Færslur

Grjóti

Hjalti Harðarsson sendi FERLIR eftirfarandi:

“Ég hef haft gagn og gaman af samantekt ykkar um Garðahverfi.

Hausastaðakot

Hausastaðakot.

Móðurforeldrar mínir, Lovísa Guðmundsdóttir og Tryggvi Gunnarsson, bjuggu í Grjóta í Garðahverfi alla sína búskapartíð frá 1925 (skv. byggingarbréfi). Afi og amma (Tryggvi og Lovísa) tóku töluvert af myndum fram eftir tuttugustu öld. Afi framkallaði og stækkaði myndirnar sjálfur. Ég á í fórum mínum nokkrar myndir sem þau tóku; þær elstu frá árinu 1924. Etv. er áhugi fyrir hendi á einhverjum af þessum myndum.
Ég læt hér fylgja í viðhengi pdf-skjal sem ég tók saman s.l. haust með myndum frá Grjóta og nágrenni. Nú í sumar er verið að gera upp íbúðarhúsið í Grjóta í samráði við Minjastofnun.”

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir 1907.Í skýrslu um “Verndarsvæði í byggð – Garðahverfi á Álftanesi; tillaga og greiðnargerð“, frá árinu 2017 segir m.a. um sögu hverfisins: “Garðar voru kirkjujörð og höfðu í kringum sig umfangsmikla hjáleigubyggð á 15. – 18. öld. Um 1800 var því sem næst allt land Garðasóknar í eigu kirkjunnar eða krúnunnar. Garðar voru svokallað gæðabrauð sem nutu góðs af nálægð sinni við Bessastaði og var Garðasókn ellefta tekjuhæsta sóknin á landinu af 179 sóknum árið 1737. Þrátt fyrir þá miklu fækkun fólks sem varð á Íslandi á 18. öld þá fjölgaði í Garðahverfi um þriðjung á öldinni. Það endurspeglar þá búsetuþróun sem þá átti sér stað á Íslandi almennt, þar sem fólk flykktist úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Þannig hélst fjöldi lögbýla og hjáleigna stöðugur en tómthúsum fjölgaði mikið.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Hjáleigubæir við Garða voru flestir smáir og jafnvel mörg heimili á hverjum þeirra. Fjöldi býla hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og bæjarstæðin lítið breyst. Hins vegar tók fjöldi bústaða miklum breytingum því ábúendur jarða leyfðu stundum byggingu þurrabúða í landi sínu en þessir íbúar urðu að treysta algjörlega á sjávarfang eða vinnu fyrir aðra.
Á Álftanesi, þ.m.t. Garðahverfi, voru karlar fleiri en konur en annars staðar á Íslandi voru konur um fimmtungi fleiri. Ástæðan gæti legið í mikilli sjósókn en hún var aðallega stunduð af karlmönnum. Sérstaða Álftaness var ennfremur fólgin í yngri aldurssamsetningu íbúa en annars staðar á landinu. Hlutfall barna 10 ára og yngri var mun hærra en landsmeðaltalið. Það bendir til þess að sjávaraflinn hafi ef til vill dregið úr sulti og harðindum og lífslíkur ungbarna því verið meiri en ella.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Segja má að blómatími Álftaness hafi verið á 19. öld. Íbúum fjölgaði þar meira en annars staðar á landinu og útgerð og verslun blómstraði. Þar sem möguleikar voru á útræði byggðust upp litlir byggðarkjarnar og voru t.d. sex býli í kringum Dysjar og 32 manns skráðir þar til heimilis. Í manntalinu 1845 eru flestir heimilisbændur skráðir bændur með grasnytjar eða fiskarar og ljóst að allmargir stunduðu hvoru tveggja. Íbúum fækkaði svo aftur eftir aldamótin 1900 í kjölfar sóknar breskra togara á miðin og hruns í fiskveiðum. Þilskipaútgerðin og síðar togaraútgerðin leiddi síðan til fólksflutninga til aðalútgerðarstaðanna og á skömmum tíma fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar úr 374 í 1351. Margt af því fólki sem þangað flutti var þurrabúðafólk úr Garðahverfi og Bessastaðahreppi.

Garðar

Garðar í Garðahverfi.

Að Görðum var róið úr heimavör árið um kring en það kallast heimræði. Vegna þessa kann að hafa verið auðveldara að manna báta en á verstöðvum. Garðahverfi var ekki sjávarpláss í hefðbundnum skilningi heldur fremur viðleguver. Sjómenn fengu inni á lögbýlum og hjáleigum og greiddu fyrir vissa þjónustu. Þó virðist sem þar hafi eitt útver eða verstöð verið á 17. öld við svokallaða Óskarbúð en þaðan réri rösklega tugur báta þegar mest var. Að auki virðist sem íbúar hafi lifað jöfnum höndum af sjósókn og landbúnaði, því einungis 2 bæir af 31 lifðu þá eingöngu af búskap. Við sjósóknina var einkum notast við tvíæringa og hefur lítil notkun stærri báta verið útskýrð með því að útvegsmenn hafi viljað dreifa áhætt-unni og forðast að fá tóman feræring heim. Skúli Magnússon landfógeti skýrir þetta þó fremur þannig að menn hafi viljað vera eigin húsbændur og engum öðrum háðir. Þá er fátækt einnig nefnd sem orsakavaldur og getuleysi til að smíða og halda við stærri bátum.

Grjóti

Grjóti.

Vertíðir mótuðust af fiskgengd á slóðir. Vetrarvertíðin var mikilvægust og aflabrögðin mest. Hún hófst um 14. mars og stóð til 11. maí. Vorvertíðin tók þá strax við til hádegis á Jónsmessu. Yfir sumarið var jafnan lítið róið enda oftast lítinn afla að hafa og næg störf við búskapinn. Haustvertíðin byrjaði á Mikjálsmessu hinn 29. september, stóð fram á Þorláksmessu og var eingöngu stunduð af heimamönnum. Lokadagar vertíðanna voru hátíðardagar þar sem boðið var upp á kaffi, lummur, pönnukökur, brennivín og kjötsúpu. Sagt er að Garðhverfingar hafi þótt harðir í sjósókn sinni og síður látið veður hamla sér og róið fyrr en margir aðrir.

Grjóti

Grjóti.

Hrognkelsaveiðar voru stundaðar frá Garðahverfi en svæðið var eitt fengsælasta á Íslandi til slíkra veiða. Hrognkelsi voru mikilvæg til beita og fundust í nýtanlegu magni frá mars og fram í júlí. Grásleppuhrogn voru tínd í höndunum á stórstraumsfjöru þar sem þau voru fest við stóra steina en hrognkelsi voru einnig veidd með höndum eða sting. Sölvatekja voru mikilvæg hlunnindi en það fékkst næstum jafnhátt verði fyrir vætt (40kg) af sölvum eins og einum hlut af fullfermdu tveggja manna fari. Söl voru tínd og þurrkuð til sölu, en voru einnig notuð til að drýgja hey og komu jafnvel í staðinn fyrir hey. Vísbending um mikilvægi þessara hlunninda eru svokallaðir Péturssteinar við Hausastaðagranda, en þeir eru taldir vera jarðamerki milli prestssetursins og nágrannajarða til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni. Sölvatekja var mikil á Hausastaðagranda, en hann náði um kílómetra út í fjörð og kom aðeins upp úr á fjöru.

Grjóti

Grjóti.

Elstu byggingar á svæðinu eru Garðakirkja og Garðaholt og þær eru jafnamt stærstar og íburðarmestar. Flest íbúðarhús á svæðinu eru fulltrúar húsakynna alþýðufólks; fremur látlaus, lítil og lágreist timburhús, klædd bárujárni. Þökin eru einföld hallandi mænisþök og húsin eru oft reyst á steyptum grunni sem einnig er kjallari. Byggðin er smágerð og húsin yfirleitt stakstæð og mynda litlar þyrpingar. Stíll flestra húsanna endurspeglar upprunalegt útlit. Þó er nokkuð algengt að byggt hafa verið við húsin eða þau bætt með einhverjum hætti, oft í samræmi við upprunalegan stíl.
Yngri húsin eru flest úr steinsteypu, í ýmsum stílum og yfir það heila nokkuð látlaus. Þrátt fyrir að þau séu ekki endilega í sama stíl og eldri húsinu eru þau lítið áberandi innan svæðisins. Söguleg gæði byggðarinnar hafa því haldið sér vel og menningarlandslag byggðarinnar sem hér hefur verið lýst er nokkuð heilsteypt. Garðahverfið hefur því haldist merkilega óspillt og upprunalegt í gegnum tíðina.

Grjóti

Grjóti – byggt árið 19019 og því aldursfriðað.

Hjáleigubyggð líkt og Garðahverfi státar af hefur mikið menningarsögulegt gildi sem hefur sterkar vísanir í sögu þjóðarinnar og lifnaðarhætti fyrri tíma. Samkvæmt fornleifaskráningu eru mjög margar og merkilegar minjar um búsetu að finna í Garðahverfi. Þær tengjast atvinnuháttum, s.s. sjósókn og búskap, samgöngum og menningarlegum þáttum á borð við trúarlíf, skólahald og jafnvel réttarsögu.

Garðakirkja

Garðakirkja.

Garðakirkja er merkilegur kirkjustaður með langa sögu, sem teygir anga sína víða, s.s. með frumkvöðlastarfi í kartöflurækt. Kirkjustaðurinn hefur jafnframt verið miðstöð mannlífs og menntunar. Saga skólastarfs er einnig merkileg á svæðinu með minjum um Hausastaðaskóla, fyrsta heimavistarskólann.
Eins og áður hefur komið fram er sjaldséð að hjáleigubyggð hafi varðveist jafn vel og í Garðahverfi og ekkert dæmi um slíkt á suðvesturhorninu. Einnig hafa hvergi minjar varðveist í jafn ríku mæli, því víðast hvar hafa bæir byggst upp við verstöðvar og uppbygging þeirra og hafnarmannvirkja meðfram ströndinni hafa orðið þess valdandi að fáar minjar eru enn varðveittar.
Auk alls þessa hefur byggðin verið girt af með görðum, bæði túngörðum og varnargörðum meðfram sjónum. Í fornleifaskrá kemur fram að mannvirki af þessu tagi hafi tíðkast frá fornu fari. Elstu minjar á svæðinu eru frá landnámi og líklegt er talið að hér hafi staðið vísir af þorpi á síðmiðöldum. Óhætt sé að segja að menningarsögulegt landslag af þessu tagi sé fátítt „ef ekki einstakt”. Menningarlandslagið í Garðahverfi, þar sem saman koma innbyrðis tengsl manngerðra minja, náttúrufars og sögu, myndar verðmæta heild. Slík heild hefur áhrif á varðveislugildi húsa á svæðinu og segir sögu byggðar á svæðinu. Því hefur menningarsögulegt gildi Garðahverfisins hátt varðveislugildi.”

Grjóti
Í “Húsakönnun – Garðahverfi á Álftanesi” frá því í desember 2016 segir m.a.: “Byggðin í Garðahverfi hefur lítið breyst um langt skeið. Garðar voru kirkjujörð sem hafði í kring um sig umfangsmikla hjáleigubyggð á 15.-18. öld. Um 1800 var því sem næst allt land Garðasóknar í eigu kirkjunnar eða krúnunnar. Garðar voru svokallað gæðabrauð sem nutu góðs af nálægð sinni við Bessastaði og var Garðasókn ellefta tekjuhæsta sóknin á landinu af 179 sóknum árið 1737. Á Álftanesi voru þá tvö megin höfuðból, Garðar og Bessastaðir. Höfuðbólin töldust bæði til Álftaneshrepps allt til 1878 þegar þeim var skipt í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Önnur lögbýli árið 1703 voru Hausastaðir, Bakki og Dysjar en auk þess var búið á Pálshúsum, Nýabæ, Miðengi, Ráðagerði, Móakoti, Hlíð, Koti og Hausastöðum.
Grjóti
Þrátt fyrir þá miklu fækkun fólks sem varð á Íslandi á 18. öld þá fjölgaði í Garðahverfi um þriðjung á öldinni. Það endurspeglar þá búsetuþróun sem þá átti sér stað á Íslandi þar sem fólk flykktist úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Þannig hélst fjöldi lögbýla og hjáleiga stöðugur en tómthúsum fjölgaði mikið.
Hjáleigubæir við Garða voru flestir smáir og jafnvel mörg heimili á hverjum þeirra. Fjöldi býla hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og bæjarstæðin lítið breyst. Hins vegar tók fjöldi bústaða miklum breytingum því ábúendur jarða leyfðu stundum byggingu þurrabúða í landi sínu en þessir íbúar urðu að treysta algjörlega á sjávarfang eða vinnu fyrir aðra.
Byggðin var nokkuð þétt og vel tengd saman því götur voru á milli allra bæja og allir vegir lágu til Garðalindar þangað sem íbúar sóttu vatn til fjóss og bæjar. Garðalindin var eina lindin sem aldrei þraut. Íbúar vörðust sífellt ágangi sjávar og voru meðal annars byggðir sjávarvarnargarðar, en sums staðar, til dæmis að Bakka hefur þurft að færa bæinn þrisvar sinnum frá sjónum svo vitað sé.
Á Álftanesi, þ.m.t. Garðahverfi, voru karlar fleiri en konur en annars staðar á Íslandi voru konur um fimmtungi fleiri. Ástæðan gæti legið í mikilli sjósókn en hún var aðallega stunduð af karlmönnum.
Grjóti
Sérstaða Álftaness var ennfremur fólgin í yngri aldurssamsetningu íbúa en annars staðar á landinu. Hlutfall barna 10 ára og yngri var mun hærra en landsmeðaltalið. Það bendir til þess að sjávaraflinn hafi ef til vill dregið úr sulti og harðindum og lífslíkur ungbarna því verið meiri.
Segja má að blómatími Álftaness hafi verið á 19. öld. Íbúum fjölgaði þar meira en annars staðar á landinu og útgerð og verslun blómgaðist. Þar sem möguleikar voru á útræði byggðust upp litlir byggðarkjarnar og voru t.d. sex býli í kringum Dysjar og 32 manns skráðir þar til heimilis. Í manntalinu 1845 eru flestir heimilisbændur skráðir bændur með grasnytjar eða fiskarar og ljóst að allmargir stunduðu hvoru tveggja. Íbúum fækkaði svo aftur eftir aldamótin 1900 í kjölfar sóknar breskra togara á miðin og hruns í fiskveiðum.
Þilskipaútgerðin og síðar togaraútgerðin leiddi síðan til fólksflutninga til aðalútgerðarstaðanna og á skömmum tíma fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar úr 374 í 1351. Margt af því fólki sem þangað flutti var þurrabúðafólk úr Garðahverfi og Bessastaðahreppi.
Grjóti.
Minjar í Garðahverfi á Álftanesi eru einstakar og menningarlandslagið sem þar hefur varðveist er fáséð. Hægt er að rekja rætur byggðarinnar aftur á miðaldir hið minnsta og þar er að finna margt merkilegra minja m.a. um sjósókn, samgöngur, búskap, skólahald, trúarlíf og jafnvel réttarsögu. Byggðin var girt af með hlöðnum görðum en mikið grjót er á holtinu sem hægt var að nýta í bæði byggingar og garðagerð.
Grjóti
Varnargarður var gerður meðfram sjónum og hinn mikli Garðatúngarður teygði sig frá Balatjörn í suðaustri, um Desjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Fleiri dæmi má taka um minjar sem þarna má finna, bæjarhóla, varir, brunna, útihús, garða, stekki, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarð, aftökustað, steina með áletrunum og fornar leiðir. Auðveldlega má sjá rústir Hausastaðaskóla sem reistur var árið 1759 og var sérstaklega ætlaður almúgabörnum.
Í Garðahverfi hefur bæði verið stundaður landbúnaður og útræði en flest býlin eru landlítil. Byggðin, sem var orðin svo þétt, að vísir var kominn að litlu þorpi, var girt af með görðum og varnargarðar lágu með sjónum. Hér má sjá túnakort frá 1918 sem sýnir byggðina eins og hún er í upphafi 20 aldar.”

