Færslur

Vífilsstaðahraun

Lagt var af stað inn í Heiðmörkina til að finna Regnbogann. Fyrst var þó farið í Maríuhellana norðan Dyngjuhóls (Hádegishóls), en þeir eru þrír talsins. Þeir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðri hellirinn heyrði til Urriðakots og var nefndur Urriðakotshellir, en hinn Vífilsstöðum og því nefndur Vífilsstaðahellir.
Sá hellir, sem er mest áberandi, er næst veginum inn í Heiðmörk (Urriðakotshellir). Hann er stór opin hraunrás í stóru jarðfalli. Gengið var ofan í hana að vestanverðu og síðan í gegnum nálægt 20 metra langa rás uns komið var í stórt, grasi grói, jarðfallið. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í skemmtilegan sal. Innst í honum er gat í háu loftinu þar sem sér til himins.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Vestasti hellirinn (Draugahellir) er skammt norðvestar. Farið var ofan í hann um tiltölulega þrömgt op í sprungu. Þegar niður ar komið opnaðist stór hraunrás. Fremst í henni er sver hraunsúla, sem hægt er að ganga í kringum. Rásin heldur áfram um 30-50 metra til norðvesturs – allt eftir því hvað fólk vill beygja sig mikið niður. Út frá henni til norðurs (hægri) liggur önnur rás. Opið inn í hana er tiltölulega lágt, en fyrir innan er rúmgóður hellir. Tilvalinn krakkahellir.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Nyrsti Maríuhellirinn (Vífilsstaðahellir) er í hraunkatli skammt norðar. Kanturinn liggur norðvestur og austur. Hægt er að ganga beint inn í hellinn til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hruni annars vegar og utan í rásveggnum hins vegar. Þessi hluti er stuttur. Hins vegar er hægt að fara nokkurn spöl eftir vestari hlutanum. Opið er grýtt og nokkuð þröngt, en þegar inn er komið er hægt að ganga eftir rásinni nokkurn spöl niður í hraunið.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Ef einhvern tímann hafa verið fallegar hraunmyndanir í þessum hellum þá eru þær horfnar núna. Hins vegar eru hellarnir mjög aðgengilegir – inni í miðju höfuðborgarsvæðinu – og hægt að fara með börn í þá til að sýna þeim hellafyrirbæri.
Eftir svolitla leit í hrauninu kom göngufólkið auga á Regnbogann. Hann er steinbrú, sem hefur haldið sér þegar umhverfð hrundi niður í hraunhvarf. Þegar gengið var undir Regnbogann óskaði sérhver göngumanna sér í þegjanda hljóði því sagan segir að “sá sem kemst undir Regnbogann öðlist eina ósk og muni hún rætast undantekningarlaust”. Vinsælt er að óska sér huglægra heilla sjálfum sér og öðrum til handa. Það er þó undir hverjum og einum komið.
Frábært veður – bjart og hlýtt, nema í hellunum. Gangan tók 25 mínútur.

Maríhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.

Vífilsstaðir

Í Fornleifaskráningu í Garðabæ árið 2009 er ma.a. fjallað um Vífilsstaði:

1547-1548: Í Fornbréfasafni er Vífilsstaða tvisvar getið í Fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi. “Jtem met Weuelstedom ij legekior. xij for. landskyldt en guelde. ij lege vj forenger smör dt. her ij foder iiij lamb oc aff foder 4 lam oc ij landskyldt en 4 ar gamle ko dt.” DI, XII, 113.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gerði.

1549-1550: Í fógetareikningum af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum og öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi er greint frá Vífilsstöðum. “Jtem mett Wiüelstedom ij kiör xij foer landskiöld jc n lege vij förenger smör etc. oc j lege til geffuit for en geldmelckeko oc j landsskyldt en vj ar gamel ko etc.” DI, XII, 154.
1550: Í afgjaldarreikningum Kristjáns skrifara, svo og sjávarútgerðarbók.”Jtem mett Wiiüelstedom ij kiör xij foer landskyldt jc ij lege vij förenger smör etc. oc j lege tilgeffurt for en geeldmelckeko oc j landskyldt en sex ar gamel ko etc.” DI, XII, 174.
1552: Í fógetareiknungum yfir ofangreindar jarðir. “Jtem mett Wiuelstedom iiij kör. vj faar. landskyld jc. ij leger j vett smör. dt. och ij landskyld j iij aars gamel ko. dt.” DI, XII, 400.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – aðhald.

