Færslur

Bessastaðir

Margt og mikið hefur verið rætt og ritað um “Bessastaði og Bessastaðakirkju” fyrrum. Hér á eftir verður drepið á fáeitt áhugavert.

Á vefsíðu forseta Íslands segir um sögu Bessastaða:

“Saga Bessastaða er hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.

Bessastaðir 1720

Bessastaðir 1720.

Bessastaðastofa var byggð 1761-66, í amtmannstíð Magnúsar Gíslasonar. Árið 1805 fluttist Hólavallaskóli, eini lærði skóli landsins, til Bessastaða og hlaut þá heitið Bessastaðaskóli. Hann starfaði þar til 1846 að hann flutti til Reykjavíkur; á þeim árum sóttu skólann m.a. Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þar sleit skáldið Benedikt Gröndal barnsskónum eins og hann lýsir í Dægradvöl.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (1820-1896).

Árið 1867 eignaðist skáldið og þingmaðurinn Grímur Thomsen Bessastaði og bjó þar tæpa tvo áratugi. Eftir að hann lést árið 1896 keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms, Jakobínu Jónsdóttur. Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona keyptu Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908 og áttu jörðina þar til Skúli lést árið 1916. Jón H. Þorbergsson bóndi bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni, Elínu Vigfúsdóttur, á árunum 1917-28 og því næst hjónin Björgúlfur Ólafsson læknir og Þórunn Benediktsdóttir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.”

Bessastaðir

Bessastaðir.

Í grein í Morgunblaðinu í febrúar árið 2001 segir um Bessastaði á Álftanesi og Bessastaðakirkju:

“Kirkjan, sagan og þjóðin hafa verið rauði þráðurinn í hugvekjunum síðustu misserin. Stefán Friðbjarnarson staldrar við þann söguríka stað, Bessastaði á Álftanesi.
Hvað hjálpar þér í heimsins glaumi,
að heiminum verðirðu´ ekki að bráð?
Þá berast lætur lífs með straumi,
og lystisemdum sleppur taumi,
– hvað hjálpar, nema Herrans náð?
“Og því er hver einn bezt til ferða búinn,
ef bilar hann ei vonin eða trúin”. – (Grímur Thomsen.)

Sérhver sæmilega lesinn Íslendingur veit að Ingólfur Arnarson festi fyrstur norrænna manna bú hér á landi.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Fjölmargir en færri þó vita að bróðursonur hans, Ásbjörn Özurarson, “nam land milli Hraunholtslækjar ok Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum”, eins og segir í Landnámu. Enginn veit með vissu hvar Skúlastaðir vóru. Getgátur nefna m.a. Bessastaði og Garða, höfuðbýli á svæðinu um aldir. Rannsóknir á mannvistarleifum á Bessastöðum benda sterklega til þess að þar hafi bú verið þegar á landnámsöld (870-930). Ummerki um rask fundust rétt undir landnámsgjóskunni og eru frá 9. öld (Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga – 1996).

Bessastaðir

Bessastaður 1722.

Bessastaðir tengjast Íslandssögu flestum stöðum sterkar. Hærra rísa Þingvellir, Skálholt, Hólar og Reykjavík. Staðurinn komst í eigu eins virtasta höfðingja Sturlungaaldar, sagnameistarans í Reykholti, Snorra Sturlusonar. Þar dvaldi hann un lengri og skemmri tíma, sbr. Sturlungu. Þar var jafnan annálað höfðingjasetur. Til Bessastaða rekja ýmsir örlagatburðir í sögu þjóðarinnar rætur, illir sem góðir. Þar sátu “kóngsins valdsmenn” um margra alda skeið. Þar sátu þeir þegar sjálfstæðis- og trúarhetjan Jón biskup Arason og synir hans tveir vóru hálshöggnir. Þangað var böðull þeirra, Jón Ólafsson, sóttur. Þar var latínuskóli (prestaskóli) 1805-1846.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen.

Þar fæddist skáldjöfurinn Grímur Thomsen árið 1820. Þar bjó hann myndarbúi eftir nám og farsælan embættisferil í Kaupmannahöfn og sinnti skáldskap og stjórnmálum. Og þar lézt hann árið 1896. Bessastaðir eru nú íslenzkt þjóðhöfðingasetur, bústaður forseta íslenzka lýðveldisins, verndara kirkjunnar.

Höfuðbýlin, Bessastaðir og Garðar, settu um aldir svip á nágrenni sitt. Í bókinni “Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða” (samantekt í ritstjórn Erlu Jónsdóttur 1992) segir m.a.: “Á síð-miðöldum var nærvera kirkju og krúnu ekki jafn yfirþyrmandi í neinni þingsókn sýslunnar eins og í Hausastaðaþingsókn. Bæði var að hvergi vóru menn í eins mikilli nálægð við valdsmenn konungs og á Bessastöðum og óvíða bar jafn mikið á jarðasöfnun kirkju og krúnu og þar.” Samkvæmt jarðamati 1695 átti krúnan tilkall til 26 jarða (af 38 lögbýlum í hreppnum) og 10 jarðir vóru kirkjujarðir. “Aðeins ein jörð, Setberg, var í einkaeigu, auk þess sem jarðarpartur úr Ási ofan við Hafnarfjörð var í einkaeign. Setberg hefur reyndar ein jarða í Áltaneshreppi þá sérstöðu að hafa aldrei komið undir kóng eða klerk,” segir í tilvitnaðri bók um Garðabæ. Sá munur var á kirkju- og konungsjörðum að þær fyrrnefndu heyrðu undir innlenda menn.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Bessastaðakirkju er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups árið 1200. Þar er og getið Garðakirkju, sem talin var veglegri. Sú síðarnefnda heyrði kirkjuvaldinu. Hin var fyrst bændakirkja en “síðan kirkja höfuðvígis konungsvaldsins um margra alda skeið”, segir í Álftaness sögu. Bessastaðakirkja sem enn stendur var reist árin 1794-1796, en hefur oft verið betrumbætt síðan. Hún setur ríkulegan svip á íslenzka forsetasetrið: Tákn um tengsl kirkju og þjóðar í þúsund ár.

Bessastaðir.

Bygging núverandi steinkirkju á Bessastöðum hófst 1773 og var hún vígð 1796.

Eitt áttu allar kynslóðir og byggðir Íslands sammerkt: kirkju í miðri sveit, sem var miðstöð mannfunda, menningar og trúar sóknarbarnanna. Kirkjan og þjóðin, kirkjan og kynslóðirnar, kirkjan og einstaklingar hafa átt samleið í þúsund ár – frá vöggu til grafar sérhvers Íslendings. Þessi tryggðabönd kirkju og þjóðar, kirkju og einstaklinga, þarf að treysta og tryggja til langrar framtíðar. Kirkjan er kjölfestan í þjóðarskútunni. Kristinn boðskapur áttavitinn.”

Í Morgunblaðinu í október 2005 segir um Bessastaði á Álftanesi:

“Margir þættir þjóðarsögunnar renna saman á Bessastöðum á Álftanesi, þar sem nú er embættisbústaður forseta Íslands. Sveinn Guðjónsson rifjar upp sögu staðarins, sem nær allt frá landnámsöld til okkar daga.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – altaristafla.

Saga Bessastaða á Álftanesi er svo samofin sögu og örlögum íslensku þjóðarinnar að þar verður vart greint á milli og líklega kemst ekkert íslenskt höfuðból þar nærri í samjöfnuði. Bessastaðir hafa bæði verið í eign einstakra manna og ríkiseign. Þeir hafa verið stjórnarsetur, kirkjustaður og skólasetur og þar hefur verið rekin prentsmiðja með bóka- og blaðaútgáfu. Bessastaðir hafa verið í eign fræðimanna og skálda, eins og Snorra Sturlusonar og Gríms Thomsen. Þar hafa setið landstjórnarmenn og fyrirmenn, svo sem höfuðsmenn og amtmenn, fógetar, ríkisstjóri og forsetar. Þar hafa starfað merkir skólamenn eins og Hallgrímur Scheving og vísi

ndamenn á borð við Sveinbjörn Egilsson og Björn Guðlaugsson. Þar hafa stundað skólanám ýmsir öndvegismenn, og skal ástmögur þjóðarinnar, Jónas Hallgrímsson, nefndur í þeim hópi.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023.

Ýmis atvinnustarfsemi hefur farið fram á Bessastöðum og þar gerðar tilraunir, svo sem um fjárrækt og fálkafang, útræði og búskap, og þar var eitt sinn rekin ullarverksmiðja. Á Bessastöðum voru gerðar veðurathuganir og rekin rannsóknarstöð í stjörnuathugun. Þar fór fram læknakennsla og rekin lyfjabúð. Hinir ólíklegustu þættir þjóðarsögunnar hafa fléttast saman á Bessastöðum sem best sést á því að þar var eitt sinn fangelsi sakamanna og jafnframt leiknir fyrstu sjónleikir, sem leiknir voru á Íslandi, að því er best er vitað.

Saga Bessastaða er ekki eingöngu saga höfuðbóls og menntaseturs. Vegna embættisstöðu Bessastaðabænda um langan aldur voru örlög og lífskjör þjóðarinnar nátengd þessu höfuðbóli. Það er saga kúgunar, eymdar og yfirtroðslu. Og vegna embættistengsla Bessastaðamanna við dönsku krúnuna fyrr á öldum ber saga Bessastaða vitni um erlenda ásælni og yfirdrottnun. Á sama hátt má segja að hlutverk Bessastaða á okkar tímum, sem embættisbústaður forseta Íslands, sé tákn um sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðlegt viðnám gegn ásælni erlends valds.

Bessastaðir

Bessastaðir – fornleifarannsóknir.

Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að búseta hefur verið á Bessastöðum allt frá landnámsöld. Álftanesið var í landnámi Ingólfs Arnarsonar, en hvergi verður ráðið af heimildum hver sá Bessi var, sem Bessastaðir eru kenndir við. Þegar endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987 kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 metra þykk mannvistarlög og hafa þar fundist minjar um fyrstu búsetu manna þar, meðal annars leifar af tveimur stórum skálum, eldhús og búr, jarðhús, útihús og garðar. Af fornleifarannsóknunum má ráða að Bessastaðir hafi verið allstórt býli allt frá upphafi. Bæjarhóllinn er einn sá stærsti á Íslandi, rúmlega 50 metra breiður og 150 metra langur, og hefur hann að geyma mikilvægar og áþreifanlegar upplýsingar um þróun búsetu á Bessastöðum.

Bessastaðir

Bessastaðasel í Lækjarbotnum.

