari giskar á að þarna hafi verið fjárkofi. Aftur fór svo fram Fornleifakönnun 1999 og segir þá að í krikanum sem myndast vestan við réttina sé “grasi gróin tóft, 10 x 4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.” Tóftin hefur stefnuna norðvestur-suðaustur.

Fógetastígur

Fógetastígur í Garðahrauni.

Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. Þarna hefur hrafn orpið annað slagið. Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u. þ. b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.” Eftir að hafa sagt frá stekknum segir Kristján Eldjárn 1978 að “þarna í stekkjarstæðinu séu enn “talsverðar minjar […] að sjá, og mun þó það sem mest ber á ekki vera tengt stekknum, heldur er það sýnilega rétt, hlaðin úr hraunsteinum og virðist varla geta verið mjög gömul.”

Garðastekkur

Garðastekkur (Garðarétt).

Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta “vel hlaðin rétt, skiptist í 4 megin hólf – 1 “safn” og 3 hólf […] hlaðin úr hvössu grjótinu úr Gálgahrauninu. Veggir eru 0,3-1 m á breidd og 0,5-1 m á hæð. Við Fornleifakönnun 1999 segir svo: “Grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. […] Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19 x 6 m og er aðeins gengt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnan við. Þau eru bæði um 5 x 5 m með dyr á suðurvegg.”

Garðahraun

Götur í og við Garðahraun. ÓSÁ

Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Garðastekkatún “grónar flatir út frá hrauninu kringum stekkinn […]. Þar var seinna girt af land til ræktunar og nytjað frá Görðum.” Um það segir Kristján Eldjárn árið 1978: “[…] er þar nú að sjá allstórt ræktað tún, sem nytjað er frá Katrínarkoti […] stekkjarstæði frá Görðum og nokkur tún umhverfis. […] Grjótgarður hefur verið kringum allstórt stekkjartún og sér nú víða undirstöður hans en þó ekki allt í kring. Mann grunar að grjót hafi verið tekið úr þessum garði þegar réttin var hlaðin. Ætla má að stekkjartúnið hafi verið allt að 80 x 100 m, en ekki er þetta nákvæmt.” Við Fornleifakönnun 1991 segir: “Stekkjartún hefur verið í kringum stekkinn og hefur það verið ræktað upp og er enn notað. Norðan við stekkjartúnið eru kálgarðar frá þessari öld […] Fjær eru stórgrýttir flagmóar.”

Mægnadys

Mæðgnadys við Garðagötu.

Í Minnispunktum úr skoðunarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: “Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir. Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur.

Garðastekkur

Garðastekkur – fjárborg.

Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað  þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.”
Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera “á hrauntá í jaðri Gálgahrauns” – um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaðaveg. Rústin er mjög skýr, “hringlaga eða réttur hringur að utanmáli”, um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið”.

Sjá meira um Fógetastíg og Garðahraun.

Heimildir:
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum.
-Orri Vésteinsson: 1999, Fornleifakönnun. Álftanesvegur milli Engidals og Selskarðs. Fornleifastofnun Íslands FS087-99081. Rvk.
-Ari Gíslason: 1958, Örnefnalýsing Garðahverfis.
-Kristján Eiríksson: 1976-7, Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna.
-Kristján Eldjárn: Garðar, Garðahreppi, Gullbringusýslu. Minnispunktar úr skoðunarferð, dags. 20. sept. 1978.
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: “1300-80”. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Gálgaklettar

Gengið var vestur eftir Fógetastíg (Álftanesgötu) og þvert yfir Garðahraun.

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Gatan er greinileg í gegnum hraunið. Við hana eru gömul vörðubrot á nokkrum stöðum. Á a.m.k. tveimur stöðum eru grashólar er gætu þess vegna verið gamlar dysjar eða önnur ummerki. Þegar stígnum er fylgt er komið út úr hrauninu við Hrauntunguflöt. Hrauntunga er sá tangi, sem skagar lengst til vesturs út úr hrauninu að vestanverðu. Þó, skammt áður en komið er komið út úr hrauninu, rétt sunnan vörðubrots, liggur stígur til vinstri. Það er Garðagata. Hún liggur síðan áfram til vesturs upp norðanvert Garðaholt þar sem hún fer m.a. í gegnum skotgrafir og skotbyrgi áður en komið er upp á háholtið.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.

Beygt var út af Fógetastíg sunnan Garðagötu. Þaðan liggur stígur að Garðastekk. Áður en komið var að stekknum var staldrað við og skoðuð, að því er virðist, allstór fjárborg uppi á hraunkantinum ofan við stekkinn. Borgin er greinilega mjög gömul. Þarna gætu einnig verið um að ræða leifar af húsi eða byrgi ofan við stekkinn. Stekkurinn undir vesturhraunbrúninni er allstór og gæti þess vegna hafa verið breytt í rétt undir það síðasta. Norðan stekksins, inni í stekkjargerðinu, er greinilega gömul tótt og vinkillaga garður norðan hennar. Ekki er vitað hvað sú tótt gæti hafa verið því hvorki er minnst á hana né fjárborgina í örnafnaskrám.

Garðahverfi

Presthóll.

Gengið var áfram til vesturs áleiðis upp á Garðaholt. Við gatnamót Álftanesvegar og Garðaholtsvegar er stór hóll – Presthóll eða Prestahóll. Utan í honum er miklar skotgrafir og hlaðið smáhús.

