Færslur

Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: “Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?”
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

“Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma (eftir að ísöld lauk), en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.”

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Selgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt; “Hverjar eru helstu fornleifar í Garðabæ?”
Svarið, að hluta, var: “Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum.”

Búrfell

Búrfellsgígur.

Á vefsíðu Umhverfisstofnunar árið 2020 er m.a. fjallað um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ friðlýst. Hafa ber í huga að minjarnar í Selgjá höfðu áður verið friðslýstar árið 1964.
“Í dag, 25. júní, undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ sem náttúruvætti.

Selgjá

Einn Selgjárfjárhellanna – Norðurgjárhellrir.

Svæðið er gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Jafnframt er svæðið vinsælt útivistarsvæði. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Búrfellsgjá

Selgjá og nálæg friðlýsingarsvæði.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið.

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Undirritunin fór fram á vettvangi að viðstöddum fulltrúum Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk fleiri gesta.
Að lokinni undirritun var boðið upp á fræðslugöngu um svæðið sem var leidd af Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi.”

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ var sem sagt friðlýst sem náttúruvætti þann 25. júní 2020.

“Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Svæðið er 380 ha að stærð.”

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Í auglýsingu á vef Umhverfisstofnunar “nr. 687 25. júní 2020 um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ”, segir:

1. gr.
Um friðlýsinguna.

Búrfellsgjá

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa og Umhverfisstofnunar að friðlýsa Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum.
Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Merkar hrauntraðir eru í helluhraununum næst Búrfelli. Kringlóttagjá er sunnan við Búrfell og Lambagjá við Kaldársel. Búrfellsgjá og Selgjá liggja frá Búrfelli að Urriðakotshrauni. Þær eru í raun sama hrauntröðin, en hún skiptir um nafn við Hrafnagjá. Næst gígnum er Búrfellsgjá þröng og með bröttum veggjum. Þegar kemur niður á jafnsléttu verður hún lægri og víðari. Selgjá er slétt og breið með lágum veggjum. Hún hverfur á kafla þar sem hraunrásir með hellum taka við, en kemur aftur fram á kafla norðar í Heiðmörk. Fjölmargir hraunhellar og skútar eru í Búrfellshrauni. Margir þeirra hafa nýst sem fjárhellar og eru hleðslur við suma þeirra. Langflestir þeirra eru hraunrásarhellar sem myndast þegar hraunrásir tæmast. Margir slíkir eru rétt norðan við enda Selgjár og kallast þeir einu nafni Selgjárhellar. Fjölmargar sprungur og misgengi eru á svæðinu. Stefna þeirra er í langflestum tilvikum til norðausturs. Mestu og virkustu misgengin eru á mörkum Selgjár og Búrfells. Þar gengur Hjallamisgengið þvert yfir hraunið ásamt nokkrum minni misgengjum, þ. á m. Hrafnagjá og Vatnsgjá.

Búrfellsgjá

Við friðlýsingu Búrfellsgjár og Selgjár.

Helstu vistgerðir innan svæðisins eru birkiskógur. Þar er einnig að finna hraunlendi þar sem er fyrst og fremst um að ræða mosahraunavist en einnig lynghraunavist á milli og á stöku stað eyðihraunavist. Á skjólgóðum svæðum sem liggja lægra í landi er að finna lyngmóavist og grasmóavist.
Innan svæðisins er talsvert um friðlýstar fornminjar, fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Gjáarétt liggur í vesturenda Búrfellsgjár auk fyrirhleðsla, réttargerðis og vatnsbólsins Vatnsgjár. Menningarminjarnar eru friðlýstar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Svæðið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu, og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt
útivistarsvæði. Hluti svæðisins liggur innan Reykjanesfólkvangs.
Hið friðlýsta svæði er 3,4 km2 að stærð.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.

Selgjá

Selshellir í Selgjá.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.

Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við
höfuðborgarsvæðið.

3. gr.
Mörk náttúruvættisins.
Mörk svæðisins eru sýnd á korti í viðauka I og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

4. gr.
Verndun jarðminja.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Óheimilt er að hrófla við, raska eða skemma jarðmyndanir innan náttúruvættisins nema til komi sérstakt leyfi frá Umhverfisstofnun og Garðabæ. Til verndunar jarðmyndana er heimilt, að fenginni umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands, að fjarlægja gróður sem skyggir á jarðmyndanirnar.
Óheimilt er að planta hvers konar plöntum í jarðmyndunum.
Nánar skal fjallað um verndun jarðminja í stjórnunar- og verndaráætlun.

5. gr.
Verndun gróðurs og dýralífs.

Búrfellsgjá

Minjar í Búrfellsgjá.

Vernda skal náttúrulegt gróðurfar með það að markmiði að ekki verði raskað líffræðilegri fjölbreytni svæðisins.
Óheimilt er að spilla gróðri, öðrum en ágengum framandi tegundum, nema um sé að ræða gróður sem spillir útsýni að jarðmyndunum á svæðinu. Vinna skal að því að fjarlægja ágengar framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það.
Óheimilt er að trufla dýralíf á svæðinu að undanskildum framandi tegundum.
Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á verndarsvæðinu þ.m.t. rækta framandi plöntutegundir í náttúruvættinu sbr. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000.
Nánar skal fjalla um verndun gróðurs og dýralífs í stjórnunar- og verndaráætlun.

6. gr.
Vernd menningarminja.
Um vernd menningarminja fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

7. gr.
Umferð um verndarsvæðið.

Selgjá

B-steinninn í Selgjá.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Gestir skulu, eftir fremsta megni, fara eftir þar til gerðum stígum og stikuðum leiðum. Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum.
Akstur vélknúinna ökutækja utan vega er óheimill, sbr. 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Innan náttúruvættisins er óheimilt að hafa næturgistingu í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði.
Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla.

Selgjá

Skilti við Selgjá.

Hundar og önnur gæludýr skulu ávallt vera í taumi innan verndarsvæðisins og þess skal gætt að þau séu undir tryggri stjórn og að þau valdi ekki truflun fyrir gesti og dýralíf svæðisins.
Notkun fjarstýrðra loftfara er óheimil innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun. Þó er heimilt að nota fjarstýrð loftför, ef nauðsyn krefur, vegna leitar- og björgunaraðgerða og vegna umsjónar og eftirlits Umhverfisstofnunar. Minjastofnun Íslands hefur sömu heimildir innan friðhelgunarsvæðis menningarminja. Að öðru leyti skal farið eftir reglugerð nr. 990/2017
um starfrækslu fjarstýrðra loftfara.
Nánar skal fjallað um umferð um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun og deiliskipulagi fyrir svæðið.

8. gr.
Umgengni um verndarsvæðið.
Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan verndarsvæðisins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

9. gr.
Umsjón.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013.
Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum, sveitarfélögum eða öðrum lögaðilum umsjón og rekstur sbr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Til grundvallar samningi um umsjón og rekstur svæðisins skal liggja fyrir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, menntun starfsmanna og gjaldtöku.
Minjastofnun Íslands fer með umsjón menningarminja á svæðinu skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

10. gr.
Stjórnunar- og verndaráætlun.

Búrfellsgjá

Gróður við Búrfellsgjá.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýsta svæðið í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, mannvirkjagerð, starfsemi, menningarminjar, landvörslu, vöktun, verndun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, aðgengi og umferð gesta, þ. á m. aðgengi fólks með hreyfihömlun.
Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila.
Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

11. gr.
Rannsóknir og vöktun.
Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.
Aðrar rannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.
Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

12. gr.
Fræðsla.

Selgjá

Selgjá.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ, hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um m.a. umgengnisreglur sem gilda á svæðinu og sérstöðu svæðisins.
Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

13. gr.
Landnotkun og mannvirkjagerð.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

Allar framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð og aðrar breytingar á landi innan friðlýsta svæðisins eru háðar leyfi Garðabæjar, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010 og Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis Minjastofnunar Íslands. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.
Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif utan friðlýsta svæðisins sem áhrif geta haft á verndargildi þess skal fyllstu aðgæslu gætt.
Vegna starfsemi eða framkvæmda, sem geta haft áhrif á friðlýsta svæðið, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt.
Losun jarðefna og úrgangs er óheimil innan friðlýsta svæðisins.

14. gr.
Starfsemi innan svæðisins.

Selgjá

Fjárhellir í Selgjá.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á jarðrask, aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, listviðburða og samkomuhalds. Innan friðhelgunarsvæða menningarminja þarf einnig að afla leyfis
Minjastofnunar Íslands.
Starfsemi skal vera í samræmi við skipulag svæðisins.
Nánar skal fjallað um starfsemi innan svæðisins í stjórnunar- og verndaráætlun.

15. gr.
Notkun skotvopna.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Notkun skotvopna er bönnuð innan marka náttúruvættisins. Veiðar á ágengum framandi tegundum eru heimilar í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum enda skulu þær stundaðar á vegum Garðabæjar og í samráði við Umhverfisstofnun.
Nánar skal fjallað um veiðar innan náttúruvættisins í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

16. gr.
Viðurlög.
Um brot gegn friðlýsingunni fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

17. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Bráðabirgðaákvæði.

Selgjá

Stekkur í Selgjá.

Þar til staðfest deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið liggja fyrir er Umhverfisstofnun heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmdum ef þær ganga ekki gegn verndarmarkmiðum friðlýsingarinnar.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. júní 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Jón Geir Pétursson.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: “Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.” Einnig er þar: “Nær hún allt frá Sauðahelli suður á Norðurhellagjárbarm.” Selgjárbarmar eru tveir, “annar að sunnan, hinn að vestan”, Norðurhellnagjárbarmur syðri er “nær Vífilsstaðahlíð” en Norðurhellnagjárbarmur vestri “nær Tjarnholtinu”.
Í Ódagsettri Örnefnalýsingu segir: “Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18.öld. Við Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er þar Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt: Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.” (Bls. 4).”

Selgjá

Eitt seljanna í Selgjá.

Í Örnefnalýsingu 1988 segir: “Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. […] Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.” Í lýsingu á gjánni frá 1983 segir: “Á vinstri hönd, eða til suðurs, sjáum við af brúninni grunna, en nokkuð breiða gjá í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá).

Selgjá

Selgjá – selsminjar.

Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.” (Þ.J. og Ó.K.: 27). Minjarnar í Selgjá eru friðlýstar: “Urriðavatn: Seltóftir margar, hellar og önnur mannvirki í og við norðurenda Selgjár. Skjal undirritað af KE 30.04.1964. Þinglýst 05.05.1964.”

Selgjá

Selgjá – Norðurhellahellrir.

Sjá meira HÉR um minjarnar í Selgjá.

Heimildir
-Ari Gíslason: Ódagsett örnefnalýsing Urriðakots. 1990, Fornleifaskrá Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman.
-Gísli Sigurðsson: 1964, Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: Urriðakot nr. A154, 158, 162-3 / B155, 167-8.
-Svanur Pálsson, 1978, bætt 1988: Örnefnalýsing Urriðakots skráð eftir Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Urriðakoti.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson, 1983: “Fjórar leiðir í Gjáarétt”. Hesturinn okkar. Bls. 46-59. Rvk.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28813
-https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/06/25/Burfell-Burfellsgja-og-Selgja-i-Gardabae-fridlyst/
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/burfell-gardabae/
-https://ferlir.is/selgja-selin/

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Húsfell

Farin var fjögurra fjalla för ofan Hafnarfjarðar.
Lagt var stað frá Kaldárseli og gengin S-slóðin á Helgafell. Þetta er Hrafnlangeinfaldasta og þægilegasta gönguleiðin á fellið, sem æ fleirum virðist vera orðin kunn.
Haldið var niður að að norðanverðu og gengið að tröllunum þremur á Valahnúk. Þau böðuðu sig í sólinni og ekki var laust við að kerlinginn sæist blikka öðru auga. Kannski var það bara sólargeisli. Undir karlinum kúrði lítill fallegur úlfhundur. Eigandinn var skammt undan.
Gengið var stysta leið af Valahnúkum, með Víghól sunnanverðum og á Húsfell. Í leiðinni var komið við vestan undir fellinu til að líta á hrafnslaup, sem Haukur Ólafsson hafði rekið augun í er hann var þar á göngu nýlega. Hrafnarnir sveimuðu yfir, settust, hoppuðu og krunkuðu. Þeir virtust óánægðir með gestaganginn. Þegar gengið var svo til alveg að laupnum létu þeir enda öllum illum látum svo undirtók í fellinu.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Frá Húsfelli var gengið hiklaust norður að Búrfelli, upp á gígbarminn og eftir honum til vesturs. Gígbarmurinn speglaðist fallega í kvöldsólinni.
Gengið var niður um hrauntröðina og síðan Mosana til baka í Kaldársel.

