Færslur

Sundhnúkahraun

Orkustofnun gaf út ritið “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort” á sínum tíma eftir Jón Jónsson, jarðfræðing. Þar fjallar Jón m.a. um Sundhnúkahraun ofan Grindavíkur:

Sundhnúkar

Sundhnúkahraun – loftmynd.

“Nafn þetta er tilbúningur minn að nokkru leyti. Því víkur þannig við að í heild hefur hraun þetta ekki nafn og gígaröðin, sem það er komið úr, ekki heldur að ég veit.
Ýmsir hlutar hraunsins hafa því ýms nöfn og oft ná þau örnefni til margra hraunstrauma frá mismunandi tímum.

Sundhnúkur

Sundhnúkur fyrir miðri mynd. Grindavík fjær.

Norðaustur af Hagafelli ofan við Grindavík er hár gígur, sem nefndur er Sundhnúkur (Jónsson 1973). Hef ég látið hann gefa nafn gígaröðinni allri og hrauninu, sem frá henni er komið. Gígaröðin sjálf byrjar suðvestan undir Hagafelli og virðist stærsti gígurinn þar heita Melhóll, en mikið er nú ekki eftir af honum, því efnistaka hefur þar verið um árabil.
Ég mun nota nafnið hér sem jarðfræðilegt hugtak og láta það gilda fyrir allt það hraun, sem komið hefur úr þessari gígaröð í því síðasta gosi, sem í henni varð, en hraunið nær yfir stórt svæði og ýms örnefni fyrir í því og hefur þessi nafngift að sjálfsögðu ekki áhrif á þau.

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð og er eða öllu heldur var einn þeirra mestur og heitir Melhóll eins og áður er sagt.

Hagafell

Hrauntröð við Hagafell.

Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofannefndum gígum er meginhluti þess hrauns komið, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítt eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndast hefur kringum þá á sléttunni norðan Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn nú liggur, en numið staðar þar. Hefur hraunið þar runnið út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður að því vikið síðar. Svo hefur allbreiður hraunfoss fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar verða fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrsta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Grindavík

Grindavík ofanverð.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur megin hraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um stuttan tíma. Virðist þetta vera mjög venjulegt um sprungugos yfirleitt (Jónsson 1970).

Sundhnúkahraun

Karlinn í Sundhúkahrauni.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar, kanski væri réttara að kalla það gígaraðir, hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígum.

Sundhnúkur

Hraunssvæðið norðan Grindavíkur. Stóra-Skógfell næst.

Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan og þekur allstórt svæði vestur af því og norður að Eldvarpahrauni. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum gíg suðvestur af Þórðarfelli, er að því er séð verður samtíma myndun. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt enda er sýnilegt að hver straumurinn hefur þar hlaðist ofan á annan. Geta má þess að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft er fellið úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunflái er milli ofannefndrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hinsvegar ljóst að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun – velkomnum boðið að skoða djásnið innandyra.

Það er greinilegt að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna en virðast kann við fyrstu sýn. Við suðurhornið á Stóra-Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson.

Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra-Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra-Skógfell og Litla-Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra-Skógfelli sjálfu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er og víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess því víða hulin.

Sundhnúkahraun

Gíggjár í Sundhnúkahrauni.

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að austur fyrir Stóra-Skógfell kemur. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smá hraunspýja hefur runnið norður eftir austanhalt við Litla-Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla-Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af Þráinsskjaldarhrauni. Í heild er gígaröðin um 8.5 km á lengd.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Sundhnúkahraun hefur runnið tæpum 400 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til að fremur hægfara hreyfingar séu þar eða þá, og það virðist full svo trúlegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Mætti telja líklegt að hreyfingar þessar fari aðallega fram þegar jarðskjálftar ganga.”
Skógfellastígurinn millum Grindavíkur og Voga liggur um Sundvörðuhraunin – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 135-140.

Skógfellavegur

Skógfellastígur milli Skógfellanna.

Eldvörp

Haldið var eftir gömlum skriðdrekaslóða norður eftir Bræðrahrauni með stefnu á Lat. Suðvestan hans er stærðarinnar hraundrýli, sem FERLIRsfélagar gengu fram á fyrir stuttu síðan. Það er um fimm metra hátt og op uppi í því miðju, en niður í það er u.þ.b. níu metra dýpi.

Hraundríli

Hraundrýli í Eldvörpum.