Haldið var áfram til suðurs og upp á hæð, sem í seinni tíð hefur verið nefnd Völvuleiði. Á henni er Mæðgnadys skv. örnafnalýsingu. Utan í henni er skotgröf, sem og víðar í holtinu.

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Áfram var haldið til vesturs og þá komið að hinu eiginlega Völvuleiði skv. lýsingu Ágústar frá Miðengi. Það er við hinn gamla Kirkjustíg, sem lá þarna frá Engidal að Garðakirkju. Gömul sögn segir að valva hafi orðið þar úti og verið dysjuð við stíginn.
Eftir stutt staldur við Garðaholt var guðað á glugga á Króki, gömlu uppgerðu húsi skammt neðan við veginn. Það mun nú vera í eigu Garðabæjar og er látið halda sér að innan eins og það var yfirgefið á sínum tíma. Gengið var niður með Austurtúnsgarði Garða og niður fyrir kirkjugarðinn, eftir Lindargötu og að Garðalind. Lindin er undir stórum steini og liggur hlaðinn stokkur niður frá henni. Yfir stokkinn er brú upp við lindina og önnur aðeins neðar. Neðan og vestan við lindina var Garðhúsabrunnur, en hann var fylltur upp eftir að dauð rolla fannst í honum. Þarna skammt frá voru Garðhús (gæti verið áberandi tótt sunnan við Garðalind, fast upp við kirkjugarðsgirðinguna.

Fógetagata

Fógetagata.

Gengið var til norðurs að bæjarhóls þurrabúðarinnar Hóls við norðvesturhorn kirkjugarðsins, upp túnið norðan hans, framhjá Ráðagerði og upp á Garðaholt. Þaðan sést vel Hallargerðið, þar sem bærinn Höll stóð, í suður. Staðnæmst var við þann stað, sem Garðaviti stóð. Þar á stórri vörðu var höfð lukt á 19. öld að skipan Garðapresta. Framhjá henni til austurs liggur Garðagata niður holtið – þvert í gegnum hlaðnar skotgarfir og tvö steypt skotbyrgi. Litið var á þau og síðan haldið áfram niður eftir Garðagötu. Miðja vegu í holtinu, vinstra megin og alveg við götuna, er gömul ferköntuð hleðsla. Gömul hringlaga hleðsla er utan um hana. Þarna er eitthvað, sem skoða þarf nánar. Í örnafnalýsingu segir m.a. að “frá Garðatúnshliði lá Garðagata (Stekkjargatan) vestan Götuhóls, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól við vegamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar”.

Garðahverfi

Hallargerði.

Í örnefnaskránni segir að Presthóll sé við fyrrnefnd gatnamót. Það segja og Ágúst á Miðengi og Guðjón á Dysjum.

Um Mæðgnadys segir einnig í örnefnalýsingunni að hún sé “í norðanverðu Garðaholti sunnan við Presthól”. Hér gætir ónákvæmni. Ekki er ólílegra að Mæðgnadysin kunni að vera þessi því hún er við götu eins og flestar dysjar, sbr. Völvuleiðið, sem er við Kirkjustíg. Því eru hér uppgefnir GPS-punktar af báðum stöðunum.

Gálgahraun

Fiskbyrgi í Gálgahrauni við Sakamannastíg.

Síðan var haldið áfram að Sakamannagötu eða Gálgastíg, eins og hann hefur stundum verið nefndur. Þarna lá gatan, nyrst í vesturjarði Gálgahrauns, austur með sjónum að Gálgaklettum. Á leiðinni eru m.a. hleðslur við stíginn og garðar á stangli. Þeir voru fyrst og fremst notaðir sem þurrkgarðar fyrir þang, sem skorið var þarna í fjörunni. Gengið var framhjá Hrauntanga, en ofan þeirra er fallegt útsýni að klettunum.
Gálgaklettar voru skoðaðir í krók og kima. Þeir eru gamall aftökustaður frá Bessastaðavaldinu. Í lýsingum er talað um Gálgaflöt þar sem hengdir voru grafnir, en óljóst er hvar hún er nákvæmlega. Þó má sjá á einu korti af svæðinu að flötin sé nokkru norðaustan við klettana, svo til alveg niður við sjó, á milli Hrauntanga og Vatnagarða. Skoðað síðar. Tækifærið var notað og skimað eftir skútum við Gálgakletta, en engir fundust að þessu sinni.

Gálgahraun

Gálgahraun – Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í fornleifakönnun FÍ 1999 segir m.a. um Gálgakletta: “Við Lamhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim…. Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirravar lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessi klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.”
Um Garðastekk segir jafnframt: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana… Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930”, segir í örnefnalýsingu.
“Fógetastígur er mjög sérstæð og óvenjuleg fornleif. Hún getur engan vegin talist greiðfær fyrir hesta, en engu að síður ber hún vitni um mikla umferð á þessari leið um aldir. Gatan er enn þann í dag skemmtileg gönguleið og hefur ótvírætt varðveislugildi…. [Fógetastígur] greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.”
Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk að skoða stígana í Garðahrauni, skoða Garðastekk og kíkja á Gálgaklettana í Gálgahrauni. Aðkoman að þeim eftir Sakamannagötunni úr vestri er áhrifarík.
Frábært veður. Gangan, fram og til baka, tók 3 klst og 3 mín.

Garðavegur

Garðagata ofan Garðakirkju.