Um Hausastaðakot segir:

Hausastaðir

Hausastaðir.

“Hausastaðakot var hjáleiga sem lá undir Hausastöðum fram um 1640 en í eigu Garðakirkju eins og aðrar jarðir í Garðahverfi. Við gerð Jarðabókar árið 1703 var ábúandi Nikulás Jónsson og hjá honum sex menn í heimili. Skv. Manntali bjó þar árið 1801 nafni hans sem var jarðnæðislaus húsmaður og fiskari með konu og tvö börn en annar ábúandi var Árni Jónsson bóndi og fiskari með konu og eitt barn. Í Manntali 1816 var ábúandi einn, Gísli Sigurðsson, með þrjá í heimili en 1845 hafði aftur fjölgað í Koti eins og jörðin var einnig kölluð. Þar voru Ólafur Erlendsson hreppstjóri og fiskari og Helga Gamalíelsdóttir, fyrrverandi vinnukona í Miðengi, börn þeirra tvö, tvær vinnukonur og niðurseta. Tómthúsmennirnir voru tveir, báðir með konur og má ætla að önnur hjónin hafi átt heimili í þurrabúðinni Grjóta (188-9). Í Jarðatali 1847 er tilgreindur einn ábúandi og jörðin enn sögð kirkjueign. Hún er nefnd í Jarðabók 1861 og hélst skv. Fasteignabókum undir kirkjunni 1932 og 1942-4. Í Fasteignamati ríkisins má sjá að jörðin er enn í byggð en liggur nú undir Grjóta sem áður var þurrabúð (191-9). Núverandi eigandi Tryggvi Gunnarsson býr í Grjóta. Hausastaðakot var miðja vegu milli Grjóta og Hausastaða.
Grjóti
Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld 40 álnir, borguð með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildi var eitt, greitt í smjöri til Garðastaðar og uppyngdi staðarhaldari það. Í búpeningi átti bóndi eitt hross og eina kú en fóðrast gátu tvær. Kvaðir voru hestlán, dagsláttur, hrísshestur og mannslán allt árið. Ábúandi lagði sjálfur til húsavið en hafði móskurð í landi staðarins. Dýrleikinn var enn óviss 1847, landskuldin hin sama og kúgildið eitt en 1861 var jörðin talin 6,4 ný hundruð. 1932 var verð hennar með húsakosti 36 hundruð kr., kúgildi tvö, sauðir tíu og hrossið eitt. Afrakstur 1160 m² matjurtagarða voru 15 tunnur á ári. Jörðin hafði hrognkelsaveiði og útræði en uppsátur var í Hausastaðakotsvör (191-17). Á árunum 1942-4 hafði landverðið hækkað í 45 hundruð kr., í bústofninum voru fimm nautgripir, 14 sauðir og eitt hross og garðávextir um 13 tunnur á ári. Jörðin hélt fyrri hlunnindum. Árið 1918 var tún Hausastaðakots 1 ha en hafði 1932 stækkað í 1,5 ha og fengust af því 70 hestburðir af töðu en 104 á árunum 1942-4. Norðaustan megin var Garðatúngarður (185-42)/ 190-34) en girt var umhverfis allt túnið. Austan í því var Grjóti og þarnæst land Hlíðar en að vestan voru Hausastaðir. Spilda frá Hausastaðakotstúni teygði sig milli þess og Móakots niður að sjó.”

Grjóti
Í Morgunblaðinu 1977 fjallar Gísli Sigurðsson um Garðahverfi undir fyrirsögninni “Innan um grásleppu og lambær í Garðahverfi“:
“Garðahreppur, sem síðan í fyrra heitir Garðabær, er kenndur við kirkjustaðinn Garða. Það var meiriháttar jörð og átti til dæmis að verulegu leyti það land, sem Hafnarfjarðarbæ hefur byggst á. En umhverfis Garða hefur verið og er enn talsverður fjöldi smábýla og þurrabúða og mynda Garðahverfið svonefnda.
Af holtinu ofan við Garðahverfið er víðsýnt yfir Reykjavíkursvæðið, Álftanes, Garðabæ, Hafnarfjörð og strandlengjan suður með sjó blasir við þaðan. Ugglaust má deila um, hvaða staður á þessu mesta þéttbýlissvæði landsins sé fallegastur, en mín skoðun er sú, að í grænum hallanum, þar sem þessi litlu kot kúra, sé ein fegurst perla náttúrufegurðar — ekki bara á Reykjavíkursvæðinu, heldur á landinu öllu.
Grjóti
En fegurðin verður ekki látin í frystikistur fremur en bókvitið í askana hér áður fyrr. Framtíð Garðahverfis er óljós á þessari stundu og miklar líkur á, aðafdrifarík tímamót séu framundan. Staðreyndin er sumsé sú, að það er að verulegu leyti gamalt fólk, sem býr í örsmáu bárujárnshúsunum, sem standa þarna innan um grjót og gras. Ekki tekur meira en fimm mínútur að aka út eftir þangað úr Garðabæ, eftir malbikuðum veginum til Bessastaða og framhjá lúxusvillunum, sem tyllt hefur verið niður í hraunið af mikilli nærfærni við náttúruna. Á Garðaholtinu er beygt útaf malbikinu og allt í einu er maður kominn í annan heim, sem ber keim af Selvogi eða Hornströndum. Það er eins og steinsteypuöldin hafi aldrei náð þangað, — sem betur fer ætti maður líklega að álykta.
Grjóti
Þessi staður ber með sér andblæ löngu liðins tíma; áranna eftirfyrra stríð og kreppuáranna, þegar þrjátíu fermetra hús þóttu fullboðleg. Að sjálfsögðu voru þar hvorki baðherbergi né þvottahús, sjaldnast rennandi vatn — og rafmagnið kom löngu síðar. Fyrir utan kirkjujörðina Garða, var meðalstærð býla í Garðahverfi um 30 hektarar og þar var allt með talið: Tún, grjótflákar og beitiland. Það voru og eru kotbýli, þegar miðað er við landstærð jarða í sveitum almennt og búskapurinn hlaut að verða smár í sniðum. Áður fyrr voru hlunnindin fólgin í návist hafsins; grásleppa og jafnvel þorskur voru rétt utan við landsteinana. Þá réru allir sem róið gátu. Nú eru hlunnindin fólgin í návist þéttbýlisins og flestir verkfærir menn á sæmilegum aldri sækja vinnu til nágranna bæjanna.
Samkvæmt íbúaskrá frá síðasta ári, búa samtals 53 manneskjurá 18 bæjum og húsum í Garðahverfi. Aðeins vantar einn íbúa til viðbótar og þá væru að jafnaði þrír til heimilis á hverjum bæ. Á þremur bæjum teljast aldraðar konur einsetubændur og í einu húsi er einsetumaður. Meðalaldurinn er hár; margt af þessu fólki fór að búa um 1930 og er komið á áttræðisaldur og þar yfir Túnin í Garðahverfi ná saman og mynda fallega heild. En sú ræktun, sem þarna má sjá, var komin um og fyrir stríð og síðan hefur litið gerst. Flest íbúðarhúsin eru líka frá þeim tíma.
Auðvelt er að gera því skóna, að þarna yrði geysilega eftirsótt byggingarland. En ekkert skipulag hefur verið gert, sem nær yfir Garðahverfi. Á jörðunum er leyfilegt að byggja upp, ef þess yrði óskað, en nýbýli eða ný hús þar fyrir utan eru ekki leyfð, meðan skipulag er ekki til. En auðséð er að hverju stefnir. Rétt austan við hverfið eru útmörk Hafnarfjarðarbæjar, þar sem blokkir og raðhús sækja fram eins og óvígur her.
Grjóti
Ennþá er þó hægt að njóta þess á fallegum vordegi að koma niður á fjörukambinn hjá Katrínarkoti og sjá Gunnar í Breiðholti koma að landi, drekkhlaðinn af grásleppu. Ilmur af seltu og fiski berst frá ránum, þar sem grásleppan hangir og fáeinum skrefum þaðan eru lambær að gæða sér á grængresi í Hausastaðatúninu. Kristján í Miðengi er líka að huga að lambánum sínum, hálfníræður og ofar í hverfinu situr Tryggvi í Grjóta úti undir vegg og greiðir úr grásleppuneti. Hann vantar aðeins tvö ár í áttrætt. Og í Króki stendur Þorbjörg úti við vallgróinn bæjarvegginn og minnir á gömlu konuna í Brekkukoti í sögu Laxness.
GrjótiÞessi bær býr yfir rómantískri fegurð í sátt og samlyndi við náttúruná, en ekki eru aðrir til heimilis þar en Þorbjörg. Aðeins örfá skref þaðan er félagsheimiliðá Garðaholti, þar sem nútíðin býr; blótar Mammon með ærslum, fylliríi og öskrandi hávaða og á eftir man enginn hvar hann hefur verið. En það er önnur saga.
Að sjálfsögðu er tómt mál að tala um að varðveita alla skapaða hluti, sem eftir standa frá liðnum tíma. Hitt er svo annað mál, að það er óþarft að farga því öllu og væri óneitanlega skemmtilegt að geta varðveitt þó ekki væri nema einhvern hluta Garðahverfisins. Í því sambandi kemur mér sérstaklega í hug bærinn í Miðengi; íbúðarhús, sem er örsmátt á mælikvarða nútíðar og samsvarar að flatarmáli einu sæmilegu herbergi. Samt þótti það gott framfaraspor á sinni tíð og í húsum af þessu tagi ólust jafnvel upp stórir barnahópar.
Guðmann Magnússon á Dysjum, sem verið hefur hreppstjóri i Garðahreppi þar til á síðasta ári að byggðin fékk kaupstaðarréttindi er innfæddur í Garðahverfinu og hefur alla ævi átt þar heima.
Hann sagði, þegar framtíð Garðahverfis bar á góma: „Ég á von á, að hér risi þéttbýli. Helzt vildi ég að hverfið yrði friðað, en varla er hægt að búast við að það verði gert. Garðaholtið verður tekið undir íbúðarbyggingar og svo verður saxað á ræktaða landið unz ekkert verður eftir. Þetta var allt land Garðakirkju og því heyrir það undir jarðeignaheild ríkisins. En ábúðin á jörðunum er til lífstíðar. Það lítur út fyrir að Garðahverfið í núverandi mynd sé deyjandi byggð og að þar muni koma þéttbýli í staðinn, enda fallegt byggingarland — að minnsta kosti meðan túnin eru græn og ósnortin.”

Grjóti
Í skýrslum er Grjóti jafnan nefndur sem Hausastaðakot. Þar segir m.a.: “Byggingarár 1909, Garðav. Hausastaðakot. Tegund: Timbur. Klæðning: Bárujárn. Þakgerð: Mænisþak. Þakklæðning: Bárujárn. Undirstaða: Hlaðin í múr. Íbúðarhúsið í Hausastaðakoti er friðað skv. ákvæðum laga nr. 80/2012. Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Byggingarlist: Einfalt alþýðuhús. Menningarsögulegt gildi Íbúðarhús: löng saga búsetu. Umhverfisgildi: Hluti menningarlandslags. Upprunaleiki: Form og útlit húss hefur haldist vel þrátt fyrir viðbyggingu. Ástand: Ágætt. Varðveislugildi: Varðveislugildi vegna yfirbragðs byggðar. Niðurstaða varðveislumats: Hús er friðað (blátt)

GrjótiByggingarár 1935 Garðav. hlaða Hausastaðakots

Tegund: Steinsteypt, upphafleg gerð húss. Klæðning: Bárujárn. Þakgerð: Mænisþak. Þakklæðning: Bárujárn. Undirstaða: Steinsteypt. Útlit: Einlyft. Sambyggð hlaða, geymsla og rústir af hlöðu. Ekki lengur í landbúnaðarnotum. Byggingarlist: Einfalt byggingarlag. Menningarsögulegt gildi: Hlaða og útihús. Umhverfisgildi: Hluti landbúnaðarlandslags. Upprunaleiki: Útlit hússins nálægt upprunalegu útliti. Ástand: Ágætt en mætti við viðhaldi. Varðveislugildi: Varðveislugildi vegna yfirbragðs byggðar.

Grjóti

Grjóti – endurbætur í ágúst 2022.

Niðurstaða varðveislumats: Samstæð hús og heild sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi (gult)”.

Grjóti

Grjóti í október 2022. Verktakinn, Gunnar Ingi Jónsson frá Bæjarhúsum ehf, stendur við húsið.

Heimildir:
-Skýrsla: Verndarsvæði í byggð – Garðahverfi á Álftanesi; tillaga og greinargerð 2017.
-Húsakönnun: Garðahverfi á Álftanesi, desember 2016.
-Morgunblaðið, 31. tbl. 28.08.1977, Innan um grásleppu og lambær í Garðahverfi, Gísli Sigurðsson, bls. 7-10.
-Hjalti Hjartarson.
Grjóti

Garðahverfi

Í Fornleifaskráningu Garðabæjar 2009 segir m.a. um Hausastaði, Katrínarkot og Selskarð:

Hausastaðir
Ekki hluti af Hafnarfirði 1367, eign Garða, DI III, 220. 1565, skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: “Gudmunde Hausastade fyrer malnytu kugillde. miöltunnu. manslán ad vertid. med jördenne eitt kugillde.” DI XIV, 427. 1703: ” … lögbýli kallað því það hefur fult fyrir svar en stendur þó í óskiftu Garðastaðar landi so sem hjáleigur. Jarðadýrleiki óviss.” JÁM III, 189 Garðakirkjueign.
1703: “Túninu er hætt við að spilli sjáfargángur. Engjar öngvar. úthagar sem heima á staðnum i óskiftu landi.” JÁM III, 191.
1918: “1,8 teigar teigar og 720 m2”

Hlíð

Hausastaðir og nágrenni – Túnakort 1918.

Í skráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið í miðju túni og er þar ein bygging úr torfi og snýr nokkurnveginn í suður. Aftan við hana eru húsatóftir upp við garðvegg. Líklega er þetta Austurbærinn sem nefndur er í Örnefnaskrá 1964. Vesturbærinn fór í eyði um aldamótin 1900 en ,,Bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var”. Í Örnefnalýsingu 1976-7 er lýst nýrri vistarverum: ,,Hausastaðir eru í norðvestur frá Grjóta. Húsið stendur nokkuð hátt, og er útsýni gott frá því. Það var byggt árið 1920 á sama stað og gamli bærinn var áður. Fast norðan við íbúðarhúsið er hlaða með sambyggðu fjósi og fjárhúsi og einnig vatnsgeymi, sem regnvatni var safnað í. Vatnið úr honum rann svo í fjósið. Hlaðan var byggð um 1930.” (Bls. 10). Með gamla bænum er átt við Austurbæinn því Katrínarkot var um 1930 flutt þangað sem Vesturbærinn hafði staðið. Skv. Fasteignabókum 1932 (bls 23) og 1942-4 (bls. 81) var nýja húsið úr timbri og járnvarið.”
“Að hluta undir núverandi húsi,” segir í Fornleifaskrá RT og RKT.

