Svartsengi

Í upphafi ferðar var Gjáin, fræðslumiðstöð Hitaveitu Suðurnesja í Eldborg við Svartsengi, skoðuð. Um er að ræða sýningu Hitaveitu Suðurnesja um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar við orkuverið í Svartsengi.

Eldvörp

Eldvörp – gígop.

Ísland býður einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest, sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita, því að landið er jarðfræðilega ungt og enn þá í mótun. Landið er eins og gluggi inn í fortíð og framtíð þessarar þróunar, þannig að með lestri jarðlaga má leiða líkur að því, sem koma skal. Hérlendis eru stærstu jöklar og mestu jökulsár Evrópu, mestu há- og lághitasvæðin, óvenjulega mikil eld- og jarðskjálftavirkni auk stórbrotinnar náttúru.

Eldvörp

Eldvörp – gígop.

Leikir sem lærðir njóta sýningarinnar í Gjánni, sem leiðir gesti um almenna jarðfræði jarðarinnar, jarðfræði landsins, Reykjaness og Svartsengis og skýrir tengsl skyldra fræðigreina með forrannsóknum og eftirliti á háhitasvæðum. Jarðboranir á slíkum svæðum eru einnig skýrðar og farið í gegnum framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns í orkuverinu í Svartsengi.

Eldborg

Eldborg í Svartsengi.

Tæknibúnaður sýningarinnar er mjög fullkominn. Unnt er að sýna margar myndir í einu og tengja þær ýmsum hljóðum samtímis. Myndir er m.a. sýndar á 42” plasmaskjám og geymdar á stafrænum MPEG mynd- og hljóðgrunnum. Allar myndir eru með víðómi. Í enda Gjárinnar er stærra sýningartjald í hvelfingu. Það er tengt kvikmyndahljóðkerfi fyrir Dolby-umhverfishljóð, sem eru geymd á stafrænum hljóðkerfum, og ljósum, sem er stýrt í samræmi við viðburðina.

Bláa lónið

Bláa lónið – þátttakendur.

Ár hvert koma þúsundir gesta í Svartsengi til að kynna sér starfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Þarna eru á ferðinni ferðamenn, skólafólk, fjölskyldur og sérfræðingar á ýmsum sviðum jarðvísinda.

Hitaveitunni þótti tímabært að skapa aðstöðu til gestamóttöku og veita nokkra innsýn í undur íslenzkrar náttúru og aðferðirnar, sem er beitt við breytingu náttúruaflanna í birtu og yl fyrir byggðirnar á Suðurnesjum.

Illahraun

Gígur í Illahrauni ofan Svartsengis – Rauðhóll.

Þá var gengið til vesturs um Illahraun og Bræðrahraun, yfir Skipsstíg og að Árnastíg þar sem hann sem hann liggur um Eldvörp. Arnarseturshraunið (apal), sem er þarna skammt norðar, rann á sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Annars eru hraunin við Svartsengi og Grindavík ca 2400 ára. Víðast hvar eru þau greiðfær yfirferðar.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Á gömlu þjóðleiðunum má víða sjá djúpt markaðar götur í bergið eftir umferðina í gegnum tíðina.
Illahraun er víða illt yfirferðar, en auðvelt er að þræða það um greiðfærar mosasléttur ef vel er að gáð. Og ekki er varra að vera vel kunnugur í hrauninu og þekkja staðhætti. Þrætt var greiðfær leið að þessu sinni og gengið að tveimur einstaklega fallegum gígum í hrauninu. Annar er reglulegur hraungígur en hinn, sá syðri er opinn mót austri. Í honum eru einstaklega fallegir kleprar. Nyrðri gígurinn er opinn mót vestri, en sá syðri mót austri.

Gíslhellir

Við Gíslhelli við Skipsstíg.

Gengið var til vesturs frá gígunum, yfir vestanvert Illahraun og var þá skömmu síðar komið inn á Skipsstíginn þar sem hann liggur um Blettahraun, hina gömlu þjóðleið, er liggur þarna milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Stígurinn er vel varðaður og sum staðar klappaður í slétt bergið. Hann liðast síðan áfram suður Skipsstígshraun og Blettahraun. Stígnum var fylgt spölkorn til suðurs uns komið var inn á Eldvarpaveginn. Sá vegur var síðan eltur út í Eldvörp.

Þaðan var haldið norður eftir Eldvörpum, um 9 km langri gígaröð er kom upp úr jarðskorpunni 1226.

Árnastígur

Árnastígur.

Árnastígur liggur þarna yfir Eldvörpin. Áður var haldlagður endilangur stigi frá Slökkviliði Grindavíkur, nógu langur til að ná til hæstu hæða í þeim bæ. Fjóra menn þurfti til að bera hann upp í gíga, sem nú var stefnt á norðan við mið-Eldvörpin. Þar eru tveir djúpir gígar, annar um 8 metrar á dýpt og hinn (sá nyrðri) a.m.k. 10-11 metrar. Hægt er að komast inn í syðri gíginn um op vestan hans og feta sig síðan niður á við neðan við gígopið. Þar sést niður í hyldjúpar gjár, sem liggja þarna eftir gígaröðinni að sunnanverðu. Tveir tréplankar voru þar við lítið op.

