Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: “Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?”
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

“Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma, en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.”

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.