Garðahverfi

Í skýrslu Þjóðminjasafnsins árið 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003 má m.a. lesa eftirfarandi um Bakka:
“Bakki er talinn meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum frá 1397 og 1477, hann er nefndur í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggður Jóni Jónssyni og í Gíslamáldaga 1570. Þegar Jarðabók var gerð 1703 var þetta lögbýli í kirkjueign, ábúandi Jón Pétursson með fimm í heimili en Guðlaugur Grímsson hreppstjóri hefur eftir Manntalinu að dæma tekið við af honum sama ár, heimilismenn sjö talsins. Þá er einnig tilgreindur Þorsteinn Pétursson, húsmaður um þrítugt með konu og lítið barn.  Í Manntali 1801 bjó á Bakka Einar Bjarnason ásamt konu sinni Rannveigu Sigmundsdóttur, 14 ára syni, Guðmundi, og 10 ára fóstursyni, Jóni. Hjá fjölskyldunni voru vinnukonan Guðrún og Bergsveinn Gardahverfi - fornleifar Vnokkur sem var vanfær og að hluta á framfærslu hreppsins en lifði þó einnig á eigin handverki. Sjálfstætt bjuggu jarðnæðislausu hjónin, Bjarni Einarsson húsmaður og fiskari, trúlega sonur óndans, og Ingibjörg Narfadóttir. Þegar Manntal var tekið fimmtán árum síðar voru þessar fjölskyldur á brott en Guðmundur Einarsson orðinn vefari og vinnumaður hjá nýjum hreppstjóra á Hausastöðum. Á Bakka voru komin hjónin Árni Ketilsson og  Kristjana Ólafsdóttir, áður þjónustufólk hjá prests-hjónunum í Görðum. Auk þess að vera sjálfstæður bóndi var Árni nú orðinn meðhjálpari séra Markúsar í Görðum. Þau Kristjana áttu þrjár dætur og einn son á aldrinum 1-18 ára og höfðu inn vinnumann, Gísla Jónsson sem áður var á Hausastöðum. Auk þess sáu þau fyrir Sigríði Magnúsdóttur, 62 ára niðursetningi og voru alls átta í heimili.  Enn höfðu orðið ábúendaskipti árið 1845 en þá var þar Brandur Jakobsson grasbóndi ásamt þremur börnum sínum, vinnukonu og vinnumanni, niðursetningi og gamalli konu, Hallfríði Ófeigsdóttur sem var “sjálfrar sinnar”. Annar var Jón Höskuldsson úr Pálshúsum, lóðs og fiskari sem e.t.v. hefur verið búsettur í ónefndri þurrabúð við Bakkabryggju. Í Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi aðeins einn og jörðin áfram kirkjueign,  hún er nefnd í Jarðabók 1861  og í Fasteignabókum, enn undir kirkjunni 1932.  1942-44 var hins vegar ekki lengur búið á jörðinni  og í dag liggur hún undir Pálshús.
Bakki-221Til forna og fram um 1565 fylgdi Bakka Garðamýri og var landskuld þá fjórar vættir fiska og vallarsláttur, leigukúgildi tvö og mannslán um vertíð auk annarra kvaða sem héldust áfram. Séra Þorkell Arngrímsson lagði hins vegar mýrina til Garðastaðar, lækkaði landskuldina og tók burt annað kúgildið og mannslánið. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 80 álnir og galst með þremur fiskavættum og vallarslætti. Jón Pétursson bóndi lagði við til húsabótar með styrk séra Ólafs Péturssonar sem einnig uppyngdi hið eina kúgildi jarðarinnar. Fyrir það fékk presturinn smjör eða fisk en hálfar leigur féllu niður þar eð verkamenn voru í fæði á Bakka. Jón átti í kvikfénaði fjórar kýr, jafnmargar ær, tvevetra sauð og sjö veturgamla, þrjú lömb, tíu gimbrar, hest og tvö hross. Jörðin fóðraði þrjár kýr og hefur fóður m.a. verið sótt í Bakkavik, smástararblett sem skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 er “fast vestan við Bakkahrygg […]”, en hann  liggur að Garðamýri. Kvaðir voru dagsláttur, hríshestur sóttur í skóg kirkjunnar eða almenning og hestlán nýtt til að færa heim eldivið og til ferða innansveitar einn eða tvo daga. Heimræði var allt árið, lending í Bakkavör og inntökuskip þegar vel fiskaðist.
Bakki-222Sölvafjara hafði eyðilagst vegna ísa og fjárbeitar en fjörugrös mátti tína að gagni og hrognkelsafjara var nokkur. Skv. Örnefnaskrá frá 1964 voru “hrognkelsaveiðar miklar” í svonefndum Bakkaþara. Jörðin hafði móskurð í Dysjamýri en brenndi einnig þöngla til eldis. Árið 1847 var dýrleiki hennar enn óviss, landskuld 60 álnir og kúgildi eitt en 1861 taldist hún 10,6 ný hundruð. 1932 var hún metin á 35 hundruð kr. en þá hafði kúgildum fjölgað í þrjú, sauðir voru 20 og hrossið eitt. Úr 1100 m² görðum fengust 12 tunnur matjurta og hlunnindi voru áfram hin sömu. Jörðin var nytjuð frá kaupstaðnum og hey af henni flutt þangað. Tíu árum síðar var fasteignamatið 47 hundruð kr.
