Vífilsstaðahraun

Lagt var af stað inn í Heiðmörkina til að finna Regnbogann. Fyrst var þó farið í Maríuhellana norðan Dyngjuhóls (Hádegishóls), en þeir eru þrír talsins. Þeir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðri hellirinn heyrði til Urriðakots og var nefndur Urriðakotshellir, en hinn Vífilsstöðum og því nefndur Vífilsstaðahellir.
Sá hellir, sem er mest áberandi, er næst veginum inn í Heiðmörk (Urriðakotshellir). Hann er stór opin hraunrás í stóru jarðfalli. Gengið var ofan í hana að vestanverðu og síðan í gegnum nálægt 20 metra langa rás uns komið var í stórt, grasi grói, jarðfallið. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í skemmtilegan sal. Innst í honum er gat í háu loftinu þar sem sér til himins.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Vestasti hellirinn (Draugahellir) er skammt norðvestar. Farið var ofan í hann um tiltölulega þrömgt op í sprungu. Þegar niður ar komið opnaðist stór hraunrás. Fremst í henni er sver hraunsúla, sem hægt er að ganga í kringum. Rásin heldur áfram um 30-50 metra til norðvesturs – allt eftir því hvað fólk vill beygja sig mikið niður. Út frá henni til norðurs (hægri) liggur önnur rás. Opið inn í hana er tiltölulega lágt, en fyrir innan er rúmgóður hellir. Tilvalinn krakkahellir.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Nyrsti Maríuhellirinn (Vífilsstaðahellir) er í hraunkatli skammt norðar. Kanturinn liggur norðvestur og austur. Hægt er að ganga beint inn í hellinn til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og utan í rásveggnum hins vegar. Þessi hluti er stuttur. Hins vegar er hægt að fara nokkurn spöl eftir vestari hlutanum. Opið er grýtt og nokkuð þröngt, en þegar inn er komið er hægt að ganga eftir rásinni nokkurn spöl niður í hraunið.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Ef einhvern tímann hafa verið fallegar hraunmyndanir í þessum hellum þá eru þær horfnar núna. Hins vegar eru hellarnir mjög aðgengilegir – inni í miðju höfuðborgarsvæðinu – og hægt að fara með börn í þá til að sýna þeim hellafyrirbæri.
Eftir svolitla leit í hrauninu kom göngufólkið auga á Regnbogann. Hann er steinbrú, sem hefur haldið sér þegar umhverfð hrundi niður í hraunhvarf. Þegar gengið var undir Regnbogann óskaði sérhver göngumanna sér í þegjanda hljóði því sagan segir að “sá sem kemst undir Regnbogann öðlist eina ósk og muni hún rætast undantekningarlaust”. Vinsælt er að óska sér huglægra heilla sjálfum sér og öðrum til handa. Það er þó undir hverjum og einum komið.
Frábært veður – bjart og hlýtt, nema í hellunum. Gangan tók 25 mínútur.

Maríhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.