Nokkuð hefur verið skifað um áætlað landnám hér á landi, hvort sem um er að ræða út frá rituðum heimildum eða nærtækari vísindaaðferðum, s.s. gjóskulagarannsóknum eða geislakolsgreiningum. Páll Theódórsson, Vilhálmur Örn Vilhjálmsson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, Karl Grönvold og Ingrid Olson hafa m.a. fjallað um þetta viðfangefni út frá viðkomandi fræðigreinum.
Árný lýsir aldursgreiningum með geislakoli, nálgunum og leiðréttingum, s.s. trjáaldursgreiningu, sjávar- og samsætuleiðréttingum. Sjávarleiðréttingin lýtur t.a.m. að leiðréttingum upp á ein 400 ár. Aðferðin sjálf er tiltölulega einföld, en margs ber að varast, hvort sem er við öflun sýna og meðferð þeirra. Þá ber að hafa margt í huga er leitt getur til skekkjumarka. Hér verður aðferðinni ekki lýst enda auðvelt að nálgast gögn um hana í neðangreindum heimildum.
Páll segir í grein sinni að “þótt grundvallaratriði aðferðarinnar séu einföld er af sögulegum ástæðum nær ávallt farin nokkuð flókin leið til að útskýra hvernig aldur sýnir er fundinn af geislavirkni kolefnisins.” Vísindin sem slík eru ekki markmið fornleifafræðinnar heldur menningarsagan. En varpa má ljósi á söguna með aðstoð vísindanna.
Öll lífræn efni taka til sín kolefni úr andrúmsloftinu. Þegar þau deyja byrjar kolefnið að dvína. Helmingunartími þess er um 5700 ár. Þannig er hægt með varfærni og ákveðnum aðferðum að mæla áætlaðan aldur lífvera s.l. 200 til 50.000 ár og jafnvel lengur. Þótt hægt sé að greina aldur allra lífvera er öruggast að aldursgreina bein af húsdýrum og mönnum.
Tvö öskulög hafa einkum verið notuð í fornleifarannsóknum, svokallað landnámslag, sem samkvæmt C14 greiningum er talið vera frá um 890, og öskulagið H-1 eða H-1104 úr gosi í Heklu. Rannsóknir á borkjörnum í Grænlandsjökli gefa gos til kynna á þeim tíma, en einnig árið 871 (sem virðist vera hið eiginlega landnámslag). Ef það er rétt gæti þar verið komin skýringin á öskulaginu yfir mannvirkjum í Húshólma í Ögmundarhrauni, sem haf skv. því verið reist um og eftir 871.
Páll telur að “vísbendingin um landnám snemma á áttundu öld sé orðin svo sterk að íslenskir fræðimenn komist ekki hjá því að taka hana alvarlega.” Tekur hann m.a. mið af uppgötvunum á aldri landnámslagsins að tilstuðlan gjóskulagafræðinnar, árhringjagreiningar, geislakolsgreiningar og frjókornarannsókna.
Ingrid Olson segir að “út fá þeirri þekkingu sem við búum við nú á dögum er mögulegt að álykta að hin hefðbundna tímasetning á landnáminu sé rétt, en líklegra er þó að upphaf landnámsins sé eldra.” Sýni, sem tekin voru við uppgröft í miðbæ Reykjavíkur og í Vestmannaeyjum, bentu við geislakolsmælingu til þess að væru eldri en sögulegar heimildir um landnám gefa til kynna.
Þannig virtist landnámslagið vera yfir mannvistarleifum á þessum stöðum er aftur gæfu til kynna að landnám hafi veirð hafið hér á landi nokkuð fyrir árið 870, eða nokkru áður en “hið skráða” landnám gefur til kynna. Spurningin er bara “hversu löngu” áður? “Landnámið greinist yfirleitt eldra en söguleg hefð (874) segir til um. Ef horft er á stöðuna ein og hún lítur út í ljósi þeirrar þekkingar sem við búum yfir í dag um C14 aldurgreiningar, getur landnám mjög líklega hafa hafist einhvern tímann frá lokum 8. aldar og fram til loka 9. aldar. Nákvæmari tímasetning út frá C14 aldurgreiningum er ekki möguleg miðað við núverandi aðstæður.”
