Kålund

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

“Reykjanesskaginn hefur í raun og sannleika verið sem miðstöð hvers konar eldsumbrota, og þó að skaginn hafi þegar fyrir Íslands byggð verið sama útlits og eðlis sem nú, hafa þó jarðskjálfatr þráfaldlega skekið hann á sögulegum tíma, og hraunstraumar hafa runnið ofan á hina eldri frá næstum óteljandi gígum, sem opnast í fjallgörðum skagans, en þeir eru aðeins framhald af miklu meiri og víðlendari eldfjallabjálki sem liggur til landnorðurs inn í óbyggðir landsins. Slíkt hérað gat ekki verið mjög aðlaðandi fyrir fyrstu íbúana; “til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta”, segir Karli þræll Ingólfs, þegar húsbóndi hans að tilvísun öndvegissúlna nam alla Gullbringu – og Kjósarsýslu og nærliggjandi sveitir og settist að í Reykjavík, – og hvarf síðan á brott og ambátt með honum. –

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Í fornöld var landbúskapur eðlilegastur og hæfilegastur fyrir bónda, fiskveiði aftur móti í minna áliti, arðminni og einnig óvissari atvinnugrein. Fyrst eftir að ísland var komið undir yfirráð noskra konunga, hófst fiskverslun við útlönd, sem síðar varð svo mikilvæg (Maurer: Island 420-22, sbr. 412-14). Á fyrsta tímabili Íslandssögunnar var enn óþekkt þessi undirstaða framfærslu í fiskihéruðunum, sem gat í góðæri orðið til mikils framgangs efnuðum útgerðarbændum. Salan miðaðist þá við það sem landbændur keyptu; annars fiskuðu menn aðeins til eigin afnota, en hafa sennilega næstum alltaf stuðst svo og svo mikið við landbúnað. Einnig hefur það verið sjaldgæft að bændur færu sjálfir í verið niður við ströndina og tækju þar þátt í fiskveiðinni.

Selatangar

Selatangar – gömul verstöð á Reykjanesskaga.

Í þjóðveldislögunum, Grágás, er að vísu talað um “fiskiskála” á nokkrum stöðum og að fólk dvelst þar um veturinn til fiskveiða, og einnig nefna nokkra af sögunum “vermenn” (fólk sem dvelst um tíma í verstöðvum) og verstöðvar, þar sem margir komu saman, en ætla má að það hafi einkum verið lausamenn eða fólk frá fiskihéruðunum sjálfum, sem var að þessum störfum; má helst ætla það af athugunum á þessum málefnum eða þögn sagnanna um þau, en aftur á móti oftsinnis minnst á skreiðarkaup af útvegsbændum. Af þessu leiðir, að líklegt er, að ástand í Gullbringusýslu hafi í fornöld verið með allt öðrum hætti en nú. Nú er sýsla þessi ein hin mannflesta í landinu; er þar að vísu mikil fátækt, en einnig allmargir efnamenn á íslenska vísu. Á hverjum vetri eða raunar allt árið að undateknum sumarmánuðunum þremur sækir þangað fjöldi fólks, því að næstum hver bóndi frá Skafafellssýslu til Skagafjarðar kemur annaðhvort sjálfur eða sendir vinnumann til fiskveiða eina eða fleiri “vertíðir”. Þangað koma menn þúsundum saman, og búa þeir í bæjunum í hinum mestu þrengslum eða í verbúðum sem til þess eru útbúnar, og við illar aðstæður menningar gæti þetta orðið tilefni hinna margvíslegustu atburða. Þetta hefði tæplega þekkst í fornöld, án þess að um það hefði verið talað í sögunum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum, fyrrum selstöð Grindvíkinga.

Fyrir austan Reykjanes er byggðarlagið Grindavík á suðurströnd skagans (Harðar s. 15, Gunnl. s.61). Byggðin liggur einnig hér meðfram sjónum, og er landsvipur hinn sami og fyrr hefur verið lýst. Uppi í landinu er hrjóstugt hraun, en ofar eru ýmsar hæðir og smáfjöll, sum nokkuð grasi gróin, en flest aðeins mosavaxin, jafnvel ekki einu sinni það, svört og nakin. Hraunið getur með nokkrum hætti kallast framhald af Almenningum, en gróðurminna og yngra. Þessi eru einkenni landsins, allt út til strandar, allt heim að túnum bæjanna er ekki annað að sjá en sand, blásnar heiðar og svart brunnið hraun. Byggðarlagið skortir mjög beitiland, bæði kýr og sauðfé, bæði málnytu- og geldpening verður að reka þegar á vorin frá bæjunum og til sameiginlegra selja upp undir fjöllunum; vegna þess að þarna er ekki sameiginlegt beitarland (afréttur) verða menn þar enn – eins og nokkrum öðrum svipuðum stöðum á Íslandi – að láta lömbin ganga undir ánum kefld, þ.e. með tréprjón, bundinn með bandi sem er krosslagt yfir höfuðið, liggur sem kjaftamél í munninum, svo þau geti ekki sogið. Einnig verður að reka hestana langt burtu frá bænum í hvert skipti sem þeir hafa verið notaðir. Þar er og mikil vatnsskortur. Víðast verður að notast við hálfsalt vatn úr pollum nálægt ströndinni eða úr sprungum í hrauninu, þar sem sjór fellur út og inn við hvert flóð og fjöru.”

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 17-28.

Kålund

Íslandskort Kålunds.