 

Garðastekkur

Gengið var um Fógetastíg áleiðis að Garðastekk og áfram eftir Garðagötu.
Í leiðinni var hugað að LoftmyndMóslóða í Garðahrauni. Fógetastígur er hin forna leið í gegnum hraunið á leiðinni millum Reykjavíkur og Álftaness (Bessastaða). Garðagata liggur um Garðaholt frá Görðum, inn á Garðahraun við Garðastekk og sameinast Fógetastíg inni í hrauninu. Móstígur er austlægari, liggur frá Fógetastíg nyrst þar sem hann kemur inn á Garðahraun og síðan í suðlæga stefnu áleiðis að Engidalshrauni.
Í fornleifaskráningu fyrir Garðahraun segir m.a.: “Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið.
Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.” segir í Búrfellshraunörnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna. Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness.
Á móts við núverandi Eskines og Gálgahraun austanvertGarðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.”
Um Móslóðan segir skráningin: “Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó.

Gálgahraun

Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. … Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar”, segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin sem lá norðar.”
Um Garðastekk segir: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.” segir í örnefnalýsingu.

Garðastekkur

Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar. Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11×9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19×6 m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5×5 m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10×4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.” Ekki er minnst á leifar fjárborgar ofan við Garðastekk, sem verður að þykja allmerkilegar mannvistarleifar.
Garðagata sést vel þar sem hún liggur upp holtið norðan Garðaholts.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Fornleifakönnun – Álftanesvegur milli Engidals og Selskarðs, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 1999.

Garðahverfi

Fjárborg við Garðastekk.

Gálgahraun

Gengið var um Garðahraun í ljósaskiptunum.
Við slíkar aðstæður opinberast gjarnan svipbrigði hraunsins, líkt og litbrigðin á björtum sumarkvöldum. Hraun þetta nefnist ýmist Gálgahraun eða því er KLetturskipt í tvö nöfn, Garðahraun og Gálgahraun þar sem hið fyrrnefnda er suðausturhluti þess en hið síðarnefnda er nyrðri og vestari hlutinn. Miðhluti þess að sunnanverðu hefur einnig verið nefndur Klettahraun og við Engidal einnig Engidalshraun. Fleiri nöfn í sama hrauni eru t.d. Flatahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun og Búrfellshraun. Hraunið er reyndar að uppruna hluti af Búrfellshrauni og er sú tunga þess sem teygir sig lengst frá upptökunum, gígnum Búrfelli, í NV-átt. Hraun þetta hefur verið aldursgreint um 7200 ára (Jón Jónsson, 1994).
Hraunið er víða mjög úfið og flokkast að mestu til apalhrauna en annars staðar er það sléttara og mætti kallast helluhraun. Ýmsar myndanir koma fram í úfna hlutanum þar sem djúpar hrauntraðir, niðurföll og upplyftir sprungnir hólar skiptast á. Bergtegundin er ólivínþóleiít og er slík bergbráð að jafnaði mjög þunnfljótandi. Þunnfljótandi basalthraun sem þetta geta, runnið að miklu leyti í lokuðum rásum undir yfirborði og skilið eftir sig hella en seinna getur þak þeirra hrunið og myndast þá dældir, rásir og niðurföll. Í hraunrennsli sem þessu kólna jaðrarnir mun hraðar, þar hægist á rennslinu, veggir hlaðast upp og renna myndast sem hraunið streymir eftir.

Útsýni

Í Garðahrauni er víða sléttur og gróningar. Í Gálgahrauni eru margar opnar rennur eða hrauntraðir. Í Klettahrauni eru háir klettar og djúp hvolf. Svæðið í heild er hið mesta augnayndi – hvert sem um það er farið.
Halli lands þarna er lítill og því hefur straumhraði hraunsins verið farinn að minnka verulega. Einnig hefur bergbráðin trúlega afgasast nokkuð komin þetta langt frá upptökunum en afgösun hægir verulega á rennslinu og leiðir til úfnara yfirborðs. Sennilega hafa margir straumar verið í gangi en á milli þeirra hefur lítið hreyfst og hraunljarnir eða storknaðir barmar myndast. Upplyftir sprungnir hólar eru afleiðing afgösunar þegar rennslið er nánast hætt yfirborðið orðið nokkuð storkið og gasið brýtur sér leið upp um það. Í tengslum við þetta og storkið yfirborð almennt myndast stundum svokallað flekahraun þar sem storknaði hlutinn brotnar upp í fleka við óreglulegt rennsli og straumamót undir niðri og yfirborðið ýfist upp.

Gálgahraun

Flekahraun er því eins konar millistig milli hellu- og apalhrauna en slíkt má sjá í Gálgahrauni/Klettahrauni á mörgum stöðum. Af dýpt rása, niðurfalla og gjóta og hæð hóla má sjá að hraunið er nokkuð þykkt. Jón Jónsson (1994) telur að almennt sé Búrfellshraun um 18-22 m þykkt út frá borunum gegnum það, en þykktin á Gálgahrauni er orðin eitthvað minni, e.t.v. 5-10 m. Þar sem yfirborðið er úfnast og hraunið hefur oltið hægt áfram í þungum straumum, gæti þykktin hæglega verið talsvert meiri en í sléttustu, helluhraunsflákunum er þykktin trúlega ekki f|arri þessu bili. Laus jarðvegur hefur lítið náð að safnast fyrir í hrauninu en þó er það nokkuð gróið og líklega fær ýmis konar gróður fínt skjól í því.
Ljónslappi

