Kíkt var á “Maríhellana” í Heiðmörk. Um er að ræða nútímalegt samheiti tveggja hella, sem notuð voru sem fjárskjól fyrrum; Urriðakotshelli og Vífilsstaðahelli. Í sumum heimildum er talað um Vífilstaðahelli í nyrsta hellinum og Urriðakotshelli í miðhlutanum. Á seinni tímum hefur syðsti hluti Urriðakotshellis verið nefndur Draugahellir, en hann þjónaði áður engum sérstökum tilgangi. Tiltölulega nýlega hafa hellarnir fengið samnefnið Maríuhellar.
Miðhlutinn (Urriðakotshellir) er oft notaður af fólki til dægrastyttinga, einkum þegar vel viðrar. Í austurhluta jarðfallsins er Maríuhellir. Landamerki bæjanna, Urriðakots og Vífilsstaða, eru á urðarhól (Dyngjuhól/Hádegishól) skammt ofan við hellana.
Syðsti hellirinn (Draugahellir) er með þröngu opi, en þegar niður er komið er um rúmgóðan helli að ræða. Sver hraunsúla er í honum, sem hægt er að umhverfis og einnig afhellir.
Nyrsti hellirinn (Vífisstaðahellir) er aðgengilegur. Hann er í stóru jarðfalli, en þegar inn er komið tekur við nokkuð rúmgóð og löng hraunrás með mold í gólfi. Allt um kring vaka steinrunnin tröll yfir munnunum. Einhverjum húmaristanum fannst tilvalið að nefna Vífilsstaðahelli “Jósepshelli” eftir að hafa komið í “Maríuhelli”, en það lýsir fyrst og fremst fákunnáttu þess sama á staðháttum.
“Maríuhellar” eru ágætt dæmi um hversu illa hægt er að leika hella ef of margir hafa aðgang að þeim. Þeir hafa greinilega liðið fyrir nálægðina. Ef einhvern tímann hefur verið falleg hraunmyndun í einhverjum þeirra þá eru hún horfin núna. Sama gildir og um aðra hella í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Auðvelt er að eyðileggja nokkurra þúsund ára steinmyndanir á skömmum tíma af fákunnugum. Jafnan hendir fólk miklu drasli af sér í hellana, en þeir hafa þó verið hreinsaðir af og til. Þegar þetta er ritað var umgengnin með besta móti.
Mikilvægt er að fólk, sem vill sækja hella heim, fari varlega og gæti þess að skemma ekki verðmæti, sem í þeim eru. Það á reyndar við um allt annað – allstaðar – alltaf.
Frábært veður.