Húshólmi

Hér er fjallað svolítið um landnám hér á landi. Taka verður þó skrifin með hæfilegum fyrirvara því sérfræðikunnáttu er ekki nægilega vel fyrir að fara.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Elsta ritaða heimild um sögu Íslands er að öllum líkindum frásögn gríska landkönnuðarins Pýþeasar frá því um 300 fyrir Krist. Þar segir frá eyju í norðri er hann nefndi Thule. Lýsingar hans minna á Ísland. Hann heldur því fram að eyjan hafi þá verið fullbyggð fólki.
Írski menntamaðurinn Dicuil kappkostaði að skrifa um eyjuna Thule í landfræðiriti sínu Liber de Mensura Orbis Tarrae (Bók um mælingu jarðkringlunnar). Í því riti, sem talið er vera skráð um 825 e. Kr. fjallar hann um írska einsetumunka, sem flust hafa búferlum til eyjarinnar Thule þrjátíu árum áður eða undir lok 8. aldra. Rit hans hefur verið ein áreiðanlegasta heimildin um Ísland.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Af skrifum Dicuil má einnig ráða að umræddir einsetumenn, papar, hafi ekki fundið landið fyrstir manna. Þvert á móti virðist sem vitneskjan um tilvist landsins hafi verið löngu þekkt og Írar hafi byrjað að sigla hingað mun fyrr. M.a. segir frá ferðum hins írska Brendans um 600 e.Kr. til Íslands og hvernig hann hitti einsetumanninn Pól (Paul). Hann nefndi eyjuna Ísan upp á gelísku. Einnig eru til heimildir um ferðir Rómverja til norðurhafseyja. Á síðustu öld fundust í fornleifauppgröftum á nokkrum stöðum hér á landi rómverskir peningar frá þeim tíma. Þeir gætu þó hafa borist hingað til lands allnokkru eftir útgáfudag.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Bát Náttfara og ambáttar slitnaði frá skipi á ferð með landinu um miðja 9. öld. Bátinn rak að landi og hefur Náttfari lítið getað gert annað en að setjast hér að.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Elstu íslensku heimildina um veru papa hér á landi er að finna í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, en þá merku bók ritaði hann á árunum 1122-1133 e.Kr. Þar segir svo frá: “Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðar á braut, af því þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig bækur írskar og bjöllur og bagla; af því mátti skilja að þeir voru írskir”. Ari ritaði bók sína 250 árum eftir komu norrænna manna og studdist því einungis við munnmælasögur. Þá var bók hans fyrst og fremst ætluð sem nokkurs konar “jarðarbók” með ekki síst það hlutverk að festa í sessi ráðandi ættir þess tíma með hliðsjón af þáverandi skipulagi Alþingis.
Þótt fáar skýrar fornminjar hafi fundist um veru papa hér á Íslandi þá er óneitanlega gnægð af örnefnum með tilvísunum í einsetumunkanna. Nægir þar að nefna Papey á Austfjörðum, Papýli fyrir austan, Papafjörð í Lóni og talið er að Apavatn hafi upphaflega heitið Papavatn. Í fornum heimildum er þess einnig getið að á Kirkjubæ hafi papar búið áður en Ketill hinn fíflski, landnámsmaður, reisti þar bú. Þeirra er ekki getið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Mörgum hefur fundist skrýtið hversu bústofn norrænna landsnámsmanna óx ört skömmu eftir landnám þeirra þrátt fyrir tiltölulega fáar ferðir og fáar skepnur í hverri ferð. Til eru nokkrar tilvitnanir í Íslendingasögur þess efnis, s.s. sagan af Hafur-Birni og einnig landnámsmönnum í Hvalfirði. Talið er að Hjaltland hafi verið byggðar Keltum áður en norrænir menn tóku þær yfir, yfirtóku bústofninn og flæmdu eyjaskeggja á braut. Sama á við um Færeyjar. Ekki er ólíklegt að draga megi sömu ályktun um Ísland, enda stutt á milli eyjanna.
Þrátt fyrir að fornleifafræðingar telji að engar minjar sem fundist hafa hingað til sanni að papar hafi siglt hingað, hafa fundist þrjár litlar bronsbjöllur í heiðnum kumlum sem freistandi er að eigna írskum einsetumunkum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þá nefnir Ari fróði bagla papanna, en baglar þessir hafa að öllum líkindum verið einfaldir göngustafir förumunka en ekki skreyttir biskupsstafir þótt bagall merki það nú. Loks hafa fundist krossristur í hellum víðs vegar um landið en ómögulegt er að tímaseta þær. Nú er unnið að rannsókn nokkurra þeirra á Rangárvöllum með hliðsjón af svipuðum hellaristum Kelta. Ef papar létu sér ekki nægja einfalda hellisskúta sem híbýli er mjög líklegt að skýli þeirra hafi verið einföld og látlaus. Þess háttar bústaði er því miður mjög erfitt að greina með fornleifarannsóknum. Þá er og líklegt að þeir, sem á eftir komu, hafi nýtt sér híbýli þeirra, sem fyrir voru, auk þess sem mjög líklegt er að sama grjótið hafi verið notað aftur og aftur í hleðslur nýrri eða endurnýjaðra húsa.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Einnig ber á það að líta að lítið sem ekkert hefur verið gert að því að leita skipulega að fornminjum hér á landi, hvað þá fornminjum sem lítil tiltrú er á að hafi verið til staðar. Nógu erfitt er að greina hús frá því á 17. öld, eða fyrir 300 árum, hvað þá látlausa bústaði frá því 1200 árum fyrr.
Ef fyrstu víkingarnir sem hingað komu hafi hitt fyrir kristna og friðsama Íra má telja víst að heiðingjar hafi haldið uppteknum hætti í samskiptum sínum við þá; rænt og ruplað, hneppt í þrældóm líkt og Tyrkir síðar eða hrakið þá af landi brott. Það sætir því ekki furðu að hinn prestlærði Ari hafi reynt að skrifa sem minnst um papana.
Hús, sem hafa verið endurbyggð og enn standa, t.d. í Landssveit, hafa óyggjandi keltneskt toppbyggingalag. Fornar garðhleðslur eru líkar því sem þekktust á Írlandi.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Hringlaga hlaðnar fjárborgir hafa sama handbragð og þekktust á Írlandi. Má þar t.d. nefna fjárborgina í Óbrennishólma í Krýsuvík sem og garðhleðslur, grafreit og skála í Húshólma. Í dag má enn sjá móta fyrir u.þ.b. 70 fjárborgum á Reykjanesi einu, misjafnlega gömlum. Munir, sem fundist hafa í fornum gröfum, s.s. á Hafurbjarnastöðum í Garði, útiloka ekki að þar hafi fólk af keltneskum uppruna verið greftrað.
Fornar þjóðleiðir á hraunleiðum eru furðu mikið niðurgrafnar. Hraun runnu að hluta til yfir þær skömmu eftir norrænt landnám. Fleira mætt nefna. Það ætti því enginn að afskrifa alveg tilvist eldri forfeðra Íslendinga en þeirra er segir af norrænum mönnum í Landnámabók, enda benda blóðrannsóknir m.a. til þess að Íslendingar megi alveg eins rekja ættir sínar til Írlands en til Skandinavíu. Hins vegar er ljóst að fyrsti skráði landnámsmaðurinn hér á landi var norrænn.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.