Hraunin

“Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti.

Straumur

Straumur.

Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður í þremur greinum rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa og góna,
Garðhverfinga sjá þeir róna.

Þessi gamli húsgangur um nágrannana í Garðahverfi og Hraunum segir sína sögu um kappsfulla sjósóknara sem réru á bátskeljunum sínum frá vörum í Hraunum og frá Dysjum í Garðahverfi.

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Meðalbú 18-20 kindur og 1-3 kýr

Brennisel

Brennisel – kolasel frá Óttarsstöðum.

Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.
Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur.

Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.

Þýskabúð

Útihús við Þýskubúð.

Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum. Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri (vestari) og neðri (austari).

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.

Frábært útivistar- og göngusvæði

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.
Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.

Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Þurrabúðarmenn og inntökuskip

Óttarsstaðir

Óttarsstaðarétt.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – baðstofuglugginn.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Landmótun í Hraunum

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.
Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi.

Hraunin

Hraunin – jarðfræðikort ÍSOR.

Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Straumur

Straumur.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík. Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju..

Leiðin suður með sjó og leiðir suður yfir skagann

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krýsuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurnveginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krýsuvíkur.

Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar hefur dustað af því rykið, ef svo mætti segja, og merkt stígana í Hraununum með skiltum.

Hvað verður um Hraunin?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.

Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Útihús við Óttarsstaði.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í næstu framtíð má telja víst að Hraunin verði útivistarsvæði. Eins og sakir standa eru þó annmarkar á því. Enda þótt merktur göngustígur liggi frá Eyðikoti til Lónakots er yfir girðingar að fara og einkalönd. Stundum eru hross þar í girðingum og þá er áríðandi að hliðum sé lokað, en ekki er víst að allir hirði um það. Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Til þess að svo geti orðið þyrfti að kaupa það sem eftir er í einkaeign og sumarbústaðir og girðingar ættu þá ekki að vera þar framar.” -Magnús Jónsson, fv. minjavörðu, Hafnarfirði.

Framangreind umfjöllun Magnúsar minjavarðar birtist áður á annarri vefsíðu, sem nú er, líkt og svo margar sambærilegar vefsíður, horfin á vit algleymisins. Þessu má öfugt líkja annars vegar við gamlar ljósmyndir á pappír og hins vegar þær, sem síðar urðu til með tilkomu hinnar stafrænu tækni. Hinar síðarnefndu munu einnig með tímanum hverfa út í “cosmósið”…

Hraunkarl

Hraunkona í Hraunum.