Færslur

Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: “Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?”
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

“Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma, en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.”

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá

Guðmundur Kjartansson ritaði grein í 4. tbl. Náttúrufræðingsins árið 1973 um “Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð“:

Skilgreining og nafngift.
Búrfellshraun
Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk” en hraunið „fyrir vestan læk”.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:

„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð”.

Veit ég þess ekki dæmi, að meiri jarðsaga hafi verið réttilega sögð í svo stuttu máli. Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun. Allt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 7 l/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Búrfell - Kringlóttagjá

Búrfell og Kringlóttagjá

Það sem hér hefur verið staðhæft um upptök og útbreiðslu Búrfellshrauns, varð Þorvaldi Thoroddsen fullljóst á rannsóknarferðum um þessar slóðir, fyrst 1883 og aftur 1899. Hann lýsir þessu skilmerkilega í ritum sínum (Thoroddsen 1906 og 1911) að öðru leyti en því, að honum er ekki nógu vel kunnugt um örnefni á eldstöðvunum.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Hann nefnir hraunið í heild oftast Garðahraun en stundum Hafnarfjarðarhraun og upptakagíg þess Garðahraunsgíg. Hann þekkir bersýnilega ekki nafn á Búrfelli, að öðrum kosti hlyti hann að hafa kennt hraunið og gíginn við það fremur en við Garða á Álftanesi eða Hafnarfjörð. Þorvaldur lýsir mætavel hrauntröðinni Búrfellsgjá og skýrir réttilega uppruna hennar, en hann hefur ekkert nafn á hana, heldur notar örnefnið Búrfellsgjá ranglega um misgengissprungurnar í Hjöllum austur af Vífilsstaðahlíð og Vatnsendaborg.

Búrfellshraun

Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.

Þeir sem eitthvað hafa ritað um Búrfellshraun á eftir Þorvaldi Thoroddsen, hafa flestir farið að hans dæmi og kennt hraunið í heild annaðhvort við Garða (t. d. Guðmundur G. Bárðarson, Sigurður Skúlason 1933 og Ólafur Lárusson 1936) eða við Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954 og Þorleifur Einarsson 1968). En hvorug þeirra nafngifta hefur náð festu — nema í hinni upphaflegu merkingu um vissa hluta hraunsins, og mætti gjarna þar við sitja. En heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.

Búrfell

Kringlóttagjá

Þó að markmið þessarar greinar sé fyrst og fremst að skýra frá nýgerðri aldursákvörðun á Búrfellshrauni, skal nú hrauninu samt fyrst lýst nokkru nánar og raktir kaflar þess frá upptökum til enda. Kortið, sem hér birtist a£ Búrfellshrauni er lítið breytt frá fyrra korti mínu af hraununum kringum Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954), en þó með smá leiðréttingum eftir nánari könnun, og þakksamlega þegnar ábendingar Jóns Jónssonar jarðfræðings.

Búrfell

Búrfell.

Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg. Mundi sú gerð eldvarpa kölluð eldborg í kennslubókum. Gígbarmurinn er hæstur að norðan, 179 m.y.s. (sbr. Uppdr. ís.), en frá brekkurótum utan gígs er hæðin um 80 . að vestan og aðeins um 30 m. að norðan. Gígurinn er um 140 m. að þvermáli milli barma. Dýpt hans hefur mér mælst (með loftvog) 58 m. frá hæsta og 26 m. frá lægsta barmi.

Garðaflatir

Garðaflatir. Garður milli Búrfellsgjár og Vatnsholts.

Mishæðirnar á barmi Búrfellsgígs valda því, að fellinu er nokkuð áfátt um reglulega eldborgarlögun. Það er mun hærra að norðvestan en að suðvestan við gíginn. Þetta stafar af misgengi, sem orðið hefur, eftir að eldvarpið hlóðst upp. Um grágrýtissvæðið norðan og vestan Búrfells liggur fjöldi brotalína í stefnu h. u. b. norðaustur-suðvestur og ein í gegnum Búrfell sjálft.

Búfellsgjá

Búrfellsgjá.

Um margar þeirra hefur orðið lóðrétt misgengi og nær alls staðar á þann veg, að norðvesturbarmur sprungunnar rís hærra en suðausturbarmurinn. Þannig er þessu farið um sprunguna gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur einkar glöggt fram í Helgadal við suðvesturrætur Búrfells og myndar þar alla norðvesturbrún dalsins, en hún er lágur þverhöggvinn hamraveggur, óslitinn um 2 km veg.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur Gk.

Sá stallur er í Búrfellshrauni. En misgengið má rekja miklu lengra í báðar áttir frá gígnum. Sums staðar klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg, og á þeim köflum er misgengisstallurinn yfirleitt hærri en í hrauninu. Af því má ráða, að misgengi hafði þegar átt sér stað áður en hraunið rann, en ágerst síðar. Um þetta sprungukerfi, bæði í hraunum og berggrunni, fjalla þeir Jón Jónsson og Eysteinn Tryggvason í ritgerðum sínum, sem áður var til vitnað og hér verður enn stuðst við.

Búrfellsgjá

Hellisskúti í Búrfellsgjá.

Á öllu hinu unga eldbrunna svæði Suðurkjálkans, frá Reykjanesi til Þingvallavatns, eru langflestar eldstöðvarnar gossprungur, markaðar gígaröðum að endilöngu. Því kemur það nokkuð á óvart um eldvarp eins og Búrfell, sem stendur svo augljóslega á sprungu, að í Búrfellsgosinu virðist það hafa verið eina virka eldvarpið á þeirri sprungu og er ekki einu sinni ílangt í stefnu hennar heldur því nær kringlótt.

Maríhellar

Í Maríuhellum.

Það er augljóst, að Búrfell hefur gosið aðeins einu sinni. Gos þess var flæðigos, og framleiðsla þess var fyrst og fremst Búrfellshraun. En um leið hlóðst upp sjálft eldvarpið Búrfell úr slettum frá kvikustrókum upp úr gígnum. Sletturnar skullu niður á ýmsu stigi storknunar. Þær sem lengst þeyttust hörðnuðu á fluginu í frauðkennt, stökkt gjall, sem nú gætir helst í útveggjum gígsins. En þær sem nær féllu gosstróknum voru linar af hita. Þær klesstust saman í fallinu lag ofan á lag í mun samfelldari og traustari hraunsteypu, sem þó er öll smáholótt. Það köllum við klepra og eru þeir meginuppistaðan í eldvarpinu. Að innanverðu eru gígveggirnir brynjaðir hraunkleprum. Þeir eru nokkuð lagskiptir og hallar klepralögunum bratt niður í gíginn.

Búrfellsgjá

Í Gerðinu.

Á norðurbarmi gígsins skagar kleprabrynjan upp úr hinni lausari gosmöl í utanverðri gígbrekkunni og myndar hvassa egg, sem er hátindur Búrfells. Þetta sýnir, að nokkuð hefur rofist ofan af og utan úr Búrfelli, væntanlega af völdum storma og jarðskriðs, síðan það hlóðst upp. En einnig hefur mjög hrunið úr kleprabrynjunni niður í gíginn, og er þar nú stórgrýtisurð í botni. Auðvelt er að ganga þangað niður á þeim tveimur stöðum, þar sem gígbarmurinn er lægstur, að sunnan og vestan, en illkleift annars staðar.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Norðan Búrfells liggja berar, jökulrákaðar grágrýtisklappir því nær fast að rótum þess, og er því sennilegt, að goskvikan hafi rutt sér braut upp í gegnum grágrýtismyndun. Botn Búrfellsgígs er 25—30 m lægri en þessar klappir. Samt sér hvergi á bergrunninn niðri í gígnum, hvorki grágrýtis- né móbergsklöpp. Ekki hef ég heldur fundið þar nein brot úr þessum bergtegundum.

Búrfellsgjá

Gerðið.

Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum. Hennar verður síðar að nokkru getið.

Kaldá

Kaldá.

Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess. En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Það skiptir vissulega miklu um stærð Búrfellshrauns í heild, hvort og hve langt það nær undir ungu hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ákveðnari vísbending eða úrskurður í þessu vafamáli fæst vonandi einhvern tíma með nánari rannsóknum. Bergfræðileg rannsókn, efnagreining og ekki síst mæling á segulstefnu t. d. í Hvaleyrarhrauni og Hafnarfjarðarhrauni hlyti annað hvort að afsanna eða gera sennilegt, að þessi hraun séu eitt og hið sama. En hvort sem Búrfellshraun teygist lengra eða skemmra í vesturátt, ósýnilegt undir ungu hraununum, þá er hitt víst, að það rann lengstan veg í meginstefnu norðvestur, allt til sjávar bæði í Hafnarfirði og Skerjafirði, eins og hér verður síðar rakið.

Búrfellsgjá

Búrfell

Búrfellsgjá.

Framan af eldgosinu í Búrfellsgjá má ætla, að hraunið hafi ollið út yfir barmana í ýmsar áttir. En er barmarnir hlóðust upp, takmarkaðist hraunrennslið við vissar rásir, ýmist yfir eða undir gígbarmana. Augljóst er, að það hraun, sem síðast rann út úr gígnum ofanjarðar, lagði leið sína um allkrappt skarð í vesturbarminn. Botn þess liggur í h. u. b. 35 m. hæð yfir gígbotninn. Þetta skarð er upphaf eða efri endi Búrfellsgjár.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu þess orðs, heldur hrauntröð, þ. e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma, líkt og á, sem rennur aðkreppt milli ísskara. En stundum flæddi kvikan upp yfir skarirnar, storknaði þar og hækkaði þær. Af ástæðum, sem brátt verður vikið að, þvarr hraunrennslið snögglega í Búrfellsgjá. Þar sem halli var nægur, eins og í brekkunni vestur af Búrfelli, tæmdist farvegurinn því nær í botn. Þar er tröðin kröpp og með nærri „U-laga” þverskurði. En niðri á jafnlendinu hafa síðustu leifar þverrandi hraunárinnar storknað í flatan botn veggja á milli.
Búrfellsgjá er um 3 1/2 km á lengd með meginstefnu norðvestur, en bugðótt nokkuð og meira að seiga í kröppum hlykkjum fyrsta spölinn, ofan hlíð Búrfells. Þar er hún einnig mjóst, aðeins 20—30 m milli barma. En neðar er breidd hennar breytileg, verður mest um 300 m, bæði skammt frá rótum Búrfells og aftur í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð, þar sem hrauntröðin grynnkar og hverfur.

Búrfell

Búrfell.

Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Annars staðar eru gjárveggirnir víða 5—10 m. háir. Á köflum eru þeir þverhníptir eða jafnvel slútandi, og mynda sums staðar grunna hellisskúta, munnvíða og með snarhöllu þaki, ágæt afdrep fyrir sauðfé í illviðrum. Einn hellir af þessu tagi hefur holast inn í íhvolfan bakka gjárinnar á kröppustu beygju hennar uppi í hlíð Búrfells. Á öðrum köflum eru gjábakkarnir aðeins urðarbrekka, þannig til komin, að storkuskörin hefur haldist á floti meðan hraunkvikan fyllti tröðina, en brotnað og hrunið niður um leið og lækkaði í hraunánni.

Búrfellsgjá

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.

Að sjálfsögðu, eru barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar allt úr Búrfellshrauni, og í meira en 5 m djúpum giám (sprungum) á botni hennar sér hvergi niður úr því. Næst upptökunum er þetta hraun frauðkennt líkt og kleprarnir í gígnum og víðast greinilega lögótt. Lögin eru þunn, fáir sentimetrar, og hallast á ýmsa vegu. Uppi á börmunum virðist þeim yfirleitt halla eins og yfirborði hraunsins, þ. e. lítið eitt burt frá hrauntröðinni, og má ætla, að hvert lag samsvari skammæru flóði þunnrar kviku úr hraunánni upp úr farvegi hennar. Í gjáveggjunum má sums staðar líta þessi hallalitlu lög skorin um þvert, en annars staðar eru þeir brynjaðir lóðréttum lögum, sem virðast hafa smurst hvert utan á annað og þrengt tröðina. Og loks liggja þessi lög sums staðar í sveigjum og fellingum, sem gefa í skyn, að veggir traðarinnar hafi verið linir af hitanum frá hraunánni og látið undan straumi hennar. Þess sér og merki, nálægt rótum Búrfells, að deigkennd hraunflikki hafa hálflosnað úr neðanverðum traðarveggnum, rifnað frá honum að ofanverðu, hnigið af þunga sínum, en harðnað að nýju og hætt við að detta.


Í Heklugosinu 1947—1948 rann meginhraunið kílómetrum og mánuðum saman eftir hrauntröð, sem um margt líktist Búrfellsgjá. Þar horfði ég oftar en einu sinni á sams konar deigkennd flikki hníga hægt niður í kvikustrauminn og berast áfram með honum. Hrauntröðin í Heklu er ekki lengur til sýnis. Áður en gosinu lauk hafði hún fyllst að endilöngu meira en upp á barma af storknuðu hrauni. Þau munu örlög flestra hrauntraða.

Búrfellsgjá

Búrfell og Búrfellsgjá.

Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel. Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hú n hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá”, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin” að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá” heppilegast.

Lambagjá

Lambagjá.

Í báðum hrauntröðunum, Búrfellsgjá og Lambagjá, eru snotur og skemmtileg mannvirki hlaðin úr hraungrýti. — Niðri í Búrfellsgjá, um 1/2 km norðvestur frá Búrfelli, stendur fjárrétt. Þangað var rekið og þar dregið sundur afréttarsafn Hafnfirðinga, Garðahreppinga og Álftnesinga á hverju hausti fram yfir 1920. Réttin er nú friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar. — En um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað. Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, þverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg. Hið síðarnefnda á við um Búrfellsgjá. Meðan enn hélzt allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins til Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin í Búrfellsgjá var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann burt undan hallanum, svo að „gjáin” tæmdist að meira eða minna leyti.

Hraunrennsli undan suðurbarmi Búrfellsgígs. — Kringlóttagjá.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Það sem eftir var gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun, sem við skulum hér kalla „suðurhrauni”, varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá, og er Gísli Sigurðsson heimildarmaður minn að því örnefni, sem helst til fáir munu þekkja. Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræði.

Frá suðurrótum Búrfells, þar sem gígbarmur þess er lægstur, liggur allbreið en fremur grunn hrauntröð og opnast í Kringlóttugjá. Þá leið hefur hraunið runnið frá gígnum til hrauntjarnarinnar. Ef ekki væru þessi tengsl milli hennar og Búrfells, væri freistandi að telja hraunbunguna með Kringlóttugjá sérstaka eldstöð, litla dyngju, sem hefði myndast í öðru og síðara gosi en Búrfell, og hrauntjörnina gíg hennar.

Búrfell

Búrfell.

En tröðin sýnir ljóslega, að suðurhraunið er runnið undan rótum Búrfells og fyrst upp komið í gíg þess. Auk þess bendir slakki í gígbarminn, þar sem tröðin kemur út undan honum til þess, að rás sem þar lá undir hafi sigið saman. Nú er gígbarmurinn hvergi eins lágur og í þessum slakka (um 25 m.y. gígbotn), en samt er auðséð, að þar hefur hraun aldrei runnið yfir hann.
Af því er fullljóst, að meðan hraun rann um h.u.b. 10 metrum hærra skarð til Búrfellsgjár, var þessi slakki ekki til. Hann er síðar tilkominn, bæði við samansig hraunrásarinnar undir honum og að enn meira leyti við höggun eldvarpsins um misgengissprunguna.

Helgadalur

Helgadalur – Búrfell fjær.

Þó að einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af óvissum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög óglöggur. Halli og storknunarmynstur þessarar hraunálmu benda helst til, að hún sé ekki frá Búrfelli komin, heldur öðrum eldstöðvum ókunnum í suðaustri, og yngri en Búrfellshraunið.

Búrfell

Kringlóttagjá.

Aldursmunur getur þó vart verið mikill, því að í misgengisstallinum um Helgadal hefur þetta hraun haggast jafnt Búrfellshrauni, en önnur hraun í nágrenninu, sem eru ótvírætt yngri en Búrfellshraun, slétta yfir misgengisstallana óhögguð — eða a. m. k. óbrotin. Jón Jónsson hallast að þeirri skoðun, að þessi liraunálma sé annað hraun og yngra en Búrfellshraun. Ég verð einnig að telja það sennilegt, en þykir þó hitt koma til mála, að hún sé allra síðasta rennslið í Búrfellsgosinu, komið úr hrauntjörninni í Kringlóttugjá.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 4. tölublað (01.03.1973) – Guðmundur Kjartansson, bls. 159-182.
Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.