1553. Í hlutabók og sjávarútgerðarreikningi Eggerts hirðstjóra. “Jtem Ion Pouelsson aff Vijuelsted viij alne vattmell.” DI, XII, 577.
1558: “Kirkjujörðin Hlið lögð til Bessastaða, en til Garða í staðinn Viðeyjarklausturjörðin Vífilsstaðir.” DI, XIII, 317.
1565: Bygging jarða Garðakirkju. ,,Wifilstader Jone Pälssyne fyrer malnytu kugillde og mannslän. med
jördunne ij kugillde.” DI, XIV, 437.
1703: Garðakirkjueign. JÁM, III, 224.
1847: Jarðardýrleiki ekki tilgreindur. JJ,92.
1974: Búrekstur lagðist niður á Vífilsstöðum. GRG, 45.
Túnakort 1919: Tún allt sléttað, stærð ekki gefin upp.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn 1910.

“Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Þar hefur verið sjúkrahús (Berklahæli) frá 1910…Vífilsstaðabærinn stóð nær því í miðju túni vestanverðu. Rústir nú.” segir í örnefnaskrá Vífilsstaða. Rústir Vífilsstaðabæjarins eru horfnar en þó er nokkuð auðvelt að átta sig á staðsetningu bæjarins út frá afstöðu hans gagnvart spítalanum samkvæmt túnakorti frá 1919. Á túnakortinu er jafnframt sýndur kálgarður, austan og sunnan við bæinn sem enn sjást leifar af. Fjarlægð bæjarstæðisins vestsuðvestur frá spítalanum er um 150 m. Austan við kálgarðsleifarnar er lítill timburkofi.
Rústir bæjarins hafa nú verið sléttaðar og eru nú í túni. Ekki er hægt að tala um eiginlegan bæjarhól.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – túnakort 1918.

Kálgarður er sýndur á túnakorti, fast austan og sunnan við gamla bæinn. Leifar austur- og suðurveggja hans sjást enn allgreinilega. Fjarlægð norðurenda austurveggjar að spítalanum, er um 140 m. Þýfður óræktarmói innan túns. Skógarlundur er austan og norðaustan við kálgarðinn.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954. Hér sést gamla bæjarstæðið neðst t.h.

Kálgarðurinn er grjóthlaðinn og er hleðsluhæð mest um 0,5 m. Lengd austurveggjar er um 25 m en suðurveggurinn er um 20 m að lengd. Austurveggurinn er mun greinilegri en suðurveggurinn.

Útihús er sýnt á túnakorti frá 1919. Er það nú horfið. Nú er slétt grasflöt á þessum stað.

Útihús er sýnt á túnakorti frá 1919 um 140 m norðvestur af spítalanum. Virðist það vera á svipuðum slóðum og útihús sem nú standa. Ekki er ljóst hvort um sama útihús er að ræða.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir 1908.

“Býli í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi. Þar hefur verið sjúkrahús (Berklahæli) frá 1910…” segir í örnefnaskrá Vífilsstaða. Spítalinn er sýndur á túnakorti frá 1919 og stendur hann enn.

[Reyndar er getið um Vífilsstaði í Landnámu, sbr. : (Sturlubók) – 8. kafli: “Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður“.]

Í Jarðabók Árna og Páls segir: “Torfrista og stúnga nægileg.” Óljóst er hvar torf hefur verið rist þegar Jarðabókin var tekin saman á 18. öld, en ekki er þó ólíklegt að það hafi verið í Vatnsmýri eða Vetrarmýri.
Vetrarmýri er um 330 m NNA við Vífilsstaði, milli Vífilsstaða og Hnoðraholts, en Vatnsmýri er um 100-150 m SSA við Vífilsstaði. Vetrarmýri er búið að breyta í golfvöll, en Vatnsmýri er deig og þýfð mýri, gróin grasi og mosa.
Ekki sáust ummerki torfristu við vettvangsathugun.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir 1909 – hornsteinn lagður að Vífilsstaðaspítala.

“Garður af torfi og grjóti lá umhverfis túnið, norðan, austan og sunnan Engjarnar að neðan og lækurinn,” segir í örnefnaskrá. Vífilsstaðatúngarður er nú að mestu horfinn utan þess að sjá má slitrur af honum meðfram austurjaðri gamla túnsins.
Vestan við garðinn er trjálundur, en austan við hann er þýfður grasmói.
Garðurinn er mikið siginn. Torf er einungs allra nyrst annars yfirleitt um að ræða grjótnibbur í reglulegri röð. Heildarlengd garðlagsins er um 85 m. Hleðsluhæð hans er mest nyrst, um 0,4-0,5 m og er hann jafnframt breiðastur þar eða um 1,3 m neðst.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – garðar. Gamla bæjarstæðið ofar.

“Brú yfir lækinn niður undan bænum.” segir í örnefnaskrá. Steinsteypt brú er yfir lækinn beint niður undan gamla bæjarstæðinu. Upphlaðnar traðir eru frá brúnni til norðausturs.
Þýfðir og grasigrónir lækjarbakkar. Lækurinn er nokkuð breiður fyrir ofan (austan) brúnna, en þrengri við og fyrir neðan hana.
Brúin er um 1,6 m á breidd og um 3,3 m á lengd. Sjá má greinilegar hleðslur í bakkanum beggja vegna brúarinnar. Ekkert handrið er á brúnni. Þar sem brúin er steinsteypt þá er hún líklega frá svipuðum tíma og spítalinn og telst því ekki til fornleifa. Spítalinn og þau mannvirki sem honum tilheyra eru þó í sjálfu sér menjar um þá mikilsverðu starfsemi sem rekin hefur verið á Vífilsstöðum frá upphafi 20. aldar. Því fær brúin að fljóta með hér.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Suðurtraðir.