Hausastaðir

Hausastaðir 2021 – loftmynd.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá gamla bæjarstæðið í miðju Hausastaðatúni. Á jörðinni var tvíbýli og er í örnefnaskrá 1964 talað um Austurbæ og Vesturbæ: “bæirnir stóðu saman meðan tvíbýli var” […] Bygging sem sést á Túnakortinu mun vera Austurbærinn en Vesturbærinn var samkvæmt Örnefnalýsingu 1976-7 “tómthús”. Hann “fór í eyði um aldamótin 1900, og var húsið þá flutt til Hafnarfjarðar” en hjáleigar Katrínarkot síðar fært í vesturstæðið: “Íbúðarhúsið í Katrínarkoti stendur norðvestan hlöðunnar og fjóssins á Hausastöðum, en þangað var það flutt árið 1930. Fjós og hlaða, byggð um svipað leyti, standa fast norðvestan við húsið. […] Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.” […] Stæði Vesturbæjarins og síðar hins yngra Katrínarkots var því norðvestan gamla Austurbæjarins og núverandi íbúðarhúss.”

Garðahverfi

Hausastaðir 2020.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Auk kálgarðsins sunnan bæjarhúsanna sýnir Túnakortið 1918 ómerktan garð sem nær næstum að landamerkjagarði Hausastaða og Hausastaðakots. Ef til vill er þetta svo nefndur Húsagarður en um hann segir í B-gerð Örnefnaskrár 1964: ,,Austan við Hausastaðahúsið eru ummerki garðs, þar er sagt að staðið hafi Thorkelliisjóðsskólinn.” […] Skv. A-gerð var þessi garður sunnan bæjarins […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Hliðhallt, rétt austan við húsið, var gamall ferhyrndur garður, sem kallaður var Húsagarður. Hausastaðaskóli stóð áður í þessum garði. Nú er garður þessi nær alveg horfinn, þó má enn sjá hver stærð hans hefur verið. Þegar Ólafía [Eyjólfsdóttir á Hausastöðum] man fyrst eftir, mátti sjá hlaðna bekki þvers í garðinum.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 liggur garðurinn “rétt suður af Hausastöðum upp við og samsíða girðingu sem þarna er”. […] Þarna er greinilega verið að fjalla um sama garðinn þótt ýmist sé hann sagður sunnan eða austan við húsið en e.t.v. Er kálgarðinum sunnan megin að nokkru leyti ruglað saman við Húsagarð.”
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Meintur Húsagarður er á Túnakortinu ferhyrndur, afmarkaður með hlöðnum veggjum og hefur stefnuna austur-vestur. Austan og sunnan megin virðist vera gamalt garðlag sem ekki er haldið við.
Milli þessa garðs og kálgarðsins liggur gata yfir í átt að Hausastaðakoti. Uppistandandi garður er ferhyrndur, fallega hlaðinn úr grjóti með tveimur hleðslubrúnum og yfirgróinn. Hann er 8,75 m á lengd og 9,8 m á breidd, veggir um 1,1 m breiðir og 0,6 m háir, stefnan austur-vestur. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta taldi garðinn hafa legið kringum Hausastaðaskóla og eystri vegginn hafa verið hluta landamerkjagarðsins milli Hausastaða og Hausastaðakots.”

Garðahverfi

Hausastaðir – kort.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Nokkuð vestar og nær sjó en Hausastaðabærinn sést á Túnakorti 1918 hið gamla Katrínarkot. Bærinn er úr torfi og skiptist í sjö hólf. Hlaðnir veggir kringum garða ganga út frá framhúsunum. Í Örnefnaskrá 1964 er einnig talað um Niðurkot, e.t.v. vegna þess að býlið var niður við sjó: “Hjáleiga eða nýbýli stofnað um 1850 úr Hausastaðalandi […] í Garðahverfi vestast […] tún býlisins lá norðan og vestan Hausastaðatúns” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Þar byggðu fyrst hjón að nafni Eyjólfur og Katrín, líklega snemma á 19. öld, og dregur býlið nafn af konunni. Katrínarkoti fylgdi alltaf grasnyt. Bærinn var fluttur um 1930, þangað sem hann er nú, […] og útihúsin einnig. Þar stóð áður vesturbærinn á Hausastöðum.” […]
Við Fornleifaskráningu 1984 segir að stæði gamla Katrínarkots sé “í túninu norð-vestur af núverandi Katrínarkoti niður við sjóinn” en kotið var flutt ofar “undan ágangi sjávar”. Núna er þarna lítill ávalur hóll í mjög grónu túni.”

Katrínarkot

Katrínarkot – heimtröðin.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Hliðsnesgata sem “lá frá Sjávarhliðinu vestur Skreflu yfir Oddakotsós eða um Sandeyrina út að Hliðsnesi” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Vegurinn liggur á milli Hausastaða og Katrínarkots til sjávar, en þá beygir hann til vesturs út í Hliðsnes.””

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum tún Hausastaða á alla vegu og einnig milli þess og Katrínarkots. Í Fasteignabókum árin 1932 […] og 1942-4 […] er talað um túngarð og hagagirðingu. Garðatúngarður er norðan megin en Hausastaðatúngarður sunnan megin, nefndur í Örnefnaskrá 1964: “Hann lá á Sjávarkampinum, mikill grjótgarður” […] og nefnist framhald hans Katrínarkotstúngarður. Auk þess eru þarna Hausastaðatúngerði neðri neðan Guðrúnarvallar og Högnavallar […], e.t.v. Milli Hausastaða og túnspildu frá Hausastaðakoti er sýnd vírgirðing á Túnakortinu en samsíða henni fannst við Fornleifaskráningu 1984 gamall yfirgróinn túngarður hlaðinn upp í 0,6 m hæð.”

Garðahverfi

Katrínarkotsbrunnur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá að girt er kringum allt Katrínarkotstún en skv. Fasteignabókum 1932 […] og 1942 […] er þar túngarðar og hagagirðingar. Garðatúngarður er norðan megin og í Örnefnaskrá 1964 er Katrínarkotstúngarður sagður sunnan megin: Hann var framhald Hausastaðatúngarðs og “lá niður undir sjó, frá Sjávarhliðinu vestur undir Dal” á Skreflu ,,vestan og neðan Katrínarkotstúns” […] Á Túnakorti sést girðing við túnið vestan megin en skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var a.m.k. byggður þar garður þegar kom fram á 20. öld: “Vestan við túnið í Katrínarkoti er hlaðinn torfgarður til varnar sjávargangi frá Skógtjörn, sem liggur vestan lands Katrínarkots og Hausastaða. Sigurjón Sigurðsson hlóð þennan garð um 1930.” […] Garðurinn við Skógtjörn sést enn þá mjög skýrt.”

Hausastaðir

Hausastaðir – túngarður.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 kemur fram að Péturssteinar eru á Hausastaðagranda: ,,Þrír steinar er liggja úti á Grandanum miðsvæðis […] Péturssteinn innsti: Allstór steinn á Grandanum ausatanverður […] Pétursstein mið: Steinn þessi liggur nokkuru utar og vestar […]
Péturssteinn ysti: Steinn þessi er yztur […]” […] Grandanum og mismunandi hlutum hans er lýst nákæmlega í Örnefnalýsingu 1976-7: “Fram af miðju Hausastaðatúni gengur skerjagrandi mikill í sjó fram […] Grandi þessi kemur aðeins upp úr á fjöru […]. Kringla heitir á Grandanum næst utan Gedduóss. Þar er Grandinn hæstur, og er kringla því það fyrsta, sem upp úr kemur af honum. Þrír stórir steinar á Hausastaðagranda, út af Kringlu, heita Péturssteinar. Þeir koma upp úr næst á eftir Kringlu, og er steinninn í miðið þeirra stærstur […]” Þar eð kirkjan í Görðum var helguð heilögum Pétri hafa steinarnir e.t.v. verið kenndir við hann.” Í skráningu RT og RKT kemur fram að ekki sjáist lengur til Péturssteina.
“Á rifi fram undan Garðahverfinu eru þrír steinar sem kallaðir eru Péturssteinar með bókstöfunum S.P.S.T. áhöggnum. Þeir eru taldir merkissteinar milli prestssetursins og nágrannajarðanna árið 1677 til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni.”

Garðafjara

Husastaðir- fjaran.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Jarðabókinni 1703 segir um Hausastaði: “Heimræði er árið um kring, en lending bág og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Inntökuskip hafa hjer sjaldan verið og mega þó vera, tekur þá ábúandinn undirgift af þeim. En Selskarð, Garðastaðar kirkjujörð, brúkar hjer skipsuppsátur frá um lángan aldur og nær undir 30 ár verbúðar stöðu, sem ákomin skal vera eftir dispensation staðarhaldaranna.” […] Líklegt virðist að lendingin eða vörin við Hausastaði hafi verið fyrir enda Hausastaðasjávargötu, utan við sjávarhliðið. Skv. Örnefnaskrá 1964 voru tvær varar vestan Hausastaðagranda en frá þeim var róið fram á Vöðla, ,,grynningar framan við Skreflu langt í sjó fram” […]
Þetta voru Katrínarkotsvör og Hausastaðavör […] Sú síðarnefnda lá næst fyrir austan þá fyrrnefndu […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Hausastaðavör er vestast niður af Hausastaðatúni. í henni fengur Selskarðsmenn oft að hafa bát, en ekki var talað um séstaka Selskarðsvör. Vestast niður af Katrínarkotstúni […] var Katrínarkotsvör.” Vöðlar eru staðsettir “milli Kringlu og Oddakotsóss […] Þar eru leirur og hægt að vaða um fjörur.””

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 virðist mega sjá op eða hlið á sjógarðinum fyrir enda götu sem liggur frá Katrínarkoti eldra og er þar e.t.v. Katrínarkotsvör.
Skv. Örnefnaskrá 1964 var hún “vestust allra varanna” í Garðahverfi, “aðeins vestan við sjávarhliðið” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Vestast niður af Katrínarkotstúni, fyrir vestan Draugasker, var Kartínarkotsvör. Hún hefur ekki verið notuð lengi.”” Vettvangslýsing á minjunum fylgir ekki skráningu RT og RKT.

Aukatjörn

Aukatjörn.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 var Kaldakinn býli eða “þurrabúð frá Hausastöðum”, norðan þeirra eða “norðast í Hausastaðatúni […] niður undir Aukatjörn”. Köldukinnargerði hét “lítið gerði umhverfis þessa þurrabúð” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Köldukinn, þurrabúð frá Katrínarkoti, var norðan þess (þ.e. Katrínarkots), niður undir Skógartjörn. Tættur hennar sjást enn. Ólafíu [Eyjólfsdóttur á Hausastöðum] rámar aðeins í byggð í Köldukinn, en hún fór í eyði rétt fyrir aldamótin 1900.” […] Skv. Örnefnalýsingu 1958 var Högnavöllur niður undir sjó en “þar norðar […] Köldukinnarvöllur […]” Við Fornleifaskráningu 1984 er Kaldakinn sögð vera “norðaustan við Katrínarkot, neðan heimkeyrslu og kálgarðs sem þarna er, rétt við sjóinn. Austan þess er lítið steinsteypt hús, reist fyrir barnaheimili”.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Þarna er mjög grasi vaxið […] mest áberandi er veggjarbrot, um 8,5 m á lengd og 0,5 m á hæð. Brotið stefnir til sjávar en út frá því “í vesturátt virðist hafa verið ferhyrndur garður, nú fremur óljós”, um 11,5 m á breidd. Tryggvi Gunnarsson í Grjóta telur líka byggðina hafa lagst af í kringum aldamótin.”

Háteigur

Háteigur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 sést steinhús með þrískiptum garði norðan Katrínarkota og Hausastaða. Þetta er nánar tiltekið rétt austan við götu í útjaðri túnsins. Hlaðnir veggir liggja kringum garðinn, milli norðurhluta hans sem er kálgarður, vestur hlutans sem er órækt og austurhlutans sem er túnblettur. Þetta gætu verið Rústirnar sem nefndar eru í Örnefnaskrá 1964: “Litlu norðar en Kaldakinn voru rústir, líklega af bæ.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Rústir eru rétt norðan vð Köldukinn, en ekki veit Ólafía, af hverju þær eru.” […] Auk ábúenda í Vesturbæ og Austurbæ Hausastaða nefna Manntöl fjölskyldur í nafnlausum hjáleigum og tómthúsum og gætu Rústirnar og aðrar slíkar sem eru nær Litlutjörn verið af einhverju þeirra.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á þessum stað eru enn þá mjög greinilegt grjóthlaðið gerði og má vel vera að ein þurrabúðin hafi verið þarna.”

Hausastaðir

Hausastaðatúngarður.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 er brunnur rétt utan Garðatúngarðs við enda Hausastaðabrunngötu og Katrínarkotsbrunngötu. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Hausastaðabrunnur: “Brunnur norðan bæjarins. Hlaðnar voru tröppur niður í hann. Vatnið spilltist af aðrennslisvatni.” […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-7 var Hausastaðabrunnur Katrínarkotsmegin: “rétt fyrir austan (u.þ.b. 8 m) endann á Stíflisgarði, sem lá milli Skógartjarnar og syðsta hluta hennar, Litlutjarnar. “Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar sex til sjö tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927, og var þá grafinn brunnur frá Katrínarkoti. Slóðar frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefndust Brunngötur. Var ein frá hverjum bæ.” […] Brunnurinn sem var grafinn við Katrínarkot reyndist illa og var því aftur gerður brunnur á slóðum gamla Hausastaðabrunnsins: “Litlamýri er fast austan við Litlutjörn, og flæðir sjórinn upp að henni. Á seinni árum gróf Valgeir, bróðir Ólafíu [á Hausastöðum], brunn í Litlumýri, og reyndist ágætt vatn í honum.””

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá götu sem liggur norður frá bænum meðfram garði eða girðingu sem skilur milli Hausastaða og Katrínarkots. Hún endar í hliði á Garðatúngarði en þar fyrir utan er brunnur. Þettta er líklega Hausastaðabrunngata sem nefnd er í Örnefnaskrá 1964: “Brunngatan lá frá Brunninum heim til bæjar.”” Í örnefnaskrá segir: “Rétt fyrir austan (u.þ.b. 8 m) endann á Stíflisgarði, Katrínarkotsmegin, var Hausastaðabrunnur. Í hann var sótt vatn frá Hausastöðum, Katrínarkoti og Hausastaðakoti og stundum einnig frá Grjóta og Móakoti. Ekki þraut í þessum brunni fyrr en á seinni árum. Einar 6-7 tröppur voru niður í brunninn. Hausastaðabrunnur lagðist af um 1927 … Slóðir frá bæjunum að Hausastaðabrunni nefnust Brunngrötur. Var eins frá hverjum bæ.” Búið er að raska Brunngötunum með sléttun og vegagerð, t.a.m með Sjávargötu.

Skógtjörn

Garður/brú yfir Aukatjörn. Hausastaðir fjær.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Norðan við Köldukinn og Rústirnar, eru aðrar rústir sem gætu verið af þriðja býlinu. Þetta er á bakka Litlutjarnar við Skógtjörn. Hjábýlis- og tómthúsfólk sem nefnt er í Manntölum gæti hafa búið þarna eða þar sem nú eru Rústirnar, ein fjölskylda árið 1703 […], tvær 1801 […] og aðrar tvær 1845 […]”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Fornleifaskýrslu séra Markúsar Magnússonar árið 1820 segir: ,,Dómhringar (afmörkuð svæði þar sem dómar voru kveðnir upp). Merki sjást til eins slíks á jörð Garðakirkju, Hausastöðum, gömlum þingstað; hann er kringlóttur, um 30 faðmar að ummáli, en annars er ekkert merkilegt við hann.” Skv. Örnefnaskrá 1964 var á Hausastöðum “þingstaður fyrir Álftaneshrepp, Hausastaðaþinghá.” Hann var fluttur að Görðum eftir konungsbréfi 23. feb. 1816.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Sunnan við bæjarhúsin er á Túnakortinu kálgarður og veggir hlaðnir meðfram honum að vestan og sunnan.” Í skráningu RT og RKT kemur fram að ekki sjáist lengur til kálgarðsins.