Bessastaða er ekki getið í rituðum heimildum fyrr en um tveimur öldum eftir að búseta þar hófst.

Það er ekki fyrr en á Sturlungaöld sem Bessastaðir fara að koma verulega við sögu, en þá voru þeir í eigu skáldsins og stórhöfðingjans Snorra Sturlusonar.

Snorri Sturluson

Snorri Sturluson.

Ekki er vitað með vissu hvernig Snorri hefur eignast jörðina, en hann var mikill jarðeigandi og leitaði víða fanga í þeim efnum og sótti þá oft fjármálin meira af kappi en rétti, svo sem farið hefur með fleirum bæði fyrr og síðar, en Sturlungaöldin einkenndist af hatrammri baráttu nokkurra höfðingjaætta um auð og völd í landinu.

Miðstöð konungsvaldsins
Eftir fall Snorra Sturlusonar taldi Hákon gamli, Noregskonungur, sig eiga tilkall til arfs eftir Snorra og sló eign sinni á staðinn. Þannig urðu Bessastaðir miðstöð konungsvaldsins á Íslandi, og um leið uppistaða í jarðeignum og jarðeignavaldi konungs hér á landi. Sátu umboðsmenn konungsvaldsins jafnan á Bessastöðum og á löngum kafla Íslandssögunnar voru Bessastaðir tákn æðsta valdsins í þjóðfélaginu.
Bessastaðir komu mjög við sögu siðaskiptanna enda stóð konungsvaldið að hinum nýja sið og umboðsmenn þess veittust gegn biskupunum Ögmundi Pálssyni og Jóni Arasyni, sem þrjóskuðust við. Siðbótarmenn konungs fóru í herferðir frá Bessastöðum og þar voru lögð á ráðin um aftöku Jóns Arasonar og sona hans.

Henrik Bjelke

Henrik Bjelke.

Af þeim umboðsmönnum erlenda konungsvaldsins sem sátu á Bessastöðum varð Henrik Bjelke, höfuðsmaður og lénsmaður, einna nafntogaðastur, enda gerðust í hans tíð einhverjir örlagaríkustu atburðir íslandssögunnar, sem tengjast Bessastöðum. Það voru hyllingareiðarnir 1662, þegar Friðriki konungi þriðja voru svarnir erfða- og einveldiseiðar. Við einveldistökuna urðu ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu og var hinn forni konungsgarður á Bessastöðum þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungs hér á landi, landfógeta og amtmanns, þar til landsstjórnin fluttist til Reykjavíkur á nítjándu öld.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu skáldsins og alþingismannsins Gríms Thomsen, en hann fæddist þar árið 1820. Grímur bjó á Bessastöðum ásamt konu sinni Jakobínu Jónsdóttur, þar til hann lést árið 1896, en þá keypti Landsbanki Íslands jörðina. Tveimur árum síðar eignuðust hjónin Theodóra Thoroddsen skáldkona og Skúli Thoroddsen ritstjóri og þingmaður Bessastaði. Síðar bjuggu þar Jón H. Þorbergsson bóndi (1917-28) og Björgúlfur Ólafsson læknir (1928-40) og árið 1940 keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessastaði. Þegar embætti ríkisstjóra var stofnað var nokkur óvissa um hvar ríkisstjóri skyldi hafa aðsetursstað og kom þá upp sú tillaga að hann sæti á Bessastöðum. Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, spurðist fyrir um það hjá eiganda jarðarinnar hvort hann vildi selja staðinn til þessara nota og bauðst Sigurður þá til að afhenda ríkinu Bessastaði að gjöf, og var því boði tekið. Þetta var árið 1941, en Bessastaðir hafa síðan verið aðsetur forseta Íslands frá stofnun lýðveldisins 1944.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Bessastaðakirkja hefur vissa sérstöðu í íslenskri kirkjusögu að því leyti að hún stóð á höfuðbóli, en var ekki höfuðkirkja. Bessastaðir voru veraldlegt höfuðból, en ekki kirkjulegt og stundum stóð þar stríð milli hins veraldlega og andlega valds í afstöðunni til kirkjunnar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Ekki verður rakið með vissu hvenær kirkja var fyrst sett á Bessastöðum, en líklegt er að það hafi verið nokkuð snemma í kristni hér á landi og eru elstu heimildir um kirkju þar frá árinu 1200. Bessastaðakirkja hefur í upphafi verið bændakirkja, en í elsta máldaga hennar, frá 1352, segir að þar skuli vera “kvengildur ómagi úr kyni Sveinbjarnar”. Er þar líklega átt við Sveinbjörn Ólafsson, sem var fimmti ættliður frá landnámsmanninum Ásbirni Özurarsyni, sem bjó á þessum slóðum á 11. öld.

Nokkrar tilraunir voru gerðar til að efla kirkjuna á Bessastöðum og hefja hana til vegs og virðingar, en það gekk illa eftir og gekk á ýmsu með viðhald hennar. Í byrjun 17. aldar var hún orðin hrörleg og var þá ný timburkirkja reist, allstór. Hún var þó vanviðuð og illa smíðuð og fauk í ofviðri 1619. Þá var reist þar torfkirkja, sem stóð alllengi með viðgerðum og var hún meðal annars timburþiljuð. Henrik Bjelke höfuðsmaður lét á sinni tíð gera við kirkjuna og gaf hann henni stóra klukku.

Kristján sjöundi

Kristján konungur söundi.

Kristján konungur sjöundi ákvað svo að láta reisa steinkirkju á Bessastöðum og var leitað frjálsra samskota um allt land og einnig í Danmörku og Noregi, auk þess sem konungur lagði fram fé til kirkjusmíðinnar. Við byggingu kirkjunnar var hafður sá háttur á að hlaða múrveggi nýju kirkjunnar utan um gömlu kirkjuna og voru múrveggirnir hafðir mjög þykkir, rúmur metri, úr hlöðnu, kölkuðu grjóti. Hin nýja steinkirkja var vígð 1796 og stendur enn og er með elstu steinbyggingum landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945 til 47 og steint gler var sett í gluggana árið 1956. Þá fór gagnger viðgerð fram á Bessastaðakirkju árið 1998.

Bessastaðastofa

Bessastaðir

Bessastaðir – tákn valdsins.

Húsnæðið á Bessastöðum þótti ekki alltaf upp á marga fiska og þótt ýmis hús hefðu verið reist þar í aldanna rás hafði sjaldnast verið vandað til verka og oft byggt af vanefnum. Það var ekki fyrr en Magnús Gíslason, fyrsti íslenski amtmaðurinn á Bessastöðum, kom til sögunnar að rofa tók til í húsnæðismálum þessa forna höfuðbóls. Þegar hann átti að fara að setjast þar að, fyrst settur amtmaður 1752 og aftur þegar hann var skipaður 1757, þótti honum í bæði skiptin að ekki væru íbúðarhæf húsin á Bessastöðum.

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Danska stjórnin réðst þá í byggingu tveggja steinhúsa samtímis, það er embættisbústaðar Bjarna Pálssonar landlæknis á Nesi við Seltjörn og Bessastaðastofu, embættisbústaðar Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Bessastaðastofa var reist á árunum 1761 – 66 og þótti hið veglegasta hús, 33 álnir og 3 tommur að lengd, 16 álnir og 16 tommur á breidd og nálægt 5 álnum á hæð og veggir hlaðnir úr tilhöggnum kalklímdum grásteini. Verulegar breytingar voru gerðar á húsinu er ríkisstjóri fékk það til umráða 1941 og aftur þegar húsið var endurbyggt á árunum 1989-1990.
Bygging Bessastaðastofu var að vissu leyti tákn um nýja tíma í landinu. Furðulegt má teljast hversu lengi hafði dregist að koma upp vönduðu og varanlegu húsnæði á slíku höfuðbóli sem konungsgarðinum á Bessastöðum. Þegar Bessastaðastofa loks reis var hlutverk staðarins sem stjórnarseturs á enda runnið. En þá reis þar annað og ekki ómerkara setur, íslenskt menntasetur, sem mikill ljómi hefur stafað af í vitund íslensku þjóðarinnar allt fram á okkar dag. Sú saga verður ekki rakin hér enda efni í aðra og lærðari grein.”

Í áhugaverðu riti Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði – Sögubrot – frá árinu 2021 og finna má á Netinu má m.a. lesa eftirfarandi:

Formáli höfundar

Júlíus Ó. Einarsson

Júlíus Ó. Einarsson.

“Hér er ekki sögð saga Bessastaða því til þess er ritið of lítið en sagan stór, enda orðaði Árni Óla rithöfundur það þannig að saga Bessastaða væri saga þjóðarinnar í stórum dráttum.
Hér fara á eftir stuttar frásagnir af ýmsum þáttum úr sögu Bessastaða, því auðvitað er ekki pláss fyrir mjög ítarlega umfjöllun um hina ótal ólíku atburði sem marka meira en þúsund ára ábúð. Mér tekst þó vonandi að gefa nokkuðskýra mynd af staðnum og vægi hans í sögu þjóðarinnar. Ég hvet lesandann um leið til þess að leita sér meiri fróðleiks um allt það sem kann sérstaklega að vekja áhuga hans á komandi blaðsíðum. Sums staðar vísa tenglar á vefsíður með efni sem bætir drjúgmiklu við fróðleikinn sem hér er að finna. Þá er líka heimildaskrá þar sem má finna megnið af þeim heimildum sem stuðst er við. Bókasöfn landsins geyma flestar heimildirnar og í þeim ritum eru áhugaverðar, fróðlegar og skemmtilegar frásagnir sem bæta heilmiklu við þá mynd sem hér er dregin upp. Í fyrsta kaflanum er tæpt lauslega á sögu Bessastaða til þess að lesandinn fái heildaryfirsýn en síðari kaflar segja frá ýmsu markverðu ásamt því sem fléttað er inn ýmsu forvitnilegu úr þjóðsögum. Byggt er að mestu á rituðum heimildum en líka stuðst við áður óbirt efni úr fórum mínum. Fyrir utan fróðleiks- og skemmtigildi þessa rits, er það ætlunin að upplýsingar um örnefni, sögustaði, rústir, fuglalíf og almennt náttúrufar glæði göngutúrinn lífi fyrir þá sem kjósa að fara á tveimur jafnfljótum um Bessastaðanes og opni þeim sýn á það sem annars kann að vera hulið á þessum sögulega stað.

Júlíus Ó. Einarsson

Rit Júlíusar Ó. Einarssonar um Bessastaði á Álftanesi – Sögubrot.

