Færslur

Landnám

Hér verður áfram fjallað um landnám Íslands. Taka verður umfjöllunina með öllum þeim fyrirvörum, sem þegar hafa verið gerðir um landnám norrænna manna hér á landi, bæði fyrr og síðar.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Englar og Saxar höfðu hernumið Bretlandseyjar um 600 e.Kr. Samkvæmt Ulsterannálum hefjast ránsferðir víkinga til Bretlandseyja laust fyrir 800 e.Kr. Um 30% þeirra, sem námu land á Íslandi eftir 870, komu frá Bretlandi eða Suðureyjum ef taka á mið af Landnámu. Þórður skeggi, Helgi Bjóla og Örlygur gamli voru t.d. búsettir á Suðureyjum áður en þeir tóku sig upp ásamt “þrælum” og fluttust til Íslands. Helgi magri, sem nam Eyjafjörð, var gauskur, en hann var fæddur og uppaldinn á Bretlandseyjum og átti írska móður. Auður djúpúðga og fylgdarlið hennar kom frá Katanesi í Skotlandi.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Fundur Íslands hefur ekki verið sú tilviljun, sem margir vilja halda. Íbúar á norðvesturjöðrum Bretlands hafa eflaust mjög snemma séð ótvíræðar bendingar á náttúrunni um tilveru mikilla eyja og landa norðar og norðvestur í hafi. Sambúð víkinga og Kelta um nokkurt skeið fyrir landnám virðist einnig varpa ljósi á sumt í landnáms- og siglingasögunni. Víkingar stunduðu ekki eiginlegar úthafssiglingar, en á því vandasama sviði sóttu þeir þekkingu til Kelta.
Löngu á undan manninum námu fuglar hér land. Frá Skotlandi finnur fuglinn auðveldlega Orkneyjar og Hjaltland og einnig Færeyjar, Ísland og Grænland. Flestir farfuglanna koma frá Norður-Írlandi. Þar bjuggu Keltar löngu fyrir landnám Íslands. Vor- og haustferðir farfuglanna hafa varla farið framhjá Keltum.

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Á öldunum fyrir Víkingaöld voru Írar ein mesta lærdómsþjóð Evrópu. Þeir höfðu tekið kristni á 5. öld, en einangrast svo er hinir heiðnu Englar og Saxar lögðu undir sig England í kringum 600 e. Kr. Á 7. og 8. og 9. öld gerðust írskir og skoskir munkar miklir trúboðar og kennarar í Evrópu, bæði í Englandi, Þýskalandi og Frakklandi. Þeir hafa eflaust gert sér einhverjar hugmyndir um landið eða löndin, sem fuglarnir og ungar þeirra áttu endurkomu frá á haustin.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa/Kelta, á Suðurlandi?

Veigamikil rök hníga að því að Írar hafi stundað landaleitir í norðvestri eftir daga Pýþeasar (þ.e. 300 f. Kr.) og gætu því vel hafa fundið Færeyjar og Ísland snemma á öldum. Skiljanlegt er þó að rústir eftir byggð þeirra eða annarra frumherja finnist hér engar, nema ef vera skyldu manngerðir hellar á Suðurlandi. Í sífelldum skorti á hleðsluefni rifu Íslendingar jafnan niður hverja rúst, sem nærtæk var og notuðu efnið í nýrri hús – aftur og aftur.

Keltar

Keltar – landvættir.

