Fimm svæði innan marka Hafnarfjarðar voru nýlega friðlýst. Svæðin bætast við áður friðlýst svæði í umdæmi bæjarins, þ.e. Reykjanesfólkvang, Hamarinn og Ásfjall.
Formleg friðlýsing skv. náttúruverndarlögum er eina leiðin til þess að tryggja varðveislu svæða til ótímabundinnar framtíðar. Oft halda önnur úrræði ekki nema út eitt til tvö kjörtímabil viðkomandi sveitarstjórna. Með formlegri friðlýsingu er svæðinu tryggð framtíð og um leið tryggt aðgengi almennings í samræmi við almennar reglur þar að lútandi.
Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan Reykjanesfólkvangs. Eldfjöll eru mörg, einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergs- fjöll og stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu (friðlýstur 1975).
Á Hamrinum eru jökulminjar. Hann setur mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamrinum tengjast sögur um álfa og huldufólk (friðlýstur 1984).
Ásfjall í Hafnarfirði er umlukinn fólkvangi. Hann umlykur svo friðland Ástjarnar. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru menjar um hersetu fyrr á öldinni (friðlýst 1996).
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra undirritaði friðlýsingarnar fimm við athöfn að Hleinum á Langeyrarmölum.
Fulltrúi bæjarins staðfesti friðlýsinguna.
Þrír fólkvangar og tvö náttúruvætti voru friðlýst til útivistar og verndunar á lífríki og raunmyndunum. Fólkvangar voru stofnaðir við Hvaleyrarlón, Hleina og í Stekkjahrauni. Litluborgir og hluti af Kaldárhrauni voru friðlýst sem náttúruvætti.
Litluborgir við Helgafell voru friðlýstar sem náttúruvætti til að vernda sérstæðar jarðmyndanir. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr. Í friðlýsingarskjali segir m.a. að “almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. vélsleða, er óheimil í náttúruvættinu”.
Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, voru friðlýst sem náttúruvætti til að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli. Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Í friðlýsingunni segir m.a. að “óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu. Einnig er þar óheimilt að spilla gróðri og trufla dýralíf og eru skotveiðar bannaðar. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt menningarminjar á hinu friðlýsta svæði”.
Fólkvangur var stofnaður á Hleinum að Langeyrarmölum til að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og það er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Svæðið er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúruverndaráætlun 2004-2008. Í friðlýsingunnis egir m.a.: “Umsjón og rekstur fólkvangsins skal vera í höndum umhverfisnefndar
Hafnarfjarðarbæjar, samkvæmt samningi milli Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar sem umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir fólkvanginn í samráði við Hafnarfjarðarbæ”.
Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur til að vernda lífríki og leirur svæðisins sem eru m.a. mikilvægt búsvæði fugla og til að tryggja útivistar- og fræðslusvæði til útiveru og fuglaskoðunar. Dýralíf í leiru er allauðugt og er fuglalíf sérlega auðugt á svæðinu. Aðgengi fyrir íbúa er gott og einnig eru grunnskóli og leikskóli í nágrenninu og svæðið því tilvalið til útikennslu. Svæðið hefur lengi verið vinsælt til útivistar og er ákjósanlegt til fuglaskoðunar allt árið, en oft má sjá á svæðinu sjaldséða gesti eins og t.d. gráhegra. Í friðlýsingunni segir m.a: “Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og umhverfisnefndar Hafnarfjarðarbæjar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum tilfellum gangi það ekki gegn markmiðum friðlýsingarinnar”.
Stekkjarhraun var friðlýst sem fólkvangur er að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. Stekkjarhraun er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Hraunið er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli. Í friðýsingunni segir m.a.: “Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum”.
Þrátt fyrir að einstök svæðin gefi einungis takmarkaða mynd af raunverulega minjagildi verður að taka viljan fyrir verkið. Sumum svæðunum hefur verið spillt vegna framkvæmda. Því má segja með nokkrum sanni að með friðlýsingunni eru aðilar að friðþægja slæma samvisku, sem er í rauninni ekki svo lítil fyrirgefning landssvæðunum til handa. T.d. munaði ekki nema hársbreidd að línuvegur yrði lagður yfir Litluborgir á sínum tíma. Það var einungis fyrir snarræði þáverandi nefndarmanns hjá Hafnarfjarðarbæ að vegurinn var færður þangað sem hann er nú. Samt sem áður liggur vegurinn að hluta til á náttúruminjasvæði Litluborga því hliðstæð jarðfræðifyrirbæri eru undir honum.
Heimild:
-http://www.umhverfisraduneyti.is
-www.ust.is