Suðurtraðir “lágu heiman frá bænum niður að lækjarbrúnni.” samkvæmt örnefnaskrá. Traðir þessar sem eru upphlaðnar, má enn sjá á kafla frá brúnni, norðan lækjarins. Þær eru einnig sýndar á túnakorti frá 1919. Þar sem traðirnar sjást ennþá, liggja þær um þýfðan grasmóa. En eftir það tekur við slétt tún. Traðirnar liggja í norðaustur frá brúnni um 50 m, en beygja eftir það til austurs og eru þær greinilegar á um 40 m kafla eftir það. Samkvæmt túnakortinu beygja þær síðan aftur til norðausturs eftir þetta allt að aðalveginum að Vífilsstöðum. Er líklegt að þessi síðastnefndi hluti sé sá sem kallaður er Norðurtraðir og er sá hluti alveg horfinn. Hleðsluhæð traðanna er líklega mest um 0,5 m og breidd þeirra um 3 m.

Í örnefnaskrá segir: “Norðurtraðir: Var eiginlega troðningur af Alfaraveginum heim að bæ.” Norðurtraðir eru horfnar með öllu. Á túnakorti eru sýndar samfelldar traðir sem liggja frá aðalveginum að spítalanum meðfram austanverðum kálgarðinum sem er austan og sunnan við bæjarstæðið. Eftir það beygja liggja þær fyrir sunnan kálgarðinn á kafla en beygja síðan til suðvesturs eftir það. Er þessi síðasti hluti líklega sá sem nefnist Suðurtraðir í örnefnaskrá.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Í örnefnaskrá segir: “Stígur þessi liggur frá Brúnni suður að Hellunum.” Þessi stígur er enn allgreinilegur og auðvelt að fylgja honum að Jónshellum (“Hellunum”). Stígurinn liggur í gegnum hraunbreiðu. Um er að ræða mjóan troðning sem hlykkjast í gegnum hraunið.

Í örnefnaskrá segir: “Vatnsbólið var í læknum niður undan bænum við Brúna. Þýfðir og grasigrónir lækjarbakkar. Lækurinn er nokkuð breiður fyrir ofan (austan) brúnna, en þrengri við og fyrir neðan hana.

Í örnefnaskrá segir: “Finnsstekkur: Stekkur var þarna í eina tíð við voginn.” Finnsstekkur er um 1 km austnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala. Hann er rétt norðan við veginn að Elliðavatni, undir “suðvestur horni” Smalaholts. Reiðvegur liggur hjá tóftinni. Á grasi- og lyngi grónum hjalla við brekkurætur. Tóftin er um 14×6 m stór. Hún skiptist í tvö hólf, rétt og lambakró. Er lambakróin byggð við réttina að suðaustanverðu, bæði hólfin norðvestur-suðaustur. Ekki eru greinilegar dyr á milli hólfanna. Dyr eru hins vegar allgreinilegar á norðvestur enda réttarinnar hólfsins. Réttin er um 11×6 m að stærð og lambakróin um 4x3m. Hleðsluhæð er mest um 1 m. Hleðslur eru yfirleitt grónar þótt sjáist í hleðslugrjót hér og þar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir – Finnstekkur.

Í örnefnaskrá: “Í gömlum skjölum segir að þarna [við Finnstekk] hafi verið hjáleiga.” Engar aðrar minjar eru sjáanlegar við Finnstekk og er mögulegt að hann sé byggður upp úr tóftum hjáleigunnar. Fær hjáleigan sömu hnit og stekkurinn. Örnefnaskrá SP talar um Finnstekk og Finnstaði sem einn og sama staðinn: “Milli Skyggnisholts og Smalaholts eru rústir á lágum hól, sem nefnast Finnsstekkur eða Finnsstaðir.”

“Hér í norður, bak við Smalholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða,” segir í örnefnaskrá GS. Varðan hefur áður verið á Rjúpnahæð um 200 m norðan við Elliðavatnsveg. Á Rjúpnahæð er nú sendistöð fyrir höfuðborgarsvæðið.

Vífilsstaðavatn

Vatnsgeymir við Vífilsstaðavatn.