Lítil áhersla er hér á Bessastaði sem aðsetur forseta Íslands en fyrir utan það sem fram kemur í fjölmörgum skrifuðum heimildum um forseta og Bessastaði, er fróðleik um efnið að finna á vefsíðu forsetaembættisins. Ég starfaði á Bessastöðum um tæplega fimm ára skeið frá ársbyrjun 2010 til hausts 2014 og hafði búsetu á staðnum á þeim tíma. Ekki varð komist hjá því að saga Bessastaða ásamt húsum og minjum vektu áhuga minn. Meðal verkefna minna á Bessastöðum var að taka á móti gestum forseta, sýna staðarhúsin og munina, og segja frá. Meðfram þeirri reynslu safnaðist mest af þeim fróðleik sem birtist hér lesandanum. Ég fékk snemma þá hugmynd að opna Bessastaði fyrir almenningi en áður höfðu aðeins gestir forseta og takmarkaðir hópar átt kost á innliti. Þáverandi forseti tók afar vel í hugmyndina og mér var falið að skipuleggja, undirbúa og hafa heildarumsjón með framkvæmdinni. Í kjölfarið var Bessastaðastofa opnuð almenningi 10. febrúar 2012 í tengslum við Safnanótt. Síðan hefur verið kappkostað að gefa almenningi færi á að heimsækja staðinn og fræðast um hann um leið og gengið er um staðarhúsin og nánasta umhverfi.
Bessastaðir eru réttnefnd þjóðareign. Í mínum huga er saga Bessastaða jafn mikil þjóðareign og staðurinn sjálfur, sem er ástæða þess að rafrænni útgáfu bókarinnar er dreift án endurgjalds. Vonandi verður hún til gamans og gleði öllum þeim sem vilja kynna sér efnið eða heimsækja Bessastaði með gönguferð eða innliti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju.

Víst þykir að kirkja hafi staðið á Bessastöðum allt frá 12. öld og jafnvel fyrr. Ekki er víst að þar hafi nokkru sinni setið prestur en lengst af var kirkjunni þjónað frá Görðum á Álftanesi. Líkt og reyndin var með önnur hús á Bessastöðum um margra alda skeið, var lengi vel illa staðið að kirkjubyggingum staðarins og kirkjum illa haldið við.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Jafnvel var það stundum svo líka að kirkjan var höfð til annarra og jarðbundnari nota en helgihalds en meðal annars lýsir Sauðlauksdalsannáll því árið 1751 að prestshjónin á Bessastöðum „brúkuðu Bessastaðakirkju fyrir hesthús og svínabæli, glerglugga til kálgarðs, en fjalir til eldiviðar“.
Framan af voru kirkjur á Bessastöðum reistar úr timbri og jafnvel aðeins af torfi og grjóti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Ástand kirkjubygginga var aldrei beysið og hver kirkjan reist á eftir annarri. Timbur var flutt til Bessastaða til byggingar kirkju árið 1617 en árið áður hafði konungur tilkynnt á Alþingi að lagt yrði gjald á allar kirkjur landsins sem renna skyldi til smíðinnar. Kirkjan sem byggð var þótti stór og til þess tekið í annálum hve háreist hún var en þess jafnframt getið að enga hefði hún bita „hvað byljavindur íslenzkur vel sá“, eins og segir í Vatnsfjarðarannál yngri og fer merking þeirra orða ekki milli mála. Enda hrundi Bessastaðakirkja til grunna í stormi árið 1619. Önnur var svo byggð upp úr viðum hinnar föllnu árið eftir og hafði sú torfveggi og torfþak. Sú kirkja laskaðist svo eða hrundi árið 1624 þó að annálar nefni ekki hvort það var af völdum veðurs eða þess að byggingin var of veikburða og reis ekki undir sér sjálf.

Byrjað var að reisa steinkirkjuna sem nú stendur árið 1777. Byggingartíminn var afar langur, enda varð margt til að tefja smíðina og kirkjan var loks vígð árið 1795.
BessastaðirKirkjuturninn stóð um hríð lægra en sjálfir kirkjuveggirnir og var ekki lokið við smíði hans fyrr en árið 1823. Einhver áhöld voru um það lengi vel hvort turninn skyldi byggður til stjörnuskoðunar eða til að þjóna sem hefðbundinn kirkjuturn. Hið síðara varð niðurstaðan og efri hluti turnsins byggður í þá mynd sem hann er í dag en vanefnin eru augljós ef hann er skoðaður innanvert.
Mörgum þykir Bessastaðakirkja einkar fögur bygging og að hún samsvari sér vel, enda eru hlutföll hennar þannig að breidd og lengd byggingarinnar ásamt breidd og hæð kirkjuturnsins eru allt nokkurn veginn í hlutföllunum 1:2. Byggingin er teiknuð í svokölluðum ferskeytum, sem voru ríkjandi í hönnun dómkirkja á miðöldum og voru í hávegum í guðfræði þeirra tíma. Ekki er vitað fyrir víst hver teiknaði Bessastaðakirkju en víst er að hann var undir sterkum áhrifum þessarar hefðar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Kirkjan var byggð utan um timburkirkjuna sem síðast stóð og var orðin afar hrörleg. Aðföng til byggingarinnar sem ekki voru fáanleg hérlendis, svo sem viður og kalk, var flutt sjóleiðina frá Kaupmannahöfn og skipað á land á bakka Bessastaðatjarnar. Grjót það sem notað var í undirstöður og veggi kirkjunnar var annarsvegar hraunsteinar úr Gálgahrauni og grágrýti úr Garðaholti, sem flutt var á pramma yfir Lambhúsatjörn.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1955.

Um það leyti sem smíði turnsins var að ljúka, var kirkjan þegar farin að gjalda fyrir viðhaldsleysi og Árni Helgason prófastur í Görðum sagði um hana árið 1843 af því tilefni að hún væri sú vesælasta í hans prófastsdæmi. Áfram hrörnaði byggingin, hún fór að leka og jafnvel hrundi loftið í kórnum að hluta eftir að staðurinn var kominn í eigu Gríms Thomsen. Raunar segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl að Grímur hafi notað kirkjuna meðal annars til þess að þurrka þvott. Það var ekki fyrr en eftir að Skúli Thoroddsen eignaðist Bessastaði, að ráðist var í nauðsynlegt og löngu tímabært viðhald á staðarhúsunum.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1930.

Ýmsar breytingar voru gerðar í gegnum tíðina á innréttingum Bessastaðakirkju en líka á ytra útliti. Náðu þær meðal annars til þakkvista, glugga og jafnvel var grafhýsi byggt utan í norðurvegg kirkjunnar á árunum 1784-1786, og það síðar rifið. Enn sést móta fyrir dyraopinu sem var milli kirkju og grafhýsis í steinhleðslunni utan á norðurveggnum. Þá voru líka lengi vel útidyr á syðri langvegg kirkjunnar. Ef til vill má segja að róttækustu breytingarnar á kirkjunni frá upphafi, séu útskipti á öllum innviðum hennar og gólfi, sem fram fóru á árunum 1946-48. Þessar breytingar voru afar umdeildar á sinni tíð og eru jafnvel enn. Í bókinni „Steinhúsin gömlu á Íslandi“ er talað um framkvæmdina
sem „býsna harkalegar viðgerðir og breytingar“. Illa mun hafa verið gengið um gömlu innviðina sem voru rifnir innan úr kirkjunni og þeir látnir liggja úti í öllum veðrum þar til ungur fornleifafræðingur fór að boði Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar til þess að líta eftir þeim. Hann kom því til bjargar sem bjargað varð og margt var flutt til geymslu hjá Þjóðminjasafninu. Þessi fornleifafræðingur var Kristján Eldjárn, sem sjálfur varð síðar forseti lýðveldisins og sat sem slíkur á Bessastöðum árin 1968-1980.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – steindur gluggi.

Mörgum sérfræðingnum um byggingarlist og byggingasögu þykir að steindir gluggar kirkjunnar séu gróft lýti í samhengi byggingarinnar þó að þeir séu að sönnu afskaplega fallegir gripir í sjálfu sér. Sagt hefur verið jákvætt um gluggana að þeir hylji það þó hvernig kirkjan var leikin að innan við endurbæturnar á fimmta áratugnum.

Ásgeir Ásgeirsson

Ásgeir Ásgeirsson.

Steindu gluggarnir komu þannig til að Ásgeir Ásgeirsson valdi sér þá sjálfur sem sextugsafmælisgjöf frá ríkisstjórn Íslands. Listamennirnir Guðmundur Einarsson frá Miðdal og Finnur Jónsson teiknuðu gluggana í samráði við forsetann og þeir smíðaðir í Englandi. Í dag er upphækkun í gólfi einu skilin milli kórs og kirkju. Fremst er lítill söngpallur og orgel, kirkjubekkir og predikunarstóll eru einfaldir að gerð og nokkuð hefðbundnir, teiknaðir af Guðjóni Samúelssyni húsameistara. Predikunarstóllinn er skorinn út af Ríkarði Jónssyni. Innst í kirkjunni á austurvegg hanga minningarskildir um látna forseta og að auki eru tveir stórir legsteinar múraðir upp á sitthvorn langvegginn, þeirra Magnúsar Gíslasonar amtmanns og Páls Stígssonar hirðstjóra.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – altaristafla.

Altaristafla kirkjunnar er máluð af Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni). Hún er eign Listasafns Íslands en er lánuð kirkjunni. Sé grannt skoðað, má telja víst að Muggur hafi aldrei lokið fyllilega við verkið.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023 – vindhani.

Ýmsir áhugamenn um Bessastaði eru áfram um að færa kirkjuna að einhverju leyti til eldra horfs. Tæplega er raunhæft að ætla að færa innviði til upprunalegs orfs og því síður að notast við eldri viði og búnað sem hefur varðveist að einhverju leyti. Nokkrar útfærslur á endurgerð koma til greina, sem allar væru fallnar til þess að sýna kirkju- og staðarsögunni sóma. Ekki er víst að af slíkum hugmyndum verði og þeir sem eru því mótdrægir leiða rök að því að hvert tímabil í notkunarsögu kirkjunnar sé jafn rétthátt öðru og allar breytingar í þessa veru myndu draga úr notagildi kirkjunnar til daglegra athafna.”

Síðasti valdsmaðurinn

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki Trampe greifa á turni Bessastaðakirkju.

