Selatangar

Farið var að Ísólfsskála og Selatöngum í fylgd Jóns Valgeirs Guðmundssonar, syni Guðmundssonar Hannessonar frá Vigdísarvöllum. Lýsing á hluta ferðarinnar fer hér á eftir.
GarðarHaldið var eftir Ísólfsskálavegi frá Hrauni. Jón benti m.a. á hvilft í vestanverðum Siglubergshálsi þar sem hann kemur í Fiskidalsfjall og nefndi hana Lyngbrekku. Hann benti og á gamla veginn, sem lagður var frá Hraunssandi, upp hálsinn og áfram áleiðis yfir að Skála. Hann sést vel ofanvert í hálsinum og áfram á milli og yfir Móklettana. Þar liggur vegurinn inn með hlíðinni uns hann liggur áleiðis norður fyrir Slögu austan við Litlaháls.
Jón sagðist muna vel eftir LM-merkinu í austanverðum Móklettum. Það var skoðað og benti Jón á merkið (ártal). Landamerkin að vestanverðu liggja úr Festisnýpu, í merkið á Móklettum og yfir í Rauðamelshól uppi á sunnanverðu Borgarfelli.
Ekið er yfir Litlaháls og þá er Lyngfjall á hægri hönd, síðan Festisfjall sunnan við það. Áður en haldið var að Ísólfsskála var farið inn í Drykkjarsteinsdal að Drykkjarsteini. Á leiðinni var farið framhjá grettistaki miklu suðvestan í Slögu, er Jón sagði heita Hattur. Jón sagði Símon Dalaskáld hafa ort fallegt kvæði um steininn, en hann er sunnan við þjóðleiðina austur að Mjöltunnuklifi og til Krýsuvíkur. Jón sagðist nú einn vera eftirlifandi þeirra, sem lögðu veginn árið 1933. Þeir hefðu þá verið fimm saman, en vegurinn hafi verið gerður að beiðni Hlínar í Krýsuvík og á hennar kostnað. Þeir hafi haft einn hest, Nasa, og einn vagn við vegagerðina.

Verkhús

Vegagerðin hafi verið tiltölulega auðveld að Méltunnuklífi, en þá hafi þeir þurft að ryðja sér braut í gegnum Leggjabrjótshraun, yfir Núpshlíðina og áfram yfir hraunið að Latfjalli. Þá hafi Ögmundarhraunið tekið við og liggur gamli vegurinn skammt norðan núverandi vegar. Við austurenda hans er komið inn á leið þá er Ögmundur lagði forðum. Gengið var að dysinni, teknir punktar og hún skoðuð. Þá var gengið spölkorn eftir gömlu leið Ögmundar. Enn sést vel móta fyrir henni í hrauninu.
Komið var að Ísólfsskála. Vestan við Huldukonustein er Bjallinn. Undir honum, þar sem hann er sléttastur og gamalt garðlag liggur að honum, voru Skálaréttir. Í þeim voru dilkar og almenningur. Þangað komu Grindvíkingar í réttir. Eftir að Borgarhraunsréttir voru hlaðnar lögðust þær af.
Á Ísólfsskála benti Jón á Gvendarvör, sem er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála. Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Jón sagði að fiskurinn hafi verið flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið hafi hann verið tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær hafi verið á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Á Selatöngum

Lending var í Börubót, sem verið hafði beint neðan við bæinn. Bærinn sjálfur var þar sem nú er bílastæði vestan við græna sumarbústaðinn vestast á túninu, undir Bjallanum. Enn sést móta svolítið fyrir hleðslum hússins að hluta. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum. Sjóbúðin var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Hleðslurnar sjást þar að hluta. Beint þar fyrir neðan sjóbúðina er hlið. Sjávarmegin við það, þar sem nú er sjávarkampurinn, var hlaðinn brunnur bæjarins. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Sjóbúð

