Færslur

Búrfell

Árni Hjartarson skrifaði um “Búrfellshraun og Maríuhella” í Náttúrufræðinginn árið 2009:

Búrfellshraun og Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

“Búrfell upp af Hafnarfirði er gígur af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur orðið á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli; það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum (1. mynd). Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Um þetta og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna. Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram á nokkrum stöðum nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Stekkjarhraun, Selhraun, Kaldárselshaun, Hafnarfjarðarhraun, Balahraun, Garðahraun og Gálgahraun.”

Búrfell

Búrfellsgígur.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun, lét gera á því aldursgreiningar og ritaði um það – sjá  HÉR.

Flest sem síðar hefur verið skrifað um hraunið grundvallast á rannsóknum hans, m.a. þessi grein.

Stærð hraunsins og aldur Mikil misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.
Gígurinn og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanesi. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota.

Maríuhellar

Maríuhellar (Urriðakotsfjárhellir).

Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.

Selhraun

Selhraun vestan Kapelluhrauns.

Nýverið benti Haukur Jóhannesson greinarhöfundi á að Búrfellshraun sæist hugsanlega á yfirborði á dálitlum bletti í svokölluðu Selhrauni sunnan við Straumsvík. Á jarðfræðikorti hefur þetta hraun verið nefnt Selhraun 1 og uppruni þess talinn óljós en tekið er fram að um dyngjuhraun sé að ræða. Ekkert í landslaginu mælir gegn því að Búrfellshraun gæti hafa runnið þarna yfir en bæði útlit, berggerð og dílasamsetning, sem og aldursafstaða hraunsins til annarra hrauna, benda til þess að þetta sé Búrfellshraunið.

II. Lambagjárlota.

Lambagjá

Lambagjá.

Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.

III. Urriðavatnslota.
BúrfellshraunÞegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi. Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok.
Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa og hrauntraðir og hellar í hraunum þurfa oftast nokkurn tíma til að myndast. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Land hefur sigið nokkuð á höfuðborgarsvæðinu síðan þetta var og að auki stóð sjór nokkrum metrum lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú, svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina. Í borholunni við skolphreinsistöðina hjá álverinu í Straumsvík sést að sjávarborð var a.m.k. 8 m neðar en nú og Guðmundur Kjartansson nefnir að aðstæður í Hafnarfirði sýni að sjór gæti hafa staðið um 10 m neðar en í dag þegar hraunið rann.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 24 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson álítur meðalþykkt þess vera um 20 m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undir og ofan á því og birti um það grein í Náttúrufræðingnum. Þegar aldursgreiningarnar eru umreiknaðar yfir í raunaldur fæst að fjörumórinn undir hrauninu er um 8100 ára. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra, eða að líkindum rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr. Á þessum tíma er talið að hið almenna yfirborð heimshafanna hafi staðið um 10 m lægra en nú. Athugunum á hrauninu, sem fyrr hefur verið greint frá, ber saman við þetta.

Hrauntraðir.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð, við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin sem enn sést liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá, svo sem fyrr er nefnt. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá á fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20–30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar. Þar er Hrafnagjá, en við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir traðanna eru oft 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim er einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.

Hraunhellar.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins. Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er meira en 20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta. Hraunhellum má skipta í nokkra flokka eftir því hvernig þeir mynduðust; hraunrásarhella, gíghella, hraunbólur, sprunguhella o.fl.
Í Búrfellshrauni eru nær allir þeir hellar sem ná máli hraunrásarhellar. Skútarnir í hrauninu eru ýmist í hraunrásum, undir hraunbólum eða myndaðir á annan hátt. Hraunrásarhellar eru orðnir til við rennsli hrauns í hraunrás undir storknuðu yfirborði. Þegar kvika berst ekki lengur til hraunrásarinnar getur hún tæmt sig ef landhalli er nægilegur og þá myndast hellir. Oft er þakið svo þunnt að það hrynur ofan í hraunrásina og því stundum erfitt að segja til um hvar einn hellir endar og annar hefst.

Skátahellir

Búrfellshraun – Skátahellir.

Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Í hinni miklu hellabók Björns Hróarssonar eru nafngreindir 13 hellar og skútar í hrauninu, en þó munu þeir vera fleiri.
Maríuhellar er samheiti á hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns (Urriðakots) og Vífilsstaða rétt við veginn upp í Heiðmörk.
Björn Hróarsson lýsir stuttlega þremur hellum á þessum slóðum, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli; auk þess minnist hann á fjórða hellinn, Jósefshelli.

