Hofstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er m.a. fjallað um sögu byggðar:

Byggðasaga

Langeyri

Landamerkjavarða Garðabæjar við Hvíluhól.

“Til að geta sett niðurstöður fornleifaskráningar í fræðilegt samhengi er nauðsynlegt að hafa hugmynd um sögu byggðar á svæðinu sem er til rannsóknar. Byggðasaga er einn sá grunnur sem áætlanir um frekari rannsóknir, t.d. uppgrefti, ættu að byggja á. Vitneskja um sögu byggðar eykur líkur á að rannsóknarefni fornleifafræðinga séu mótuð og þar af leiðandi fáist markvissari niðurstöður. Ekki hefur mikið verið ritað um byggðasögu Garðabæjar, eða þeirra jarða sem bærinn byggðist úr. Fyrir áhugasama um sögu og þróun byggðar í Garðabæ má þó benda á Garðabær: Byggð milli hrauns og hlíða sem út kom 1992 en þar er að finna úttekt á upphafi byggðar innan marka bæjarfélagsins og þróun hennar allt fram á síðustu ár og Örnefni og leiðir í landi Garðbæjar frá 2001, en þar er teknar saman all ítarlegar upplýsingar um örnefni innan marka bæjarfélagsins sem og gamlar leiðir og flestar þeirra merktar samviskusamlega á loftmyndir og kort. Sökum þess að lítið hefur verið fjallað um byggðarsögu Garðabæjar er markmiðið hér að draga saman helstu staðreyndir um landnám og byggðarþróun sem þegar hafa verið settar fram en jafnframt nota fornleifaskráningu og þær fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið allt fram á síðustu ár til að bæta við myndina og dýpka skilning á byggðarþróuninni. Auk fornleifa nýtast fjölmargar ritaðar heimildir við ritun byggðasögu s.s. Landnáma, Sturlunga og Íslendingasögur, Íslenzkt fornbréfasafn, tölur um dýrleika jarða og upplýsingar um staðsetningu kirkna og bænhúsa. Sú umfjöllun sem hér fylgir um byggðasögu Garðabæjar, eins og reyndar skýrslan í heild, afmarkast við mörk bæjarfélagsins eins og þau eru nú.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Land Garðabæjar tilheyrði Álftaneshreppi, að líkindum allt frá upphafi hreppaskipulags sem á rætur að rekja í það minnsta aftur á 13. öld og sennilega allt aftur til 11. aldar, og var svo allt til 1878 er skipting varð milli Garðahrepps og Bessastaðahrepps. Almennt er álitið að bæir, þar sem kirkjur eða bænhús stóðu, hafi byggst snemma, enda hafi slík hús oftast verið stofnsett fljótlega eftir árið 1000. Aðeins ein kirkja er skráð innan marka Garðabæjar, Garðakirkja, enda greinilegt að á Görðum var þungamiðja byggðar fyrr á öldum. Ritaðar heimildir eru um eitt bænhús innan Garðabæjar og sem var landi Arnarness. Vel má vera að fleiri slík hafi verið á hinum lögbýlunum en heimildir um þau glatast. Þá eru kuml óræk sönnun um forna byggð sem komin var á fyrir 1000. Engin kuml hafa fundist innan núverandi marka Garðabæjar né örnefni sem gefa slíkt til kynna. Það er áhugavert og líklegt að kumlunum hafi verið raskað, þau ekki verið til staðar á svæðinu eða þekking um staðsetningu þeirra glatast. Landamerki og landamerkjagarðar sem skilja á milli jarða geta einnig verið fornir og gefið til kynna aldur býlanna. Tvenn slík garðlög eru skráð í Garðabæ. Hið fyrra skilur á milli Setbergs og Urriðakots en hið seinna á milli Setbergs, Hraunsholts, Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða. Einnig koma bæjarnöfn að góðu gagni þegar á að reyna að ákvarða í hvaða röð jarðir hafi byggst. Selstaða er þekkt frá þremur lögbýlum í Garðabæ, Görðum, Setbergi og Vífilsstöðum. Það getur verið vísbending um að býlin séu eldri en önnur á svæðinu.
Samkvæmt tiltækum vísbendingum mætti ætla að elsta byggða ból innan bæjarmarkanna væri Garðar. Garðastaður var metinn á 60 hundruð árið 1697, en til samanburðar var Setberg metið á 16 hundruð árið 1703. Enginn vafi er á því að öll býlin í Garðahverfi byggðust út úr Görðum og árið 1703 voru flest býlin í Garðhverfi enn hjáleigur í óskiptu landi Garðastaðar.