Eldfjallagjóska er fyrirferðamikil jarðvegsmyndun á þessum slóðum (Jón Jónsson, 1994). Sjaldgæft er að finna svona svipmikil hraun við bæjardyrnar eða inni í stórum þéttbýlum.
Sem fyrr sagði er Gálgahraunið stórbrotinn endir á samfelldum hraunstraumi alla leið ofan úr Búrfelli (sjá meira HÉR). Gálgaklettur er vestast í hrauninu og nafnið segir sjálfsagt allt um það sem þar gerðist fyrr á öldum. Af klettinum er víðsýnt til fjalla sem og helstu kennileita á höfuðborgarsvæðinu, sem oft lenda undir skemmtilegum sjónarhornum milli hraundranga. Ekki eru til heimildir um aftökur á þessum stað. Við Gálgana átti að vera staður sem kallaðist Gálgaflöt. Munnmæli herma að þar hafi sakamenn sem hengdir voru í gálgunum verið dysjaðir.
Grasi Gálgahraungrónir balar norðan við Gálgakletta eru grænni en aðrir staðir nærri klettunum. Ekki er ljóst hvar Gálgaflötin var en þessir balar koma sterklega til greina. Ritaðar frásagnir af því að mannabein hafi fundist við Gálgakletta bera þess vitni að þar hafi menn verið dysjaðir þó aðrar skráðar heimildir séu ekki fyrir hendi, sem fyrr sagði.
Garðahraun var beitiland frá Görðum og var þar tekinn mosi og rifið lyng til eldiviðar. Norðvesturhorn hraunsins heitir Hrauntangar og var þar þerrivöllur fyrir þang- og marhálm sem skorinn var á fjörunni neðan við hraunið. Þang til eldiviðar var sótt á þennan stað úr Garðahverfi fram á fyrstu ár 20. aldar. Marhálmurinn var þurrkaður og notaður til einangrunar í timburhús.
Hálmskurður var aðallega stundaður í Lambhúsafjöru í Lambúsatjörn. Skorinn marhálmurinn var notaður þegar illa áraði og heyfengur af skornum skammti og þótti góð búbót því nautgripir voru sólgnir í hann. Hálmur sem rak á Lambhúsafjörur var góður sem undirlag í rúm og til að útbúa dýnur. Hann var stundum notaður sem stopp í söðla og hnakka og jafnvel í sængur.

Birki

Marhálmurinn var algjörlega ónýtur sem eldsneyti en þegar farið var að byggja timburhús var hann mikið notaður til að einangra milli þilja. Hann var seldur til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og notaður í íshúsin, einkum Nordalsíshús og Ísbjörninn. Guðmundur Þóroddson í Lásakoti á Álftanesi hafði t.d. atvinnu af því að hirða marhálm í Skógtjörn, þurrka hann og flytja á tveimur hestum til kaupenda. Marhálmur hvarf að mestu veturinn 1918-19. Hálmurinn er mikilvæg fæða álfta sem Álftanes dregur væntanlega nafn sitt af. Margæsir sem staldra hér við á vorin og haustin á leið sinni til og frá vetrarstöðvunum í Bretlandi en sumarsvæði hennar eru í Grænlandi og Kanada sækjast í marhálminn. Það eru fleiri fuglar sem sækja í tjarnirnar á Álftanesi í grennd við Gálga- og Klettahraun. Talsverð búbót var af torfristu og mótekju en fjörumór þótti mun betri eldsmatur en hálmurinn. Garðhverfingar höfðu leyfi til að skera þang í fjöru en rekaþangið var betra og þornaði fyrr en þang sem var skorið í sjó. Það var ekki eins salt og brann líka betur. Mór og þang var þurrkað á þurrkvöllum í hrauninu og á hlöðnum þurrkgörðum. Það var síðan geymt í hlöðnum grjótbyrgjum. Þegar þangið var vel þurrt var það bundið upp í sátur sem voru bornar á bakinu heim á bæina. Þegar allt annað þraut var lyng rifið og notað sem eldsmatur og það litla sem fékkst af kvisti var líka tekið.

 

KofatóftFuglalífið er ákaflega fjölbreytt og tegundafjöldinn óvenju mikill. Kría og æðarfugl verpa í hrauninu norðantil og á Eskinesi var á síðustu öld komið upp æðarvarpi og í sambandi við það reistur lítill kofi fyrir varðmenn og er stutt síðan að þekja hans féll niður. Þessi kofi er í gjá ofan við Eskines.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir í bókinni frá Fjöru til fjalls að sjávarstaða hafi verið lægri en nú er þegar Búrfellshraun rann. Eskines er kvísl eða hrauntangi sem gengur lengst út í Arnarvog og hefur stöðvast á þurru landi telur hann. Nesið hefur brotnað á undangenginni öld og sjór flæðir nú yfir stóran hluta þess á stórstraumsflóðum. Húsatóftir sem eru að eyðast sjást enn á Eskinesi. Erfitt er að henda reiður á hvort þetta er gömul verbúð eða kotbýli. í Jarðabók ÁM og PV frá 1703 segir m.a. í lýsingu Hraunsholts: “Skipsuppsátur og vergögn hefur jörðin við Ofanmannabúð” og “Hrognkelsafjara lítil þar sem heitir Eskines”.

