Gálgahraun

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði um “Gálgahraun” í Morgunblaðið árið 1988:
“Einhver aðgengilegasti staður til útiveru og gönguferða hér í nágrenni Reykjavíkur er Gálgahraun, en það er sunnan við Arnarnesvog og er raunar nyrsti hluti Garðahrauns, en sker sig að nokkru úr vegna þess hvað það er úfið og sundur skorið af sprungum. Þessi hraun eiga upptök sín í Búrfellsgíg suðaustan Hafnarfjarðar og munu vera um 7200 ára gömul.
galgahraun-299Hér við hraunjaðarinn er skjólgott og mikill gróður, en utar þar sem ekki nýtur skjóls er gróður allur minni og er þar kríuvarp, sem varið er af mikilli atorku og er því betra að halda sig við hraunjaðarinn á varptíma. Þegar stutt er að Lambhúsatjörn verða á vegi okkar tvær litlar vörður í hraunjaðrinum, en þær vísa á gömlu þjóðleiðina sem liggur hér yfir hraunið. Þetta er rudd gata og hefur sýnilega verið mjög fjölfarin á öldum áður, enda er gatan merkt á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar. Við skulum fylgja þessari götu yfír hraunið, en hún er furðu glögg þótt nú sé hún algróin. Þegar inn í hraunið er komið verður það allúfíð og sprungið og eru þar margar skjólgóðar lautir og bollar. Hér er gott að setjast niður og njóta útiverunnar. Sé sólskin má jafnvel fara í sólbað. Síðan höldum við göngunni áfram og þegar við erum komin í gegnum hraunið erum við stödd syðst við Arnarnesvoginn og höldum með sjónum til baka og komum við þá brátt að nesi sem heitir Eskines og skilur að Arnarnesvog og Lambhúsatjörn. Á fjöru er auðvelt að ganga út á nesið, en á flóði verður nesið að eyju og er landsig mjög áberandi hér, svo sem nafnið Lambhúsatjörn gefur til kynna, en Lambhúsatjörn er nú sjávarvogur.
eskines-221Kofatótt er við hraunjaðarinn upp af Eskinesi og á hún þá sögu að um 1870 hugðist Þórarinn Böðvarsson, prestur í Görðum, koma upp æðarvarpi á Eskineseyrum. Lét hann byggja kofann og setti þar niður karl og kerlingu og skyldu þau búa í haginn fyrir æðarvarpið með því meðal annars að halda hænsni, þar sem menn töldu að hænsn lokkuðu fulginn að með vappi sínu ásamt gali hanans. Þessi tilraun mistókst.
Hér í fjörunni er rekaþang víða í hrúgum, en það var áður notað til eldsneytis af Garðhverfingum og Hafnfirðingum, sem þurrkuðu það og báru síðan á sjálfum sér heim í kotin og tómthúsin, því erfitt var um eldivið á þessum slóðum.
Við höldum nú ferðinni áfram vestur með Lambhúsatjörn en förum varlega, því hér er hraunið mjög úfið og sprungið, en þegar við erum komin beint á móti Bessastöðum verða Gálgaklettar á vegi okkar. Gálgaklettar eru auðþekktir þar sem þeir rísa hærra en klettarnir í kring og eru brattir og sundur sprungnir svo auðvelt hefur verið að koma þar fyrir gálgatré. Það voru aðallega þjófar og umrenningar sem voru hengdir, og voru þeir yfirleitt dysjaðir nálægt aftökustað og munu mannabein hafa fundist í hraungjótum í grennd við klettana.”

Heimild:
-Morgunblaðið 25. júní 1988, bls. 12-13.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.