Bessastaðir eru, líkt og Þingvellir, einn af helgustu minjastöðum landsins.
Bessastaða er fyrst getið í íslenskum heimildum í eigu Snorra Sturlusonar. Við dráp Snorra 1241 gerði kóngur eigur hans
upptækar og þá komust Bessastaðir í konungs eign. Með tímanum urðu Bessastaðir aðsetur fulltrúa erlends konungsvalds á Íslandi allt til loka 18. Aldar.
Eftir siðaskiptin vænkast hagur Bessastaða, því að bestu og arðvænlegustu sjávarjarðir Skálholtsstóls á Suðurnesjum voru lagðar undir Bessastaði. Áður voru Bessastaðir heldur lítil og rýr jörð.
Grímur Thomsen keypti Bessastaði 1867 og eftir hans dag voru ýmsir eigendur að Bessastöðum. Sigurður Jónsson gaf ríkinu Bessastaði fyrir ríkisstjórabústað árið 1941 og síðan hefur þar verið aðsetur þjóðhöfðingja Íslands.
Þegar Skúli Magnússon var skipaður landfógeti árið 1749, fyrstur íslenskra mann, vildi hann síður búa á Bessastöðum í sambýli við amtmann og fékk leyfi til að sitja í Viðey og reisa sér þar bústað 1753-55. Viðey var ein af fjölmörgum kirkjujörðum á Íslandi sem komust í hendur Danakonungs eftir siðaskiptin.
Bessastaðastofa er eitt af elstu húsum landsins. Hún var byggð á árunum 1760-65 í tíð fyrsta íslenska amtmannsins, Magnúsar Gíslasonar. Arkitekt var J. Fortling. Magnús flutti til Bessastaða er húsið var fullbúið vorið 1766, en var þar aðeins skamma hríð, því bæði hjónin létust þar á sama árinu, 1766. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grágrýti og múrað á milli. Kalk, sandur og timbur var flutt frá Danmörku. Veggir voru meira en 1 metri á þykkt og þak reist úr 28 “pommerskum” bjálkum.
Árið 1760 kom til Bessastaða nýútskrifaður læknir, Bjarni Pálsson, sem fyrsti landlæknir á Íslandi og eini lærði læknirinn á landinu. Hann bjó þar í þrjú ár, eða þar til reistur var yfir hann sérstakur bústaður að Nesi við Seltjörn.
Árið 1804 lauk hlutverki Bessastaða sem aðsetur umboðsmanna konungs á Íslandi. Sá, sem þá tók við, Trampe greifi, settist að í fangahúsinu í Reykjavík og varð sú bygging opinberlega embættisbústaður umboðsmann konungs árið 1819. Meðan Bessastaðir höfðu enn það hlutverk var staðurinn stundum kallaður “Konungsgarður” og fluttist það heiti nú á hús það sem nú kallast Stórnarráð og hýsir forsætisráðherra og áður forseta Íslands, en var upprunalega byggt sem tukthús 1761-1771.
Ástæða er til að vekja athygli á að um miðja 18. öldina voru reist fjögur vegleg steinhús á því svæði sem nú kallast Stór-Hafnarfjarðarsvæði, þ.e. Viðeyjarstofa (1753-55), Nesstofa (1761-66), Bessastaðastofa (1761-66) og Tukthúsið, nú Stjórnarráð Íslands (1761-1771). Einnig var lokið við Hóladómkirkju árið 1763 og Landakirkju í Vestmanneyjum árið 1774.
Meðan Bessastaðir voru enn bústaður embættismanna konungs var sú kvöð á ábúendum annarra konungsjarða í nágrenninu að leggja fram vinnuafl á staðnum og jafnvel víðar svo sem á þeim bátum, sem fulltrúar konungs gerðu út á eigin vegum. Voru menn kvaddir til ýmissa starfa á Bessastöðum, s.s. vinnu við húsagerð, garðhleðslu, heyskap, maltgerð og torfskurð í mógröfum. Einnig voru menn sendir á eigin hestum til veiða í Elliðaánum og flytja laxinn til Bessastaða, sækja hrís suður í Hraun eða timbur austur í Þingvallaskóg. Einnig þurftu menn að leggja til eigin báta til að sigla með Bessastaðafólkið því til skemmtunar út um allan sjó. Ekki má gleyma þeirri kvöð að flytja fólk frá Bessastöðum yfir Skerjafjörð í Skildinganesi á Seltjarnarnesi eða jafnvel inn í Viðey.
Þegar hlutverki Bessastaða sem embættisbústaðar var lokið 1805 hófst nýr kafli í sögu staðarins. Árið 1805 fluttist þangað Latínuskólinn sem áður starfaði á Hólavelli í Reykjavík.
Skansinn, virki það, sem enn stendur, var byggt um 1668 og var það aðallega hugsað sem varnarvirki gegn “Tyrkjum”, sem hjuggu hér strandhögg 1627, ef þeir skyldu koma hingað aftur.