Eldvörp

Eldvörpin könnuð.

Eftir að gígbotninn hafði verið fullkannaður var langur brunastiginn látinn síga niður í nyrðra opið. Þegar niður var komið blasti við stórbrotið útsýni upp um gígopið. Niðri var rúmgott og nokkrar stuttar rásir með fallegum hraunmyndunum í. Á einum stað var sem hraunkúlur hafi verið smurðar brúnlitu hrauni. Rásinar voru að mestu hvítar að innan, sennilega vegna kísilútfellinga. Litla opið, þar sem tréplankarnir voru innan við syðra opið, liggur að rás yfir í nyrðri gíginn. Ef gatið yrði rýmkað nokkuð, sem ætti að vera tiltölulega auðvelt, væri hægt að komast úr syðri gígnum yfir í þann nyrðri.
Ástæða er til að þakka Slökkviliði Grindavíkur stigaframlag þess til landkönnunar á svæðinu.
Norðar heldur falleg gígaröð Eldvarpanna áfram og eru gígarnir hver öðrum fallegri. Um er að ræða reglulega klepra- og gjallgíga, svo til óraskaða. Gígarir voru þræddir og skoðaðir.

Eldvörp

Eldvörpin könnuð.

Skammt norðaustar er stutt gígaröð til hliðar við enda Eldvarpanna. Henni var fylgt til norðurs. Við enda þeirra er eitt fallegasta hraundríli Reykjanessins. Þegar klifrað var upp á drílið, sem er um fimm metra á hæð, sást ílangt opið. Dýpið niður er um 6-7 metrar. Svo var að sjá sem þar undir væri brúnleit rás. Þangað þarf að fara með stiga við tækifæri og kíkja niður í drílið. Slóði liggurinn þarna um hraunið frá Eldvarpavegi að og inn fyrir Lat.
Framundan var nokkuð stór gígur. Utan í honum er úbrunnið hverasvæði, ljóst að lit í annars rauðlitum gíghlíðinni. Þarna má finna hveraúfellingar og gufusoðið grágrýti. Skammt norðar er Latur, fagurlega formaður eldgígur. Hann stendur nokkuð hátt og af honum er víðáttumikið útsýni yfir fjöllin og hraunin í nágrenninu. Vestan við er Sandfellshæðin, Sandfellið, Lágafell, Gígurinn og Þórðarfell. Suðaustar er Þorbjarnarfell og Sýlingafell, austar Stóra-Skógfell og gígurinn Arnarsetur.

Latur

Latur við Skipsstíg.

Hraunrásin frá Gígnum sést vel í hauninu. Austan við er slétt helluhraunslægð. Annars eru hraunskilin vel greinileg þaðan frá séð. Norðaustan við Lat er enn ein gígaröðin, nokkrir smáir en fallegir gígar. Svo er að sjá að gosið hafi þarna á a.m.k. þremur samhliða reinum á mismunandi tíma með mismiklum hraungosum. Hraunin frá Eldvörpum liggja að Gígshrauninu. Að því kemur Illahraun, en á milli liggur Bræðrahraun úr gígunum umhverfis Lat. Latur hefur sjálfur rutt úr sér miklu hrauni, en hluti þess er greinilega undir öðrum hraunum. Austar kemur Arnarseturshraun að þeim, sem vestar eru. Allt myndar þetta umkomumikið hraunspil.

Skipsstígur

Skipsstígur – gígurinn Latur.

Loks var stefnan tekin til austurs yfir tiltölulega slétt mosahraun, að Bláa lóninu, þar sem veitingar voru þegnar í boði þátttakenda.
Hitaveita Suðurnesja rekur orkuverið í Svartsengi þar sem jarðsjó er dælt upp úr 2000 metra djúpum borholum. Jarðsjóinn er ekki hægt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu og mikils steinefnainnihalds. Því er jarðsjórinn notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðvökvi sem ekki er nýttur til beinnar upphitunar er 80°C heitur þegar honum er hleypt út á hraunbreiðuna. Vökvinn ásamt þéttiefni jarðgufu myndar Bláa lónið.

Eldvörp

Eldvörp – Gígurinn.

Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísil og sérstökum blágrænþörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa lónið er líka kjörinn viðkomustaður fyrir göngufólk um hið litríka jarfræðisvæði í nágrenninu og ofan við Grindavík.
FERLIRsfélagar fengu leyfi til að ganga í gegnu athafnasvæði Bláa lónsins – yfir að Gjánni, þar sem hringferðinni lauk.

Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Eldvörp

Gígar í Eldvörpum.