Hausastaðir

Hausastaðir – garðar austan við bæjarstæðið.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 […] og Örnefnalýsingu 1976-7 […] stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði í austanverðu Hausastaðatúni.” Vettvangslýsing á minjunum fylgir ekki skráningu RT og RKT.
Í skýrslu RT og RKT segir: “Í manntali 1801 hafði aðalábúandinn Þorvaldur Böðvarsson auk búskapar og útgerðar umsjón með Hausastaðaskóla sem stofnaður var 1791 fyrir gjafafé Jóns Þorkelssonar Skálholtsrektors. Þorvaldur hafði 11 heimilismenn og í heimavist skólans voru 14 börn […] Skólinn var þó lagður niður árið 1812.”
Á öðrum stað segir: “Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi séstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur […] Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf…Börnin voru á lsrinum sjö til sextán ára en gert var ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur.” Nú stendur minnisvarði um skólann sem reistur var um 1980 um skólann sem stendur enn við bugðu á leið til bæjarins.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 liggur gata frá Hausastöðum milli garða, um túnið austur að Hausastaðakoti og þaðan norður að hliði í Garðatúngarði. Hlaðnir veggir eru meðfram henni báðum megin síðasta spölinn. Þetta hljóta að vera Hausastaðatraðir, Hausastaða-Norðurtraðir eða Kotatraðir en “svo voru traðirnar heim að Hausastöðum og Kotinu kallaðar” […], þær lágu “austur frá Hausastöðum […] norður í hlið á Garðatúngarði”, þ.e. Hausastaðahlið eða Kotahlið.”

Hausastaðir

Hausastaðir – Dalurinn.

[…] Bakkinn eða tanginn allvel gróinn.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 er svo veginum lýst: “Sléttur og grasi gróinn tangi liggur út í Hliðsnes á milli sjávar og Skógtjarnar. Vegurinn út í Hliðsnes liggur eftir honum. Tangi þessi heitir Skrefla. Næst túninu, norðan við Skreflu, er lægð, sem heitir Dalur.
[…] Óshólmar ganga út í Skógtjörn, út frá vesturenda Skreflu, grasi gróið land og bleytusandur á milli. Þeir fara í kaf á flóði. Vestan við Óshólma var Ósinn. Um hann féll áður sjór á milli Hliðsness og Skreflu. Var þá eingöngu hægt að fara út í Hliðsnes á báti eða um fjöru. Ósinn var einnig nefndur Oddakotsós eftir býli, sem stóð rétt fyrir vestan hann, austast á Hliðsnesi. Nú hefur verið fyllt upp í Ósinn og því bílfært út í Hliðsnes, sem áður var eyja. Í Skógtjörn, fyrir vestan Ósinn, er Sandeyri. Hún stóð lengi vel nokkuð upp úr, og var hægt að fara hana út í Hliðsnes, þótt nokkuð væri fallið í Ósinn. Austan við veginn, þar sem hann liggur niður að sjónum, suðvestur af Hausastaðahúsi, er tún Hausastaða. Það nær einnig alveg út að vegi til norðausturs.” […]  Núverandi vegur hefur trúlega verið lagður ofan á gömlu götuna.”

Katrínarkot

Katrínarkot.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er nefnt Arndísarkot: “Kot þetta stóð á Skreflu. Sér enn rústirnar […] Þurrabúð […] Þar bjó Arndís. […] Dalur: Vestan og neðan Katrínarkotstúns var lægð, í hana féll sjór úr Skógtjörn. Lægðin nefndist Dalur.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Sléttur og grasigróinn tangi liggur út í Hliðsnes á milli sjávar og Skógartjarnar. Vegurinn úr í Hliðsnes liggur eftir honum. Tangi þessi heitir Skrefla. Næst túninu, norðan við Skreflu, er lægð, sem heitir Dalur. Á flóði fellur sjórinn (úr Skógartjörn) inn í hann. Þó er Dalurinn gróinn. Tóftarbrot er nálægt miðjum dalnum. Þar var eitt sinn tómthús, nefnt Arndísarkot.” Áður var Dalurinn minni og tilheyrði Arndísarkot þá Skreflu.” […] Tóftirnar eru enn sýnilegar.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í landi Hausastaða austan bæjanna, nokkru utan Garðatúngarð, er útihúsatóft, nánar tiltekið staðsett í vegkrikanum rétt norðan heimreiðarinnar að húsinu Brautarholti.”

Hnausastaðakot

Hausastaðakot

Hausastaðakot – loftmynd.

Garðakirkjueign. 1703: Hjáleiga Garða. Ekki hluti af Hafnarfirði ” … hjáleiga í óskiftu Garðastaðar landi, og segja menn hún hafi til forna legið til Hausastaða og verið þar frá tekin og lögð undir staðinn fyrir mannslá og mjeltunnu, sem hvoritveggja var áður skilið í landskuld auk þeirra sem nú er.” JÁM III, 189.
1918: “Tún 1 teigur og 1160 m2 kálgarðar.”

Garðahverfi
Í Fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Túnakortið 1918 virðist sýna tvö bæjarstæði með húsaþyrpingum í Hausastaðakotstúni og er hið suðaustara merkt Hausastaðakot. Miðað við aðrar heimildir og upplýsingar heimamanna er þetta þó villa: húsin sem eru norðvestar nær Hausastöðum, hafa tilheyrt Hausastaðakoti, en í hinu stæðinu var þurrabúðin Grjóti. Í norðvestara stæðinu eru tvær byggingar og kálgarðar. Nyrðra húsið er úr torfi, skiptist í þrennt og er líklegra kotið en skv. Örnefnaskrá 1964 var það hjáleiga eða þurrabúð frá Hausastöðum (A161). Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Grjóti […] er norðaustur af Hlíð. […] Býlinu fylgir land Hausastaðakots, en það stóð mitt á milli Grjóta og Hausastaða.” (Bls.9).
Þetta kemur saman við Fornleifaskráningu 1984 þar sem segir að kotið sé ,,í hánorður frá núverandi Grjóta og í vestur frá Brautarholti, sem er nýtt hús. Mitt á milli Grjóta og Hausastaða.” Þarna er sléttlent og þar sem bærinn stóð er nú kálgarður “girtur á háhólnum”.
Í Fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Bæjarstæðið hefur verið jafnað út og eru lítil merki um húsaskipan. Grjót úr veggjum er þó sjáanlegt og virðast húsin hafa staðið í röð og snúið göflum í vestur út á sjó. “Komið mun hafa verið fyrst austan. Aftan við norðurenda húsalengjunnar var hlaða sem vísar hornrétt á framhúsin, eða í N (10°) – greinilega yfirgróin, grjóthlaðin tóft. Lengd líkl. 4.1 og breidd 2.1.””

Garðahverfi

Hausastaðakotsbrunnur.

Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Brunnhola, nálægt einum metra á dýpt, u.þ.b. 20 m suðaustur af Hnausastaðakotsbæ, var nefnd Hausastaðakotsbrunur.” (Bls. 9). Skv. Fornleifaskráningu 1984 er brunnurinn í sléttu mólendi “rétt suðaustan við kálgarðshleðslu bæjarins”.”
Í Fornleifaskráningu RT og RKT 2003 segir: “Brúnir hans sjást ekki en fyllt hefur verið upp í hann með smágrjóti sem myndar hring og er þvermálið um 1,20 m.”

Selskarð

Selskarð

Selskarð – Túnakort 1918.

Jarðardýrl. óviss 1703. Garðakirkjueign. Fyrst getið 1367, þá meðal jarða Garðakirkju – DI III, 220, sbr. 1397 – DI IV, 107. 1565, skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: “Asbirne Selskard fyrer iij. vætter fiska. áskilinn kyrfödurs vallar slattur. med jordunne ij kugillde.” DI XIV, 437. 1703 var einn ábúandi, landskuld 60 álnir, 1 leigukúgildi – JÁM III, 221.
Túnið er á norðurhlið eiðisins milli Garða og Álftaness. Það er náttúrulega slétt valllendi og hefur sennilega ekki verið jafnað mikið með vélum. Austantil tekur við mýri en sjórinn brýtur af norðanmegin.
Sunnan og vestan við eru flagmóar. Álftanesvegur liggur eftir endilöngu túninu. Túnið er varið af sjávarnargarði norðanmegin vestast en sunnan með því er einnig hleðsla, varla meir en girðingarundirstaða, og skurður utanmeð henni.

Selskarð

Selskarð – húsgrunnur.

“Jörðin Selskarð er á milli Lambhústjarnar og Skógatjarnar. Hún er nú komin í eyði fyrir nokkrum árum. Gamalt íbúðarhús stendur norðan við veginn út á Álftanes. Á sama stað stóð gamli bærinn áður.” segir í örnefnalýsingu. Húsið er nú horfið en eftir er allhár hóll fast norðan við núverandi Álftanesveg þar sem eiðið milli Álftaness og lands er mjóst.
Í túni (nú hrosshagi) á eiði og eru um 100 m til sjávarmáls í Lambhústjörn að norðan en um 300 m að sunnan. Þjóðvegur liggur upp að hólnum að sunnan og er mögulega á honum að hluta.
Syðsti hluti steyptra undirstaða síðasta íbúðarhússins sést enn, um 10 m frá veginum. Nyrðri og meiri hluti grunnsins er hinsvegar horfin því gríðarmikil hola, um 25×20 m að stærð, hefur verið grafin ofan í bæjarhólinn. Hún er 2-3 m djúp og hafa rofin úr henni verið sett á barmana að austan og vestan. Er hóllinn af því mjög hár að norðvestan. Hliðar holunnar eru grónar en sjá má að hleðslugrjót hefur oltið úr sárinu.
Bærinn hefur staðið á náttúrulegri upphækkun en mannvistarlög eru varla undir 1 m á þykkt. Sunnan og vestan við bæinn hefur verið allstór kálgarður og er hlaðinn garður meðfram honum. Hleðslustubbur sést gegnt húsgrunninum fast við veginn og síðan kantur meðfram veginum en að norðvestan er hleðslan skýr og allt að 0,8 m há.

Selskarð

Selskarð – brunnur.

Um 150 m austur af bæjarhólnum í Selskarði er útihústóft, um 20 m sunnan við sjóvarnargarð og fast vestan við litla hestarétt úr tré.
Í túnjaðri – nú hestagirðing. Austan og norðan við er talsvert rask og síðan blautur flagmór.
Tóftin er illa hlaðin úr mjög stóru og mjög litlu grjóti. Torf, eða í það minnsta grasrót, er utan á veggjunum en steypuleifar eru ofaná á nokkrum stöðum. Hleðslurnar eru að miklu leyti hrundar inn í tóftina, einkum austur-gafl. Timburþil hefur verið á vesturgafli. Mikið rusl er í tóftinni. Samkvæmt túnakorti var þetta kálgarður.

Selskarð

Selskarð – gerði.

Fyrir botni Lambhústjarnar er lágur sjóvarnargarður, sem einnig er túngarður Selskarðs vestast.
Garðurinn er lítilfjörlegur austast, varla meir en girðingarundirstaða en á móts við Selskarð gildnar hann og standa þar 2-3 umför uppúr. Garðurinn er byggður ofanvið sjávarmál og fylgir bakkanum með hvössum hornum. Á köflum eru nokkrir metrar milli garðs og sjávarbakka en annarsstaðar er garðurinn fast á bakkanum.

Heimild:
-Fornleifaskráning Garðabæjar  2009.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Garðar

Í Fornleifaskráningu fyrir Garðabæ árið 2009 segir m.a um Garða á Garðaholti, Ráðagerði og Nýjabæ:

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Kirkjustaður. Hóll var hjáleiga 1803. 1307: “ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allann vidreka og hvalreka fra Ranganiogre og [i] Leitu kvenna bása. ad kalftiorninga fiouru.” DI II, 362. 1367 átti kirkjan allt heimland, Hausastaði og Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Harunasholt og Hjallaland, auk þess afrétt í Múlatúni – DI III, 220 sbr. 1397 – DI IV, 107-108. 1558: Var kirkjujörðin Hlið lögð til Bessastaða en Garðar fengu í staðinn Vífilsstaði DI XIII, 317. 1697 var staðurinn 60 hndr.
Hafnarfjörður á 16 ha þríhyrning úr landi Garða, frá gömlu marklínunni í átt að Álftanesvegi, þar sem nú er hluti ad Norðurbænum í Hafnarfirði. Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2. Er Hafnarfjarðarkaupstaður var stofnaður 1907 voru honum ákveðin norðurmörk “Úr sjó utanvert við Balatún, sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur. Eftir þeim vegi í Engidal. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur á móts við austurhorn Hraunholtstúns …” (ÁG Saga Hafnarfjarðar I, 101). Land þetta tilheyrði þó Garðastað eftir sem áður en 1912 keypti Hafnarfjarðarkaupstaður það mestallt og heimilaði Alþingi það með lögum nr. 12, 22.10.1912 með þessum merkjum: “Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi frá norðurbrún hraunsins. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægtí hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum…” Hamarskotstún var eftir sem áður eign Garðastaðar (ÁG Saga Hafnarfjarðar I, 102-104). Görðum tilheyrir landið sjávarmegin við Hafnarfjarðarveg inn að Arnarneslæk sem ræður til sjávar. Ö-Garðahverfi, 2.
1703: “Úthagar nálægt heimastaðnum eru bæði þröngvir og snögglendir.” JÁM III, 181.

Garðar

Garðaholt – loftmynd 1954.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti frá árinu 1918 má sjá bæjarstæðið í Görðum nokkurn veginn í miðju túni, austan kirkjunnar, ofan og norðan kirkjugarðsins. Þar eru þrjár stórar byggingar, lítið hús og for.
Gamli bærinn gæti verið stóra torfhúsið næst kirkjunni en það skiptist í tvö aðalhólf og virðist anddyrið snúa í suðvestur að bæjarhlaðinu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Ofan við Kirkjugarðinn er býlið Garðar.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 stóðu “byggingar staðarins […] á bæjarhólnum austan kirkju […] ofarlega í Garðatúni miðsvegar í hverfinu” […] Örnefnalýsing 1976-7 hefur þetta: “Garðar, hið forna prestsetur og höfuðból, eru norðvestur frá Nýjabæ. Tún Nýjabæjar, Króks og Garða liggja saman. Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans […]”.”

Garðaholt

Garðaholt – örnefni – ósá.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í grein frá árinu 1904 […] segir Matthías Þórðarson að Garðakirkja hafi áður verið innan kirkjugarðsins. Á Túnakorti 1918 sést gamla kirkjan vestan við bæjarhúsin og sýnist vera úr steini með stefnuna suðaustur-norðvestur. Skv. Örnefnaskrá 1964 var hóllinn “þar sem Garðakirkja stóð” kallaður “Kirkjuhóll” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir hins vegar: “Gamli bærinn í Görðum stóð aðeins vestar en nýja húsið. Kirkjan var vestan hans, og hefur hún verið endurbyggð á sama stað.” […] Núverandi kirkja var reist árið 1966.”

