Færslur

Hvaleyrarvatn

Í sumar (2022) standa yfir framkvæmdir í kringum Hvaleyrarvatn. Skv. upplýsingum á skilti, sem sett hefur verið upp á vesturbílastæðinu er ætlunin að betrumbæta bílastæðið og bæði lagfæra og fjölga göngustígum umhverfis vatnið.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Við upphaf framkvæmdanna spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um það hjá verktakanum hvort starfsmennirnir væru meðvitaðir um staðsetningu fornminja við vatnið. Hann hafði ekkert heyrt um neina fornminjar á svæðinu og virtist kæra sig kollóttan um hugsanlega tilvist þeirra. Nokkrum dögum síðar var búið að reka niður rauða hæla í tóftir Hvaleyrarsels og Ássels, en öðrum nálægum fornleifum hafði verið sleppt.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Síðar vakti athygli að plastborði hafði verið strengdur umhverfis þrjár tóftir í seljunum tveimur. Þegar FERLIRsfulltrúinn spurðist fyrir um ástæðu þess að ekki væri búið að merkja aðrar nálægar fornleifar, s.s. stekkina neðan við bæði selin var svarið. “Hönnuðurinn virðist ekki hafa haft hugmynd um fornleifar við vatnið. Það kom honum a.m.k. mjög á óvart að spurst hafði verið um þær”.
Hafa ber í huga að upplýsingar um allar fornleifar við og nálægt Hvaleyravatns hafa verið aðgengilegar á vefsíðu FERLIRs í a.m.k. 20 ár. Ef hönnuðurinn kynni að “gúggla” hefði hann ekki komist hjá því að fá nauðsynlegar upplýsingar um minjar við vatnið.
Nú þegar vitund hefur kviknað hjá a.m.k. einhverjum væri ekki úr vegi og taka upp þráðinn og merkja þær minjar, sem fyrir hendir eru, gangandi og hjólandi til fróðleiks…

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – upplýsingaskilti um framkvæmdirnar.

Eldvörp

Í Fréttablaðinu árið 2012 er umfjöllun;  “Gengu fram á óþekktar minjar“, eftir  Óla Kristján Ármannsson. Fjallað er um minjar í og við Eldvörp ofan Grindavíkur.

Óli Kristján Ármannsson

Óli Kristján Ármannsson.

“Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, fornleifafræðingur og áhugamaður um náttúru og menjar á Reykjanesi, telur að mannvistarleyfar í Eldvarpahrauni við Grindavík kunni að vera enn eldri en talið er. Í félagi við annan gekk hann fyrir nokkrum árum fram á byrgi sem enginn hefur komið nálægt í hundruð ára. Hann leiddi blaðamann og Gunnar V. Andrésson ljósmyndara um svæðið og fræddi um kenningar sínar. Minjarnar séu „Tortóla“ verkafólks við útgerð.

Fornminjar í Eldvarpahrauni þarf að rannsaka mun betur áður en tekin er ákvörðun um aðrar framkvæmdir á svæðinu, sem er í nýtingarflokki í drögum að rammaáætlun. Eldvörp eru norðvestur af Grindavík, ekki ýkja langt frá Bláa lóninu. Þar er að finna lítt rannsakaðar mannvistarleifar.

Gunnar V. Andrésson

Gunnar V. Andrésson.

„Og aldrei að vita hvað annað kæmi í ljós ef fram færi gagnger rannsókn á svæðinu,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur, sem safnað hefur margvíslegum fróðleik um náttúrufar og minjar á Reykjanesi. Hann telur að minjar sem er að finna í Eldvörpum séu jafnvel enn eldri en leitt hefur verið líkum að áður, því þær kunni að tengjast útgerð í Grindavík, en heimildir eru um verstöð þar frá miðöldum, allt frá tólftu og fram á fimmtándu öld.
„Menn hafa velt upp alls konar hugmyndum um þessi hlöðnu byrgi, þar á meðal hvort þarna kunni að hafa verið felustaðir sem fólk hafi komið sér upp eftir Tyrkjarán af ótta við fleiri árásir,“ segir hann, en telur sjálfur útilokað að þarna sé um einhverja mannabústaði að ræða, einkum smæðar þeirra vegna.

