Þórðarfell

Gengið var á Þórðarfell og umhverfi þess skoðað.

Austasta misgengið að Þórðarfelli

Þótt Þórðarfell sé ekki nema 163 m.y.s. þar sem það er hæst er um merkilegt jarðfræðifyrirbæri að ræða. Misgengi er t.d. þvert í gegnum fellið líkt og í föðursystkini þess, Þorbjarnarfelli. Fellið í röð fella á bólstra- og móbergshrygg á sprungurein er gaus undir jökli á síðasta ísaldarskeiði, fyrir meira en 11.000 árum. Önnur fell á hryggnum eru t.d. Sandfell, Lágafell, Súlur og Stapafell. Á nútíma hafa síðan aðrar jarðmyndanir bæst við og hlaðist á og utan um hrygginn, s.s. dyngjan Sandfellshæð og “gígurinn”.
Þórðarfell greinist í nokkra samliggjandi hnúka og hlíðar er gengið hafa undir ýmsum nöfnum. Gígurinn sjálfur er sennilega í miðju fellinu. Þægilegast er að ganga á fellið úr suðsuðvestri, upp í ávala skálina og síðan upp gróninga á hæstu hæð. Á henni er mælingastöpull.
Rauðimelur er setmyndun, úr sandi og möl, sem teygir sig 2.5 km norðaustur frá Stapafelli. Setmyndun þessi er víða vel lagskipt og er 6-7 m þykk. Myndunin hvílir á jökulbergslagi,sem liggur ofan á grágrýti en um miðbik melsins kemur um 2 m þykkt jökulbergslag. Myndunin er að öllum líkindum sjávargrandi sem myndast hefur við rof á Stapafelli og Súlum. Grandinn er eldri en 40.000 ára og eftir því hvernig myndun jökulbergsins er túlkuð, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði. Stapafellið er mun eldri en grandinn, senniega frá næstsíðasta eða snemma á síðasta jökulskeiði.
Loftmynd af ÞórðarfelliReyndar klúfa þrjú misgengi Þórðarfell og þannig myndast sigdalur milli fellanna Stapafells og Þórðarfells. Fellið er að uppistöðu til úr bólstrabergi. Þegar nágrannafell Þórðarfells í norðri eru skoðuð, Stapafell log Súlur, má sjá þversnið þessara fella því þau tvö hafa verið “étinn inn að beini”.  Bæði fellin eru sundurgrafin. Í þeim má sjá bólstrabergið í grunninn, en ofan á því liggja bæði móberg og yngri hraunmyndanir. Bólstrabergið gefur til kynna að fellin hafi orðið til í gosi í sjó. Síðan hefur komið hlé á gossöguna uns hún hefur hafist að nýju með tiltölulega veigalitlum gosum undir jökli. Eftir að hann leysti hefur enn gosið á afmörkuðum sprunguflötum og þá bæst ofan á svolitlar hraunslettur hér og þar.
Auk þess að vera eina (a.m.k. árið 2008) óhreyfða fellið af þessum þremur, í því megi greina gosmyndunarsöguna og hvernig jökullinn svarf það niður í ávalar og “niðurbrotnar” hlíðar, má aukin heldur glögglegar en víðast hvar annars staðar sjá hvernig hreyfingu landsins hefur orðið á flekamótum Evrópu og Ameríku síðusta árþúsundatuginn og þess heldur heilstæða nýmyndunargossöguna allt um umleikis. Gleggsta dæmið er Gígurinn sunnan við Þórðarfell.
Jarðskjálftarenna liggur eftir miðjum skaganum og markar líklega mót plantnanna. Þar sem hún sker eldstöðvakerfin eru háhitasvæðin.
Útsýni yfir KLifið, Hrafnagjá, Lágafell og SandfellSíðasta kuldaskeið (ísöld) hófst fyrir um 120.000 árum þegar um 20.000 ára hlýskeiði lauk. Móbergsstapar gefa þykkt jökulsins til kynna, þ.e.a.s. hæð hraunhettu þeirra yfir umhverfið.
Grindavíkurfjöllin hafa þau sérkenni að berg þeirra hefur öfuga segulstefnu miðað við þá sem er í dag. Aldur þeirra er um 40.000 ár (sjá Siglubergsháls hér á eftir).
Gosbeltin, sem marka skilin á milli skorpuflekanna eru 24-50 km breið. Eldvirknin innan þeirra er ekki jafn dreifð heldur raðast gosstöðvar og sprungur á nokkrar vel afmarkaðar reinar með mestri virkni um miðbikið. Eldstöðvakerfi skagans hliðrast til austurs. Stefna þeirra er NA-SV, en gosbeltið stefnir lítið eitt norðan við austur.