“Bygt í tíð og með leyfi Peturs Reyelssonar kaupmanns lengra inn í Garðastaðar landareign en Einarhús [sem var líklegast innan núverandi marka Hafnarfjarðar] af búandanum i Digranesi á Seltjarnesi, sem þessi búð brúkaði og skipi sínu þar hjá til fiskjar hjelt um vertíð orðlofslaust af staðarhaldaranum, so vítt menn vita. Búðin iggur nú í eyði síðan fiskiríið brást í Hafnarfirði,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703.
Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðar

Garðar árið 1900.

“Byggð nokkru síðar en Digranessbúð í tíð Knúts Storms kaupmanns í Hafnarfirði og með hans leyfi að menn meina. Stendur þessi búð álíka lángt inn í Garða landareign sem Digranesbúð. Brúkaðist hún og brúkast enn núi fyrir verbúð um vertíð af ábúandanum á Hólmi við Seltjarnarnes í leyfi kaupmannsins í Hafnarfirði, so framt menn vita, að vísu leyfislaust af staðarhaldaranum, og gánga þar við þessa búð tvö tveggja manna för jafnlega um vertíð,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðar

Garðar fyrrum.

“Út með Hafnarfirði í Garðastaðalandi standa þessi tóm hús: Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallna búð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthússmaðurinn soðningskaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskiríið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallandi fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðahorlt

Garðaholt.

“Út með Hafnarfirði í Garðastaðalandi standa þessi tóm hús: Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallnabúð. Stigshús eður Jodísar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð.
Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðarhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthússmaðurinn soðningskaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fiskiríið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallandi fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Nákvæm staðsetning búðarinnar er ekki þekkt.

Garðaholt

Stríðsminjar á Garðaholti.

“Hefur verið tómthús, fyrir átta eður tíu árum fyrst uppbygt. … Nú er þetta býli öldungiss eyðilagt og i tóftarbrot komið og byggist aldrei nema stór fiskiganga inn á Hafnarfjörð komi,” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. “Sýslumaður nefnir eigi býli þetta, en jarðabækurnar telja hér 3 smábýli, sem sé Garða kirkjueign (Lángeyri, Bali og Skerseyri), en prestur nefnir Lángeyri eingaungu,” segir jarðaskrá Johnsens frá 1847. “Balatún: Tún býlisins Bala. Er eiginlega í Garðahverfi, en þar sem hann er á Hrauninu verður hann hér með. Balatúngarður: Túngarður austan túnsins aðallega,” segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar.
“Gamli bærinn á Bala stóð á hraunbrún. .. Íbúðarhúsið, sem nú er, stendur u.þ.b. 100 m beint upp af, þar sem gamli bærinn stóð. Það var byggt um 1931. Fjós og hlaða eru skammt upp af húsinu. Fjárhús standa upp við veginn til Hafnarfjarðar,” segir í örnefnaskrá Garðahverfis. Nákvæm staðsetning býli þess sem getið er í jarðabók er ekki þekkt, en samkvæmt lýsingu hefur það sennilega verið skammt frá hjalli sem er nú á þessum slóðum og er á hraunbrúninni.

Skerseyri

Tóftir Skerseyrar.

Í manntali frá 1801 er Litla Langeyri talin milli Skerseyrar og Stóru-Langeryrar og vor þar þá tvö heimili með 4 og 2 mönnum. Í sóknarlýsingu frá 1842 er Litla-Langeyri talin meðal býla á svæðinu milli Fiskakletts og Skerseyrar. “L[itla]-Langeyratún: Tún býlis er þarna stóð. Síðar Brúsastaðir. L[itlu]-Langeyrartúngarður: Garður af grjóti kringum býlið. L[itlu]-Langeyrarbrunnur: Brunnur í laut sunnan við Bæinn. Aðeins á Fjöru. ” Brúsastaðatún: 1890 var grafið í gömlu bæjarústirnar og kom upp brot af leirbrúsa. Þar af kom nafnið.” segir í örnefnlýsingu Álftaneshrepps. 1901 voru 5 heimilismenn á Brúsastöðum en fyrir aldamótin hafði þurrabúðin verið í eyði um skeið. Tvö hús standa bæjarstæðinu og er mikið af grjóthlöðnum görðum umhverfis, flestir nýlegir en hugsanlegt er að sumir séu leifar af túngörðum frá 19. öld.

Sjóminjasafn

Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.

1703 segir um Skerseyri “Hjáleiga í Garðastaðarlandi hjer um XX ára gömul og hefur þetta býli samkvæmt því fyrst byggst eftir 1680 ” “2 heimili með 6 og 2 mönnum voru á Skerseyri 1801 en 1816 var þar aðeins eitt heimili með 4 mönnum. Skerseyri er talin meðal býla í sóknarlýsingu frá 1842” SSGK, 206. Samkvæmt manntali 1845 voru enn 4 til heimilis á Skerseyri. Samkvæmt manntali 1901 bjuggu 5 heimilismenn þar. Haustið 1902 var Skerseyri í eyði en byggðist þó aftur skömmu síðar.
“Skerseyrartún: Næsta býli við L[itlu]-Langeyri. Þar var kýrgras eitt sinn og býlið hjáleiga frá Görðum. Skerseyrartúngarður. Hann lá um túnið. En við sjó horfinn í Mölina.” segir í örnefnalýsingu. Hús með torfþaki stendur rétt við ströndina byggt inn í hól. Upphlaðin leið liggur meðfram suð-vestur hlið. Húsið er tvískipt og eru á því tveir inngangar sem snúa í suð-austur. Framhlið er úr við, norð-austur og norð-vestur hlið eru klappir og suð-vestur hliðin er hlaðin úr grjóti. Þetta er ekki bæjarhús en er trúlega tengd búskap. Ekki að sjá neitt á svæðinu sem gæti verið bústaður.

Völvuleiði

Á Völvuleiði 1999.

“Þegar kemur vestur fyrir Stifnishóla, er Skerseyrarmöl, og í henni er Skerseyrarvör.” “Skerseyrarvör. Hún var þarna í fjörunni á sinni tíð. Niðurlögð [1964].” Þar sem vörin hefur verið er hlaðin og steypt varða.

Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Suðvestan til í Garðaholti, norðvestur af Völvuleiði, fannst við Fornleifaskráningu 1984 kofi og sunnan hans kálgarður.”
Í Fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Kofinn er ferhyrndur og utanmál hans 7,25×5 m. Hann er hlaðinn úr grjóti, norðausturhliðin grafin inn í hæðina og grasþak á honum. E.t.v. Hefur þetta verið kartöflugeymsla.”

“Hún lá vestan Balaklettanna,” segir í örnefnalýsingu Hafnarfjarðar. “Balaklettur gengur í sjó fram innan (austan) við Balamöl Vestan við hann var lending frá Bala,” segir í örnefnalýsingu Garðahverfis. Ekki er greinanleg manngerð, rudd vör vestan Balakletta, svo lendingin hefur verið náttúruleg. Balavör hefur verið um 50 m VNV af Balaklettsvörðu.

Bali

Balavarða (landamerkjavarða).

“Segir í örnefnaskrá Hafnarfjarðar. Varðan er á klett við sjávarmál, um 50 m suður af unglegum hjalli sem stendur líklega nærri fyrrum bæjarstæði Bala.
Varðan er á hraunkletti í sjó fram, skammt norðaustur af er hraunið gróið grasi. Varðan er um 1,3 m á hæð og um 1 m í þvermál. Hún er hlaðin úr hraungrýti og steypt er á milli umfara. Varðan er brotin að ofan og hefur því verið hærri áður fyrr.

Garðar

Garðar og nágrenni – örnefni. ÓSÁ.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá gamla grafreitinn í Görðum rétt suðvestan við kirkjuna og bæjarhúsin. Skv. Örnefnalýsingu 1958 er Garðakirkjugarður neðan bæjarins, upp af þurrabúðinni Hól: “Þarna er svæði slétt upp að kirkjurúst, en á það vantar nöfn.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 lá hann “neðan kirkjunnar og bæjarhúsanna” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: ,,Gamli kirkjugarðurinn er sunnan kirkjunnar og íbúðarhússins. Hann hefur nú verið stækkaður til vesturs.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er kirkjugarðurinn beint niður og vestur af núverandi bæjarhúsum “girtur grjóthlöðnum garði”.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Þegar Matthías Þórðarson rannsakaði legsteina í Garðakirkjugarði árið 1903 komst hann að því að þar eru sex frá 17. öld og einn frá byrjun 18. aldar, auk þess sem nýlega hafði fundist brot af 17. aldar steini: “Allir þessir legsteinar eru höggnir úr venjulegu hraungrýti (dolerit) og sömu tegundar og annað grjót í Garðholti. Þrír af þeim […] lágu fyrir dyrum kirkjunnar, sem áður var í kirkjugarðinum, og því nokkuð máðir, en þó er letrið enn vel skýrt á þeim öllum.” […] Árið 1918 voru “um 40 minnisvarðar” í Garðakirkjugarði.”” Ekki er þess getið í skráningu RT og RKT hvað gamli garðurinn sé stór, hvort hann hafi verið sléttaður eða hvort þar sjáist merki eldri kirkju.

“Þaðan er bein lína í Hvíluhól, en sá hóll er fast norðaustan við Garðaveginn til Hafnarfjarðar. Á Hvíluhól lögðu menn af sér byrgði á leið til og frá Hafnarfirði.” Mikið rask hefur verið á þessu svæði og er hóllinn horfinn.

Garðaholt

Garðaholt – götur og býli.

“Gardhus, hjáleiga fyrirsvarslaus samtýniss við hinar hverfinu.” segir í jarðabók Árna og Páls frá 1703. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 má sjá byggingu vestan við Garðatraðir og Garðahlið rétt innan túngarðsins, líklega svo nefnd Garðhús. Í Örnefnalýsingu 1958 er talað um hól vestur af Görðum ofan götu […] en skv. Örnefnaskrá 1964 var þetta “hjáleiga og þurrabúð” upp við eða ,,vestan Garðahliðs” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Efst í Garðatúni, fast vestan við heimreiðina, eru gamlar tóftir af þurrabúðinni Garðhúsum.” […] Fornleifaskráning fór fram 1984 og eru minjarnar neðan vegar rétt áður en kemur að “heimkeyrslu að Garðakirkju […]” beint niður af spennistöð sem þarna er.” “Þjóðvegurinn er beint upp af, tún niður af, að kirkjunni.” Nokkru vestar kemur fram hluti af landamerkjagarði Garðalands og stefnir á Háteig.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Tóftin er ferhyrnd, mjög greinileg og virðist niðurgrafin. Hún skiptist í tvennt, innanlengdin 7 m að skilveggjum og 11,7 m frá honum, innanbreiddin um 3 m og veggirnir 1,5 m á breidd. Tóftin er full af grjóti, hefur nokkurn veginn sömu stefnu og vegurinn og vísar sú langhlið sem fjær honum er í suðvestur að Garðatúni. Fram af henni er eins konar bakki, e.t.v. Útlínur kálgarðsins sem þá er um 14 m breiður frá húsinu. Þetta kemur saman við Túnakortið sem sýnir aflangt torfhús með stefnuna norðvestur-suðaustur og áfastan kálgarð suðvestan megin.”

Bali

Bali – fjárhús.

Rúst af fjárhúsi er við gatnamót Garðavegar og afleggjarans sem áður lá að býlinu Bala. Umhverfis tóftina er grasigróið hraun.
Tóftin er hlaðin úr hraungrýti og er steypt á milli umfara, sem eru um 7. Veggjahæð er rúmlega 1,5 m og þykkt er milli 0,5 og 1 m. Hún er um 9 x 7 m að stærð og snýr NA-SV. Rústin er ferhyrnd og í henni eru tvö hólf, en vesturvegg vantar og hefur hugsanlega verið þil þar fyrir. Gólf eru steypt. Að líkindum er um rúst fjárhúss að ræða, en í örnefnaskrá segir að fjárhús Bala standi “upp við veginn til Hafnarfjarðar.”

“Skv. Örnefnaskrá 1964 tók Gálgahraunsstígur syðri við þar sem Dysjabrú sleppti. Hann lá austur frá Mónefi upp á Flatahraun við Hvítaflöt nokkru norðar, framhjá Oddsnefi og Bakkastekksnefi í hraunjaðrinum og um Gatnamót yfir í Engidal…Meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum eða fram til 1908 þurftu þeir að fara þessa leið en í miklum leysingum fóru þeir frekar Kirkjustíg síðasta spölinn,” segir í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003.

Garðalind

Garðalind.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Garðalind er á Túnakortinu 1918 merkt inn beint suðvestur af Garðakirkjugarði þar sem túnið mætir mýrlendinu fyrir neðan, þ.e. Garðamýri […] Skv. Örnefnalýsingu 1958 er “við mýrarjaðarinn […] stór steinn, og hjá honum er uppspretta, sem heitir Garðalind.” […] Í Örnefnaskrá 1964 er hún einnig nefnd Garðabrunnur: “Svo var aðalvatnsból hverfisins kallað. Lind með rennandi vatni góðu. Þar var brunnur grafinn undir stórum steini og hlaðin upp með tröppum niður að vatninu […] Þangað sótti allt hverfið vatn til fjóss og bæjar.” Steinninn er kallaður Grettistak: “Mátti þar sjá fingraför Grettis er hann tók bjargið og færði í vegg brunnsins, lindarinnar.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Garðalind er niður undir Garðatjörn, beint niður af bænum í Görðum. Stór klettur er yfir lindinni. Er hann nefndur Grettistak. Tvær, þrjár tröppur eru ofan að vatninu í lindinni. Í garðalind var sótt vatn frá mörgum bæjum í Garðahverfi og jafnvel öllum í miklum þurrkum. Aldrei þraut Garðalind, og þótti í henni bæði heilnæmt og gott vatn., Smálækur rennur frá lindinni.” Samkvæmt Fornleifaskráningu 1984 er lindin beint niður af íbúðarhúsinu í Görðum, í vesturátt til sjávar, með grasbala ofan við upp að gamla kirkjugarðinum og blauta mýri framan við.”

Garðabúð

Garðabúð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Kletturinn liggur yfir lindinni eins og lok eða þak en nafnið Grettistak mun frekar ungt. Í Fornleifaskýrslu sinni um Garða árið 1820 lýsir séra Markús Magnússon þessu allnákvæmlega: ,,Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestsetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestsetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. Kletturinn er að þvermáli 13 álnir en 3 3/4 álnir að hæð, í laginu ein og píramídi, snýr frá austri til suðvesturs, liggur á jarðfastri klöpp, en til suðurs eru á báðar hliðar settir þungir óhræranlegir steinar sem afmarka sjálfan brunninn sem kletturinn liggur yfir og skýlir að ofan fyrir snjó og frostum svo að hann fennir aldrei í kaf eða frýs. Þar sem klettur þessi er svo stór að ekki virðist unnt að hræra hann af þessum stað hefur honum líklega annað hvort verið velt ofan á steinana sem hann hvílir á nú, eða verið lyft upp að framan til þess að koma þeim undir hann.” […] Árið 1984 kemur vatnið enn undan þessu stóra bjargi sem skrásetjari kallar ,,framhlið vatnsbólsins en bárujárnsþak, þakið torfi hefur verið reist aftan við það […] Byggt hefur verið utan um vatnsbólið – hlaðið múrsteinum – ferhyrnt lítið (dælu)hús sem gengið er inn í um dyr að sunnan”, um 1,8x2m að stærð og 1,2 m á hæð. Vatnsrásin sem einnig sést á Túnakortinu liggur líkt og áður í átt til sjávar en út í skurð og meðfram henni á um 4rra m kafla næst steininum eru hlaðnir veggir. Dæluhús og seinni tíma hleðslur hafa síðan hrunið utan af lindinni sem varðveist hefur óskemmd með klettinum yfir.”