Gengið var með stiga síðasta áfangann. Drýlið er í einni gígaröðinni nyrst og skammt austan við Eldborgagígaröðina. Svo virðist að um gasuppstreymisop sé að ræða sem og klepragíg af innvolsinu að dæma. Að horfa niður er ekki ólíklegt að þar niðri kynnu að leynast göng, en tilgangurinn með þessari ferð var að skoða innviðina betur. Ekki eru mörg hraundrýlin hér á landi er bjóða upp á þessar aðstæður, en þó má finna slík á Reykjanesskaganum, s.s. í Hnúkunum (mjótt og um 6 m djúpt), á Strokkamelum í Hvassahrauni (minni) og Tröllabörnin undir Lögbergsbrekkunni við Suðurlandsveginn (breiðari). Þá má nefna Trinton við veginn milli Þingvalla og Laugarvatns.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Hraundrýli myndast oft á yfirborðsþekju hrauna við uppstreymisop þar sem lofttegundir, einkum vetni (H2), streyma upp, brenna, og rífa með sér hraunslettur. Hraunsletturnar falla sem kleprar umhverfis opið og mynda þannig holan kleprahrauk sem oft líkist einna helst ofni, samanber erlenda heitið á þessum myndunum, hornito. Það mun vera komið úr spænsku og merkir ofn. Algengast er að hraundrýli myndist nálægt eldgígum t.d. á gígbörmunum umhverfis hrauntjarnir í dyngjum eins og Selvogsheiði. Hraundrýli mynduðust einnig við gosið í Surtsey. Hraundrýli eru nokkuð algeng í hraunum og þá jafnvel langt frá gígunum eins og t.d. Tröllabörn í Elliðaárhrauni (Leitahrauni) neðan Lækjarbotna og í Aðaldalshrauni. Skammt frá þessu tiltekna hraundrýli í Eldborgarhrauni er tiltölulega (m.v. jarðsögulegan mælikvarða) nýslökknaður gígur og virkt hverasvæði.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Stiginn var látinn síga niður í hraundrýlið. Hann náði niður á brún þess, ca. þremur metrum ofan botnsins. Þegar niður var komið sást vel hvernig barmarnir voru; líkir klepragíg að innan, en þó fínlegri. Fjölbreytileg litadýrð blasti við. Ljóst var af ummerkjum að dæma að þarna hafði ekki nokkur lifandi vera stigið fæti áður. Ótrúlegt að á jafnfjölmennu og fjölförnu svæði og Reykjanesskaginn er, skuli enn vera til svæði þar sem enginn virðist áður hafa stigið niður fæti. Í lotningu fyrir að slíkt skuli enn vera fyrir hendi var drýlið nefnt því einfalda, en samt margslungna nafni Ó.
Gjall myndast við kvikustrókavirkni í basískum gosum en hún stafar af miklu útstreymi lofttegunda úr kvikunni efst í gosrásinni.

Tröllabörn

Myndun hraundrýla.

Við loftbólumyndunina í kvikunni léttist hún snögglega og hröðun hennar upp á við eykst mjög þannig að kvikan nær að þeyta kvikustrók hátt til lofts. Nái sletturnar að storkna áður en þær falla mynda þær frauðkennt gjall. Séu sletturnar aðeins hálfstorknaðar fletjast þær út og hrúgast upp sem skánir úr kvikuslettum eða kleprahrúgöld. Í svokölluðum blandgosum er um báðar þessar myndanir að ræða og myndast þá gjall- og klepragígar. Vegna hraðrar storknunar er yfirborð gjalls og klepra mjög glerkennt og storkan er blöðrótt. Þessar myndanir fá oft rauðleitan blæ vegna oxunar járnsambanda í storkunni. (Bætt hefur verið inn á FERLIRsvefinn nýjum tengli; Jarðfræði – glósur, en á honum má finna hinar ýmsu skilgreiningar um jarðfræðileg álitamál).

Eldvörp

Eldvörp – útfelllingar í hraundríli.

Af syllunni, það sem stiganum sleppti, var hægt að fella stærðar stein niður í dýpið fyrir neðan. Með því að halda sér í stigann og stíga á steininn var hægt að komast niður á botn. Þar blasti dýrðin við; opið að ofan og stuttar rásir til hvorrar handar; “Paradís jarðfræðingsins”. Vegna þess að engu hafði verið raskað mátti sjá fallegar brennisteinsútfellingar og stórbrotnar kísilmyndanir á syllum. Þessar myndanir höfðu greinilega fengið að dafna þarna í friði um alllangan tíma. Með því að standa þarna og virða fyrir sér fyrirbærin mátti í raun lesa jarðmyndunarsöguna, án bókastafa.
Stuttar og litlar rásir eru beggja vegna. Í rauninni gleymdist uppopið um sinn þegar jarðmyndanirnar voru skoðaðar. Fjallað hefur verið um göng og stigaverk í Þríhnúkahelli. Hér dygði stuttur stigi til að virða fyrir sér það sama í minni mælikvarða.
Þegar upp úr hraundrýlinu var komið sáust ljósin við Bláa lónið við í austri. Snjór þakti jörð og Þorbjörninn var skyndilega orðinn “gráhærður”. Ljóst er að nýta má betur svæðið í kringum “Lónið”.
Haldið var til baka – með stigann og minningarnar um einstakt hraundrýli í Eldborgarhrauni (Bræðrahrauni).
Frábært veður (miðað við árstíma) – Gangan tók 5 mín, en skoðunin tók tíu sinnum fimm mínútur.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Eldgos

Á nýlegri ferð FERLIRs um hraunin vestan Grindavíkur kom í ljós gata frá Stað upp í gegnum Lynghólshraun og óbrennishólma Lambahrauns áleiðis í Eldvörp. Þá er ljóst að gatan frá Stað upp á Prestastíginn ofan við Hrafnagjá hefur legið sunnar en áætlað hefur verið. Gatan er vörðuð að hluta og kemur inn á Prestastíginn áleiðis niður að Húsatóftum ofan við Sauðakróka.
Svæðið-5Ætlunin var að fara á ný inn í óbrennishólmann í Lambahrauni og fylgja götu upp frá honum í gegnum Eldvarpahraunið áleiðis upp í sunnanverð Eldvörp og síðan fyrrnefndri götu inn á Prestastíginn til baka áleiðis niður að Stað.
Lambahraunið er >4000 ára og <6000 ára. Sandfellshæðin er ~11500-13500 ára.

Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll. Frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.
Sunnan Rauðhóls eru nokkur hraun; Klofningshraun, Berghraun (Eldvarpahraun) og Lynghólshraun sem bera samheitið Rauðhólshraun.

Eldvorp

Austan við Rauðhól tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226.
Eldvorp-2Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Málfríður Ómarsdóttir hefur m.a. gert ritgerð (2007) um Eldvarpasvæðið. Þar segir m.a.: “Eldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Elstu og minnstu dyngjurnar eru úr ólivín pikríti sem runnið er á miklu dýpi og nær yfir 80-200 km. Stærri og yngri dyngjurnar eru úr ólivín þóleíti og eru þær allt að 6-7 km3 hver. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins (Ari Trausti Í EldvorpumGuðmundsson, 2001).
Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin. Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004).
GöturnarVið Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).
Gata-10Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga.
Í Eldvorpum - 10Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
Dyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið Í Eldvorpum - 12á gosið.
Stærsta dyngja innan Reykjanes-eldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500-13500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni.
HrafnagjáÞegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum. Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo hraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld.
Hrafnagjá sunnanverðEldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis. Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
Varða ofan StaðarFlest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám.
Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Ögmundarhraun vestan Krýsuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krýsuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983).
Refagildra ofan við StaðÍ Krýsuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879. Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvarkerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar. Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).
SkollafingurStampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin: Útbreiðsla og aldur hrauna sem runnu eftir landnám á Reykjanesskaga. Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón Jónsson, 1983).
Samkvæmt Jóni Jónssyni (1983) þá hefur gosið á Reykjanesskaga allt að 12-13 sinnum frá því að landnám hófst en eins og áður segir þá hefur oftast gosið í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).”
Ganga um framangreint svæði staðfesti að um fjárgötur var að ræða. Varðaða leiðin ofan við Stað er og verður enn ráðgáta, a.m.k. um sinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Kristján Sæmundsson.
-Málfríður Ómarsdóttir, Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, apríl 2007.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Rauðhóll

Eldvarpahraunið (það yngsta) kemur frá syðsta hluta Eldvarpanna og niður til sjávar á Staðarbergi á milli Klofningahrauns að vestanverðu og Sundvörðuhrauns að austanverðu. Neðst, austan þess að austanverðu, er Lynghólshraun, nokkuð gróið. Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að “Lynghólahraun er breitt og víðáttumikið. Dregur það nafn af Lynghólum, sem eru ávalar, líttgrónar hraunbungur, rétt ofan við gamla veginn – en hann liggur spölkorn fyrir neðan bílveginn”. Enn eitt hraunið, “Básahraun er á hægri hönd, ofan við Hróabása.” Í Básum, skammt ofan við bergið, má m.a. finna eina af fallegri hlöðnu refagildrum á Reykjanesskaganum sem og aðra skammt ofar, í vörðu.