Garðar

Garðar.

Örnefnið ‘Garðar’ er að líkindum frumlegra en ‘Bessastaðir’og virðist hæfa betur fyrsta býlinu á Álftanesi, en að auki eru Garðar metnir nokkru verðmætari í jarðabók 1703,10 þó svo að þar kunni að liggja aðrar ástæður að baki.11 Samkvæmt Landnámu var bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, landnámsmaður á stórum hluta þess svæðis sem Garðabær nú byggir: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs.
Staðsetning Skúlastaða er, eins og áður kom fram, ekki þekkt, en tvær megin kenningar hafa verið á lofti varðandi staðsetningu landnámsbæjarins. Sú fyrri er sú að annað hvort hafi hann verið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir. En sú síðari sem verður að teljast ósennilegri, er að þeir hafi verið í Skúlatúni, sem er grasigróinn blettur á hraunbreiðu vestur af Helgafelli, við afrétti Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Það verður að teljast afar ósennilegt að landnámsbærinn hafi staðið í Skúlatúni enda er þar með öllu vatnslaust og slægjulaust. Hraunið sem Skúlatún er hluti af er að líkindum eldra en landnám Íslands og auk þess er ótrúlegt að fyrsta byggðin á svæðinu hafi verið upp til fjalla, en ekki á grónari og búsælli svæðum niður við sjó. Sá hluti Garðabæjar sem stendur utan ætlaðs landnáms Ásbjörns, var samkvæmt Landnámu byggt Vífli, leysinga Ingólfs: Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífilsstaðir draga því samkvæmt þessu nafn sitt af Vífli þessum og taldi Björn Þorsteinsson að frásögnina mætti telja vitnisburð um fyrsta kotið á landinu. Hvaða trúnað sem fólk kann að leggja á Landnámu, er ljóst að á svipuðum tíma og þeir atburðir sem hún lýsir komust fleiri jarðir, eða hjáleigur, í byggð innan núverandi marka Garðabæjar. Fornleifauppgröftur við Hofstaði í miðbæ Garðbæjar leiddi m.a. í ljós skála frá landnámstíð. Mannvirkið er næststærsti víkingaaldarskáli sem grafinn hefur verið upp hér á landi, eða um 30 x 8 m að flatarmáli og því virðist ekki hafa verið um kotbúskap þar að ræða, þó svo að á seinni öldum hafi Hofsstaðir verið metnir sem hálflenda.
Þéttbýli byrjaði að myndast í landi Garðabæjar í kringum 1950 í kjölfar skorts á einbýlishúsalóðum í Reykjavík. Fyrsti vísirinn af þéttbýli byrjaði að myndast í landi Sveinatungu og Hraunsholts og um 1960 risu ný hverfi fyrst í Flötum, sunnan Vífilsstaðavegar og í Arnarnesi. Árið 1960 var Garðabær löggiltur sem verslunarstaður og 1975 fékk bæjarfélagið kaupstaðaréttindi.”

Ritaðar heimildir um jarðir í Garðahverfi
“Garðastaður er sú jörð innan marka Garðabæjar sem elstar og mestar heimildir eru til um.

Garðar

Garðar fyrrum.

Í Hrafnkels sögu Freysgoða sem flestir telja ritaða um 1300 er minnst á Þormóð Þjóstarson sem sagður er búa í Görðum á Álftanesi. Garðar koma tvisvar fyrir í Sturlungu í báðum tilfellum í sögum sem líklega voru ritaðar á seinni hluta 13. aldar. Í Íslendingasögu segir að Gizur jarl hafi gist nokkrar nætur á Görðum hjá Einari bónda Ormssyni. Þar hitti Gizur Óláf jarl Oddson í kirkjugarðinum í Görðum. Í Þórðar sögu kakala segir frá því þegar Þórður Bjarnason dvelur hjá Einari Ormssyni í Görðum og var á endanum höggvinn í “ytri stofunni” á Görðum.
Elsta heimildin um Garða er líklega í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, frá um 1200, og er því ljóst að Garðastaður er gömul kirkjujörð. Þar stóð fram að siðaskiptum á 16. öld Péturskirkja, helguð Pétri postula. Í kirkjumáldaga frá 14. öld sést að Garðakirkja var nokkuð vel stæð og voru eignir hennar dæmigerðar fyrir kirkjur á stórbýlisjörðum.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrir 1960.

