Tyrkjabyrgi

Björn Þorsteinsson skrifaði eftirfarandi um “Rústirnar í Grindavíkurhrauni” í Þjóðviljann og Nýja Tímann árið 1950:

Undarleg mannvirki
Í SundvörðuhrauniÁ síðara hluta síðustu aldar fundu menn óvænt mannvirki inni í miðju  Grindavíkurhrauni og ollu þau ýmsum nokkrum heilabrotum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og Þorvaldur Thoroddsen athuguðu þau báðir, og skrifuðu um þau, annar í Árbók fornleifafélagsins 1903, en hinn í, Andvara, en síðan hafa menn ekki veitt þessum fornleifum frekari eftirtekt, þangað til síðastliðið vor. Eins og kunnugt er ritaði Halldór Kiljan Laxness „Litla samantekt um útilegumenn” í Tímarit máls og Menningar 1949 og komst að þeirri niðurstöðu, “að útilegumenn hefðu sennilega aldrei verið til á Íslandi”, að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Unnendum útilegumanna fannst Kiljan gerast ærið stórhöggur í þessari grein  og tala gálauslega um viðkvæmt málefni. Útilegumenn hafa þess vegna komizt aftur á dagskrá, og á næstu árum mun verða úr því skorið, hverju menn eiga að trúa í þessu efni.
Síðastliðið vor tóku nokkrir menn sig til og leituðu rústanna, sem Brynjólfur og Þorvaldur geta um, að séu í Grindavikurhrauni, ef vera kynni að þar leyndust augljós merki um útilegumannabyggð.Eftir árangurslausa ferð fundu þeir rústirnar að tilvísan oddvitans í Grindavík, og nú kom í Ijós, að sízt hafði verið frá þeim logið. Þessar tættur eru þær langmerkustu slnnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráðu horn myndast milli opanna. Uppi á hraunbrúninni er rúst af hringlöguðum hrauk, innanmál 75 sm. á lengd og 60 sm. á breidd, mesta hæð 122 sm. Þetta eru ein tvö af þeim tíu undarlegu mannvirkjum, sem þarna getur að líta, og munu margir spyrja, hvers konar fólk hafi verið hér að verki.

Varnir gegn Tyrkjum?

Í Sundvörðuhrauni

Í Ferðabók Þ. Thoroddsens, I. b. Khöfn 1913, bls. 174—’75 segir Þorvaldur frá þessum fundi sínum:
„Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun. Það er mjög nýlegt og fjarska illt yfirferðar. Hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Hraunið er grátt af gamburmosa, en mjög lítill jurtagróður er þar annar. Í því skoðaði ég á einum stað gamlar mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað i versta brunahrauni. Þar hefur líklega einhverntíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefur orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos á flötum hraunbletti og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan víðast einföld. Gjort hefur verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 15—18 fet á lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki. Hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa er hlaðin tóft djúp eins og tunnur. Þar fundum við hálfúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraun brúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því að á beim var nærri eins þykkt mosalag og hrauninu sjálfu.

Enginn veit neitt um þessa kofa. Þeir fundust af tilviljun 1872. Það er mjög ólíklegt, að hér hafi verið mannabyggð að staðaldri; líklegra er, að kofum þessum hafi verið hróflað upp til bráðabirgða á ófriðartímum, og að menn hafi flúið í hraunið úr Grindavík. Þar hefur oft verið agasamt. Englendingar og Þjóðverjar börðust þar 1532, og 1627 herjuðu Tyrkir á byggðina. Gamlar sagnir geta um stigamenn eða útilegumenn á Baðvöllum einhvers staðar nálægt Grindavík, en hvort rústirnar standa í nokkru sambandi við þá illvirkja er efasamt.”

Barnagarðar?

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur veit auðsæilega ekki hvað hann á að halda um þessi mannvirki, og sömu sögu er að segja um Brynjólf frá Minna-Núpi. Þegar hann fór að leita rústanna var Sæmundur bóndi Jónsson á Járngerðarstöðum, sá sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen um Grindavíkurhraun orðinn blindur. Fékk hann þá með sér tvo kunnuga menn, og leituðu þeir „nær heilan dag, en fundu ekki”. Með tilvísan hins blinda manns tókst þeim þó að finna rústirnar í annarri atrennu. Í Árbók fornleifafélagsins heldur Brynjólfur helzt, að tætturnar 3 í kvosinni „hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft svo lág, að veggirnir eru áð mestu mosa huldir. Það gæti verið niðurhrunin fjárrétt, en eigi bendir það þó til þess er Sæmundur sagði; að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni”. Brynjólfur fellst á, að þarna hafi verið gott fylgsni, ,,en ólíklegt er, að menn hafi getað dvalizt til lengdar á þessum stað. Þar hefur víst verið „á flestu góðu mesta óhægð”,” og bendir á, að þar hafi hvorki verið vatn né eldivið að fá. Kunnugir menn í Grindavík segja, að vatnsból sé sæmilegt í djúpri gjá sunnan við Eldvarpahraun um 20-30 mín. gang frá rústunum, en eldiviður hefur auðvitað verið enginn nema mosi. Brynjólfur bendir á, að sumar af tóftum þessum em svo smáar, „að það er eins og börn hafi byggt þær að gamni, og trúa mundi ég, að þetta væri allt saman eftir stálpuð börn, t. a. m. 10—14 ára gamla drengi, ef líklegt væri að þeir hefðu komið á þennan stað, en það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemmtunar en að leita leiksviðs í ófæru hrauni, og fyrrum hefur hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt saman sigið. Hafi drengir fyrri alda haft slíkar glæfraferðir og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora, og þó þær séu eftir útilegumenn eru þær merkilegar, auk þess sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek sem þurfti til að lifa í henni; þá sýna þær einnig það áræði, sem þrátt fyrir hættuna horfði ekki í að vera svo nærri mannabyggðum. „Karlmennskuhugurinn harði” lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.”

