Gengið var suður fyrir Eldvörpin um Árnastíg, inn á Brauðstíginn og áfram áleiðis eftir honum til vesturs. Af honum var stefnan síðan tekin að Tyrkjabyrgjunum í suðvesturkrika Sundvörðuhrauns.
Brauðstígurinn liggur frá Árnastíg frá Húsatóttum og þaðan inn í krikann. Frá honum liggur stuttur stígur að byrgjunum. Er komið var að þeim fyrir nokkrum árum var mosinn næstum óhreyfður. Nú hefur myndast moldar hringstígur um byrginn, sem segir nokkuð um áhugann. Erfitt er að koma auga á þau úr fjarlægð vegna þess hversu vel þau hafa samlagast landslaginu. Þrjú byrgi eru í röð utan við kverkina, en eitt hlaðið inni í henni. Hlaðið skjól er aðeins utar og síðan smá hleðsla. Sunnan og ofan við krikan er eitt byrgi og hringlaga geymsla eða varðturn. Utar með kantinum eru tvö byrgi. Norðan þeirra er hlaðin refagildra. Gengið var yfir hraunið vestur frá byrgjunum. Þar er slétt hraun, sem auðvelt var að fylga upp í Eldvörpin til baka – bakatil við þau.
Í “Tyrkjabyrgjum”.
Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum. Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.
Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.
Á þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum.
Strýthólahraun – fiskbyrgi.
Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi]. Því næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir
“Tyrkjabyrgin” – uppdráttur ÓSÁ.
sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.
Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Selatangar – fiskbyrgi.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurrkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Og þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Ranghugmyndir hafa verið uppi um byrgin, allt frá því að Þorvaldur Thorarensen skrifaði um þau á ofanverðri 19. öld. Margir fleiri hafa apað hugmyndirnar eftir.
Húsatóftir – fikibyrgi.
Staðsetning byrgjanna kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga færðist um tíma að Básendum. Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum. Verslunin færðist frá Grindavík árið 1639. Þær fiskgeymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig má sjá dæmi um leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta.
Ákjósanlegt hefur verið að hafa geymslurnar miðsvæðis, hvort sem þær voru frá bæjum á norðanverðum Skaganum, t.d. nálægt Stafnesi, eða frá Grindavíkurbæjunum á sunnanverðu því aldrei var hægt að vita fyrirfram á þeim tíma hvort Þjóðverjar eða Englendingar fengju vorhafnir á hvorum staðnum hvert árið. Reglan var sú að sú áhöfn er fyrst kæmi að höfn að vori héldi henni um sumarið (fyrstur kemur – fyrstur fær).
Fiskbyrgi við Nótarhól.
Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, austan Nótarhóls við Ísólfsskála, á Seltaöngum og í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum. Ástæðan gæti verið sú að þau hafi gleymst eftir að notkun þeirra lauk þegar aðstæður breyttust. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.
Nótarhóll – minjar (ÓSÁ.
Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til með sömu lögun, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um innihaldið. Sléttar þunnar hraunhellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast varninginn í byrgjunum.
Hlaðnar refagildrur eru nálægt við öll fiskibyrgi í nágrenni Grindavíkur. Bendir það til þess að vargurinn hafi ásælst innihaldið. Það gildir einnig um “Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni.
Eldvörp – hleðslur í helli.
Vakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt frá geymslunum.
Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).
Önnur skýring er til á tilvist byrgjanna og alls ekki sú ólíklegasta. Hún er þessi: “Byrgin í Eldvarparhraunum eru fyrir “stuldfisk”.
Óraskað byrgi í Eldvörpum.
Skálholtsbiskup átti nánast allt útræði á sunnanverðum Reykjanesskaganum frá því á 12. öld og fram á 16. öld. Eftir það eignuðust erlendir kaupmenn verslunina. Útvegsbændur í Grindavík líkt og annars staðar þurftu skv. laganna bókstaf að greiða Skálholti eða yfirvaldinu hverju sinni hluta af aflanum, sem annað hvort var fluttur að Skálholti eða seldur til útflutnings. Greindir útvegsbændur eða kotbændur hafa séð sér leik á borði, stolið undan hluta aflans og komið honum í þessar faldar geymslur í ofanverðum hraununum. Þurrkaður fiskurinn hefur síðan verið sóttur þangað ef nauðsyn bar til er sulturinn svarf að. Á einokunartímabilinu, frá 1602 til 1787, hvarf fiskur af Grindavíkurmiðum svo erfitt var um aðdrætti fyrir marga.
Þagnargildi hefur ríkt um geymslur þessar svo þær hafa alla tíð verið fáum kunnar.” Sem sagt; “tyrkjabyrgin” ku hafa verið með fyrstu skattaskjólum Íslendinga. Með því gæti aldur þeirra framlengst allt fram á 13. öld.
Auðvitað er ávallt “leiðinlegt” að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan “Tyrkunum” í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Sjá meira um “Tyrkjabyrgin” HÉR.
Fiskbyrgin í Sundvörðuhrauni. Moldarstígur hefur myndast um minjarnar.
Ástæðulaust er að draga úr “sannleiksgildi” annarra mögulegra ályktana um tilurð og notkun byrgjanna í Sundvörðuhrauni og Eldvörpum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín. Þátttakendur voru um 150.
Eitt “Tyrkjabyrgjanna”.