Eskines-22

Þórarinn Böðvarsson prestur í Görðum lét reisa kofa þarna um 1870. Sjást leifar hans enn í hraunkantinum. Þórarinn ætlaði að koma upp æðarvarpi í Eskinesi. Samkvæmt frásöng Ólafs Þorvaldssonar lét hann reisa kofa í hraunjaðrinum og þar eru vallgrónar minjar, þannig að það má vera að tóftirnar á nesinu séu af eldra húsi (Ofanmannabúð). Séra Þórarinn flutti karl og konu í kofann og lét þau hafa hænsnfugla hjá sér sem áttu að lokka æðakollurnar til að verpa í hreiðrin sem útbúin höfðu verið. Þetta hafði ekki tilætlaðan árangur og gafst Þórarinn upp á þessari tilraun stuttu seinna. Norðan við Eskineseyrartá eru tvö eða þrjú flæðisker sem sauðfé sótti mjög í á sínum tíma. Þar varð verulegur fjárskaði um 1900 þegar 40-50 kindur úr Hafnarfirði og Garðahverfi flæddi til dauðs.

Hraunkarl

Þeir sem kunnu að nýta það sem hraunin gáfu af sér töldu þau afar gjöful. Leiguliðar Garða fengu að beita þarna sauðfé sínu. Víða í grasgefnum lautum í hraunjaðrinum og út með ströndinni var ágætist útibeit fyrir sauðfé hvort heldur var að sumri eða vetri. Auðvelt var að útbúa fjárskjól í hraunskútum og má finna minjar um smala- og fjárskjól ásamt hlöðnum byrgjum á nokkrum stöðum. Þegar skyggnst er ofan í jarðföll, sprungur í hraunjöðrum og klettaborgum sjást þessar grjóthleðslur, eða vallgrónir torf- og grjótveggir. Stundum var hlaðið upp við sprungur og reft yfir til að nýta náttúrulegar aðstæður sem best. Slíkar minjar er hægt að finna í Klettahrauni og Gálgahrauni, t.d. á Grænhól, við Garðastekk og við Eskines.

Gálgaklettar/-ur

Hraunið gat verið ágætis beitiland en það var ekki hættulaust að nýta það. Sauðamenn fylgdu sauðfénu og gættu þess að það færi sér ekki að voða því víða leynast glufur í hrauninu sem geta valdið skaða. Á vetrum var fénu beitt í fjörunni á hólmum og flæðiskerjum. Það var því mikilvægt að gæta að sjávarföllum og koma fénu í land áður en féll að. Fjárkynið sem undi sér best í Klettunum var kallað Klettafé. Það var á útigangi í hrauninu nema þegar rekið var á fjall yfir hásumarið. Hraunið var leitótt og erfitt yfirferðar og féð styggt og meinrækt að sögn Ólafs Þorvaldssonar, sem bjó í Ási við Hafnarfjörð. Þetta leiddi til þess að iðulega kom fyrir að eitthvað af fénu komst ekki á fjall og var í hrauninu allt árið. Nokkur örnefni og kennileiti minna á þessa tíð, þ.á.m. eru Garðastekkur og Garðarétt, ásamt túnflekk og húsatóftum í hraunjaðrinum á móts við Prestaþúfu.

Garðastekkur

Beitin hefur án efa átt sinn þátt í að eyða kjarrgróðri sem eflaust hefur vaxið í hrauninu í öndverðu. Birki og víðir eru að ná sér á strik á stöku stöðum í hrauninu en það er að mestu vaxið lyngi, mosa og hverskyns lággróðri.  Hraunssvæði Garðahrauns er hið ágætasta útivistarland og margt er að sjá s.s. fyrr er lýst. Gróðurfar er fljölbreytt, klettamyndir stórfenglegar, djúpar gjótur og grunn jarðföll setja svip á landið og ströndin er heillandi. Við hraunjaðarinn eru fallegir bollar og hraunstrýtur og klettar af öllum stærðum. Áður fyrr þótti hraunið ekki mjög heillandi eða árennilegt öðrum en þeim sem þekktu það vel.
Álftanesgata eða Fógetagata (sjá meira HÉR) eins og forna alfaraleiðin út á Álftanes var nefnd, lá í krókum gegnum hraunið eftir ruddri slóð. Hún var ágæt yfirreiðar í björtu veðri en gat reynst hættuleg og valdið óhugnaði hjá fólki í dimmviðri, regni og vetrarhríð.

Borg

Gatan var líka nefnd Gálgahraunsstígur nyrðri og Sakamannastígur. Þessi nöfn voru nægjanlega skuggaleg til að setja hroll að ferðalöngum sem áttu leið um þessa grýttu og torfæru götu eftir að rökkva tók. [Heimild er þó til að síðastnefndu nöfnin hafi verið nefna á götu með sjónum að vestanverðu að Gálgakletti.] Gatan er enn nokkuð augljós og auðvelt að rekja sig eftir henni þar sem hún fetar sig upp á hraunið nærri Eskinesi við botn Arnarvogs yfir hraunið og að hraunbrúninni rétt norðvestan við Garðastekk. Hraunið þótti það villugjarnt að um tíma gat Arnes Pálsson falist þar á 18. öld, en hann var kunnur þjófur sem lagðist út og var samtíða Fjalla Eyvindi og Höllu. [Reyndar dvaldist Arnes í samnefndum helli við Hraunsholt, sem er í Garðahrauni, þar sem hann er enn.]
GanganÞrátt fyrir dulúð, drunga og harðneskjublæ sem fylgir óneitanlega Gálgahrauns- og Klettahrauns nöfnunum eru margir heillandi staðir á þessum slóðum. Þeir sem vilja kynnast þessu merka hrauni nánar ættu að gefa sér tíma og fara nokkrar ferðir um hraunið. Það er margt að sjá og um að gera að skyggnast eftir minjum og áhugaverðum stöðum.
Ekki má gleyma strandlengjunni sem er síbreytileg og tjarnirnar í Vatnagörðunum eru mjög sérstakar. Það er auðvelt að fara um hraunið allan ársins hring og hægt leita skjóls ef vindur blæs og regnið lemur. Þarna hafa skáld og myndlistarmenn eins og Kjarval, Pétur Friðrik, Eiríkur Smith og Guðmundur Karl oft leitað fanga.
Frábært veður í vetrarljósakiptunum. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Ólafur Þorvaldsson, Áður en fífan fýkur.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jón Jónsson, Frá fjöru til fjalls.
-Jónatan Garðarsson.
-Atli Karl Ingimarsson.
-Jarðabók ÁM og PV – Hraunsholt.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Járnbrautarvegur

“Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni.
Hafnarfjardarhraun-2Þessar hleðslur vitna um vegasögu okkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrri hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.
Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.
Hafnarfjardarhraun-4Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.
Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum.

Hafnarfjardarhraun-6

Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm. Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri.
Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Hafnarfjardarhraun-10Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.
Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.
Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Midaftansvarda-21

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1904-1912. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.
Hafnarfjardarhraun-12Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann. Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.
Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé.

Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða Hafnarfjardarhraun-15áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.
Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.
JarnbrautEr glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.”

Heimildir:
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.
-Unnið af Jónatan Garðarssyni.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.

Garðastekkur

Gengið var að Garðastekk eða Garðarétt undir vesturjaðri Garðahrauns. Hún er eitt elsta mannvirkið á Álftanesi. Þegar gengið var upp á hraunkantinn ofan við réttina kom nokkuð merkilegt í ljós – fjárborg, sú 90. sem FERLIR hafði til þessa skoðað á Reykjanesi. Hún er greinilega mjög gömul. Erfitt er að koma auga á hana, en í birtunni að þessu sinni þar sem sólin skein lágt úr suðri, sást hún mjög vel. Borgarinnar er ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Garðastekkur er í raun gróinn tóft vestan við Garðaréttina. Örnefnið hefur síðan færst yfir á réttina eftir að hún var hlaðin í hraunkantinum.

Garðahraun

Fjárborg í Garðahrauni.

Gengið var norður með vesturjarði hraunsins og inn á svonefndan Sakamannastíg (Gálgastíg) í Gálgahrauni. Skammt austar, norðan stígsins má sjá nokkrar mjög gamlar hleðslur. Ein þeirra er herðslugarður og sést móta fyrir húsi á einum stað. Stígnum var fylgt að Gálgaklettum. Klettarnir, sem eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, standa reisulegir rétta ofan við sjóinn. Sígurinn liggur beint að þeim. Utan í vestanverðum Gálgaklettum er skeifulaga garður, sennilega Gálgaflöt. Í henni voru sakamenn dysjaðir. Þar sem klettarnir klofna á móti norðri hafa þeir að öllum líkindum verið hengdir. Ef grannt er skoðað má sjá grópir efst í klettunum beggja vegna klofsins. Í heim hefur gálginn sennilega hvílt er sakammaninum var ýtt fram af á milli klettanna.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Haldið var suður í hraunið og var þá komið að Álftanesgötu, öðru nafni Fógetastíg. Gatan lá til Bessastaða. Skammt ofan við Garðastekk eru gatnamót og heitir tröðin að stekknum Álftanesstígur en frá hraunbrúninni að Görðum lá Garðstígur, sem enn mótar fyrir.

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Garðastekkur

Skilti hefur verið afhjúpað sunnan Garðastekks utan Garðahrauns (Gálgahrauns) með gagnlegum upplýsingum um sögu og minjar svæðisins.
Gardahraun-1Það voru Hraunavinir í samvinnu við umhverfisnefnd Garðabæjar sem unnu og settu skiltið upp. Á því má m.a. lesa eftirfarandi:

Gálgahraun

Gardahraun-2

Gálgahraun tilheyrir víðáttumiklu hrauni sem rann frá Búrfellsgíg fyrir um 8.000 árum. Búrfellshraun ber nokkur mismunandi nöfn og heita nyrstu hlutarnir Flatahraun, Klettar og Gálgahraun en sameiginlegt nafn þeirra er Garðahraun. Gálgahraun var friðað ásamt fjörum og grunnsævi Skerjafjarðar 6. október 2009. Friðunin spannar 1;0815 km2 svæði sem samsvarar 108 hekturum.

Fógetagata (Álftanesgata)
Gardahraun-3Gatan var alfaraleið Álftnesinga áður en vagnfær vegur var lagður snemma á 20. öld. Þeir sem áttu erindi til Bessastaða kölluðu leiðina Fógetagötu á meðan fulltrúar konungs sátu staðinn. Leiðin var greiðfær í björtu en gat verið þungfarin í dimmviðri og hríðarbil. gatan sést greinilega þar sem hún hefur grópast ofan í hraunhelluna í aldanna rás. Að austan liggur hún um grunnt skarð við Hraunvík og kvíslast í Nyrðri Fógetagötu og Syðri Fógetagötu við Litla Skyggni. Hún sameinast á smákafla nærri Stóra Skyggni áður en hún skiptist aftur í Garðastíg (Garðagötu) sem tengist kirkjustaðnum Görðum og Álftanesgötu sem liggur út á Álftanesið.