Eldvörp

Áður en lagt var af stað hafði verið haft samband við Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, sem gengið hefur mikið um þetta hraunssvæði sem og önnur á Reykjanesskaganum. Kristján sagði m.a.: “Klofningahraunið er rúmlega 2000 ára.
Aðalgígurinn í því (og raunar sá eini) er Rauðhóll. Tvö stór jarðföll eru suðvestan við hann. Eldvarpagígaröðin (frá 13. öld) er 400-500 m austan við Rauðhól. Hraun úr henni nær að hólnum austan og norðan megin. Það er hleðsla í gígnum (í Rauðhól) þegar kemur dálítið inn í hann sunnan frá. Gat ekki séð til hvers hún hefði verið, sennilega þó skýli.
Sunnar eru gígar sem tilheyra Eldvarpagosinu (frá 13. öld) og austan við þá er stakur eldri gígur, nokkuð gróinn, sem stendur upp úr Eldvarpahrauninu. Annar álíka stór er norðaustar, með gróðurtorfu innanvert, í hávestur frá borholum Íslandslax, svo sem 500 m frá. Sá þriðji, er langminnstur suðvestan við þann fyrrnefnda (suðvestastur í röðinni).
Eldvörp Milli hans og þeirra eru 200-300 m. Ég er ekki alveg viss um aldur þessara gíga, fannst þeir myndu vera eldri en Rauðhóll. Það þarf samt að athuga betur. Þarna við gígana heitir einhvers staðar Mönguketill. Klofningar munu vera allhá brún, mjög sundurklofin, í Klofningahrauni. Þar heitir einhvers staðar Dringull. Gott væri ef hægt væri að staðsetja þessi örnefni og þá líka Bíldarholt sem á að vera 0,8-1 km suðvestur frá Rauðhól. Þessi örnefni fékk ég hjá Ólafi Gamalíelssyni skömmu áður en hann lést.”
Þarna kemur fyrir örnefnið Mönguketill og að hann geti verið suðvestan við neðstu gígana. Möngusel og Mönguselsgjá eru til efst í Hafnasandi, nálægt svonefndum Nauthólum. Selið er í hraunskál, opinni til norðurs. Ofan hennar er Mönguselsgjá. Spurningin er hvort þarna kunni að vera einhver tengsl?
Gengið var inni í Óbrennishóla. Ofarlega í þeim austasta virtist vera hlaðið aðhald. Stígur liggur upp úr hólnum efst með stefnu í sunnanverða Eldvarpagígaröðina suðaustan við Rauðhól.
Áður en lagt var af stað var rætt við Helga Gamalíelsson. Hann sagði Mönguketil auðfundinn. Vegslóði lægi upp í hann. Um km frá honum til austurs væru Klifsgrenin svonefndi, Efra- og Neðra. Hinum megin í Eldvarpahrauninu, að vestanverðu, væru á annan tug grena. Neðar í hrauninu væru örnefni sem hétu Einbúi og Kerling, en hann væri ekki viss um hvort væri hvað.
Klofningar eru löng læna upp úr Klofningahrauni og í gegnum Eldvarpahraun sunnan Rauðhóls. Í örnefnalýsingu fyrir Stað er heitið Klofningar samheiti fyrir hraunið, sbr. “Upp af hraunlægðinni (í Moldarlág austan við Reykjanesklif, en klifin eru tvö á sitt hvorum hábrúnum Berghrauns, Staðarklif að vestanverðu og Reykjanesklif að austanverðu) eru Klofningar eða Klofningshraun, sem ná austur að Lambagjá, en sú gjá er upp af Moldarláginni.”
Eldvörp Í Eldborgarhrauni liggur önnur hrauntunga til suðausturs. Í henni er m.a. Óbrennishólar. Sunnan þessarar hrauntungu er hraun er nefnist Berghraun.
Ætlunin var að ganga áfram upp úr hólunum í Eldvarpahrauni og síðan upp í Rauðhól. Rauðhóll er eini gígurinn í Klofningahrauni. Tekið átti hús á hann. Suðvestan hans eru tvö stór jarðföll. Þar eru sagðar hafa sést hleðslur, sem ætlunin var að kanna. Þá var ætlunin að skoða gígana sunnar í Eldvarpahrauni sem og hin miklu hrauntröð sunnan þeirra. Á leiðinni var ætlunin að finna fyrrnefnd örnefni Mönguketill, Klofningar og Dringull á þessu svæði. Ekki var ætlunin að líta á svonefnt Vatnstæði í Klofningahrauni ofan við Hróabás að þessu sinni.
Yfirleitt voru nöfnin á básum undir Staðarbergi (Sölvabásar eru þar einnig, en austar) þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás. Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju þó svo að vestari mörg Staðar hafi verið í “austanverðan Valagnúp”.
Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að “Dringull heitir stakur klettur, u.þ.b. 2-3 km norðvestur af Mölvík. Var hann alkunnugt kennileiti í smalamennskum hér áður. (Austur af honum er Stampahraun)”.
Eldvörp Samkvæmt þessu átti Dringull að vera á vesturmörkum Klofningahrauns og áberandi kennileiti þar. Vestan við Hróarbása er Mölvík og enn vestar Sandvík. Þetta, niður við ströndina, er nefnt hér til að auðveldara er að átta sig á kennileitum uppi í landinu. Beint upp af Hrófabásum, ofan þjóðvegarins er Vatnsstæðið. “Rétt við veginn ofan við Mölvík er smátjörn, nefnt Vatnsstæði eða Mölvíkurvatnsstæði til aðgreiningar frá samnefndum tjörnum við Húsatóftir og Járngerðarstaði.” Jafnframt segir í örnefnalýsingunni að “norðaustur af Vatnsstæðinu er Mönguketill, einstakt eldvarp. Tófugreni er í Möngukatli.”
Ferðin upp í Rauðhól gekk vel, enda að mestu um slétta hraunlænu að fara milli úfnari hrauna. Á leiðinni var gengið framhjá Svinx þeirra Grindvíkinga, en hann gefur hinum egypska frænda sínum lítið eftir í reisn. Suðaustan við Rauðhól er stór kvikuþró og önnur mun stærri suðvestan við hann. Á milli hennar og Rauðhóls er mikil hrauntröð. Allt svæðið var gaumgæft með það fyrir augum að finna framangreindar hleðslur, en án árangurs að þessu sinni. Snjór þakti jörð að mestu og gerði það leitina erfiðari en ella. Fljótlega er ætlunin að fara með Kristjáni Sæmundssyni í Rauðhól og njóta leiðsagnar hans um svæðið.
Gengið var niður um Klofið, en síðan vent til austurs inn í Eldborgahraunið og síðan fljótlega til suðurs, að gígaröð þar niðri í hrauninu. Kristján hafði sagt þessa gíga vera hluta af nýrra Eldvarpagosi, frá 13. öld, en syðstu gígarnir að ofanverðu, austan Rauðhóls, tilheyra því einnig. Sjá mátti göt niður í annars slétt hraunið og smágígaröð. Þá var komið að stærsta gígnum í neðstu röðinni, fallegur gjall- og klepragígur. Sunnan hans er enn einn gígurinn, Mönguketill. Úr honum liggur falleg hrauntröð til suðurs.
Eldvörp Að þessu sinni var gengið til austurs frá stóra gígnum. Austan hans eru nokkrar smávörður við greni. Ljóst er að sum þeirra eiga íbúa því sumsstaðar sáust spor eftir skolla, ýmist tvo og tvo saman eða einn sér, og þá móóttan.
Reynt var að skoða klapparhæðir á leiðinni, en sagan segir að á tilteknu svæði hafi nokkrir Grindvíkngar haft bruggaðstöðu í myndarlegri hraunbólu. Gat hafi verið á þakinu, en undir vatn. Enn ætti að sjást móta fyrir tunnustöfum í bólunni. Hins vegar hafi henni verið lokað með hraunhellum og því torfundin, enda gekk það eftir – að þessu sinni.
Svæðið í heild er einstaklega fallegt og bíður upp á ýmsa möguleika til útivistar. Það eru ekki mörg svæðin við þröskuld Stór-Grindavíkursvæðisins sem og annarra hluta höfuðborgarsvæðisins er bjóða upp á slíka jarðfræðibirtingu sem þarna er; gígaröð á sprungurein, hraun frá sögulegum tíma, mannvistarleifar frá óskilgreindum tíma (sumir segja frá því fyrir norrænt landnám), óteljandi hraunmyndanir og gerðir hrauna, undirheima og allt annað það sem áhugavert gæti talist á ekki stærra svæði.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.
-Örnefnalýsing fyrir Stað í Grindavík.