Karl Grönvold segir að “eldgossins, sem myndaði landnámslagið er hvergi getið í heimildum og því hefur nokkuð verið litið til geislakolsgreininga. Landnámslagið er auðþekkt öskulag sem fallið hefur rétt um landnám en er hvergi getið í heimildum og kemur geislakol þar nokkuð við sögu. En enginn vafi er hins vegar á því hvar lagið liggur í hinum afstæða öskulagatímaskala. Sigurður Þórarinsson fann þetta öskulag fyrst við rannsóknir sínar í Þjórsárdal en á Suðrvesturlandi er það tiltölulega auðþekkjanlegt vegna þess að það er tvílitt, hvítt og svart (dökktvígrænleitt), og kallaði Sigurður það upphaflega VII a og b. Í Grænlandsísnum reyndust vera vera tveir greinilegir leiðnitoppar, annar við 871 og hinn við 898. Það var hins vegar aldrei haldið fram sem vissa að annar þeirra ætti við landnámslagið heldur bent á það sem möguleika.”
Vilhjálmur segir að “allmargar niðurstöður, sem fengist hafa við kolefnisaldursgreiningar á sýnum á Íslandi benda til þess að landnám hafi hafist fyrr en hingað til hefur verið haldið.” og jafnframt að “löngu áður en niðurstöður sumra kolefnisaldursgreininga gátu bent til landnáms fyrir þann tíma, sem ritaðar heimildir segja til um, höfðu verið settar fram kenningar um fasta búsetu fyrir tíma hefðbundins landnáms. Hingað til hafa ekki fundist neinar fornminjar við rannsóknir eða á söfnum, sem geta bent til keltneskrar eða norrænar búsetu, miklu ledri en frá þeim tíma sem ritaðar heimildir segja til um. Fornleifarannsóknir, fornminjar og aldursgreiningar á Íslandi geta þó á núverandi stigi bent til eldra landnáms á Íslandi en hins norræna í lok 9 aldar.”
Af framangreindu má sjá að með frekari rannsóknum má vænta óvæntra tíðinda er varpað geta með meiri nákvæmni en áður á landnám hér á landi.
Í ljósi alls þessa skýrist sú varfærni þegar komist er að orði í eftirfarandi kynningu um fornleifarnar í Aðalstræti í miðborg Reykjavíkur: “Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.” Hér er ekkert minnst á “hið fyrsta landnám” í Reykjavík, enda óljóst að svo hafi verið ef tekið er mið af vísindalegum niðurstöðum.
Svo virðist sem nefndur Ingólfur, sem hampað hefur verið sem “hinum fyrsta landnámsmanni” og settist að í Reykjavík, hafi komið á eftir ýmsum öðrum, sem hér höfðu dvalið um allnokkurt skeið, enda virðist það bæði staðfest af ýmsum örnefnum sem og þeim minjum, sem einn á eftir að skoða, ekki síst á Reykjanesskaganum og á sunnanverðum Austfjörðum. Alla jafna hafa fornleifar verið rannskaðar á stöðum með sögulegar skírskotanir. Ef horft yrði framhjá skráðum heimildum og einungis tekið mið af þeim minjum, sem vitað er um og þekktar eru af staðkunnugum um land allt, er ekki ólíklegt að ýmislegt gæti komið þar fram er varpað gæti ljósi á upphafið og tilurð þess – með aðstöð vísindalegra möguleika.
Heimildir:
-Páll Theódórsson. 1997. Aldur landnáms og geislakolsgreiningar. Skírnir, 171. 92-109.
-Páll Theódórsson. 1992. Aldursgreining með geislakoli. Takmarkanir og möguleikar. Árbók hins íslenska fornleifafélags. 59-75.
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. 1990. Kolefnisaldursgreiningar og íslensk fornleifafræði. Árbók fornleifafélagsins. 35-70.
-Árný Erla Sveinbjörnsdóttir. 1996. Aldursgreiningar með geislakoli. Um landnám Íslands (ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir). Vísindafélag Íslendinga. Ráðstefnurit V. Bls. 59-75.
-Ingrid Olson og Erla Vilmundardóttir. 2000. Landnám Íslands og C14 aldursgreiningar. Skírnir, 174. 119-149.
-Karl Grönvold. 1995. Öskulagatímatalið, geislakol, ískjarnar og aldur fornleifa. Nokkrar athugasemdir við skrif Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar. Árbók hins íslenska fornleifafélags. 163-184.