Deilt hefur verið um skjaldarmerkið efst framan á Bessastaðakirkju. í Riti Júlíusar segir: “Trampe greifi, sem hafði verið dómari á Lálandi, var skipaður amtmaður á Íslandi 1804, eftir að Ludvig Erichsen kammerráð lést fyrr á því sama ári. Trampe vék sjálfviljugur af Bessastöðum og settist að í Reykjavík til þess að latínuskólinn gæti komið sér þar fyrir og hafið skólastarf.

Karl Sigurbjörnsson

Karl Sigurbjörnsson.

Ofan við efri gluggann á framhlið turns Bessastaðakirkju er innfelldur skjöldur úr sandsteini. “Skjaldarmerki ættar Trampe greifa er mótað í skjöldinn en hann var stiftamtmaður þegar smíði turnsins var lokið árið 1823.”
Fékk hins vegar eftirfarandi svar frá Karli Sigurbjörnssyni, fyrrverandi biskupi Íslands: “Blessaður og sæll. Þú varst að spyrja um skjaldarmerkið á Bessastöðum, það mun vera merki Moltkes greifa sem var stiftamtmaður hér þegar turnsmíðinni var lokið, 1823. Bestu kveðjur. – Karl Sigurbjörnsson”

Sjá framhaldið um skjaldarmerkið HÉR.

Rit Júlíusar um “Sögubrot Bessastaða” má finna HÉR.

Heimild:
-https://www.forseti.is/sagan/bessasta%C3%B0ir/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1042945/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/587259/
-https://juliuseinarsson.files.wordpress.com/2021/01/bessastadir-sogubrot-3.pdf

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2000.

Bessastaðakirkja

Hreinn S. Hákonarson skrifaði þann 14. nóv. 2023 grein í Kirkjublaðið.is um “Kross eða vindhana?” á Bessastaðakirkju:

Bessastaðakirkja

Vindskraut á Bessastaðakirkju 2024.

“Fyrir nokkru var Kirkjublaðið.is að fletta nýútkominni litabók í bókaverslun sem bar virðulegra nafn en aðrar litabækur sem orðið höfðu á ævivegi ritstjórans: “Hin íslenska litabók”.
Myndirnar gerði Sísí Ingólfsdóttir. Litabókin er ætluð börnum og í henni eru myndir af sögulegum stöðum og atburðum til að lita. Snjöll bók og uppeldislega góð. Ein myndin í litabókinni er af Bessastaðakirkju. Á turni hennar er kross. Teiknari bókarinnar kann að hafa haft fyrir framan sig mynd af kirkjunni þegar kross var á henni. Eða bara gengið út frá því að þarna ætti að vera kross og ekki svo sem fráleit hugmynd þar sem þetta var kirkja. Margir kinka eflaust kolli yfir því.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1968.

Krossinn á turni Bessastaðakirkju fauk af skömmu fyrir aldamótin 2000 en hann hafði verið á kirkjunni frá fimmta áratug síðustu aldar. Gert var við hann en ekki komst krossinn upp á turninn að nýju. Einhverjar sögur gengu um að hann væri týndur.

En hvað um það.

Það blæs sennilega úr öllum áttum á Álftanesi eins og víðar annars staðar í mannlífinu.

Nýlega var sagt frá því í fréttum að búið væri að setja upp vindhana á turn kirkjunnar. Gamli vindhaninn hafði verið tekinn niður skömmu eftir lýðveldisstofnun 1944 en hann var með danskri kórónu sem þótti þá ekki lengur hæfa. Elstu myndir af kirkjunni sýna Bessastaðakirkju með myndarlegan vindhana (vindör) og því er sá nýi hluti af upprunalegri mynd en án kórónu sem fyrr sagði. Hugmyndir hafa verið uppi um að færa kirkjuna alla til sem upprunalegs horfs eins og þetta myndband sýnir. Um það eru vissulega skiptar skoðanir.

Reykjavík

Bessastaðir – kirkjan fyrrum.

En þetta með vindhanann og hvað hann stendur fyrir.

Fyrsta spurningin sem vaknar er hvort þetta sé nú alvöru vindhani. Vindhani í ströngustu merkingu er með mynd af hana sem snýst eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs.

Í fréttinni um uppsetningu vindhanans var vitnað til tilkynningar frá forsetaembættinu en þar sagði að vindhaninn væri „tákn árvekni og skyldurækni og minnir á þegar Pétur postuli afneitaði Jesú þrisvar en þá gól hani.“ Þetta er allt satt og rétt. Haninn galar við sólarupprás og meistarinn skaut því að postulanum Pétri að ekki yrði hann stöðugur þegar til stórræðna kæmi – haninn myndi gala þrisvar í kjölfar þríendurtekinnar afneitunar á kunningsskap við meistarann.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1930.

Já, Pétur reyndist í raun vera vindhani sjálfur, óstöðugur í hæsta máta eins og lesa má í orðabókaskýringu við orðið vindhani. En á vindhana Bessastaðakirkju er haninn fjarri góðu gamni og því ætti fremur að kalla hanann veðurvita eða veðurör. Þessi tilvitnuðu orð fréttarinnar um hanalausa vindhanann og samband hanans við Pétur mýkja vonandi huga þeirra sem hafa viljað sjá kross á turni Bessastaðakirkju. Þarna er að minnsta kosti komið til móts við þau með því að nefna postulann á nafn í fréttinni.

Það má líka auðvitað spyrja hvort að hanalaus vindhani sé vindhani. Nú, kannski þarf bara listrænt innsæi til að sjá hanann. Vindörin sé það sem kallast á bókmenntamáli pars pro toto, hluti fyrir heild. Hver veit.

Það er víst uppátæki páfa kaþólskra á 9. öld að setja vindhana á kirkjuturna sem kristið tákn er minna skyldi á hinn óstöðuga Pétur postula. Kannski er óþarfi að jagast í Pétri blessuðum því hann átti nú eftir að standa sig vel síðar og galt fyrir trúna með lífi sínu. Svo læðist sá grunur að hani hafi orðið fyrir valinu því að myndarlegt stél hans tekur vel á móti vindinum. Sem sagt: ýmsar hliðar á málinu.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2010.

Vindörin er falleg og traust að sjá.

En eitt er nú gott. Álftnesingar sjá úr hvaða átt hann blæs. Það er til mikilla bóta þrátt fyrir að veðurstofa hafi starfað um allnokkra hríð.

Og svona í blálokin: Eftir stendur spurningum um hvar krossinn sé og hvort ekki mætti nýta hann. Kannski á hann bara heima á Þjóðminjasafninu? Hann var þó á kirkjunni í rúma hálfa öld. Nú ef hann er týndur má minna á hin sígildu orð: Leitið og þér munuð finna.”

Heimild:
-https://www.kirkjubladid.is/mal-lidandi-stundar/kross-eda-vindhani/

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1998.

Bessastaðakirkja

Í Mbl.is 12. janúar 1997 er fjallað um “Moltke greifa á Bessastöðum“.

Molthes

Ehrenreich Christopher Ludvig Moltke greifi (1790–1864).

Nýjasta hefti danska tímaritsins Heraldisk Tidskrift er fróðleg grein, sem fjallar um skjaldarmerki aðalsættar, sem rekur kyn sitt til furstadæmisins Mecklenburg. Aðalsætt þessi kemur víða við sögu Þýskalands, Danmerkur og Íslands. Hér er um að ræða fjölda nafnkunnra manna, sem kenndu sig við Moltke, en höfðu í skjaldarmerki sínu þrjá fugla, af ætt orra. Svo sem fram kemur í grein Pouls Holtstein í tímaritinu sem til er vitnað, hefir Moltekættin tengst ýmsum öðrum aðalsættum og birtist með grein höfndar fjöldi tilbrigða við upprunalegt skjaldarmerki Moltkeættarinnar. Því hefir lítt verið haldið á loft, að einnig hér á landi hefir skjaldarmerki Moltkeættar lengi gnæft á sögufrægum stað, án þess að sérstök athygli væri á því vakin. Hér er átt við Bessastaði. Yfir dyrum Bessastaðakirkju er mótað skjaldarmerki E.C.L. Moltkes stiftamtmanns. Hann gegndi því embætti um fjögurra ára skeið. Hyggjum nánar að því síðar.

Margur ættarlaukur

Moltkes

Ættarsetur Molkets greifa.

Íslendingar hafa átt mikil og margvísleg samskipti við nafnkunna menn, sem teljast til Moltkeættar. Svo sem geta má nærri er þar margur ættarlaukur, en ekki feta gangvarar þeirra og gæðingar allir sömu braut. Knud Zimsen borgarstjóri, séra Bjarni Jónsson vígslubiskup og séra Friðrik Friðriksson í KFUM hefðu allir nefnt Joachim Moltke, hirðmeistara Friðriks prins síðar konungs, sem öðling á miklum ættarmeiði.

Einar Olgeirsson

Einar Olgeirssson.

Einar Olgeirsson foringi kommúnista hafði kynnst Kai Moltke, forystumanni danska kommúnistaflokksins. Einar segir um hann: “Kai Moltke var af hinni frægu og tignu Moltkeætt og var þess vegna kallaður rauði greifinn. Hann var afkastamikill rithöfundur.” Við þessa lýsingu Einars má bæta því að skv. frásögn Kai Moltkes átti Stefán Pjetursson síðar þjóðskjalavörður fótum fjör að launa, er hann leitaði ásjár danska sendiráðsins og óskaði eftir því að vera fluttur heim frá Moskvu. Hann óttaðist ofsóknir réttlínumanna.

Þá deildu menn hart um það hverjir væru höfuðstoð borgarastéttarinnar. Seinna kom í ljós að þeir voru það allir með tölu.

Í frásögn Knuds Zimsens borgarstjóra kemur fram að Joachim Moltke greiðir götu margra fátækra stúdenta og veitir sumum þeirra fjárhagslega aðstoð.

Molkes

Skjaldarmerki Moltkers greifa.

“Moltke bjó í stórri höll. Hann hafði gaman af að safna til sín kristilega sinnuðum stúdentum, og einu sinni í mánuði hverjum mætti hjá honum stór hópur slíkra manna. Þegar þangað var komið, var haldin bænasamkoma, en að henni lokinni bauð hann öllum til matar. Moltke var vel menntaður og víðlesinn, og báru viðræðurnar í hinum stóra sal hans greinileg merki þess.”
Frásögn séra Bjarna Jónssonar af heimsókn í höll Moltkes er með sérstæðum blæ. Hún ber öll einkenni séra Bjarna, enda kann sá sem hlýðir að hlusta og segja frá. Matthías Johannessen ritstjóri skráir frásögn séra Bjarna: “Ég hef stundum verið spurður, hvað mér hafi komið mest á óvart fyrstu vikurnar í Kaupmannahöfn. Ég held það hafi verið höll Moltkes greifa í Breiðgötu. Olfert Richard sagði við mig, þegar ég hafði dvalist nokkurn tíma í Kaupmannahöfn: “Nú hef ég boð til greifa Moltke og við fylgjumst þangað að.” Ég verð auðvitað undrandi, en þó fullur af tilhlökkun. Og hún breyttist í fögnuð, þegar ég gekk inn, því höll Moltkes greifa var fínasti staður, sem ég hafði séð á ævi minni, og langt hafin yfir allt annað. Hún var jafnvel ennþá fínni en torfbærinn heima í Mýrarholti. Greifanum kynntist ég síðar mjög vel í KFUM.”