Garðakirkja var aflögð í upphafi 20. aldar er Garðasókn var sameinuð Hafnarfjarðarsókn og var síðasta messan haldin 15. nóvember 1914. Árið 1960 var Garðasókn hins vegar upptekin að nýju og fáum árum seinna var ný Garðakirkja vígð, byggð að hluta á veggjarústum hinnar eldri kirkju.
Frá árinu 1307 er varðveitt bréf er varðar tilkall Garðastaðar til rekaviðs og landrekins hvals við Grindavík en samkvæmt því áttu Garðar allan: “vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.” Í Hítardalsbók er máldagi frá 1367 sem segir að Garðakirkja, sem sé helguð Pétri postula, eigi allt heimland, Hausastaði og Selskarð. Í Vilchinsmáldaga frá 1397 er jörðunum Hlíð, Bakka, Dysjum, Hraunsholti og Hjallalandi, auk afréttar í Múlatúni, bætt við upptalninguna á eignum. Rúmlega 150 árum síðar, eða 1558, fóru fram jarðaskipti að undirlagi Knudt Stensson, Konglig Mejestetz Byfalningsmann, við séra Lopt Narfason í Garðakirkju, er færðu Hlíð undir Bessastaði og í konungseign, en í staðinn fengu Garðar Vífilsstaði, sem fram að því höfðu tilheyrt Viðeyjarklaustri. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns voru Garðar metnir á 60 hndr árið 1697.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

Í örnefnaskrá Kristjáns Eiríkssonar segir að Hafnarfjörður eigi þá 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti af Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …”. Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…”
Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Í Garðahverfi eru nokkrar litlar jarðir og hjáleigur sem byggst hafa út frá Görðum og sem frá fornu fari hafa tilheyrt kirkjujörðinni. Ágangur sjávar og landbrot virðist hafa hrjáð allar jarðirnar í Garðhverfi, t.a.m. segir í Jarðabók Árna og Páls að bæjarhús Bakka hafi þurft að færa þrisvar frá sjó og árið 1918 var búið að færa Austurbæjarkálgarðinn á Dysjum fimm sinnum síðustu 28 árin á undan sökum landbrots.

Garðahverfi

Dysjar og Vestur-Dysjar (h.m.).

Á Dysjar er fyrst minnst í Vilchinsmáldaga frá 1397 og er jörðin sögð eign kirkjunnar á Görðum. Í skrá frá 1565 yfir byggðar jarðir Garðakirkju er minnst á Dysjar og er jörðin þá ekki lengur talin hjáleiga. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Dysjar enn eign Garðakirkju og teljast lögbýli í óskiptu Garðastaðalandi og er jarðadýrleiki því óviss, því vitanlega borgaði jörðin enga tíund. Árið 1971 eignaðist Hafnarfjörður hluta úr landi Dysja.
Líkt og Dysjar kemur Bakki fyrst fyrir í Vilchinsmáldaga frá 1397 og svo aftur í skrá yfir byggðar jarðir í eign Garðastaðar frá 1565 og telst þar ekki hjáleiga.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir að Bakki sé lögbýli og hafi fullt fyrirsvar, en standi í óskiptu landi Garðastaðar og því er dýrleiki óviss. Í Jarðabók segir jafnframt: “Þessum bæ fylgdi til forna Garðamýri (ein mýri þarí hverfinu … Mýrina tók hjer frá Sr. Þorkell Arngrímsson og lagði til heimastaðarins sökum eklu á torfristu og útheyss slægjum og færðist so aftur landskuldina …” Byggð á Bakka lagðist af árið 1910.

Garðahverfi

Pálshús.

