Færslur

Garðahraun

Gengið var um Garðahraun. Við fyrstu sýn virðist hraunið erfitt yfirferðar, en ef rétt er farið er hvergi auðfarnara utan gangstétta Garðabæjar.
MálverkÞegar gengið er inn á hina fornu leið Fógetastíg að austanverðu inn á hraunbrúnina og henni fylgt spölkorn inn á slétt hraunið er tilvalið að venda til hægri, áleiðis að klettaborgum innan seilingar. Ofan við þær eru leifar af lítilli fjárborg (ævagamalli) og fyrirhleðslum. Augljóst er að þarna hefur verið setið yfir fé fyrrum. Hraunbollar eru grösugir og víða má sjá gróin vörðubrot, garðleifar og lítil skjól. Hið 8000 ára gamla hraun ber aldurinn vel. Í tilefni hans var boðið upp á allt sem alvöru gömul hraun geta boðið upp á; grónar sprungur, háa klapparkolla, innfelldar hraunæðar og alls kyns kynjamyndir. Á þessu svæði eru mannvistarleifar á grónum hól ofan við Eskines (sjá meira HÉR). Utar er hleðsla í sprungu, líklegt aðhald eða nátthagi. Þegar gengið var upp (suðvestur) hraunið birtust fleiri kynjamyndir og hraunstandar. Enn ofar sléttist hraunið og auðvelt er að fylgja yfirborðinu til suðurs. Á hægri hönd er svo “ógurlegt” Gálgahraunið. Á stöndum þess stóðu gráðugar veiðibjöllur og biðu eftir bráð vorsins, eggjum mófuglanna.

Fyrirmynd

Garðahraunið er ótrúlega fljótfarið enda á millum. Fyrirvaralaust komust tvífætlingarnir upp undir suðurbrún þess, að svonefndu “Kjarvalskletti” eftir að hafa lagt lykkju á leiðina til að komast niður í eina myndarlegustu klettagjána. Hvarvetna á leiðinni mátti sjá hvar fyrirmyndirnar að verkum meistarans biðu léreftsáfestingar. En líftími mannsins er bara svo skammur þegar horft er til líftíma hraunsins – nema maðurinn breyti því til hins verra. Það er nefnilega svo auðvelt og það tekur svo skamman tíma að skemma viðvarandi fegurð ef ekki er að gætt. Stundarskemmarverk (sbr. stundarbrjálæði) getur svipt komandi kynslóðir ánægjunni af fá að njóta fyrrum dásemda. Þær sá meistari Kjarval í hrauninu og þær sjá allir aðrir er hafa næmt auga fyrir fegurð landsins. Auðvitað getur sú skynjun tapast í ölduróti annarra hagsmuna, s.s. kröfu til aukinna lífsgæða og þörf á landrými undir íbúðir og vegi.

Móslóði

Ætlunin var m.a. að skoða eina af fyrirmyndum Kjarvals. Með afrit af málverki við hendina fannst staðurinn. Umhverfis voru miklar klettaborgir, en fyrirmyndin virtist léttvæg þar sem hún var þarna í hinu tilkomumikla landslagi. En af einhverri ástæðu valdi Kjarval þennan stað, enda hafði hann næmt auga fyrir myndefninu.
Austan við þennan stað og vestan við annan stað, sem hann málaði einnig á, liggur gata; Móslóði.
KjarvalÍ örnefnalýsingu segir að eftir 
honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. Slóðanum var fylgt til norðurs. Áður en langt var komið varð gróin varða á leiðinni. Frá henni lá gatan áleiðis yfir slétt gróið hraunið og síðan undan halla þess, áleiðis niður að uppruna Fógetastígs (þar sem hann kemur inn á Garðahraunið). Gatan er vel greinileg alla leiðina, allt þar til hún mætir Fógetastíg. Þar er mosavaxin varða er gefur til kynna hvar gatnamótin eru.
Frábært veður. Gangan um Garðahraunið tók 2 klst og 2 mín.

Garðahraun

Litir eftir Kjarval í Garðahrauni skammt frá Móslóða.