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

„Mér finnst líklegra að þarna hafi verið fiskigeymslur. Nokkurs konar „Tortóla“ þess tíma þar sem verkafólk gat skotið fiski undan og sótt í þegar vistir þraut. Útvegsbændur áttu ekkert í þá daga – Skálholtsstóll átti allt. Sækja mátti þarna fisk til nauðþurfta. Um tveggja alda skeið sultu Grindvíkingar heilu hungri. Það skyldi því engan undra að þeir hafi reynt að koma einum og einum fiski í skjól til nota þegar í nauðir rak. Fólk þurfti ekkert að hlaða sér felustaði þarna í hrauninu þar sem nóg er um rúmgóða hella þar sem fjöldi fólks hefur getað látið fyrirberast. Auk þess líkjast byrgin í Eldvörpum öðrum fiskigeymslum með ströndinni, hvort sem er í Strýthólahrauni, við Nótarhól eða á Selatöngum.“

Fundu áður óþekkt byrgi
Um leið áréttar Ómar Smári að kenningar þessar kalli allar á mun meiri rannsóknir til þess að nálgast megi lausnina á þeirri ráðgátu sem þessar mannvistarleifar í Eldvörpum eru. Standist kenningin um undanskotið gæti þarna hins vegar verið um að ræða mannvistarleifar frá því ekki löngu eftir að gaus síðast í Eldvörpum 1228.
EldvörpÞá segir Ómar Smári annað benda til þess að hlöðnu byrgin hafi verið notuð undir eitthvað matarkyns. Á svæðinu eru nefnilega um sjötíu hlaðnar refagildrur sem enn sjást. „Og þá hafa menn viljað koma í veg fyrir að refurinn kæmist í eitthvað.“ Að auki voru refaskinn allmikil verðmæti hér áður fyrr og því eftir nokkru að slægjast með því að veiða refinn.
Eins bendir staðsetning byrgjanna til þess að um felustaði af einhverju tagi hafi verið að ræða. „Það fer enginn hingað lengst inn í torfarið hraun án einhvers sérstaks erindis,“ segir Ómar Smári. Enda er það svo að jafnvel nú, með vegi í grennd og göngufólk ágætlega búið, að handleggur er að komast að byrgjunum.
EldvörpNokkur hlaðin byrgi eru þekkt í Eldvarpahrauni og greinilegt að þangað hefur göngufólk komið til að skoða þau. Það svæði hefur verið þekkt frá því það fannst aftur, að sögn Ómars Smára, árið 1872. Seinna fjallaði Ómar Ragnarsson svo um það í einum af Stiklu-þáttum sínum í Sjónvarpinu. Alls er þar að finna um tólf hleðslur, að sögn Ómars Smára, byrgi og refagildrur.
Ómar Smári og félagi hans Óskar Sævarsson römbuðu svo fram á tvö til viðbótar nokkru fjær árið 2006 í einni af gönguferðum þeirra. „Það var eiginlega Óskar sem rak augun í þetta þar sem við stóðum þarna á gjábarminum. Eru þetta ekki hús, sagði hann og benti? Jú, sagði ég. Tvö!“ Einu sporin í mosanum við þessi byrgi eru eftir Ómar sjálfan. „Þarna væri kjörið að taka jarðvegssýni í öðru hvoru byrginu til aldursgreiningar,“ segir hann.

Verðgildi svæðisins gæti aukist
EldvörpByrgin eru hlaðin úr hraunhellum. „Síðan hefur verið hlaðið rekaviði ofan á og fergt með hraunhellum. Við þetta myndast kjöraðstæður til að geyma þurrkaðan fisk, annað hvort í stæðum eða hengja hann í rjáfur,“ segir Ómar Smári, en hraunið er náttúrulega þannig að ofan í það hverfur raki og svo blæs í gegn um hellurnar sem hjálpar til við að halda fiskinum þurrum. „Ofan í þessum byrgjum má núna sjá hellurnar sem hafa hrunið ofan í þau þegar rekaviðurinn hefur fúnað undan þeim í aldanna rás.“
Byrgin eru svo ekki einu leifarnar um mannvistir í hrauninu. Ekki langt frá borholu HS Orku í Eldvörpum er að finna stóran helli þar sem fjöldi fólks gæti látið fyrir berast. „Og inni í hellinum er hlaðinn garður þannig að ekki sést hvað er fyrir innan,“ segir Ómar Smári.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Alveg ofan í borholunni er svo svokallaður Brauðhellir, en hann opnaðist þegar jarðýta braut ofan af honum við framkvæmdir á svæðinu. „En hitaveitan má eiga það að þeir gengu vel frá í kringum hann og pössuðu upp á hann eftir að hann kom í ljós.“ Áður var bara á hellinum lítið op og mikil gufa í honum og hiti sem væntanlega hefur verið nýttur til að seyða brauð og nafnið af því dregið, en í hellinum má líka sjá fornar hleðslur.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