Til er skrifleg íslensk heimild um veru írskra trúmanna hér á landi, eftir að norrænir menn setjast hér að. Þá höfðu forfeður okkar umstaflað búðatóttum Íra og tínt allt, sem þar kann að hafa verið að finna. Ekki er að efa að Írar voru í Færeyjum fyrir norræna byggð þar. Heimildir um fund Íslands ganga einnig miklu lengra til baka. Landnáma hefst á á tilvitunun í Beda prest um eyland eitt, kallað Týli, sem á bókum sé talið 6 dægra signing norður frá Bretlandseyjum og einnig eftir lýsingu á sólargangi gæti vel átt við Ísland.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Rit Beda prests, sem í er vitnað, er samið 703 eða 725. Þetta Týli eð Thulenafn gengur einnig í gegnum rit allt frá tímum Grikkja. Pýþeas siglir frá grísku nýlendunni Massalíu (nú Marseilles) um 300 f. Kr. til Bretlands og þaðan norður í Týli, sem gæti eftir lýsingunni að sumu leyti átt við Ísland.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Hrafna-Flóki tók með sér hrafna til að vísa sér veginn að landi. Með í för með honum var suðureyskur maður. Gæti það hafa verið tilviljun? Og varla fer Ingólfur út í óvissuna í leit að óþekktu landi, einkum ef hafðar eru í huga fyrri hrakningasögur Garðars og Naddoðs á og við landið. Ingólfur er sagður hafa haft með sér “þræla”, sem voru í raun Keltar. Var það vegna þess að þeir þekktu leiðina?
Þeir Ingólfur og Hjörleifur fóru fyrst til Íslands til að kanna nánar búsetumöguleika, sem talsverðar sögur gengu þá þegar af. Þeir létu sér nægja að hafast við í Álftafirði einn vetur. Staðsetningin er athyglisverð. Hann liggur á milli Papeyjar að norðan og Papafjarðar og Papóss að sunnan, eða í miðri papabyggð, að því er virðist.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Voru þeir svona hittnir, bráðókunnugir, á leiðina yfir úthafið mikla, að geta siglt beint á miðja papabyggðina, eða höfðu þeir ekki öllu heldur með sér Vestmenn eða mann, sem þekkti leiðina og hafði átt vinsamleg samskipti við Papana og talaði mál þeirra. Völdu þeir ekki einmitt þennan stað til þess að geta haft samskipti við þá menn, sem mest vissu um landið? Og hvað gat verið sjálfsagðara fyrir þá en að vingast við Papana, úr því að þeir höfðu í huga að setjast fáliðaðir að í sama landinu og slá eign sinni á nokkurn hluta þess.

Víkingar og Keltar höfðu lifað í friði saman í 1-3 kynslóðir þegar norrænir menn tóku að nema Ísland. Þegar til landnámsins kemur hafa Keltar haldið uppi siglingum hingað í allt að því öld og ef til vill lengur. Hvað er þá sjálfsagðara fyrir nýliðana að færa sér reynslu hinna í nyt, ráða sér vana menn á skip, þegar sigla á með sína nánustu út á úthafið stóra. Ingólfur hefur varla einungis treyst á mjaltakonur og sauðamenn til þeirra verka.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Í reynsluferð þeirra Ingólfs um Álftafjörð ætti þeim félögum að hafa orðið ljóst að friðsamleg viðskipti við margfalt fjölmennari Íra voru þeim sjálfum fyrir bestu, ef þeir ætluðu á annað borð að setjast að í landinu. Hitt er annað mál, að þegar norrænum mönnum fjölgaði í landinu, hafa þeir sjálfsagt þrengt að byggð papanna, sem kusu þá heldur að hverfa á brott eða hætta ferðum hingað. Hliðstætt upphaf og þróun er margþekkt í samskiptum landnema víða um heim. Ekki þarf að fara lengra en til Norður-Ameríku (nærtækt dæmi) þegar hvíti maðurinn ásældist lönd indíána – fyrst vinsamleg viðskipti, en síðan rán og dráp.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Ingólfur valdi þann kost að setjast að vestan við svæði Íranna svo minni hætta væri á árekstrum. Suðausturhorn landsins lá best við landnáminu, en Ingólfur ákvað einnig að sníða hjá landnámi í Vestmannaeyjum, einu raunverulegu höfninni fyrir allri Suðurströndinni, ákjósalegum stað til fisk- og fuglaveiða og búskap fyrir allmarga bændur. Ástæðan gæti verið sú að Írar hafi þegar verið þar fyrir, enda byggðust eyjarnar seint af norrænum mönnum að sögn Landnámu. Írar voru jafnan nefndir Vestmenn og er það ekki ólíklegri ástæða til nafngiftar eyjanna en síðar saga um þræla Ingólfs, sem nefndir eru Vestmenn í landnámu. Þeir gætu hafa verið að flýja á náðir samlanda sinna, sem þar voru fyrir, eftir drápið á Hjörleifi. Á Suðurlandi eru líka víða manngerðir móbergshellar. Margir þeirra eru taldir hafa verið gerðir af Keltum, sbr. hellana á Hellum og í Landssveit.

Landnám

Landnám Íslands.

Ingólfur settist að í Reykjavík. Öll skynsemi mælir með því miðað við þáverandi aðstæður. Sagan um öndvegissúlurnar er jafn ólíkeg og margt annað. Við komu Ingólfs hafa fjörur og firðir verið þaktir rekaviði líkt og nú á Ian Mayen og því ógjörningur að finna tvo drumba þar innan um á allri slíkri leið. Hefur einhver reynt að ganga fjörur Suðvesturlands og líta í allar víkur og vik á þeirri leið? Og það með þeirra tíma skótau á fótum. Hins vegar má ætla að strandir Reykjanesskagans hafi litið örðuvísi út í þá daga og líklegt má telja að víðast hvar hafi verið greiðfærara, en á öðrum stöðum erfiðara yfirferðar, s.s. undir björgunum er nú liggja ofar í landinu. Hraun á sögulegum tíma hafa ummyndað landið og breytt útlínum þess og aðstæðum allnokkuð frá því sem þá var.
Búpeningur landnámsmanna óx með ólíkindum á fyrstu árum landnámsins. Tölulegar staðreyndir draga í efa möguleika á slíkum flutningum hingað til lands með þeirra tíma skipabúnaði.

