Færslur

Garðastekkur

Gengið var um Fógetastíg áleiðis að Garðastekk og áfram eftir Garðagötu.
Í leiðinni var hugað að LoftmyndMóslóða í Garðahrauni. Fógetastígur er hin forna leið í gegnum hraunið á leiðinni millum Reykjavíkur og Álftaness (Bessastaða). Garðagata liggur um Garðaholt frá Görðum, inn á Garðahraun við Garðastekk og sameinast Fógetastíg inni í hrauninu. Móstígur er austlægari, liggur frá Fógetastíg nyrst þar sem hann kemur inn á Garðahraun og síðan í suðlæga stefnu áleiðis að Engidalshrauni.
Í fornleifaskráningu fyrir Garðahraun segir m.a.: “Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið.
Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.” segir í Búrfellshraunörnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hraunið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðurs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna. Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness.
Á móts við núverandi Eskines og Gálgahraun austanvertGarðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið, algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn. Þessi leið hefur verið notuð fram á síðustu ár 19. aldar en sumarið 1873 var lagður vegur yfir Flatahraun frá Sjónarhóli í Engidal, og framhald á honum áleiðis á Hraunsholtið 1879. Endanleg vegtenging við Reykjavík kom þó ekki fyrr en 1897-99. Eftir það mun aðalleiðin á Álftanes hafa fylgt hinum uppbyggða vegi milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og beygt útaf honum í Engidal.”
Um Móslóðan segir skráningin: “Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó.

Gálgahraun

Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. … Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar”, segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist Fógetagötu í miðju hrauninu. Víða sjást troðningar á þessum slóðum en hvergi er hægt að rekja ákveðna götu alla þessa leið. Þessi leið hefur verið ívið greiðfærari með reiðingshesta heldur en aðalleiðin sem lá norðar.”
Um Garðastekk segir: “Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.” segir í örnefnalýsingu.

Garðastekkur

Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft. Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar. Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11×9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19×6 m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5×5 m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10×4 m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftan úr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.” Ekki er minnst á leifar fjárborgar ofan við Garðastekk, sem verður að þykja allmerkilegar mannvistarleifar.
Garðagata sést vel þar sem hún liggur upp holtið norðan Garðaholts.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Fornleifakönnun – Álftanesvegur milli Engidals og Selskarðs, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 1999.

Garðahverfi

Fjárborg við Garðastekk.

Garðahraun

Gengið var um Garðahraun. Við fyrstu sýn virðist hraunið erfitt yfirferðar, en ef rétt er farið er hvergi auðfarnara utan gangstétta Garðabæjar.
MálverkÞegar gengið er inn á hina fornu leið Fógetastíg að austanverðu inn á hraunbrúnina og henni fylgt spölkorn inn á slétt hraunið er tilvalið að venda til hægri, áleiðis að klettaborgum innan seilingar. Ofan við þær eru leifar af lítilli fjárborg (ævagamalli) og fyrirhleðslum. Augljóst er að þarna hefur verið setið yfir fé fyrrum. Hraunbollar eru grösugir og víða má sjá gróin vörðubrot, garðleifar og lítil skjól. Hið 8000 ára gamla hraun ber aldurinn vel. Í tilefni hans var boðið upp á allt sem alvöru gömul hraun geta boðið upp á; grónar sprungur, háa klapparkolla, innfelldar hraunæðar og alls kyns kynjamyndir. Á þessu svæði eru mannvistarleifar á grónum hól ofan við Eskines (sjá meira HÉR). Utar er hleðsla í sprungu, líklegt aðhald eða nátthagi. Þegar gengið var upp (suðvestur) hraunið birtust fleiri kynjamyndir og hraunstandar. Enn ofar sléttist hraunið og auðvelt er að fylgja yfirborðinu til suðurs. Á hægri hönd er svo “ógurlegt” Gálgahraunið. Á stöndum þess stóðu gráðugar veiðibjöllur og biðu eftir bráð vorsins, eggjum mófuglanna.