Séra Bjarni Jónsson

Séra Bjarni Jónsson.

Naumast þarf að vekja athygli á því hve vel séra Bjarna tekst að varpa ljóma á æskuheimili sitt, lágreistan torfbæinn með skin frá steinolíuljósi á horni Vesturgötu og Bakkastígs.

Benedikt Gröndal hefir lýst Bessastaðakirkju í bók sinni Dægradvöl:

“Upp úr turninum er stöng úr járni og stór málmkúla neðan til á henni og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni… Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður.

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki á turni Bessastaðakirkju?

Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafi eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfi til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.”

Bjarni í Sviðholti, sá sem Benedikt Gröndal nefnir var Halldórsson. Hann var lögréttumaður. Um eitt skeið var hann ráðsmaður Bessastaðaskóla.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Bjarni var vel efnum búinn, talinn með ásjálegustu mönnum, segir Páll Eggert Ólason í æviskrám sínum. Vilji einhver vita deili á úrræðagóðum Álftnesingi, sem hafði ráð undir rifi hverju og kunni að koma sér undan kvöðum hefðarfólks, þá voru meðal afkomenda hans nafnkunnir lærdómsmenn og kraftajötnar.

Bjarni Jónsson (Johnsen)

Bjarni Jónsson rektor (Johnsen).

Bjarni Jónsson rektor Latínuskólans (Menntaskólans í Reykjavík) hét nafni afa síns, Bjarna í Sviðsholti. Móðir Bjarna rektors giftist síðar Birni Gunnlaugssyni yfirkennara. Hann var tengdafaðir Jens Sigurðssonar rektors. Og þá fer nú að styttast í Jóhannes og Jón Nordal. Af þessari ættarskrá má sjá að þeir bræður eru komnir af Bjarna í Sviðsholti, lögréttumanni, sem lét ekki kveðja sig frá verki um hábjargræðistímann til þess að sinna dyntum hefðarfólks.

Stiftamtmannsfrúin, sem vöknaði við sjóbaðið á Bessastöðum var systir Bardenfleths, sem var fulltrúi konungs við endurreisn Alþingis árið 1845. Faðir þeirra Bardenflethssystkina var flotaforingi, háttsettur og handgenginn við hirð Danakonunga. “Náðug frúin” leit mjög stórt á sig.” Eru um það margar sögur.

Moltke

Stríðsmerki Moltke-fjölskyldunnar.

Ludvig Moltke stiftamtmaður og kona hans eignuðust dóttur meðan þau dvöldust hér. Dóttir stiftamtmannshjónanna var vatni ausin að viðstöddu hefðarfólki íslenskrar embættistignar. Guðfeðgin telpunnar voru Magnús Stephensen konferensráð, Ísleifur Einarsson etasráð, Sigurður Thorgrímssen landfógeti, Ólafur Finsen sýslumaður og eiginkonur þeirra síðat nefndu, Mad. Thorgrimsen og Mad. Finsen.
Athöfnin fór fram í september 1820. Stúlkan hlaut þrjú nöfn. Hún var skírð Augusta, Vilhelmine, Thorveiga.

Kona Moltkes (gift 1819) var Reinholdine Frederikke Vilhelmine Bardenfleth (18. apríl 1800 – 14. ágúst 1890), systir Carls Emils Bardenfleth, sem síðar varð stiftamtmaður á Íslandi. Hún fluttist nýgift með manni sínum til Reykjavíkur. Á Íslandi fór orð af því að hún liti mjög stórt á sig. Þeim hjónum leist afar illa á þann bústað sem beið þeirra og fengu þau leyfi til að láta innrétta tugthúsið á Arnarhóli, sem þá stóð ónotað, sem embættisbústað og bjuggu þar. Var húsið eftir það stiftamtmanns- og síðar landshöfðingjabústaður og að lokum Stjórnarráðshús.

Bessastaðir
Moltke gekkst líka fyrir því 1820 að lögð var steinstétt eftir forarstíg sem kallaður var Tværgaden, frá Aðalstræti austur að læk, og skolpræsi meðfram henni. Þetta þótti mikið mannvirki og var stéttin kölluð Langafortóv. Þar er nú Austurstræti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023.

Stór málmkúla neðan til á henni [Bessastaðakirkju] og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni . . . Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður. Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafí eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfí til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.”

Heimildir:
-Mbl.is, 12. janúar 1997.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Ehrenreich_Christopher_Ludvig_Moltke
-https://timarit.is/page/1870397#page/n19/mode/2up

Bessastaðir

Bessastaðir 2000.

Bessastaðir

Bessastaðir eru, líkt og Þingvellir, einn af helgustu minjastöðum landsins.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Bessastaða er fyrst getið í íslenskum heimildum í eigu Snorra Sturlusonar. Við dráp Snorra 1241 gerði kóngur eigur hans upptækar og þá komust Bessastaðir í konungs eign. Með tímanum urðu Bessastaðir aðsetur fulltrúa erlends konungsvalds á Íslandi allt til loka 18. aldar.Eftir siðaskiptin vænkast hagur Bessastaða, því að bestu og arðvænlegustu sjávarjarðir Skálholtsstóls á Suðurnesjum voru lagðar undir Bessastaði. Áður voru Bessastaðir heldur lítil og rýr jörð.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen.

Grímur Thomsen keypti Bessastaði 1867 og eftir hans dag voru ýmsir eigendur að Bessastöðum. Sigurður Jónsson gaf ríkinu Bessastaði fyrir ríkisstjórabústað árið 1941 og síðan hefur þar verið aðsetur þjóðhöfðingja Íslands.
Þegar Skúli Magnússon var skipaður landfógeti árið 1749, fyrstur íslenskra mann, vildi hann síður búa á Bessastöðum í sambýli við amtmann og fékk leyfi til að sitja í Viðey og reisa sér þar bústað 1753-55. Viðey var ein af fjölmörgum kirkjujörðum á Íslandi sem komust í hendur Danakonungs eftir siðaskiptin.
Bessastaðastofa er eitt af elstu húsum landsins. Hún var byggð á árunum 1760-65 í tíð fyrsta íslenska amtmannsins, Magnúsar Gíslasonar. Arkitekt var J. Fortling. Magnús flutti til Bessastaða er húsið var fullbúið vorið 1766, en var þar aðeins skamma hríð, því bæði hjónin létust þar á sama árinu, 1766. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grágrýti og múrað á milli. Kalk, sandur og timbur var flutt frá Danmörku. Veggir voru meira en 1 metri á þykkt og þak reist úr 28 “pommerskum” bjálkum.

Bessastaðir

Bessastaðir 1722.

Árið 1760 kom til Bessastaða nýútskrifaður læknir, Bjarni Pálsson, sem fyrsti landlæknir á Íslandi og eini lærði læknirinn á landinu. Hann bjó þar í þrjú ár, eða þar til reistur var yfir hann sérstakur bústaður að Nesi við Seltjörn.
 Árið 1804 lauk hlutverki Bessastaða sem aðsetur umboðsmanna konungs á Íslandi. Sá, sem þá tók við, Trampe greifi, settist að í fangahúsinu í Reykjavík og varð sú bygging opinberlega embættisbústaður umboðsmann konungs árið 1819. Meðan Bessastaðir höfðu enn það hlutverk var staðurinn stundum kallaður “Konungsgarður” og fluttist það heiti nú á hús það sem nú kallast Stórnarráð og hýsir forsætisráðherra og áður forseta Íslands, en var upprunalega byggt sem tukthús 1761-1771.
Ástæða er til að vekja athygli á að um miðja 18. öldina voru reist fjögur vegleg steinhús á því svæði sem nú kallast Stór-Hafnarfjarðarsvæði, þ.e. Viðeyjarstofa (1753-55), Nesstofa (1761-66), Bessastaðastofa (1761-66) og Tukthúsið, nú Stjórnarráð Íslands (1761-1771). Einnig var lokið við Hóladómkirkju árið 1763 og Landakirkju í Vestmanneyjum árið 1774.

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Meðan Bessastaðir voru enn bústaður embættismanna konungs var sú kvöð á ábúendum annarra konungsjarða í nágrenninu að leggja fram vinnuafl á staðnum og jafnvel víðar svo sem á þeim bátum, sem fulltrúar konungs gerðu út á eigin vegum. Voru menn kvaddir til ýmissa starfa á Bessastöðum, s.s. vinnu við húsagerð, garðhleðslu, heyskap, maltgerð og torfskurð í mógröfum. Einnig voru menn sendir á eigin hestum til veiða í Elliðaánum og flytja laxinn til Bessastaða, sækja hrís suður í Hraun eða timbur austur í Þingvallaskóg.

Skólanaust

Skólanaust við Skansinn.