Móslóði

Móslóði

Móslóði.

Á meðan mór var notaður til að viðhalda glóðinni í eldstæðum þeirra sem bjuggu í kotunum í Álptaneshreppi hionum forna var hann tekinn í Hraunsholtsmýri, Lágumýri og Arnarnesmýri. Leiguliðar Garðakirkju sem bjuggu í Hafnarfirði og Garðahverfi fóru ófáar ferðir um Móslóða til að sækja mó í mýrarnar. Ennþá er hægt að sjá hvar vegslóðinn lá milli mýranna og Vegamóta við Álftanesveg. Þar komu leiðirnar frá Garðahverfi, Hafnarfirði og Álftanesi saman.

Gálgaklettaleið
Gardahraun-4Gálgaklettaleið sveigir út af Fógetagötu í miðju Gálgahrauni skammt frá Stóra Skyggni. Auðvelt er að rata með því að taka stefnuna til norðurs og miða við Bessastaði. Nokkrar djúpar gjótur eru sunnan Gálgakletta og hægt að fara austan eða vestan þeirra áður en komið er að Gálgaflöt.

Sakamannastígur
Sakamannastígur er í hraunjarðrinum sunnan Lambhústjarnar. Leiðin var einnig nefnd Gálgastígur eða Aftökustígur og gefa nöfnin til kynna hvað þarna fór fram. Stígurinn virðist hafa verið fjölfarin en hann liggur framhjá Litla Gálga áður en komið er að Gálgaklettum. Þokkaleg lending er við Gálgaflöt, líklega voru sakamenn stundum ferjaðir yfir Lambhústjörn frá Bessastöðum. Þeir sem hefja göngu við Hraunvík geta nálgast Gálgakletta með því að fylgja strandlengjunni. Leiðin liggur framhjá Eskinesi og smátjörnum Vatnagarða áður en komið er að Gálgaklettum.

Gálgaklettar

Gardahraun-5

Gálgaklettar sem heita allt eins Gálgar eru þrír talsins: Vestur Gálgi, Mið Gálgi og Austur Gálgi. Þeir virðast vera dekkri yfirlitum en klettarnir umhverfis þá og nafnið hefur nægt til að skjóta fólki skelk í bringu í aldanna rás. Staðkunnugir kölluðu klettana einu nafni Gálgaklofning þar sem þetta var upphaflega einn klettur sem klofnaði í þrjá hluta. Samkvæmt munnmælum voru sakamenn hengdir í Gálgaklettum, en ekki eru til ritaðar heimildir sem staðfesta þetta. Samt sem áður hafa mannabein fundist nærri Gálgaklettum. Þau styðja þessar sagnir.

Eskines

Gardahraun-6

Eskines er sá hluti Búrfellshrauns sem lengst nær frá eldstöðinni Búrfelli. Ysti hluti Eskiness er í 12 km fjarlægð frá miðhluta Búrfellsgígs. Nærri hraunjaðrinum er kofarúst frá seinni hluta 19. aldar þegar Þórarinn Böðvarsson prestur frá Görðum ætlaði að koma þar upp æðarvarpi. Hann lét byggja kofann og fékk vinnuhjú til að búa þar með hænsni yfir sumartímann, en æðarvarpið misheppnaðist. Eskines er nánast flæðisker sem hefur sigið í aldanna rás og drukknuðu þar 40-50 kindur í eina tíð. Huga þarf að sjávarföllum ef farið er út á nesið, einkum á stórstraumi. Ofan Eskineseyra eru Eskinesklettar.

Garðastekkur
Gardahraun-7Garðar var einn ríkasti kirkjustaður landsins um aldir og umhverfis prestsetrið var fjöldi hjáleiga sem nefndust einu nafni Garðahverfi. Garðakirkja átti miklar lendur. Á veturna var búsmalanum haldið til beitar í Garðahrauni og Garðastekkur gegndi mikilvægu hlutverki. Vestur af honum eru húsatóftir og á hraunrana er hrunin fjárborg. Þessar minjar vitna um horfna búskaparhætti.

Kjarvalsklettar

Garðahraun

Garðahraun – Kjarvalsklettar.

Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var heillaður af hraunlandslagi og fór á sömu staðina á mismunandi árstímum til að mála. Ákveðnir drangar í Klettahrauni urðu honum hugleiknir en hann málaði einnig aðra kletta sem finna má í grenndinni. Kjarvalsklettar í Garðahrauni koma fyrir í nokkrum tugum málverka meistarans. Kjarval nefndi þessi málverk ýmist Hraun, Úr Gálgahrauni, Úr Bessastaðahrauni eða frá Álftanesi.

Galgahraun-kort

Auk þess má bæta við að fjölmargt annað áhugavert má berja augum í nágrenninu. Má þar t.d. nefna Garðagötuna fyrrnefndu. Hún sést enn mjög vel ofan núverandi Álftanesvegar þar sem hún liðast upp norðanvert Garðaholt. Við götuna er Mægðnadys, hlaðið hringlaga leiði, og skotgrafir frá stríðsárunum hafa verið grafnar þvert á götuna efst á holtinu auk tveggja skotbyrgja. Sambærilegar skotgrafir má sjá nánast við hvern klapparhól á Garðaholti. Austar liggur Kirkjustígurinn frá Hraunsholti að Görðum. Við hann er Völvuleiðið, hringlaga hlaðin dys. Á milli þessara tveggja dysja má auk þess sjá enn eina hringlaga hlaðna dys í holtinu.
Hafa ber í huga að kortið á skiltinu lýsir fyrst og fremst áhugaverðum gönguleiðum um svæðið, en ekki fornum þjóðleiðum. Þá myndi það líta öðruvísi út sbr. meðfylgjandi loftmynd.

