Færslur

Jónshellar

Gengið var norður með Vífilstaðahlíð að Ljóskollulág. Ofan lágina liggur Selstígur frá Vífilstaðaseli, sem er þarna uppi í hlíðinni. Ekki er vitað hvaðan nafngiftin er komin, en ekki er ósennilegt að hún heiti eftir fyrstu ljóskunni, þ.e. ljóskollóttri á.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

Þegar komið var að Kolanefi var vent til vinstri og litið á Sauðahelli, sem þar er utan í hraunkantinum. Skeifulaga hleðsla er fyrir munnanum. Inni er rúmgóður fjárhellir, fyrir ca. 10-15 væna sauði. Í skjóli þessu voru hafðir sauðir frá Urriðakoti og þeim gefið þar á gaddinn (á jörðina). Heyið var borið í þá frá bænum.
Haldið var vestur yfir Flatahraun að hlaðinni Sauðahústótt vestast í Urriðakotshrauni. Húsið er nokkuð heillegt, en hleðslurnar bera með sér að það hafi líklega verið hlaðið eftir 1900. Gengið var áfram vestur yfir hraunið og var þá komi á Kúadalastíg. Stígnum var fylgt til norðurs að Stekkjartúnsrétt (Gamla rétt), fallega hlaðinni rétt í krika við vesturjaðar hraunsins. Norðan við réttina liggur stígur inn í hraunið, Grásteinsstígur. Grásteinn er þarna inn í hrauninu, alveg við stíginn.

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól.

Gengið var áfram norður með hraunkantinum og á Dyngjuhól. Um hólinn liggja landamerki Urriðakots og Vífilstaða. Dyngjuhólsvarða er á hólnum, en auk hennar hafa verið hlaðnar þar nokkrar aðrar vörður. Hóllinn var nefndur Dyngjuhóll af Urriðakotsfólkinu, en hann sést ekki frá bænum. Í hólnum er lítil dyngja. Þessi hóll heitir einnig Hádegishóll frá Vífilstöðum.
Frá Dyngjuhól blasa Maríuhellar við í norðri. Landamerkjalínan liggur um hellana að Miðaftanshóli inni í Svínahrauni (Vífilstaðahrauni).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Maríuhellar.

Maríuhellar eru nýnefni á hellunum. Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðsti hellirinn heyrði til Urriðakoti og var nefndur Urriðakotshellir en hinn Vífilsstöðum og var því nefndur Vífilsstaðahellir. Sagnir eru þó til um að Vífilsstaðir hafi notað syðri hellinn, þ.e. þann sem er gegnumgengur, enda getur það vel verið svo um tíma. Auk þeirra var talað um þriðja hellinn, Draugahellir, en hann átti að vera þröngur niðurgöngu og ósléttur.

Maríhellar

Maríuhellar.

Gengið var um svæðið. Nyrsti hellirinn er í stóru jarðfalli. Í norður úr því er stórt op og þar fyrir innan rúmgóður hellir, ca. 30 metra langur. Mold er á gólfi. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Líklegast er þarna um Vífilsstaðahelli að ræða. Sunnan af honum er enn stærra og mun grónara jarðfall. Í því er mjög rúmgóður hellir til vesturs. Hægt er að ganga í gegnum þann hluta. Þessi hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Frosin grýlukerti héngu niður úr loftinu í hundraðatali og gáfu þau hellinum dulúðlegt yfirbragð. Í austanverðu jarðfallinu er einnig víður hellir. Inni í hvelfingunni er op á loftinu. Þarna er líklegast um Urriðakotshelli að ræða því sjá má hleðslur undir girðingu austan hans, á milli þessarra tveggja hella. Skammt vestan við vestara opið á hellinum, sem hægt er að ganga í gegnum, er hraunsprunga. Niður í hana liggur op. Þegar niður er komið tekur við rúmgóður hellir. Sver hraunsúla er á vinstri hönd, en rúmgóður hellir framundan.

Jónshellar

Jónshellar.

Liggur hann um 50 metra niður hraunið. Á leiðinni er gat til hægri og innan þess nokkuð rúmgóður hellir. Ekki er óvarlegt að álykta að þarna sé um svonefndan Draugahelli að ræða. Áður fyrr voru engir vegir á þessu svæði og fullorðnir ekki viljað að börn væru mikið að fara ofan í þennan helli því með slæm ljós gæti verið erfitt að finna leiðina út þar sem gatið er bæði lítið og liggur upp á við. Af því tilefni hafi verið búin til sagan af veru draugs í hellinum – til að fæla fólk frá.
Gengið var norðvestur eftir Moldargötum með vesturjarðri Svínahrauns, niður að vestasta hraunnefinu áður en beygt til með hlíðinni áleiðis að Urriðakoti. Þar var haldið beint inn á hraunið til austurs. Eftir stutta göngu var komið að Jónshellum. Þeir eru undir klettavegg er snýr að Vífilsstöðum. Mikið kjarr og hár trjágróður er allt um kring. Jónshellar eru þrír skútar. Einn er sýnum stærstur og einn hefur greinilega verið notaður sem fjárskjól. Hleðsla er fremst í skútanum, en fyrir innan er slétt moldargólf. Þessi skúti gæti auðveldlega hýst 40-50 rollur.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Í kverkinni þar sem hellarnir eru, er gamall timburpallur. Sennilega hefur fólk af Vífilstaðahælinu gengið þangað á góðum dögum til að njóta veðurblíðunnar á þessum fallega stað.
Gengið var eftir Jónshellustíg austur yfir hraunið. Á köflum hefur stígurinn verið lagaður til og hlaðið í lægðir. Staðnæmst var við hlaðinn fjárhús Vífilstaða vestan við Vatnsmýrina og þau skoðuð áður en haldið var að upphafsreit.
Veður var með ágætum – stillt og bjart. Gangan tók 2 klst og 3 mín.