Einnig þurftu menn að leggja til eigin báta til að sigla með Bessastaðafólkið því til skemmtunar út um allan sjó. Ekki má gleyma þeirri kvöð að flytja fólk frá Bessastöðum yfir Skerjafjörð í Skildinganesi á Seltjarnarnesi eða jafnvel inn í Viðey.
Þegar hlutverki Bessastaða sem embættisbústaðar var lokið 1805 hófst nýr kafli í sögu staðarins. Árið 1805 fluttist þangað Latínuskólinn sem áður starfaði á Hólavelli í Reykjavík.
Skansinn, virki það, sem enn stendur, var byggt um 1668 og var það aðallega hugsað sem varnarvirki gegn “Tyrkjum”, sem hjuggu hér strandhögg 1627, ef þeir skyldu koma hingað aftur.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Kirkjan á Bessastöðum var byggð á árunum 1780-1823 að turninn var fullbyggður. Kirkjuturninn er 15 metra hár og varekki byggður fyrr en á árunum 1822-23. Í turninum eru tvær klukkur, önnur frá 1741 og hin frá 1828. Talið er að kirkja hafi verið á Bessastöðum frá því snemma í kristni eða frá 11. öld. Margt er hægt að sýna ferðamönnum, sem koma að skoða kirkjuna eins og t.d. legsteina Páls Stígssonar, höfuðsmanns (d. 1566) og Magnúsar Gíslasonar, amtmanns og konu hans, Þórunnar Guðmundsdóttur (d. 1766).
Gagngerðar viðgerðir og breytingar hafa farið fram á Bessastaðakirkju eftir að Bessastaðir urðu forsetasetur. Í henni er t.d. nýtt gólf (gamla gólfið heldur sér í anddyrinu) og loft. Herra Ásgeiri Ásgeirsson lét sé einkum annt um kirkjuna og að tilstuðlan hans fékk kirkjan margar góðar gjafir.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Herra Sveinn Björnsson lét gera róðurkrossin, sem nú er á norðurveggnum. Hann gerði Ríkarður Jónsson og ætlaði Sveinn Björnsson að hafa hann í stað altaristöflu. Prédikunarstóll er einnig eftir Ríkarð Jónsson. Alataristaflan er eign Listasafns ríkisins og er eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg), 1891-1924. Frú Georgía Thorsteinsson ræktaði sjálf hörinn í altarisdúkinn. Hún var frá Hobro á Jótlandi. Dúkurinn er gerður af Unni Ólafsdóttur.
Gjafir, sem kirkjunni hafa borist, er t.d. eikarhurðir í útidyrum, smíðaðar af sr. Harald Hope, Ytre Arna í Noregi og sömuleiðis tveir stólar með gullskreyttu leðri, smíðaðir eftir stólum frá 1700. Skrá í útihurð er gjöf frá Meistara- og sveinafélagi járnsmiða til minningar um séra Hallgrím Pétursson, sem einnig hafði verið járnsmiður. Gluggar í kór eru gjöf til herra Ásgeirs Ásgeirssonar á 60 ára afmæli hans.

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju – altaristafla eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg) – vinstra megin minningarskildir um Kristján Eldjárn og Halldóru Eldjárn, svo Svein Björnsson og Georgíu Björnsson. Hægra megin minningarskjöldur um Ásgeir Ásgeirsson og Dóru Þórhallsdóttur.

Róðan á altari er gjöf til hr. Ásgeirs og frú Dóru. Kristhöfðuð úr kopar er á kórgafli, afsteypa af kristslíkneski í Dómkirkjunni í Niðarósi (frá 1000), gjöf til Ásgeirs. Steinsbiblía liggur á lektara í kór og er gjöf frá dönskum presti (útg. 1728). Skírnarfontur af óþekktum uppruna (frá um 1200) er í kirkjunni, hefur hann e.t.v. fylgt kirkjunni um aldaraðir. Skírnarskál er úr tini frá 1702. Oblátur – dósir eða baktursöskjur er á altarinu. Þær voru upprunalega gefnar til minningar um Magnús Gíslason, amtmann og konu hans, og einnig fyrir legstað í kirkjunni. En Jón Vídalín, list- og fornmunasafnari, fékk þær keyptar og eru þær í Þjóðminjasafninu, en eftirlíking var gerð, og er það hún, sem við sjáum á Bessastöðum. Í kirkjunni eru nýlegir steindir gluggar eftir Finn Jónsson og Guðmund Einarsson. Fyrsti glugginn á norðurhlið (F.J.).

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja – steindur gluggi.

Á altarinu eru oftast sex kertastjakar. Tveir eru 4-álma, gefnir af Guðrúnu Johnson árið 1956. Óvíst er um uppruna litlu koparstjakanna tveggja, en stærri koparstjaka tvo gaf Karen Hólm árið 1734 til minningar um Niels Fuhrmann, amtmann, sem kom að Bessastöðum 1718.
Nokkrum árum eftir að Niels Furhmann kom til Bessastaða kom þangað norsk stúlka, Appolonia Schwartzkopf, sem taldi að Furhmann hefði brugðið við sig heitorði. Hafði hún fengið hann dæmdan fyrir það í Hæstarétti og bar honum að eiga hana og sjá fyrir henni þangað tilþað gæti orðið. Á sama tíma voru á staðnum tvær danskar mæðgur, Katrín Holm og Karen, dóttir hennar. Þótti Appolinia amtmaður hafa meiri mætur á þeim en sér og taldi jafnvel að þær mæðgur vildu hana feiga. Að því kom að Appolonia lést í júni 1724 og upp kom sá kvittur að mæðgurnar hefðu byrlað henni eitur. Ekkert sannaðist um það, en Fuhrmann lést á páskum 1733. Karen Holm gaf kirkjunni tvo koparstjaka til minningar um Fuhrmann, amtmann. Er hann, mæðgurnar og Appolonina öll jarðsett að Bessastöðum.

Bessastaðir.

Bygging núverandi steinkirkju á Bessastöðum hófst 1773 og var hún vígð 1796.

Sá orðrómur er uppi að Appolonia gangi aftur á Bessastöðum. Um þetta mál hefur Guðmundur Daníelsson, rithöfundur, skrifað, skáldsöguna Hrafnhettu og Þórunn Sigurðardóttir hefur skrifað leikritið Haustbrúður.
Á norðurvegg kirkjunnar er platti með skjaldarmerki Íslands. Oft biðja ferðamenn um útskýringar á skjaldarmerkinu. Það sýnir landvættina skv. gamalli hefð eins og sagt er frá í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Um er að ræða fána Íslands, sem er krossfáni.

Bessastaðir eftir Vilhjálm Þ. Gíslason / Félagsblað 5/1975. Grein eftir Katrínu Sívertsen.

Bessastaðir fyrrum

Bessastaðir fyrrum.

Bessastaðir

Þann 19. september árið 1761 gaf Magnús Gíslason, amtmaður í Viðey, út eftirfarandi fyrirskipun: “Bændur þeir, 36 að tölu, sem eiga dagsverk að vinna um sláttinn á kóngsins garði, Bessastöðum, skulu hver sum sig hálfa dagsláttu eða svokallað fimm álna tún, að viðlagðri hæfilegri refsingu, sem sýslumaðurinn ber að annast.”

Bessastaðir

Gengið að Bessastöðum.

Í Öldinni okkar segir árið 1761: “Bygging stórhýsa úr höggnum steini er að hefjast á Bessastöðum og í Nesi við Seltjörn. Á Bessastöðum verður reistur embættisbústaður handa stiftamtmanninum, en í Nesi verður setur landlæknis og lyfjabúð.
Í hitteðfyrra var þegar tekið að losa grjót í Fossvogi í bygginguna á Bessastöðum, og var það flutt á gömlum sexæringi að lendingu þar, og í fyrra var byrjað að aka því heim á vagni, er hesti var beitt fyrir. Í sumar hefur fjöldi manna verið í efnisflutningum til Bessastaða, og tekið era ð grafa fyrir grunni hins nýja húss. Er það mikil vinna, því að grafið er átta eða níu álnir niður. Duggan Friðriksvon kom í vor með kalk í byggingarnar, og tveir múrar eru komnir til þess að vinna að steinsmíði og veggjagerð. Annar þeirra heitir Jóhann Georg Berger, en hinn Þorgrímur Þorláksson, íslenskur maður, er lært hefur iðn sína erlendis. Þeir eiga jöfnum höndum að vinna að báðum byggingunum, eftir því sem áfram miðar.

Bessastaðir

Bessastaðir – FERLIRsfélagar í heimsókn.

Næsta ár er von trésmiða. Nú í sumar lét Magnús Gíslason, amtmaður, einnig hefjast handa um undirbúning að byggingu typtunarhúss á Arnarhóli, enda þótt stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn hafi ekki formlega samþykkt, aðþað skuli byggt hér.. Til þessarar vinnu hafa verið setter fangar, en Gissur Jónsson, lögréttumaður á Arnarhóli, hefur með höndum umsjón og verkstjórn alla.”

Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum sló Noregskonungur eign sinni á staðinn, sem varð fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar.

Bessastaðir

Bessastaðir 1722.

Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu eins af kunnustu og mikilhæfustu skáldum þess tíma, Gríms Thomsens (1820-1896), en hann fæddist þar. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826-1907) fæddist á Bessastöðum. Hann var eitt af sérkennilegustu skáldum og rithöfundum okkar á s.hl. 19. aldar. Eftir lát Gríms Tomsens voru Bessastaðir lengst af í eigu einstaklinga unz Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Rvík. gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Síðan hafa forsetar landsins haft aðsetur þar.
Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins. Byggingu turnsins lauk ekki fyrr en árið 1823 eftir að hætt var við að hafa þar útsýnisaðstöðu. Fyrsta kirkjan var helguð heilagri Maríu og heilögum Nikulási. Um miðja 14. öld átti kirkjan þriðjung Bessastaðalands.

Bessastaðir

Frederick W.W. Howell, Bessastadakirkja 1900.

Þegar erlendir landstjórar settust þar að, áttu bændur kirkjuna, sló konungsvaldið eign sinni á hana. Afleiðingar þess voru síður en svo ásættanlegar og árið 1616 var hún komin í slíka niðurníðslu, að það varð að endurbyggja hana. Allar aðrar kirkjur landsins voru skattlagðar til að afla fjár til verksins. Nýja kirkjan var mjög falleg bygging en það hafði láðst að setja trébita í hana, svo að hún fauk í stormi tveimum árum síðar. Viðirnir voru notaðir til byggingar nýrrar kirkju með torfveggjum til að hún stæði af sér fárviðri.

Bessastaðir

Bessastaðir 1720.

Árið 1773 ákvað Kristján 7., Danakonungur, að reisa skyldi steinkirkju á Bessastöðum, þar sem hin gamla var úr sér gengin. Það er ekki að fullu ljóst hver hannaði hana, en líklega var það G.D. Anthon. Steinveggirnir voru byggðir utan um gömlu trékirkjuna, sem var síðan rifin. Veggirnir eru rúmlega 1m þykkir, hlaðnir úr grjóti úr Gálgahrauni, sem sést austan kirkjunnar. Steinarnir voru fluttir á flatbytnum eftir skurði að Lambhúsatjörn og yfir hana að byggingarstaðnum. Þetta var seinlegur byggingarmáti, svo að kirkjan var ekki vígð fyrr en árið 1796. Eitt fyrstu embættisverka í kirkjunni var gifting ungs pars frá Reykjavík. Athöfnin fór fram í júlí 1796 að viðstöddum öllum fremstu mönnum þjóðarinnar.

Bessastaðir 1720

Bessastaðir 1720.