Fyrirmynd

Garðahraunið er ótrúlega fljótfarið enda á millum. Fyrirvaralaust komust tvífætlingarnir upp undir suðurbrún þess, að svonefndu “Kjarvalskletti” eftir að hafa lagt lykkju á leiðina til að komast niður í eina myndarlegustu klettagjána. Hvarvetna á leiðinni mátti sjá hvar fyrirmyndirnar að verkum meistarans biðu léreftsáfestingar. En líftími mannsins er bara svo skammur þegar horft er til líftíma hraunsins – nema maðurinn breyti því til hins verra. Það er nefnilega svo auðvelt og það tekur svo skamman tíma að skemma viðvarandi fegurð ef ekki er að gætt. Stundarskemmarverk (sbr. stundarbrjálæði) getur svipt komandi kynslóðir ánægjunni af fá að njóta fyrrum dásemda. Þær sá meistari Kjarval í hrauninu og þær sjá allir aðrir er hafa næmt auga fyrir fegurð landsins. Auðvitað getur sú skynjun tapast í ölduróti annarra hagsmuna, s.s. kröfu til aukinna lífsgæða og þörf á landrými undir íbúðir og vegi.

Móslóði

Ætlunin var m.a. að skoða eina af fyrirmyndum Kjarvals. Með afrit af málverki við hendina fannst staðurinn. Umhverfis voru miklar klettaborgir, en fyrirmyndin virtist léttvæg þar sem hún var þarna í hinu tilkomumikla landslagi. En af einhverri ástæðu valdi Kjarval þennan stað, enda hafði hann næmt auga fyrir myndefninu.
Austan við þennan stað og vestan við annan stað, sem hann málaði einnig á, liggur gata; Móslóði.
KjarvalÍ örnefnalýsingu segir að eftir 
honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar. Slóðanum var fylgt til norðurs. Áður en langt var komið varð gróin varða á leiðinni. Frá henni lá gatan áleiðis yfir slétt gróið hraunið og síðan undan halla þess, áleiðis niður að uppruna Fógetastígs (þar sem hann kemur inn á Garðahraunið). Gatan er vel greinileg alla leiðina, allt þar til hún mætir Fógetastíg. Þar er mosavaxin varða er gefur til kynna hvar gatnamótin eru.
Frábært veður. Gangan um Garðahraunið tók 2 klst og 2 mín.

Garðahraun

Litir eftir Kjarval í Garðahrauni skammt frá Móslóða.

 

Gálgaklettar

Við hraunjaðar Garðahrauns, skammt frá Garðastekk, er skilti um Gálgahraun. Þar segir í texta:

“Gálgahraun tilheyrir víðáttumiklu hrauni sem rann frá Búrfellsgíg fyrir um 8.000 árum. Búrfellshraun ber nokkur mismunandi nöfn og heita nyrstu hlutarnir Flatahraun, Klettar og Gálgahraun en sameiginlegt nafn þeirra er garðahraun. Gálgahraun var friðað  samt fjörum og grunnsvævi Skerjafjarðar 6. október 2009. Friðunin spannar 1.0815 km2 svæði sem samsvarar 108 kekturum.

Áhugaverðar gönguleiðir í Gálgahrauni:

Fógetagata (Álftanesgata)

Fógetagata

Fógetagata.

Gatan var alfaraleið Álftnesinga áður en vagnfær vegur var lagður snemma á 20. öld. Þeir sem áttu erindi til bessastaða kölluðu leiðina Fógetagötu á meðan fulltrúar konungs sátu staðinn. Leiðin var greiðfær í björtu en gat verið þungbúin í dimmviðri og vetrarhríð. Gatan sést greinilega þar sem hún hefur grópast ofan í hraunhelluna í aldanna rás. Að austan liggur hún um grunnt skarð við Hraunvik og kvíslast í Nyrðri Fógetagötu og Syðri Fógetagötu við Litla Skyggni. Hún Sameinast á smákafla nærra Stóra Skyggni áður en hún skiptist aftur í Garðastíg sem tengist kirkjustaðnum Görðum og Álftanesgötu sem liggur út á Álftanesið.

Móslóði

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Á meðan mór var notaður til að viðhalda glóðinni í eldstæðum þeirra sem bjuggu í kotnum á Álptaneshreppi hinum forn var hann tekinn í Hraunsholtsmýri, Lágumýri og Arnarnesmýri. leiguliðar Garðakirkju sem bjuggu í Hafnarfirði og Garðahverfi fóru ófár ferðir um Móslóða til að sækja mó í mýrarnar. Ennþá er hægt að sjá hvar vegslóðinn lá milli mýtranna og Vegamóta við Álftanesveg. Þar komu leiðirnar frá Garðahverfi, Hafnarfirði og Álftanesi saman.