Gangan tók nákvæmlega fjóra stundarfjórðunga. Veður var frábært – sól og logn.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Reykjanesskagi

Helgi Páll Jónsson skrifaði ritgerð um “Eldfjallagarð og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga” við jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2011. Hér má sjá þann hluta af ritgerðinni er fjallar um einstaka staði innan slíks svæðis:
Eldfjallagarður“Í ritgerðinni er fjallað um jarðminjasvæði á Reykjanesskaga í tengslum við uppbyggingu eldfjallagarðs á svæðinu. Farið er yfir landfræðilega legu skagans, jarðfræðirannsóknir og fjallað almennt um ástæður eldvirkninnar. Helstu jarðmyndunum eldfjallalandslagsins er lýst og fjallað er um jarðfræðilega fjölbreytni, jarðfræðilega arfleifð og jarðfræðitengda ferðaþjónustu sem mun gegna veigamiklu hlutverki í eldfjallagarði verði hann byggður upp á svæðinu. Megininntak ritgerðarinnar er lýsing á 14 jarðminjasvæðum á skaganum sem kæmu til greina sem lykil- eða ítarsvæði í eldfjallagarði, verði ákveðið að skipuleggja hann úr frá slíku svæðisvali.

Reykjanes

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði.

Reykjanes er í jarðfræðilegu tilliti merkasta svæðið á Reykjanesskaga, þar sem Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Í fjörunni vestur af Valahnúkum er að finna rofnar gígleifar sem eru til marks um sprungugos sem varð bæði í sjó og á landi samtímis. Magnús Á. Sigurgeirsson hefur lýst þessum gosviðburðum í grein sinni um yngra Stampagosið á Reykjanesi sem átti sér stað í goshrinu Reykjaneselda um 1226, en Magnús byggir rannsóknir sínar einkum á athugunum á gjóskulögum. Frá gígunum sem kallast Stampagígar-Yngri er Yngra-Stampahraunið runnið, en það er yngsta hraunið á svæðinu. Í þessu gosi myndaðist einnig Miðaldalagið sem er útbreitt gjóskulag á Reykjanesskaga og þykkast við Reykjanes.
StamparYngri-Stampagígar tilheyra gígaröð sem er sú vestari af tveimur gígaröðum sem þarna ganga inn til landsins frá sjónum, en gosvirkni hefur verið bundin við hana síðustu tvö þúsund árin á meðan ekki hefur gosið á hinni austari í þrjú þúsund ár. Gígaraðirnar stefna í NA-SV frá Kerlingarbás og inn til lands og fylgja þannig algengustu stefnu sprungna á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Gígarnir í austari gígaröðinni nefnast Stampagígar-Eldri og frá þeim hefur Eldra-Stampahraunið runnið. Víðáttumesta hraunið á Reykjanesi nefnist Tjaldstaðargjárhraun. Það er skammt austur af Eldra-Stampahrauni og hefur runnið frá gígum sem eru í beinu framhaldi af Eldri-Stampagígum. Rannsóknir með gjóskulögum og geislakoli hafa leitt í ljós að þessi síðastnefndu hraun hafa að öllum líkindum myndast í gosum fyrir um 2000 árum en Tjaldstaðagjárhraun hefur þó runnið eitthvað fyrr en Eldra-Stampahraunið.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Á Reykjanesi eru tvær dyngjur sem eru af ólíkum aldri en þó líklega báðar myndaðar í upphafi nútíma. Stærri dyngjan er Skálafell og basaltið í henni er af ólivínþóleiít gerð. Frá Skálafelli hafa hraun runnið ofan á hraun eldri dyngjunnar sem nefnist Háleyjarbunga, en í henni er basaltið af pikrít gerð. Í fjörunni austan við Háleyjarbungu hefur sjórinn rofið dyngjuna og má þar sjá afar fróðlegar opnur sem gefa innsýn inn í hvernig dyngjan er byggð upp. Háhitasvæði er á Reykjanesi og kemur að vel fram á yfirborði en þar er að finna hveravirkni og litskrúðugar ummyndanir á yfirborði.

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

Háhitasvæðið er nýtt af Hitaveitu Suðurnesja sem þarna hefur sett upp jarðvarmavirkjun en inni í húsakynnum hitaveitunnar er sýningarsalur þar sem er orkusýning. Saltverksmiðja var reist á þessu svæði eins og áður hefur verið minnst á en hún er ekki í rekstri og eru mannvirkin sem henni fylgja eru nokkuð lýti á þessu svæði.
Mælt er með Reykjanesi sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna sérstakrar jarðfræðilegrar legu og tengsla við Atlantshafshrygginn en ekki síður vegna fróðlegra jarðmyndana sem þar er að finna.

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – Karlinn fjær.

Í fjörunni skammt vestan Valahnúks má fá innsýn í hvernig jarðlög hlaðast upp við neðansjávargos eða Surtseysk gos (nefnd eftir gosinu sem myndaði Surtsey árið 1963) sem mynda gjóskugíga af hverfjallsgerð. Söguleg hraun, dyngjur, gígaraðir og háhitasvæði eru á svæðinu og er landslagið allt mjög mótað af mikill eldvirkni. Auk þess gefst þarna kostur á að kynna sér nýtingu jarðhitans vegna jarðhitavirkjunarinnar sem þar er til staðar. Sprungumyndunin á svæðinu er lýsandi fyrir gliðnun milli jarðskorpufleka og eru fá svæði á jörðu, fyrir utan Afar sigdalinn í Austur-Afríku, þar sem jafn auðvelt er að skoða slíkar jarðfræðilegar aðstæður. Fremur auðvelt aðgengi er víða um Reykjanes, en um það liggja vegir og slóðar og eru til að mynda bílastæði og upplýsingaskilti til staðar við Valahnúk og útsýnispallar við húsakynni orkuveitunnar.

Hafnarsandur

Sandvík

Stóra-Sandvík.

Á Hafnarsandi rétt austan við Stóru-Sandvík, er svæði þar sem sprungur eru sérstaklega áberandi á yfirborði. Sprungurnar liggja í dyngjuhraunum sem runnið hafa frá Sandfellshæð í austri og Langhól rétt norðan við svæðið. Landrekið hefur síðan opnað sprungur í hraunið þar sem gjár hafa myndast. Gjárnar eru breiðar, nokkrar rúmir 40 m á breidd en dýptina er erfiðara að ákvarða þar sem margar þeirra eru að fyllast af sandi, en á þessu svæði er sandfok mikið og hraunið víðast hvar orðið slípað og matt vegna sandroksins. Sprungusvæðið liggur einnig í grágrýtishrauni frá dyngjunum Berghól norðan við svæðið og frá dyngjunni Sandfellshæð sem nánar verður fjallað um síðar. Val á þessu svæði fyrir eldfjallagarð byggðist fyrst og fremst á hinum sýnilegu og stórbrotnu sprungum sem þar eru.

Reykjanes

Reykjanes – “Brú milli heimsálfa”.

Talið að svæðið gæti vel hentað vel til að gera grein fyrir gliðnun jarðskorpuflekanna og þeim ferlum sem því fylgja. Önnur helsta ástæða fyrir vali svæðisins er að þarna hefur þegar verið komið upp aðstöðu fyrir ferðamenn með hinni svonefndu Álfubrú, sem er göngubrú yfir eina sprunguna og einskonar minnisvarði um flekaskilin á Reykjanesskaga. Við brúnna hefur verið komið fyrir bílastæði sem gerir svæðið mjög aðgengilegt og er það þegar orðin að vinsælum viðkomustað á Reykjanesskaga. Svæðið gæti einnig hentað vel sem æfingasvæði í sprungukortlagninu t.d. fyrir jarðfræðinema.

Eldvörp-Sandfellshæð

Eldvörp

Eldvörp – gígaröð.

Eldvörp er stórbrotin gígaröð sem liggur norðvestur af Grindavík. Hún stefnir NA-SV og er hún um 10 km á lengd. Dyngjan Sandfellshæð liggur rétt vestur af gígaröðinni, en hún er stærsta og reglulegasta dyngja á utanverðum Reykjanesskaga.
Norðan Sandfellshæðar er Sandfell sem er lítið fell, að mestu úr bólstrabrotabergi og þar norðan við er svo önnur dyngja er nefnist Lágafell. Hraun á Eldvarpasvæðinu tengjast eldgosum frá tveimur tímaskeiðum eldsumbrota. Á fyrra tímaskeiðinu hefur hraun runnið frá Sandfellshæð, líklega í upphafi nútíma eða fyrir 12.500 árum síðan. Ofan á Sandfellshæðarhraunið leggst síðan Eldvarpahraunið, sem runnið hefur frá gígaröðinni og hafa rannsóknir sýnt fram á að þetta hraun rann í Reykjaneseldum.

Eldvörp

Eldvörp.

Reykjaneseldar geisuðu á tímabilinu 1211-1240, en Eldvarpahraun er líklega frá árinu 1226 líkt og Stampahraun-Yngra á Reykjanesi, Arnarseturshraun og Illahraun við Svartsengi. Sandfellshæðardyngja er eldri en dyngjan Lágafell, því hraun frá Sandfellshæð hafa runnið yfir hraun frá Lágafelli. Lágafell er pikrít-dyngja líkt og Háleyjarbunga á Reykjanesi.

Svæði við Eldvörp og Sandfellshæð voru valin sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð af nokkrum ástæðum. Þar er til dæmis einfalt að sýna fram á ákveðna tímaröð jarðlaganna á svæðinu og bera kennsl á hvernig mismunandi eldvörp hafa gosið á mismunandi tíma.

Eldvörp

Eldvörp – borstæði.

Önnur ástæða er hin langa og stórbrotna gígaröð sem liggur á svæðinu en hún hefur að mati höfundar hátt verndargildi en er þó ekki friðuð sem náttúruvætti. Skammt austur af Sandfellshæð liggur háhitasvæði í gígaröðinni og er þar að sjá gufuaugu og ummyndunarskellur í gígunum. Þar hefur nú verið sett niður borstæði þar sem er blásandi jarðhitahola, en af henni er talsverður hávaði sem gefur til kynna orkuna á svæðinu. Borframkvæmdum hefur fylgt vegalagning þannig að auðvelt aðgengi er að háhitasvæðinu auk þess sem gönguleið liggur meðfram gígunum og gerir göngu um umhverfi gígana einfalda.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Þarna er mikill fjölbreytileiki gjall- og klepragíga, og hraunmyndana sem vert er að skoða. Svæði í kringum Eldvarpagígaröðina og Sandfellshæðardyngju er tiltölulega afskekkt þótt stutt sé í bæði í Grindavíkurkaupstað og baðstaðinn Bláa lónið sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Reykjanesskaga.
Það væri því mögulegt að vekja meiri athygli á fróðlegu jarðfræðilegu umhverfi svæðisins t.d. fyrir þá ferðalanga sem viðkomu hafa í baðstaðnum vinsæla.