Landnám

Siglingar forfeðra vorra.

Aðdragandi að norrænu landnámi hér á landi er sagnakennd og sögnin af fyrsta landnámsmanninum virðist vera arfsögn.
Með fullri virðingu fyrir fornleifafræðingum og öðrum er mikilvægt að benda á að þeir verða a.m.k. að gera tvennt til að leiða hið sennilega í ljós; þ.e. a) að gefa sér tíma til að leita og b) halda áfram að leita (grafa dýpra) þegar eitthvað finnst. Hætta er á að fræðingarnir hafi um of viðurkennda lýsingu af landnáminu til hliðsjónar þegar þeir skoða í jörð – og láta þar við setja. Ekki hætta – leitið lengur og grafið dýpra. Þessu fólki til stuðnings (því það þarf ekki bara skilning, heldur og bæði tíma og fjármuni) er því hér með komið á framfæri við löggjafarvaldið að verja nú fjármunum (umfram þá, sem þegar eru veittir úr Kristnitökusjóði) til rannsókna á “venjulegum” minjum, ekki síst á afskiptasta svæði landsins hingað til – Reykjanesinu. Staðreyndin er nefnilega sú að allar minjar eru jafnmerkilegar. Þær, hver og ein, eru handritin, sem skrifuð voru með hinu daglega striti dugandi fólks.

Sjá meira um Landnám – aldur. Einnig Landnám II.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Húshólmi