Margt bendir til að eldgos á Reykjanesskaga verði í hrinum eða lotum á um það vil 1000 ára fresti.
Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesi. Þar segir m.a.: “Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli.
SúlurÞórðarfell kom við sögu í Grindarvíkurstríðinu 1532, sbr.: “Víkur þá sögunni enn og aftur til Grindavíkur. Englendingarnir, sem tekið höfðu þátt í átökunum á Básendum, en var griður gefinn, flúðu þangað. Tóku þeir allmikið af fiski til sín, sem tilheyrði m.a. Þjóðverjum. Erlendur lét þá enn og aftur setja dóm og dæmdi Englendinga í sektir. Um það leyti kom að landi í Grindavík John nokkur Braye, eða Jóhann Breiði, eins og landinn nefndi hann, á skipi sínu Peter Gibson. Lét hann þegar reisa virki á Járngerðarstöðum, ofan við Stóru Bót. Gerðust Englendingar bitrir út í Íslendinga vegna stuðnings þeirra við Þjóðverja á Básendum. Hótuðu þeir landanum og bönnuðu honum að selja þýskum fisk. Pyntaði Jóhann mann, hótaði öðrum og tók lömb og sauði frá manni sem sinnti ekki þessu verslunarbanni hans. Nam hann hest af manni og gerðist alldjarfur til kvenna. Flutti hann t.d. konu eina út í skip sitt og hélt eiginmanninum þar í böndum meðan hann hafði einhver not af henni.
Skipsstígur - forn þjóðleið til GrindavíkurUm þessar mundir var Diðrik af Minden fógeti á Bessastöðum. Skipaði hann þýskum og öðrum er hagsmuna áttu að gæta að finna sig við Þórðarfell ofan við Grindavík. Lofaði hann öllum þeim sem það gerðu mála í nafni konungs. Hafnarfjarðarkaupmenn tóku tilmælunum strax vel og safnaðist fljótt allnokkuð lið við Þórðarfell, eða um 280 menn (aðrar heimildir segja 180), þ.á.m. 8 skipshafnir frá Bremen, sveit Diðriks, liðsmenn frá Hafnarfirði, Njarðvíkum og frá Básendum. Diðrik lýsti Englendingana í Grindavík réttdræpa, en alla sem gegn þeim færu friðhelga að lögum. Ástæðuna fyrir aðförinni sagði hann m.a. virkisgerðina, sem hann taldi vera atlögu að sjálfum Danakonungi, auk yfirgangs Englendinganna og afbrota. Hér virtist því fyrst og fremst vera um nokkurs konar lögregluaðgerð að ræða.
Margir Englendinganna voru á sjó þennan dag, 10. júní 1532. Jóhann Breiði, fálkatemjari konungs, og 13 aðrir Englendingar voru í virkinu. Aðfararnótt 11. júní, kl. 02.00, læddust Hafnfirðingar og Njarðvíkingar að virkinu, en Básendamenn og Þjóðverjarnir héldu í átt að skipunum sem lágu utan við Stóru-Bót. Útsinningshraglandi var og úfinn sjór. Þegar menn nálguðust virkið var gert áhlaup á það með óhljóðum og látum. Vaknaði Jóhann Breiði og menn hans við vondan draum, en náðu ekki að verjast. Voru þeir allir drepnir á nýðingslegan hátt og lík Jóhanns illa leikið. Fimmtán voru drepnir. Náðist að kyrrsetja skip Jóhanns á legunni, en fjögur skip Englendinga lágu utar. Búðir annarra Englendinga voru þarna skammt frá og voru þeir, sem þar vorum, handteknir, átta talsins. Voru þeir látnir grafa félaga sínum undir virkisveggnum. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, en eitt fórst á grynningunum á leið út.”
Fróðlegt hefði verið að finna út hvar framangreint lið hefði getað safnast saman “við Þórðarfell” af þessu tilefni. Nokkrir staðir koma til grein:….
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Stapafell - nær horfið - Reykjanesbær fjær