Elstu heimildir um Pálshús eru frá 1565 og er býlið þá hjáleiga í landi Garða. Árið 1703 er Pálshús enn fyrirsvarslaus hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi.
Svipaða sögu er að segja af Nýjabæ, á jörðina er fyrst minnst 1565 í skrá yfir byggðar jarðir í landi Garða. Í jarðabók frá upphafi 18. aldar er Nýibær kallaður hálfbýli, “því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.”
Á Ráðagerði og Miðengi er ekki minnst í heimildum fyrr en 1703 og þá sem hjáleigur Garða í óskipu Garðastaðalandi. Þar að auki segir í Jarðabók að Miðengi hafi fyrst byggst úr Hlíðarlandi á fyrri hluta 17. aldar og hafi í manna minnum haft hálft fyrirsvar.

Garðahverfi

Hlíð.

Móakot byggðist einnig úr Hlíð og segir í jarðabók frá 1703 að það hafi gerst fyrst “í þeirra manna minni, sem nú lifa” og er elsta heimildin um Móakot einungis 5 árum eldri, frá 1698. 16. febrúar það ár var Oddi Ásbjarnarsyni ábúanda á Móakoti stefnt fyrir Kópavogsþing sökum lönguhöfuðs sem reist hafði verið á grenispýtu, en á þinginu gekkst vinnumaður á Görðum við því að hafa reist stöngina í þeim yfirnáttúrulega tilgangi að kalla fram betra veðurfar til fiskveiða. Móakot fór í eyði árið 1930.
Árið 1397 er Hlíð eign kirkjunnar á Görðum og er árið 1565 er á lista yfir byggðar hjáleigur í landi Garða. Í Jarðabók Árna og Páls árið 1703 er Hlíð enn hjáleiga Garða og tekið fram að jörðin hafi verið “lögbýli áður en Miðengi var þar frá tekið og var þar þá fyrirsvar að menn meina.”.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

Hausastaðir og Selskarð voru eign Garða þegar árið 1367, og eru það einu jarðirnar sem minnst er á í Hítardalsbók sem voru í landi Péturskirkjunnar á Görðum. Því er mögulegt að Hausastaðir og Selskarð séu elstu jarðirnar sem byggðust út frá Garðastað, en á aðrar jarðir er ekki minnst fyrr en í fyrsta lagi 1397. Á báðar jarðirnar er svo minnst árið 1565, í skrá yfir byggðar jarðir staðarins sem ekki voru hjáleigur. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hausastaðir “lögbýli kallað því það hefur fult fyrir svar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðadýrleiki óviss.” Frá sama ári segir um Selskarð í jarðabók að jarðadýrleiki sé einnig óþekktur og að árið 1703 hafi verið einn ábúandi, 1 kúgildi og landskuld hafi verið 60 ánir.

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Síðasta jörðin í Garðahverfi er Hausastaðakot. Á þá jörð er ekki minnst fyrr en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 og er því ljóst að hún er að líkindum eitthvað yngri en hinar jarðirnar. Hausastaðakot var hjáleiga í óskiptu Garðastaðalandi, en samkvæmt Jarðabókinni var það mál manna að “hún hafi til forna legið til Hausastaða og verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslán og mjeltunnu, sem hvorutveggja var áður skilið í landskuld auk þeirra sem nú er.”

Hofstaðir

Hofstaðir – dæmi um vel frágengnar fornleifar í þéttbýli. Fornaldarskálinn sést vel á loftmyndinni.

Ritaðar heimildir um jarðir utan Garðahverfis Nú verður rakin stuttlega byggðasaga þeirra jarða sem eru utan Garðahverfis. Jarðirnar koma fremur sjaldan fyrir í gömlum ritheimildum. Elsta heimildin um Hofstaði er frá 1395, en á hinar er ekki minnst fyrr en á 16. og 18. öld. Þó er ljóst að flestar jarðanna hljóta að vera þó nokkuð eldri en ritheimildir gefa vísbendingar um. Slíkt má fullyrða, m.a. vegna tiltækra upplýsinga um landnámsskála á Hofstöðum og þeirra upplýsinga sem nú hafa komið í ljós í Urriðakoti. Í Landnámu er einnig talað um Vífilstóftir, sem án efa er undanfari Vífilsstaða og er það án efa vísbending um háan aldur jarðarinnar. Jarðirnar utan Garðahverfis verða hér teknar fyrir í þeirri röð sem þær komu fyrir í Jarðatali Johnsens frá 1847.

Setberg

Setbergsbærinn 1772 – Joseph Banks.