Garðaholt

Garðaholt – Götur.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Nokkru suðaustan Sjávargötu, milli samnefndrar leiðar og Garðalindar og ofan mýrlendis, er á Túnakortinu 1918 tvískiptur Kálgarður. Öðrum heimildum ber saman um að þarna sé hið gamla stæði Hóls, hjáleigu og þurrabúðar frá Görðum eða eins og segir í Örnefnalýsingu 1958: ,,Við mýrarjaðarinn er […] uppspretta, sem heitir Garðalind. Aðeins utar er Hóll.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 stóð hann ,,neðar en Sjávargata í Garðatúni […] niður undir Garðamýri […]” […] og í Örnefnalýsingu 1976-77 er sagt svona frá: ,,Hér áður voru tveir bæir niður við Garðatjörn, vestast og neðst í Garðatúni. Hét sá eystri Hóll, og voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.” […]”

Garðaholt

Garðaholt.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Jarðabók 1703 segir: “Heimræði er árið um kríng og lending góð, og var hjer útræði hið besta meðan fiskur var á Hafnarfirði. Gánga hjer skip staðarhaldarans árið um kring eftir hentugleikum. Engin inntökuskip hafa hjer nýúngu gengið en mega þó vera, því að varir eru nógar.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 var lending í Garðavör við Garðasjó, fjöruna sunnan Miðengisvarar. “Vörin var nokkuð mikil um sig, enda mikil útgerð oftast frá Görðum. Var ætíð talað um að róa eða lenda í Garðasjó, og sandhryggurinn eða sjávarkampurinn allt austur undir Bakka nefndur svo.” Enn fremur er nefndur Garðagrandi en ..svo var sjávarkampurinn stundum kallaður mest allur” eða “frá Miðengi suður að Bakka” […] Skv. Örnefnalýsingu 1976-77 er Grandi við sjóinn framan við Garðamýri […] en tveir bæir niður við hana ,,vestast og neðst í Garðatúni. […] Vestari bærinn hét Sjávargata.
Garðavör er neðan hennar, vestast á Granda.”

Garðar

Garðar – Móakot.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 er bærinn í Háteigi beint norðvestan Garða, alveg upp við Garðatúngarð. Hann skiptist í fimm hús og er byggður úr steini. Girt er kringum tún hans en nokkru austar í því er hús sem gæti verið Ráðagerði. Bygginarefnið er skv. Fasteignabókum áfram hið sama 1932 […] en auk þess er nefnt timbur árin 1942-4 og húsið þá járnvarið […] Í Örnefnalýsingu 1958 segir að Ráðagerði sé neðar en Gata og “Háteigur í líkri hæð, svo Miðengi neðan undan Háteigi.” […] Skv. Örnefnaskrá 1964 er Háteigur býli eða “hjáleiga frá Görðum litlu vestar en Ráðagerði” og Háteigstún ,,nú sameinað Ráðagerðistúni.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-77 segir: “Býlið Háteigur er vestan Garða. Tún Háteigs liggur vestan Garðatúns, alveg niður að sjó. Íbúðarhúsið stendur efst í túninu, rétt fyrir neðan garðinn (þ.e. garðinn” […] þ.e. túngarðinn.”

Garðahverfi

Garðaviti.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Á háholtinu er viti, Garðaviti. Þar var áður torfvarða og kveikt á lukt.” […] Örnefnaskrá 1964 bætir við: “Hann mun hafa verið reistur um 1870. Hann stóð á holtinu norður frá Garðahliði.” […]. Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: “Á klöpp fyrir ofan Háteig var viti hér áður, Garðaviti.” […] Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóftir séu “uppi á háhólnum […] svo til beint upp af Háteigi”, alveg við veginn, ofan og austan hans og er hæðin grýtt allt um kring.”
Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: ,,Leifar sjást af tveimur tóftum hlið við hlið og virðast þær samfastar. Sú austari er stærri og greinilegri, innanmálið um 5,8 x 2 m. Hún er nokkuð niðurgrafin og um 1,1 m á dýpt. Stefnan er norður-suður. Sú vestari er öll ólögulegri, um 2,5 x 2 m að innanmáli […] Vitinn var í notkun sem ljósgjafi á tímabilinu 1868-1912 […] Tryggvi Gunnarsson í Grjóta (f.1899) mundi eftir honum og sagði hann hafa verið notaðan sem mið af sjó fyrir fiskibáta en á stríðsárunum notuðu Bretar hann sem virki. Húsið var síðan “selt og flutt heim að Hlíð, þar sem það var notað sem kamar”.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Nokkru norðvestan við kirkjuna sýnir Túnakortið 1918 garð. Hlaðnir veggur liggja kringum hann upp að girðingu sem skilur milli Garða annars vegar, Háteigs og Ráðagerðis hins vegar. Þetta hlýtur að vera niðursokkni grjóthlaðni garðurinn sem fannst við Fornleifaskráningu 1984 og vísar eins og á Túnakortinu í norðvestur frá Garðakirkjugarði, “út að girðingu við Ráðagerði”. Hann beygir síðan í horn til vesturs.”

Móslóði

Móslóði.

“Stígur úr Garðahverfi, lá meðfram Garðaholti og yfir Flatahraun og svo yfir hraunið inn að Arnarnesvogi, en þar tóku Garðhverfingar upp mó. Troðningur þessi var nefndur Móslóði. (Ath.: G.S. nefnir hann Gálgahraunsstíg syðra, en ekki kannast Guðmann við það nafn, og mun það rangt. Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. Hefur annar suðvestlæga stefnu nokkurnveginn á [Garða]holtsendann (þar sem sandnámið var. Hann var við líði fram um 1920, en er nú að mestu uppgróinn. Er þetta hinn fyrrnefndi Móslóði. Eftir honum var farið með klyfjahesta og reiddur mór úr Hraunsholtsmýri, áður en akvegur kom til sögunnar.” segir í örnefnalýsingu. Þessi stígur hefur verið sá austasti af þeim sem lágu yfir hraunið milli Garða og Hraunsholts. Hann hefur af lýsingunni að dæma legið upp í hraunið á svipuðum slóðum og Álftanesvegur kemur nú niður úr því að sunnan, og þaðan legið til norðurs uns hann sameinaðist
Fógetagötu í miðju hrauninu.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Við Lambhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim. … Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirra var lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessir klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.” Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Við fornleifaskráningu 1984 segir að þetta sé í úfnum norðvesturhluta Gálgahrauns, um 650 m í norðnorðvestur frá fjárborginni og um 10 m yfir sjávarmáli: “Klofinn hraunklettur – 2 m bil þar sem mest er – á milli gjábarma.” […] Gálgaklettar eru þó fjarri þingstað sveitarinnar í Kópavogi og heimildir eru ekki þekktar frá fyrri öldum um aftökur á þessum stað.”

Garðastekkur

Garðastekkur.

“Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana. … Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta,á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930.” segir í örnefnalýsingu. Tveir túnbleðlar eru sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Norðan við austurendann á vestari blettinum er stekkurinn, grjóthlaðin rétt með 4 hólfum og vestan við hana gróin tóft.
Réttin er hlaðin utan í hraunkant og hefur stekkjartún verið í kring. Það hefur nú verið ræktað. Fjær eru stórgrýttir flagmóar.
Réttin skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli hennar og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst. Sunnan við það er 11 x 9 m hólf með dyrum á vesturvegg og eru hleðslurnar allar bogadregnar í þessu hólfi. Sunnan við það er stærsta hólfið og er ekki gengt á milli. Það er 19x6m og er aðeins gegnt úr því í annað af tveimur minni hólfum sem eru áföst við það sunnanvið. Þau eru bæði um 5x5m með dyr á suðurvegg. Í krikanum sem myndast vestan við stekkinn er grasi gróin tóft, 10x4m að utanmáli og mögulega kró eða smátóft aftanúr henni að austan. Gæti verið hinn eiginlegi stekkur.

Eskines

Eskines – sjóbúðir.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í endurminningum sínum frá 1968 segir Ólafur Þorvaldsson: “Hrauntanga þann, sem gengur fram í sjó, milli Arnarnesvogs og Lambhúsatjarnarinnar, hef ég frá æskuárum heyrt nefndan “Eskineseyrar” og munu eldri nágrannar þessa staðar enn kannast við það nafn, þótt enginn viti nú, af hverju dregið er.” Síðan segir hann frá kofarúst í hraunjaðrinum upp af Eskineseyrum: “Sögu þessa tóttarbrots hef ég frá fólki, sem mundi byggingu hennar og tildrög. Það mun hafa verið skömmu eftir komu séra Þórarins Böðvarssonar að Görðum, sennilega nálægt 1870 að honum kom til hugar, hvort ekki mundi kleift að rækta æðarvarp á Eskineseyrum. Séra Þórarinn mun hafa verið kunnugur æðarvarpi frá Ísafjarðardjúpi, áður en hann fluttist að Görðum, og hvort tveggja vitað, bæði um gagnsemi þess og það, að mögulegt væri að koma upp varpi, þar sem ekki var áður, ef aðstaða væri sæmileg og natni og kunnátta viðhöfð.

Eskines

Tóft af hænsnakofa við Eskines.

Þar eð Garðkirkja átti þetta land, og svo vildi til, að mjög skammt undan var mikið varpland, Bessastaðanes, og fugl fór mikið um sundið milli nessins og Eyranna, mun séra Þórarinn hafa talið ómaksvert að reyna, hvort ekki væri hægt að fá eitthvað af fugli, sem þarna fór um, til þess að taka heima á Eskineseyrum, væri eitthvað til þess gert, byggð hreiður og annað, sem fylgir þess konar starfsemi. Hann lét ekki við hugmyndina eina sitja, heldur lét hann byggja kofa þann, sem enn sést móta fyrir og flutti þangað karl og konu, sem búa skyldu í haginn fyrir æðarfuglinn. Einnig lét hann þau hafa með sér nokkur hænsn, þar eð talið var, að hænsn lokkuðu fuglinn að með vappi sínu úti við, ásamt söng hanans. Lítinn eða engan árangur mun tilraun þessi hafa borið og var því bráðlega hætt frekari tilraun í þessa átt, og hefur víst ekki síðan verið freistað að koma æðarvarpi upp á Eskineseyrum.” […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: ,,Skammt fyrir innan Gálga byrja Vatnagarðar, en svo heitir hraunið með Lambhúsatjörn. […] Nokkru fyrir ausatn þá eru Eskineseyrar svokallaðar. Í hraunjaðrinum fyrir ofan Eskineseyrar byggði séra Þórarinn í Görðum kofa, er hann hugðist koma sér þar upp æðarvarpi. Rústir kofans sjást enn. Eskineseyrar ganga til austurs út í Arnarnesvog. […] Á Eskineseyrum er fjörumór.” […]. Skv. Fornleifakönnun 1999 er kofinn í gjá ofan við Eskines […] Séra Þórarinn (f. 1825) var prestur í Görðum á tímabilinu 1868-95.” Eskinesbyrgi er ekki nánar lýst í fornleifaskráningu RT og RKT.

“Vestur frá Húsafelli er gamalt fróðlegt eldfjall, sem heitir Búrfell. Vestur úr því gengur Búrfellsgjá. Í gjánni er hellir, sem heitri Búrfellshellir, ágætur fjárhellir,” segir í örnefnaskrá. Búrfellshellir er sunnarlega í Búrfellsgjá nærri eldfjallinu. Hellirinn er við vesturbakka gjárinnar og um 1,1 km sunnar í henni en Gjárrétt. Hellirinn er í fremur grónu hrauni.
Munni Búrfellshellis er 5-6 m breiður og um 3 m hár og snýr til suðurs. Hleðsla er fyrir munnanum og dyr á henni miðri. Hleðslan er mest 2 m há, 1 m breið og úr stóru til miðlungs hraungrýti. Dyrnar á hleðslunni eru um 1 m breiðar. Lofthæð hellisins minnkar þegar innar dregur og endar innst í um 1,2 m hæð. Hellirinn er um 9 m djúpur og víðast um 6 m breiður, en norðaustur úr honum liggur lítill afhellir, um 5 m djúpur og mest 2 m breiður. Sauðaskán er á hellisgólfinu.

Gjárrétt

Gjárétt.

“Við norðurenda Búrfellsgjár er gömul rétt, sem heitir Gjárrétt,” segir í örnefnaskrá. Gjárrétt er merkt með skilti og er við göngustíg einna nyrst í Búrfellsgjá, um 320 m SSA af trébrú yfir Hrafnagjá við göngustíg.
Gjárrétt er á grónum hraunbotni Búrfellsgjáar, en Búrfellsgjá er á þessum slóðum breið og tiltölulega grunn.
Gjárrétt var hlaðin 1840 og var fjárskilarétt Álftaneshrepps til 1922, en eftir það var réttað í henni að einhverju marki allt til 1940. Réttin er þurrhlaðin úr miðlungs og stórum hraunhellum og eru í henni fremur fallegar hleðslur. Nokkuð eru hleðslurnar gengar til, en eru allt að 1,6 m þar sem þær eru hæstar og 8 umför. Þykkt veggja er 0,5 – 1 m. Hraunhleðslurnar eru grónar skófum og mosa. Réttin er nokkuð ferköntuð í laginu, u.þ.b. 35×25 m að stærð N-S og í henni eru 13 dilkar. Til suðausturs frá réttinni liggur nokkuð sigið garðlag, um 15-20 m langt, hæst 1 m (en víðast nokkuð lægra) og 0,5 – 1m breitt. Garðlagið liggur frá réttinni að öðru aðhaldi, við vesturbarm Búrfellsgjáar. Aðhaldið nýtir náttúrulega hraunveggi að norðan, vestan og sunnan, en austurveggurinn er hlaðinn úr hraungrýti og þar er inngangur. Austurveggurinn er um 25-30 m langur og liggur frá norðri til suðurs, og er inngangurinn skammt norðan við miðjan vegginn.
Hleðslan er hæst við innganginn, um 2,3 m, en annars er meðal hæð um 1 m og þykkt um 0,5 m. Veggurinn er fallega hlaðinn, en ráða má af skorti á skófum og mosa að þar sem hann er hæstur við innganginn, að hleðslan þar sé líklega nokkuð nýrri en annarsstaðar. Að innanmáli er aðhaldið allt að 20×20 m og innst (eða vestast) í því er hlaðið byrgi við náttúrulegan hraunvegginn. Vestast í aðhaldinu slútir hraunbrúnin fram til austurs og myndar grunnan helli, sem byrgið hefur verið hlaðið við. Hleðslur mynda norður-, austur- og suðurveggi byrgisins, en loft og vesturveggur eru náttúrulegir. Þar sem hleðslan er hæst og minnst tilgengin, nær hún enn upp í hið náttúrulega þak byrgisins, alls um 3 m og er 18 umför. Annars er hleðslan að nokkru leyti gengin til.
Á suðurvegg byrgisins og undir skyggni hraunbakkans eru dyr, um 1,5 m háar. Aðrar dyr, um 1 m háar, eru á austurvegg byrgisins, en austurveggurinn er afar breiður svo allt að 3 m löng göng liggja frá eystri dyrunum inn í byrgið. Sauðaskán er á gólfi byrgisins. Alls er rústasvæðið, réttin, garðlagið og aðhaldið, rúmlega 50 x 50 m að stærð

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

“Sunnan réttarinnar heita Garðaflatir. Þar mun hafa verið sel. Ef til vill eru Norðurhellarnir hér nálægt, enda eru hér miklar rústir uppi í brekkunni,” segir í örnefnaskrá. Selrústin er á Garðaflötum austanverðum, í lágri brekku, um 660 m SA af Gjárrétt.
Kenningin í örnefnaskránni um að Norðurhellar kunni að vera nærri Garðaflötum er hinsvegar röng, því þeir eru mun norðar, eða norðan við Selgjá sem er aftur norður af Búrfellsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ selið hefur verið, en það er um 9,4 km frá bæ á Görðum.
Garðaflatir eru grasigrónar og þýfðar, en norður og vestur af þeim er mosavaxið hraun og melur suður og austur af. Einföld, nokkuð stór tóft er greinileg og um 5 m norðaustur af henni eru mögulega frekari rústir. Tóftin er um 10 löng og 5 m breið og snýr NV-SA. Hún hefur að líkindum verið hlaðin úr torfi og grjóti, en einungis glittir þó í grjót sitthvoru megin við innganginn að norðvestan. Tóftin er sigin, mest um 0,5 m á hæð en víðast nokkuð lægri og eru veggirnir útflattir og ríflega 2 m breiðir. Tóftin er algróin sinu og lyngi. Um 5-10 m norðaustur af tóftinni er möguleg rúst annars mannvirkis, en þó er það afar óljóst. Helst er sem greina megi vegg sem snýr eins og tóftin og svipað langur henni, en afar siginn og alveg yfirgróinn og ekki sést í grjót.