Urriðakotshraun

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Finsstaðir

Gengið var um minjarnar vestan Vífilsstaðalækjar, skammt norðan Flóttamannavegar. Þar má enn sjá heillegar tóftir, garða og gerði frá Vífilsstöðum. Göngustígur liggur framhjá megintóftinni. Ljóst er af mannvirkjunum þarna sem og í hrauninu, þ.á.m. Jónshellar, en þeim liggur hlaðinn stígur á köflum í hrauninu, að þarna hafa verið talsverð umsvif á öldum fyrrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gerði.

Gengið var að Finnsstöðum við norðanvert Vífilstaðavatn. Þar fyrir ofan Flóttamannveginn, í vestanveru Smalaholtinu er há og stór tóft, sem sést vel frá. Utan í henni að sunnanverðu er önnur minni. Á kortum er tóft þessi nefnd Finnsstaðir, en engar heimildir eru til um hann. Ekki er útilokað að þetta gæti um tíma hafa verið stekkur frá Vífilsstöðum. Rústin er tvískipt. Einnig gætu þarna um tíma hafa verið beitarhús frá Vífilsstöðum því Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús.

Finnsstaðir

Finnsstaðir.

Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er vesturhlíð Rjúpnahlíðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nefnið bendir til þess að þarna gæti hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn. Gengið var með Rjúpnahlíðinni, niðu Kjóavelli og áfram upp í Básaskarð suðaustan við Vífilstaðavatn. Ofan við skarðið eru fjárhúsatóftir frá Vatnsenda, greinilega mjög gamlar, á fallegum stað. Frá tóttunum sést yfir að Arnarbæli, vörðu á Hjöllunum ofan Grunnuvatna syðri. Frá vörðunni var gengið yfir að Vatnsendafjárborgini. Borgin, sem er syðst á Hjöllunum, þar sem þeir eru hæstir, er nokkuð stór og heilleg, en fallin að hluta. Frá henni er gott útsýni yfir Löngubrekkur í suðri og að Búrfelli.
Gangan tók 2 klst. Veður var frábært; milt og hlýtt.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Maríhellar

Kíkt var á “Maríhellana” í Heiðmörk. Um er að ræða nútímalegt samheiti tveggja hella, sem notuð voru sem fjárskjól fyrrum; Urriðakotshelli og Vífilsstaðahelli. Í sumum heimildum er talað um Vífilstaðahelli í nyrsta hellinum og Urriðakotshelli í miðhlutanum. Á seinni tímum hefur syðsti hluti Urriðakotshellis verið nefndur Draugahellir, en hann þjónaði áður engum sérstökum tilgangi. Tiltölulega nýlega hafa hellarnir fengið samnefnið Maríuhellar.

Maríhellar

Maríuhellar.

Miðhlutinn (Urriðakotshellir) er oft notaður af fólki til dægrastyttinga, einkum þegar vel viðrar. Í austurhluta jarðfallsins er Maríuhellir. Landamerki bæjanna, Urriðakots og Vífilsstaða, eru á urðarhól (Dyngjuhól/Hádegishól) skammt ofan við hellana.
Syðsti hellirinn (Draugahellir) er með þröngu opi, en þegar niður er komið er um rúmgóðan helli að ræða. Sver hraunsúla er í honum, sem hægt er að umhverfis og einnig afhellir.
Nyrsti hellirinn (Vífisstaðahellir) er aðgengilegur. Hann er í stóru jarðfalli, en þegar inn er komið tekur við nokkuð rúmgóð og löng hraunrás með mold í gólfi. Allt um kring vaka steinrunnin tröll yfir munnunum. Einhverjum húmaristanum fannst tilvalið að nefna Vífilsstaðahelli “Jósepshelli” eftir að hafa komið í “Maríuhelli”, en það lýsir fyrst og fremst fákunnáttu þess sama á staðháttum.

Maríuhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.

“Maríuhellar” eru ágætt dæmi um hversu illa hægt er að leika hella ef of margir hafa aðgang að þeim. Þeir hafa greinilega liðið fyrir nálægðina. Ef einhvern tímann hefur verið falleg hraunmyndun í einhverjum þeirra þá eru hún horfin núna. Sama gildir og um aðra hella í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Auðvelt er að eyðileggja nokkurra þúsund ára steinmyndanir á skömmum tíma af fákunnugum. Jafnan hendir fólk miklu drasli af sér í hellana, en þeir hafa þó verið hreinsaðir af og til. Þegar þetta er ritað var umgengnin með besta móti.
Mikilvægt er að fólk, sem vill sækja hella heim, fari varlega og gæti þess að skemma ekki verðmæti, sem í þeim eru. Það á reyndar við um allt annað – allstaðar – alltaf.
Frábært veður.

Maríuhellar

Í Maríuhelli.