Skömmu eftir aldamótin 1700 þarfnaðist kirkjan þegar viðhalds og þá var ákveðið að ljúka byggingu hennar, því að turninn vantaði. Því verki var lokið árið 1823. Árið 1841 eignaðist Bessastaðaskóli Bessastaði. Skólabókasafnið var á efri hæð kirkjunnar allan tímann, sem skólinn starfaði þar. Kirkjan varð aftur að bændakirkju árið 1867.
Fyrsti bóndinn, sem keypti Bessastaði 1768, var Grímur Thomsen. Kirkjan þjónaði þessu hlutverki til 1941, þegar Sigurður Jónsson gaf þjóðinni staðinn með því skilyrði, að þar yrði aðsetur þjóðhöfðingja landsins. Við þessar breyttu aðstæður var innviðum kirkjunni líka breytt talsvert á árunum 1945-47 og þannig sjáum við hana nú á dögum. Trégólf kom í stað flísa og predikunarstóllinn frá því um 1700 vék fyrir nýjum.

Bessastaðir

Bessastaðakirkja – gluggi.

Steint gler var sett í glugga kirkjunnar árið 1956 í tilefni sextugsafmælis Ásgeirs Ásgeirssonar, annars forseta lýðveldisins, sem átti reyndar þetta merkisafmæli tveim árum áður. Gluggarnir eru 8 talsins og listamennirnir voru Finnur Jónsson og Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Fyrsti glugginn til vinstri sýnir komu papa (Finnur).
Á grátunum, sem eru úr smíðajárni, eru myndir postulanna. Þessar myndir minna líka á verndarvættir landsins, drekann, fálkann, nautið og risann, sem er að finna í skjaldarmerki landsins. Guðmundur og Finnur gerðu þær líka.

Bessastaðakirkja

Í Bessastaðakirkju.

Stóri, útskorni krossinn á norðurveggnum (vinstri) er eftir Ríkarð Jónsson. Hann var áður altaristafla kirkjunnar, en var fyrst færður þaðan á vesturvegginn. Altaristaflan, sem kom í staðinn, kom af Þjóðminjasafninu 1921. Hún er máluð mynd af Kristi að lækna sjúka eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson).

Grafsteinn Magnúss Gíslasonar varalandstjóra (†1766) er í norðurveggnum í kórnum. Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra. Gagnger viðgerð á kirkjunni fór fram árið 1998.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023.

FERLIR hefur nokkrum sinnum fengið að líta fornleifar þær, sem varðveittar eru undir Bessastaðastofu, augum. Þær lýsa á áhrifaríkan hátt aðstæðum og aðbúnaði fólksins á Bessastöðum fyrr á öldum. Forsetaembættinu eru þakkaðar góðar móttökur.

Heimildir m.a.:
-nat.is
-alftanes.is
-Öldin okkar 1761-1800

Bessastaðir

Bessastaðir 1789.

Bessastaðir

Þann 19. september árið 1761 gaf Magnús Gíslason, amtmaður í Viðey, út eftirfarandi fyrirskipun: “Bændur þeir, 36 að tölu, sem eiga dagsverk að vinna um sláttinn á kóngsins garði, Bessastöðum, skulu hver sum sig hálfa dagsláttu eða svokallað fimm álna tún, að viðlagðri hæfilegri refsingu, sem sýslumaðurinn ber að annast.”

Bessastaðir

Gengið að Bessastöðum.

Í Öldinni okkar segir árið 1761: “Bygging stórhýsa úr höggnum steini er að hefjast á Bessastöðum og í Nesi við Seltjörn. Á Bessastöðum verður reistur embættisbústaður handa stiftamtmanninum, en í Nesi verður setur landlæknis og lyfjabúð.
Í hitteðfyrra var þegar tekið að losa grjót í Fossvogi í bygginguna á Bessastöðum, og var það flutt á gömlum sexæringi að lendingu þar, og í fyrra var byrjað að aka því heim á vagni, er hesti var beitt fyrir. Í sumar hefur fjöldi manna verið í efnisflutningum til Bessastaða, og tekið era ð grafa fyrir grunni hins nýja húss. Er það mikil vinna, því að grafið er átta eða níu álnir niður. Duggan Friðriksvon kom í vor með kalk í byggingarnar, og tveir múrar eru komnir til þess að vinna að steinsmíði og veggjagerð. Annar þeirra heitir Jóhann Georg Berger, en hinn Þorgrímur Þorláksson, íslenskur maður, er lært hefur iðn sína erlendis. Þeir eiga jöfnum höndum að vinna að báðum byggingunum, eftir því sem áfram miðar.
Næsta ár er von trésmiða. Nú í sumar lét Magnús Gíslason, amtmaður, einnig hefjast handa um undirbúning að byggingu

Bessastaðir

FERLIRsfélagar við Bessastaði ásamt staðarhaldara.

typtunarhúss á Arnarhóli, enda þótt stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn hafi ekki formlega samþykkt, aðþað skuli byggt hér.. Til þessarar vinnu hafa verið setter fangar, en Gissur Jónsson, lögréttumaður á Arnarhóli, hefur með höndum umsjón og verkstjórn alla.”

Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum sló Noregskonungur eign sinni á staðinn, sem varð fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar.
Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu eins af kunnustu og mikilhæfustu skáldum þess tíma, Gríms Thomsens (1820-1896), en hann fæddist þar. Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826-1907) fæddist á Bessastöðum. Hann var eitt af sérkennilegustu skáldum og rithöfundum okkar á s.hl. 19. aldar. Eftir lát Gríms Tomsens voru Bessastaðir lengst af í eigu einstaklinga unz Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Rvík. gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Síðan hafa forsetar landsins haft aðsetur þar.
BessastaðirKirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins. Byggingu turnsins lauk ekki fyrr en árið 1823 eftir að hætt var við að hafa þar útsýnisaðstöðu. Fyrsta kirkjan var helguð heilagri Maríu og heilögum Nikulási. Um miðja 14. öld átti kirkjan þriðjung Bessastaðalands.
Þegar erlendir landstjórar settust þar að, áttu bændur kirkjuna, sló konungsvaldið eign sinni á hana. Afleiðingar þess voru síður en svo ásættanlegar og árið 1616 var hún komin í slíka niðurníðslu, að það varð að endurbyggja hana. Allar aðrar kirkjur landsins voru skattlagðar til að afla fjár til verksins. Nýja kirkjan var mjög falleg bygging en það hafði láðst að setja trébita í hana, svo að hún fauk í stormi tveimum árum síðar. Viðirnir voru notaðir til byggingar nýrrar kirkju með torfveggjum til að hún stæði af sér fárviðri.

Bessastaðir

Árið 1773 ákvað Kristján 7., Danakonungur, að reisa skyldi steinkirkju á Bessastöðum, þar sem hin gamla var úr sér gengin. Það er ekki að fullu ljóst hver hannaði hana, en líklega var það G.D. Anthon. Steinveggirnir voru byggðir utan um gömlu trékirkjuna, sem var síðan rifin. Veggirnir eru rúmlega 1m þykkir, hlaðnir úr grjóti úr Gálgahrauni, sem sést austan kirkjunnar. Steinarnir voru fluttir á flatbytnum eftir skurði að Lambhúsatjörn og yfir hana að byggingarstaðnum. Þetta var seinlegur byggingarmáti, svo að kirkjan var ekki vígð fyrr en árið 1796. Eitt fyrstu embættisverka í kirkjunni var gifting ungs pars frá Reykjavík. Athöfnin fór fram í júlí 1796 að viðstöddum öllum fremstu mönnum þjóðarinnar.
Skömmu eftir aldamótin 1700 þarfnaðist kirkjan þegar viðhalds og þá var ákveðið að ljúka byggingu hennar, því að turninn vantaði. Því verki var lokið árið 1823. Árið 1841 eignaðist Bessastaðaskóli Bessastaði. Skólabókasafnið var á efri hæð kirkjunnar allan tímann, sem skólinn starfaði þar. Kirkjan varð aftur að bændakirkju árið 1867.

Grímur Thomsen

Grímur Thomsen.

Fyrsti bóndinn, sem keypti Bessastaði 1768, var Grímur Thomsen. Kirkjan þjónaði þessu hlutverki til 1941, þegar Sigurður Jónsson gaf þjóðinni staðinn með því skilyrði, að þar yrði aðsetur þjóðhöfðingja landsins. Við þessar breyttu aðstæður var innviðum kirkjunni líka breytt talsvert á árunum 1945-47 og þannig sjáum við hana nú á dögum. Trégólf kom í stað flísa og predikunarstóllinn frá því um 1700 vék fyrir nýjum.
Steint gler var sett í glugga kirkjunnar árið 1956 í tilefni sextugsafmælis Ásgeirs Ásgeirssonar, annars forseta lýðveldisins, sem átti reyndar þetta merkisafmæli tveim árum áður. Gluggarnir eru 8 talsins og listamennirnir voru Finnur Jónsson og Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Fyrsti glugginn til vinstri sýnir komu papa (Finnur).
Á grátunum, sem eru úr smíðajárni, eru myndir postulanna. Þessar myndir minna líka á verndarvættir landsins, drekann, fálkann, nautið og risann, sem er að finna í skjaldarmerki landsins. Guðmundur og Finnur gerðu þær líka. Stóri, útskorni krossinn á norðurveggnum (vinstri) er eftir Ríkarð Jónsson. Hann var áður altaristafla kirkjunnar, en var fyrst færður þaðan á vesturvegginn. Altaristaflan, sem kom í staðinn, kom af Þjóðminjasafninu 1921. Hún er máluð mynd af Kristi að lækna sjúka eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson).
BessastaðakirkjaGrafsteinn Magnúss Gíslasonar varalandstjóra (†1766) er í norðurveggnum í kórnum. Minningarskildir um látna forseta og eiginkonur þeirra eru á veggnum beggja vegna altaristöflunnar. Bak við skjöld Ásgeirs og Dóru eru duftker þeirra. Gagnger viðgerð á kirkjunni fór fram árið 1998.
FERLIR hefur nokkrum sinnum fengið að líta fornleifar þær, sem varðveittar eru undir Bessastaðastofu, augum. Þær lýsa á áhrifaríkan hátt aðstæðum og aðbúnaði fólksins á Bessastöðum fyrr á öldum. Forsetaembættinu eru þakkaðar góðar móttökur.

Heimildir m.a.:
nat.is
alftanes.is
Öldin okkar 1761-1800.

Bessastaðir

Bessastaðir – nýja kirkjan.