Hrólfsvík-Festarfjall

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Hrólfsvík er grýtt fjara sem liggur innan stærri víkur, Hraunsvíkur, skammt austur af Grindavík. Rétt norður af þessu svæði eru Vatnsheiðardyngjur, en þær eru sömu gerðar og dyngjurnar Háleyjarbunga á Reykjanesi og Lágafell norðan Sandfellshæðar þar sem bergtegundin er pikrít basalt. Í Hrólfsvík er að finna hraunlag úr pikríti sem inniheldur talsvert magn af hnyðlingum (eða framandsteinum) úr djúpbergstegundinni gabbrói, en þeir hafa borist upp um gosrás við eldgos. Undir hraunlaginu er einnig móbergslag þar sem töluvert er um samskonar hnyðlinga.

Hnyðlingur

Hnyðlingur í Hrólfsvík.

Hnyðlingar eru rannsóknarviðfangsefni innan bergfræðinnar þar sem þeir eru taldir veita upplýsingar um uppruna úthafsbasalts (úthafsþóleiíts). Um bergfræðilega tilurð hnyðlingana í Hrólfsvík hefur Ingar A. Sigurðsson ritað í námsritgerð sína og skal nánar vísað til skrifa hans um það efni. Hnyðlingar finnast reyndar víða á Reykjanesskaga, en hvergi munu þeir þó finnast í jafnmiklum mæli og í Hrólfsvík. Ekki er nákvæmlega vitað hvaðan hraunlagið í Hrólfsvík er komið en það gæti verið komið frá Vatnsheiðardyngjum norðan við víkina, eða verið rofleif af gamalli eldstöð sem að tengist Festarfjalli skammt austur af víkinni og sjórinn hefur nú brotið niður.

Festarfjall

Festarfjall og Ægissandur.

Þegar gengið er austur eftir Hraunsvíkinni frá Hrólfsvík, er komið að móbergsklettum með mjórri sandfjöru neðan við sem nefnist Hraunssandur eða Ægissandur.
Skammt austar er Festarfjall, sem er 190 m hátt og rofið af sjónum til hálfs. Rétt við Festarfjall er hægt að komast niður í sandfjöruna og má þar sjá fróðlegar jarðmyndanir, s.s. rauðleit gjalllög sem hraun hefur runnið yfir, jökulberg, bergganga, auk jarðlagastafla þar sem skiptast á basalthraun og móbergslög frá jökulskeiðum og hlýskeiðum ísaldar.

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

Hrólfsvík er valin sem svæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna hnyðlinganna sem eru bergfræðilega forvitnilegir og varðveita ákveðna upplýsingar um kvikuna og bergið sem upp kemur í eldgosum á skaganum. Víkin og umhverfi hennar er því fróðlegur staður og þá sérstaklega fyrir fræðimenn á sviði bergfræði og skyldum greinum. Fjaran við Festarfjallið er afar fróðleg vegna jarðlaganna sem þar er að finna auk þess sem hún er skemmtilegt göngusvæði, en sjávargangur verður þó að vera með minnsta móti. Aðgengi að fjörunni þyrfti að bæta ef svæðið ætti að verða aðdráttarafl í eldfjallagarði og fara skyldi með varúð undir háa klettana þar sem talsverð hætta er þarna á grjóthruni og augljós ummerki eru um hrun úr Festarfjalli og móbergsklettunum ofan fjöruna.

Méltunnuklif
Méltunnuklif kallast svæði á milli Grindavíkur og Krýsuvíkur sem liggur í Ögmundarhrauni. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér, en við akveginn sem liggur framhjá því er opna þar sem finnast nokkuð athyglisverðar jarðmyndanir.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif- misgengi.

Í rannsóknum sínum á jarðfræði Reykjanesskaga hafa jarðfræðingarnir Jón Jónsson og Freysteinn Sigurðsson sérstaklega lýst jarðlögum við Méltunnuklif. Í opnunni er að finna þrjú grágrýtishraunlög og að minnsta kosti tvö jökulbergslög inni á milli þeirra. Efst í þessum jarðlagastafla er svo að finna móberg.
Hraunlögin eru jökulrákuð við efri lagmót. Méltunnuklif geymir því nokkrar „blaðsíður” í jarðsögu Reykjanesskagans ef svo má að orði komast.

Méltunnuklif

Méltunnuklif – gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur.

Jökulbergið ber vitni þess, að minnsta kosti tvisvar sinnum hafa jöklar gengið yfir þetta svæði. Hraunlögin benda til að svæðið hafi síðan orðið íslaust og eldgos með tilheyrandi hraunrennsli hafi átt sér stað.
Móbergið efst í syrpunni bendir til að jöklar hafi gengið yfir svæðið í þriðja skipti og eldsumbrot hafi orðið undir jökli. Í þessari opnu eru því ummerki um þrjú hlýskeið og þrjú jökulskeið sem orðið hafa á Reykjanesskaga. Önnur sérkennileg myndun á þessu svæði er misgengi og djúp gjá í Katlahrauni, sem rekja má um 2 km til suðvesturs frá opnunni.

Mælifell

Skála-Mælifell.

Í Skála-Mælifelli sem liggur rétt vestur af Méltunnuklifi er einnig að finna jarðsögulega merkilegt hraunlag með öfuga segulstefnu, tengda er við skammlífan viðsnúning í segulstefnu jarðar fyrir um 43 þúsund árum. Hefur hraunið því runnið um það leyti. Þessi viðsnúningur segulsviðsins er kenndur við Laschamp í Frakklandi, en þar finnast jarðlög tengd þessu skeiði auk þess sem þau finnast á Nýja-Sjálandi og víðar.

Keilir-Keilisbörn

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Keilir er líklega þekktasta fjall á Reykjanesskaga, en fjallið er mjög reglulega lagað og formfagurt á að líta. Hæð fjallsins er þó ekki mikil, eða 379 m yfir sjó.
Keilir er myndaður við gos undir jökli, sennilega á stöku gosopi eða stuttri sprungu þar sem hann er hvorki stapa- eða hryggjarmyndun. Fjallið stendur upp úr Þráinsskjaldarhrauni og sker sig nokkuð úr fjallamyndinni þegar horft er yfir Reykjanesskaga úr fjarska. Norðan Keilis eru lægri hnúkar sem nefnast Keilisbörn og eru einnig úr móbergi. Á toppi fjallsins hefur verið komið fyrir útsýnispalli og gestabók en útsýni af toppi fjallsins er afar mikið yfir Reykjanesskaga.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Í Keili og Keilisbörnum er ekki mikil fjölbreytni jarðmyndana þar sem fjallið er að öllu leyti gert úr móbergi. Þegar hinsvegar móbergið er skoðað nánar og þegar gengið er niður fjallið að norðanverðu eru talsvert fjölbreytt rofform í móberginu og áhugavert að skoða samsetningu þess.
Keilir er valin sem jarðminjasvæði inn í eldfjallagarð einkum vegna þess að hann er einkennisfjall á Reykjanesskaga og vekur mikla eftirtekt vegna forms síns vegna. Hann hefur þannig einnig nokkuð táknrænt gildi fyrir Reykjanesskagann auk þess að vera vinsælt göngufjall og útivistarsvæði sem auðvelt er að komast að.

Trölladyngja-Sog

Trölladyngja

Á Trölladyngju.

Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku. Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði sem kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls.

Sogin

Sogin.

Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól.
Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu. Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins.
Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.

Grænavatn-Seltún

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Grænavatn er sprengígur í Krýsuvík. Gígurinn tilheyrir þyrpingu sprengigíga í Krýsuvík sem eru yfir 6000 ára gamlir. Annar sprengigígur rétt við Grænavatn er Gestsstaðavatn. Þess má þó geta þess að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lýsir Gestsstaðavatni ekki sem sprengigíg heldur sem dauðísmyndun eða jökulkeri og telur þannig vötnin tvö af gjörólíkum uppruna. Sprengigígar myndast í sprengigosum þar sem lítið er um gjóskumyndun og gosefnin eru aðallega gosgufur og vatnsgufur.

Krýsuvík

Krýsuvík – Gestsstaðavatn (nær) og Grænavatn.

Hægt er að ganga hringinn í kringum vatnið meðfram fjöruborði gígsins, en fróðleg hraunlög eru á austurbakkanum en þar er hraunlag með gabbróhnyðlingum. Vatnið í gígnum hefur sérstakan grænan lit sem mun vera vegna kísils og brennisteins sem í því er. Grænavatn er sérstætt eldvarp og því talið vera ágætt dæmi um jarðminjasvæði í eldfjallagarði og ætti að vekja þar nokkra eftirtekt.
Seltún er vinsæll viðkomustaður í háhitasvæðinu í Krýsuvík og er mjög fjölsóttur ferðamannastaður. Helsta aðdráttarafl svæðisins er yfirborðsvirkni jarðhitans og má þar sjá litskrúðugar ummyndunarskellur og leirhveri. Á þessu svæði þarf þó að fara gætilega því jarðhitasvæði með hveravirkni geta reynst varhugaverð ef göngufólk og ferðafólk gáir ekki að sér, en þegar hefur verið komið upp viðvörunarskiltum og göngupöllum í Seltúni. Bílastæði eru bæði við Seltún og Grænavatn og aðgengi að svæðunum auðvelt.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Á Reykjanesskaga eru nokkrir gígar af eldborgargerð og er einn sá reisulegasti þeirra staðsettur undir móbergsstapanum Geitahlíð. Eldborgir hlaðast upp á gosopi þar sem lítið er um kvikustrókavirkni, en hraunslettur mynda háa gígbarma. Eldborgirnar undir Geitahlíð eru í raun tvær, Stóra-Eldborg og Litla-Eldborg en þeirri síðarnefndu hefur verið raskað verulega með efnistöku. Litla-Eldborg er í raun gígaröð af hraunklepra og gjallgígum og ætti því síður að tala um hana í eintölu líkt og Stóru-Eldborg. Eldborgirnar eru ekki af sama aldri og hraunið sem rann frá Litlu-Eldborg er mjög ólíkt hrauninu frá Stóru-Eldborg að samsetningu. Stóra- Eldborg er þó einnig partur af gígaröð sem stefnir SV-NA sem má greinilega sjá þegar staðið er upp á henni. Þegar komið er upp á Geitahlíð heldur þessi gígaröð þar áfram í sömu stefnu.

Stóra-Eldborg

Eldborgarhraunin – uppdráttur Jón Jónsson.

Hraunið frá eldborgargígunum báðum hefur runnið til sjávar og út frá Stóru-Eldborg liggja nokkrar hrauntraðir. Eldborg er eins og áður hefur komið fram friðað náttúruvætti. Jón Jónsson jarðfræðingur rannsakaði þessar gígmyndanir sérstaklega og lýsir Stóru-Eldborg á eftirfarandi hátt: “Stóra Eldborg er einhver fegursti hraungígurinn á öllu Suðvesturlandi hún er yfir 50 m há yfir næsta umhverfi og gígurinn er um 30 m djúpur. Borgin er hlaðin úr hraunkleprum og gjalli og hin fegursta náttúrusmíði.”

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eldborgir eru sjaldgæf eldvörp utan Íslands, þótt Stóra-Eldborg sé ekki eina eldborgin á Reykjanesskaga eða á landinu. Hún er þegar friðað náttúruvætti og er það áberandi gígmyndun að hún vekur eftirtekt hjá hverjum ferðalangi, sem áhuga hefur á náttúrunni og fer um veginn sunnan við Geitahlíð. Að þessu leyti á Stóra-Eldborg undir Geitahlíð fullt erindi sem jarðminjasvæði í Eldfjallagarði.

Hrútagjárdyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Við norðanverðan Sveifluháls er Hrútagjárdyngja, eitt sérstæðasta eldvarp sem finnst á Reykjanesskaga. Jón Jónsson kortlagði dyngjuna og lýsir henni svo í Árbók Ferðafélags Íslands 1984: “Það er afar stór og mjög sérkennileg eldstöð sem ekki á sinn líka á Reykjanesskaga og ekki þekki ég annað eldvarp þessu líkt. Hingað til hef ég kennt það við Hrútagjá en það er sprunga í annarri hlið þessarar miklu eldstöðvar. Dottið hefur mér í hug að e.t.v. mætti nefna eldstöð þessa Eldriða en skýring þess nafns kann að reynast hæpin.

Hrútagjá

Hrútagjá – hrauntröð í Hrútargjárdyngju.

Ljóst er að nafnið Eldriði hefur ekki haldist um þetta eldvarp, en Hrútagjárdyngja er með sanni furðulegt eldvarp og hefur afar sérstæða lögun. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða dyngjumyndun og hefur hraun frá henni líklega breiðst yfir um 100 km2 lands (3-4 km3) allt til sjávar á milli Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 5000 árum. Það sem einkum gerir Hrútagjárdyngju svo sérstaka er að hún er umkringd gjám á þrjá vegu og er sú stærsta þeirra að vestanverðu og er nefnd Hrútagjá.”

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Hvernig nákvæmlega Hrútagjárdyngja og gjárnar í kringum hana eru til orðnar er ekki að fullu þekkt en Jón Jónsson setur fram eftirfarandi tilgátu um myndun dyngjunnar: “Sennilega hefur hraunið komið upp á tveim stöðum, þ.e. þar sem stóri hraungígurinn nú er og þar sem sigketillinn er. Gosið hefur verið hægfara og yfirborð hraunsins hefur storknað fljótt. Hraunkvikan hefur haldið áfram að streyma upp undir þaki úr storku og á þann hátt hefur myndast hraunbunga, sem fljótandi hraunkvika var undir.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Nú er tvennt til: Annað hvort hefur það hraun fengið örvaða útrás einhvers staðar svo að það hefur streymt út en hraunstorkan við það sigið niður og sprunga myndast allt í kring, eða þá að hraunið hefur í lok gossins sigið niður í gosopið, en við það sígur hraunsléttan öll, gjárnar myndast umhverfis hana og jafnframt sigketillinn, sem áður er getið, en hann er vafalítið yfir gosopi.

Að dæma af útliti aðal gígsins hefur að gosinu loknu gígbotninn í heild sigið.
Af ofangreindu má ráða að Hrútagjárdyngja er með forvitnilegri eldvörpum á Reykjanesskaga og er atburðarrásin í kringum myndun hennar nokkur ráðgáta. Ekki hefur höfundur fundið neinar heimildir um frekari rannsóknir sem hafa farið fram varðandi myndun Hrútagjárdyngju. Væri hún eflaust heppilegt viðfangsefni fyrir nemendur í eldfjallafræðum í eldfjallagarði.”
Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn vestanvert.

Sveifluháls er einn mesti móbergshryggur á Reykjanesskaga en austan hans og rétt norðan við Krýsuvík liggur stöðuvatnið Kleifarvatn. Krýsuvíkurvegur liggur eftir Sveifluhálsinum austanverðum og meðfram vesturbakka vatnsins. Á þessu svæði frá Miðdegishnúki að Hellutindum eru mjög fjölbreyttar ásýndir móbergs og má þar sjá fróðlegar opnur inn í móbergsmyndun Sveifluhálsins. Svæði sem þetta gæti t.d. verið tilvalið til kennslu (t.d. fyrir jarðfræðinema) um móbergsmyndanir og samspil eldvirkni og jökulíss en líklega eru fá svæði jafn aðgengileg í þeim tilgangi og einmitt þarna við vesturbakka Kleifarvatns. Þarna er hægt að skoða uppbyggingu og samsetningu móbergsmyndana, lagskiptingu, bólstrabrot og bergganga sem ganga í gegnum móbergið. Rofform móbergsins eru fjölbreytt og víða mikið sjónarspil því að móbergið er auðrjúfanlegra en storkubergið. Svæði sem þetta er hér talið hafa talsvert fræðslugildi í eldfjallagarði því móbergsmyndanir eru einna sýnilegastar hér á landi og eru þarna talsvert fjölbreyttar á ekki stærra svæði.

Brennisteinsfjöll-Grindaskörð

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Brennisteinsfjöll liggja suðaustur af Kleifarvatni og eru eitt víðáttumesta svæðið á Reykjanesskaga. Brennisteinsfjöll eru hraunaflæmi prýdd fjölbreyttum eldvörpum sem myndast hafa á eldstöðvarkerfinu sem kennt er við fjöllin. Apalhraun og helluhraun þekja mestan hluta svæðisins. Þarna eru mikil hraunaflæmi sem runnið hafa bæði til norðurs og suðurs meðal annars steypst fram af Herdísavíkurfjalli í hraunfossum og þaðan runnið ofan í sjó.

Ferlir

Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.

Í helluhrauninu er mikið um hella, stórbrotnar hrauntraðir og niðurföll. Margir reisulegir gígar eru á svæðinu en mesta jarðfræðilega undrið verður þó að telja Kistufell sem er afar sérstæð gígmyndun. Gígveggirnir eru stuðlaðir og hafa yngri hraun runnið inn gíginn. Jafn sérstætt eldvarp og hér um ræðir hefur að mati höfundar mikið verndargildi og spurning hvort slíkt eldvarp ætti ekki að njóta algjörrar friðunar.
Lítið háhitasvæði er í Brennisteinsfjöllum sem sýnir ekki miklar virkni á yfirborði en kemur fram í gufuaugum og ummyndunarskellum á yfirborði.

Brennisteinsfjöll

Gígaröð í Brennisteinsfjöllum.

Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingar, hafa gert úttekt á háhitasvæðinu í Brennisteinsfjöllum í ritgerð þeirra segir meðal annars um fjölbreytileika svæðisins: “Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum […] Við rannsóknir á jarðhita með borunum á þessum slóðum þarf að taka tillit til umhverfisins auk mikillar umbrotasögu svæðisins, en þar hefur oft verið umbrotasamt og lega mannvirkja þarf að taka mið af því. Þá þarf að huga vel að því að spilla ekki sérstæðri náttúru svæðisins.”

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Í Grindaskörðum er einnig fjöldi reisulegra gíga. Þegar komið er upp úr skarðinu er þar allnokkuð misgengi og sigdalur. Í sigdalnum að norðan eru áhugaverðir gígar á gígaröð en sunnar er dalurinn þakin helluhrauni sem er afar auðvelt að ganga eftir. Mestur gíga á þessu svæði er sá sem Jón Jónsson hefur nefnt Gráfeld en frá honum hefur Selvogshraun runnið. Grindaskörð tengjast einnig brennisteinsnámi sem stundað var í Brennisteinsfjöllum um skeið og á sér nokkuð fróðlega sögu.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

Í pistli Sveins Þórðarsonar um brennisteinsvinnslu á Íslandi vísar hann í rit Páls Eggerts Ólasonar prófessors, Saga Íslendinga, en þar segir: “Var Ísland snemma frægt brennisteins land, og er það til marks, að í tilraunum Danakonungs til að veðsetja landið er því einkum til gildis talið, að þar séu gnægðir miklar af brennisteini. Var þetta þá arðvænleg verzlunarvara, enda nauðsynleg hernaðarþjóðum til púðurgerðar, eins og hún fór þá fram”.
Agnes Stefánsdóttir (2008) fjallar nokkuð um Brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum í skýrslu um fornleifaskráningu á svæðinu. Þar segir að Jón Hjaltalín landlæknir hafi rannsakað brennisteinsnámur árið 1851.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Fann hann fjórar námur í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík sem síðar voru keyptar af Englendingnum J. W. Busby fyrir tilstuðlan Jóns. Námastígurinn liggur af Grindaskarðavegi meðfram Draugahlíðum og niður í Námahvamm, en þar sést ennþá rúst Námamannaskálans og ummerki námugraftarins.
Brennisteinninn var unnin bæði í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum, en brennisteinninn úr Brennisteinsfjöllum þótti hreinni og virtist hagkvæmara að flytja hann, þar sem styttri vegalengd var þaðan til Hafnafjarðar. Það reyndist þó örðugra að komast að Brennisteininum í Brennisteinsfjöllum þar sem hann lá undir nærri metra þykku hraunlagi. Fluttur var inn vír frá útlöndum sem áætlað var að strengja frá fjallsbrún niður á jafnsléttu. Var þetta gert til að sleppa við að flytja brennisteininn á hestum niður Kerlingaskarð. Vírinn reyndist hinsvegar of þungur til að flytja hann upp í Brennisteinfjöll og varð því aldrei neitt úr þessum áformum og fór að draga út brennisteinsvinnslunni eftir þetta. Það tók um 12-14 tíma að flytja brennistein á hesti til Hafnafjarðar og var borguð ein króna (þess tíma) á hvern hestburð.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Ljóst er af ofansögðu að Brennisteinsfjöll eru einstakt jarðminjasvæði og ættu að vera mikið aðdráttarafl í eldfjallagarði á Reykjanesskaga, bæði vegna mikils fjölda eldvarpa og ekki síður vegna menningarminja. Brennisteinsfjöll liggja nokkuð afskekkt og eru fremur óaðgengileg því þangað liggja engir akvegir. Svæðið myndi því henta vel fyrir ferðafólk sem vill njóta ósnortins víðernis og náttúru og í lengri ferðum og upplifa stórbrotnar hraunmyndanir, eldvörp og eldfjallalandslag.

Búrfell

Helgadalur

Helgadalur – Búrfell fjær.

Búrfell er gígur sem er staðsettur skammt austan við Hafnafjörð og myndar nyrsta gíginn í Krýsuvíkur- eða Trölladyngjukerfinu. Gígurinn er af eldborgargerð, en frá honum liggur einhver lengsta hrauntröð á Íslandi sem er Búrfellsgjá. Mikil misgengi eru auk þess á svæðinu við Búrfell og er Hjallamisgengið þeirra mest. Árni Hjartarson skiptir gossögu Búrfells í fjóra þætti eða lotur sem hér segir:

Hraunflæði

Búrfellshraun.

1. Straumsvíkurlota: þá rann Búrfellshraun til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum og niður til sjávar hjá Straumsvík og þar í grennd. Hraunið er nú hulið yngri hraunum.
2. Lambagjárlota: Hraunið rennur niður með Ásfjalli og nær hugsanlega til sjávar utan við Hamarinn í Hafnafirði. Þarna myndaðist Lambagjá sem er hrauntröð við Kaldárbotna.
3. Urriðavatnslota: Hraun fyllir sigdalinn neðan við Búrfell og tekur að renna niður með Vífilsstaðahlíð. Það stíflar uppi Urriðavatn og nær til sjávar bæði við Hafnafjörð og í Arnarnesvogi. Hraunrennslið hefur verið langvarandi og þarna myndast Búrfellsgjáin sem meginfarvegur hraunsins frá gígnum.

Búrfell

Búrfellsgjá.

4. Goslok: Hraunrennsli hættir í Búrfellsgjá og hraunrennsli hefst til suðurs frá gígnum um undirgöng. Þá verða til hrauntjarnir sem tæmast svo í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Gosið hefur líklega staðið í 1-2 ár þar sem hrauntraðir og hellar þurfa nokkurn tíma til að myndast.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur ritaði ítarlega grein um Búrfellshraun og lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undan því og ofan af því.