Eldvörp

Eldvörp.

Tyrkjabyrgi

Björn Þorsteinsson skrifaði eftirfarandi um “Rústirnar í Grindavíkurhrauni” í Þjóðviljann og Nýja Tímann árið 1950:

Undarleg mannvirki
Í SundvörðuhrauniÁ síðara hluta síðustu aldar fundu menn óvænt mannvirki inni í miðju  Grindavíkurhrauni og ollu þau ýmsum nokkrum heilabrotum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi og Þorvaldur Thoroddsen athuguðu þau báðir, og skrifuðu um þau, annar í Árbók fornleifafélagsins 1903, en hinn í, Andvara, en síðan hafa menn ekki veitt þessum fornleifum frekari eftirtekt, þangað til síðastliðið vor. Eins og kunnugt er ritaði Halldór Kiljan Laxness „Litla samantekt um útilegumenn” í Tímarit máls og Menningar 1949 og komst að þeirri niðurstöðu, “að útilegumenn hefðu sennilega aldrei verið til á Íslandi”, að Fjalla-Eyvindi undanskildum. Unnendum útilegumanna fannst Kiljan gerast ærið stórhöggur í þessari grein  og tala gálauslega um viðkvæmt málefni. Útilegumenn hafa þess vegna komizt aftur á dagskrá, og á næstu árum mun verða úr því skorið, hverju menn eiga að trúa í þessu efni.

Eldvörp

Eldvörp – fiskibyrgi.

Síðastliðið vor tóku nokkrir menn sig til og leituðu rústanna, sem Brynjólfur og Þorvaldur geta um, að séu í Grindavikurhrauni, ef vera kynni að þar leyndust augljós merki um útilegumannabyggð.Eftir árangurslausa ferð fundu þeir rústirnar að tilvísan oddvitans í Grindavík, og nú kom í Ijós, að sízt hafði verið frá þeim logið. Þessar tættur eru þær langmerkustu slnnar tegundar, sem fundizt hafa, og sumar þeirra svo kyndugar, að engum getum er hægt að leiða að því, til hvers þær hafa verið notaðar. Eitt af þessum furðuverkum er rúst, sem minnir einna helzt á skýlin á áfangastöðum strætisvagnanna. Þetta eru þrjár skeifulaga tættur, sem snúa göflunum saman, en um 120 gráðu horn myndast milli opanna. Uppi á hraunbrúninni er rúst af hringlöguðum hrauk, innanmál 75 sm. á lengd og 60 sm. á breidd, mesta hæð 122 sm. Þetta eru ein tvö af þeim tíu undarlegu mannvirkjum, sem þarna getur að líta, og munu margir spyrja, hvers konar fólk hafi verið hér að verki.

Varnir gegn Tyrkjum?

