Eldvörp
Enn og aftur var gerð leit að Hamrabóndahelli nálægt Eldvörpum. Samkvæmt lýsingu Helga Gamalíassonar frá Stað, sem nú er um sjötugt og sá hellinn er hann var á fermingaraldri er hann var á ferð með föður sínum og bróður á leið upp frá Húsatóttum að Þórðarfelli, á hellirinn að vera á sléttu hraunssvæði norðan við Sundvörðuhraun skammt austan við Eldvörp. Leitað var gaumgæfulega á svæðinu á meðan birtu naut, en allt kom fyrir ekki. (Sjá ófundið).

Eldvörp

Eldvörp.

Næst þegar farið verður á svæðið verður leiðin, sem farin var á sínum tíma, gengin í fylgd Helga. Þá verður gengið frá Sundvörðuhrauni á móts við Sundvörðuna og slóðanum fylgt að hraunkantinum þar sem hann endar utan í Sandfellshæð. Gamli slóðinn sést ágætlega í hrauninu þrátt fyrir tilkomu nýja vegarins út í Eldvörp. Vitað er að hellirinn er í lægð skammt frá slóðanum og á opið að snúa á mót suðri. Bræðurnir höfðu hlaupið frá dráttarvélinni þegar hlé var gert á akstrinum og þá séð hellisopið. Hlaðið er fyrir það og er dyragatið reglulegt. Hellirinn var notaður af bóndanum á Hömrum er hann skyrraðist við hreppstjórann á Húsatóttum er meinaði honum fjörubeit. Hamrabóndi fór þá með sauði sína inn á hraunið og fóðraði þá þar um veturinn. Alls ekki er útilokað að nýi Eldvarparvegurinn hafi verið lagður yfir hellisopið – annað eins hefur gerst í vegagerð hér á landi.
Frábært veður þrátt fyrir takmarkaðan árangur. Hafa ber þó í huga að “mottó” FERLIRs er að “læra meira og meira, meira í dag en í gær”.

Árnastígur

Árnastígur.