Búrfell

Búrfell og nágrenni – herforingjakort 1903.

Árni Hjartarsson umreiknar þessar aldursákvarðanir yfir í raunaldur og sýna niðurstöðurnar að Búrfellshraun er líklega um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f. Kr. Sjávarstaða hefur á þessum tíma verið um 10 m lægri og eru því ystu mörk hraunsins neðan sjávarborðs í dag.
Nokkrar hrauntraðir hafa myndast í eldsumbrotunum sem mynduðu Búrfell. Elsta tröðin nefnist Lambagjá og liggur niður hjá Kaldárseli en yngst er Kringlóttagjá sunnan við Búfellsgíginn.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Búrfellsgjáin er þó sú hrauntröð sem vekur mesta eftirtekt og mun eiga fá sína líka á Íslandi. Veggir traðarinnar eru oft 5-10 m háir og sumsstaðar slútandi þannig að víða hafa myndast skjólríkir skútar sem áður fyrr var notað sem afrep fyrir sauðfé í vondum veðrum, en þar finnast einnig gamlar seljarústir og minjar um forna búskaparhætti. Búrfell og Búrfellsgjár eru jarðminjar um eldgos sem myndað hefur sérstæð eldvörp, Búrfellsgíg og Búrfellsgjánna. Í gjánni eru einnig menningarminjar og er svæðið þegar orðið afar vinsælt útivistar og göngusvæði sem á tvímælalaust heima sem jarðminjasvæði í eldfjallagarði.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur – op.

Það eldvarp á Reykjanesskaga sem hefur líklega fengið meiri umfjöllun en nokkuð annað sem mögulegt aðdráttarafl í eldfjallagarði er Þríhnúkagígur. Þríhnúkagígur er staðsettur á milli Grindaskarða og Stóra-Kóngfells skammt norðvestan við skíðasvæðið í Bláfjöllum.
Lítið var vitað um tilurð hinnar miklu hvelfingar eða hellis ofan í gígnum fyrr en sigið var ofan í hann árið 1974. Fyrstur til að síga í hellinn var Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellakönnuður sem lýsir hellinum í grein í tímaritinu Náttúrufræðingnum. Sigdýptin í hvelfingunni í hellinum er um 120-130 m og er þvermálið á botni hennar um 50 m. Nákvæma lýsingu á umfangi hellisins er að finna í áðurnefndri grein Árna þar sem ítarlega er fjallað um sigferð í hellinn. Í seinni tíð hefur Árni komið fram með þær hugmyndir að bora í Þríhnúkagíg í þeim tilgangi að kynna almenningi innihald hvelfingarinnar.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Nokkur svæði á Íslandi eru friðuð sem náttúruvætti vegna sérstöðu sinnar og sé Þríhnúkagígur í slíkum sérflokki sem raun ber vitni, jafnvel einstakur á heimsvísu, má spyrja hvort að ekki væri skynsamlegra að vernda hann algjörlega í stað þess að bora í hann? Samkvæmt Umhverfisstofnun eru 34 svæði á Íslandi friðlýst sem náttúruvætti en um þau segir: “Náttúruvætti eru sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og hraun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask.”

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Þríhnúkagígur er ekki friðaður sem náttúruvætti en liggur innan Bláfjallafólkvangs sem nýtur friðunar upp að ákveðnu marki. Ljóst má vera að borun í gíginn er rask á eldvarpinu og borframkvæmdir munu hafa jarðrask í för með sér. Sumir hraunhellar landsins eru lokaðir gagnvart átroðningi vegna þeirra dropasteinsmyndana sem þar er að finna og má spyrja hvort slík lokun ekki einnig að gilda um Þríhnúkagíg þar sem hvergi annarsstaðar á Íslandi er vitað um sambærilegar jarðminjar? Á annað borð mætti ef til vill benda á þau rök að engin vissi af innviðum Þíhnúkagígs ef ekki hefði verið sigið í hann og frægð hans myndi aukast ef borað væri í hann og innihaldið sýnt almenningi. Það myndi jafnvel glæða áhuga á jarðfræði nærliggjandi svæðis og vera eitt mesta aðdráttarafl í eldfjallagarði. Þetta gæti verið eitt sjónarmið fyrir borun í gíginn. En gæti verið að Þríhnúkagígur yrði jafnmikið aðdráttarafl ósnertur ef einfaldlega yrði kynnt hvað leyndist í gígnum? Yrði dulúð hans þá meiri og væru ferðalangar og ævintýramenn hugsanlega tilbúnir að borga fyrir dýrar sigferðir ofan í hellinn? Eða á hellirinn einfaldlega að vera öllum opinn? Hvort væri betra í eldfjallagarði á Reykjanesskaga?

Þríhnúkar

Í Þríhnúkagíg.

Hér að ofan hefur verið velt upp ýmsum spurningum hvað varðar borun í Þríhnúkagíg en tekið skal skýrt fram að ekki er verið að taka afstöðu til þess hvort borun í gíginn sé réttlætanleg. Það sem helst vakir fyrir höfundi með ofangreindum vangaveltum er að borun í Þríhnúkagíg á erindi við umræðuna um verndun jarðminja og náttúruvernd. Má vel vera að borunin sjálf gæti leitt til aukinnar verndunar svæðisins og nánasta umhverfi þess. Sjálfsagt er þó að allar hliðar málsins séu skoðaðar. Það er þó ljóst að Þríhnúkagígur hvort
sem borað verður í hann eða ekki, á mikið erindi í eldfjallagarð sem stórbrotið eldvarp og jarðminjasvæði.”

Heimild:
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga, Helgi Páll Jónsson, Jarðvísindadeild Háskóli Íslands 2011.

Reykjanesskagi

Eldgos á Reykjanesskaga 2021.

Búrfell

Gengið var frá Kaldárseli að Valahnúkum. Steinrunnin tröllin trjónuðu efst á hnúkunum. Þau sáust langt að og reyndu heldur ekki að leynast. Tröllin virtust vera að bíða af sér veturinn.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir.
Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir, sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru. Það eru til ýmsir skrítnir steinar í náttúrunni sem má kannski geta sér til um að hafi verið tröll sem ekki náðu heim til sín áður en sólin kom upp.
Tröllabörn
Talið er líka að sum önnur ummerki í náttúrunni séu eftir tröll því sumar sögur segja að þau hafi fært til fjöll. Grýla og Leppa-Lúði, sem svo margir hafa heyrt um og eru foreldrar jólasveinanna, eru tröllahjón. Vitað er um dvalarstað þeirra í einum hellanna í Arnarseturshrauni við Grindavík (sjá FERLI-783). Önnur tröllafjölskylda er talin búa í Rauðshelli skammt frá Valabóli, örskotslengd frá Valahnúkum. Maður úr Hellarannsóknar-
félaginu, sem sá tröllabarnastóðið og heyrði hroturnar á ferð sinni um hellinn, varð svo mikið um að hann flúði öfugur út aftur – og er hann þó talinn með stilltari mönnum. Síðar var nákvæm mynd af hópnum rissuð upp eftir lýsingu hans. Þá er vitað af tröllum í Trölladyngju. Sögn er a.m.k. um að hjón úr Vogunum hafi séð þar tröllabarni bregða fyrir síðla kvölds í hálfrökkrinu.

Valaból

Í valabóli.

Tröll eru líka stundum kölluð skessur, risar, jötnar eða þursar.
Komið var við í Músarhelli og síðan gengið eftir slóð í gegnum Mygludali, um Víghól að Húsfelli. Þar var haldið um Kringlóttugjá og upp á brún Búrfells. Gígurinn er stórbrotinn og hrauntröðin tilkomumikil þar sem hún liggur um og myndar Búrfellsgjána. Í stað þess að ganga niður gjána var haldið til norðurs yfir að Kolhól. Hólinn er landamerki. Sunnan undir honum, í grónum hvammi, má sjá hleðslur. Einnig eru hleðslur með hraunkanti skammt vestar.
Gengið var frá Kolhól niður um Garðaflatir og að Gjáarrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.hi.is/~soleya/#TRÖLL

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Valahnúkar

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða. Selvogsgata er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs.

Selvogsgata

Selvogsgata á Hellunum.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli. Loks var götunni fylgt niður í Helgadal með viðkomu í Rauðshelli og stefnan tekin þaðan að Kaldárseli.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Þar sem staðið er á upphafsstaðnum við Bláfjallaveg má sjá þessa virkni “ljóslifandi”. Þegar horft er upp í Bollana (Stórabolla, Miðbolla og Syðstubolla), má sjá hvernig hlíðin, sem þeir eru á, hefur opnast og hraunið runnið niður þá í stríðum straumum. Miðbolli er einstaklega fallegur hraungígur. Utan í honum eru tvö önnur gígop og síðan fleiri í hlíðinni norðan hans. Frá honum má sjá fallegar hrauntraðir og í þeim eru nokkir fallegir hellar. Langahlíð, Dauðadalir og Lönguhlíðarhorn eru á hægri hönd en Kristjánsdalir og Kristjánsdalahorn á þá vinstri.

Grindarskörð

Grindarskörð og nágrenni.

Selvogsgatan lá áfram upp um Grindarskörð austan Stórabolla og áfram niður með Litla-Kóngsfelli, um Hvalskarð og niður í Selvog. Einnig liggur gata, vel vörðuð upp Kerlingargil milli Miðbola og Syðstubolla. Ofan þeirra eru gatnamót. Frá þeim liggur Hlíðarvegur niður að Hlíðarskarði fyrir ofan Hlíð við Hlíðarvatn, þar sem Þórir haustmyrkur er talinn hafa búið við upphaf byggðar. Grindarskörð eru nefnd svo vegna þess að Þórir þessi á að hafa gert þar grindur til að varna því að fé hans leitaði norður og niður hlíðarnar.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Selvogsgatan liggur niður Hellurnar um Húsfellsbruna sem eru ágætlega greiðfær, allt suður að hálendinu. Þarna má sjá nokkur hraun, bæði slett helluhran og úfin apalhraun. Austast er hrikalegt Rjúpnadalahraunið úr Drottningu og vestast má sjá Tvíbollahraunið.

Framundan sést Helgafell (vinstra megin – 340 m.y.s) og Húsfell (hægra megin – 278 m.y.s)). Milli þeirra eru Valahnúkar (201 m.y.s). Á þeim trjóna tröllin hæst. Segir sagan að þau hafi verið á leið í Selvog, en orðið sein fyrir og ekki verið komin lengra er sólin reis í austri, ofan við Grindarskörðin. Varð það til þess að þau urðu að steini og standa þarna enn.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Helgafellið er eitt af sjö samnefndum fjöllum á landinu. Þau eru t.d. í Mosfellssveit, vestmannaeyjum, Dýrafirði og Þórsnesi á Snæfellsnesi. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Búrfellið (179 m.y.s) er neðan við Húsfellið. Frá Búrfelli rann hraun það sem Hafnarfjörður stendur að hluta til á fyrir um það bil 7200 árum. Hrauntröðin frá fellinu er ein sú stærsta á landinu, Búrfellsgjá.
Gengið var í gegnum Mygludali, en undir þeim er talið vera eitt mesta ferskvatnsmagn á svæðinu. Dalurinn er talinn hafa verið nefndur eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, Myglu, en aðrir telja að nafnið sé til komið vegna myglu er leggst yfir dalinn er líða tekur á sumarið.

Valaból

Í Valabóli.