Búrfell

Árni Hjartarson skrifaði um “Búrfellshraun og Maríuhella” í Náttúrufræðinginn árið 2009:

Búrfellshraun og Maríuhellar

Maríuhellar

Maríuhellar.

“Búrfell upp af Hafnarfirði er gígur af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur orðið á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli; það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum (1. mynd). Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Um þetta og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna. Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram á nokkrum stöðum nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Stekkjarhraun, Selhraun, Kaldárselshaun, Hafnarfjarðarhraun, Balahraun, Garðahraun og Gálgahraun.”

Búrfell

Búrfellsgígur.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun, lét gera á því aldursgreiningar og ritaði um það – sjá  HÉR.

Flest sem síðar hefur verið skrifað um hraunið grundvallast á rannsóknum hans, m.a. þessi grein.

Stærð hraunsins og aldur Mikil misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.
Gígurinn og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanesi. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota.

Maríuhellar

Maríuhellar (Urriðakotsfjárhellir).

Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.

Selhraun

Selhraun vestan Kapelluhrauns.

Nýverið benti Haukur Jóhannesson greinarhöfundi á að Búrfellshraun sæist hugsanlega á yfirborði á dálitlum bletti í svokölluðu Selhrauni sunnan við Straumsvík. Á jarðfræðikorti hefur þetta hraun verið nefnt Selhraun 1 og uppruni þess talinn óljós en tekið er fram að um dyngjuhraun sé að ræða. Ekkert í landslaginu mælir gegn því að Búrfellshraun gæti hafa runnið þarna yfir en bæði útlit, berggerð og dílasamsetning, sem og aldursafstaða hraunsins til annarra hrauna, benda til þess að þetta sé Búrfellshraunið.

II. Lambagjárlota.

Lambagjá

Lambagjá.

Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.

III. Urriðavatnslota.
BúrfellshraunÞegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi. Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok.
Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa og hrauntraðir og hellar í hraunum þurfa oftast nokkurn tíma til að myndast. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Land hefur sigið nokkuð á höfuðborgarsvæðinu síðan þetta var og að auki stóð sjór nokkrum metrum lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú, svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina. Í borholunni við skolphreinsistöðina hjá álverinu í Straumsvík sést að sjávarborð var a.m.k. 8 m neðar en nú og Guðmundur Kjartansson nefnir að aðstæður í Hafnarfirði sýni að sjór gæti hafa staðið um 10 m neðar en í dag þegar hraunið rann.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 24 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson álítur meðalþykkt þess vera um 20 m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undir og ofan á því og birti um það grein í Náttúrufræðingnum. Þegar aldursgreiningarnar eru umreiknaðar yfir í raunaldur fæst að fjörumórinn undir hrauninu er um 8100 ára. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra, eða að líkindum rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr. Á þessum tíma er talið að hið almenna yfirborð heimshafanna hafi staðið um 10 m lægra en nú. Athugunum á hrauninu, sem fyrr hefur verið greint frá, ber saman við þetta.

Hrauntraðir.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð, við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin sem enn sést liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá, svo sem fyrr er nefnt. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá á fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20–30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar. Þar er Hrafnagjá, en við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir traðanna eru oft 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim er einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.

Hraunhellar.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins. Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er meira en 20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta. Hraunhellum má skipta í nokkra flokka eftir því hvernig þeir mynduðust; hraunrásarhella, gíghella, hraunbólur, sprunguhella o.fl.
Í Búrfellshrauni eru nær allir þeir hellar sem ná máli hraunrásarhellar. Skútarnir í hrauninu eru ýmist í hraunrásum, undir hraunbólum eða myndaðir á annan hátt. Hraunrásarhellar eru orðnir til við rennsli hrauns í hraunrás undir storknuðu yfirborði. Þegar kvika berst ekki lengur til hraunrásarinnar getur hún tæmt sig ef landhalli er nægilegur og þá myndast hellir. Oft er þakið svo þunnt að það hrynur ofan í hraunrásina og því stundum erfitt að segja til um hvar einn hellir endar og annar hefst.

Skátahellir

Búrfellshraun – Skátahellir.

Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Í hinni miklu hellabók Björns Hróarssonar eru nafngreindir 13 hellar og skútar í hrauninu, en þó munu þeir vera fleiri.
Maríuhellar er samheiti á hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns (Urriðakots) og Vífilsstaða rétt við veginn upp í Heiðmörk.
Björn Hróarsson lýsir stuttlega þremur hellum á þessum slóðum, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli; auk þess minnist hann á fjórða hellinn, Jósefshelli.

Samheitin Vífilsstaðahellar, Fjárhellrar, Vífilsstaðafjárhellrar og Urriðakotsfjárhellrar hafa einnig sést á prenti um þessa hella. Nafnið Maríuhellar virðist gamalt eins og fram kemur í landamerkjalýsingu Urriðakots sem dagsett er 20. september 1834 og birt er í riti Guðlaugs R. Guðmundssonar um örnefni og leiðir í landi Garðabæjar: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar, fram í vörðuna sín megin á Norðurhellragjárbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni, þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni, úr henni í Álptatanga, þaðan í hellu sem er í miðjum Hrauntanganum, kölluð Sílingarhella, úr henni í uppmjóan háan klett með klofavörðu upp á sín megin Stórakróks og í gamlar fjárréttargrjótgirðingar í Moldarhrauni, og upp í áðurnefnda Urriðakotsfjárhellra.“

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Þessi lýsing var þinglesin 1890 en þá gerði umboðsmaður Garðakirkju eftirfarandi athugasemd um leið og hann skrifaði undir skjalið: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju, að öðru leyti en því að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilsstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það sem Vífilsstaðir eiga sjerstaklega“. Af þessu skjali má ljóst vera að Maríuhellanafnið er gamalt og að ósamkomulag hafi ríkt um eignarhald á hellunum.

Engar sagnir fylgja þessari nafngift en Maríuvellir (Maríuflöt) eru illi hrauns og hlíðar þarna skammt frá, þar sem bílastæði eru nú. Mörg dæmi eru um það að Maríuörnefni tengist kirkjum sem helgaðar voru guðsmóðurinni. Í Múlafjalli í Kjós er t.d. hellir sem nefnist Maríuhellir og á Reynivöllum er Maríukirkja. Í máldaga frá 1397 segir að kirkjan eigi: „… sauðahöfn í Múlafjalli og skjól í Maríuhelli og skal sá telja eftir hverja hríð er í Múla býr.“

Maríuhellar

Maríuhellar.

Þetta þýðir að bóndinn í Múla átti að telja kindurnar við Maríuhelli eftir hvert hríðarveður, vafalaust til gæta þess að enga vantaði. Reynivallakirkja átti einnig sölvafjöru þar sem heitir Maríusker og rétt til kolagerðar á Maríuhjalla í Ingunnarstaðaskógi í Brynjudal. Þarna virðast ótvíræð tengsl kirkju og örnefnis. Vífilsstaðir voru lengi í eigu Garðakirkju en hún er helguð Pétri postula svo ekki er nafnið þaðan runnið. Garðakirkja eignaðist jörðina 1558 en þar áður hafði hún lengi tilheyrt Viðeyjarklaustri. Kirkjan og klaustrið í Viðey voru helguð Maríu mey og því er líklegast að nafn hellanna sé frá þeim tíma er þeir voru eign og hlunnindi klaustursins. Ekki er vitað hvenær Vífilsstaðir féllu undir Viðey en klaustrið þar var stofnað um 1225 og starfaði til siðaskipta.
Maríuhellanafnið gæti því verið frá 13. öld. Maríuhellarnir þrír eru rétt við bílveginn og í sömu hraunrás svo í augum sumra hellarannsóknamanna er hér um einn þrískiptan helli að ræða sem alls er 150–160 m langur ef mælt er eftir meginlínu.
Þarna er hægt að ganga ofan í allmikið niðurfall um 15 vel hlaðin hraunhelluþrep. Þar niðri eru tveir víðir hellismunnar hvor gegnt öðrum. Niðurfallið virðist vera gamall viðmiðunarpunktur á landamerkjum Urriðakots (Urriðavatns) og Vífilsstaða. Urriðakotshellir gengur suður frá niðurfallinu. Hann er víðastur yst en dregst saman og lækkar innar. Auðvelt er að komast 22 m inn en þá taka við þröng göng sem ekki verður skriðið í. Gat er á hellisþaki. Þarna átti Urriðakot fjárból. Vífilsstaðahellir gengur til norðvesturs frá niðurfallinu. Aðeins 22 m eru á milli hellanna. Hann er 22 m langur undir þaki, fallega hvelfdur og 3–4 m á hæð. Hann er mun rúmbetri en Urriðakotshellirinn þótt lengdin sé sú sama. Þröngur munni er þar við hellisendann sem frá niðurfallinu snýr og því hægt að ganga í gegnum hellinn. Talsvert tað var þar á gólfinu fram eftir 20. öld en það var að lokum allt stungið út og notað að Vífilsstöðum.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðafjárhellir.

