Bessastaðir

Þann 19. september árið 1761 gaf Magnús Gíslason, amtmaður í Viðey, út eftirfarandi fyrirskipun: “Bændur þeir, 36 að tölu, sem eiga dagsverk að vinna um sláttinn á kóngsins garði, Bessastöðum, skulu hver sum sig hálfa dagsláttu eða svokallað fimm álna tún, að viðlagðri hæfilegri refsingu, sem sýslumaðurinn ber að annast.”

Bessastaðir

Gengið að Bessastöðum.

Í Öldinni okkar segir árið 1761: “Bygging stórhýsa úr höggnum steini er að hefjast á Bessastöðum og í Nesi við Seltjörn. Á Bessastöðum verður reistur embættisbústaður handa stiftamtmanninum, en í Nesi verður setur landlæknis og lyfjabúð.
Í hitteðfyrra var þegar tekið að losa grjót í Fossvogi í bygginguna á Bessastöðum, og var það flutt á gömlum sexæringi að lendingu þar, og í fyrra var byrjað að aka því heim á vagni, er hesti var beitt fyrir. Í sumar hefur fjöldi manna verið í efnisflutningum til Bessastaða, og tekið era ð grafa fyrir grunni hins nýja húss. Er það mikil vinna, því að grafið er átta eða níu álnir niður. Duggan Friðriksvon kom í vor með kalk í byggingarnar, og tveir múrar eru komnir til þess að vinna að steinsmíði og veggjagerð. Annar þeirra heitir Jóhann Georg Berger, en hinn Þorgrímur Þorláksson, íslenskur maður, er lært hefur iðn sína erlendis. Þeir eiga jöfnum höndum að vinna að báðum byggingunum, eftir því sem áfram miðar.

Bessastaðir

Bessastaðir – FERLIRsfélagar í heimsókn.

Næsta ár er von trésmiða. Nú í sumar lét Magnús Gíslason, amtmaður, einnig hefjast handa um undirbúning að byggingu typtunarhúss á Arnarhóli, enda þótt stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn hafi ekki formlega samþykkt, aðþað skuli byggt hér.. Til þessarar vinnu hafa verið setter fangar, en Gissur Jónsson, lögréttumaður á Arnarhóli, hefur með höndum umsjón og verkstjórn alla.”

Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum sló Noregskonungur eign sinni á staðinn, sem varð fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar.

Bessastaðir

Bessastaðir 1722.

Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu eins af kunnustu og mikilhæfustu skáldum þess tíma, Gríms Thomsens (1820-1896), en hann fæddist þar. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826-1907) fæddist á Bessastöðum. Hann var eitt af sérkennilegustu skáldum og rithöfundum okkar á s.hl. 19. aldar. Eftir lát Gríms Tomsens voru Bessastaðir lengst af í eigu einstaklinga unz Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Rvík. gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Síðan hafa forsetar landsins haft aðsetur þar.
Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins. Byggingu turnsins lauk ekki fyrr en árið 1823 eftir að hætt var við að hafa þar útsýnisaðstöðu. Fyrsta kirkjan var helguð heilagri Maríu og heilögum Nikulási. Um miðja 14. öld átti kirkjan þriðjung Bessastaðalands.

Bessastaðir

Frederick W.W. Howell, Bessastadakirkja 1900.

