Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 skrifar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi m.a. um skálatóft við Austurbæinn á Þórkötlustöðum í Grindavík.
“Á Þorkötlustöðum í Grindavík var í vor (1902) bygð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni, og grafið fyrir henni nál. 3 al. djúpt í jörð. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Kom fram grjótveggur langsetis eftir gröfinni, þeim megin sem inn vissi í húsagarðinn. Neðst stóð framundan þeim vegg svo sem ‘/2 al. breitt þrep, tæplega hnéhátt, alveg slétt ofan, og svo vandað og óhaggað, að byggingarmenn létu það standa og höfðu það fyrir undirstöðu undir bakvegg hlöðunnar. Ofan á þessu þrepi var stæðilegur grjótveggur, rúml. 1 al. á hæð, eða að þrepinu meðtöldu um 2 al. á hæð. Langs með þessu þrepi, svo sem 2 al. frá því, lá grjótbálkur eftir endilöngu, viðlíka hár og þrepið, eða vart það. Hann var nál. 2 al. breiður og allur lagður flötum hraunhellum ofan. Á þeim öllum var eldslitur.
Var mér sýnt brot úr einni þeirra og var eldsliturinn auðsær. Hinumegin bálksins, viðlíka langt frá honum, sáust leifar af framvegg. En auðséð var, að hann hafði einhverntíma áður verið rifinn og mest alt grjótið úr honum tekið burtu. Báðum megin við bálkinn var gólfskán, um 2. þml. á þykt. En ofan á henni var þykt lag af svörtum sandi, sem líktist eldfjallaösku. Tveir byrkidrumbar láu í tóftinni, annar var brunninn utan, en ófúinn innan, nál. 6 þml. í þvermál; hinn viðlíka digur, óbrunninn og með berki, en fúinn. Eigi var grafið fyrir enda þrepsins eða bálksins; var gröfin þó vel 12 al. löng. Tóku bæjarhúsin við að norðanverðu. En í suðurenda grafarinnar tók við fjósflór; og var að sjá, sem fjósið hefði verið framhald sömu byggingarinnar. Þetta virðast hafa verið leifar af fornum eldaskála. Þrepið ætlað til að sitja á, en bálkurinn arinn, til að kinda langeld á, og er merkilegt, að hann var upphleyptur.
Eldfjallaaskan ofan á gólfskáninni bendir til þess, að bærinn hafi lagzt í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má og vera, að hraunið, sem myndar Þorkötlustaðanes og runnið hefir á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.”
Hið síðastnefnda getur reyndar ekki staðist því hraunin, sem nú mynda Þórkötlustaðanes að vestan og Slokahraun að austan er um 2400 ára og eru hlutar Sundhnúkahrauns.
Hlaðan fyrrnefnda var vestan Austurbæjar. Austan hans var hins vegar Miðbær og Austari Austurbær, auk eldiviðarskúrs. Sjávargangstígur lá niður að vörinni milli húsanna og sést hann enn. Mótar og enn fyrir undirstöðum þessara húsa. Milli núverandi Austurbæjar og Vesturbæjar má sjá hluta skálatóftarinnar, auk sjávargötunnar vagnfæru er lá niður að vörinni fyrrnefndu.
Þegar skálasvæðið var skoðað mátti augsýnilega greina hlaðinn langvegg utan hlöðunnar, sem rifin var á fimmta áratug síðustu aldar.
Heimild
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, bls. 47.