Úti fyrir munnanum þrönga er annað niðurfall þar sem hellisþakið hefur hrunið. Það er grunnt en 22 m langt. Draugahellir er vestastur Maríuhella, 18 m norðvestur af munna Vífilsstaðahellis. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr föllnu þakinu. Fyrst er farið 3,5 m niður en síðan má smeygja sér milli stórgrýtis og veggjar eftir hallandi göngum uns komið er í víðara rými innan við hrunið, á 5–6 m dýpi í hrauninu. Þar verður fyrir gild hraunsúla á vinstri hönd, 20 m að ummáli, en rúmgóð og hvelfd hellisgöng þar inn af. Hellirinn er í heild 65–70 m langur inn í botn en er mjög lágur innst. Víð hvelfing með kúpulaga þaki gengur út frá honum til hægri. Allmikið hrun hefur orðið þar úr loftinu svo hrúgur af stórgrýti eru á gólfi. Annars staðar er lítið um hrun. Hellirinn gengur inn undir þjóðveginn upp í Heiðmörk þannig að vel heyrist í bílum sem aka yfir hann. Nafn hellisins er tilgreint í örnefnaskrá Guðlaugs R. Guðmundssonar, en engin saga fylgir því. Eitthvað er þó órökrétt við það að draugar haldi til í Maríuhellunum.

Jósefshellir (?) er 70 m austan við Maríuhella skammt frá göngustíg um hraunið. Þar er allmikið niðurfall en norður úr því gengur lágur hvelfdur hellir, 22 m á lengd en um 12 m víður yst. Mold er á gólfi og ljóst að þar hefur sauðfé haft afdrep þótt óvíst sé hvort um gamlan fjárhelli sé að ræða. Í hellabók sinni frá 19908 segir Björn Hróarsson að skammt frá Maríuhellum sé lítill hellir sem nefndur sé Jósefshellir og oftast talinn með Maríuhellum. Í hellabókinni frá 2009 nefnir Björn þennan helli, Vífilsstaðahelli en þar er Jósefshellir horfinn úr hellatali.

Maríuhellar

Maríuhellar.

Örnefnaflækja.
Af ofanrituðu sést að óvissa er um nöfn hellanna. Hér er að mestu fylgt lýsingu Guðlaugs R. Guðmundssonar10 en einnig var farið á vettvang með Svani Pálssyni, sem er fæddur í Urriðakoti 1937 og þekkir öllum betur örnefni á þessum slóðum. Guðlaugi og Svani ber saman um nafngiftir hellanna þriggja en hvorugur þeirra kannast við Jósefshelli. Samkvæmt lýsingu Björns Hróarssonar frá 2009 og hnitum sem hann gefur upp, slær hann saman Vífilsstaða- og Urriðakotshellum og nefnir einu nafni Urriðakotshelli.

Draugahellir

Í Draugahelli.

Um Draugahelli er hann sammála Svani og Guðlaugi en hellinn sem hann nefnir Jósefshelli í bók sinni og kallar hann Vífilsstaðahelli í stóru hellabókinni frá 2006, sem fyrr er greint. Enn annar skilningur kemur fram í örnefnaskrá Vífilsstaða frá 1991; þar er Vífilsstaðahellir nefndur Maríuhellir en Urriðakotshellir kallaður Jósefshellir. Þessari örnefnaskrá ber ekki saman við eldri skrár og virðist hér komið dæmi um nýlega örnefnaþróun því engar heimildir finnast um Jósefshelli fyrr en 1990.
Upphaflega virðist Maríuhellanafnið hafa átt við fjárhellana tvo sem kenndir eru við Vífilsstaði og Urriðakot. Seinna bætist Draugahellir í hópinn enda í raun hluti af sömu hellasamstæðu. Örnefnið er líklega ungt og sést ekki á prenti fyrr en undir lok 20. aldar. Að lokum kemur fjórði hellirinn til sögunnar, kenndur við Jósef, enda réttlætismál að eigna honum helli nálægt hellum eiginkonu sinnar.

Niðurstöður.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – Þorsteinshellir.

Helstu niðurstöður þessarar greinar eru þær að Búrfellshraun við Hafnarfjörð sé stærra en áður hefur verið talið og eru færð rök fyrir því. Hraunflóð virðist hafa fallið til Straumsvíkur en nú er sú hrauntunga að mestu hulin yngri hraunum. Rannsóknir benda þó til að Selhraun 1 sunnan Straumsvíkur sé hluti Búrfellshrauns. Saga Búrfellsgossins er rakin og henni skipt upp í fjóra þætti. Birt er nýtt kort af Maríuhellum og reynt er að greiða úr örnefnaflækju sem þeim tengist. Hér er um einn þrískiptan hraunrásarhelli að ræða og stakan helli, Jósefshelli, þar skammt frá. Nafnið Maríuhellar virðist hafa fest við þá þegar þeir voru eign Maríukirkjunnar og klaustursins í Viðey. Örnefnið er því gamalt og gæti verið frá 13. öld.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 3.-4. hefti (01.03.2009), Árni Hjartarsson, bls.  93-100.
https://timarit.is/page/6468192?iabr=on#page/n27/mode/2up/search/búrfellsgjá

Maríhellar

Maríuhellar.

Garðaflatir

 Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann. Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Ýmis merki megi sjá þar enn í dag að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma. Skammt fyrir neðan

Garðaflatir er stórt holt, sem nefnt er Smyrlabúð.” Þessa staðs er hvergi annars staðar getið í heimildum.
Smyrlabúð er 125 m há hæð syðst í Smyrlabúðarhrauni. Leitað var í kringum Smyrlabúð. Á einum stað, uppi í hlíðinni að vestanverðu, mótaði fyrir hleðslu. Trúlegra er þó að garðar og hús hafi verið á völlunum fyrir neðan. Þar er talsvert gras og nokkrir vellir, sem hraunið hefur runnið að, en skilið þá eftir hluta þeirra á milli þess og grágrýtisholtanna austan Sléttuhlíðar. Gamla Selvogsgatan liggur þarna með hraunkantinum og yfir þessa velli, sem hugsanlega hafa einhvern tímann heitið Garðavellir, en Garðakirkja átti land þarna fyrrum, skv. sögunni.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Garðaflatir eru hins vegar nefndir í örnefnaskrám og öðrum lýsingum ofan og austan við Búrfellsgjá. Þar hefur FERLIR fundið nokkrar tóftir utan í hæð. Þær eru greinilega mjög gamlar. Þeirra er þó ekki getið í örnefnaskrá fyrir Garðabæ.
Þá hefur fundist hlaðið gerði utan í Smyrlabúðarhrauni, utan um slétta gróna kvos. Selvogsgatan gamla liggur með garðinum. Grjótið hefur greinilega verið tekið úr holtinu þar skammt frá og notað í garðinn. Hvort þar sé komið hin gamla Smyrlabúð, sem getið er um og hraunið er nefnt eftir, skal ósagt látið. Dæmi eru þó um að hraun hafi verið nefnd eftir mannvirkjum, sem í þeim hefur risið, sbr. Fjárskjólshraun.
Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar og aðrir á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjaldi og dvalið yfir nótt með það fyrir augum að komast árla til til að versla við kaupmanninn í kaupstaðnum. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé.
Þótt aðrir hafi ekki rekið augun í gerðið utan í Smyrlabúðarhrauni(og einnig tóftirnar á Garðaflötum) er ekki þar með sagt að það hafi aldrei verið til.
Frábært veður – gangan tók 1 klst og 11 mín.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Búrfellsgjá

Í Gráskinnu er sagt að “Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt þegar hraunið rann.