 

Garðahraun

Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði nokkur málverka sinna í Garðahrauni þar sem hraunmyndanir voru notaðar sem fyrirmyndir (,,Kjarvalssvæði“). Árið 1955 var haldin yfirlitssýning á verkum Kjarvals í Listasafni Íslands. Um 25.000 manns sóttu sýninguna. Þá hafði hann uppgötvað Gálgahraun á Álftanesi og hafði málað þar oft, stundum nokkrar myndir af sömu fyrirmyndinni. Þrátt fyrir verðmætin, sem í verkum Jóhannesar felast, eru mótvív hans, þ.e. hraunmyndanirnar, ekki síður verðmætar.
KjarvalJóhannes Sveinsson Kjarval fæddist í Efriey í Skaftafellssýslu árið 1885. Fjögurra ára var hann sendur í fóstur til frændfólks síns í Geitavík í Borgarfirði eystra og ólst þar upp.
Þegar Kjarval var 17 ára fluttist hann til Reykjavíkur. Hann hafði lengi verið áhugasamur um myndlist og einsetti sér að mennta sig og taka framförum á listabrautinni. Vann hann fyrir sér með sjómennsku og ýmsum störfum í landi en teiknaði og málaði þegar tími vannst til.
Kjarval var ljóst að til að ná árangri í myndlist yrði hann að fara utan. Síðla árs 1911 sigldi hann með togara til London með það að markmiði að komast inní Konunglega listaháskólann. Ekki fékk Kjarval skólavist en hann notaði tímann í London til að skoða söfn og mála. Næsta vor hélt hann til Kaupmannahafnar. Að loknu árs teikninámi við tækniskóla fékk hann inngöngu í Konunglega listaháskólann. Þar stundaði hann nám næstu árin og brautskráðist í árslok 1917.
KjarvalskletturÁ námsárunum kom Kjarval oftast heim á sumrin og málaði. Að loknu náminu í Kaupmannahöfn ferðaðist hann um Norðurlönd og dvaldist einnig um hríð á Ítalíu.
Kjarval fluttist til Reykjavíkur við upphaf 20. aldar. Þá var höfuðstaðurinn mjög frábrugðinn því sem nú er. Um aldamótin bjuggu í Reykjavík tæplega 7000 manns, flestir í torf- eða timburhúsum. Fyrsta myndlistarsýningin á Íslandi var haldin árið 1900. Þá sýndi Þórarinn B. Þorláksson (1867-1924) málverk sín. Þórarinn var fyrsti íslendingurinn sem fór til útlanda gagngert til þess að læra listmálun, en Ásgrímur Jónsson (1876-1958) varð fyrstur íslendinga til að gera myndlistina að aðalstarfi sínu. Kjarval naut tilsagnar beggja þessara manna.
KjarvalÁ fimmtugsafmæli Kjarvals 1935 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Menntaskólanum í Reykjavík. Með þeirri sýningu festi hann sig í sessi sem einn ástsælasti og virtasti málari þjóðarinnar. Vinsældir hans jukust og fjárhagurinn batnaði. Árið 1945 sýndi hann 41 mynd í Listamannaskálanum. Af þeim seldust 38 strax fyrsta klukkutímann. Á hálfum mánuði sáu um 14 þúsund manns sýninguna, eða um þúsund gestir á hverjum degi. Þessi mikli áhugi endurspeglaði ekki aðeins aukinn áhuga á list Kjarvals heldur einnig breytingu sem var að verða á íslensku samfélagi.
KjarvalskletturEftirfarandi tilvitnanir lýsa vel viðhorfi Kjarvals til náttúrunnar, lífsins og listarinnar: “Það er svo mikill vandi að vera manneskja. Það hefur alltaf verið erfitt fyrir mig. Við höfum margs að gæta, náttúran leikur við mannseðlið og ef við gætum okkar ekki á leik náttúrunnar verður engin list til. Og við verðum að hugsa um steinana. Við megum ekki alltaf láta þá liggja undir skugganum okkar, við eigum stundum að klappa þeim og hlusta á þá og heyra hvað þeir hugsa.”
Kjarval málaði víða um land. Fram til 1939 fór hann aðallega á Þingvöll og aðra staði í nágrenni Reykjavíkur. Bágur efnahagur takmarkaði möguleika hans til ferðalaga. Eftir 1939 ferðaðist Kjarval meira um Samalandið. Staðir sem hann fór oft á að mála voru: Þingvellir, Svínahraun, Álftanes, Snæfellsnes, Skagaströnd, Vestur-Skaftafellssýsla og Borgarfjörður eystri.
Í útvarpsviðtali frá 1957 segir Kjarval um verk sín: “Listin mín er innifalin í mótívinu og á mörgum myndum af sama mótívi ef mér finnst það vera það gott að það sé hægt að búa til margar myndir af því úr sama stæði, ekki kóperuð mynd af mynd, heldur standa og sjá mótívið í mismunandi veðri.”
Oft er talað um að með landslagsmyndunum sem Kjarval málaði á síðari hluta ævinnar hafi þjóðin lært að sjá og meta fegurðina sem býr í íslenskum mosa og hraungrjóti. Áður var náttúrufegurð einkum talin felast í tignarlegum fjöllum, birkihríslum og grænum túnum.
MálningHér er ekið dæmi í Garðahrauni (Gálgahrauni), sem Kjarval festi á striga, stundum nefndur Kjarvalsklettur. Sjá má hleðslu í skjóli undir klettavegg þar sem hann hefur setið og málað klettinn. Ofan við skjólið eru litir þar sem hann hafði skolað úr penslum sínum. Þessi ummerkri sjást enn á vettvangi:
Þótt staðir sem Kjarvalsfyrirmyndir teljist ekki til fornleifa og eigi því ekki að vaðveitast sem slíkir er engu að síður ástæða til að umgangst þá af virðingu því það kom ekki af engu að listamaður með svo næmt auga fyrir fegurð umhverfisins taldi ástæðu til að festa þá á striga svo aðrir mættu njóta þess með honum til framtíðar.

