Vigdísarvellir

Haldið var að Herdísarvík. Fengist höfðu greinargóðar upplýsingar um týndan helli þar austan við, en hann á að ná frá Breiðabás upp í mitt Mosaskarð í Herdísarvíkurfjalli. Ef það reynist rétt gæti hellirinn verið um 800 metra langur. Sagnir eru til um að vinnumaður í Herdísarvík hafi eitt sinn farið inn í hellinn og en villst þar inni í sjö klukkustundir.

Þorkell Kristmundsson

Þorkell Kristmundsson við Breiðabás í Herdísarvík.

Tekin voru mið af lýsingunni (Klofaklettur í Hamragerði). Viti menn. FERLIRsfólkð gekk svo til beint að opinu. Á svæðinu er mörg op, en einungis tvö þeirra virðast fela slungnar rásir. Fyrst var farið inn í rás, sem lokaðist eftir 20. metra. Ofan í rásina hafði fallið grjót, sem auðvelt ætti að vera að forfæra. Innan við það heldur rásin áfram. Þegar farið var inn í Breiðabáshelli varð að ganga boginn til að byrja með. Síðan hækkaði rásin. Þá var komið að litlu opi. Innan við það heldur rásin greinilega áfram upp undir hraunið.

Klofaklettur

Klofaklettur.

Einnig eru rásir til hægri og vinstri. Ekki var lagt í langferð að þessu sinni. Hún mun bíða betri tíma. Ef hellirinn er eins og lýst hefur verið gæti hann verið meiriháttar. Einn maður er á lífi, sem farið hefur inn í hellinn, en hann komst ekki langt því það slokknaði á kerti, sem hann var með svo hann varð að snúa við, rataði ekki út aftur, en komst loks upp um þröngt gat í hrauninu. Ætlunin er að fara fljótlega aftur á staðinn með það að markmiði að skoða allan hellinn.
Í leiðinni var skoðaður fjárhellir vestan við Breiðabás. Um er að ræða stóra hraunbólu. Engar hleðslur eru inni í henni.

Vigdísarvellir

Fjárskjól sunnan Vigdísarvalla.

Þá var haldið að Vigdísarvöllum. Á leiðinni var tekið mið af réttinni í Stóra-Hamradal og síðan stöðvað við fjárskjól undir Ögmundahraunsgígum. Hleðslur eru fyrir opi og bekkur inn eftir honum miðjum. Guðmundur Hannesson, bóndi á Bala, sá hinn sami og hlóð Gvendarborg á Vatnsleysuheiði og síðar bjó á Ísólfsskála, gerði hleðslur þessar fyrir fjárhellinn.
Skoðaðar voru tóttirnar á Vigdísarvöllum, en vellirnir sjálfir eru þarna skammt sunnar. Upp frá bænum gengur Bæjargil milli Núpshlíðarháls og Bæjarfells. Austan við Bæjarfell, samtengt, er Vigdísar[valla]háls.

Bali

Bali.

Sunnan undir honum eru tóttir bæjarins Bala. Eftir að hafa skoðað þær var haldið að rétt norðaustan við hálsinn. Þær eru að hluta til hlaðnar utan á náttúrlegan vegg og að hluta til girðingaréttir. Þaðan var haldið yfir að Sveifluhálsi, gengið upp hálsinn eftir Hettustíg. Hann er ruddur upp hlíðina og efst á hálsinum er grópað í bergið eftir hófa, fætur og klaufir. Gengið var suður eftir Bleikinsdal, sem er grasi gróinn og niður að gígaröð austan Vigdísavalla. Þar var komið við í miklu jarðfalli. Rás gæti leynst sunnan í jarðfallinu. Frá henni var gengið yfir að tóttum Vigdísarvalla þar sem uppdekkað kaffihlaðborð beið göngufólks.

Frábært veður.
Vigdísarvellir