Tóftir við Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Sagan segir að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. Ýmis merki megi sjá þar enn þann dag í dag að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma. Skammt fyrir neðan Garðaflatir er stórt holt, sem nefnt er Smyrlabúð”.

Smyrlabúð

Minjar við Smyrlabúð.

Smyrlabúð er 125 m há hæð syðst í Smyrlabúðarhrauni. Leitað var í kringum Smyrlabúð. Á einum stað, uppi í hlíðinni, mótaði fyrir hleðslu. Trúlegra er þó að nefndir garðar og hús hafi verið á völlunum fyrir neðan. Þar er talsvert gras og nokkrir vellir, sem hraunið hefur runnið að, en skilið þá eftir á milli þess og grágrýtisholta. Gamla Selvogsgatan liggur þarna með hraunkantinum og yfir þessa velli, sem hugsanlega hafa einhvern tímann geta heitið Garðaflatir, en Garðakirkja átti land þarna fyrrum. Telja verður þó líklegra að nefndar flatir hafi verið þar sem þær eru nú merktar á landakort.

Fornar tóttir finnast á Garðaflötum.

Rústir við Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.
Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast”.

Garðaflatir

Garður við Garðaflatir.

Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af einn mjög stór og garður, langur. Fundurinn gefur framangreindri sögu byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina rústirnar.
Ósennilega er örnefnið “Garðaflatir” tengt bæjarnafninu Görðum á Álftanesi. Líklegra er að þær hafi tekið nafn sitt af hinum miklu nálægu görðum er umlykja svæðið.
Frábært veður.

Gjáarrétt

Gjáarrétt í Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá

Gjáarrétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár, ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár.
GjáarréttRéttin er hlaðin úr hraungrýti enda er gnægð af því byggingarefni nærtækt. Veggir, sem enn standa, bera verklagi hleðslumanna gott vitni.
Líklegt er að Gjáarrétt hafi verið reist og gerð að fjallskilarétt árið 1840. Síra Árni Helgason prófastur í Görðum á Álftanesi (1777-1869) ritar sóknarlýsingu Garðaprestakalls árið 1942. Hann segir þar: “Rétt fyrir þennan hrepp er sett í kirkjulandinu næstliðið ár. Lengi að undanförnu var ekki skipt um slíkt; þá var og sauðfé hér miklu færra en nú er orðið.”
Í safnritinu Göngum og réttum er ekki rætt um fjallskil í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Heimildir um Gjáarrétt og fjallskil þar eru þess vegna fremur litlar.
Gjáarrétt var ef að líkum lætur fjallskilarétt, lögrétt, í liðlega áttatíu ár eða fram yfir 1920. Þá var fjallskilaréttin flutt niður í Gráhelluhraun, ofan við Hafnarfjörð, og nefndist Hraunrétt. Árið 1955 var rétt gerð við Kaldársel. Þar er skilarétt nú (1986). Eftir þetta var þó smalað til Gjáarréttar á sumrin allt fram yfir 1940.
Gjáarétt var friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar 1964.
Á uppdrættinum má sjá dikaskipan samkvæmt frumrissi Gísla Guðjónssonar og staðfest af Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti. Dilkar: 1 – Grindavík. 2. Vatnsleysuströnd. 3. Suður-Hafnarfjörður. 4. Setberg. 5. Hraunabæir. 6. Garðahverfi. 7. Vestur-Hafnarfjörður. 8. Urriðakot og Hofstaðir. 9. Vífilsstaðir. 10. Ómerkingar. 11. – Vatnsendi og fleiri bæir í Seltjarnarneshreppi. 12. Selvogur.

Gata við Gjáarrétt

Við Gjáarrétt er réttargerði. Fjársafnið var geymt í gerðinu nóttina áður en réttað var. Þar inn undir berginu er hlaðið byrgi, sem ýmsar skýringar eru á til hvers hafi verið notað. Víst er að menn notuðu þetta byrgi sem skjól meðan Gjáarrétt var fjallskilarétt. Það hefur líka verið notaðs em fjárbyrgi. Okkur kemur til hugar að byrgið gæti upphaflega verið eldra en Gjáarrétt eða frá sama tíma og seljarústirnar í Selgjá. Byrgið hefur nú látið allmikið á sjá, meðal annars var þar nokkurt hrun vorið 1982.

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Garðaflatir

Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á.

Garðaflatir

FERLIRsfélagar ofan við tóft á Garðaflötum.

Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, en þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést þar til skamms tíma”.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar – ÓSÁ.

Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá, í Helgadal, Kaldárseli og í Selgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.

Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi skráð fund eða haft orð á hvar tóftir kynnu þar að leynast.

Garðaflatir

Garðaflatir – hluti af minjunum.

FERLIR var nýlega á ferð á Garðaflötum. Með framangreinda sögu að leiðarljósi var ákveðið að leita svæðið og kanna hvort þar væru einhverjar minjar að finna. Vetrarsólin var lágt á lofti þótt um miðjan dag væri. Við leit fundust a.m.k. fimm tóttir, þar af ein mjög stór, sem og garður umleikis. Stærsta tófin er syðst, norðan hennar virðist vera gerði og garður út frá því. Innar eru minni tóftir.
Fundurinn gefur sögunni byr undir báða vængi. Nú þarf bara að kanna svæðið betur og aldursgreina minjarnar.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Búrfellsrétt

FERLIR hefur nokkrum sinnum þrætt Búrfellsgjá sem og systur hennar, Selgjá. Jafnan hefur það verið á leiðum til annarra nálægra áfangastaða, s.s. Garðaflata, Valabóls, Helgafells o.fl.
Nú var ætlunin að ganga upp (austur) gjána, skoða Gjáarrétt, Gerðið, fyrirhleðslur við skúta, gamlar götur og halda síðan áfram á Búrfell. Gerðið (Réttargerðið)Fyrri lýsingar af svæðinu voru gerðar í tíð fornvefsíðu FERLIRs, en við “klónunina” misfórust (týndust) sumar þeirra á rafleiðunum, m.a. ein sú yfirgripsmesta frá Gjáarréttarsvæðinu. Í henni var m.a. lýst hinum fornu götum um gjána. Þessar forlýsingar hafa þó varðveist í afritum.
Búrfellið er eldstöð frá nútíma. Fjallið, sem er ólíkt öðrum nöfnum þess á landinu vegna þess að það er gjall- og klepragígur, sem gaf af sér mikinn hraunmassa. Önnur Búrfell eru jafnan umfangsmeiri og úr móbergi eða bólstrabergi. Hraunið þekur um 18 km2 lands. Búrfellsgjá, sem reyndar er hrauntröð með nokkrum þvergjám (sprungum), er 3,5 km löng. Hún liggur niður úr suðvesturhlíð Búrfells og telst meðal bestu dæma um hrauntraðir frá nútíma. Það myndar nú stóran hluta þess gróna lands sem byggðirnar í Hafnarfirði og Garðabæ standa á. Svæðið er bæði aðgengilegt og einstaklega fallegt.
Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Mannvirki í GerðinuBúrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst fyrrnefnt Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellshraunið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Í því eru t.a.m. Norðurgjárhellrar, Þorsteinshellir, Skátahellar, Maríuhellar (Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir) og Jónshellar. Allir, nema Skátahellar, voru notaðir fyrrum sem fjárskjól og má sjá þess merki enn þann dag í dag. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.
Í Búrfellsgjá er Gjáaréttin, grjóthlaðin fjárrétt Álftaneshrepps. Gjáarétt er fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár og var lögrétt fram til 1920. Smalað var til hennar fram yfir 1940. Réttin er hlaðin úr hrauni. Gjáarétt er á fornminjaskrá. Skammt norðan  réttarinnar er Vatnsgjá, er var vatnsból réttarinnar og selja í grenndinni. Hún er alldjúp gjá eða sprunga í hraunbotni Búrfellsgjár. Gjáin er þröng og um 5-6 m. á dýpt.
Þegar lagt var af stað komu fram vangaveltur um örnefnið Búrfell. “Mörg fjöll á Íslandi bera sama nafn eins og Mælifell, Sandfell og Búrfell. Það er augljóst hvers vegna fjöll heita Sandfell og talið er að Mælifell heiti svo m.a. af því að þau helmingi ákveðna ferðamannaleið. En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell?