Í Sundvörðuhrauni

Í Ferðabók Þ. Thoroddsens, I. b. Khöfn 1913, bls. 174—’75 segir Þorvaldur frá þessum fundi sínum:
„Frá Járngerðarstöðum í Grindavík fórum við upp í Eldvarpahraun. Það er mjög nýlegt og fjarska illt yfirferðar. Hesti er ómögulegt að koma við og illfært gangandi manni. Hraunið er grátt af gamburmosa, en mjög lítill jurtagróður er þar annar. Í því skoðaði ég á einum stað gamlar mosavaxnar rústir. Þær er mjög illt að finna: á afskekktum stað i versta brunahrauni. Þar hefur líklega einhverntíma í fyrndinni verið athvarf manns, sem einhverra orsaka vegna hefur orðið að flýja úr byggðinni. Ekki er hægt að sjá þessar rústir fyrr en maður er rétt kominn að þeim. Standa þær í kvos á flötum hraunbletti og há hraun allt í kring. Fram á miðjum fletinum eru þrír kofar, allir hlaðnir úr hraunhellum og hleðslan víðast einföld. Gjort hefur verið yfir byrgi þessi með stórum hraunhellum. Allir eru kofar þessir smáir, 15—18 fet á lengd, og snúa dyrnar til norðurs. Stærsti kofinn er inni í hraunviki.

Eldvörp

Eldvörp – “Tyrkja”byrgin svonefndu; undanskot Grindavíkurbænda!?

Hafa hraunbrúnirnar verið notaðar fyrir veggi. Bak við þennan kofa er hlaðin tóft djúp eins og tunnur. Þar fundum við hálfúna tiltelgda spýtu undir mörgum hraunhellum og mosa. Önnur hringmynduð rúst var þar í nánd. Uppi á hæstu hraun brúninni fyrir ofan var enn eitt byrgi alveg eins og það hefði verið notað til þess að skyggnast um. Allar eru rústir þessar mjög gamlar, því að á beim var nærri eins þykkt mosalag og hrauninu sjálfu.

Enginn veit neitt um þessa kofa. Þeir fundust af tilviljun 1872. Það er mjög ólíklegt, að hér hafi verið mannabyggð að staðaldri; líklegra er, að kofum þessum hafi verið hróflað upp til bráðabirgða á ófriðartímum, og að menn hafi flúið í hraunið úr Grindavík. Þar hefur oft verið agasamt. Englendingar og Þjóðverjar börðust þar 1532, og 1627 herjuðu Tyrkir á byggðina. Gamlar sagnir geta um stigamenn eða útilegumenn á Baðvöllum einhvers staðar nálægt Grindavík, en hvort rústirnar standa í nokkru sambandi við þá illvirkja er efasamt.”

Barnagarðar?

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur veit auðsæilega ekki hvað hann á að halda um þessi mannvirki, og sömu sögu er að segja um Brynjólf frá Minna-Núpi. Þegar hann fór að leita rústanna var Sæmundur bóndi Jónsson á Járngerðarstöðum, sá sem fylgdi Þorvaldi Thoroddsen um Grindavíkurhraun orðinn blindur. Fékk hann þá með sér tvo kunnuga menn, og leituðu þeir „nær heilan dag, en fundu ekki”. Með tilvísan hins blinda manns tókst þeim þó að finna rústirnar í annarri atrennu. Í Árbók fornleifafélagsins heldur Brynjólfur helzt, að tætturnar 3 í kvosinni „hefðu getað verið geymsluhjallar, t.a.m. fyrir þurrkað kjöt. Í kvosarbotninum er hringmynduð tóft svo lág, að veggirnir eru áð mestu mosa huldir. Það gæti verið niðurhrunin fjárrétt, en eigi bendir það þó til þess er Sæmundur sagði; að í henni hefði hann fundið ösku og skörung úr járni”. Brynjólfur fellst á, að þarna hafi verið gott fylgsni, ,,en ólíklegt er, að menn hafi getað dvalizt til lengdar á þessum stað. Þar hefur víst verið „á flestu góðu mesta óhægð”,” og bendir á, að þar hafi hvorki verið vatn né eldivið að fá. Kunnugir menn í Grindavík segja, að vatnsból sé sæmilegt í djúpri gjá sunnan við Eldvarpahraun um 20-30 mín. gang frá rústunum, en eldiviður hefur auðvitað verið enginn nema mosi.

Eldvörp

Eldvörp – fiskibyrgi.

Brynjólfur bendir á, að sumar af tóftum þessum em svo smáar, „að það er eins og börn hafi byggt þær að gamni, og trúa mundi ég, að þetta væri allt saman eftir stálpuð börn, t. a. m. 10—14 ára gamla drengi, ef líklegt væri að þeir hefðu komið á þennan stað, en það sýnist mér ekki vera. Á vorum dögum mundu flestir drengir kjósa annað til skemmtunar en að leita leiksviðs í ófæru hrauni, og fyrrum hefur hraunið þó verið enn verra yfirferðar, er það var mosalaust og lítt saman sigið. Hafi drengir fyrri alda haft slíkar glæfraferðir og séu þessar menjar eftir þá, þá eru þær merkilegar fyrir þroskunarsögu vora, og þó þær séu eftir útilegumenn eru þær merkilegar, auk þess sem þær sýna eymdarstöðu slíkra manna og það þrek sem þurfti til að lifa í henni; þá sýna þær einnig það áræði, sem þrátt fyrir hættuna horfði ekki í að vera svo nærri mannabyggðum. „Karlmennskuhugurinn harði” lýsir sér á sinn hátt í hvoru tilfellinu sem er.”