„Allt þetta svæði þarf að kanna í leit að fornminjum,“ segir Ómar Smári og telur að varlega þurfi að fara í frekari orkuvinnslu í Eldvörpum. Í drögum að rammaáætlun eru Eldvörp í nýtingarflokki og áform uppi um að reisa þar allt að fimmtíu megavatta jarðhitavirkjun. „Ef þetta fær að vera óraskað í eitt til tvö hundruð ár þá margfaldast verðgildið í náttúruperlum eins og þessum. Nálægðin við þéttbýli gefur svæðinu líka aukið gildi.“

Eldvörp

Hellir nálægt Bláa lóninu.

Ómar Smári Ármannsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur. Hann er sérstakur áhugamaður um gönguleiðir, náttúru og sögu Reykjanesskagans og heldur úti ferðavefnum Ferlir.is, þar sem boðið er upp á margvíslegan fróðleik um svæðið, auk skipulegra gönguferða fyrir smærri og stærri hópa. Fram kemur á vefnum að upphaflega hafi FERLIR staðið fyrir „FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík“ sem hóf starfsemi árið 1999. Verkefnið vatt svo upp á sig.
„Og ég fór í fornleifafræði, svona til þess að fræðimennirnir gætu ekki slegið mig af borðinu sem áhugamann,“ segir Ómar Smári kankvís.”

Heimild:
-Fréttablaðið, 125 tbl. 15.12.2012, Gengu fram á óþekktar minjar – Óli Kristján Ármannsson, bls. 36.
Eldvörp

Garðar

Í Fornleifaskráningu Garðabæjar 2009 er fjallað um  Garðabæ – fornleifar og áhugaverða staði:

Fornleifar og byggð
Syðst í landi Garðabæjar eru eldfjöll og hraunbreiður, en norðar og nær sjó eru grónir vellir og mýrarflákar inn á milli hraunkarga og klapparholta. Tvö friðlönd teygja sig inn fyrir bæjarmörkin að sunnanverðu, Heiðmörk og Reykjanesfólkvangur.

Vífilsstaðavatn

Við Vífilsstaðavatn.

Innan Garðabæjar eru tvö vötn og einnig renna þar tveir lækir. Vífilsstaðavatn er austan undir Vífilsstaðahlíð og Urriðavatn (Urriðakotsvatn) er á milli Urriðakots og Setbergs. Úr Vífilsstaðavatni rennur Hraunsholtslækur og úr Vatnsmýri rennur Arnarneslækur og falla þeir báðir til sjávar í Arnarnesvogi. Inn í strönd Garðabæjar skerast vogar og víkur, þar sem áður fyrr voru víða ágætis varir. Landbrot hefur átt sér stað í Garðabæ, þó í mun minna mæli en t.d. á Seltjarnarnesi.

Kringlóttagjá

Í Kringlóttugjá sunnan Búrfells.

Landslag og umhverfi í Garðabæ hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum eftir að þéttbýli fór að myndast. Mest þéttbýli er milli Hafnarfjarðar og Kópavogs og svo allt frá Arnarnesi norður að Hraunsholti og Vífilsstöðum. Nokkuð hefur verið um þéttbýlismyndun í landi Urriðakots þar sem byggð rís nú á Urriðaholti þar sem heimatún bæjarins var áður. Verslunarkjarni hefur einnig risið þar norður af við götuna Kauptún. Jafnframt er golfvöllur á stórum hluta Urriðakotsjarðarinnar. Óbyggð svæði innan Garðabæjar einkennast mest af hraunbreiðum, víða miklum körgum, en í Garðahverfi má enn finna talsvert af túnum og graslendi.88 Hér á eftir verður fjallað um helstu minjaflokka sem skráðir voru í Garðabæ, einkenni þeirra og ástand.