Litið var við í Valabóli norðaustan í Valahnjúkum. Þar er Músarhellir sem áður var notaður sem áningastaður en síðar sem gististaður Farfugla eftir að þeir girtu staðinn og ræktuðu upp gróðurvin í kringum hann. Fleiri hellar eru hér austur í hrauninu og reyndar víða á þessu svæði.

Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður. Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin ilmaði enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir. Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu aldrei lengi á sama stað.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Hlaðinn stekkur er skammt frá Rauðshelli. Ekki langt frá, ofan við Helgadal eru fornar tóftir. Jarðfallið, sem gengið er úr í hellinn, er mikið gróið. Set, mold og gróður hafa hlaðist þar upp um aldir. Ekki er ólíklegt að undir þeim kunni að leynast minjar. Þær gætu bæði tengst hinum fornu tóftum í Helgadal, þarna 500 m frá, eða (sels)búskapnum í Kaldárseli. Einnig gætu þær verið frá Görðum á Álftanesi, en landssvæðið tilheyrði þeim fyrr á öldum.
Frá Rauðshelli sést gígurinn í Búrfelli mjög vel. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Helgadalur er ágætt dæmi um misgengi, líkt og á Þingvöllum. Hluta þessa misgengis má sjá þegar komið er upp á brúnina að vestanverðu. Það er handan Mosana og gengur í gegnum austanverðar Smyrlabúðir.

Helgadalur hefur verið afgirtur og er svæðið innan girðingarinnar, Kaldárbotnar, hluti af vatnsverndasvæði Vatnsveit Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð 1904.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð eftir köldu vatni í nágrenni Hafnarfjarðar er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns.
Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918. Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Enn má sjá undirstöður vatnsleiðslunnar þar sem hún liggur frá Kaldárbotnum og yfir Sléttuhlíð, þar sem vatninu var hleypt niður í hraunið. Það kom síðan upp í Lækjarbotnum, sem fyrr segir. Mest er mannvrikið þar sem leiðslan lá yfir Lambagjá.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.

Kaldá

Kaldá.

Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.

Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum.
Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.

Kaldá

Kaldá.

Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót (sem við köllum héðan í frá hausagrjót ) kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá.
Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Í Kaldárseli eru reknar sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK. Frumkvöðull starfs KFUM og KFUK á Íslandi var æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, en hann hafði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynnst starfi KFUM og tekið virkan þátt í því. Haustið 1897 kom hann heim til Íslands og myndaði eins konar undirbúningsfélag með nokkrum unglingspiltum úr Dómkirkjusöfnuðinum vorið 1898. Þann 2. janúar 1899 var KFUM formlega stofnað og fór starfsemin ört vaxandi er á leið vorið. Þá færðu nokkrar fermingarstúlkur það í tal við sr. Friðrik hvort hann gæti ekki einnig stofnað félag fyrir þær. Fékk sr. Friðrik nokkrar konur til liðs við sig og 29. apríl 1899 hafði KFUK einnig verið ýtt úr vör.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.

Um það leyti sem starf KFUM og KFUK hófst hér á landi átti íslensk kirkja að ýmsu leyti í vök að verjast og félagsstarfsemi fyrir börn og unglinga var mjög af skornum skammti. Ýmsir höfðu því efasemdir um að slík kristileg félagsstarfsemi gæti átt framtíð fyrir sér, en ekki leið á löngu uns félögin tóku að blómstra í höndum sr. Friðriks. Augu hans voru næm á þarfir ungu kynslóðarinnar og innan félaganna spruttu fram starfsgreinar á borð við kvöldskóla, bókasafn, skátafélag, knattspyrnufélag, bindindisfélag, taflflokk, hannyrðadeild, lúðrasveit, söngflokka, sumarbúðir o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Sífellt leitaði sr. Friðrik nýrra leiða til þess að byggja upp félagsstarf á kristnum grunni sem mætt gæti þörfum æskunnar og skapað heilbrigða einstaklinga til líkama, sálar og anda. Einstakir persónutöfrar, manngæska og vitsmunir gerðu hann nánast að dýrlingi í lifanda lífi og í hjarta borgarinnar, við Lækjargötu, minnir stytta hans á mikilvægi þess að styðja æsku Íslands til bjartrar framtíðar.

Kaldársel

Kalsdársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna eru felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt var við þau til búsetu.

Í Kaldárseli var sel um langan aldur, auk þess sem búið var þar um aldarmótin 1900. Ítarleg lýsing er á Kaldáseli í annarri FERLIRslýsingu (Sjá HÉR og HÉR.)
Sjá MYNDIR.

Frábært veður – sól og milt. Gangan tók 2 klst og tvær mínútur.

-Upplýsingar um Reykjaveginn fengnar af http://www.utivist.is
-Upplýsingar um Vatnsveitu Hafnarfjarðar eru fengnar af http://www.hafnarfjordur.is
-Upplýsingar um Helgafell eru fengnar af http://www.visindavefur.hi.is

Kóngsfell

Kóngsfell.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: “Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.”

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Búrfellsrétt

FERLIR hefur nokkrum sinnum þrætt Búrfellsgjá sem og systur hennar, Selgjá. Jafnan hefur það verið á leiðum til annarra nálægra áfangastaða, s.s. Garðaflata, Valabóls, Helgafells o.fl.
Nú var ætlunin að ganga upp (austur) gjána, skoða Gjáarrétt, Gerðið, fyrirhleðslur við skúta, gamlar götur og halda síðan áfram á Búrfell. Gerðið (Réttargerðið)Fyrri lýsingar af svæðinu voru gerðar í tíð fornvefsíðu FERLIRs, en við “klónunina” misfórust (týndust) sumar þeirra á rafleiðunum, m.a. ein sú yfirgripsmesta frá Gjáarréttarsvæðinu. Í henni var m.a. lýst hinum fornu götum um gjána. Þessar forlýsingar hafa þó varðveist í afritum.
Búrfellið er eldstöð frá nútíma. Fjallið, sem er ólíkt öðrum nöfnum þess á landinu vegna þess að það er gjall- og klepragígur, sem gaf af sér mikinn hraunmassa. Önnur Búrfell eru jafnan umfangsmeiri og úr móbergi eða bólstrabergi. Hraunið þekur um 18 km2 lands. Búrfellsgjá, sem reyndar er hrauntröð með nokkrum þvergjám (sprungum), er 3,5 km löng. Hún liggur niður úr suðvesturhlíð Búrfells og telst meðal bestu dæma um hrauntraðir frá nútíma. Það myndar nú stóran hluta þess gróna lands sem byggðirnar í Hafnarfirði og Garðabæ standa á. Svæðið er bæði aðgengilegt og einstaklega fallegt.
Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Mannvirki í GerðinuBúrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst fyrrnefnt Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellshraunið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Í því eru t.a.m. Norðurgjárhellrar, Þorsteinshellir, Skátahellar, Maríuhellar (Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir) og Jónshellar. Allir, nema Skátahellar, voru notaðir fyrrum sem fjárskjól og má sjá þess merki enn þann dag í dag. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.
Í Búrfellsgjá er Gjáaréttin, grjóthlaðin fjárrétt Álftaneshrepps. Gjáarétt er fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár og var lögrétt fram til 1920. Smalað var til hennar fram yfir 1940. Réttin er hlaðin úr hrauni. Gjáarétt er á fornminjaskrá. Skammt norðan  réttarinnar er Vatnsgjá, er var vatnsból réttarinnar og selja í grenndinni. Hún er alldjúp gjá eða sprunga í hraunbotni Búrfellsgjár. Gjáin er þröng og um 5-6 m. á dýpt.
Þegar lagt var af stað komu fram vangaveltur um örnefnið Búrfell. “Mörg fjöll á Íslandi bera sama nafn eins og Mælifell, Sandfell og Búrfell. Það er augljóst hvers vegna fjöll heita Sandfell og talið er að Mælifell heiti svo m.a. af því að þau helmingi ákveðna ferðamannaleið. En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell?

Forn gata upp úr sunnanverðri Búrfellsgjá

Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar. Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla. Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“ Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell.” Framangreindar upplýsingar um örnefnið er fengnar af vef Örnefnastofnunar Íslands.
Búrfellið hértilgreint er líkt öðrum nöfnum þess að einu leyti; þegar horft er að því úr norðri er mikill systkinasvipur með þeim.
Mannvistarleifar í norðanverðri BúrfellsgjáBúrfell er í austur frá Hafnarfirði, en í umdæmi Garðabæjar. Hraunið rann frá því eftir mjórri rás til vesturs og heitir þessi rauntröð Búrfellsgjá.
Vestast er gjáin grunn og víð. Í þeim enda er Gjáarrétt. Í hana var fénu smalað á haustin af nærliggjandi afréttum til sundurdráttar. Þessi viðburður í lífi fólksins fyrrum var oftast með miklum hátíðarbrag. Unga fólkið safnaðist saman við réttina kvöldið fyrir, sumir gættu fjárins, sem komið hafði af fjöllunum daginn áður, en aðrir vöktu og skemmtu sér. Var stundum slegið upp dansleik og seldar veitingar á svonefndum Garðaflötum sem eru skammt frá réttinni. Kvað svo rammt af gjálífinu að presturinn á Görðum bannaði þar allar skemmtanir um tíma. Vandkvæði tengd skemmtanahaldi eru því ekki ný af nálinni á þessu svæði.
NGjáarveggurátthaginn er sunnan við réttina. Réttin er nú friðlýst af þjóðminjaverði, en Búrfell og gjáin eru á náttúruminjaskrá.
Gjáarétt er fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár og var lögrétt fram til 1920. Smalað var til hennar fram yfir 1940. Réttin er hlaðin úr hrauni og þrátt fyrir að hún hafi verið endurgerð bera veggirnir ummerki eftir afleiðingar jarðskálfta, sem jafnan eru tíðir á svæðinu, enda stendur réttin á þéttri hraunhellu. Skammt norðan réttarinnar er Vatnsgjá, sem fyrr er lýst. Var hún meginvatnsból réttarinnar og selja í grenndinni. Gjáin er alldjúp gjá eða sprunga í hraunbotni gjárinnar. Hún er þröng og um 5-6 m á dýpt. Löguð hafa verið steinþrep niður í hana þar sem vatnsbólið var.
Gjáarrétt var flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Hún var fjarlægð þegar kappreiðavöllur var byggður svo til utan í henni. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 kveður Árni Helgason gjárétt hafa verið hlaðna steinrétt er þjónaði sem fjallskilarétt Álftaneshrepps frá 1840. Mun hún hafa verið nýtt sem slík fram til fram undir 1930.
Fjárskjól efst í BúrfellsgjáHlaðin mannvirki eru í krika suður af Gjáarrétt. Þar er m.a. stórt gerði, væntanlega fyrir hesta því það er með tvöfaldri hleðslu, innra gerði, væntanlega fyrir varning, aktygi o.fl. og síðan hús fyrir fólkið. Í örnefnalýsingu fyrir Garðabæ segir að “hvilft þessi er skeifulaga og hömrum gort á þrjá vegu. Er það hlaðinn garður fyrir og hlið á. Fjársafnið var geymt í Gerðinu nóttina áður en réttað var (heimildamaður; Gísli Guðjónsson). Innst í réttargerðinu er gjárbarmurinn veggbrattur og slútir nokkuð fram yfir sig á kafla. Þar inn undir berginu er hlaðið byrgi, sem ýmsar skýringar eru til á til hvers hafi verið notað. Raunar er augljóst, að þarna er fyrst og fremst um fjárbyrgi að ræða. Víst er einnig, að menn notuðu þetta byrgi sér til skjóls og gistingar, meðan Gjáarrétt var fjallskilarétt. Okkur hefur þó komið til hugar, að byrgið gæti upphaflega verið eldra en Gjáarrétt eða frá sama tíma og seljarústirnar í Selgjá. Gróðurfarið í Gerðinu styður m.a. þessa tilgátu. Byrgið hefur nú látið allmikið á sjá (m.a. varð þar nokkurt hrun vorið 1982).”
Hrafnagjárhluti BúrfellsgjáarGjárréttin varð tilefni deilumáls um miðbik 8. áratugar 19. aldarinnar. Forsaga málsins var sú að þann 28. september 1874 seldi Ingjaldur Sigurðsson, hreppstjóri Seltjarnarneshrepps, þrjá ómerkinga í Gjárrétt. Hann taldi sig vera í fullum rétti til þess þar sem réttin væri í sameiginlegri varðveislu Álftaness- og Seltjarnarneshreppa. Þessari túlkun var hreppstjóri Álftaneshrepps ekki sammála. Hann leit þannig á málið að Álftaneshreppur ætti einn tilkall til þessara ómerkinga. Rök hans voru þau að presturinn í Görðum, sem væri réttarbóndi í Gjárrétt og hefði því yfirráð yfir ómerkingum sem kæmu þar fram, hefði afsalað þessum réttindum í hendur Álftaneshrepps. Eftir árangurslausa sáttatilraun fór málið fyrir dómstóla. Dómur var kveðinn upp í málinu þann 4. ágúst 1875. Samkvæmt honum var hinum stefnda gert að greiða sækjandanum skaðabætur fyrir fénaðinn sem hann seldi. Í dómnum kom einnig fram að Gjárrétt væri sameiginleg rétt Álftaness- og Seltjarnarneshreppa og að réttin væri á landi sem Garðaprestur hefði til ábúðar. Í dómnum segir: “Samkvæmt tilvitnuðum stað í Jónsbók [49. kafli landsleigubálks] á sá, sem rjett vardveitir, ómerkinga; er hann nú almennt nefndur rjettarbóndi, en sá er rjettar bóndi er býr á þeirri jörd í hverrar landi rjettin er byggd. Rjetturinn fær því ekki betur sjed en ad Gardaprestur sem rjettarbóndi hafi með fullum rjetti getad afsalad Álptaneshreppi tilkall sitt til ómerkinga í Gjáarrjett …”