Í örnefnaskrá segir: “Hann [vatnsgeymirinn] er upp í hlíðinni upp frá vatnsósnum, byggður 1910. Vatnið svo leitt heim í Vífilsstaðahælið.” Vatnsgeymirinn er um 190 m NA við Grímssetu, fast við göngustíg sem liggur upp að henni. Geymirinn er í norðaustanverðri Vífilsstaðahlíð í lúpínu- og mosagrónu umhverfi og stórt basaltgrjót stendur upp úr gróðrinum hér og þar.
Steinsteyptur tankur, hringlaga sívalningur grafinn í jörðu. Tankurinn er ríflega 4 m í þvermál og stendur 1,2 m upp úr jörðinni.

Nokkuð ógreinileg tóft er rúmlega 3 km suður af Vífilsstöðum og um 550 m SV af Vífilsstaðaseli. Tóftin, sem líkast til er af beitarhúsi, er fast austan við göngustíg sem liggur N-S milli skógar og hrauns. Gras, mosa- og skógivaxinn mói. Birkihríslur vaxa inni í tóftinni. Tóftin er 12 m löng, 5 m breið og snýr N-S. Veggjahæð er 0,6-0,8 m en breidd 1-1,5 m. Tóftin er eitt hólf og inngangur er ekki greinanlegur. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar í tóftinni og er hún algróin grasi og mosa.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

“Flatahraun nær norður á móts við Kolanef. Í Vífilsstaðahlíð. Í Flatahrauni hefur verið gróðursett talsvert [af] furu og greni. Í norðaustur frá rústum beitarhússins í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefnsflöt … Er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðinni) allt frá því að heimildamaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu”, segir í örnefnaskrá SP. “Sauðahellir: Allgóður hellir í hraunbrúninni inn með Vífilsstaðahlíð undir Kolanefi,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Hellirinn er um 450 m ANA af beitarhúsi, hinu megin við Flatahraun og um 20 m SV af göngustíg undir Vífilsstaðahlíð. Hellirinn sést þó ekki frá stígnum vegna hraunkarga sem er á milli. Skammt sunnar og hinu megin við göngustíginn er skilti sem á stendur “Almennar Tryggingar H/F lét gróðursetja þennan lund vorið 1958”.
Hellirinn er í úfnu hrauni, sem að nokkru leyti er gróið grasi, mosa og lyngi. Hellismunninn er um 3 m víður, um 1 m hár og opnast til NA. Frá sitthvorum enda hellisopsins ganga stuttir garðar og mynda aðhald framan við hellinn. Garðarnir ganga ekki alveg saman fyrir framan hellismunnann, heldur er rúmlega 0,5 m bil á milli þeirra fjærst munnanum. Hvor garður er um 5 m langur,
1-1,5 m á breidd og mest rúmlega 1 m hár. Að jafnaði eru 5 umför í hvorum garði. Garðarnir eru haganlega hlaðnir úr ótilklöppuðu grjóti.

Heiðmörk

Fjárborg og fjárhús í Heiðmörk.

“Réttarflatir: Þar eru við Hraunbrúnina undir hlíðinni, vel grónar…Réttir: Rústir gamalla rétta eru þarna við hraunbrúnina,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftanesi. “Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir, rétt við brún Svínahrauns,” segir í örnefnaskrá GS. Réttirnar voru um 100 m NNV af stekknum í Stekkatúni og rúmlega 200 m norðaustur af Maríuhellum. Þar sem réttin var áður er nú malbikaður vegur og bílastæði.

Hnoðraholt

Hnoðraholt – skotbyrgi.

Skotbyrgi frá síðari heimsstyrjöldinni er á svonefndu Hnoðraholti um 1 km norðnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala og um 90-100 m suðaustur af íbúðarhúsinu við Háholt 1.
Melholt sem að mestu er vaxið þéttum lúpínubreiðum. Gott útsýni er frá byrginu, einkum í norður og vestur. Byrgið er 3,5 x 3,5 m að stærð og er það hálf niðurgrafið, en um 1,20 m standa upp úr jörðu (og annað eins er niðurgrafið). Byrgið er steinsteypt með um 9 cm breiðum og 20 cm háum skotraufum, tveim á vestnorðvesturhlið, og einni á norðaustur og suðvestur hlið. Inngangur er niður í byrgið á austsuðausturhlið.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Varða er á dálitlu klapparholti norðvestan til á hábungu Hnoðraholts, um 370 m norðaustur frá skotbyrginu. Gott útsýni til allra átta, einkum þó norður og vestur. Varðan er um 80 sm á hæð og um 1 x 1 m að flatarmáli, en mjókkar upp. Varðan er fremur hroðvirknislega hlaðin.