Bæjarhólar, bæjarstæði og býli

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Bæjarhólar myndast þar sem bæir hafa staðið á sama stað um aldir. Hólarnir verða til úr gólflögum sem hafa hlaðist upp í tímans rás, byggingarefni, torfi og grjóti og öskuhaugum. Í bæjarhólum er helst að leita upplýsinga um húsakost, fæðu og almenn lífsskilyrði til forna og þar eru mestar líkur á að finnist merkir gripir. Bæjarhólar eru því mikilvægir minjastaðir en jafnframt eru þeir sá minjaflokkur sem einna verst hefur farið í uppbyggingu í landbúnaði, sem og þéttbýli, á þessari öld.
Samantektin hér að ofan byggir á upplýsingum úr bókinni Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða.
Alls eru til heimildir um 52 bæjarstæði og bæjarhóla í landi Garðabæjar. Flest eru bæjarstæðin í hinu þéttbýla Garðahverfi og er þar oft um að ræða kot og þurrabúðir sem voru í byggð í takmarkaðan tíma og þar sem þykk mannvistarlög hafa hugsanlega ekki náð að hlaðast upp. Þó skal hafa þann fyrirvara í huga að upplýsingum um minjar í Garðahverfi er í sumum tilvikum ábótavant, þar sem upplýsingar um útlit og ástand minjastaða voru oft lauslegar í skráningu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu K. Tetzschner frá 2005.

Urriðakot

Urriðakot – bæjarstæði.

Bæjarhóla með miklum mannvistarleifum er einna helst að finna þar sem bæir lögbýla og hjáleiga Garða hafa staðið öldum saman. Næsta víst má telja að mannvistarleifar sem ná aftur til landnáms megi finna við Garða. Í Urriðakoti, Arnarnesi, Hraunsholti og Selskarði eru vel sýnilegir bæjarhólar. Á bæjarhól Urriðakots eru leifar síðasta bæjarins frá miðri síðustu öld, en Urriðakot fór í eyði 1958. Rústirnar eru grafnar ofan í bæjarhólinn, sem er nokkuð hár og breiður og hafa raskað að nokkru leyti þeim mannvistarleifum sem þar hvíla, en þó er öruggt að í honum er enn að finna fornar mannvistarleifar sem stafar hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum á Urriðaholti. Á Arnarnesi er bæjarhóll Arnarneskots vel sýnilegur. Hóllinn er þýfður og ójafn og 13×13 m að stærð, þó fornleifarnar kunni að ná yfir stærra svæði undir sverði. Hóllinn er hæstur um 1,3 m á hæð.

Urriðakot 1958

Urriðakot – loftmynd 1958.

Bær Hraunsholts hefur að líkindum lengi verið á sama stað og þar er enn stór bæjarhóll. Erfitt er að átta sig fyllilega á ummáli bæjarhólsins sökum framkvæmda á og í kringum hann, en hóllinn er að líkindum um 40×40 m að stærð. Nokkuð mikið af 20. aldar keramikbrotum eru á hólnum og eru þau án efa ættuð úr róti sökum framkvæmda á og við hólinn. Á hólnum sáust einnig brunnin bein og tennur úr nautgripum sem gætu verið ættuð úr nálægum öskuhaugi. Síðasta íbúðarhúsið á Selskarði var steypt og grunnur þess grafinn ofan í bæjarhólinn. Syðsti hluti steyptra undirstaðanna sjást enn, en nyrðri og meiri hluti grunnsins er hinsvegar horfin því gríðarmikil hola, um 25×20 m að stærð, hefur verið grafin ofan í bæjarhólinn. Hliðar holunnar eru grónar en sjá má að hleðslugrjót hefur oltið úr sárinu.
Bærinn hefur staðið á náttúrulegri upphækkun en mannvistarlög eru varla undir 1 m á þykkt.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954. Hér sést gamla bæjarstæðið.

Bæjarhóll Vífilsstaða hefur verið sléttaður og er því horfinn, þó vafalaust megi enn finna einhverjar mannvistarleifar undir sverði. Bæjarhóll Arnarnesbæjarins hefur einnig verið sléttaður, en nokkrar mjög lágar aflíðandi bungur eru enn á flötinni og gætu þær verið leifar þess efnis sem rutt var þegar bæjarhólinn var sléttaður (sem var líklega þegar farið var að byggja á Arnarnesinu á sjöunda áratugnum).
Hofstaðabærinn sem nú stendur er byggður 1923 og er tvílyft steinhús með kjallara. Ekki er greinilegur bæjarhóll á svæðinu því umhverfið er vel sléttað. Sennilega eru þó talsvert miklar búsetuminjar í kringum Hofstaði, bæði á lóðinni sem og undir malbiki fjær frá húsinu. Fullvíst er að búseta hefur verið á Hofsstöðum allt frá fyrstu tíð, en víkingaaldarskáli var grafinn upp skammt frá núverandi Hofstaðabæ.
Bæjarhóll Setbergs er utan marka Garðabæjar og er því ekki til umræðu hér þó hluti af jörðinni hafi verið skráður.
Talsvert landbrot á sér stað í Garðahverfi sem hefur haft slæmar afleiðingar fyrir fornminjar. T.a.m. eru bæjarstæði Austur og Vestur Dysja að brotna ofan í sjó. Jafnframt eru sagnir til um að Nýibær hafi áður fyrr staðið á

Bakki

Bakkirof á sjávarbakka.