Þegar erlendir landstjórar settust þar að, áttu bændur kirkjuna, sló konungsvaldið eign sinni á hana. Afleiðingar þess voru síður en svo ásættanlegar og árið 1616 var hún komin í slíka niðurníðslu, að það varð að endurbyggja hana. Allar aðrar kirkjur landsins voru skattlagðar til að afla fjár til verksins. Nýja kirkjan var mjög falleg bygging en það hafði láðst að setja trébita í hana, svo að hún fauk í stormi tveimum árum síðar. Viðirnir voru notaðir til byggingar nýrrar kirkju með torfveggjum til að hún stæði af sér fárviðri.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Árið 1773 ákvað Kristján 7., Danakonungur, að reisa skyldi steinkirkju á Bessastöðum, þar sem hin gamla var úr sér gengin. Það er ekki að fullu ljóst hver hannaði hana, en líklega var það G.D. Anthon. Steinveggirnir voru byggðir utan um gömlu trékirkjuna, sem var síðan rifin. Veggirnir eru rúmlega 1m þykkir, hlaðnir úr grjóti úr Gálgahrauni, sem sést austan kirkjunnar. Steinarnir voru fluttir á flatbytnum eftir skurði að Lambhúsatjörn og yfir hana að byggingarstaðnum. Þetta var seinlegur byggingarmáti, svo að kirkjan var ekki vígð fyrr en árið 1796. Eitt fyrstu embættisverka í kirkjunni var gifting ungs pars frá Reykjavík. Athöfnin fór fram í júlí 1796 að viðstöddum öllum fremstu mönnum þjóðarinnar.

Bessastaðir 1720

Bessastaðir 1720.

Skömmu eftir aldamótin 1700 þarfnaðist kirkjan þegar viðhalds og þá var ákveðið að ljúka byggingu hennar, því að turninn vantaði. Því verki var lokið árið 1823. Árið 1841 eignaðist Bessastaðaskóli Bessastaði. Skólabókasafnið var á efri hæð kirkjunnar allan tímann, sem skólinn starfaði þar. Kirkjan varð aftur að bændakirkju árið 1867.
Fyrsti bóndinn, sem keypti Bessastaði 1768, var Grímur Thomsen. Kirkjan þjónaði þessu hlutverki til 1941, þegar Sigurður Jónsson gaf þjóðinni staðinn með því skilyrði, að þar yrði aðsetur þjóðhöfðingja landsins. Við þessar breyttu aðstæður var innviðum kirkjunni líka breytt talsvert á árunum 1945-47 og þannig sjáum við hana nú á dögum. Trégólf kom í stað flísa og predikunarstóllinn frá því um 1700 vék fyrir nýjum.

Bessastaðir

Bessastaðakirkja – gluggi.

Steint gler var sett í glugga kirkjunnar árið 1956 í tilefni sextugsafmælis Ásgeirs Ásgeirssonar, annars forseta lýðveldisins, sem átti reyndar þetta merkisafmæli tveim árum áður. Gluggarnir eru 8 talsins og listamennirnir voru Finnur Jónsson og Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Fyrsti glugginn til vinstri sýnir komu papa (Finnur).
Á grátunum, sem eru úr smíðajárni, eru myndir postulanna. Þessar myndir minna líka á verndarvættir landsins, drekann, fálkann, nautið og risann, sem er að finna í skjaldarmerki landsins. Guðmundur og Finnur gerðu þær líka.

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju.

Stóri, útskorni krossinn á norðurveggnum (vinstri) er eftir Ríkarð Jónsson. Hann var áður altaristafla kirkjunnar, en var fyrst færður þaðan á vesturvegginn. Altaristaflan, sem kom í staðinn, kom af Þjóðminjasafninu 1921. Hún er máluð mynd af Kristi að lækna sjúka eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson).

Grafsteinn Magnúss Gíslasonar varalandstjóra (†1766) er í norðurveggnum í kórnum. Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra. Gagnger viðgerð á kirkjunni fór fram árið 1998.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023.

FERLIR hefur nokkrum sinnum fengið að líta fornleifar þær, sem varðveittar eru undir Bessastaðastofu, augum. Þær lýsa á áhrifaríkan hátt aðstæðum og aðbúnaði fólksins á Bessastöðum fyrr á öldum. Forsetaembættinu eru þakkaðar góðar móttökur.

Heimildir m.a.:
-nat.is
-alftanes.is
-Öldin okkar 1761-1800

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.