Í örnefnaskrá segir: “Vífilsstaðabeitarhús: Í Hraunbrúninni er fjárhústótt, jötustallar.” Tóftin er um 280 m SSA af Sauðahellinum nyrðri og rúmlega 50 m SV við veg undir Vífilsstaðahlíð. Beitarhúsið er um 2,5 km SSA af bæ. Rúmlega 3 m austur af tóftinni er rúst fjárborgar og um 10 m vestan við er garðbrot.
Umhverfis tóftina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan tóftina og fjárborgina er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Tóftin er tvö hólf, hið stærra er austanmegin og er að líkindum fjárhús en hið minna kann að vera hlaða. Hún er hlaðin úr þurri hraungrýtishleðslu, úr hraunhellum sem sumar hverjar kunna að hafa verið klappaðar til. Utanmál tóftarinnar er 10,5 x 7,5 og snýr hún N-S. Hleðsluhæð er mest um 1,5 m, en víðast kringum 1 m og mesti fjöldi umfara er 7-8. Tóftin er gróin mosa, grasi og lyngi og er austurveggur mest yfirgróinn. Óvíst er hvort veggirnir hafi verið einangraðir að utan með torfi.

Heiðmörk

Fjárborg í Heiðmörk.

Í örnefnaskrá: “Þarna hefur átt að gera fjárborg. Aðeins undirstaðan.” Fjárborgin er rúmlega 3 m austur af Vífilsstaðabeitarhúsi, rúmlega 50 m SV af vegi undir Vífilsstaðahlíð og um 20 m frá göngustíg sem liggur samhliða veginum. Umhverfis borgina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan hana og Vífilsstaðabeitarhús er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Borgin er vel yfirgróin mosa og lyngi og að NA-verðu vex á henni birki.
Hringlaga fjárborg með dyr sem opnast til norðausturs. Borgin er sigin og yfirgróin og greinilega ekki fullhlaðin. Hún er hlaðin úr miðlungs og stóru hraungrýti eða hraungrýtishellum. Hleðsluhæð er ekki nema um 0,3-0,4 m, nema að utanverðu að austan er hægt að greina 5 umför og er hleðslan þar um 1 m há. Borgin heldur hringlaga formi sínu mjög vel þó sumsstaðar sé grjótið nokkuð tilgengið. Hún er 8,5 m í þvermál.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Í örnefnaskrá: “Hann [Vífilsstaðaselsstígur] mun hafa legið heiman frá bæ, undir Svínahlíð og með Vífilsstaðahlíð skáhalt upp eftir Ljóskollulág upp á hálsinn að Selinu austan Víkurholta.” Heiman frá Vífilsstaðabæ að Ljóskollulág hafa Vífilsstaðaselstígur og Gjáréttargötur verið sami slóðinn, þaðan hafa þeir greinst og Vífilsstaðaselsstígur sveigt austur að Vífilsstaðaseli. Í dag er malaborinn göngustígur meðfram Vífilsstaðahlíð, en upp eftir Ljóskollulág er erfitt að greina gömlu leiðina sökum skógræktar og
annars gróðurs, en þó vottar fyrir gróinni götu, um 0,5 m breiðri sem liggur upp holtið í ANA.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Víkurholtsvarða.

Í örnefnaskrá segir: ,,Víkurholt: Tvö klapparholt uppi á Hálsinum ofan til við Eyjólfshvamm. Víkurholt Nyrðra: Nyrðra holtið, sem var hærra, kallað svo. Víkurholtsvarða Nyrðri: Allstór varða uppi á klapparholtinu.”. Víkurholtsvarða nyrðri er landamerkjavarða. Hún er uppi á háu holti, um 200 m NA af Víkurholtsvörðu syðri, um 790 m ASA af Vífilsstaðabeitarhúsi og um 640 m SSA af Vífilsstaðaseli.
Varðan er hlaðin úr hraungrýti, um 1,5 m há og 2×1 m að þvermáli. Varðan er ekki ýkja gróin.

Í örnefnaskrá: Allstór varða uppi á Klapparholtinu. Er þá komið í suðurmarkalínu.” Víkurholtsvarða syðri er á vesturbrún Víkurholts, um 200 m SV af Víkurholtsvörðu nyðri, um 700 m SA af Vífilsstaðabeitarhúsi og um 610 m S af Vífilsstaðaseli. Víkurholtsvarða syðri er landamerkjavarða. Varðan er á klettabrún, gróinni grasi, lyngi, lúpínu og á stöku stað.
Víkurholtsvarðan syðri er grjóthlaðin, um 1,5 m á hæð og 2 m að ummáli. Varðan er ógróin.

Vífilsstaðir

Flóttamannavegur við Camp Russel á Urriðaholti.

“Úr Suðurtraðarhliði lá Urriðakotsstígurinn …En neðan frá Urriðakotsstíg lá svokölluð Norðlingagata upp á hálsinn og áfram austan í holtinu, þá leið sem nú liggur Flóttavegurinn, Vatnsendavegur eða Elliðavatnsvegur”, segir í örnefnaskrá Urriðakots GS. “Vífilsstaðastígur: Lá úr Urriðakotsholti yfir hraunið undir Dyngjuhól neðan Svínahlíðar að ósnum og þaðan af Vífilsst.
Nordlingagata: Stígur þessi var einnig kallaður svo,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftanesi. “Norðlingagata (Norðlingastígur) var gatan kölluð sem lá undir Flóðahjalla sunnan frá Oddsmýrarlæk. Gatan lá sunnan frá Norðlingahálsi, sunnan við Flóðahjalla, milli Klifs og Sandahlíðar að Vífilsstaðahlíð,” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Á þeim slóðum sem Vífilsstaðastígur er sagður vera er nú malbikaður vegur (Elliðavatnsvegur eða Flóttavegur), en ekkert sást til gamalla gatan við
vettvangsskoðun.