Samheitin Vífilsstaðahellar, Fjárhellrar, Vífilsstaðafjárhellrar og Urriðakotsfjárhellrar hafa einnig sést á prenti um þessa hella. Nafnið Maríuhellar virðist gamalt eins og fram kemur í landamerkjalýsingu Urriðakots sem dagsett er 20. september 1834 og birt er í riti Guðlaugs R. Guðmundssonar um örnefni og leiðir í landi Garðabæjar: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar, fram í vörðuna sín megin á Norðurhellragjárbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni, þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni, úr henni í Álptatanga, þaðan í hellu sem er í miðjum Hrauntanganum, kölluð Sílingarhella, úr henni í uppmjóan háan klett með klofavörðu upp á sín megin Stórakróks og í gamlar fjárréttargrjótgirðingar í Moldarhrauni, og upp í áðurnefnda Urriðakotsfjárhellra.“

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Þessi lýsing var þinglesin 1890 en þá gerði umboðsmaður Garðakirkju eftirfarandi athugasemd um leið og hann skrifaði undir skjalið: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju, að öðru leyti en því að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilsstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það sem Vífilsstaðir eiga sjerstaklega“. Af þessu skjali má ljóst vera að Maríuhellanafnið er gamalt og að ósamkomulag hafi ríkt um eignarhald á hellunum.

Engar sagnir fylgja þessari nafngift en Maríuvellir (Maríuflöt) eru illi hrauns og hlíðar þarna skammt frá, þar sem bílastæði eru nú. Mörg dæmi eru um það að Maríuörnefni tengist kirkjum sem helgaðar voru guðsmóðurinni. Í Múlafjalli í Kjós er t.d. hellir sem nefnist Maríuhellir og á Reynivöllum er Maríukirkja. Í máldaga frá 1397 segir að kirkjan eigi: „… sauðahöfn í Múlafjalli og skjól í Maríuhelli og skal sá telja eftir hverja hríð er í Múla býr.“

Maríuhellar

Maríuhellar.

Þetta þýðir að bóndinn í Múla átti að telja kindurnar við Maríuhelli eftir hvert hríðarveður, vafalaust til gæta þess að enga vantaði. Reynivallakirkja átti einnig sölvafjöru þar sem heitir Maríusker og rétt til kolagerðar á Maríuhjalla í Ingunnarstaðaskógi í Brynjudal. Þarna virðast ótvíræð tengsl kirkju og örnefnis. Vífilsstaðir voru lengi í eigu Garðakirkju en hún er helguð Pétri postula svo ekki er nafnið þaðan runnið. Garðakirkja eignaðist jörðina 1558 en þar áður hafði hún lengi tilheyrt Viðeyjarklaustri. Kirkjan og klaustrið í Viðey voru helguð Maríu mey og því er líklegast að nafn hellanna sé frá þeim tíma er þeir voru eign og hlunnindi klaustursins. Ekki er vitað hvenær Vífilsstaðir féllu undir Viðey en klaustrið þar var stofnað um 1225 og starfaði til siðaskipta.
Maríuhellanafnið gæti því verið frá 13. öld. Maríuhellarnir þrír eru rétt við bílveginn og í sömu hraunrás svo í augum sumra hellarannsóknamanna er hér um einn þrískiptan helli að ræða sem alls er 150–160 m langur ef mælt er eftir meginlínu.
Þarna er hægt að ganga ofan í allmikið niðurfall um 15 vel hlaðin hraunhelluþrep. Þar niðri eru tveir víðir hellismunnar hvor gegnt öðrum. Niðurfallið virðist vera gamall viðmiðunarpunktur á landamerkjum Urriðakots (Urriðavatns) og Vífilsstaða. Urriðakotshellir gengur suður frá niðurfallinu. Hann er víðastur yst en dregst saman og lækkar innar. Auðvelt er að komast 22 m inn en þá taka við þröng göng sem ekki verður skriðið í. Gat er á hellisþaki. Þarna átti Urriðakot fjárból. Vífilsstaðahellir gengur til norðvesturs frá niðurfallinu. Aðeins 22 m eru á milli hellanna. Hann er 22 m langur undir þaki, fallega hvelfdur og 3–4 m á hæð. Hann er mun rúmbetri en Urriðakotshellirinn þótt lengdin sé sú sama. Þröngur munni er þar við hellisendann sem frá niðurfallinu snýr og því hægt að ganga í gegnum hellinn. Talsvert tað var þar á gólfinu fram eftir 20. öld en það var að lokum allt stungið út og notað að Vífilsstöðum.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðafjárhellir.