Junkerar í Grindavík

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur og Brynjólfur vilja ekkert fullyrða um það, hverjir hafi staðið að húsagerðinni í Grindavíkurhrauni, en rústirnar benda ótvírætt til þess, að einihvern tima í fyrndinni hafi menn hafzt þar við. Skammt frá sjálfum tóftunum sér móta fyrir aðhaldi og lítilli rétt, en hverjir áttu að smala á þessum slöðum? Ef einhverjir óbótamenn óbótamenn hafa búið þarna, er harla ólíklegt, að einhver sögn um þá hefði ekki varðveizt, og nú vill svo vel til, að meðal Grindvíkinga hefur varðveizt saga um „útilegumenn” á Reykjanessskaga. Brynjólfur frá Minna-Núpi skrásetur þessa sögu, og er hún prentuð í Huld, H. b., útg. 1892, bls. 58-60.
Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn -— tólf eða átján — hafzt við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavik, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé, og vindur standi af landi. En junkarar reru heldur aldrei nema þar sem vindur stóð af landi, og þá er svo var hvasst að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir í landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn því illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar. Og þó að að menn kæmist í gerði þeirra, þá er þeir voru ekki við, þorðu menn eigi að láta junkara sjá þess merki, þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmissa bragða til þess. Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en júnkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björguðust svo til lands. Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu, þá er í land skyldi róa, því að þá var mótvindi. Þá reru junkarar við hné sér til lands. Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru junkarar, er vindur stóð af landi, en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig: Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi junkarar verið af dögum ráðnir.
Þessari sögu fylgir skýringarklausa frá Brynjólfi á Minna-Núpi: “Þessi munnmæli voru mér sögð í Grindavík 1861. En seinna hefur mér dottið í hug, að þessi sögn kunni að standa í sambandi við tóftarústir þær, er sjómenn frá Húsatóftum í Grindavík — einn af þeim var Guðmundur, bróðir minn — fundu veturinn 1872 norðan í Sundvörðuhrauninu, þar sem á stóru svæði er hvergi stingandi strá strá, og engin umferð af mönnum né skepnum, enda hafði þá enginn heyrt þeirra rústa getið áður. Þorvaldur Thoroddsen fann þær líka, er hann rannsakaði Rekjanesskagann, og áleit eins og hinir, að þar hefði verið mannahýbýli”.

Vafasamt junkaragerði
Junkaragerði ofan við Stóru-Bót í GrindavíkÞetta er eina sögnin, sem hægt er að tengja við tóftirnar í Sundvörðuhrauni, en hún hefur á sér ýmis einkenni góðrar þjóðsögu. Junkararnir eru 12 eða 18, en talan 18 er algeng í þjóðsögum um líkt efni. Í Grindavík lifði einnig saga um 15 þjófa í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli en hún er farandsögn, sem ekkert á skylt við þessar rústir. Þrjár tilraunir eru gerðar til að ráða junkarana af dögum, og heppnast síðasta tilraunin, en slík efnisatriði eru einkenni allra góðra þjóðsagna.
Sannfræði þessarar sögu er því býsna vafasöm, en engu að síður standa rústirnar í Sundvörðuhrauni sem óbrotgjarnt vitni þess, að þar hafa menn verið að verki og sennilega dvalizt einhvern tima. Ef bófaflokkur hefur haft þar bækistöð sína ætti að finnast einhver urmull af beinum eða öðrum úrgangi þar í grendinni, en þess sér engin merki. Útilegumannadýrkendur benda þó rétti lega á, að tætturnar séu mjög gamlar, því að þær eru huldar þykku mosalagi. Fangamark útilegumanna getur því birzt einn góðan veðurdag undir mosalaginu.
Það er eftirtektarvert við rústirnar, að byggingarlag þeirra bendir til þess, að það sé miðað við þá möguleika, sem hraunhellurnar í nágrenninu skópu byggingameisturunum. Stærstu hraunhellurnar eru um 90 sm. á lengd, en tætturnar eru frá því um 50 sm til 80 sm. á breidd nema ein. Hún er um 150 sm., þar sem hún er breiðust. Þar hefur þó verið hlaðinn milliveggur, svo að þakhellurnar hafa ekki þurft að vera nema um 80 sm. til þess að ná milli veggja, Ef hér er um mannabústaði að ræða, þá er enginn öfundsverður af því að hafa hafzt þarna við.  Mér er ókunnugt, að orðið junkari komi fyrir annars staðar í þjóðsögum. Orðið kemur inn inn í íslenzkuna á ofanverðum miðöldum og er þá oft skrifað jungkæri, og bæjarnafnið Junkaragerði er skrifað Junkæragerði í Jarðabók Árna Magnússonar. Orðið jungkæri var notað um yngissveina af tignum ættum, en hefur festst t. a. m. í Þýzkalandi við landeigendaaðalinn. Inn í íslenzkuna er orðið auðvitað komið úr þýzku eða dönsku, en Þjóðverjar höfðu miklar bækistöðvar á þessum slóðum á 16. öld. Það er dálítið kátbroslegt, að tignarheiti! einnar illræmdustu landeigendastéttar Evrópu skuli tengt við kot eitt suður í Höfnum og þjóðsögn um kvennagull, sem eiga að hafa búið á óbyggðum Reykjanesskaga.

Heimildir m.a.:
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Þjóðviljinn 3. september 1950, bls. 5 og 7.
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Nýi Tíminn 28. september 1950, bls. 3 og 6.

Tyrkjabyrgi - uppdrattur