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Austan þess er stór steinn. Hann féll úr Bjallanum er faðir Jóns var níu vetra og lenti á höfði hans. Hlaut hann langt og mikið sá þvert yfir höfuðið svo leðrið hékk la. Varð að sækja lækni til Keflavíkur til að vinna saumaskapinn. Suðaustan við húsið, þar sem nú er grunnur, stóð Bergsstaðahúsið. Það var síðar flutt út í Þórkötlustaðahverfi og loks út í Járngerðastaðahverfi, a.m.k. hluti þess. Guðbergur Bergsson hefur búið þar. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn. Jón sagðist muna eftir því, t.d. árið 1928, að mikið af skútum hafi verið við veiðar utan við ströndina. Hafi hann t.a.m. talið þar um 300 slíkar einn daginn. Þær voru franskar, færeyskar, danskar og hollenskar. Séð frá húsinu, í átt að Nótahól, er lágur grashóll og utan í honum hleðslur. Hann nefnist Hestagerði. Rangagerði er djúp skora utar með ströndinni og skerst hún allangt inn í bergið. Þangað komst t.d. sjómaður eitt sinn á bát sínum í vonskuverði og bjargaðist. Rangagerði varð áður fyrr austurmörk Ísólfsskála, eða eftir að bóndinn gaf Kálfatjörn rekann frá gerðinu að Dágon á Selatöngum sem sálargreiða. Í staðinn eftirlét Kálfatjörn Ísólfsskála grásleppuveiði utan við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Bárður, bóndi á Skála, keypti hann til baka árið 1916 svo nú eru austurmörkin aftur í Dágon.
Þegar haldið var áfram austur Ísólfsskálaveg lýsti Jón Hrafnsskriðu undir Slögu, Stórusteinum, Lágaskarði o.fl. stöðum. Vörður tvær á hægri hönd heita Bergsvarða (nær veginum) og Bárðarvarða. Bergur, faðir Guðbergs, hlóð þá veglegri er hann sat yfir fénu þarna og vildi hafa eitthvað um að sýsla. Gil eitt á vinstri hönd er merkilegt fyrir það að í því eru drykkjarskál. Þar settist vatnið og gat fé gengið að því vísu.
Fyrsta hornið við veginn á vinstri hönd heitir Fyrsta brekka í Méltunnuklifi. Síðan tekur við Önnur brekka í Méltunnuklifi. Þangað voru kýrnar frá Skála venjulega reknar til beitar. Loks er Méltunnuklifið. Þá hafi vegurinn um klifið bæði verið mjór og svo þröngur að erfitt gat verið að kmast með hesta þar um. Gamla þjóðleiðin, sem fyrr var líst, kemur ofan af klifinu skammt norðar. Þar heitir Innsta brekka í Méltunnuklifi. Grasi gróið dalverpi er þar austanvið. Farið er í gegnu gjallgíga. þeir heita Moshólar.
Jón Guðmundsson Áður en haldið var að Selatöngum var farin gamla leiðin í gegnum Ögmundarhraun, þá er Jón og félagar ruddu á sínum tíma. Jón lýsti leiðinni og vinnunni. Verst gekk að komast í gegnum hraunhaftið skömmu áður en komið er austur fyrir hraunið. Þar er komið inn á Ögmundarleiðina og er dysin þar skammt frá. Enn má vel sjá móta fyrir hleðslum í dysinni.
Á leiðinni niður að Selatöngum lýsti Jón Eystri lestarleiðinni frá Krýsuvík, Rekagötunni eða Vestari lestarleiðinni, um Katlahraun út að Ísólfsskála. Eystri leiðin liggur með hraunkantinum, sem er handan hraunssléttunar austan vegarins. Jón sagði að þeir hefðu verið svo til allt haustið að reiða reka heim frá Selatöngum. Tanga Móri hefði stundum gert vart við sig, en vitað var að hann hafi verið vesalingur, sem orðið hafði úti þarna við tangana. Fræg er sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda.
Gengið var að refagildrunum vestan við Selatanga. Faðir Jóns hlóð þær á sínum tíma. Jón sagði hann hafa verið meira gefinn fyrir veiðar en búskap. Gildrunar hafði hann ekki séð í u.þ.b. hálfa öld. Gengið var eftir Vestari lestargötunni í gegnum Katlahraun og að Smíðahelli. Á leiðinni benti Jón á skarð suðvestan í Katlinum, en af því var áður tekið mið í Geitahlíðarenda – fiskimið. Jón sagði vermenn á Selatöngum stundum hafa stolist í Smíðahelli í landlegum, tekið með sér rekavið, og dundað við að smíða úr þeim ausur, spæni, tögl o.fl. Þetta hefðu þeir ekki mátt, en í hellinum gátu þeir dulist án þess að nokkur yrði þeirra var.
Jón GuðmundssonÞar sem setið var utan við hellinn í kvöldsólinni benti Jón á Langahrygg í norðri. Hann sagðist hafa verið þarna niður á Töngunum haustið 1940 er hann og bróðir hans hefðu orðið var við hvítann flekk utan í hryggnum. Þeir hafi haldið heim, en síðan farið upp á hrygginn. Þegar þangað kom hafi þeir sé líkamsparta dreifa um hlíðina og brak úr flugvél upp og niður um hana alla. Þeir hafi gengið niður til Grindavíkur til að láta vita. Þaðan hafi verið haft samband við herinn, því þarna var um ameríska flugvél að ræða með marga háttsetta innanborð. Haldið var á hrygginn í bryndreka, en það hafi verið í fyrsta og síðasta skiptið sem hann hafi ferðast með slíku farartæki.
Litið var á fjárhellinn norðan Katlahrauns. Jón sagði hann hafa verið hlaðinn um 1870 af föður hans, sem þá hafi búið á Vigdísarvöllum, vegna þess að féð hafi leitað niður í sunnanverðar Núpshlíðar og alveg niður í fjöru á Selatöngum. Eftir að faðir hans flutti að Skála komu þangað íslensk kona og fylgd hennar var Þjóðverji. Þetta var á stríðsárunum. Þau hafi beðið um húsaskjól. Guðmundur hafði slíkt ekki á lausu, en vísaði þeim á fjárskjólið. Þar dvaldi parið um tíma eð þangað til þau voru sótt þangað af Bretum.
Jón vísaði á Nótahellir vestast á Seltöngum. Þar sagði hann bændur hafa lagt nótina yfir vík, sem þar er, til að veiða selinn, sem hafi verið fjölmennur á og utan við Tangana í þá daga. Hellirinn sést vel á lágfjöru, en erfitt er að komast að honum í annan tíma. Fé leitaði stundum inn í hellinn og flæddi þá stundum inni. Þess vegna var reynt að gera gerði utan við hornið landmegin, en það fór veg allrar veraldar.
Þá var gengið um Selatangasvæðið sjálft. Það skal tekið fram að eftir gönguna sáu þátttakendur svæðið í allt öðru ljósi Sjóbúðen áður. Þarna er svo margt og merkilegt að finna að erfitt er að lýsa því stuttum texta. Þess vegna var ákveðið að nota ferðina og gera uppdrátt af svo til öllum mannvirkjum á Seltaöngum, nefna þá og staðsetja svona nokkurn veginn. Vestan við sjálfa Selatangana eru brunnurinn, þar sem vatn aldrei þraut. Ofan hans eru Brunntjarnirnar. Jón sagði að hann og bróðir hans hefðu fyllt svo til alveg upp í brunninn eftir að dauð rolla fannst ofan í honum. Hann hafi áður verið meira en mannhæða djúpur.
Vestast á Selatöngum, austur undir kletti, er hlaðið hesthúsið. Á austurveggnum eru garðarnir. Sunnan hesthússins eru búðir þær, sem síðast var hafst við í. Innst, nyrst, er eldhúsið. Sjá má ennþá hlóðarsteinana í suðausturhorni þess. Framan við eldhúsið eru tveir bálkar, svefnhús. Austan við þá er hús, sem var hluti búðanna. Í þeim var hafst við allt til ársins 1880, en þá gerði faðir hans út bát frá Selatöngum Báturinn var jafnan í Tangasundinu, sem er neðan við vestasta fiskibyrgið á hól sunnan búðanna.