Heimild:
-www.listasafnreykjavikur.is

Garðahraun

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.

Urriðakotshraun

Spor Jóhannesar Sveinssonar Kjarval liggja víða í hraununum umhverfis Garðabæ og Hafnarfjörð, en hann átti sér nokkra uppáhalds staði og þangað kom hann oftar en einu sinni. Sumarið 1966 fékk Kjarval leigubílstjóra til að aka sér í áttina að Vífilsstöðum en hann málaði stundum myndir í Vífilsstaðahrauni, en í þetta sinn lá leiðin aðeins lengra. Bílstjórinn ók svokallaðan Flóttamannaveg, eða Elliðavatnsveg eins og hann heitir réttu nafni. Þegar komið var á móts við Urriðakotsholt beygði bílstjórinn út af veginum. Hann ók eftir vallgrónum vegslóða sem lá að löngu yfirgefinni herstöð sem Bretar komu sér upp í jaðri Urriðakotshrauns á stríðsárunum. Á þessum slóðum er núna golfvöllur sem félagar í Oddfellow reglunni á Íslandi létu útbúa á sínum tíma og ruddu í leiðinni herstöðva tóftunum í burtu.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – fjárrétt – Kjarval.

Kjarval fór út úr leigubifreiðinni og gekk af stað með trönur sínar, liti og striga upp í hraunið, sem nefnist á þessum slóðum Bruni, en heildarnafn þessa hluta Búrfellshrauns er Svínahraun, þó svo að Urriðakotshrauns nafnið sé oftast notað í dag. Kjarval fann sér stað á þægilega sléttum bala og horfði norður í áttina að Vífilsstöðum, sem sjást ekki frá þessu sjónarhorni þar sem norðvesturendi Vífilsstaðahlíðar skyggir á húsið. Þarna málaði hann sprungna hraunkletta og virðist hafa komið nokkrum sinnum frá vori og frameftir sumri á þennan sama stað því það eru til nokkur málverk sem hann málaði frá þessu sama sjónarhorni.

Urriðakot

Fjárhús frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Einhverju sinni hefur hann ákveðið að snúa málartrönum sínum í hina áttina og horft til suðurs í átt til Reykjanesfjalla. Beint fyrir framan hann blasti við reglulega löguð hleðsla, þrír veggir úr hraungrjóti, lítil og vel hlaðin rétt sem var opin í norðurátt. Hleðslan er þannig löguð að vel má hugsa sér að þarna hafi verið ætlunin að útbúa lítið fjárhús eða smalaskjól. Þessa fjárrétt sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi og í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd hér að ofan. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega Fjárrétt.

Gísli Sigurðsson og Svanur Pálsson tóku saman örnefnalýsingu sem fjallar um land Urriðakots og er lýsing Svans dagsett 30. mars 1988. Móðir hans, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, fæddist í Urriðakoti árið 1906 og bjó þar til 1939. Guðmundur Jónsson, bónda í Urriðakoti, fæddist þar 1866 og bjó í Urriðakoti til 1941. Foreldrar hans settust að í Urriðakoti árið 1846, þannig að þessi fjölskylda bjó á jörðinni í allt að eina öld. Hluti upplands Urriðakots er nú gjörbreyttur frá fyrri tíð.

Heimild m.a.:
-http://www.hraunavinir.net/fjarrett-kjarvals-i-svinahrauni/#more-1739

Urriðakotshraun

Fjárréttin í Urriðakotshrauni.