Nýjabæjarskeri, sem er nú umlukið sjó. Annars hafa bæjarhólar og bæjarstæði í Garðahverfi að þó nokkru leyti orðið fyrir barðinu á túnasléttun og seinni tíma byggingum. Þó eru sjáanlegar tóftir, hleðslur eða hólar á Garðhúsum, Hóli, Sjávargötu, Garðabúð, Katrínarkoti, Köldukinn, á ónefndu býli norðan Köldukinnar , Arndísarkoti og síðast en ekki síst stendur Króksbærinn enn og er opinn fyrir almenning. Mikil og þétt búseta hefur verið í Garðahverfi öldum saman og því er næsta víst að miklar mannvistarleifar leynast þar víða undir sverði, þó svo að í sumum tilvikum verði þeirra ekki vart á yfirborði.
Ljóst er að miklar mannvistarleifar leynast enn undir sverði á lögbýlum og hjáleigum í Garðabæ. Bærinn er í fremur örum vexti og því mikilvægt að ítreka að engar framkvæmdir sé ráðgerðar á bæjarhólum og bæjarstæðum nema í samstarfi við Fornleifavernd ríkisins og þá með tilheyrandi mótvægisaðgerðum.

Útihús í og við heimatún

Urriðakotshraun

Fjárhústóft Guðmundar í Urriðakotshrauni.

Eins og algengt var á Íslandi voru skepnuhús á skráningarsvæðinu dreifð um tún bæja til að dreifa áburði. Hlutfall útihúsa á nokkrum býlum í Garðahverfi var þó, eins og gefur að skilja, nokkuð lægra en á hreinum landbúnaðarsvæðum. Þess í stað voru fleiri staðir tengdir sjósókn.
Alls voru skráð 67 útihús innantúns í landi Garðabæjar og eru þá meðtalin öll þau útihús sem þekkt eru á hjáleigum og smábýlum. Verður þetta hlutfall að teljast fremur lágt ef haft er í huga að 19 jarðir eru skráðar innan marka Garðabæjar. Tún Setbergs er þó mestmegnis í landi Hafnarfjarðar og lendir einungis eitt útihús Garðabæjarmegin. Engin útihús eru þekkt frá Hagakoti þar sem ekkert túnakort er til af jörðinni og ekkert útihús er merkt hjá Ráðagerði á túnakorti Garðahverfis. Þó er ljóst að skepnuhús hefur verið áfast íbúðarhúsinu í Ráðagerði. Alls eru 54 útihús skráð sem hafa óþekkt hlutverk og eru þessi hús oftast skráð af túnakortum.
Innan Garðabæjar eru þekktar heimildir um sex fjárhús og eitt lambhús. Tóftir fjárhúsa og lambhúsa eru í túni Urriðakots, heimildir eru um tvö fjárhús í túni Hofsstaða (nú komin undir byggð), heimildir eru um fjárhús á Miðengi og Hausastöðum og tóftir fjárhúsa sjást enn í túni Hausastaðakots.

Garðahverfi

Bakki – útihús, tóftir að baki.

Tvö fjós eru skráð, bæði í Garðahverfi. Heimild er um fjós á Miðengi, en tóft fjóss er að finna á Dysjum. Heimildir voru tiltækar um þrennar kvíar við heimatún í Garðabæ en hvergi sáust leifar þeirra. Örnefnið Kvíaflöt er við tún Urriðakots, á Hraunsholti var heimild um kvíar og sömu sögu að segja af Nýjabæ.

Smiðjuhóll

Smiðjuhóll við Arnarnes.

Leifar tveggja hesthúsa eru þekktar, annarsvegar innan byggðar Garðabæjar og hinsvegar í Garðahverfi. Í Hraunsholti er tóft hesthúss sem hlaðin er úr torfi og grjóti og standa veggir hennar enn nokkuð heilir, hæstir um 1,5 m að innanverðu, en tóftinni stafar hætta af trjágróðri sem vex allt í kring. Skammt frá Katrínarkoti í Garðahverfi er svo lítil þúst og hleðsluleifar sem taldar eru af hesthúsi. Í Garðabæ er eitt örnefni sem bendir til smiðju innantúns, en að það er Smiðjuhóll í túni Arnarness, sem nú er búið að slétta úr.
Ljóst er að víða í Garðabæ geta leynst leifar útihúsa undir sverði innan túna eldri bæja. Þar sem Garðahverfi varð snemma nokkuð þéttbýlt og svæðið hefur byggst hratt upp undanfarna áratugi, var eldri húsum víða rutt út og vitneskja um þau hefur í mörgum tilfellum týnst niður á skömmum tíma. Vel er hugsanlegt að slíkar leifar hafi þegar verið alveg eyðilagðar við byggingu íbúðarhúsa og annarra þéttbýlismannvirkja en rétt er að ítreka að varlega skal fara í allt umrót, sérstaklega innan heimatúna eldri bæja.