Forn gata upp úr sunnanverðri Búrfellsgjá

Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar. Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla. Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“ Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell.” Framangreindar upplýsingar um örnefnið er fengnar af vef Örnefnastofnunar Íslands.
Búrfellið hértilgreint er líkt öðrum nöfnum þess að einu leyti; þegar horft er að því úr norðri er mikill systkinasvipur með þeim.
Mannvistarleifar í norðanverðri BúrfellsgjáBúrfell er í austur frá Hafnarfirði, en í umdæmi Garðabæjar. Hraunið rann frá því eftir mjórri rás til vesturs og heitir þessi rauntröð Búrfellsgjá.
Vestast er gjáin grunn og víð. Í þeim enda er Gjáarrétt. Í hana var fénu smalað á haustin af nærliggjandi afréttum til sundurdráttar. Þessi viðburður í lífi fólksins fyrrum var oftast með miklum hátíðarbrag. Unga fólkið safnaðist saman við réttina kvöldið fyrir, sumir gættu fjárins, sem komið hafði af fjöllunum daginn áður, en aðrir vöktu og skemmtu sér. Var stundum slegið upp dansleik og seldar veitingar á svonefndum Garðaflötum sem eru skammt frá réttinni. Kvað svo rammt af gjálífinu að presturinn á Görðum bannaði þar allar skemmtanir um tíma. Vandkvæði tengd skemmtanahaldi eru því ekki ný af nálinni á þessu svæði.
NGjáarveggurátthaginn er sunnan við réttina. Réttin er nú friðlýst af þjóðminjaverði, en Búrfell og gjáin eru á náttúruminjaskrá.
Gjáarétt er fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár og var lögrétt fram til 1920. Smalað var til hennar fram yfir 1940. Réttin er hlaðin úr hrauni og þrátt fyrir að hún hafi verið endurgerð bera veggirnir ummerki eftir afleiðingar jarðskálfta, sem jafnan eru tíðir á svæðinu, enda stendur réttin á þéttri hraunhellu. Skammt norðan réttarinnar er Vatnsgjá, sem fyrr er lýst. Var hún meginvatnsból réttarinnar og selja í grenndinni. Gjáin er alldjúp gjá eða sprunga í hraunbotni gjárinnar. Hún er þröng og um 5-6 m á dýpt. Löguð hafa verið steinþrep niður í hana þar sem vatnsbólið var.
Gjáarrétt var flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Hún var fjarlægð þegar kappreiðavöllur var byggður svo til utan í henni. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 kveður Árni Helgason gjárétt hafa verið hlaðna steinrétt er þjónaði sem fjallskilarétt Álftaneshrepps frá 1840. Mun hún hafa verið nýtt sem slík fram til fram undir 1930.
Fjárskjól efst í BúrfellsgjáHlaðin mannvirki eru í krika suður af Gjáarrétt. Þar er m.a. stórt gerði, væntanlega fyrir hesta því það er með tvöfaldri hleðslu, innra gerði, væntanlega fyrir varning, aktygi o.fl. og síðan hús fyrir fólkið. Í örnefnalýsingu fyrir Garðabæ segir að “hvilft þessi er skeifulaga og hömrum gort á þrjá vegu. Er það hlaðinn garður fyrir og hlið á. Fjársafnið var geymt í Gerðinu nóttina áður en réttað var (heimildamaður; Gísli Guðjónsson). Innst í réttargerðinu er gjárbarmurinn veggbrattur og slútir nokkuð fram yfir sig á kafla. Þar inn undir berginu er hlaðið byrgi, sem ýmsar skýringar eru til á til hvers hafi verið notað. Raunar er augljóst, að þarna er fyrst og fremst um fjárbyrgi að ræða. Víst er einnig, að menn notuðu þetta byrgi sér til skjóls og gistingar, meðan Gjáarrétt var fjallskilarétt. Okkur hefur þó komið til hugar, að byrgið gæti upphaflega verið eldra en Gjáarrétt eða frá sama tíma og seljarústirnar í Selgjá. Gróðurfarið í Gerðinu styður m.a. þessa tilgátu. Byrgið hefur nú látið allmikið á sjá (m.a. varð þar nokkurt hrun vorið 1982).”
Hrafnagjárhluti BúrfellsgjáarGjárréttin varð tilefni deilumáls um miðbik 8. áratugar 19. aldarinnar. Forsaga málsins var sú að þann 28. september 1874 seldi Ingjaldur Sigurðsson, hreppstjóri Seltjarnarneshrepps, þrjá ómerkinga í Gjárrétt. Hann taldi sig vera í fullum rétti til þess þar sem réttin væri í sameiginlegri varðveislu Álftaness- og Seltjarnarneshreppa. Þessari túlkun var hreppstjóri Álftaneshrepps ekki sammála. Hann leit þannig á málið að Álftaneshreppur ætti einn tilkall til þessara ómerkinga. Rök hans voru þau að presturinn í Görðum, sem væri réttarbóndi í Gjárrétt og hefði því yfirráð yfir ómerkingum sem kæmu þar fram, hefði afsalað þessum réttindum í hendur Álftaneshrepps. Eftir árangurslausa sáttatilraun fór málið fyrir dómstóla. Dómur var kveðinn upp í málinu þann 4. ágúst 1875. Samkvæmt honum var hinum stefnda gert að greiða sækjandanum skaðabætur fyrir fénaðinn sem hann seldi. Í dómnum kom einnig fram að Gjárrétt væri sameiginleg rétt Álftaness- og Seltjarnarneshreppa og að réttin væri á landi sem Garðaprestur hefði til ábúðar. Í dómnum segir: “Samkvæmt tilvitnuðum stað í Jónsbók [49. kafli landsleigubálks] á sá, sem rjett vardveitir, ómerkinga; er hann nú almennt nefndur rjettarbóndi, en sá er rjettar bóndi er býr á þeirri jörd í hverrar landi rjettin er byggd. Rjetturinn fær því ekki betur sjed en ad Gardaprestur sem rjettarbóndi hafi með fullum rjetti getad afsalad Álptaneshreppi tilkall sitt til ómerkinga í Gjáarrjett …”

Kleprastandur í Hrafnagjá

Það hefur verið sagt um Krýsuvíkur-Gvend að úr Krýsuvíkurhverfi hafi hann hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldist við í Gjáarrétt með fé sitt og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum og sér þar votta fyrir byrgi sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla. Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan. Í norðaustanverðri Búrfellsgjá má sjá myndarlega fyrirhleðslu við aflangan skúta. Lítið er eftir af hleðslunni, enda hafa kvikmyndagerðarmenn og aðrir farið höndum um grjótið síðan mannsmynd var á fyrirhleðslunni. Syðst í henni má þó enn sjá hlaðinn innganginn.
Í Búrfellsgjá, við mannvirkin, má sjá a.m.k. þrjár fornar götur. Ein liggur upp úr gjánni að norðanverðu gegnt réttinni, önnur upp úr gjánni sunnanverðri skammt austan við Gerðið og sú þriðja til vesturs við mörk Selgjár. Sú síðastnefnda mun hafa heitið Gjáarréttargata (Gjáarrréttarstígur) og lá áleiðis niður að Urriðakoti annars vegar og Vífilsstöðum hins vegar. Hinar göturnar hafa verið leiðir annars vegar heim að Vatnsenda og Elliðavatni og hins vegar niður að Setbergi og í Hafnarfjörð. Fjóra gatan hefur legið upp Búrfellsgjá og síðan upp úr henni yfir á Selvogsgötu ofan Helgadalsmisgengisins því þær útréttir, sem Selvogsbændur urðu að fara í voru, auk Eldborgarréttar Grindvíkinga, Lögbergsréttar við Reykjavík og Ölfusréttar, Gjáarréttin í Búrfellsgjá..
Bláberjalyngið í haustlitunumOfar, að norðanverðu í gjánni, eru leifar að fyrirhleðslu undir framslútandi bergvegg. Þarna sést enn dyraopið þrátt fyrir að öðru hafi verið raskað við gerð kvikmyndar, sem þar var gerð. Líklega hefur þarna verið um fjárskjóla að ræða – skammt frá mannvirkinu í Gerðinu. Á því eru dyrnar manngengar og því að öllum líkindum upphaflega verið hlaðið með það fyrir augum að þar gætu menn hafst við. Áður en útveggurinn hrundi mátti sjá á honum gluggaop eða hugsanlegt eldstæði. Ekki er ólíklegt að þar hafi Krýsuvíkur-Gvendur dvalið þá stuttu tíð er hann hafðist við í Gjáarrétt.
Norðaustar eru Garðaflatir. Sagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.
Auk gamalla sagna um bústað og minjar á Garðaflötum er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá, auk Selgjár ásamt 10 öðrum bæjum á Nesinu. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”, sem fyrr er lýst. Svo virðist sem minjarnar á Garðavöllum hafi fallið í gleymskunnar dá – a.m.k. þar til fyrir nokkrum árum.
Í umsögnum um svæðið hefur gjarnan verið sagt að “engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur”. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.S

