Í riti Orkustofnunar skrifar Jón Jónsson, jarðfræðingur; “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort”. Þar lýsir hann m.a. Eldvarpahrauni (-hraunum):
“Eldvarpahraun er að því er virðist yngst hrauna á utanverðu Reykjanesi. Það skal þó tekið fram að Stampahraun yngra og Eldvarpahraun ná hvergi saman og verður því ekki séð hvort þeirra yngra er. Hitt ætla ég óhætt að fullyrða að þau hraun bæði séu au yngstu á utanverðu Reykjanesi, og að Eldvarpahraun sé ekki frá sögulegum tíma. Um gos á þessu svæði eru engar glöggar heimildir til, það ég veit, en þó er þessi getið í annálum að eldgos hafi oftar en einu sinni orðið á Reykjanesi og gæti eitthvað af því átt við t.d. Stampa. Austurendi gígaraðarinnar sjálfrar er nærri beint niður af Grindavík, en vesturendinn er suðvestur af Sandfellshæð. Þetta er sjálf gígaröðin en allmiklu neðar, þ.e. nær sjó, og vestar eru smágígir í röð örskammt frá og báðum megin við veginn milli Grindavíkur og Reykjanesvita. Ekki verður annað sé en þeir hafi gosið um leið og Eldey og tel ég þá til sama hrauns. Aðal gígaröðin er þá um 8.5 km á lengd, en bætist þessir litlu gígir við verður lengd gosstöðvarinnar ekki undir 10 km.
Gígaröðin er sundurslitin á nokkrum stöðum, sums staða alveg en annars staðar eru gígirnir, sem ávallt eru nokkrir saman, tengdir við næsta gígahóp með smágígum, sem lítið eða ekkert hraun hefur runnið frá. Það er því augljóst að hér sem víða annars staðar hefur eldvirknin fljótlega orðið bundin við vissa hluta gígaraðarinnar, en hún í heild verið virk aðeins á fyrsta stigi gossins. Það sýnist ljóst að hér hefur gosið á sprungubelti fremur en á einni sprungu enda vatnar mikið á að gosstöðin myndi eina samfellda línu.
Hraunið frá Eldvörpum hefur runnið eingöngu til suðausturs eins og landinu hallar á þessu svæði. Vestast hefur það komist næst sjó skammt austan við Sandvík við Háleyjar. Einna líklegast sýnist að hraunið hafi numið staðar í lægð, sem þarna er og hafi aldrei náð til sjávar. Tangi úr Eldvarpahrauni hefur náð fast að Grænabergsgjá rétt norðan við, en þar austur af hefur það ekki náð eins langt fram. Myndast því allstórt vik í það ofan við Staðarhverfi (Tóttarkrókar).
Eldvarpahraun nær alveg austur að Arnarsetushrauni og er eldra en það og runnið fyrir 900.
Eldvarpahraun eldra hefur runnið yfir Sandfellshæðahraun og allt í sjó út milli Grindavíkur (Járngerðarstaða) og Húsatófta. Hraunið hefur runnið í breiðum straumi niður að sjó vestan við Grindavík. Það nær upp að Þorbjarnarfelli að vestan og vestur að Húsatóftum. Þetta hraun er í eðli sínu helluhraun, víða stórbrotið og líkt að úr dyngju væri. Í þessu hrauni er margar gjár og stórar austan við Húsatóftir og sýnir það að það hlýtur að vera talsvert gamalt.”
Rauðhóll í Eldvarpahrauni er hluti af eldri dyngjuhraunmyndunum á svæðinu. Í Eldvarpahrauni má finna fjölmargar mannvistaleifar. Sjá t.d. HÉR.
Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 129-131.