Mannvirki tengd sauðfjárrækt (utan heimatúna)

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Nokkuð stór hluti skráðra fornleifa í landi Garðabæjar tengjast sauðfjárbúskap og er marga slíka staði að finna utan túns og í úthögum. Markverðasti staðurinn er að líkindum svokölluð Selgjá sem var friðlýst af Kristjáni Eldjárn árið 1964, en í örnefnaskrá segir að Álftnesingar hafi haft þar í Seli allt fram á 18. öld. Selgjá er hrauntröð frá Búrfelli og náttúrulegt aðhald með fjöldi fjárbyrgja. Hún er framhald Búrfellsgjáar, sem nær alla leið að Búrfelli, en er sá hluti hrauntraðarinnar sem liggur norður frá Hrafnagjá og skiptist milli lands Urriðakots og Garðakirkjulands. Selgjá er fremur grunn og víða um 120 m breið og er hún slétt og gróin í botninn. Í norðurenda Selgjár er Selgjárhellir, náttúrulegur hraunhellir sem hlaðið hefur verið fyrir og þannig nýttur sem fjárskýli. Suður frá Selgjárhelli, bæði fast við hellinn og allt að 750 m frá honum meðfram austur og vestur hliðum gjárinnar, eru skráð 19 mannvirki sem tengjast seljabúskap, tóftir, garðlög og hleðslur við hella. Selgjá er heildstætt og stórt minjasvæði innan marka höfuðborgarsvæðisins sem mikilvægt er að varðveita. Skammt norðan við Selgjá eru aðrir staðir sem einnig voru friðlýstir 1964, Sauðahellir efri og svokallaðir Norðurhellar og má líta á þessa hella sem hluta af heild með Selgjánni. Sauðahellirinn er sérstaklega merkilegur, en op hans er hlaðið upp með mjög fallegum, yfirbyggðum inngangi sem hægt er að standa í hálf uppréttur og sem liggur niður að tveim náttúrulegum hellum, sínum á hvora hönd. Sauðahellir og Norðurhellar voru eflaust nýttir við seljabúskap líkt og rústirnar í Selgjá.

Setbergssel

Setbergssel – fjárhellir.

Sex önnur sel eru skráð innan Garðabæjar. Fyrst er að nefna Kjöthelli, einnig nefndur Selhellir, sem var selstaða Setbergs frá fornu fari. Elsta heimildin um Kjöthelli er landaskiptabréf dagsett 6. júní 1523. Í jarðabók Árna og Páls eru hagar sagðir þar góðir. Kjöthellir er um 20 m langur og opinn í báða enda, lofthæð er ríflega 2 m og breidd um 4 m. Um miðbik hellisins er hlaðið skilrúm sem skiptir honum í tvennt. Skilrúmið kann að benda til að hellirinn hafi verið nýttur af tveim jörðum, þá Hamarskoti og Setbergi og hefur nyrðri helmingurinn að líkindum tilheyrt Setbergi. Hleðslur eru við hellisopin og er meira lagt í þá nyrðri en þar eru hlaðin, bogadregin göng sem liggja að opinu. Hlaðið hefur verið þak yfir innganginn að hluta með hraunhellum, þó það sé nú að nokkru leyti hrunið.

Setbergssel

Kjötshellir.

