Helgadalur

Gengið var að Helgadal, framhjá opi Níutíumetrahellis, niður skástigu gömlu Selvogsgötunnar, framhjá opi Vatnshellis og áfram upp að sögðum gömlum tóttum í austurhlíð Helgadals. Sjá má hvar gamla Selvogsgatan hefur beygt að vatninu í Dalnum og síðan haldið áfram á ská upp eftir hlíðinni, sunnan við tóttirnar. Svo virðist sem þarna gætu hafa verið nokkur hús. Sjá má móta fyrir stíg niður að vatninu, hugsanlega garði sunnan við tóttirnar og tótt niður við vatnið.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Gamall skáti sagði að Skátafélag Hafnarfjarðar (Hraunbúar) hafi á sínum tíma ætlað að byggja skála í Helgadal þar sem skemmtileg skátamót voru haldin um tíma. Rótað hefði verið og grafið fyrir uppistöðum, en síðan hafi verið horfið frá skálabyggingunni. Hvar það var nákvæmlega í dalnum er ekki alveg ljóst á þessari stundu.
Tóttarsvæðið í Helgadal sést vel, en erfitt er að greina einstaka tættur. Vatnsverndargirðingin liggur fast við þær. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1907 (áhíf 1908) kemur fram að þær hafi ekki verið vel greinanlegar þá, fyrir tæpri öld síðan, en hann lýsir þeim á þessum stað, sbr. meðfylgjandi mynd. Í þeirri frásögn lýsir hann og heimtröð og garðlagi við Skúlatún sunnan við Helgafell.
Fróðlegt væri að láta einhvern tíma grafa í tóttirnar til að fá úr því skorið hvað þarna hafi verið og hversu gamalt það er.
Gangan tók u.þ.b. 45 mínútur í ágætu veðri.

Helgadalur

Helgadalur – uppdráttur ÓSÁ.