Úti fyrir munnanum þrönga er annað niðurfall þar sem hellisþakið hefur hrunið. Það er grunnt en 22 m langt. Draugahellir er vestastur Maríuhella, 18 m norðvestur af munna Vífilsstaðahellis. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr föllnu þakinu. Fyrst er farið 3,5 m niður en síðan má smeygja sér milli stórgrýtis og veggjar eftir hallandi göngum uns komið er í víðara rými innan við hrunið, á 5–6 m dýpi í hrauninu. Þar verður fyrir gild hraunsúla á vinstri hönd, 20 m að ummáli, en rúmgóð og hvelfd hellisgöng þar inn af. Hellirinn er í heild 65–70 m langur inn í botn en er mjög lágur innst. Víð hvelfing með kúpulaga þaki gengur út frá honum til hægri. Allmikið hrun hefur orðið þar úr loftinu svo hrúgur af stórgrýti eru á gólfi. Annars staðar er lítið um hrun. Hellirinn gengur inn undir þjóðveginn upp í Heiðmörk þannig að vel heyrist í bílum sem aka yfir hann. Nafn hellisins er tilgreint í örnefnaskrá Guðlaugs R. Guðmundssonar, en engin saga fylgir því. Eitthvað er þó órökrétt við það að draugar haldi til í Maríuhellunum.

Jósefshellir (?) er 70 m austan við Maríuhella skammt frá göngustíg um hraunið. Þar er allmikið niðurfall en norður úr því gengur lágur hvelfdur hellir, 22 m á lengd en um 12 m víður yst. Mold er á gólfi og ljóst að þar hefur sauðfé haft afdrep þótt óvíst sé hvort um gamlan fjárhelli sé að ræða. Í hellabók sinni frá 19908 segir Björn Hróarsson að skammt frá Maríuhellum sé lítill hellir sem nefndur sé Jósefshellir og oftast talinn með Maríuhellum. Í hellabókinni frá 2009 nefnir Björn þennan helli, Vífilsstaðahelli en þar er Jósefshellir horfinn úr hellatali.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Örnefnaflækja.
Af ofanrituðu sést að óvissa er um nöfn hellanna. Hér er að mestu fylgt lýsingu Guðlaugs R. Guðmundssonar10 en einnig var farið á vettvang með Svani Pálssyni, sem er fæddur í Urriðakoti 1937 og þekkir öllum betur örnefni á þessum slóðum. Guðlaugi og Svani ber saman um nafngiftir hellanna þriggja en hvorugur þeirra kannast við Jósefshelli. Samkvæmt lýsingu Björns Hróarssonar frá 2009 og hnitum sem hann gefur upp, slær hann saman Vífilsstaða- og Urriðakotshellum og nefnir einu nafni Urriðakotshelli.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Um Draugahelli er hann sammála Svani og Guðlaugi en hellinn sem hann nefnir Jósefshelli í bók sinni og kallar hann Vífilsstaðahelli í stóru hellabókinni frá 2006, sem fyrr er greint. Enn annar skilningur kemur fram í örnefnaskrá Vífilsstaða frá 1991; þar er Vífilsstaðahellir nefndur Maríuhellir en Urriðakotshellir kallaður Jósefshellir. Þessari örnefnaskrá ber ekki saman við eldri skrár og virðist hér komið dæmi um nýlega örnefnaþróun því engar heimildir finnast um Jósefshelli fyrr en 1990.
Upphaflega virðist Maríuhellanafnið hafa átt við fjárhellana tvo sem kenndir eru við Vífilsstaði og Urriðakot. Seinna bætist Draugahellir í hópinn enda í raun hluti af sömu hellasamstæðu. Örnefnið er líklega ungt og sést ekki á prenti fyrr en undir lok 20. aldar. Að lokum kemur fjórði hellirinn til sögunnar, kenndur við Jósef, enda réttlætismál að eigna honum helli nálægt hellum eiginkonu sinnar.

Niðurstöður.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – Þorsteinshellir.

Helstu niðurstöður þessarar greinar eru þær að Búrfellshraun við Hafnarfjörð sé stærra en áður hefur verið talið og eru færð rök fyrir því. Hraunflóð virðist hafa fallið til Straumsvíkur en nú er sú hrauntunga að mestu hulin yngri hraunum. Rannsóknir benda þó til að Selhraun 1 sunnan Straumsvíkur sé hluti Búrfellshrauns. Saga Búrfellsgossins er rakin og henni skipt upp í fjóra þætti. Birt er nýtt kort af Maríuhellum og reynt er að greiða úr örnefnaflækju sem þeim tengist. Hér er um einn þrískiptan hraunrásarhelli að ræða og stakan helli, Jósefshelli, þar skammt frá. Nafnið Maríuhellar virðist hafa fest við þá þegar þeir voru eign Maríukirkjunnar og klaustursins í Viðey. Örnefnið er því gamalt og gæti verið frá 13. öld.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 3.-4. hefti (01.03.2009), Árni Hjartarsson, bls.  93-100.
https://timarit.is/page/6468192?iabr=on#page/n27/mode/2up/search/búrfellsgjá

Maríhellar

Maríuhellar.