Vífilsstaðir

Gunnhildur – Grímsseta.

“Norðurendi hennar (Vífilsstaðahlíðar) kallast Hlíðarhorn og þar uppi er varða, sem kölluð var Grímssetur, en í seinni tíð er farið að nefna hana Gunnhildi, en það gæti verið komið af ensku “Gunhill” byssuhæð, því að nálagt vörðunni er steypt skotbyrgi frá hernámsárunum,” segir í örnefnaskrá SP. Byrgið er á norðurbrún hæðar vestan við Vífilsstaðavatn, um 50 m vestan við vörðuna Grímssetu og u.þ.b. 1 km suður af Vífilsstöðum. Mikið af stóru grjóti er í kringum byrgið og fast uppvið það, en fjær eru lúpínubreiður. Skotbyrgið er steypt ofan í sand-og malarundirlag.
Byrgið er niðurgrafið og stendur um 0,5 – 1 m upp úr jörðinni. Það er 5 m á lengd og 4 m á breidd og snýr A-V. Skotraufin vísar til norðvesturs og er á horni byrgisins. Innanmál er 2,5 x 2,5 m og lofthæð er ríflega 1,8 m. Veggir eru steinsteyptir og um 0,3 m á þykkt. Niðurgrafinn inngangur er á austurhlið. Hann er um 1 m djúpur, steinsteyptur og 2 x 1 m að flatarmáli A-V. Umhverfis innganginn er hlaðinn veggur úr hraungrýti. Hann er um 1 m hár og samanstendur af 7 umförum og er steypt á milli þeirra. Mikið af grjóti er inni í byrginu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur/Grímseta.

“Allstór varða og gömul upp á holtinu. Gunnhildur: Svo var Grímsseta kölluð af vistfólki Hælisins,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Norðurendi hennar (Vífilsstaðahlíðar) kallast Hlíðarhorn og þar uppi er varða, sem kölluð var Grímssetur, en í seinni tíð er farið að nefna hana Gunnhildi, en það gæti verið komið af ensku “Gunhill” byssuhæð, því að nálagt vörðunni er steypt skotbyrgi frá hernámsárunum,” segir í örnefnaskrá SP. Grímsseta er um 50 m NA af steyptu skotbyrgi úr Síðari heimsstyrjöld. Varðan er fremst á norðurbrún holtsins vestan við Vífilsstaðavatn og sést til hennar langar leiðir.
Allt í kringum vörðuna er landið gróið mosa, grasi og lúpínu, en víða stendur stórgrýti upp úr gróðrinum.
Grímsseta er haganlega hlaðin úr fremur stóru grjóti, 1,8 – 2 m á hæð og þakin skófum. Þvermál hennar er 4 x 3 m. Efsti hluti vörðunnar er hruninn og er því stór grjóthrúga sunnan við hana.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Vífilsstaðasel.

“Það lá í grunnu dalverpi vestur af Vatnsás. Þar eru allmiklar rústir. Hefur verið vel hýst,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álfaneshreppi. “Ef farið er…upp á Vífilsstaðahlíð, þar sem Einarsnef gengur fram og haldið til norðausturs, þar sem Ísallínan liggur, er fljótlega komið á klapparás suðaustan háspennulínunnar, sem Selás nefnist. Suðvestan undir ásnum er grasi gróin[n] slakki á móts við mastur nr. 29 í Ísallínu. Suðaustast í slakkanum eru rústir Vífilsstaðasels,” segir í örnefnaskrá SP. Vífilsstaðasel er hátt í 3 km suður af bæ. Vífilsstaðasel er um 550 m NA af Vífilsstaðabeitarhúsi, 40 m VSV af kvíum 045 og um 100-150 m sunnan við línuveg.
Tóftirnar eru á um 1-2 m háum hól, mjög þýfðum og grónum háu grasi og mosa. Selrústin er falin innst í smáum hvammi milli Seláss að austan og Selholts að vestan.
Selið er aflangt, um 30 x 10 m og snýr N-S. Fimm hólf virðast vera í því, öll í röð og inngangur í þau hefur verið á vesturhlið. Veggir tóftanna eru um 2-3 m breiðir og um 0,5 -1,2 m háir. Ekki sést til grjóthleðslna. Tóft sem gæti verið af kvíum er 40 m VSV frá selinu.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnaskrá: ,,Hann [Vatnsendavegur] liggur um Vífilsstaðaland, yfir hraunið hjá Dyngjuhól, um Svínahlíð yfir lækinn á brú við Ósinn. Upp í Skygnisholt, um Finnsstekk og upp á Vífilsstaðaháls þaðan um Rjúpnadal og ofan Vatnsenda á Suðurlandsveginn við Rauðavatn. Vegur þessi var upphaflega kallaður Flóttavegur.” Gatan kallast Elliðavatnsvegur þar sem hún liggur um land Garðabæjar og er enn nýtt sem akvegur.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Dyngjuhóll.