Gálgaklettsleið

Gálgaklettar

Gálgaklettar – horft af Gálgaklettsleið.

Gálgaklettsleið sveigir út af Fógetagötu í miðju Gálgahrauni skammt frá Stóra-Skyggni. Auðvelt er að rata með því að taka stefnuna til norðurs og miða við Bessastaði. Nokkrar djúpar götur eru sunna Gálgakletta og hægt að fara austan eða vestan þeirra áður en komið er að Gálgaflöt.

Sakamannastígur

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Sakamannastígur er í hraunjaðrinum sunnan Lambhúsatjarnar. leiðin var einnig nefnd Gálgastígur eða Aftökustígur og gefa nöfnin til kynna hvað þarna fór fram. Stígurinn virðist hafa verið fjölfarinn en hann liggur fram hjá Litla-Gálga áður en komið er að Gálgaklettum. Þokkaleg lending er við Gálgaflöt, líklega voru sakamenn stundum ferjaðir yfir Lambhústjörn frá Bessastöðum. þei sem hefja göngu við Hraunvik geta nálgast Gálgakletta með því að fylgja strandlengjunni. leiðin liggur framhjá Eskinesi og smátjörnum Vatnagarða áður en komið er að Gálgaklettum.

Helstu staðir í Gálgahrauni:

Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgaklettar sem heita allt eins Gálgar eru þrír talsins; Vestur Gálgi, Mið Gálgi og Austur Gálgi. þeir virðast vera dekkri yfirlitum en klettarir umhverfis þá og nafnið hefur nægt til að skjóta fólki skelk í bringu í aldanna rás. Staðkunnugir kölluðu klettana einu nafni Gálgaklofning þar sem þetta var upphaflega einn klettur sem klofnaði í þrjá hluta. Samkvæmt munnmælum voru sakamenn hengdir í Gálgaklettum, en ekki eru til ritaðar heimildir sem staðfesta þetta. Samt sem áður hafa mannabein fundist nærri Gálgaklettum. Þau styðja þessar sagnir.

Eskines

Eskines

Eskines – tóftir.

Eskines er sá hluti Búrfelshrauns sem lengst nær frá eldstöðinni Búrfelli. Ysti hluti Eskiness er í 12 km fjarlægð frá miðhluta Búrfellsgígs. Nærri hraunarðrinum er kofarúst frá seinni hluta 19. aldar þegar Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum ætlaði að koma þar upp æðarvarpi. Hann lét byggja kofann og fékk vinnuhjú til að búa þar með hænsni yfir sumartímann, en æðarvarpið misheppnaðist. Eskines er nánast flæðisker sem hefur sigið í aldanna rás og drukknuðu þar 40-50 kindur í eina tíð. Huga þarf að sjávarföllum ef farið er út á nesið, einkum á stórstraumi. Ofan Eskineseyra eru Eskinesklettar.

Garðastekkur

Garðastekkur

Garðastekkur.

Garðar var einn ríkasti kirkjustaður landsins um aldir og umhverfis prestsetrið var fjöldi hjáleiga sem nefndust einu nafni Garðahverfi. Garðakirkja átti miklar lendur. Á veturnar var búsmalanum haldið til beitar í Garðahrauni og Garðastekkur gegndi mikilvægu hlutverki. Vestur af honum eru hústóftir og á hraunrana hraunin fjárborg. Þessar minjar vitna um horfna búskaparhætti.

Kjarvalsklettar

Garðahraun

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.

Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var heillaður af hraunslandsagi og fór á sömu staðina á mismunandi árstímum til að mála. Ákveðnir drangar í Klettahrauni urðu honum hugleiknir en hann málaði einng aðra kletta sem finna má í grenndinni. Kjarvalsklettar í Garðahrauni koma fyrir í nokkrum tugum málverka meistarans. Kjarval nefndi þessi málverk ýmist Hraun, Úr Gálgahrauni, Úr Bessastaðahrauni eða Frá Álftanesi.”

Taka þarf framangreindar lýsingar, sem og meðfylgjandi uppdrátt, með hæfilegum fyrirvara.

Gálgahraun

Fiskigarðar í Gálgahrauni.