Setberg er vestust jarðanna innan marka Garðabæjar og tilheyrir að hluta Hafnarfirði. Elstu varðveittu ritheimildir um Setberg eru frá fyrri hluta 16. aldar. Til er kvittunarbréf frá árinu 1505 er staðfestir að Grímur Pálsson sé skuldlaus Þorvarði Erlendssyni vegna kaupa þess fyrrnefnda á jörðinni Setbergi. Átján árum síðar, eða 1523, var útgefið annað sölubréf fyrir eignaskiptum á jörðinni, en Tómas Jónsson hafði þá greitt bræðrunum Pétri og Halli Björnssonum að fullu fyrir Setberg en í þessu bréfi eru landamerki jarðarinnar m.a. talin upp. Af jarðabréfum má ráða að upp úr miðri 17. öld skipti Setberg nokkrum sinnum um eigendur. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var Setberg metið á 16 hndr og er í eign Þóru Þorsteinsdóttur. Á þeim tíma er Setberg eina jörðin innan núverandi marka Garðbæjar sem var í einkaeign og hafði svo verið í það minnsta frá því fyrir 1505 samkvæmt þeim eignaskiptabréfum sem varðveist hafa. Árið 1912 keypti Hafnarfjörður hluta af Setbergslandi, allt til Lækjarbotna úr neðstu jarðabrú í Kaplakrika.

Urriðakot

Urriðakot.

Óvíst er um aldur Urriðakots, en jörðin virðist hafa verið í eigu kirkjunnar fram á miðja 16. öld. Nafn Urriðakots kemur fyrst fyrir í jarðaskiptabréfi frá 1563 en jörðin er þá ein 19 jarða sem renna til konungs í skiptum fyrir jafnmargar jarðir til Skálholtsstóls. Næstu heimildir er varða Urriðakot eru frá 18. öld og er þá jörðin enn í konungseign. Í Jarðabók frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, en Urriðakot er þar kallað hálfbýli því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móti lögbýlisjörðum og er í konungseign. Árið 1847 var Urriðakot svo komið í bændaeign og metið á 16 hndr. Ekki er loku fyrir það skotið að Urriðakot hafi á sínum tíma byggst út frá Setbergi. Nú liggja mörk Setbergs og Urriðakots um Urriðakotsvatn og um miðjan Hrauntanga sem skagar út í vatnið að norðanverðu. Á Hrauntanga er fornt garðlag sem kallast Lambhagagarður og teygir það sig inn á báðar jarðir. Lambhagagarður er eldri en landamerkjagarðurinn sem skiptir jörðunum norður af Urriðakotsvatni og sem gengur þvert á Lambhagagarð. Hið forna garðlag er því líklegur vitnisburður þess að eitt sinn hafi Setberg og Urriðakot verið ein og sama jörðin. Nöfn jarðanna gætu gefið vísbendingu um hvor sé eldri, en “kot” örnefni eru yfirleitt talin yngri en nöfn sem vísa í náttúruaðstæður, líkt og “Setberg”.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Byggð á Vífilsstöðum á mögulega upphaf sitt á landnámsöld, eins og áður kemur fram, en annars eru ritheimildir hljóðar varðandi Vífilsstaði fram undir miðja 16. öld, en frá þeim tíma eru til talsvert af heimildum, allar stjórnsýslulegs eðlis. Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi 1547-1548 og aftur getið í fógetareikningum 1549-1550. Vífilsstaðir koma einnig fyrir í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara frá 1550 og í fógetareikningum 1552. Ári síðar, eða 1553, er nefndur ábúandi á Vífilsstöðum í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. Að undirlagi Knudt Stensson Konglig Majestetz Byfalningsmann gengu Vífilsstaðir undir Garðakirkju árið 1558, en jörðin hafði fram að þeim tíma tilheyrt Viðeyjarklaustri. Var það gert í skiptum fyrir Hlíð sem var tekin undir konungsjörðina Bessastaði. Minnst er á Vífilsstaði í skrá yfir byggðar jarðir Garðakirkju frá árinu 1565. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er dýrleiki jarðinnar sagður óviss sökum þess að Vífilsstaðir eru þá enn Garðakirkjueign,75 og dýrleiki er ekki heldur tilgreindur Jarðatali Johnsens frá 1847. Vífilsstaðir eru líklegast einna þekktastir fyrir að vera aðsetur heilsuhælis fyrir berklasjúklinga, en það var sett á laggirnar árið 1910. Árið 1974 lagðist búrekstur lagðist af á Vífilsstöðum.