“Suður af hellunum rétt sunnan við Heiðmerkurveginn er stór hraunhóll, sem áður var með einni vörðu, en nú með mörgum. Hann kallaði Urriðakotsfólkið Dyngjuhól, en Vífilsstaðafólkið Hádegishól, og var hann eyktarmark þaðan”, segir í örnefnaskrá SP. Hóllinn er um 1350 m SSV af Vífilsstöðum og er bein sjónlína þar á milli. Um 10-15 m hár hóll úr hraungrýti, vaxinn mosa, birkikjarri og berjalyngi.
Á Hádegisholti eru a m k 9 vörður, allar hlaðnar úr hraungrýti. Engin þeirra er hærri en 0,6 m eða meira en 1,5 m í þvermál.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar.

“Í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar [Elliðavatnsvegar] og Heiðmerkurvegar eru Maríuhellar. Þeir eru tveir og eru á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar. Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar”, segir í örnefnaskrá SP. Maríuhellar eru skammt norðan við Heiðmerkurveg þar sem hann liggur þvert á Elliðavatnsveg og eru merktir með skilti. Hellarnir eru rúmlega 150 m NNV af Hádegisholti og 1,2 km SSV af Vífilsstöðum.
Maríuhellar eru tveir náttúrulegir hellar í Vífilsstaðahrauni. Í fyrndinni hefur verið um einn helli, eða hraunrás, að ræða, en þak hans er að hluta fallið svo úr verða tveir hellar andspænis hvor öðrum, sinn hvoru megin við hrunið. Hraunið er að nokkru leyti mosa- og grasivaxið.
Um 25 m N-S eru milli munna hellanna tveggja. Nyrðri hellirinn er um 20 m langur NV-SA, 12 m breiður og um 3 m hár. Stærri munni hellisins er við suðausturendann og vísar að syðri hellinum, en jafnframt er mjög lítið op við norðvesturendann. Syðri hellirinn er um 20-25 m langur N-S, 10 m breiður og um 3-4 m hár. Í þaki syðri hellisins er 2×1 m stórt gat og grjóthrun á gólfi hans fyrir neðan. Hrunið skiptir syðrihellinum í tvö hólf. Engar hleðslur er að finna innan í Maríuhellum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar – kort.

“Stekkatúnið: Svo voru Máríuvellir einnig kallaðir. Stekkur frá V[ífilsstöðum],” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Í hraunjaðrinum fast uppi við Vífilsstað[a]hlíð beint vestur af Grímssetri er lítil flöt og kallast sá hluti hennar, sem nær er hlíðinni, Maríuvellir, en hlutinn, sem er nær hrauninu, Stekkjartún. Í Stekkjartúni var rétt eða rústir af rétt. Þegar Flóttavegurinn [nú Elliðavatnsvegur], sem liggur um norðurjaðar flatarinnar, var lagður, var réttin rifin,” segir í örnefnaskrá SP. “Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir, rétt við brún Svínahrauns,” segir í örnefnaskrá GS. Rúst stekksins á Maríuvöllum er um 10 m vestur af rótum Svínahlíðar, rúmlega 1,1 km SSV af bæ og um 250 m norðaustur af Hádegisholti.
Tóftin er á lítilli gras- og mosavaxinni flöt milli Svínahlíðar og Flatahrauns. Birkihríslur vaxa fast norðan og sunnan við rústina.
Stekkjartóftin er 9 x 5 m að ummáli og snýr N-S. Rústin er sigin og er hæð veggja um 0,5 m en breidd um 1 m. Einungis er um 0,5 m bil milli austur og vestur langveggja. Óljóst er hvort tóftin er eitt hólf eða hvort hún sé tvískipt, en þúst er fast við vesturvegg að norðan, sem kann að vera leifar annars hólfs.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Guðnýjarstapi.

