Garðahraun

Í tilefni af því að nú virðist vera fyrir hendi áhugi að afmá hluta Fógetastígs var ákveðið að ganga götuna enda á millum þar sem hún er enn greinileg (2009).
VarðaGengið var um stíginn yfir Garðahraun áleiðis að Garðastekk og áfram áleiðis að Bessastöðum. Í leiðinni var hugað að Móslóða í Garðahrauni og Garðagötunni (-veginum) áleiðis um norðanvert Garðaholt að Görðum. Fógetastígur er hin forna leið í gegnum hraunið á leiðinni millum Reykjavíkur og Álftaness (Bessastaða). Garðagata liggur um Garðaholt frá Görðum, inn á Garðahraun við Garðastekk og sameinast Fógetastíg inni í hrauninu. Móstígur er austlægari, liggur frá Fógetastíg nyrst þar sem hann kemur inn á Garðahraun og síðan í suðlæga stefnu áleiðis að Engidalshrauni.
Í fornleifaskráningu fyrir Garðahraun segir m.a.: “Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á FógetastígurÁlftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.” segir í örnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna.
TóftÍ flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.”
VarðaUm Móslóðan segir skráningin: “Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó. Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. … Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. 

Varða

Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar”, segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin sem lá norðar.”
GarðastekkurUm Garðastekk segir: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.” segir í örnefnalýsingu. Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft.
Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar. Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en Gerðimilli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11×9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19×6 m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5×5 m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10×4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.” Ekki er minnst á leifar fjárborgar ofan við Garðastekk, sem verður að þykja allmerkilegar mannvistarleifar. Og ekki heldur er minnst á mun fleiri minjar, sem er að sjá á og við Fógetastíg.
FógetastígurHér skal byrjað á byrjuninni; á austurenda Fógetastígs. Hann kemur upp á hraunbrúnina eins og áður hefur verið lýst. Stígurinn er mjög greinilegur þar sem hann liggur gróinn í sveig upp brúnina. Fyrir innan hana er gatan nokkuð slétt. Vörðuleifar eru á vinstri hönd. Heilleg varða er framundan á vinstri hönd. Áður en að henni er komið greinist gatan. Aðalgatan liggur áfram til vinstri, áleiðis að vörðunni, en hjáleið liggur til hægri. Fylgjum hjáleiðinni; hún er alls ekki ógreiðfærari, en beinni. Vörðubrot er á henni við lágan hól áður en gatan beygir og liggur svolítið niður á við. Þaðan liggur hún með brún upp á við og beygir til vinstri, að áberandi stökum klettastandi, framhjá honum og þá til hægri. Síðan liggur þessi hluti upp hraunið uns hann kemur saman við aðalgötuna allnokkru ofar. Vörðubrot er á leiðinni. Sennilega hefur þessi hluti Fógetastígs verið notaður af kunnugum því hann styttir leiðina svolítið. Ástæðan gæti líka verið sú að af þessarai leið liggur þvergata stystu leið niður í Gálgakletta. Hana gætu menn því hafa farið er átt hafa þangað erindi. Sú gata er enn vel greinileg ef rétt er farin.
KjarvalsverðugheitOg þá aftur inn á aðalleið Fógetastígs. Engar vörður eða vörðubrot sjást á þessari leið allt þangað til komið er að fyrrnefndum gatnamótum. Þar fer gatan í gegnum hraunskarð og er undirlagið hnoðað af manna og dýra fótum. Þarna beygir gatan til vestnorðvesturs. Skammt þar frá má greina að því er virðist forn tóft, ca. 3×6 m., hægra megin götunnar. FRá henni liggur gata til vinstri, áleiðis að Garðastekk austanverðum. Þar er Garðagatan. Aðra slíka tóft má sjá stuttu lengra, vinstra megin götunnar. Frá henni liggur gata til vesturs og kemur hún niður af hraunbrúninni inn í hlaðið gerði norðvestan við Garðastekk. Þegar lengra er haldið eftir aðalleiðinni má sjá vörðubrot. Þar liggur gatan til vinstri í sveig niður af hraunbrúninni, í gróinn hvamm. Þá liggur hún niður með hraunkantinum og inn á móana áleiðis að Bessastöðum. Stuttu eftir að gatan kemur niður af hraunbrúninni má sjá hleðslur utan í hrauninu, sennilegt skjól, enda er líklegt að kvosin hafi verið áningarstaður fyrrum.
KletturÞá var haldið til baka eftir Fógetastígnum inn að gatnamótum götu er liggur vestur af hraunbrúninni norðvestur af Garðastekk. Eftir að hafa skoðað stekkinn var fjárborg (sjá mynd hér efst) litin augum á hraunbrúninni ofan við stekkinn. Einhverra hluta vegna hafa fornminjar þær ekki verið skráðar. Suðaustan við stekkinn er gróin kvos inn í hraunkantinn. Í henni eru hlaðin gerði á tveimur stöðum. Í kvosinni sjálfri eru leifar af tóft, sennilega undan bragga eða seinni tíma húsi. Innan við hana liggur gata upp á hraunið. Fylgja má henni nokkurn spöl, en þar greinist hún í tvennt; annars vegar til suðurs, áleiðis inn á Móslóða og hins vegar inn að stórbrotnum hraunmyndunum, sem gætu jafnvel fyllt meistara Kjarval minnimáttarkennd.
TóftÞá var haldið aftur að gatnamótum Garðavegar og Fógestastígs og hinum síðarnefnda fylgt að upphafsreit. Á leiðinni fer hann í gegnum hraunskarðið fyrrnefnda, en skammt innan við það eru gatnamót Fógetastígsleiðanna, sem áður var lýst. Auðvelt er að fylgja Fógetastígnum því hann er bæði gróinn og auk þess hefur hann verið unninn á köflum. Víða er stígurinn djúpt markaður í jörðina og vel gróið umleikis. Hann er jafnan á nokkuð sléttu plani og því auðveldur eftirferðar. Ef aðalleiðinni er fylgt má áætla ca. 15-20 mín. á milli hraunbrúna. Ef vilji er til að fara báðar göturnar, sem fyrr hefur verið lýst, er um að ræða ca. hálfrar klukkustundar rólega göngu – reyndar í stórbrotnu, síbreytilegu og ógleymanlegu hraunumhverfi. Hafa ber í huga að standi vilji til að skoða og upplifa þessar fallegustu hraunmyndanir landsins til langrar framtíðar þarf einungis að bregða sér spölkorn út af stígnum og berja þær augum.