Tangarnir

Að því er gengið frá búðunum um hlaðið hlið. Byrgið stendur svo til heilt. Göt eru á báðum göflum. Jón sagði þau hafa verið lyklinn að önduninni. Fiskinum hafi verið staflað líkt og á Nótarhól og þess gætt að kjötið snertist ekki. Þannig hafi hann verið um veturinn. Um vorið hafi fiskurinn verið tekinn og borinn út, þurrkaður og ýmist fluttur út í skútur eða heim. Fiskibyrgin standa sum svo til heil, bæði með húslagi og ein hringlaga. Verbúðirnar eru við fyrstu sín illa sjáanlegar, en þegar betur er að gáð, sjást þær vel. Austustu búðirnar er vestan við Selalónið, en austan þess er klettaveggur. Hann heitir Vestari Látur. Austari Látur eru þar skammt austar.
Rétt sést móta fyrir austustu búðunum, sunnan við austasta þurrkbyrgið, sem stendur þar nokkuð heillegt. Búðirnar eru vestan við hlaðinn stíg er liggur frá fiskbyrginu niður að ströndinni. Ofan byrgisins er Smiðjan í klettasprungu. Austan þess er hlaðið hringlaga fallegt fiskibyrgi.
Dágon er nær horfinn. Hann sést þó í fjöruborðinu sem lítill klettur, suðaustan við vestasta fiskibyrgið. Vestan hans er hærri klettur og annar stór uppi á bakkanum á milli þeirra og byrgisins. Á tiltölulega sléttum grágrýtisklöppunum neðan við Dágon er klappað LM, en þar voru austurmörk Ísólfsskála og Krýsuvík tók við. Áletrunin sést einungis á lágfjöru. Jón sagðist hafa ætlað að skýra fyrsta bátinn sinn Dágon, en þegar hann frétti að nafnið þýddi “djöfull” á dönsku, hafi hann hætt við það.
Neðan við það fiskibyrgi, sem er heillegast miðsvæðis, er Skiptivöllurinn, bergrani út í sjó. Þar voru áður sléttar klappir og voru þær notaðar sem skiptivöllur líkt og vellirnir við Stokkasundið í Selvogi.
Þegar gengið er til vesturs á Töngunum má t.d. sjá þurrkgarða, fiskbyrgi fremst, verbúð austan undir kletti (þeirri er lýst var áður), hesthúsið norðar, fiskibyrgi, fjögur kringlótt fiskibyrgi, íveruhús, fullt að sandi, skiptivöllinn, hús, hringlaga fiskibyrgi, fiskibyrgi, tvö sandfyllt hús, tvo hringlaga byrgi, Smiðjuna, fiskibyrgi, hús, eldhús, bálka og loks fiskibyrgi. Utar er Selalón, eins og áður sagði. (Sjá meira í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga. Í honum er m.a. fyrrnefndur uppdráttur af Töngunum).
Veður var í einu orði sagt frábært – logn, sól og hiti.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.