Junkerar í Grindavík

Í Sundvörðuhrauni

Þorvaldur og Brynjólfur vilja ekkert fullyrða um það, hverjir hafi staðið að húsagerðinni í Grindavíkurhrauni, en rústirnar benda ótvírætt til þess, að einihvern tima í fyrndinni hafi menn hafzt þar við. Skammt frá sjálfum tóftunum sér móta fyrir aðhaldi og lítilli rétt, en hverjir áttu að smala á þessum slöðum? Ef einhverjir óbótamenn óbótamenn hafa búið þarna, er harla ólíklegt, að einhver sögn um þá hefði ekki varðveizt, og nú vill svo vel til, að meðal Grindvíkinga hefur varðveizt saga um „útilegumenn” á Reykjanessskaga. Brynjólfur frá Minna-Núpi skrásetur þessa sögu, og er hún prentuð í Huld, H. b., útg. 1892, bls. 58-60.

Járngerðarstaðahverfi

Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn -— tólf eða átján — hafzt við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavik, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé, og vindur standi af landi. En junkarar reru heldur aldrei nema þar sem vindur stóð af landi, og þá er svo var hvasst að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir í landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn því illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Og þó að að menn kæmist í gerði þeirra, þá er þeir voru ekki við, þorðu menn eigi að láta junkara sjá þess merki, þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmissa bragða til þess. Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en júnkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björguðust svo til lands. Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu, þá er í land skyldi róa, því að þá var mótvindi. Þá reru junkarar við hné sér til lands. Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu.

Tyrjabyrgi

Eitt “Tyrkjabyrgjanna”.

Nú reru junkarar, er vindur stóð af landi, en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig: Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi junkarar verið af dögum ráðnir.
Þessari sögu fylgir skýringarklausa frá Brynjólfi á Minna-Núpi: “Þessi munnmæli voru mér sögð í Grindavík 1861. En seinna hefur mér dottið í hug, að þessi sögn kunni að standa í sambandi við tóftarústir þær, er sjómenn frá Húsatóftum í Grindavík — einn af þeim var Guðmundur, bróðir minn — fundu veturinn 1872 norðan í Sundvörðuhrauninu, þar sem á stóru svæði er hvergi stingandi strá strá, og engin umferð af mönnum né skepnum, enda hafði þá enginn heyrt þeirra rústa getið áður. Þorvaldur Thoroddsen fann þær líka, er hann rannsakaði Rekjanesskagann, og áleit eins og hinir, að þar hefði verið mannahýbýli”.

Vafasamt junkaragerði
Junkaragerði ofan við Stóru-Bót í GrindavíkÞetta er eina sögnin, sem hægt er að tengja við tóftirnar í Sundvörðuhrauni, en hún hefur á sér ýmis einkenni góðrar þjóðsögu. Junkararnir eru 12 eða 18, en talan 18 er algeng í þjóðsögum um líkt efni. Í Grindavík lifði einnig saga um 15 þjófa í Þjófagjá í Þorbjarnarfelli en hún er farandsögn, sem ekkert á skylt við þessar rústir. Þrjár tilraunir eru gerðar til að ráða junkarana af dögum, og heppnast síðasta tilraunin, en slík efnisatriði eru einkenni allra góðra þjóðsagna.
Sannfræði þessarar sögu er því býsna vafasöm, en engu að síður standa rústirnar í Sundvörðuhrauni sem óbrotgjarnt vitni þess, að þar hafa menn verið að verki og sennilega dvalizt einhvern tima. Ef bófaflokkur hefur haft þar bækistöð sína ætti að finnast einhver urmull af beinum eða öðrum úrgangi þar í grendinni, en þess sér engin merki. Útilegumannadýrkendur benda þó rétti lega á, að tætturnar séu mjög gamlar, því að þær eru huldar þykku mosalagi. Fangamark útilegumanna getur því birzt einn góðan veðurdag undir mosalaginu.

Eldvörp

Eldvörp – eitt byrgjanna.