Bakkatún lá undir skemmdum vegna sjávarágangs en var 2 ha þegar kom fram á 20. öld. Bærinn var margfluttur undan sjó gegnum aldirnar og eru rústir þess sem síðast stóð nú að hverfa. Bakkafjörur og Bakkakambur hét neðan túnsins en norðan megin var Garðamýri og þar fyrir handan Garðar. Að vestan eru Pálshús og næst sjónum Dysjar.
Bakki-223Á Túnakorti árið 1918 má sjá tvær byggingar í bæjarstæðinu á Bakka alveg niður við sjó og er sú stærri líklega bærinn. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Bakkahryggur “er lá eftir vesturtúni Pálshúsa […] heiman frá bæ allt niður undir Bakka […] Bærinn stóð á Bakka og hafði verið marg oft færður undan sjó og eru nú rústir hans að falla niður í fjöruna.” Bakkatún heitir “tún býlisins, sem sjór brýtur stöðugt til skemmda”. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Niður af íbúðarhúsinu í Pálshúsum er u.þ.b 200 m langur hryggur niður að sjó. Hann heitir Bakkahryggur. Neðst á honum stóð bærinn á Bakka. Sjórinn brýtur nú stöðugt landið þarna, og er bakkinn niður í fjöruna víða ein til tvær mannhæðir. Bakki er löngu kominn í eyði og liggur undir Pálshúsum. Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er.” Skv. fornleifaskráningu 1984 var Bakki “frammi á sjávarbakkanum í vestur frá Pálshúsum […] heimatúnið að baki (til austurs) sjávarbakkinn beint fram af”.
Túnakortið sýnir þrjú aflöng og samföst torfhús, miðhúsið minna en hin. Þau eru með standþili og snúa í norðvestur. Þessi hús stóðu skv. Fasteignabók enn árið 1932 (bls. 23) en þau eru ekki lengur sýnileg. Þarna er hins vegar tóft hlöðu sem byggð var ofan í þar sem bærinn stóð, um 8,5 x 7 m að utanmáli, þvermál að innan 3,5. Hún er með grjóthlöðnum hringlaga veggjum, göflum og bárujárnsþaki og virðist ögn niðurgrafin.
bakki-224Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: “Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er. Bretar byggðu þar tvö loftvarnarbyrgi á stríðsárunum, og eru þau nú að fara í sjó.” Í Fornleifaskráningu 1984 segir að jarðhús hafi verið byggt ofan í eitt þessara byrgja “en þau voru mörg hér frammi á bakkanum, með skotgröfum á milli. Sumt er brotið af ofan í flæðarmál, annað á leiðinni þangað. Mikið brýtur hér af landi að sögn heimamanna í Pálshúsum.
Um Bakkastekk segir m.a.: Í Örnefnaskrá 1964 segir: “Norður frá Bala er hraunsnef lítið”, Mónef. “Nokkru norðar þar sem Garðavegurinn liggur út af hrauninu, er” Hvítaflöt, “vel gróin þúfnakargi. […] Nokkru norðar með hraunbrúninni gengur enn hraunsnef fram í mýrina”, Oddsnef eða Hraunsnef. “Norðar tekur við hraunsnef stærst af þessum hraunsnefjum”, Bakkastekksnef, “Þar austan við var stekkur frá Bakka, sér enn.”
bakki-225Í Örnefnalýsingu 1976 segir að Mónef gangi fram í Dysjamýri, en Hvítaflöt sé gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar  liggur upp á” Garðahraun. “Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.” Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Bakkastekkur í skjólgóðum bolla sem opnast til norðurs “í hraunjaðrinum sunnan við austurenda nýræktar í Dysjamýri”. Hann er hringlaga, gerður úr þurri grjóthleðslu. Veggjaþykkt er um 1-1,1 m og er veggurinn vestan megin í hraunbrúninni. Þvermál að innan er um 5,6 en þvert á 5,3. Um 1,4-1,5 m breitt hlið er á stekknum austan megin og liggur aðhaldshleðsla úr grjóti frá því 16,5 m til austurs. Stekkurinn var ekki í notkun í tíð Tryggva Gunnarssonar núverandi ábúanda í Grjóta.
Um Bakkarétt segir: “Samkvæmt fornleifaskráningu 1984 er rétt: “…uppi af hraunnefninu suður af Dysjamýri. Í austur 65° frá Bala. Sléttlent og grösugt, hraunnibbur standa uppúr. Réttin er grjóthlaðin, óreglulega ferhyrnd, þó með rúnuðum hornum. Hlið er á móti hvoru öðru, sem vísa í suðaustur og norðvestur. Þessi rétt var notuð til skamms tíma samkvæmt upplýsingum. [Ekki kemur fram hver er heimildarmaður.] Við vettvangskönnun 2002 stóð réttin enn.”

Heimild:
-Þjóminjasafn Íslands árið 2004 – fornleifaskráning fyrir Garðahverfi 2003, bls. 10-16.

Bakki

Bakki við Bakka.