Bessastaðakirkja
Kirkjan á Bessastöðum var byggð á árunum 1780-1823 að turninn var fullbyggður. Kirkjuturninn er 15 metra hár og varekki byggður fyrr en á árunum 1822-23. Í turninum eru tvær klukkur, önnur frá 1741 og hin frá 1828. Talið er að kirkja hafi verið á Bessastöðum frá því snemma í kristni eða frá 11. öld. Margt er hægt að sýna ferðamönnum, sem koma að skoða kirkjuna eins og t.d. legsteina Páls Stígssonar, höfuðsmanns (d. 1566) og Magnúsar Gíslasonar, amtmanns og konu hans, Þórunnar Guðmundsdóttur (d. 1766).
Gagngerðar viðgerðir og breytingar hafa farið fram á Bessastaðakirkju eftir að Bessastaðir urðu forsetasetur. Í henni er t.d. nýtt gólf (gamla gólfið heldur sér í anddyrinu) og loft. Herra Ásgeiri Ásgeirsson lét sé einkum annt um kirkjuna og að tilstuðlan hans fékk kirkjan margar góðar gjafir.
Herra Sveinn Björnsson lét gera róðurkrossin, sem nú er á norðurveggnum. Hann gerði Ríkarður Jónsson og ætlaði Sveinn Björnsson að hafa hann í stað altaristöflu. Prédikunarstóll er einnig eftir Ríkarð Jónsson. Alataristaflan er eign Listasafns ríkisins og er eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg), 1891-1924. Frú Georgía Thorsteinsson ræktaði sjálf hörinn í altarisdúkinn. Hún var frá Hobro á Jótlandi. Dúkurinn er gerður af Unni Ólafsdóttur.
Gjafir, sem kirkjunni hafa borist, er t.d. eikarhurðir í útidyrum, smíðaðar af sr. Harald Hope, Ytre Arna í Noregi og sömuleiðis tveir stólar með gullskreyttu leðri, smíðaðir eftir stólum frá 1700. Skrá í útihurð er gjöf frá Meistara- og sveinafélagi járnsmiða til minningar um séra Hallgrím Pétursson, sem einnig hafði verið járnsmiður. Gluggar í kór eru gjöf til herra Ásgeirs Ásgeirssonar á 60 ára afmæli hans. Róðan á altari er gjöf til hr. Ásgeris og frú Dóru. Kristhöfðuð úr kopar er á kórgafli, afsteypa af kristslíkneski í Dómkirkjunni í Niðarósi (frá 1000), gjöf til Ásgeirs. Steinsbiblía liggur á lektara í kór og er gjöf frá dönskum presti (útg. 1728). Skírnarfontur af óþekktum uppruna (frá um 1200) er í kirkjunni, hefur hann e.t.v. fylgt kirkjunni um aldaraðir. Skírnarskál er úr tini frá 1702. Oblátur – dósir eða baktursöskjur er á altarinu. Þær voru upprunalega gefnar til minningar um Magnús Gíslason, amtmann og konu hans, og einnig fyrir legstað í kirkjunni. En Jón Vídalín, list- og fornmunasafnari, fékk þær keyptar og eru þær í Þjóðminjasafninu, en eftirlíking var gerð, og er það hún, sem við sjáum á Bessastöðum. Í kirkjunni eru nýlegir steindir gluggar eftir Finn Jónsson og Guðmund Einarsson. Fyrsti glugginn á norðurhlið (F.J.).
Á altarinu eru oftast sex kertastjakar. Tveir eru 4-álma, gefnir af Guðrúnu Johnson árið 1956. Óvíst er um uppruna litlu koparstjakanna tveggja, en stærri koparstjaka tvo gaf Karen Hólm árið 1734 til minningar um Niels Fuhrmann, amtmann, sem kom að Bessastöðum 1718.
Nokkrum árum eftir að Niels Furhmann kom til Bessastaða kom þangað norsk stúlka, Appolonia Schwartzkopf, sem taldi að Furhmann hefði brugðið við sig heitorði. Hafði hún fengið hann dæmdan fyrir það í Hæstarétti og bar honum að eiga hana og sjá fyrir henni þangað tilþað gæti orðið. Á sama tíma voru á staðnum tvær danskar mæðgur, Katrín Holm og Karen, dóttir hennar. Þótti Appolinia amtmaður hafa meiri mætur á þeim en sér og taldi jafnvel að þær mæðgur vildu hana feiga. Að því kom að Appolonia lést í júni 1724 og upp kom sá kvittur að mæðgurnar hefðu byrlað henni eitur. Ekkert sannaðist um það, en Fuhrmann lést á páskum 1733. Karen Holm gaf kirkjunni tvo koparstjaka til minningar um Fuhrmann, amtmann. Er hann, mæðgurnar og Appolonina öll jarðsett að Bessastöðum. Sá orðrómur er uppi að Appolonia gangi aftur á Bessastöðum. Um þetta mál hefur Guðmundur Daníelsson, rithöfundur, skrifað, skáldsöguna Hrafnhettu og Þórunn Sigurðardóttir hefur skrifað leikritið Haustbrúður.
Á norðurvegg kirkjunnar er platti með skjaldarmerki Íslands. Oft biðja ferðamenn um útskýringar á skjaldarmerkinu. Það sýnir landvættina skv. gamalli hefð eins og sagt er frá í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Um er að ræða fána Íslands, sem er krossfáni.
Heimild:
-Bessastaðir eftir Vilhjálm Þ. Gíslason / Félagsblað 5/1975. Grein eftir Katrínu Sívertsen.