Búrfellsgígurinn

vonefndar Garðaflatir liggja við austurbrún Löngubrekka, norðvestan við Búrfell og Búrfellsháls. Hermt er að þar hafi Garðakirkja staðið fyrr á tímum. Í ritinu Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar (bls. 90) er vitnað til sagnaþátta Ólafs Þorvaldssonar, þar sem segi: „Þetta var á svonefndum Garðaflötum, sem liggja norðvestur frá Búrfelli. Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi, og tel ég líklegt, að umgetnar flatir hafi fengið nafn af jörðinni Görðum. Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. (Ólafur Þorvaldsson 1951:50-51). Kemur einnig fram í frásögn Ólafs, að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
Undir norðaustanverðum brekkubrúnum Garðaflata má sjá tóftir, m.a. húss, gerðis og garðs. Enn ofar má sjá þar tóftir tveggja minni bygginga.

Búrfell

Búrfell – Kringlóttagjá framar.

Ofar í Búrfellsgjá, þar sem hún mjókkar og hækkar, heitir Hrafnagjá. Neðst í henni sunnanverðri eru tvö skjól; annars vegar fjárskjól og hins vegar skúti með tveimur inngöngum; til norðurs annars vegar og upp og til vesturs hins vegar.
Fjalla-Eyvindur er frægastur útilegumanna á Íslandi. Hann er í rauninni ágætt (vont) dæmi um það hvernig yfirvöld þess tíma gerðu fátækan mann, sem hafði alla burði til að geta bjargað sér með heiðvirðum hætti, að varanlegum sakamanni. Athafnir þess, sem var “grunur um þjónað”, varð til þess að Eyvindur Jónsson frá Hlíð í Hrunamannhreppi, elstur systkina (tvíburi) varð að dvelja á fjöllum í 40 ár til að viðhalda “frelsi” sínu. Sú reynsla gerði hann að þeim mikla “Þekkingarbrunni” öræfanna er vegna skammsýni nýttist aldrei öðrum eftirlifandi. Minnir málatilbúnaður yfirvaldins á 18. öld margt á það sem hefur verið að gerast hér á landi þremur öldum síðar.

Búrfellsgjá - hrauntröðin

Eyvindur fæddist árið 1713 eða ’14. Um aldamótin þau var Ísland ofurselt danskri einveldisstjórn og harðsvírðuðu verzlunarfyrirkomulagi. Aldrei hefur Ísland verið nær því að gefast upp við að halda lífi í þjóð sinni og aldrei hefur sorfið meir að norrænum kynstofni, utan þess er dó á Grænlandi á fimmtándu og sextándu öld. Síðasta hallærisárið af sjö í röð um aldamótin var árið 1701. Þá var fiskileysi um landi mest allt, að kalla mátti dauðan sjó. Um miðjan maí voru 50 menn fallnir úr hor í Þingeyjarsýslu einni og víða urðu menn fallnir úr hor af næringarskorti. Fólk við sjávarsíðuna lifði helzt á sölum og fjallagrösum. Um þetta leiti er talið að dáið hafi  milli níu og tíu þúsund manns hér á landi, en þeir, sem eftir lifðu voru margir hörmulega útleiknir og biðu þess aldrei bætur, sem lagt hafði verið á þá andlega og líkamlega. Í dag er þetta allflestum geymt og tröllum gefið.
Þá segir sagan að “maður að nafni Geirmundur Bjarnason frá Sviðholti á Álftanesi lá úti upp frá seljum Álftnesinga í þrjár vikur í júní 1704 og lifði eingöngu á súrum og grasi. Sama ár dó skáldið á Stapa á Snæfellsnesi. Guðmundur Bergþórsson hefur varla dáið af of miklum mat eins og nú er eitt algengasta dauðamein hér.” Enn má sjá ummerki eftir Geirmund í Búrfellsgjá – ef vel er að gáð.
Veggir Búrfellsgjár ofanverðrar eru fimm til tíu metra háir. Greinilega má sjá hvernig hraunið hefur runnið. Láréttir taumar á gjárveggjum vitna um það. Tvennt hefur gerst nær samtímis og mjög skyndilega. Annars vegar fann hraunið sér aðra útrás úr gígnum eða jafnvel að gosið hafi stöðvaðist algjörlega, hraunrennsli hætt. Hvert heldur sem gerðist þá tæmdist hins vegar hrauntröðin mjög hratt, veggirnir beggja vegna kólnuðu og varanleg tilvist þeirra var nokkurn vegin tryggð, þó svo að veggirnir kunni að hafa hrunið víða en sums staðar eru þeir ansi háir og myndarlegir.
Efst uppi við sjálfan gíginn eru stórkostlegar hraunmyndanir, hraunið er víða lagskipt, sjá má hvernig litlir hrauntaumar hafa lekið niður vegginn og oft má finna lítil op inn í veggina og þar inni eru fallegir litir. Gígurinn er afmarkaður og litskrúðugastur að norðvestanverðu. Þegar horft er frá gígbrúninni má m.a. líta augum Húsafellið og Bollana að handan í austri, Kringlóttugjá, Valahnúka og Helgafell í suðri, Smyrlabúð í vestri og Hjallana í norðri.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.ust.is/media/skyrslur2003/Burfell.pdf
-http://2www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun
-http://www.gardabaer.is/upload/files/Gardab_kortab_bak.pdf
-http://www.ornefni.is/
-Saga Fjalla-Eyvindar, Guðmundur Guðni Guðmundsson – 1970.
-Örmefni í landi Garðabæjar.
-Gísli Sigurðsson.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá

Þegar gengið er að Búrfellsgjá frá sunnanverðri Vífilsstaðahlíð má lesa eftirfarandi texta á tveimur skilti, annars vegar skammt frá akveginum (bílastæðinu) og hins vegar skömmu áður en komið er að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Gjaarrett