Í næsta nágrenni Kjöthellis er tóft sem að líkindum tengist Selstöðunni. Um 70 m frá henni er hlaðið aðhald í náttúrulegri lægð. Hátt í 200 m vestur af Kjöthelli er Kershellir sem er nokkuð stór hraunhellir sem hugsanlega var einnig nýttur sem selstaða. Inni í honum er hleðsla sem er nokkuð ógreinileg vegna hruns úr lofti. Önnur selstaða er á mörkum Setbergs og Hamarskots við svokallaða Gráhellu í Gráhelluhrauni. Mannvirkið er hlaðið upp að klettinum Gráhellu, sem myndar suðurvegg þess, og samanstendur af einni tóft og hlöðnum grjótgarði fast austan við hana. Lítill skúti gengur suður úr enda tóftarinnar inn í Gráhellu. Bogadregið garðlag úr hraungrýti gengur frá norðausturhorni tóftarinnar og sveigir til suðurs að Gráhellu sem hefur mögulega verið aðhald fyrir sauðfé eða heystæði.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Í landamerkjalýsingu í örnefnaskrá kemur fyrir örnefnið Seljahlíð sem er betur þekkt sem Sandahlíð. Örnefnið Seljahlíð bendir til að þar hafi einhvern tíma verið sel. Þar fundust hins vegar engar tóftir né mannvirki á vettvangi. Næst er að nefna tóftir Vífilsstaðasels sem eru að finna upp á Vífilsstaðahlíð skammt frá mastri 29 í Ísallínu. Í landi Hraunsholts var svokallað Hraunsholtssel að finna sunnan við Hádegishól. Nú er búið að ryðja hraunið sunnan Hádegishóls undir byggð. Til selsins sást hins vegar enn árið 1987. Loks er sel skráð undir Görðum sem er að finna á svokölluðum Garðaflötum í Garðakirkjulandi skammt frá Búrfelli, en nafn þess er ekki lengur þekkt. Um 5 m frá henni er mögulega rúst annars mannvirkis sem er afar sigið.

Búrfellsgjáarrétt

Búrfellsgjáarrétt.

Samtals voru skráðar 23 réttir í landi Garðabæjar sem skiptast á sjö jarðir og þar af sjást sautján enn á yfirborði. Flestar eru réttirnar skráðar í landi Urriðakots. Þar sést til fimm rétta en heimildir eru til um aðrar þrjár sem nú eru horfnar. Skammt sunnan túns var rúst réttar sem hét Grjótréttin eða Grjótréttin eystri en ekki sést lengur til hennar og má vera að grjót úr henni hafi verið nýtt í nálægar byggingar en nokkuð er um mannvirki úr seinni heimstyrjöld í næsta nágrenni. Grjótréttin vestri var skammt vestan túngarðs og er hún einnig horfin. Svokölluð Hraunrétt var við hraunbrúnina við Vetrarmýri en er horfin, mögulega undir stórverslanir IKEA og Byko við Kauptún. Fast austan við túngarð Urriðakots er lítil rétt hlaðin úr grjóti. Réttartangi skagar út í Urriðakotsvatn og um 30 m vestur af honum á Hrauntanga er hlaðin kró upp við hraunhellu sem er innan Lambhagagarðs en óvíst er hvort króin er samtíða honum. Króin er hlaðin úr hraungrýti og er sigin og fornleg. Við austanverða hraunbrúnina við Vesturmýri, um 200 m suður af Byko við Kauptún 6 eru leifar réttar sem er byggð við náttúrulega hraunbrún og skarð í hrauninu.

Urriðakot

Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.

Stekkjartúnsrétt er í litlu viki í hraunkarganum fast austan í golfvelli. Hægt er að greina leifar eins hólfs og garðbrots sem gengur út frá því, en réttin er mikið röskuð.
Leifar annarrar réttar eru einnig fast við sama golfvöll, um 220 m suðaustar. Af þeirri rétt má greina eitt hólf auk garðlags. Innan í hólfinu er lítill hellisskúti. Lítið, grjóthlaðið aðhald er einnig í hraunkarganum sem markar vesturbrún Flatahrauns, um 110 m suðaustur af rétt. Í landi Vífilsstaða voru réttir á svokölluðum Réttarflötum um 200 m norðaustur af Maríuhellum en þær eru nú horfnar undir malbikað bílastæði. Í Hagakoti fundust leifar tveggja rétta við vettvangsathugun og voru báðar við jaðar Hafnarfjarðarhrauns. Sú fyrri er mynduð úr þrem vikum inn í hraunjaðarinn að norðanverðu sem er lokað fyrir með signum garðlögum, einu fyrir hvert vik. Öll garðlögin eru hlaðin úr hraungrýti, grónu skófum og mosa.

Hagakot

Hagakot – Hagakotshellir.