Kleprastandur í Hrafnagjá

Það hefur verið sagt um Krýsuvíkur-Gvend að úr Krýsuvíkurhverfi hafi hann hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldist við í Gjáarrétt með fé sitt og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum og sér þar votta fyrir byrgi sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla. Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan. Í norðaustanverðri Búrfellsgjá má sjá myndarlega fyrirhleðslu við aflangan skúta. Lítið er eftir af hleðslunni, enda hafa kvikmyndagerðarmenn og aðrir farið höndum um grjótið síðan mannsmynd var á fyrirhleðslunni. Syðst í henni má þó enn sjá hlaðinn innganginn.
Í Búrfellsgjá, við mannvirkin, má sjá a.m.k. þrjár fornar götur. Ein liggur upp úr gjánni að norðanverðu gegnt réttinni, önnur upp úr gjánni sunnanverðri skammt austan við Gerðið og sú þriðja til vesturs við mörk Selgjár. Sú síðastnefnda mun hafa heitið Gjáarréttargata (Gjáarrréttarstígur) og lá áleiðis niður að Urriðakoti annars vegar og Vífilsstöðum hins vegar. Hinar göturnar hafa verið leiðir annars vegar heim að Vatnsenda og Elliðavatni og hins vegar niður að Setbergi og í Hafnarfjörð. Fjóra gatan hefur legið upp Búrfellsgjá og síðan upp úr henni yfir á Selvogsgötu ofan Helgadalsmisgengisins því þær útréttir, sem Selvogsbændur urðu að fara í voru, auk Eldborgarréttar Grindvíkinga, Lögbergsréttar við Reykjavík og Ölfusréttar, Gjáarréttin í Búrfellsgjá..
Bláberjalyngið í haustlitunumOfar, að norðanverðu í gjánni, eru leifar að fyrirhleðslu undir framslútandi bergvegg. Þarna sést enn dyraopið þrátt fyrir að öðru hafi verið raskað við gerð kvikmyndar, sem þar var gerð. Líklega hefur þarna verið um fjárskjóla að ræða – skammt frá mannvirkinu í Gerðinu. Á því eru dyrnar manngengar og því að öllum líkindum upphaflega verið hlaðið með það fyrir augum að þar gætu menn hafst við. Áður en útveggurinn hrundi mátti sjá á honum gluggaop eða hugsanlegt eldstæði. Ekki er ólíklegt að þar hafi Krýsuvíkur-Gvendur dvalið þá stuttu tíð er hann hafðist við í Gjáarrétt.
Norðaustar eru Garðaflatir. Sagt er, að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður.
Auk gamalla sagna um bústað og minjar á Garðaflötum er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá, auk Selgjár ásamt 10 öðrum bæjum á Nesinu. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”, sem fyrr er lýst. Svo virðist sem minjarnar á Garðavöllum hafi fallið í gleymskunnar dá – a.m.k. þar til fyrir nokkrum árum.
Í umsögnum um svæðið hefur gjarnan verið sagt að “engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur”. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi hafi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.S

Búrfellsgígurinn

vonefndar Garðaflatir liggja við austurbrún Löngubrekka, norðvestan við Búrfell og Búrfellsháls. Hermt er að þar hafi Garðakirkja staðið fyrr á tímum. Í ritinu Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar (bls. 90) er vitnað til sagnaþátta Ólafs Þorvaldssonar, þar sem segi: „Þetta var á svonefndum Garðaflötum, sem liggja norðvestur frá Búrfelli. Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi, og tel ég líklegt, að umgetnar flatir hafi fengið nafn af jörðinni Görðum. Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. (Ólafur Þorvaldsson 1951:50-51). Kemur einnig fram í frásögn Ólafs, að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.
Undir norðaustanverðum brekkubrúnum Garðaflata má sjá tóftir, m.a. húss, gerðis og garðs. Enn ofar má sjá þar tóftir tveggja minni bygginga.

Búrfell

Búrfell – Kringlóttagjá framar.

Ofar í Búrfellsgjá, þar sem hún mjókkar og hækkar, heitir Hrafnagjá. Neðst í henni sunnanverðri eru tvö skjól; annars vegar fjárskjól og hins vegar skúti með tveimur inngöngum; til norðurs annars vegar og upp og til vesturs hins vegar.
Fjalla-Eyvindur er frægastur útilegumanna á Íslandi. Hann er í rauninni ágætt (vont) dæmi um það hvernig yfirvöld þess tíma gerðu fátækan mann, sem hafði alla burði til að geta bjargað sér með heiðvirðum hætti, að varanlegum sakamanni. Athafnir þess, sem var “grunur um þjónað”, varð til þess að Eyvindur Jónsson frá Hlíð í Hrunamannhreppi, elstur systkina (tvíburi) varð að dvelja á fjöllum í 40 ár til að viðhalda “frelsi” sínu. Sú reynsla gerði hann að þeim mikla “Þekkingarbrunni” öræfanna er vegna skammsýni nýttist aldrei öðrum eftirlifandi. Minnir málatilbúnaður yfirvaldins á 18. öld margt á það sem hefur verið að gerast hér á landi þremur öldum síðar.

Búrfellsgjá - hrauntröðin

Eyvindur fæddist árið 1713 eða ’14. Um aldamótin þau var Ísland ofurselt danskri einveldisstjórn og harðsvírðuðu verzlunarfyrirkomulagi. Aldrei hefur Ísland verið nær því að gefast upp við að halda lífi í þjóð sinni og aldrei hefur sorfið meir að norrænum kynstofni, utan þess er dó á Grænlandi á fimmtándu og sextándu öld. Síðasta hallærisárið af sjö í röð um aldamótin var árið 1701. Þá var fiskileysi um landi mest allt, að kalla mátti dauðan sjó. Um miðjan maí voru 50 menn fallnir úr hor í Þingeyjarsýslu einni og víða urðu menn fallnir úr hor af næringarskorti. Fólk við sjávarsíðuna lifði helzt á sölum og fjallagrösum. Um þetta leiti er talið að dáið hafi  milli níu og tíu þúsund manns hér á landi, en þeir, sem eftir lifðu voru margir hörmulega útleiknir og biðu þess aldrei bætur, sem lagt hafði verið á þá andlega og líkamlega. Í dag er þetta allflestum geymt og tröllum gefið.
Þá segir sagan að “maður að nafni Geirmundur Bjarnason frá Sviðholti á Álftanesi lá úti upp frá seljum Álftnesinga í þrjár vikur í júní 1704 og lifði eingöngu á súrum og grasi. Sama ár dó skáldið á Stapa á Snæfellsnesi. Guðmundur Bergþórsson hefur varla dáið af of miklum mat eins og nú er eitt algengasta dauðamein hér.” Enn má sjá ummerki eftir Geirmund í Búrfellsgjá – ef vel er að gáð.
Veggir Búrfellsgjár ofanverðrar eru fimm til tíu metra háir. Greinilega má sjá hvernig hraunið hefur runnið. Láréttir taumar á gjárveggjum vitna um það. Tvennt hefur gerst nær samtímis og mjög skyndilega. Annars vegar fann hraunið sér aðra útrás úr gígnum eða jafnvel að gosið hafi stöðvaðist algjörlega, hraunrennsli hætt. Hvert heldur sem gerðist þá tæmdist hins vegar hrauntröðin mjög hratt, veggirnir beggja vegna kólnuðu og varanleg tilvist þeirra var nokkurn vegin tryggð, þó svo að veggirnir kunni að hafa hrunið víða en sums staðar eru þeir ansi háir og myndarlegir.
Efst uppi við sjálfan gíginn eru stórkostlegar hraunmyndanir, hraunið er víða lagskipt, sjá má hvernig litlir hrauntaumar hafa lekið niður vegginn og oft má finna lítil op inn í veggina og þar inni eru fallegir litir. Gígurinn er afmarkaður og litskrúðugastur að norðvestanverðu. Þegar horft er frá gígbrúninni má m.a. líta augum Húsafellið og Bollana að handan í austri, Kringlóttugjá, Valahnúka og Helgafell í suðri, Smyrlabúð í vestri og Hjallana í norðri.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.ust.is/media/skyrslur2003/Burfell.pdf
-http://2www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun
-http://www.gardabaer.is/upload/files/Gardab_kortab_bak.pdf
-http://www.ornefni.is/
-Saga Fjalla-Eyvindar, Guðmundur Guðni Guðmundsson – 1970.
-Örmefni í landi Garðabæjar.
-Gísli Sigurðsson.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell

Búrfell eru 39 talsins, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil. En hvers vegna heita öll þessi fjöll á landinu “Búrfell”?
Búrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Þrjátíu og níu fell eða fjöll bera nafnið Búrfell [fjögur fellanna eru á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs, þ.e.]:
-Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
-Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
-Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
-Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m

Af þessum fjórum Búrfellum á Reykjanesskaga eru tvær eldborgir (í Garðabæ og í Ölfusi (Þorlákshöfn)) og tvö eru móbergs og basaltfjöll (við Þingvelli og í Mosfellsbæ).

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson birti fróðlega umfjöllun og vangaveltur um “Búrfell” á bloggsíðu sinni sigsig.blog.is árið 2013:
“Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla.

Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu. Leiddi þar hvað af öðru. Sem betur fer glataði ég tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur.

Hvaða búr er um að ræða?

Bær

Bær og útibúr.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.

Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús.

Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega og er heldur einföld skýring.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi:
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.

Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla.

Búrfell

Hjallur.

Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“

Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn.

Hyggjum nú aðeins að þessu. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.

Búr og kjölur

Búrfell

Búr.

Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.

Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig. Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem er frá stefni og í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, slíkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.

Hugsanlega eru „kjölur“ og „búr“ andheiti. Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.

Orðsifjafræðin

Búrfell

Búrhvalur.

Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:

Búrhvalur
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins.

Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt.

Í sömu bók segir:

Búrfell

Langreyður.

1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.

Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri.

Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.

Búrfell

Sandreyður.

Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa.

Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.

Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.

Fornritin

Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.

Búrfell

Steypireyður.

Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.

Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með að fjall á Snæfellsnesi fékk nafnið „Búrfell“. Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli. Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.

Búrfell

Búrfell í Rogan.

Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.

Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.

Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á.
Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að gera hann sem lengst neysluhæfan. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.

Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar. Í þeim er oftlega getið um “búr” og “útibúr”.

Burfjell í Noregi

Búrfell

Búrfell í Fusa.

Ég er langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll eru þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega búrfellslagi. Hið fyrra er Burfjell í Fusa og hið seinna er Burfjell í Rogan. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi með því.

Stapi

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem jarðfræðilega bera heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.
Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Hann myndast í upphafi þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.
Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu eftir svokallaðir stapar. Þeir er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg.

Niðurstaða

Búrfell

Búrfell í Ölfusi – loftmynd.

Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.

Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.

Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, jafnvel stórt stakt fjall.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – loftmynd.

Hvalurinn hefur þar af leiðandi verið nefndur Búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir en ekki vegna lýsis eða kjöts.

Hitt er svo til umræðu hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.”

Brynjólfur Þorvarðsson fjallar um framangreint og skrifar m.a.:

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

“Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtilega ritgerð.
Það er afskaplega erfitt að rekja orðsifjafræði stuttra orða með fjölbreytta merkingu. En mér sýnist þú ekki taka eina algeng merkingu orðsins “búr” í daglegu máli, þ.e. aflæst hirsla með rimlum. Nú veit ég ekki hversu gömul sú málnotkun er, en rimlar heita “bars” á ensku og “barer” á dönsku. Samkvæmt enskum orðsifjum er þetta tekið úr síð-latnesku “barra”.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – kort 1903.

Ennfremur finn ég fornnorræna orðið “burr”, enn notað í ensku, sem merkir fræhylki með litlum þyrnum sem festast í fatnaði. Önnur heimild talar um “borr” eða “borre” í fornnorrænu.

Loks finn ég “búrr” notað sem kenningu um son í Eddukvæðum: “Óðins búrr”. Einhverjir tengja orðin búrr, búri, bör í Eddukvæðum við “að framfæra” sem aftur er augljóslega skylt sögninni að bera, öll orðin ur Sanskrít “bâras”.

FERLIR spyr: Hvers vegna eru engin fjöll nefnd eftir Langreyð, Sandreyð eða Steypireyð. Allir þeir hvalirnir eru ekki ólíkir Búrhvalnum. Og hvernig er örnefnið “Kistufell” tilkomið? Gæti það verið hliðstæða við örnefnið “Búrfell” líkt og örnefnið “Húsfell”?!? Búr var jafnan einungis hluti bæja eða selja. “Bæjarfellin” eru allnokkur. Undir þeim flestum kúra bæir eða bæjatóftir, sbr. Bæjarfell í Krýsuvík og við Vigdísarvelli. Þar liggja fyrir augljósar skýringar á örnefninu. Bæirnir Búrfell og Búrfellskot voru undir Búrfelli í Mosfellsbæ. Hvers vegna var fellið ekki nefnt Bæjarfell til samræmis?…

Heimild:
-https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1328331/

Búrfell

Búrfellin – kort.

Búrfell

Gengið var um hluta Búrfellshrauns með viðkomu í Maríuhellum (í Heiðmörk). Hraunið rann fyrir u.þ.b. 8000 árum síðan.

Árni Hjartarson

Árni Hjartarson.

Árni Hjartarson skrifaði grein um Búrfellshraun í Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 2009. Greinin er ágætt yfirlit yfir efnið, en þó alls ekki tæmandi, enda hefur það kannski ekki verið markmiðið. Hér verður drepið niður í greinina á nokkrum stöðum þar sem m.a. er lýst stærð hraunsins, aldri, hrauntröðum og hraunhellum. Á köflum hafa misvísanir slæðst inn í umfjölluna, auk þess sem inn í hana vantar á köflum nánari lýsingar til uppfyllingar heildarmyndinni.
“Búrfell upp af Hafnarfirði er gígur af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur orðið á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan Búrfellaðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkur hliðargígar eru hjá Búrfelli. Hrauninu svipar til dyngjuhrauna. Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram á nokkrum stöðum nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. [Hér má bæta við nöfnum s.s. Stekkjarhraun, Balahraun, Svínahraun, Flatahraun og Klettahraun.]
Mikil msigengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.”

Búrfellshraun

Á meðfylgjandi korti af útbreiðslu hraunsins má sjá að nútímahraun, s.s. Bruninn (Nýjahraun/-Kapelluhraun) hafa runnið yfir það að hluta að vestanverðu, þ.e. í átt að Straumsvík. Þar má þó enn sjá Selhraunin vestan hans sem leifar Búrfellshraunsins. Í Búrfellsgosinu rann elsta hrauntungan til Straumsvíkur (nú að mestu hulin nútímahraunum). Næstelst er hrauntunga sem rann að Kaldá og síðan niður með Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Þriðja hrauntungan rann niður með Vífilsstaðahlið og til sjávar í Hafnarfirði og Arnarnesvogi. Hraun frá lokahrinu gossins er síðan sunnan við Búrfellsgíg. Gígurinn er sýndur í rauðum lit. .
“Gígurinn og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota.
MaríuhellarSelhraun[in] er áþreifanlegur hluti þessa. [Selhraunin eru þrjú á þessu svæði og eru þau sennilega öll hluti Búrfellshraunsins (jarðfræðikort ÍSOR).] Sjá meira um Selhraunin ofan Straumsvíkur (sjá HÉR).

II. Lambagjárlota.
Fyrsti hraunstraumurinn hafði hlaðið undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði. Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá. (Sjá meira um Lambagjá HÉR.)

III. Urriðavatnslota. Gosið fyllti sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá rann hraunið niður með Vífilsstaðahlíð og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi. Þess laieð hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok.
HraunstraumurVið goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Líklegt er að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.
Land hefur sigið nokkuð á höfuðborgarsvæðinu síðan þett var og að auki stóð sjór nokkrum metrum lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú, svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina. Líklega hefur sjávarstaðan verið um 8-10 metrum lægri er hraunið rann.
Búrfellshraun er miðlungshraun að stæð á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2.
Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkusvæðinu. Skv. aldursgreiningu á fjörumó undir hrauninu er hann um 8100 ára. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra, eða að líkindum rétt um 8000 ára og hefur runnið um 6000 f. Kr. Á þessum tíma er talið að hið almenna yfirborð heimshafanna hafi staðið um 10 m lægra en nú.
Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð. Elsta tröðin sem enn sést liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumi sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnt Kringlóttagjá.
Búrfellsgjá á fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng Draugahellir(20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niðurá jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar. Þar er Hrafnagjá, en við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir traðanna eru oft 5-10 m háir og sum staðar þverhníptir og sítandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri, Undir þeim eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.
JónshellarNeðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins. Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar.”
Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni, s.s. Hundraðmetrahellir (Fosshellir)  (102 m), Níutíumetrahellir (93 m), Rauðshellir (65 m), Ketshellir (22 m), Kershellir (34 m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43 m), Sauðhellir nyrðri (32 m), Skátahellir syðri (237 m), Skátahellir nyrðri (127 m), Vífilsstaðahellir (19 m), Urriðakotshellir (24 m ), Draugahellir (78 m), Jónshellar (68 m), Hraunholtshellir (23 m), Vatnshellir (23 m), Sauðaskjólið (12 m), Selgjárhellir syðri (8 m), Selgjáhellir eystri (11 m) og fleiri mætti nefna.
Maríuhellar er samheiti á hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða. Björn UrriðakotshelliHróarsson lýsir þessum hellum; Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli; auk þess minnist hann á fjórða hellinn, Jósepshelli. Samheitin Vífilsstaðahellar, Fjárhellrar, Vífilsstaðafjárhellrar og Urriðakotsfjárhellrar hafa einnig sést á prenti um þessa hella.
Nafnið Maríuhellar virðist gamalt eins og fram kemur í landamerkjalýsingu Urriðakots sem dagsett er 20. sept. 1834 [1890?]. Þar kemur fram að ósamkomulag hafi ríkt um eignarhald á hellunum.
Maríuhellarnir þrír eru rétt við bílveginn og í sömu hraunrás, alls um 150-160 m langri. Meginniðurfallið virðist vera gamall viðmiðunarpunktur á landamerkjum Urriðakots og Vífilsstaða [landamerkjahóllinn er þar beint sunnan við].”
Þegar hér er komið í greininni verður veruleg misvísun m.t.t. örnefna. Þannig er Vífilsstaðahellir tilgreindur sem Urriðakotshellir Maríuhellarog Jósepshellir sagður stakur þar sem fyrir var Vífilsstaðahellir. Ekki verða eltar ólar við þá umfjöllun hér.
“Draugahellir er vestastur Maríuhella, 18 m norðvestur af munna Vífilsstaðahellir [Urriðakotshellis]. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr fönnu þakinu. Fyrst er farið 3.f m niður en síðan má smeygja sérmilli stórgrýtis og veggjar eftir hallandi göngum uns komið er í víðara rými innan við hraunið. Þar verður fyrir gild hraunsúla á vinstri hönd, 20 m að ummáli. Hellirinn er í heild 65-70 m langur inn í botn en mjög lágur innst.
Í hellabókinni nefnir Björn Jósepshellinn Vífilsstaðahelli [og er það rétt til getið].”
Í lokin fjallar höfundur um “örnefnaflækju” tengja Maríuhellum, sem reyndar er óþarfi ef grannt er skoðað. “Flækjan” virðist fyrst og fremst vera af eðlilegum misvísunum og því eru ekki eltar ólar við hana hér.
HraunmyndanirEftir stutta göngu var komið að Jónshellum. Þeir eru undir klettavegg er snýr að Vífilsstöðum. Mikið kjarr og hár trjágróður er allt um kring. Jónshellar eru þrír skútar. Einn er sýnum stærstur og einn hefur greinilega verið notaður sem fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum, en fyrir innan er slétt moldargólf. Spýtnabrak er í gólfi. Þessi skúti gæti auðveldlega hýst 40-50 rollur. Í kverkinni þar sem hellarnir eru, er gamall timburpallur. Sennilega hefur fólk af Vífilstaðahælinu gengið þangað á góðum dögum til að njóta veðurblíðunnar á þessum fallega stað. Örnefnið Jónsflöt eða Jónshellraflöt er þarna skammt norðvestar.
Nyrsti hellirinn er stærstur, um 50 m langur. Þegar komið er inn fyrir opið liggur leiðin spölkorn niður á við til norðvesturs. Þá hækkar til lofts og sjá má grjóthrauka á tveimur stöðum. Svo virðist sem tekið hafi verið til á gólfinu og grjótið sett á tvo staði. Innar er rúmgott, en óraskað. Hér, líkt og í örðum hraunhellum, er rakakennt í bleytutíð. Þessi hluti Jónshella svipar mjög til Hraunsholtshellis (Arnesarhellir) í vesturjaðri Flatahrauns.
Gengið var eftir Jónshellustíg austur yfir hraunið. Á köflum hefur stígurinn verið lagaður til og hlaðið í lægðir. (Sjá meira
HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Árni Hjartarson, Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 77 (-34), bls. 93-100, 2009.

Maríhellar

Í Maríuhellum.