Á hinu fyrrnefnda stendur: “Búfellsgjá er syðst í svonefndu Hjallamisgengi sem nær frá Vílfilsstaðahlíð að elliðavatni.  Austan gjárinnar eru Hjallarnir, fallegar og gróskulegar kjarrbrekkur með vöxtulegum birkihríslum og blómlegum undirgróðri. Skammt frá er Hjalladalur, en þar á flötunum er nú áningarstaður og tjaldstæði. Hálftíma gangur er um Búrfellsgjá að Búrfelli. Gjáin er ein sérstæðasta hrauntröð landsins. Búfell er eldstöð frá nútíma og þaðan rann 18 km2 hraun fyrir um 7200 árum. Gjárétt var hlaðin úr hraungrjóti árið 1839. Hún var fjallskilarétt til ársins 1920 en er nú á fornminjaskrá.”
Á skiltinu við Gjáarrétt og Vatnsgjá stendur: “Búrfellsgjá er 3.5 km hrauntröð sem liggur vestur úr VatnsgjaBúrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta hafi runnið fyrir um 7000 árum.
Gjárrétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjáarbarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað sem fjárbyrgi og afdrep mann til gistingar.
Alldjúp gjá eða sprunga, Vatnsgjá er í botni Búrfellsgjár skammt norðan réttarinnar. Í gjánni eru um sex metrar niður að vatnsborði, vatnið er ferskt og endurnýjast sífellt. Vatnsgjá hefur verið forsenda fyrir selstöðu sem var á þessum slGjaarrett-2óðum.
Leitir til Gjáarréttar voru þrjár. Í Suðurleit var leitað suður fyrir Kleifarvatn og um fjalllendið þar umhverfis. Í miðleit var leitarsvæðið í Kristjánsdölum og í hlíðunum þar uppaf, í Grindarskörðum og þar sem land liggur til norðurs að Húsafelli. Norðurleit var frá Húsafelli norður um Tungur.”
Þá er getið um tilheyrendur einstakra dilka í réttinni, s.s. 1. Grindavík, 2. Vatnsleysuströnd, 3. Suður Hafnarfjörður, 4. Setberg, 5. Hraunabæir, 6. Garðahverfi, 7. Vestur-Hafnarfjörður, 8. Urriðakot og Hofsstaðir, 9. Vílfilsstaðir, 10. Ómerkingar, 11, Vatnsendi o.fl. bæir í Seltjarnarneshreppi, 12. Selvogur og 13. Almenningur.”
Ekki er getið um vestasta dilkinn og þann ógreinilegasta (hefur ekki verið endurhlaðinn) en hann hefur líklega verið safndilkur til undirbúnings áður en fjárhópar einstakra bæja voru reknir frá réttinni um þær þrjár rekstrargötur er enn sjást upp úr Gjánni, þ.e. til Vatnsenda (Elliðavatns), í Hafnarfjörð og Garðahrepp og loks til Selvogs og Grindavíkur.
Tækifærið var notað í blíðviðrinu til að skoða Gerðið skammt frá réttinni, hrauntröðina, Búrfellsgíginn og nærliggjandi hella og skjól.
Víða á vefsíðunni er fjallað um Búrfellsgjá og nágrenni. Hægt er að finna fróðleikinn með því að skrá nafnið/heiti inn í leitarstrenginn efst á síðunni.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – skilti.

Búrfellsgjá

Gengið var um Búrfellsgjá, litið á Gjáarrétt og síðan gengið upp á Garðaflatir austan gjárinnar, norðan Búrfells.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Búrfell er eldstöð frá nútíma og þaðan hefur runnið mikið hraun sem þekur um 18 km2 lands. Búrfellsgjáin sjálf er mikil hrauntröð úr gígnum að vestanverðu, um 3,5 km löng. Hún er meðal bestu dæma um hrauntraðir frá nútíma.
Afurðir Búrfells, Búrfellshraun, tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfell er hringlaga nálægt gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraunið. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er bæði innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli hleðsla í gerði Gjáarréttarer Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.
Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur. Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Hún er grynnri, en breiðari. Segir það nokkuð um hraunmagnið, sem um hana rann. Hæðarmismunurinn á gjánum stafar af misgenginu, sem fyrr er lýst. Á köflum eru gjárveggirnir hrauntraðarinnar í heild þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni. Niðri í Búrfellsgjánni stendur fjárrétt sem nú er friðlýst. Í Selgjánni eru minjar 11 selja frá Görðum. Norðvestan endimörk hennar eru allnokkrir hellar, m.a. fallega hlaðin fjárskjól.
Búrfell og Búrfellsgjá eru með stórkostlegustu náttúruminjum höfuðborgarsvæðisins er gígurinn Búrfell og hrauntröð hans, farvegur hraunsins úr gígnum, Búrfellsgjá. Gjáin er mögnuð gönguleið um land sem vart á sér líka. Steindepillishjónin, sem áttu sér hreiður í gjánni, voru áreiðanlega sama sinni. Söngur þeirra gaf annan tón í annars magnaða fuglahljómhviðuna.
Gjárétt er ævagömul. Hún er hlaðin úr hraungrjóti og er mjög stílhrein. Hún var lögð af sem skilarétt Hafnarfjarðar, Garðahrepps og Bessastaðahrepps um 1920 og er nú friðlýst af þjóðminjaverði.
SteindepillSkammt vestan við réttina er sex metra djúp misgengissprunga sem nefnist Vatnsgjá, og niðri í henni er uppspretta. Vatn er eðlilega mjög torfundið á þessum slóðum, allt hripar það niður í hraunið og hverfur augum vegfarenda. Skýrist þar valið á réttarstæðinu og líklega hefur fé verið haldið þar um tíma áður fyrr, sbr. söguna af Krýsuvíkur-Gvendi.
Veggir Búrfellsgjár eru fimm til tíu metra háir og víða eru hellisskútar í þeim. Greinilega má sjá hvernig hraunið hefur runnið. Taumar gjárveggjanna vitna um það.
Mjög fróðlegt er að skoða gjánna þar sem hún er þrengst, nær því efst uppi við sjálfan gíginn. Þar eru stórkostlegar hraunmyndanir, hraunið er víða lagskipt, sjá má hvernig litlir hrauntaumar hafa lekið niður vegginn og oft má finna lítil op inn í veggina og þar inni eru fallegir litir.
Tóft við GarðaflatirGjáarétt er fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár og var lögrétt fram til 1920. Smalað var til hennar fram yfir 1940. Réttin er hlaðin úr hrauni og þrátt fyrir að hún hafi verið endurgerð bera veggirnir ummerki eftir afleiðingar jarðskálfta, sem jafnan eru tíðir á svæðinu, enda stendur réttin á þéttri hraunhellu. Gjáarétt er á fornminjaskrá. Skammt norðan réttarinnar er Vatnsgjá, sem fyrr er lýst. Var hún meginvatnsból réttarinnar og selja í grenndinni. Gjáin er alldjúp gjá eða sprunga í hraunbotni gjárinnar. Hún er þröng og um 5-6 m á dýpt. Löguð hafa verið steinþrep niður í hana þar sem vatnsbólið var.
Gjárétt (eða Gjáarétt) mun hafa verið fjallskilarétt (lögrétt) til 1920 en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 kveður Árni Helgason gjárétt hafa verið hlaðna steinrétt er þjónaði sem fjallskilarétt Álftaneshrepps frá 1840.
Tóft við GarðaflatirÞað hefur verið sagt um Krýsuvíkur-Gvend að úr Krýsuvíkurhverfi hafi hann hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldist við í Gjáarrétt með fé sitt og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum og sér þar votta fyrir byrgi sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla. Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan. Í norðaustanverðri Búrfellsgjá má sjá myndarlega fyrirhleðslu við aflangan skúta. Lítið er eftir af hleðslunni, enda hafa kvikmyndagerðarmenn og aðrir farið höndum um grjótið síðan mannsmynd var á fyrirhleðslunni. Syðst í henni má þó enn sjá hlaðinn innganginn.
Tóft við GarðaflatirSagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.
Auk gamalla sagna um bústað og minjar á Garðaflötum er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”. Svo virðist sem minjarnar á Garðavöllum hafi fallið í gleymskunnar dá – a.m.k. þar til fyrir nokkrum árum.
Í umsögnum um svæðið hefur gjarnan verið sagt að “engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.”
Lóuhreiðir við GarðaflatirSvonefndar Garðaflatir liggja við austurbrún Löngubrekka, norðvestan við Búrfell og Búrfellsháls. Hermt er að þar hafi Garðakirkja staðið fyrr á tímum. Í ritinu Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar (bls. 90) er vitnað til sagnaþátta Ólafs Þorvaldssonar, þar sem segi: „Þetta var á svonefndum Garðaflötum, sem liggja norðvestur frá Búrfelli. Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi, og tel ég líklegt, að umgetnar flatir hafi fengið nafn af jörðinni Görðum. Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. (Ólafur Þorvaldsson 1951:50-51). Kemur einnig fram í frásögn Ólafs, að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
Undir norðaustanverðum brekkubrúnum Garðaflata má sjá tóftir, m.a. húss, gerðis og garðs. Enn ofar má sjá þar tóftir tveggja minni bygginga, líklega fornra topphlaðinna fjárborga. Lóuhreiður var utan í garðinum – með fjórum eggjum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.ust.is/media/skyrslur2003/Burfell.pdf
-http://2www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun
-http://www.gardabaer.is/upload/files/Gardab_kortab_bak.pdf

Burfell