Vatnsgjá

Vatnsgjá í Búrfellsgjá.

Vatnsgjáin er sprunga í hrauninu í botni Búrfellsgjár, um 50 m NNA af Gjárétt 048 og er merkt með skilti.
Vatnsgjáin er vatnsból réttarinnar. Brunnurinn er náttúrulegt vatnsból í sprungu í Búrfellsgjá og er nauðsynlegt að fikra sig um 6 m niður þrönga sprunguna eftir einstigi til að nálgast vatnið. Þrep hafa verið hlaðin til að auðvelda ferðina niður í brunninn.

“Skiemma, útihús heima við staðinn í Görðum. Hefur um fáeina tíma ljeð verið manni einum til íbúðar, so sem hjáleiga og fylgdi því þá grasnyt sú, er nú er með hjáleigunni, er Garðabúð heitir, og var hún óbyggð á meðan Skemma bygðist so sem getið er áður við Garðabúð.” Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skemma var skv. Jarðabók árið 1703 “útihús heima við staðinn í Görðum” sem um tíma var leigt “manni einum til ábúðar”. Skemmu fylgdi sama grasnyt og seinna hjáleigunni Garðabúð sem kom í stað hennar.”

Garðar

Garðar – Höll.

“Óskarbud. Tómthús. Stendur í Garðastaðar landi og er uppbygð af Jakob Bang … Og bygð einnri konu að nafni Ósk, sem hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng. Síðan hafa sjer eignarráð yfir búðinni tiltekið Bessastaðamenn og hafa þar látið gánga kóngsbáta, stundum tíu, stundum fleiri, stundum færri, item inntökuskip fyrir undirgift eður annan góðvilja meðan fiskiríið var gott í Hafnarfirði. Búðin stendur enn nú, en þó í auðn,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar. Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Jarðabók byggði Jakob Bang, síðar sýslumaður í Árnessýslu, verbúð eða tómthús í landi Garða, í valllendi nálægt Dysjamýri […] Hún var uppistandandi árið 1703 en óbyggð og ekki er greint nánar frá staðsetningu. Ekki er heldur minnst á tómthúsið í síðari heimildum.” Í skráningu RT og RKT kemur fram að fornleifin sjáist ekki á yfirborði.
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Búðin var kend við Ósk, leigjanda Bang, sem “hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varníng.””

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Í bæjarstæði Hóls sýnir Túnakortið 1918 tvo samfasta kálgarða með hlöðnum veggjum og götuslóða á milli frá suðaustri til norðvesturs en skv. Örnefnalýsingu 1976-77 umgirtu þeir Hólsbæinn: “[…] voru kallaðir Hólsgarðar í kringum hann, kálgarðar, sem í var ræktað, eftir að Hóll lagðist í eyði. Nú hafa þeir verið jafnaðir og grjótinu ýtt upp í hrúgu.” […].
Þetta virðist mega lesa úr lýsingu við Fornleifaskráningu 1984: “Þarna er allhár, greinilegur hóll með miklu grjóti í. Enga lögun tófta sér í honum.” Hóllinn er um 16 m á lengd og 11,5 á breidd með stefnu norður-suður. Bakki liggur um 14 m suður úr honum, líklega hluti byggðaleifanna.”

Brúsastaðir

Brúsastaðir – uppsátur.

Tóft er við sjávarmál um 50 m suður af Brúsastöðum. Hún er byggð utan í klappir alveg við sjóinn. Hlaðið úr grjóti og að hluta styrkt með sementi.

Gata liggur til austurs, yfir hraunið. Að hluta byggð upp úr hraungrýti.

Þrír steyptir grunnar, trúlega braggar, eru sitthvoru megin við Herjólfsgötu, sunnan við þar sem hún mætir Garðavegi og Herjólfsbraut. Á hæð, um 500 m frá sjó. Hver grunnur um sig er um 14 x 35m, með steyptum veggjum 0,5-2m á hæð. Snúa allir norður-suður og hafa innganga á báðum endum. Búið er að setja upp körfuboltakörfur á mið grunninn.

Gönguhóll

Gönguhóll (Sönghóll), austan Langeyrarmala.

“Þegar komið er yfir Gönguklif, taka við Langeyrarmalir, og þar vestar er Rauðsnefstangi. Þar var eitt sinn hvalstöð, en lagðist niður vegna þess, að þar kom fyrir slys.” segir í örnefnalýsingu. Rauðsnefstangi er mjög óslétt hraungrýtt svæði. Þar eru tvær litlar tjarnir, um 20 m frá sjó. A m k 7 litlar (3x5m) grjóthlaðnar tóftir eru á þessum stað, og grjóthlaðnir garðar á milli. Ein tóft stendur enn með þaki og timburstoðum.

“Hammershússlóð: Hún lá sunnan við Rauðsnef undir húsi sem Hvalfangarinn norski Hammer reisti þarna um 1860. Hér átti að verða Hvalstöð, en hætt var við það.” Þetta hús hefur verið á sama svæði og eða heldur sunnar. Enginn húsgrunnur er þó þar.

“Gamli vegurinn (götuslóði) úr Reykjavík út á Álftanes lá yfir Hraunsholtslæk og út með ströndinni. Hann greinist í tvo slóða í Hraunviki. … Hinn götuslóðinn úr Hraunviki hefur vestlæga stefnu, og hefur hann verið alfaraleið á liðnum öldum. Víða sjást djúpir troðningar og hófaför í klöppunum. Hann greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.” segir í örnefnalýsingu. Troðningar sjást meðfram fjörunni í Hraunviki og upp með hraunbrúninni vestan við vikið, en um 50 m frá flæðarmáli, þar sem lítið vörðutyppi er á brúninni liggur gatan upp á hrauið og er þar geil í brúnina. Hraunið er allslétt um 400 m bein vestur frá Hraunviki og liggur leiðin um það slétta svæði og skiptist gatan sumstaðar í fleiri en eina rás en er allsstaðar mjög skýr. Hún liggur síðan í hlykk fram hjá hraunklettum þar sem hraunið er einna hæst og beygir til norðvesturs vestan við klettana. Þar sem gatan beygir er hraunið allslétt og gætu troðningar legið þaðan til suðusrs og suðvesturs en ekki eru þeir skýrir. Frá beygjunni liggur gatan beint í um 300 m – og er þar samsíða fyrirhuguðu vegarstæði, sumstaðar innan við 20 m frá því, en fer undir veglínuna við hæl sem merktur er 1660 m. Þar beygir gatan til vesturs og liggur síðan niður úr hrauninu á móts við hleðsluna.

Garðagata

Garðagata – kirkjuvegurinn. Mæðgadysin fremst.

Í flagmóunum vestan við hraunið má rekja götuna áfram til vesturs og hefur hún nokkuð beina stefnu á Selskarð. Þar sem gatan nálgast fjörumál í Lambhústjörn eru götupaldrar á stuttum kafla en síðan hverfur hún alveg í mýri og flög. Vestan við Selskarð sést framhald götunnar en þar hefur verið gerður malarvegur, nú aflagður. Líklegt er að gatan hafi klofnað við Selskarð og austari grein legið út á Bessastaði en hin á vesturhluta Álftaness. Á móts við núverandi Garðaholtsveg liggur annar slóði upp í hraunið, um 100 m norðan við Garðastekk og liggur til norðausturs og sameinast aðalgötunni eftir um 250 m. Þetta mun vera gatan sem lá í Garðahverfi. Sú gata er mun ógreinilegri en aðalgatan út á Álftanes.
Í hrauninu er gatan víðast alldjúp geil, allt að 1 m djúp og 1-2 m breið. algróin. Brotnað hefur af götunni á einum stað við Lambhústjörn.

Garðar

Krókur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir; “Á Túnakorti 1918 má sjá bæjarstæði Króks, austan Garða, alveg upp við túngarð og er girt kringum tún býlisins. Sunnan við Krók er Nýibær. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.” […] Skv Örnefnaskrá 1964 var Krókur “hjáleiga og stundum þurrabúð frá Garðastað, suður með Garðatúngarði […] Krókstún: tún býlisins, ekki ýkjastórt, en þó nytsamt” […]. Örnefnalýsing 1976-77 hefur þetta: “Fyrir ofan Nýjabæjartún er túnið í Króki, og stendur húsið efst í því, rétt við veginn. Fjós og hlaða eru rétt austan þess. Samkomuhús er rétt ofan vegar, sunnan við Garðholtsveg (þ.e. veginn yfir Garðaholtið).””

Krókur

Krókur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir; “Árið 1918 samanstóð Króksbær af sex torfhúsum og snéru framgaflar með standþili suðvestur að Króksbrunngötu og garði. Við gerð Fasteignabókar 1932 var torfbærinn enn uppistandandi […] en skv. Fornleifaskráningu 1984 var nýtt íbúðarhús byggt þremur árum síðar […], timburhúsið með járnvörðum veggjum sem tilgreint er í Fasteignabók 1942-4 […]. Þessi bær stendur enn með þremur bárujárnsklæddum burstum og var sú sem er í miðjunni raunar byggð upp úr gamla torfbænum árið 1923. Austurburstin er frá 1934 en þá hafa torfveggirnir sennilega verið teknir niður og vesturburstin er frá 1945. Bærinn stendur nánast óbreyttur frá 1950 og er sérstakt að hann hefur haldið svipmóti torfbæjar, einnig hvað herbergjaskipan varðar. Fjósið og hlaðan á bak við eru frá 1920-30. Nú hefur bærinn verið endurgerður og er til sýnis fyrir almenning. Krókur er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á fyrri hluta 20. aldar.”

Garðahverfi

Álftanesgata/Fógetastígur.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Fornleifaskýrslu um Garða 1820 segir Markús Magnússon: “Ekki eru hér nein svokölluð Grettistök, en tveir klettar eru hér innan túns eða afgirts heimalands prestssetursins Garða, tveir sem mannaverk eru á. Annar klettanna liggur yfir brunni eða lind sem sér prestssetrinu og þeim sem nærri búa fyrir hinu besta vatni. […] Hinn kletturinn hér – í miðju túni prestsetursins, er 13 álnir að umfangi og 1 3/4 alin að hæð og liggur flatur. Hann hvílir á undirlagi úr litlum steinum og sýnir það augljóslega að klettinum hefur verið lyft og steinarnir lagðir undir hann. Það er merkilegt við þennan klett sem liggur um 160 faðma frá sjónum, að hann er sorfinn á annarri hliðinni, alveg eins og þeir klettar sem liggja í sjávarmálinu eru sorfnir af sjávarganginum. Af því mætti ætla að sjórinn hafi fyrrum gengið svo hátt sem kletturinn stendur nú, fremur en að svo stór klettur hafi verið fluttur svo langan veg frá ströndinni, en reynslan er þó gagnstæð þessari ætlan, því að sjá má að sjórinn brýtur stöðugt landið hér í nágrenninu.” […] Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir svo séra Árni Helgason: “Hvorki blótsteina né Grettistök þekki ég hér, en einstakur steinn, mikill um sig, stendur fyrir vestan Garða, er sumir segja sé brimbarinn þeim megin, er veit frá sjó (hann er frá sjó meir en 100 faðma og 5-6 eða meir yfir sjávarborðið).” […] Við Fornleifaskráningu 1984 er getið um “tvö björg” vestur frá Görðum, um 18 m suðaustan Garðalindar, austan við Garðamýri og er tóft byggð utan í þeim, vestan megin. Þetta gæti verið kletturinn sem séra Markús nefnir.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 er skólahús beint vestur af Króki, nokkru utan Garðatúngarðs. Húsið er úr timbri og hefur stefnuna norðvestur-suðaustur. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: “Upp af Dysjum heitir Pálshús. Þar ofar er Krókur, og enn ofar er gamli skólinn.” […] Þarna er nú samkomuhús [Garðaholt].”

Garður

Garður – Garðavegur liggur að Garðatröðum.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá traðir sem byrja vestan bæjarhúsanna í Görðum, milli þeirra og kirkjunnar og liggja beint norðaustur að hliði í Garðatúngarði.
Mun það vera Garðahlið eða Garðastaðarhlið sem skv. Örnefnaskrá 1964 var Aaðalhlið á Garðatúngarði beint upp frá staðnum” en frá því lágu Garðatraðir “heim á hlað milli staðarhúsa og kirkjunnar”.” Ástandi traðanna er ekki lýst í skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Rétt austan Háteigsbæjarins sýnir Túnakortið 1918 tvö hringlaga mannvirki sem gætu verið brunnar. Einhver punktalína liggur frá bænum framhjá þeim að Garðatúngarði en greinileg gata er þar ekki. Í Örnefnaskrá 1964 er þó minnst á Háteigshlið í garðinum […]” Ekkert er sagt til um ástand minjanna í fornleifaskráningu RT og RKT.

Garðahverfi

Háteigur 1915.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakortinu 1918 er garður suðvestan megin framan bæjarhúsa í Háteigi, líklega sami og lýst var við Fornleifaskráningu 1984 “suðvestur af húsinu” og var enn notaður. Garðurinn er grjóthlaðinn, nær upp í 1,2 m hæð og er um 17 x 48 m að stærð, með stefnuna norðvestur-suðaustur […]”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 er tvíhólfa útihús úr torfi, upp við landamerkjagarð suðvestan Háteigs, miðja vegu milli hans og Miðengis. Gata er ekki sýnd milli bæjanna en e.t.v. Eru þetta samt gripahús sem skv. Örnefnalýsingu 1976-77 “eru aðeins vestar og neðar en íbúðarhúsið [í Háteigi], við veginn niður að Miðengi.”” Ekki er frekari lýsing á ástandi minjanna í fornleifaskráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: “Garðlag er og þvert yfir Garðahverfi sem skiptir því í austur og vestur hverfið. Fleiri garðlög finnast, er sýna, að hér eru tún forðum útgrædd upp í Garðaholt.” […] Hér mun átt við Garðatúngarð sem skipti milli Garðatorfunnar meðfram sjónum og nytjalands hverfisins fyrir ofan. Á Túnakorti 1918 má sjá hvar hann liggur frá suðaustri til norðvesturs meðfram túnum bæjanna Dysja, Pálshúsa, Nýjabæjar, Garða, Ráðagerðis, Hlíðar, Hausastaðakots og Hausastaða. Hann byrjar við Balatjörn og endar við Skógtjörn. Skv. Fasteignabókum er enn túngarður við allar jarðirnar árin 1932-44.”