Það er eftirtektarvert við rústirnar, að byggingarlag þeirra bendir til þess, að það sé miðað við þá möguleika, sem hraunhellurnar í nágrenninu skópu byggingameisturunum. Stærstu hraunhellurnar eru um 90 sm. á lengd, en tætturnar eru frá því um 50 sm til 80 sm. á breidd nema ein. Hún er um 150 sm., þar sem hún er breiðust. Þar hefur þó verið hlaðinn milliveggur, svo að þakhellurnar hafa ekki þurft að vera nema um 80 sm. til þess að ná milli veggja, Ef hér er um mannabústaði að ræða, þá er enginn öfundsverður af því að hafa hafzt þarna við.  Mér er ókunnugt, að orðið junkari komi fyrir annars staðar í þjóðsögum. Orðið kemur inn inn í íslenzkuna á ofanverðum miðöldum og er þá oft skrifað jungkæri, og bæjarnafnið Junkaragerði er skrifað Junkæragerði í Jarðabók Árna Magnússonar. Orðið jungkæri var notað um yngissveina af tignum ættum, en hefur festst t. a. m. í Þýzkalandi við landeigendaaðalinn. Inn í íslenzkuna er orðið auðvitað komið úr þýzku eða dönsku, en Þjóðverjar höfðu miklar bækistöðvar á þessum slóðum á 16. öld. Það er dálítið kátbroslegt, að tignarheiti! einnar illræmdustu landeigendastéttar Evrópu skuli tengt við kot eitt suður í Höfnum og þjóðsögn um kvennagull, sem eiga að hafa búið á óbyggðum Reykjanesskaga.

Heimildir m.a.:
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Þjóðviljinn 3. september 1950, bls. 5 og 7.
-Rústirnar í Grindavíkurhrauni – Björn Þorsteinsson – Nýi Tíminn 28. september 1950, bls. 3 og 6.

Tyrkjabyrgi - uppdrattur

Eldvörp

Í riti Orkustofnunar skrifar Jón Jónsson, jarðfræðingur; “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort”. Þar lýsir hann m.a. Eldvarpahrauni (-hraunum):

Eldvörp

Eldvörp – loftmynd.

Eldvarpahraun er að því er virðist yngst hrauna á utanverðu Reykjanesi. Það skal þó tekið fram að Stampahraun yngra og Eldvarpahraun ná hvergi saman og verður því ekki séð hvort þeirra yngra er. Hitt ætla ég óhætt að fullyrða að þau hraun bæði séu au yngstu á utanverðu Reykjanesi, og að Eldvarpahraun sé ekki frá sögulegum tíma. Um gos á þessu svæði eru engar glöggar heimildir til, það ég veit, en þó er þessi getið í annálum að eldgos hafi oftar en einu sinni orðið á Reykjanesi og gæti eitthvað af því átt við t.d. Stampa. Austurendi gígaraðarinnar sjálfrar er nærri beint niður af Grindavík, en vesturendinn er suðvestur af Sandfellshæð. Þetta er sjálf gígaröðin en allmiklu neðar, þ.e. nær sjó, og vestar eru smágígir í röð örskammt frá og báðum megin við veginn milli Grindavíkur og Reykjanesvita. Ekki verður annað sé en þeir hafi gosið um leið og Eldey og tel ég þá til sama hrauns. Aðal gígaröðin er þá um 8.5 km á lengd, en bætist þessir litlu gígir við verður lengd gosstöðvarinnar ekki undir 10 km.

Eldvörp

Eldvörp – gígaröðin.

Gígaröðin er sundurslitin á nokkrum stöðum, sums staða alveg en annars staðar eru gígirnir, sem ávallt eru nokkrir saman, tengdir við næsta gígahóp með smágígum, sem lítið eða ekkert hraun hefur runnið frá. Það er því augljóst að hér sem víða annars staðar hefur eldvirknin fljótlega orðið bundin við vissa hluta gígaraðarinnar, en hún í heild verið virk aðeins á fyrsta stigi gossins. Það sýnist ljóst að hér hefur gosið á sprungubelti fremur en á einni sprungu enda vatnar mikið á að gosstöðin myndi eina samfellda línu.

Eldvörp

Eldvörp – Jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Hraunið frá Eldvörpum hefur runnið eingöngu til suðausturs eins og landinu hallar á þessu svæði. Vestast hefur það komist næst sjó skammt austan við Sandvík við Háleyjar. Einna líklegast sýnist að hraunið hafi numið staðar í lægð, sem þarna er og hafi aldrei náð til sjávar. Tangi úr Eldvarpahrauni hefur náð fast að Grænabergsgjá rétt norðan við, en þar austur af hefur það ekki náð eins langt fram. Myndast því allstórt vik í það ofan við Staðarhverfi (Tóttarkrókar).
Eldvarpahraun nær alveg austur að Arnarsetushrauni og er eldra en það og runnið fyrir 900.

Eldgos

Eldgos í Eldvörpum fyrrum.

Eldvarpahraun eldra hefur runnið yfir Sandfellshæðahraun og allt í sjó út milli Grindavíkur (Járngerðarstaða) og Húsatófta. Hraunið hefur runnið í breiðum straumi niður að sjó vestan við Grindavík. Það nær upp að Þorbjarnarfelli að vestan og vestur að Húsatóftum. Þetta hraun er í eðli sínu helluhraun, víða stórbrotið og líkt að úr dyngju væri. Í þessu hrauni er margar gjár og stórar austan við Húsatóftir og sýnir það að það hlýtur að vera talsvert gamalt.”

Rauðhóll í Eldvarpahrauni er hluti af eldri dyngjuhraunmyndunum á svæðinu. Í Eldvarpahrauni má finna fjölmargar mannvistaleifar. Sjá t.d. HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 129-131.

Eldvörp

Eldvörp – gígur.