Bessastaðir

“Þegar viðgerðir og endurbætur hófust á Bessastaðastofu árið 1987, kom í ljós að undir henni voru allt að 3,5 m þykk mannvistarlög, sem hlaðist höfðu upp af eldri mannvistarleifum. Hófust þá á staðnum umfangsmestu fornleifarannsóknir sem enn hafa verið gerðar á Íslandi.
Bessastaðastofa 10Á árabilinu 1987 – 1996 var stór hluti bæjarhólsins á Bessastöðum rannsakaður og er rannsóknarsvæðið rúmlega fjögur þúsund fermetrar.
Aðeins er búið að vinna úr hluta rannsóknargagna og bíður fornleifafræðinga enn margra ára vinna við að tengja saman niðurstöður allra rannsóknarsvæðanna og rekja flókna þróunarsögu Bessastaða gegnum hinar þykku mannvistarleifar áður en endanlegar niðurstöður liggja fyrir. 

Byggð á 10. – 11. öld
Helstu niðurstöður rannsóknanna eru þó nokkuð ljósar: Á Bessastöðum hófst búseta að öllum líkindum þegar á síðari hluta 10. aldar, eða um tveimur öldum fyrr en ritheimildir nefna staðinn. Fundist hafa allmiklar minjar um þessa fyrstu búsetu, m.a. leifar af tveimur stórum skálum, búr og eldhús, jarðhús, útihús og garðar. Verður forvitnilegt að vinna nánar úr rannsóknum á þessari byggð og þróun hennar og bera hana t.d. saman við sambærilegar byggðaleifar sem fundist hafa í Reykjavík og Garðabæ.
Bessastaðastofa 12Bessastaðir virðast hafa verið allstórt býli frá upphafi og haldið þeirri stöðu um aldir. Bæjarhóllinn er einn sá stærsti á Íslandi, rúmlega 50 m breiður og 150 m langur. Bæjarhúsin hafa ekki alltaf verið á sama stað, heldur færst fram og aftur um bæjarhólinn. Gömul yfirgefin hús, hlaðin úr torfi og grjóti fengu að hrörna og falla saman. Ný hús voru reist skammt frá og gömlu húsin fóru smám saman á kaf í eldiviðarösku og sorpi, sem hent var í næsta nágrenni húsanna. Einni til tveimur öldum síðar voru þau algerlega hulin jarðvegi og þá var hægt að reisa ný hús ofan á þeim. Þannig byggðist bæjarhóllinn upp smám saman og hann hefur því að geyma allar áþreifanlegar upplýsingar um búsetu á Bessastöðum.
Ýmsar byggingaleifar aðrar hafa fundist frá miðöldum, en nánari greining á þeim liggur ekki enn fyrir.

Konungsgarður
Bessastaðastofa 11Undir Bessastaðastofu og á flötinni fyrir framan hana fundust margvíslegar leifar hinna ýmsu bygginga konungsgarðsins á Bessastöðum, sem stóðu á 17. og 18. öld. Forvitnilegt hefur verið að bera minjarnar saman við teikningar sem til eru af húsunum. Teikningarnar eru mikilvæg heimild um útlit viðkomandi húsa, en rannsóknin bendir til þess að þær séu ekki með öllu réttar og þurfi nokkurrar endurskoðunar við. Hægt hefur verið að fá nokkuð góða mynd af bæjar- og húsaskipan konungsgarðsins út frá fornleifarannsóknunum. Þær sýna að byggingarsaga konungsgarðsins er mun flóknari en áður var talið. Einnig kom í ljós að á Bessastöðum virðast hafa verið byggð hús með bindingsverki allt frá 15. – 16. öld, þ.e. húsagerð sem ekki tíðkaðist almennt á Íslandi.

Beinaleifar
Bessastaðastofa 13Rannsóknir á beinaleifum og skeljafundir benda til þess að að nautgriparækt og útgerð hafi skipt meira máli á Bessastöðum á fyrstu öldum, en að sauðfjárbúskapur hafi tekið yfirhöndina á síðari hluta miðalda.

Skordýr
Góð varðveisla á sumum elstu mannvistarlögum á Bessastöðum hefur varpað nýju ljósi á hvaða skordýr fluttust með landnámsmönnum til landsins. Mörg skordýr lifa í svo sérhæfðu umhverfi að þau geta gefið mikilvægar upplýsingar um nánasta umhverfi mannsins og ýmsar athafnir hans. Á Bessastöðum hafa fundist elstu eintök allmargra skordýrategunda, sem bárust til landsins með mönnum. Eitt stærsta og fjölbreyttasta safn fornvistfræðilegra gagna hér á landi hefur orðið til við rannsóknirnar á Bessastöðum.

Ýmsir munir
Bessastaðastofa 14Við fornleifauppgröftinn á Bessastöðum hafa fundist á annað þúsund gripa. Flestir þeirra eru brot af hversdagslegum búsáhöldum, sem hafa brotnað og verið hent. Nefna má fjölmörg leirkers- og postulínsbrot úr diskum og ílátum, kljásteina, fiskisleggjur, nagla, pottbrot, krítarpípur, brýni, kvarnarsteina o.s.frv.
Nokkra furðu hefur vakið hve fáir gripir hafa bent til þess að þarna var aðsetur helstu höfðingja landsins á sínum tíma. Þó má ráða af sumum fundanna að hér var ekki venjulegt bændabýli. Nefna má byssukúlur og byssutinnu, leifar af fallbyssu, myndskreyttar glerrúður og austurlenskt postulín, og síðast en ekki síst mikið magn af vínflöskum. Þá má líka nefna litla útskorna mannsmynd úr beini sem sýnir mann í embættisklæðnaði frá miðri 18. öld.”

Heimildir:
http://forseti.is/Bessastadir/Fornleifar/Bessastaðastofa 15