Hagakot

Fyrrum bæjarstæði Hagakots – Tjarnarflöt 10.

Litlar heimildir frá fyrri öldum hafa varðveist um Hagakot. Árið 1703 var jörðin í konungseign og hálflenda með fyrirsvar til hálfs á við lögbýli. Bæjarrústir Hagakots eru nú horfnar með öllu, en voru áður þar sem nú stendur íbúðarhúsið að Tjarnarflöt 10.

Björn Konráðsson

Björn Konráðsson, oddviti Garðahrepps í 28 ár.

Hofsstaðir eru næsta jörð norðan Hagakots og er ljóst að búseta hófst þar mjög snemma. Skáli frá landnámsöld fannst við fornleifauppgröft skammt vestur af núverandi bæjarstæði Hofstaða. Hofstaðabærinn stóð þar frá upphafi og fram á 13. öld, en var síðan fluttur, mögulega á þann stað sem núverandi bæjarhús stendur. Elsta byggingarstigið er veglegur víkingaaldarskáli sem ber þess vitni að stórbýli hafi verið á Hofstöðum í fornöld, þó ekki sé minnst á jörðina í Landnámu. Fyrst er minnst á Hofstaði í rituðum heimildum á 14. öld en þá komust Hofsstaðir í eigu Viðeyjarklausturs. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 eru Hofsstaðir sagðir í eigu konungs og hafa að líkindum orðið það við siðaskiptin um miðja 16. öld. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 voru Hofsstaðir enn í konungseign og metnir á 10 hdr.82 Búskapur lagðist af á Hofstöðum árið 1965 og keypti Garðahreppur jörðina undir íbúðahúsalóðir ári seinna.

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Fátæklegar ritheimildir hafa varðveist um Arnarnes. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 er Arnarnes konungsjörð og jarðadýrleiki því óviss.84 Telja má þó líklegt byggð í Arnarnesi sé mun eldri en þar er eina þekkta bænhúsið innan núverandi merkja Garðabæjar. Á nesinu eru þekkt tvö býli, Arnarnesið sjálft og svo Litla Arnarnes, sem einnig er þekkt sem Arnarnes gamla og Arnarneskot. Ekkert er minnst á kotið í jarðabókinni og gæti það verið vísbending um að Litla Arnarnes kunni að vera yngra en frá árinu 1703 eða ekki í byggð á þeim tíma. Á Arnarnesinu eru þekktar þrjár dysjar sakamanna sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi og ein þeirra, mun vera dys Hinrik Kules sem dæmdur var til dauða fyrir morð þann 23. febrúar 1582. Minna er þekkt um hinar dysjarnar tvær, en þær ganga jafnan undir nöfnunum Þorgarðsdys og Þormóðsleiði. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var Arnarnes enn í konungseign og metin á 20 hdr, og því hæst metna jörðin innan núverandi marka Garðabæjar utan Garðastaðar sjálfs.

Garðabær

Garðabær 1969.

Ekki er vitað hvenær Hraunsholt byggðist fyrst, en líkt og með fleiri jarðir innan marka Garðabæjar þá kann jörðin að vera býsna gömul þótt nafn hennar komi ekki fyrir í mörgum ritheimildum fyrri alda. Elsta þekkta heimildin um jörðina er frá árinu 1565, og er Hraunsholt þá ein jarða Garðakirkju. Í byrjun 18. aldar var jörðin enn í eigu Garðakirkju, en óvíst var á þeim tíma hvort kalla skildi jörðina hálflendu eða lögbýli “því þar er margoft ekki fyrirsvar nema til helminga, utan þegar vel fjáðir menn hafa ábúið, og stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi”.
Þó svo að vísbendingar ritheimilda séu fremur þöglar um upphaf og þróun byggðar innan Garðabæjar er ýmislegt sem bendir til að byggð hafi snemma hafist á þessu svæði og jafnvel orðið nokkuð þétt. Til þess benda m.a. uppgreftir á Hofstöðum og í Urriðaholti og Garðahverfið allt. Einnig má vera að á næstu árum/áratugum muni frekari fornleifarannsóknir á svæðinu leiða í ljós mun ítarlegri vitnesku um elstu byggð á svæðinu og þróun hennar.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Garðabær

Núverandi bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson.