Guðmundur Kjartansson skrifaði um “Hraunin kringum Hafnarfjörð” í jólablað Þjóðviljans árið 1954:
Hraun ofan Hafnarfjarðar – uppdráttur GK.
“Ekki verður komist landveg til Hafnarfjarðar úr öðrum byggðarlögum án þess að fara yfir hraun, því að kvíslar úr hinu mikla hraunflæmi Reykjanesskagans ná út í sjó báðum megin fjarðarins. Auk þess stendur hálfur kaupstaðurinn (þ. e. fyrir norðan eða „vestan” læk) í hrauni, en hinn hlutinn (fyrir sunnan læk) er hraunlaus. Hraunið í Vesturbænum er í meira lagi mishæðótt og setur einkennilegan og fáséðan svip á þennan bæjarhluta. Hraunhólar og drangar skaga jafnvel hærra upp en húsin; gömlu göturnar laga sig eftir landslaginu, brattar og krókóttar, en hinar nýrri, sem liggja beinna, eru ýmist hlaðnar Hátt upp yfir hraunbolla og gjár eða sprengdar djúpt niður í gegnum hraunkambana. Þarna í Vesturbænum, þar sem hraunið er hvað úfnast, er skrúðgarður Hafnfirðinga, Hellisgerði.
Hellisgerði.
Að landslagi til, á sá skrúðgarður sér engan líka hér á landi. Þetta hraun, sem hluti Hafnarfjarðarbæjar stendur í, mun ég í þessu erindi kalla Hafnarfjarðarhraun til hægðarauka, því að það er ein heild, upp komið í einu gosi. En raunar heita ýmsir hlutar þess sérstökum nöfnum: Gálgahraun, Garðahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun o.fl.
Í Vífilsstaðahrauni.
Suðurbærinn í Hafnarfirði stendur í stórri eyju, sem hraun umkringja, og sunnan hennar (sunnan við Hvaleyri) tekur við mikil breiða af mörgum misgömlum hraunum, óslitin suður að Vogastapa. Hér verður aðeins getið þeirra tveggja af suðurhraununum, sem næst liggja Hafnarfirði. Þó að þetta greinarkorn eigi aðallega að fjalla um hraun, þá þykir mér hlýða að fara um það nokkrum orðum, hvernig umhorfs var hér í Firðinum, áður en hraunin urðu til. Ég ætla því að rekja í tímaröð helstu stórviðburði í sköpunarsögu Hafnarfjarðar frá ísöld.
Hvaleyrarhraun – loftmynd.
Röð viðburðanna má heita ljós, en því miður get ég ekki tímasett þá nema heldur ónákvæmt og skal ekki eyða mörgum orðum að því. Tímasetningin stendur þó til bóta við nánari rannsóknir.
Markaðar klappir á Hamrinum.
Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar, undirstaðan sem allt annað hvílir á, er grágrýti. Úr þeirri bergtegund er allt það, sem við myndum í daglegu tali kalla fasta klöpp, að undanskildum hraununum. Hamarinn, sem Flensborgarskóiinn stendur á, er úr grágrýti, ennfremur allar þær hæðir í grenndinni, sem hafa „holt”, „hlíð”, „brún, „hæð” eða „alda” að endingu í nafni sínu. Ásfjall er ein af rismestu grágrýtishæðunum. Víðast er grágrýtisklöppin hulin lausum jarðlögum, þ.e. ýmiss konar melum eða grónum jarðvegi, En hvar, sem til er grafið, kemur niður á klöppina fyrr eða síðar, og mjög víða liggur hún ber.
Ástjörn og Ásfjall.
Hér verður ekki frá því sagt hvernig þetta öldótta grágrýtislandslag varð til, heldur hefjum við þar söguna, er það er að verða fullmyndað og hvert holt og hæð hefur fengið núverandi lögun sína í öllum stórum dráttum.
Búrfellshraun – kort. Hraunið náði allt að Hraunum ofan Straumsvíkur (sjá Selhraun), en yngri hraun, s.s. Kapelluhraun, Óbrinnishólahraun, Skúlatúnshraun, Stóra-Bolla- og Tví-Bollahraun og Hraunhólshraun (Sandklofahraun) hafa þakið það að mestu leyti.
Einu hljótum við þó að veita athygli um uppruna þessa landslags: Sá, sem þar vann að síðastur hefur rist fangamark sitt skýrum stöfum í klappirnar. En það var jökulskjöldur sá, er lá yfir því nær öllu íslandi á síðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Jöklar liggja ekki kyrrir, heldur mjakast undan hallanum og sópa með sér lausagrjóti og lausum jarðlögum; sem verða á vegi þeirra.
Hamarinn – hvalbök.
Grjótið frýs fast í botnlagi jökulíssins og dragnast með. Með því grópar og rispar jökullinn klöppina líkt og skörðótt hefiltönn. Frostið sprengir nýtt lausagrjót upp úr botnsklöppinni, svo að það gengur meira til þurrðar. Flestar grágrýtisklappir í grennd við Hafnarfjörð eru skýrt rispaðar með þessu móti og rispurnar stefna allar h.u.b. frá SA til NV. Hreyfing jökulsins hefur verið undan hallanum, ofan af Reykjanesfjallgarði út í Faxaflóa. Einkar skýrar og fallegar jökulrispur eru uppi á Hamrinum fast norðan við Flensborgarskóla. Jökullinn hefur mætt fast á þessum grágrýtishnjót á botni sínum og fastast á þeim klöppum, sem hallar til suðausturs gegnt skriðstefnu hans; þar eru rispurnar dýpstar og allar brúnir ávalaðar og máðar.
Hamarinn – upplýsingaskilti.
Um margar þúsundir ára svarf ísaldarjökull ofan af grágrýtisspildunni, sem þá mun hafa náð óslitin um allt það svæði, sem nú er sunnanverður Faxaflói og sveitir og heiðar upp frá honum allt til Þingvallavatns.
Í ísaldarlokin, sennilega fyrir fullum 10 þúsundum ára, bráðnaði þessi jökull fyrir batnandi loftslagi. En klappirnar bera æ síðan þær minjar hans, sem þegar er getið, og annars staðar eru þær þaktar jökulruðningi, þ.e. leir og grjóti, sem jökullinn ýtti með sér og lá eftir, er hann bráðnaði. Um þessar mundir leysti ísaldarjökla víða um heim, og við það hækkaði í öllum höfum. Fyrir þá hækkun var sennilega mikið af botni Faxaflóa ofan sjávar. Sjórinn hækkaði meir en upp að núverandi sjávarmáli. Mun hann hafa náð mestri hæð skömmu eftir að jökulinn leysti hér í grennd.
Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.
Enn má glögglega sjá hér á holtunum við Hafnarfjörð og Reykjavík, hvar sjávarborðið hefur legið, er það var hæst. Þau merki köllum við efstu sjávarmörk. Þau liggja í 33 metra hæð yfir núverandi sjávarmál á Hvaleyrarholti sunnan við Hafnarfjörð, en um 10 m hærra á Öskjuhlíð í Reykjavík. Austur í Ölfusi er hæð efstu sjávarmarka um 60 m, uppi í Borgarfirði 80—100 m og Austur í Hreppum allt að 110 m.
Þessi mismunur stafar vitaskuld ekki af því, að sjávarfletinum hafi hallað, er hann lá sem hæst; heldur af því að þessir staðir hafa lyftst mismikið síðan. En ástæðan til þess, að sjórinn fjaraði aftur af undirlendinu, er sú, að landið tók að lyftast, er jökulfarginu létti af því. Áður hafði jökullinn sveigt það niður.
Fuglastapaþúfa.
En landið lyftist afar hægt, og því vann sjórinn á í bili og flæddi inn yfir láglendið, er hann hækkaði í ísaldarlokin, Markalínari efstu sjávarmörk kemur einna gleggst fram í því, að neðan hennar er stórgrýtið, sem jöklinum lá þar eftir, orðið að lábörðum hnullungum af að velkjast í brimi; en ofan línunnar verður þetta grjót snögglega með flötum hliðum og lítt slævðum brúnum, eins og jökullinn skildi við það. Þá hafa hnullungarnir einnig víða kastast upp í kamba, sem marka hæstu sjávarstöðuna einkar glöggt og eru í engu frábrugðnir nýmynduðum sjávarkömbum, nema hvað mold og þurrlendisgróður er nú kominn á milli steinanna.
Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.
Yzt á holtunum, ” þar sem brimasamast hefur verið, hafa sjóirnir sums staðar klappað bergstáli í þau. Efstu sjávarmörk eru einkar glögg hringinn í kringum Hvaleyrarholt, nema áð austan, þar sem mjótt eiði hefur tengt það við meginlandið. Frá Hvaleyrarholti má rekja þessa fornu fjöru í sömu hæð neðan við túnið á Jófríðarstöðum umhverfis hamarinn hjá Flensborg (sem aftur er fornt sjávarberg) og inn í Lækjarbotna. Þaðan heldur hún áfram, glögg malar- og hnullungafjara, en að vísu grasi gróin, laust neðan við Setbergsbæinn og um hlaðið á Þórsbergi. Loks hverfa þessi efstu sjávarmörk undir Hafnarfjarðarhraun, sem rann löngu eftir að sjórinn fjaraði frá þeim.
Rauðhóll – uppdráttur GK.
Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll. Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskálarinnar uppi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift.
Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur undir Vatnsskarði.
Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins kornið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlesnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndast víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu ber en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
Dýpst í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur).
Rauðhóll 2020.
Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur sest til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til. Enn fremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún.
Rauðamöl í Rauðhól.
Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Ég hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt inn yfir landið, þar sem tjörnin var áður.
Hraunhóll undir Vatnsskarði.
Enn fremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur ennfremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið. Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgast þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en. ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elsta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok,; enda ekki kallað hraun í daglegu tali.
Rauðhóll – uppdráttur GK.
Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin ystu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu.
Rauðamöl.
En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.
Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.
Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elst þeirra allra. En það er helst ellimarka á því, að sjórinn hefur klappað í það nokkurra mannhæða háan bergstall um núverandi sjávarmál, þar sem nú heita Gjögrin sunnan við Hvaleyrarsand.
Ég hef áður getið að nokkru Hafnarfjarðarhrauns, þ.e. hraunsins sem nær út í Hafnarfjörð norðanverðan og kaupstaðurinn stendur að nokkru leyti í. Þetta hraun er auðvelt að rekja til upptaka. Það hefur komið upp í Búrfelli eða Búrfellsgíg skammt norðaustur frá Kaldárseli. Þaðan hafa runnið hraun eitthvað til suðurs og suðvesturs, en þau hverfra skammt frá upptökum undir yngri hraun, og verður eigi vitað, hvert þau hafa komist.
Í Garðahrauni.
En langveigamesti hraunstraumurinn er Hafnarfjarðarhraun, sem teygist til norðvesturs og nær niður í sjó báðum megin við Álftanes, annars vegar að Lambhúsatjörn, sem er vogur inn úr Skerjafirði, er vogur inn úr Skerjafirði, hins vegar í Hafnarfjörð. Þetta er 12 kílómetra vegur mælt eftir miðjum hraunstraumnum. Minni kvísl úr þessum hraunstraumi hefur runnið sunnan við Setbergshlíð og breiðst þar yfir, sem nú heitir Gráhelluhraun; þaðan hefur hún runnið í mjóum taumi áfram ofan lækjargil og komið saman við meginhraunið aftur niðri á Hörðuvöllum.
Gígur Búrfells.
Í Búrfelli er stór og djúpur gígur, en það er lítið einstakt eldfjall, aðeins 179 m yfir sjó og fáir tugir metra frá rótum. Sennilegast þykir mér, að þar hafi gosið aðeins einu sinni og öll hraunin, sem þaðan hafa runnið, séu því jafngömul, en ekki er þetta óyggjandi, þó að ég ætli nú að gera ráð fyrir því. Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til.
Í Maríuhellum.
Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið.
Kaldárbotnar.
Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er enn fremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga. Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helst jafngamalt Hafnarfjarðarhrauni eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs.
Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.
Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hraunið rann síðan. Við getum kallað þetta vatnsfall „Fornu-Kaldá”. Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki frá vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því.
Kaldá.
Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans. Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynst heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið.
Búrfell.
Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur. Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og myndi einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls.
Misgengi í Helgadal – uppdráttur GK.
Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af.
Farvegir Kaldár.
Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komist ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komist til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.
Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.
Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð með fram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun.
Kapelluhraun og nágrenni – fornar leiðir og örnefni.
Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þennan hraunjaðar. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni.
Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur GK.
Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði. Í Kjalnesinga sögu er getið hrauns, sem þar er kallað Nýjahraun, og er þar varla öðru til að dreifa en Brunanum. Og í máldaga, sem talinn er vera frá miðri 15. öld, er nafnið Nýjahraun haft alveg ótvírætt um það, sem nú heitir þykir nafnið Nýjahraun (sem nú hefur fyrnst) benda eindregið til, að menn hafi verið sjónarvottar að myndun hraunsins, það hafi ekki runnið fyrr en á landnámsöld eða söguöld. Að vísu hefur engin frásögn um það eldgos varðveist til þessa dags.
Tvíbollar.
En annálariturum hefur löngum þótt annað merkilegra til frásagnar en náttúruviðburðir, og þögn þeirra sannar ekkert. Enda er fullvíst, að fleiri eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga, löngu eftir að land byggðist, án þess að þeirra sé nokkurs staðar getið í annálum. Hér hlýt ég að enda þetta gloppótta söguágrip, þar sem aðeins stórviðburða er getið, því að síðan Kapelluhraun rann í sjó fram á fyrstu öldum Íslands byggðar, hafa engin þau tíðindi orðið í nágrenni Hafnarfjarðar, er sambærileg séu að mikilfengleika þeim sem nú var sagt frá.”
Heimild:
-Guðmundur Kjartansson, Hraunin kringum Hafnarfjörð. Þjóðviljinn 24. 12. 1954, jólablað, bls. 10-12.
-Náttúrufræðingurinn 19. árg. 1. hefti 1949, Guðmundur Kjartansson, Rauðhóll, bls. 9.-19.
Búrfell – Kringlóttagjá nær.