Garðahraun

Í Garðahrauni.

Meltunga

Við fyrrum nýbýlið Meltungu í Kópavogi má sjá eftirfarandi lesningu á skilti, sem þar hefur verið  komið fyrir:
Meltunga“Árið 1936 tóku gildi lög um nýbýli og samvinnubýli á jörðum í opinberri eigu. Í Seltjarnarneshreppi var jörðunum Digranesi og Kópavogi skipt í hreinar bújarðir annars begar og smábýli hins vegar. Smábýlin voru ætlaðir sem ræktunarblettir án búsetu en föst búseta var á nýbýlunum. Aðkoma að nýbýlisjörðunum var eftir nýjum vegi sem lagður var sunnan sunnan Fossvogsdals og var nefndur Nýbýlavegur vegna þessa.
Leigjendur nýbýla máttu ekki eiga jörð né hafa átt jörð á undangengnu ári. Þá urðu þeir að geta lagt fram sinn hluta storfnkostnaðar býlisins, hafa nokkra þekkingu á landbúnaði og hafa starfað við hann í tvö ár hið minnsta.
Nýbýlin norðan Nýbýlavegar voru Lundur, Birkihlíð, Snæland, Ástún, Grænahlíð og austast var Meltunga sem einig nefndist Digranesblettur I.
GrjótnámLeigutakar Meltungu frá árinu 1938 voru Gestur Gunnlaugsson og Loftveig Guðmundsdóttir. Landið var 16.3 ha. Á því voru hvorki tún né girðingar, aðeins mýri og grjót. Því þurfti að leita fanga víða til að heyja handa 18 kúm og 140-150 fjár en þeirri stærð náði búið er mest var. Búskapur var aflagður árið 1972 og íbúðarhúsið að Meltungu rifið árið 1989.
Á tímum heimskreppunnar upp úr 1930 var mikið atvinnuleysi hérlendis. Stjórnvöld brugðust við þessu með svokallaðri atvinnubótavinnu þar sem menn voru ráðnir í tímabundna verkamannavinnu, oft við erfiðar aðstæður. Eitt verkefnanna var að undirbúa lagningu járnbrautar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar á þeim slóðum þar sem Reykjanesbrautin er nú. Í Meltungu var höggvið til grjót sem talið er að hafi verið ætlað í undirstöður járnbrautarteinanna sem aldrei voru lagðir. Þessar minjar eru bæjarverndaðar og aðrar sambærilegar er að finna við landamerkjahólinn Einbúa við Skemmuveg.”

Meltunga

Tilhöggvinn steinn við Meltungu.

 

Gálgaklettar

Listasafn Reykjavíkur efndi til gönguferðar um Gálgahraun og Klettahraun að kvöldi 14. júní 2012 í tengslum við sýninguna “Gálgaklettur og órar hugans” sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum um þessar mundir.
Kjarval-221Þar eru m.a. sýnd um 30 
málverk sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði í Klettahrauni, sem er hluti Garðahrauns, en hann nefndi myndirnar ýmist úr Bessastaðahrauni, úr Gálgahrauni eða jafnvel Gálgaklettur þó svo að hann hafi ekki málað Gálgakletta enda komst hann aldrei nálægt þeim stað þar sem þeir klettar standa.
Ólafur Gíslason listheimspekingur og sýningarstjóri hefur lagt út af málverkum Kjarvals og hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið á afskaplega fjölbreyttan hátt í fyrirlestrum sínum í Listaháskólanum og víðar. Á sýningunni eru verk eftir fjölda annarra listamanna og talaði einn þeirra Halldór Ásgeirsson um nálgun sína við viðfangsefnið þegar komið var að Kjarvalsflöt og Kjarvalsklettum eins og farið er að nefna klettana sem Kjarval heillaðist svo mjög af og málaði aftur og aftur.
Kjarval-222Jónatan Garðarsson fór fyrir göngu um svæðið og byrjaði á að ganga um Vatnagarða í áttina að Gálgaklettum. Þar var staldrað við í bíðskaparveðri á meðan rætt var um staðinn og þá atburði sem talið er að þar hafi átt sér stað á meðan fógetavaldið var á Bessastöðum. Síðan var förinni heitið að Kjarvalsklettum og gengið frá Gálgahrauni, um Flatahraun milli Stóra-Skyggnis og Garðastekks í áttina að Klettum. Staldrað var við á nokkrum stöðum á leiðinni og rætt um það sem fyrir augu bar.
Göngufólk var ánægt með framtakið og ekki spillti veðrið fyrir en það var um 16 stiga hiti og sannkölluð rjómablíða. Hér eru tvær myndir af svæðinu, bæði nú og fyrrum af þeim mótífum sem Kjarval málaði á þeim aldarfjórðungi sem hann sótti sér efnivið á þessar slóðir.
Svo er hægt að skoða nokkur málverka Kjarvals og ljósmyndir sem teknar eru á sömu stöðum og hann málaði á 25 ára tímabili undir lok starfsferilsins.

Kjarvalsklettur

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.