Garðahraun

Garðahraun – götur. ÓSÁ.

Í leiðinni var ákveðið að skoða austurhluta Garðahrauns. Við þá skoðun fundust hlaðin gerði á a.m.k. þremur stöðum. Öll eru þau við legu fyrirhugaðs Vífilsstaðavegar yfir Garðahraun – og væntanlega óskráð sem fornleifar.
Benda má áhugasömu fólki um hreyfingu og útivist að gefa sér, þótt ekki væri nema einu síðdegi, til að skoða Garðahraun. Tryggja má, með loforði um óafturkræfan skilafrest, að vitund þess og áhrif af þessu nánasta umhverfi þéttbýlismyndunar-innar mun verða sú sama og Kjarvals fyrrum.
Gangan var notuð til hnitskrá götur í Garðahrauni eins og sjá má á meðfylgjandi loftmynd. Ástæðan var einkum sú að fyrirhugað er að leggja nýja vegi yfir Garðahraunið austanvert, þ.e. Álftanesveg og Vífilsstaðaveg.
AlftanesvegurÞótt FERLIR sé að öllu jöfnu á móti röskun forn- og náttúruminja er viðlagið jafnan það að skoða aðstæður nánar áður en upp úr er kveðið. Tvennt hefur þá komið í ljós; annars vegar að takmarkaður áhugi og vilji til að láta fara fram rannsóknir á tilteknu svæði og að fornleifaskráningu (ef hún err yfirleitt framkvæmd) er stórlega ábótavant. Oftar en ekki er verktakinn búinn að fara yfir svæðið á jarðýtu og aka óvart yfir hugsanlegar minjar, sem þyrfti að skrá. Ef svo óheppilega vildi til að verktakinn missti af hugsanlegum minjum á leið sinni, en fornleifafræðingar uppgötvuðu þær við leit, hafði hinn fyrrnefndi óvart rennt yfir það á skriðtækinu sínu um það leiti er skýrsla hins síðarnefnda birtist. Svona er lífið…
Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 11. mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar.
-Fornleifaskráning.

Fógetagata

Fógetagata.