Garðar

Garðar – túngarður, og Hlíð.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 segir: “Garðatúngarður: Þetta var mikill túngarður, hlaðinn af grjóti. Lá neðan frá Dysjamöl við Balatjörn norður allt að Skógtjörn. Girti þannig af alla Garðatorfuna með hjáleignatúnunum. Séra Markús stiptprófastur Magnússon lét hlaða þennan garð á síðari hluta 18. aldar. Var það mikið mannvirki.” […] Þegar garðurinn var lagður voru um leið fjarlægðir aðrir garðar sem voru ,,vítt um túnin ofanverð, og munu hafa verið nokkurs konar varnargarðar um akurreiti, þegar akuryrkja var stunduð […]” Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. […] Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður. Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta. […] Ætla má að allir íbúar garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari. Annars staðar á landinu eru varðveittir langir garðar sem varið hafa heilu byggðalögin og má nefna Skagagarð á Garðskaga og Bjarnagarð í Landbroti. Í Grágás eru lagaákvæði um byggingu slíkra garða og segir þar að Löggarður átti að vera “fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnir og faðma”.”

Garðar

Garðar 2021.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Mýrarhús hét skv. Jarðabók “hjáleiga í óskiftu Garðastaðalandi” sem var komin í eyði árið 1701 en hafði verið byggð í 60 ár eða lengur. 35 álna landskuld hafði goldist í fiski í kaupstað og eitt kúgildi í fiski eða smjöri til Garða. Grasnautnin fóðraði kúgildið en hana brúkaði síðan staðarhaldarinn. […] Hjáleigunnar er ekki getið í síðari heimildum og hefur e.t.v. ekki byggst aftur. Af nafninu að dæma hefur hún verið staðsett nálægt mýri, trúlega Garðamýri […] en þar nokkru sunnar en Sjávargata og Hóll er greinilegur tóftarhóll.”

“Svo voru göturnar meðfram hrauninu úr Engidal í Vikið,” segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. “Moldargöturnar lágu vestan við Troðningana við Hraunsholtslæk og upp með Gálgahrauni að norðaustan, þvert suður frá vesturenda Troðninga,” segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar, göturnar eru jafnframt sýndar á korti á bls. 6 í sömu bók. Moldargötur voru áður fyrr austur af Garðahrauni og Gálgahrauni og vestur af því svæði sem Ásahverfið nú byggir. Á þessari landræmu sem snýr nokkurn veginn N-S frá Engidal norður í Hraunsvik, er nú gatan Hraunsholtsbraut og vestan við hana, meðfram hraunjaðrinum er malarborinn göngustígur. Engin merki Moldargatna sjást á vettvangi.

Garðahverfi

Katrínarkot yngra.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Manntali 1845 er Tómthús talið meðal býla í Garðahverfi en þar bjuggu Jón Jónsson “grashúsmaður, vitstola í 10 ár”, kona hans Katrín Eyjólfsdóttir og fjögur börn þeirra, Eyjúlfur, Erlendur, Jón og Ingveldur. Auk þeirra voru Ingunn Helgadóttir sem lifði “af handavinnu sinni” og sonur hennar Ólafur Einarsson […] Tómthús þetta er ekki nefnt í öðrum heimildum og hefur e.t.v. einungis verið í byggð í tíð þessara tveggja fjölskyldna. Nöfn húsfreyjunnar og elsta sonarins minna þó á fyrstu ábúendurna í Katrínarkoti sem hétu Katrín og Eyjólfu og gætu þar verið tengsl. Þar eð Katrínarkot á að hafa byggst á sama tíma og Tómthús birtist í Manntalinu vaknar sá grunur að um sama býli sé að ræða. Eðlilega hefur þá með tímanum verið farið að kenna það við húsfreyjuna sem hlýtur að hafa staðið ein fyrir öllum heimilisrekstri og búskap fyrst maður hennar var veikur. Það að Tómthús er í Manntalinu talið upp næst á eftir Hausastöðum en næst á undan Hausastaðakoti gæti bent til að það hafi verið staðsett í nágrenni þeirra eða á sömu slóðum og Katrínarkot. Á móti mælir hins vegar að Katrín og Eyjólfur í Katrínarkoti eru talin hafa verið hjón en ekki mæðgin eins og fólkið í Tómthúsi og því eru býlin skráð í sitt hvoru lagi. ” Ekki er greint frá aðstæðum á svæðinu né mögulegu ástandi Tómthúss í skráningu RT og RKT.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 var Höll “hjáleiga og þurrabúð” frá Görðum og stóð bærinn “utan Garðs, ofan Garðahliðs” […] Við Fornleifaskráningu 1984 segir að tóft hans sé svo til beint upp af Garðakirkju, “rétt eftir að kemur að vegamótum heim að henni, að norðan”. Allt í kring er grýtt holtið. Mundi Tryggvi Gunnarsson í Grjóta eftir því þegar búið var í þurrabúðinni. Þarna er garður og við norðausturhorn hans lítil aflöng tóft, grjóthlaðin og niðursokkin. Hún er um 6 m á lengd og 2,1 m á breidd, þykkt veggja um 0,5 m. Stefnan er suður-norður og virðist inngangurinn vera á suðurgafli […]
Höll er hvorki nefnd í jarðabókum né manntölum.”

Garðahverfi

Hallargerði.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er Hallargerði sagt liggja kringum Höll: “Svo hét gerði umhlaðið miklum grjótgarði norðan vegar […] garður af grjóti kringum bæinn” […]
Gerði sem teiknað var upp við Fornleifaskráningu 1984 er þó vestan við hústóftina.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: ,,ferhyrndur garður eða þurr grjóthleðsla, um 40,8 m á breidd og 18,2 m á lengd, veggir 1,8 m á breidd. Um 19 m frá austurendanum mótar fyrir yfirgróinni hleðslu, um 1,2 m á breidd, sem liggur þvert inn í garðinn.”

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Fornleifaskráningu 1984 var aðalloftvarnarbyrgi Breta á stríðsárunum hæst á hæðinni, þ.e. í Garðaholtsenda, og mjög grýtt allt í kring. “Nú stendur hús á staðnum og sér engin merki umsvifa Bretanna”.”

Hernám

Skotbyrgi á Garðaholti.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Fornleifaskráningu 1984 eru tvö samtengd skotbyrgi ofan Garðakirkju, í austurbrún Garðaholts, beint út frá útsýnisskífu, grýtt holtið allt í kring.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Þetta eru ferhyrnd steinsteypt byrgi 2 x 3 m að stærð. Á 18 m bili milli þeirra hlykkjast grjóthlaðin skotgröf eins og göng, um 1 m á breidd og 0,80-1 m á dýpt. Hún liggur suður út frá vestra byrginu, beygir til austurs, bugðast upp að og austur fyrir eystra byrgið og sveigir svo suður meðfram brún lítils klettabeltis. Útsýni er úr byrgjunum til norðurs, aðallega út á Álftanes.”

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: “Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu norðan Torfavörðu. Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […].” Ekki kemur fram í skráningu RT og RKT hvernig ástand dysjarinnar er í dag.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 lá Garðagata “frá Garðahliði norður hjá Prestahól í Stekkinn” […], þ.e. Garðastekk og við hana hefur Götuhóll eða Göthóll e.t.v. verið kenndur, “klapparhóll litlu norðar en Presthóll, rétt við Garðagötu” […] Framhald virðist vera af götunni um 100 m norðan við stekkinn, á móts við núverandi Garðaholtsveg, en þar liggur skv. Fornleifakönnun 1999 annar slóði upp í hraunið til norðausturs og sameinast Álftanesgötu eða Gálgahraunsstíg nyrðra eftir um 250 m.”

Hvíldarklettar

Hvíldarklettar.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 voru Hvíldarklettar “grágrýtisklappir upp frá Álamýri. Austan Hausastaða.” […].  Þeir eru ekki langt frá Garðavegi og hafa e.t.v. verið áningarstaður”

Garðar

Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.

Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Í Minnispunktum úr skoðunnarferð 1978 segir Kristján Eldjárn: ,,Fjárborg hefur verið á hraunbrúninni; (Gálgahrauns) beint andspænis Görðum, fáeinum metrum ofan við réttina og aðrar minjar þar sem heitir Stekkur […]. Varla er unnt að segja með réttu að fjárborgin sé hluti af stekksminjunum, þótt hvort tveggja sé viðkomandi sauðfé, og þess vegna er borgin talin sér. Nú er ekkert eftir af borginni nema undirstöðurnar, en þær eru líka mjög greinilegar og skemmtilegar. Borgin hefur verið hlaðin úr hraungrjóti og alveg kringlótt, um 10 m í þvm út á ytri brúnir. Veggir allþykkir. Trúlegt virðist að borgin hafi verið rifin til þess að fá grjót í réttina sem hlaðin hefur verið á stekkjarstæðinu og enn stendur. Ég var að athuga stekkjarminjarnar og réttina 20. sept. þegar ég allt í einu rak augun í þennan skemmtilega hring í hrauninu. Grjótið er allt með skófum og litum eins og hraunið sjálft svo að næstum lítur út eins og náttúran sjálf hefði teiknað þennan hringferil svona hárrétt á jörðina. En svo er þó reyndar ekki, heldur er þetta eitt af mörgum fjárskjólum hér á Reykjanesi, þar sem útigöngufé var ætlað að ganga af, helst allan veturinn.” Við Fornleifaskráningu 1984 er fjárborgin sögð vera “á hrauntá í jaðri Gálgahrauns” um 30 m norðaustan og ofan fjárkofans og rúmlega 375 m frá Bessastaðavegi.”
Í fornleifaskrá RT og RKT frá 2003 segir: “Rústin er mjög skýr, “hringlaga eða réttur hringur að utanmáli”,
um 11 m í þvermál. Veggir eru um 2 m á breidd og auðgreinanlegir því þeir eru ólíkt umhverfinu lítt mosagrónir. Hæð þeirra er ekki teljandi en í rústinni miðri er grjót og hún er há miðað við umhverfið.”

Gálgahraun

Gálgahraun – naust.

Í skráningarskýrslu frá 1999 segir OV: “Við norðvesturhorn Gálgahrauns, þar sem það rennur út í Lambhúsatjörn er dálítil vík og í henni hleðsla sem gæti verið eftir naust.”

“Upp með hraunbrúninni, ofan við Balatjörn, skerst hraunnef fram í tjörnina. Það heitir Mónef ,” segir í örnefnaskrá AG. Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Skv. Örnefnaskrá 1964 náði Dysjamýri frá Garðatúngarði austur að hrauni, frá Dysjamöl og Balatjörn upp að holti” þ.e. Garðaholti, en norðan við Bala er Mónef, ,,hraunsnef lítið, sem svo heitir.” […] Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Dysjamýri er milli Garðahrauns og Garðaholts […] á hraunjaðrinum með henni […] norðan við Bala gengur Mónef fram í mýrina. Hér áður var tekin upp mór í Dysjamýri, en því var hætt, þegar Guðmann [Magnússon] man eftir. Mórinn mun hafa verið þurrkaður á Mónefni” […] Skv. Jarðabók 1703 áttu flestar jarðir í Garðahverfi mótak í landi staðarins en þar segir: “Móskurður til eldiviðar hefur nægur verið, en fer í þurð og gjörist erfiður.” […] Aðalmótekjusvæðið var þó í Hraunholtsmýri við Arnarnesvog.”

Garðar

Bali – gerði.

Gerði er skammt suðvestur af enda afleggjarans sem áður lá að Bala frá Garðavegi. Gerðið er nærri sjó, 30-40 m suður af Balatjörn og 70-80 m VNV af hjalli sem stendur við Balakletta og er að líkindum nærri gömlu bæjarstæði Bala. Inni í gerðinu og í kring er algróið þykkri sinu og nokkuð þýft.
Gerðið er hlaðið úr hraungrýti, sem er gróið mosa og skófum. Það er um 35 x 25 m N-S að stærð og ferhyrnt, en þrengist til suðurs og er innan við 10 m á breidd syðst. Hleðslurnar eru um 1 m á þykkt og 0,5 m háar. Gerði þetta er án efa mun yngra en rétt 034 sem er hátt í 200 m norðaustar.

Garðar

Ráðagerði.

Ráðagerði var Garðakirkjueign. 1703: Hjáleiga Garða “Rádagierde, hjáliega í óskiftu staðarins landi. Jarðardýrleiki er óviss.” JÁM III, 185.
1918: “Tún 1,4 teigar og kálgarðar 1020 m2.”

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti 1918 má sjá hús úr steini eða torfi ofarlega í túninu rétt suðaustan Háteigs og Götu, norðvestan Garða. Húsið hefur stefnuna norðvestur-suðaustur og kálgarðar eru til hliðar við það en líklega er þetta bæjarstæði Ráðagerðis sem nefnt er í Örnefnalýsingu 1958 […] og síðan í Örnefnaskrá 1964: “Fyrrum býli, hjáleiga frá Görðum, stendur ofar en Gata […]” litlu austar en Háteigur sem það liggur nú undir. […]. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Ráðagerði var í Háteigstúni nærri túngarði milli Garða og Háteigs, neðanhallt við húsið í Háteigi. Það er farið í eyði fyrir lifandi löngu.” […] Skv. Fornleifaskráningu 1984 er þetta í grösugum aflíðandi halla á milli Háteigs og Garðakirkju. Um 19,15 m frá garðhleðslu sem þarna er sést óljós steinaröð, líklega frambrún bæjarins.

Garðahverfi

Nýibær.

Nýibær 1565: skrá yfir byggðar jarðir staðarins, sem ekki voru hjáleigur: “Nyiabæ Gudmunde fyrer iij vætter fiska. vallarslátt. Röa a skipenu heim um kring ár. med jördunna kugillde.” Garðakirkjueign. “Nýebær, kallaður hálfbýli, því þarer ekki fyrirsvar (eða hreppamanna hýsing) nema að hálfu. Stendur þetta býli í óskiftu Garðastaðar landi og samtýniss við Garða eins og hin í hverfinu, er hjáleigur kallast.” JÁM III, 184.
1918: “Tún 1,9 teigar”.

Garður

Nýibær – túnakort 1919.

Í fornleifaskráningu RT og RKT frá 2003 segir: “Á Túnakorti má sjá stæði Nýjabæjar með þyrpingu húsa og garða norðarlega í Nýjabæjartúni. Bærinn er úr torfi og hólfast í þrennt með stefnu suðvestur-norðaustur. Í Örnefnaskrá 1964 segir að hann sé “neðar í túni en Krókur” […] og Örnefnalýsing 1976-7
bætir við: “Nýibær er upp af Pálshúsum og liggja túnin saman. Hlaða og fjós eru rétt austur af gamla húsinu. Nú hefur nýtt hús verið byggt í Nýjabæ í túnjaðrinum austur við veginn. Nýbýlið Grund, sem byggt var nálægt 1950, er ofan og austan við túngarðinn. Því fylgir ekki grasnyt, aðeins lítil lóð.” […] Skv. Fasteignabókum var komið timburhús í Nýjabæ árið 1932 […] og járnvarið 1942-4 ef ekki fyrr […] Núverandi íbúðarhús hefur vafalaust raskað eldri byggingarleifum. Erfitt er að meta hvort einhverjar leifar bæjarhúsanna geti enn leynst undir sverðinum.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.

Garðaholt

Garðaholt – skotgrafir við Garðaveg..