“Norðan í háholtinu er varða, sem heitir Guðnýjarstapi,” segir í örnefnaskrá AG. “Norðan í háholtinu var varða, Guðnýjarstapi…Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar,” segir í örnefnaskrá SP. “…eftirfarandi lýsing passar betur “Norðan í holtinu er Guðnýjarstapi, klapparhóll með grasþúfu. Guðnýjarstapi er nú inn á lóð Holtsbúðar 87,”” segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP).
“Markavarðan: Hún mun hafa verið norðan og neðan við Guðnýjarstapa,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Sunnan, austan og vestan við Guðnýjarstapa eru Holtsbúð 87, 89 og 91.
Guðnýjarstapi er náttúruleg smáhæð, um 8×6 m að flatarmáli NV-SA og allt að 1,5 m há. Hér og þar standa hraunbjörg upp úr grasigrónum stapanum og efst á honum er stór þúfa. Mögulegt er að þúfan sé yfirgróin varða, en líklegra er að Markavarðan sé komin undir byggð.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Guðnýjarstapi.

“Norðan í háholtinu er varða, sem heitir Guðnýjarstapi. Einnig er varða, hlaðin af sjúklingum, á holtinu. Sú varða heitir Hallbera,” segir í örnefnaskrá AG. “Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar,” segir í örnefnaskrá SP. “Hallbera varða austan í Hofsstaðaholti hvarf, þegar byggð reis á holtinu. Hún stóð, þar sem lóð Gígjulundur 6 er nú,” segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP). Varðan var um 610 m SSA við Vífilsstaði.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Arnarsetursvarðan.

“Arnarsetur (-> Arnarbæli, Arnarstapi) er hæð norður af Hjallabrún og landamerki fyrir Vatnsendajörðina…Í beinni stefnu til suðurs frá Kjóavöllum og þar sem hæst ber til að sjá er klapparborg sem ber nafnið Arnarsetur,” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Landamerkjavarðan á Arnarseti er um 1,5 km ANA af Vífilsstaðaseli. Varðan er uppi á hárri hæð í grýttu landslagi.
Varðan er um 1,2 m há og 3 x 2 m að flatarmáli NA-SV og er nokkuð strýtulaga. Hún sést langt að. Neðri hluti vörðunnar er grasivaxinn en að ofan má greina mjög óreglulega hleðslu og stendur þar tréprik upp úr, sem bendir til að bætt hafi verið við vörðuna fyrir skömmu síðan.

Rúmlega 40 m austur af Vífilsstaðaseli eru kvíar. Kvíarnar eru á mosa- og grasivöxnum kletta- og grjótás sem snýr N-S, rofinn að hluta.
Kvíarnar eru hlaðnar úr hraungrýti. Þær eru tvö hólf, um 14 m langar, 3-6 m breiðar og snúa NA-SV. Norðeystra hólfið er hringlaga, um 6 m í þvermál og hefur dyr á SA hlið. Suðvestara hólfið er aflangt NA-SV, rúmlega 7 m langt og 3 m breitt og opnast til SV. Veggir kvíanna eru nokkuð signir, 0,3-0,6 m háir og 0,4-0,6 m á breidd.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Draugahellir.

“Ofanvert við Maríuhella var svo Draugahellir,” segir í örnefnaskrá GS. “Draugahellir er á svæði skátanna, þarf að síga í hellinn. Hann er stór og hár. Opið þröngt. Maður kemur fyrst niður á syllu (með vasaljós meðferðis). Nú hafa skátarnir sett upp borð í honum. Hellirinn er ekki langt frá Heiðmerkurveginum,” segir í örnefnaskrá EBB. Draugahellir er um 15 m norður af Maríuhellum og um 200 m norður af Hádegishól. Hellisopið sést ekki frá vegi þó það sé um 40 m ANA af gatnamótum Heiðmerkurvegar og Elliðavatnsvegar.
Hraunhellir sem snýr NA-SV og tilheyrir eflaust sama kerfi og Maríuhellar. Munni hans er um 0,5×0,5 m.
Örnefnið Draugahellir bendir til að þjóðsaga kunni að vera til um hellinn, þó skrásetjari hafi ekki fundið heimildir þar að lútandi.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – fjósið.

“Norðan Vífilsstaða liggur stórt mýrasvæði, Vetrarmýri. Í suðvesturhorni þess er Bjarnakriki. Þar er talið að verið hafi á tímabili reimleikar miklir,” segir í örnefnaskrá GS. “Suðvesturhorn Vetrarmýrar við fjósið á Vífilsstöðum heitir Bjarnakriki. Þar þótti reimt og var sagt, að óeðlilegur skepnudauði hefði verið í fjósinu fyrst eftir að það var tekið í notkun, svo að sóknarpresturinn var fenginn til að vígja fjósið. Tók þá fyrir reimleikana,” segir í örnefnaskrá SP. “Bjarnarkriki í túni Vífilsstaða er horfinn undir Reykjanesbraut, þar var sleða- og skíðabrekka ofan í krikann,” segir í örnefnaskrá EBB (viðauka við skrá SP). Bjarnarkriki er um 180 m NNV við Vífilsstaði.
Reykjanesbraut liggur yfir Bjarnarkrika og norðaustan við götuna er golfvöllur.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – fjárhús fyrrum, sem hvergi hefur verið minnst á…