Vífilsstaðahraun

Lagt var af stað inn í Heiðmörkina til að finna Regnbogann. Fyrst var þó farið í Maríuhellana norðan Dyngjuhóls (Hádegishóls), en þeir eru þrír talsins. Þeir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðri hellirinn heyrði til Urriðakots og var nefndur Urriðakotshellir, en hinn Vífilsstöðum og því nefndur Vífilsstaðahellir.
Sá hellir, sem er mest áberandi, er næst veginum inn í Heiðmörk (Urriðakotshellir). Hann er stór opin hraunrás í stóru jarðfalli. Gengið var ofan í hana að vestanverðu og síðan í gegnum nálægt 20 metra langa rás uns komið var í stórt, grasi grói, jarðfallið. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í skemmtilegan sal. Innst í honum er gat í háu loftinu þar sem sér til himins.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Vestasti hellirinn (Draugahellir) er skammt norðvestar. Farið var ofan í hann um tiltölulega þrömgt op í sprungu. Þegar niður ar komið opnaðist stór hraunrás. Fremst í henni er sver hraunsúla, sem hægt er að ganga í kringum. Rásin heldur áfram um 30-50 metra til norðvesturs – allt eftir því hvað fólk vill beygja sig mikið niður. Út frá henni til norðurs (hægri) liggur önnur rás. Opið inn í hana er tiltölulega lágt, en fyrir innan er rúmgóður hellir. Tilvalinn krakkahellir.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Nyrsti Maríuhellirinn (Vífilsstaðahellir) er í hraunkatli skammt norðar. Kanturinn liggur norðvestur og austur. Hægt er að ganga beint inn í hellinn til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og utan í rásveggnum hins vegar. Þessi hluti er stuttur. Hins vegar er hægt að fara nokkurn spöl eftir vestari hlutanum. Opið er grýtt og nokkuð þröngt, en þegar inn er komið er hægt að ganga eftir rásinni nokkurn spöl niður í hraunið.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Ef einhvern tímann hafa verið fallegar hraunmyndanir í þessum hellum þá eru þær horfnar núna. Hins vegar eru hellarnir mjög aðgengilegir – inni í miðju höfuðborgarsvæðinu – og hægt að fara með börn í þá til að sýna þeim hellafyrirbæri.
Eftir svolitla leit í hrauninu kom göngufólkið auga á Regnbogann. Hann er steinbrú, sem hefur haldið sér þegar umhverfð hrundi niður í hraunhvarf. Þegar gengið var undir Regnbogann óskaði sérhver göngumanna sér í þegjanda hljóði því sagan segir að “sá sem kemst undir Regnbogann öðlist eina ósk og muni hún rætast undantekningarlaust”. Vinsælt er að óska sér huglægra heilla sjálfum sér og öðrum til handa. Það er þó undir hverjum og einum komið.
Frábært veður – bjart og hlýtt, nema í hellunum. Gangan tók 25 mínútur.

Maríhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.

Maríhellar

Kíkt var á “Maríhellana” í Heiðmörk. Um er að ræða nútímalegt samheiti tveggja hella, sem notuð voru sem fjárskjól fyrrum; Urriðakotshelli og Vífilsstaðahelli. Í sumum heimildum er talað um Vífilstaðahelli í nyrsta hellinum og Urriðakotshelli í miðhlutanum. Á seinni tímum hefur syðsti hluti Urriðakotshellis verið nefndur Draugahellir, en hann þjónaði áður engum sérstökum tilgangi. Tiltölulega nýlega hafa hellarnir fengið samnefnið Maríuhellar.

Maríhellar

Maríuhellar.

Miðhlutinn (Urriðakotshellir) er oft notaður af fólki til dægrastyttinga, einkum þegar vel viðrar. Í austurhluta jarðfallsins er Maríuhellir. Landamerki bæjanna, Urriðakots og Vífilsstaða, eru á urðarhól (Dyngjuhól/Hádegishól) skammt ofan við hellana.
Syðsti hellirinn (Draugahellir) er með þröngu opi, en þegar niður er komið er um rúmgóðan helli að ræða. Sver hraunsúla er í honum, sem hægt er að umhverfis og einnig afhellir.
Nyrsti hellirinn (Vífisstaðahellir) er aðgengilegur. Hann er í stóru jarðfalli, en þegar inn er komið tekur við nokkuð rúmgóð og löng hraunrás með mold í gólfi. Allt um kring vaka steinrunnin tröll yfir munnunum. Einhverjum húmaristanum fannst tilvalið að nefna Vífilsstaðahelli “Jósepshelli” eftir að hafa komið í “Maríuhelli”, en það lýsir fyrst og fremst fákunnáttu þess sama á staðháttum.

Maríuhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.

“Maríuhellar” eru ágætt dæmi um hversu illa hægt er að leika hella ef of margir hafa aðgang að þeim. Þeir hafa greinilega liðið fyrir nálægðina. Ef einhvern tímann hefur verið falleg hraunmyndun í einhverjum þeirra þá eru hún horfin núna. Sama gildir og um aðra hella í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Auðvelt er að eyðileggja nokkurra þúsund ára steinmyndanir á skömmum tíma af fákunnugum. Jafnan hendir fólk miklu drasli af sér í hellana, en þeir hafa þó verið hreinsaðir af og til. Þegar þetta er ritað var umgengnin með besta móti.
Mikilvægt er að fólk, sem vill sækja hella heim, fari varlega og gæti þess að skemma ekki verðmæti, sem í þeim eru. Það á reyndar við um allt annað – allstaðar – alltaf.
Frábært veður.

Maríuhellar

Í Maríuhelli.

Maríuhellar

Maríuhellar eru hraunrásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Hellarnir eru þrír: Vífilsstaðahellir, Urriðakotshellir og Draugahellir. Sumir vilja bæta fjórða hellinum í hópinn sem er þar skammt frá og hefur á seinni árum verið nefndur Jósepshellir. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).

Maríuhellar

Maríuhellar.

Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar.“ Talið er að nafnið Maríuhellar sé dregið af því að fyrrum voru hellarnir í eigu Viðeyjarklausturs, en klaustrið og kirkjan þar voru helguð Maríu guðsmóður.

Á Vísindavef HÍ er spurt; “Hvers vegna heita Maríuhellar í Heiðmörk þessu nafni?” Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar, svarar:

Maríuhellar

Maríuhellar.

“Maríuhellar eru tveir hellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).
Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar“ (Örnefnaskrá Urriðakots; Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Safn til sögu Garðabæjar III. 2001, bls. 30, 37, 123).

Maríuhellar

Maríuhellar – kort.

Vitað er um Máríuhella (flt.) á einum öðrum stað. Það er í Kollabæ í Fljótshlíð, þar sem þrír skútar bera þetta nafn. Þar voru hafðir sauðir sem gengu að mestu úti (Örnefnaskrá). Maríuhellir er líka í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191).
Ekki er vitað hvernig nafnið Maríuhellar er til komið en líklegt er að þeir séu kenndir við Maríu guðsmóður, það hafi verið talið gott til verndar fé að kenna fjárhella við hana. Vífilsstaðir voru eign Garðakirkju á 19. öld, kirkjan var þó ekki helguð Maríu, en mynd hennar var í eigu kirkjunnar (Íslenzkt fornbréfasafn IV:107-108; Margaret Cormack, The Saints in Iceland 1994, 185).
Þess má geta að til er alþýðleg bæn fyrir fé í haga, þar sem Sankti María er nefnd (Fagrar heyrði ég raddirnar 1942, bls. 11-12). María verndaði bæði fólk og fé með möttli sínum, samkvæmt finnskri trú (Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 11:374).
Kvenmannsnafnið María varð ekki algengt hér fyrr en á 18. öld en ólíklegt er að hellar þessir séu kenndir við íslenskar konur með þessu nafni.”

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Árið 2014 var neðri hluti Urriðahrauns og Maríuhellar friðlýstir sem fólkvangur. Friðlýsingin var endurskoðuð 2021 og fólkvangurinn stækkaður upp í vestari hluta Selgjár.
Í auglýsingunni “um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ” segir í 1. gr.:

“Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að friðlýsa Garðahraun, Vífilsstaðahraun (Svínahraun) og Maríuhella sem fólkvang samkvæmt 55. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Meginhraunstraumurinn rann til sjávar til norðurs og nefnist þar Gálgahraun og var það friðlýst með auglýsingu nr. 877/2009. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Hraunsvæðin eru ekki samfelld.
Hin friðlýstu svæði eru alls 156,3 ha að flatarmáli.”

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Mar%C3%ADuhellar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3986
-Nr. 510 30. apríl 2014 – Auglýsing um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ.

Maríuhellar

Maríuhellar – kort af  neðra friðlýsingarsvæðinu.