Hér er fjallað svolítið um landnám hér á landi. Taka verður þó skrifin með hæfilegum fyrirvara því sérfræðikunnáttu er ekki nægilega vel fyrir að fara.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Elsta ritaða heimild um sögu Íslands er að öllum líkindum frásögn gríska landkönnuðarins Pýþeasar frá því um 300 fyrir Krist. Þar segir frá eyju í norðri er hann nefndi Thule. Lýsingar hans minna á Ísland. Hann heldur því fram að eyjan hafi þá verið fullbyggð fólki.
Írski menntamaðurinn Dicuil kappkostaði að skrifa um eyjuna Thule í landfræðiriti sínu Liber de Mensura Orbis Tarrae (Bók um mælingu jarðkringlunnar). Í því riti, sem talið er vera skráð um 825 e. Kr. fjallar hann um írska einsetumunka, sem flust hafa búferlum til eyjarinnar Thule þrjátíu árum áður eða undir lok 8. aldra. Rit hans hefur verið ein áreiðanlegasta heimildin um Ísland.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Af skrifum Dicuil má einnig ráða að umræddir einsetumenn, papar, hafi ekki fundið landið fyrstir manna. Þvert á móti virðist sem vitneskjan um tilvist landsins hafi verið löngu þekkt og Írar hafi byrjað að sigla hingað mun fyrr. M.a. segir frá ferðum hins írska Brendans um 600 e.Kr. til Íslands og hvernig hann hitti einsetumanninn Pól (Paul). Hann nefndi eyjuna Ísan upp á gelísku. Einnig eru til heimildir um ferðir Rómverja til norðurhafseyja. Á síðustu öld fundust í fornleifauppgröftum á nokkrum stöðum hér á landi rómverskir peningar frá þeim tíma. Þeir gætu þó hafa borist hingað til lands allnokkru eftir útgáfudag.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Bát Náttfara og ambáttar slitnaði frá skipi á ferð með landinu um miðja 9. öld. Bátinn rak að landi og hefur Náttfari lítið getað gert annað en að setjast hér að.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Elstu íslensku heimildina um veru papa hér á landi er að finna í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, en þá merku bók ritaði hann á árunum 1122-1133 e.Kr. Þar segir svo frá: “Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðar á braut, af því þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig bækur írskar og bjöllur og bagla; af því mátti skilja að þeir voru írskir”. Ari ritaði bók sína 250 árum eftir komu norrænna manna og studdist því einungis við munnmælasögur. Þá var bók hans fyrst og fremst ætluð sem nokkurs konar “jarðarbók” með ekki síst það hlutverk að festa í sessi ráðandi ættir þess tíma með hliðsjón af þáverandi skipulagi Alþingis.
Þótt fáar skýrar fornminjar hafi fundist um veru papa hér á Íslandi þá er óneitanlega gnægð af örnefnum með tilvísunum í einsetumunkanna. Nægir þar að nefna Papey á Austfjörðum, Papýli fyrir austan, Papafjörð í Lóni og talið er að Apavatn hafi upphaflega heitið Papavatn. Í fornum heimildum er þess einnig getið að á Kirkjubæ hafi papar búið áður en Ketill hinn fíflski, landnámsmaður, reisti þar bú. Þeirra er ekki getið eftir að norrænt landnám hófst hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Mörgum hefur fundist skrýtið hversu bústofn norrænna landsnámsmanna óx ört skömmu eftir landnám þeirra þrátt fyrir tiltölulega fáar ferðir og fáar skepnur í hverri ferð. Til eru nokkrar tilvitnanir í Íslendingasögur þess efnis, s.s. sagan af Hafur-Birni og einnig landnámsmönnum í Hvalfirði. Talið er að Hjaltland hafi verið byggðar Keltum áður en norrænir menn tóku þær yfir, yfirtóku bústofninn og flæmdu eyjaskeggja á braut. Sama á við um Færeyjar. Ekki er ólíklegt að draga megi sömu ályktun um Ísland, enda stutt á milli eyjanna.
Þrátt fyrir að fornleifafræðingar telji að engar minjar sem fundist hafa hingað til sanni að papar hafi siglt hingað, hafa fundist þrjár litlar bronsbjöllur í heiðnum kumlum sem freistandi er að eigna írskum einsetumunkum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þá nefnir Ari fróði bagla papanna, en baglar þessir hafa að öllum líkindum verið einfaldir göngustafir förumunka en ekki skreyttir biskupsstafir þótt bagall merki það nú. Loks hafa fundist krossristur í hellum víðs vegar um landið en ómögulegt er að tímaseta þær. Nú er unnið að rannsókn nokkurra þeirra á Rangárvöllum með hliðsjón af svipuðum hellaristum Kelta. Ef papar létu sér ekki nægja einfalda hellisskúta sem híbýli er mjög líklegt að skýli þeirra hafi verið einföld og látlaus. Þess háttar bústaði er því miður mjög erfitt að greina með fornleifarannsóknum. Þá er og líklegt að þeir, sem á eftir komu, hafi nýtt sér híbýli þeirra, sem fyrir voru, auk þess sem mjög líklegt er að sama grjótið hafi verið notað aftur og aftur í hleðslur nýrri eða endurnýjaðra húsa.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Einnig ber á það að líta að lítið sem ekkert hefur verið gert að því að leita skipulega að fornminjum hér á landi, hvað þá fornminjum sem lítil tiltrú er á að hafi verið til staðar. Nógu erfitt er að greina hús frá því á 17. öld, eða fyrir 300 árum, hvað þá látlausa bústaði frá því 1200 árum fyrr.
Ef fyrstu víkingarnir sem hingað komu hafi hitt fyrir kristna og friðsama Íra má telja víst að heiðingjar hafi haldið uppteknum hætti í samskiptum sínum við þá; rænt og ruplað, hneppt í þrældóm líkt og Tyrkir síðar eða hrakið þá af landi brott. Það sætir því ekki furðu að hinn prestlærði Ari hafi reynt að skrifa sem minnst um papana.
Hús, sem hafa verið endurbyggð og enn standa, t.d. í Landssveit, hafa óyggjandi keltneskt toppbyggingalag. Fornar garðhleðslur eru líkar því sem þekktust á Írlandi.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Hringlaga hlaðnar fjárborgir hafa sama handbragð og þekktust á Írlandi. Má þar t.d. nefna fjárborgina í Óbrennishólma í Krýsuvík sem og garðhleðslur, grafreit og skála í Húshólma. Í dag má enn sjá móta fyrir u.þ.b. 70 fjárborgum á Reykjanesi einu, misjafnlega gömlum. Munir, sem fundist hafa í fornum gröfum, s.s. á Hafurbjarnastöðum í Garði, útiloka ekki að þar hafi fólk af keltneskum uppruna verið greftrað.
Fornar þjóðleiðir á hraunleiðum eru furðu mikið niðurgrafnar. Hraun runnu að hluta til yfir þær skömmu eftir norrænt landnám. Fleira mætt nefna. Það ætti því enginn að afskrifa alveg tilvist eldri forfeðra Íslendinga en þeirra er segir af norrænum mönnum í Landnámabók, enda benda blóðrannsóknir m.a. til þess að Íslendingar megi alveg eins rekja ættir sínar til Írlands en til Skandinavíu. Hins vegar er ljóst að fyrsti skráði landnámsmaðurinn hér á landi var norrænn.

-ÓSÁ tók saman.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.