Ísólfsskáli

Erling Einarsson, Ísólfsskálabóndi, hafði samband og kynnti fund á hlaðinni refagildru í Skollahrauni austan Ísólfsskála. Skammt frá gildrunni væri jafnframt hlaðið byrgi refaskyttu.
RefagildraÞegar gengið var með Erling um svæðið kom í ljós að umrædd refagildra var nokkuð heilleg að sjá. Fallhellan var fyrir opinu. Gildran fellur mjög vel inn í aðrar hraunþústir á svæðinu.
Byrgið er kringlótt og fremur lítið. Ljóst er að þarna eru eða hafa verið greni. Víða eru op í grunnum yfirborðsrásum. Við sum þeirra má sjá lambabein. Hraunsvæði þetta er nokkuð slétt og sér þaðan vel heim að Skála. Rekagatan milli Skála og Selatanga liggur þarna í hraunlægð skammt sunnar. Nótarhóll með öllum fiskvinnslumannvirkjunum eru þar enn sunnar.
Norðan við svæðið taka við hraunhólar og lægðir. Handan þeirra er svo önnur hraunslétta, vestan Kistu. Um þessi hraunsvæði má sjá móta fyrir gamalli leið til norðausturs upp í gegnum hraunið með stefnu á Skollanef í Slögu.
Þegar efra svæðið var skoðað nánar mátti sjá vestast í brún þess enn aðra hlaðna refagildru. Þakið var fallið niður að hluta, en þó mátti enn sjá ganginn og hluta gildrunnar. Líklegt má telja að Guðmundur Hannesson, fyrrum bóndi á ísólfsskála, hafi hlaðið þessar gildrur, en hann var m.a. annálaður refaveiðimaður. Guðmundur kom frá Vigdísarvöllum austan við Núpshlíðarháls um aldamótin 1900. Fjórði ættliður hans á nú aðstöðuna og eignirnar á Ísólfsskála.
Refagildra Guðmundur er frægastur fyrir að hafa verið mikill veiðimaður og hafa verið víðförull þar sem hann fór um. Frá honum er kominn mikill og langur leggur dugmikilla manna og kvenna.
Í örnefnalýsingu Guðmundar Guðmundssonar, bónda á Ísólfsskála segir m.a. um þessi svæði Skollahraunsins: “Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg. Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar.”
Eftir Ísólfi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála, er eftirfarandi haft árið 1983: “Skollanef er suður úr Slögu. Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni.”
Loftur Jónsson segir í örnefnalýsingu sinni að “fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar.”

Samkvæmt örnefnalýsingum eru framangreindar refagildur í Skollahrauni, austan túns og vestan Kistu.
Með þessum refagildrum meðtöldum er nú vitað um a.m.k. 29 hlaðnar refagildur á Reykjanesskaganum. Trúlega má telja að Guðmundur Hannesson hafi hlaðið þær margar sem fundist hafa í nágrenni Ísólfsskála fyrir aldamótin 1900, s.s. á Selatöngum og allt upp í Hrútargjárdyngu. Annars er talið að hugmyndin af gildrunum hafi komið hingað til lands með norskum landnámsmönnum því sjá má svipuð mannvirki þar í landi allt frá þeim tíma.
Kista Annars staðar á vefsíðunni er sagt frá notkun refagildranna sem og nýtingu afurðanna.
Fyrirhugað vegstæði Suðurstrandarvegar átti að liggja um hraunið þar sem refagildrurnar eru, en með úrskurði var ákveðið að fara með hann norðar, eða nálægt núverandi vegstæði. Ekki er að sjá að refagildranna sé getið í fornleifaskráningu vegna vegstæðisins. Líklegt má telja að enn sú allnokkur mannvirki á þeirri línu, sem mannlegt auga hefur enn ekki komið auga á. Þannig var það t.a.m. með sæluhúsið undir Lat. Það var ekki fyrr en FERLIR benti hlutaðeigandi aðilum á það að þess var getið í lokaumferð fornleifaskráningarinnar, en Jón Guðmundsson frá Skála hafði áður upplýst um tilvist þess eftir minni. Hann treysti sér hins vegar ekki til að finna það aftur. Hið sama gildir um leiðina fyrrnefndu. Þó eru vörðurnar undir Skollanefi, sem bræðurnir á Skála hlóðu um miðja 20. öldina, sagðar í skráningunni vera fornar. Svona er nú margt skrýtið í kýrhausnum.
Guðmundur Hannesson, refaskytta og bóndi á Ísólfsskála í Grindavík. Hann fæddist á Arnarhóli, Gaulverjabæjarhreppi, Árnessýslu, þann 1. júní 1830. Guðmundur lést 27. janúar árið 1901 og því væntanlegar allar refagildrur, sem hann hlóð, nú friðaðar skv. þjóðminjalögum.
Byrgi refaskyttu Foreldrar hans voru Hannes Guðmundsson, 1800-1888, bóndi á Hjalla Ölfusi, og kona hans Guðlaug Sæfinnsdóttir, 1795-1841.
Guðmundur var bóndi á Bala í Krýsuvík og á Vigdísarvöllum, en fyrir 1880 er hann fluttur á Ísólfsskála í Grindavík og býr þar með konu sinni Helgu Einarsdóttur, 1825-1889, frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, ásamt tveim sonum þeirra, þeim Hjálmari (1860-1947) og Brandi (1863-1955).

Seinni kona Guðmundar var Guðrún Jónsdóttir (1856-1898) frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Þeirra börn voru Guðmundur (1884-1977) og Indriði (1894-1947).
Sem fyrr sagði má telja mjög miklar líkur á að fleiri hlaðnar refagildrur finnist í Skollahrauni ef vel væri gaumgæft. Þá má og telja líklegt að slíkar gætu fundist neðst í Ögmundarhrauni austan við Eystri-Látur. Þar eru greni, hlaðið byrgi refaskyttu og ákjósanlegar aðstæður til hleðslu. Segja má að þangað komi varla maður nema svo sjaldan á ári að telja megi á fingrum annarrar handar.
Frábært veður.

Refagildra

Refagildra við Ísólfsskála.