Bessastaðir

Bessastaðir eru, líkt og Þingvellir, einn af helgustu minjastöðum landsins.
Bessastaða er fyrst getið í íslenskum heimildum í eigu Snorra Sturlusonar. Við dráp Snorra 1241 gerði kóngur eigur hans

Skansinn

Skansinn við Bessastaði. Seylan framundan.

upptækar og þá komust Bessastaðir í konungs eign. Með tímanum urðu Bessastaðir aðsetur fulltrúa erlends konungsvalds á Íslandi allt til loka 18. Aldar.
Eftir siðaskiptin vænkast hagur Bessastaða, því að bestu og arðvænlegustu sjávarjarðir Skálholtsstóls á Suðurnesjum voru lagðar undir Bessastaði. Áður voru Bessastaðir heldur lítil og rýr jörð.
Grímur Thomsen keypti Bessastaði 1867 og eftir hans dag voru ýmsir eigendur að Bessastöðum. Sigurður Jónsson gaf ríkinu Bessastaði fyrir ríkisstjórabústað árið 1941 og síðan hefur þar verið aðsetur þjóðhöfðingja Íslands.
Þegar Skúli Magnússon var skipaður landfógeti árið 1749, fyrstur íslenskra mann, vildi hann síður búa á Bessastöðum í sambýli við amtmann og fékk leyfi til að sitja í Viðey og reisa sér þar bústað 1753-55. Viðey var ein af fjölmörgum kirkjujörðum á Íslandi sem komust í hendur Danakonungs eftir siðaskiptin.

Bessastaðir

Bessastaðir 2023.

Bessastaðastofa er eitt af elstu húsum landsins. Hún var byggð á árunum 1760-65 í tíð fyrsta íslenska amtmannsins, Magnúsar Gíslasonar. Arkitekt var J. Fortling. Magnús flutti til Bessastaða er húsið var fullbúið vorið 1766, en var þar aðeins skamma hríð, því bæði hjónin létust þar á sama árinu, 1766. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grágrýti og múrað á milli. Kalk, sandur og timbur var flutt frá Danmörku. Veggir voru meira en 1 metri á þykkt og þak reist úr 28 “pommerskum” bjálkum.
Árið 1760 kom til Bessastaða nýútskrifaður læknir, Bjarni Pálsson, sem fyrsti landlæknir á Íslandi og eini lærði læknirinn á landinu. Hann bjó þar í þrjú ár, eða þar til reistur var yfir hann sérstakur bústaður að Nesi við Seltjörn.
Árið 1804 lauk hlutverki Bessastaða sem aðsetur umboðsmanna konungs á Íslandi. Sá, sem þá tók við, Trampe greifi, settist að í fangahúsinu í Reykjavík og varð sú bygging opinberlega embættisbústaður umboðsmann konungs árið 1819. Meðan Bessastaðir höfðu enn það hlutverk var staðurinn stundum kallaður “Konungsgarður” og fluttist það heiti nú á hús það sem nú kallast Stórnarráð og hýsir forsætisráðherra og áður forseta Íslands, en var upprunalega byggt sem tukthús 1761-1771.
Ástæða er til að vekja athygli á að um miðja 18. öldina voru reist fjögur vegleg steinhús á því svæði sem nú kallast Stór-Hafnarfjarðarsvæði, þ.e. Viðeyjarstofa (1753-55), Nesstofa (1761-66), Bessastaðastofa (1761-66) og Tukthúsið, nú Stjórnarráð Íslands (1761-1771). Einnig var lokið við Hóladómkirkju árið 1763 og Landakirkju í Vestmanneyjum árið 1774.
SkólavörMeðan Bessastaðir voru enn bústaður embættismanna konungs var sú kvöð á ábúendum annarra konungsjarða í nágrenninu að leggja fram vinnuafl á staðnum og jafnvel víðar svo sem á þeim bátum, sem fulltrúar konungs gerðu út á eigin vegum. Voru menn kvaddir til ýmissa starfa á Bessastöðum, s.s. vinnu við húsagerð, garðhleðslu, heyskap, maltgerð og torfskurð í mógröfum. Einnig voru menn sendir á eigin hestum til veiða í Elliðaánum og flytja laxinn til Bessastaða, sækja hrís suður í Hraun eða timbur austur í Þingvallaskóg. Einnig þurftu menn að leggja til eigin báta til að sigla með Bessastaðafólkið því til skemmtunar út um allan sjó. Ekki má gleyma þeirri kvöð að flytja fólk frá Bessastöðum yfir Skerjafjörð í Skildinganesi á Seltjarnarnesi eða jafnvel inn í Viðey.
Þegar hlutverki Bessastaða sem embættisbústaðar var lokið 1805 hófst nýr kafli í sögu staðarins. Árið 1805 fluttist þangað Latínuskólinn sem áður starfaði á Hólavelli í Reykjavík.
Skansinn, virki það, sem enn stendur, var byggt um 1668 og var það aðallega hugsað sem varnarvirki gegn “Tyrkjum”, sem hjuggu hér strandhögg 1627, ef þeir skyldu koma hingað aftur.

Bessastaðakirkja

Bessastaðir

Bessastaðir – nýja kirkjan.

Kirkjan á Bessastöðum var byggð á árunum 1780-1823 að turninn var fullbyggður. Kirkjuturninn er 15 metra hár og varekki byggður fyrr en á árunum 1822-23. Í turninum eru tvær klukkur, önnur frá 1741 og hin frá 1828. Talið er að kirkja hafi verið á Bessastöðum frá því snemma í kristni eða frá 11. öld. Margt er hægt að sýna ferðamönnum, sem koma að skoða kirkjuna eins og t.d. legsteina Páls Stígssonar, höfuðsmanns (d. 1566) og Magnúsar Gíslasonar, amtmanns og konu hans, Þórunnar Guðmundsdóttur (d. 1766).
Gagngerðar viðgerðir og breytingar hafa farið fram á Bessastaðakirkju eftir að Bessastaðir urðu forsetasetur. Í henni er t.d. nýtt gólf (gamla gólfið heldur sér í anddyrinu) og loft. Herra Ásgeiri Ásgeirsson lét sé einkum annt um kirkjuna og að tilstuðlan hans fékk kirkjan margar góðar gjafir.
Herra Sveinn Björnsson lét gera róðurkrossin, sem nú er á norðurveggnum. Hann gerði Ríkarður Jónsson og ætlaði Sveinn Björnsson að hafa hann í stað altaristöflu. Prédikunarstóll er einnig eftir Ríkarð Jónsson. Alataristaflan er eign Listasafns ríkisins og er eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg), 1891-1924. Frú Georgía Thorsteinsson ræktaði sjálf hörinn í altarisdúkinn. Hún var frá Hobro á Jótlandi. Dúkurinn er gerður af Unni Ólafsdóttur.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Gjafir, sem kirkjunni hafa borist, er t.d. eikarhurðir í útidyrum, smíðaðar af sr. Harald Hope, Ytre Arna í Noregi og sömuleiðis tveir stólar með gullskreyttu leðri, smíðaðir eftir stólum frá 1700. Skrá í útihurð er gjöf frá Meistara- og sveinafélagi járnsmiða til minningar um séra Hallgrím Pétursson, sem einnig hafði verið járnsmiður. Gluggar í kór eru gjöf til herra Ásgeirs Ásgeirssonar á 60 ára afmæli hans. Róðan á altari er gjöf til hr. Ásgeris og frú Dóru. Kristhöfðuð úr kopar er á kórgafli, afsteypa af kristslíkneski í Dómkirkjunni í Niðarósi (frá 1000), gjöf til Ásgeirs. Steinsbiblía liggur á lektara í kór og er gjöf frá dönskum presti (útg. 1728). Skírnarfontur af óþekktum uppruna (frá um 1200) er í kirkjunni, hefur hann e.t.v. fylgt kirkjunni um aldaraðir. Skírnarskál er úr tini frá 1702. Oblátur – dósir eða baktursöskjur er á altarinu. Þær voru upprunalega gefnar til minningar um Magnús Gíslason, amtmann og konu hans, og einnig fyrir legstað í kirkjunni. En Jón Vídalín, list- og fornmunasafnari, fékk þær keyptar og eru þær í Þjóðminjasafninu, en eftirlíking var gerð, og er það hún, sem við sjáum á Bessastöðum. Í kirkjunni eru nýlegir steindir gluggar eftir Finn Jónsson og Guðmund Einarsson. Fyrsti glugginn á norðurhlið (F.J.).
BessastaðirÁ altarinu eru oftast sex kertastjakar. Tveir eru 4-álma, gefnir af Guðrúnu Johnson árið 1956. Óvíst er um uppruna litlu koparstjakanna tveggja, en stærri koparstjaka tvo gaf Karen Hólm árið 1734 til minningar um Niels Fuhrmann, amtmann, sem kom að Bessastöðum 1718.
Nokkrum árum eftir að Niels Furhmann kom til Bessastaða kom þangað norsk stúlka, Appolonia Schwartzkopf, sem taldi að Furhmann hefði brugðið við sig heitorði. Hafði hún fengið hann dæmdan fyrir það í Hæstarétti og bar honum að eiga hana og sjá fyrir henni þangað tilþað gæti orðið. Á sama tíma voru á staðnum tvær danskar mæðgur, Katrín Holm og Karen, dóttir hennar. Þótti Appolinia amtmaður hafa meiri mætur á þeim en sér og taldi jafnvel að þær mæðgur vildu hana feiga. Að því kom að Appolonia lést í júni 1724 og upp kom sá kvittur að mæðgurnar hefðu byrlað henni eitur. Ekkert sannaðist um það, en Fuhrmann lést á páskum 1733. Karen Holm gaf kirkjunni tvo koparstjaka til minningar um Fuhrmann, amtmann. Er hann, mæðgurnar og Appolonina öll jarðsett að Bessastöðum. Sá orðrómur er uppi að Appolonia gangi aftur á Bessastöðum. Um þetta mál hefur Guðmundur Daníelsson, rithöfundur, skrifað, skáldsöguna Hrafnhettu og Þórunn Sigurðardóttir hefur skrifað leikritið Haustbrúður.
Á norðurvegg kirkjunnar er platti með skjaldarmerki Íslands. Oft biðja ferðamenn um útskýringar á skjaldarmerkinu. Það sýnir landvættina skv. gamalli hefð eins og sagt er frá í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Um er að ræða fána Íslands, sem er krossfáni.

Heimild:
-Bessastaðir eftir Vilhjálm Þ. Gíslason / Félagsblað 5/1975. Grein eftir Katrínu Sívertsen.

Bessastaðir.

Bygging núverandi steinkirkju á Bessastöðum hófst 1773 og var hún vígð 1796.