Hitt aðhaldið í Hagakoti er einnig við norðurjaðar Hafnarfjarðarhrauns. Það er eitt hólf, hlaðið úr meðalstóru hraungrýti. Fjórar réttir eru skráðar í Hraunsholti og er ein þeirra að líkindum horfin undir byggð og einungis þekkt úr ritheimildum. Gatan Langalína liggur eftir endilöngum tanga sem heitir Réttartangi eða Aðrekstrartangi og eru miklar líkur á þar hafi verið að finna hlaðna rétt en þétt byggð er nú á svæðinu. Hinar réttirnar eru í eða við Hafnarfjarðarhraun og sjást enn. Rétt er norðarlega í Hafnarfjarðarhrauni, um 90 austur af Hraunhólum 19. Veggir réttarinnar eru nokkuð tilgengnir og signir. Annað minna aðhald er að finna í lægð í hrauninu skammt frá. Lægðin er gróin í botninn og er þar að finna litla, hlaðna tóft úr hraungrýti og torfi sem fellur vel inn í umhverfið. Tveir litlir hellar opnast einnig inn af lægðinni og eru þeir afar stórgrýttir á botninum, en engin mannvirki fundust við þá.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.

Fjórða réttin í Hraunsholti er við norðurjaðar Hafnafjarðarhrauns og kallast Stöðulgjóta. Stöðulgjóta var heimarétt sem tók um 30-40 kindur.92 Aðhaldið er eitt hólf og er hlaðið úr hraungrýti, en suður- og vesturveggir aðhaldsins eru úfið hraun sem norður- og austurveggir eru hlaðnir upp að. Í Garðakirkjulandi nyrst í Búrfellsgjá er að finna fallegar minjar, Gjárétt, skammt sunnan við Hrafnagjá. Gjárrétt var hlaðin 1840 og var fjárskilarétt Álftaneshrepps til 1922, en réttað var í henni að einhverju marki allt til 1940. Til suðausturs frá réttinni liggur nokkuð sigið garðlag að öðru aðhaldi við vesturbarm Búrfellsgjáar sem nýtir náttúrulega hraunveggi að norðan, vestan og sunnan, en austurveggurinn er hlaðinn úr hraungrýti. Innst í aðhaldinu er svo hlaðið byrgi við náttúrulegan hraunvegginn. Alls er rústasvæðið, réttin, garðlagið og aðhaldið, rúmlega 50 x 50 m að stærð. Skráðar voru sex réttir í Garðahverfi. Ein þeirra var á Bakka og var hún ferhyrnd og hlaðin úr hraungrýti, en hinar eru á Görðum. Um 220 m norður af hjalli nokkrum sem stendur við Balakletta er lítil rétt hlaðin úr hraungrýti.
Réttin er eitt hólf en frá því liggur garðbrot til norðurs. Fast suður af þessari rétt er önnur lægð í Flatahrauni sem myndar aðra rétt. Þar mynda náttúrulegir hraunveggir ásamt hleðslum réttarstæðið. Skammt suðvestur og nær sjó er gerði hlaðið úr hraungrýti.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.

Garðastekk er svo að finna sunnan undir hraunbrúninni á móts við Garðaholtsveg. Garðastekkur er hlaðin utan í hraunkantinn og skiptist í fjögur hlaðin hólf en milli þeirra og hraunsins myndast einnig tvö hólf til viðbótar. Þá sjást leifar af fimmta hólfinu nyrst og í krika vestan við stekkinn er grasi gróin tóft. Að lokum má nefna að til er heimild um svokallaða Hraunrétt sem ekki sést lengur til.
Einn nátthagi eða vörslugarður, Lambhagagarður, er hér skráður með Setbergi, þó hann teygi sig einnig að hálfu inn á land Urriðakots. Hann liggur þvert á landamerkjagirðingu milli Setbergs og Urriðakots sem skiptir Hrauntanga milli jarðanna tveggja. Hann er signari og ógreinilegri í Setbergslandi en í Urriðakoti, en þar er hann einna best varðveittur syðst á um 10 m kafla sem liggur að Urriðakotsvatni.

Setberg

Setberg – fjárhústóft í Fjárhúsholti.

Sjö beitarhús eru skráð í landi Garðabæjar, á fjórum jörðum og sjást leifar þeirra allra. Í Setbergi eru skráð tvenn beitarhús sem lenda Garðabæjarmegin. Beitarhús er á svæði sem kallast Hústún. Beitarhúsið er í vestanverðri Setbergshlíð og hlaðið úr grágrýti. Oddnýjarfjárhús eru í vestanverðum Oddnýjardal, undir austanverðum Norðlingahálsi. Þetta er tvískipt tóft, fjárhús og hlaða, sem grafin er inn í brekku. Hlaðan er grjóthlaðin en fjárhúsið úr múrsteinum með grjóthlöðnum sökkli. Eitt beitarhús er skráð í landi Hraunsholts og kallast Hvammurinn eða Hvammsfjárhús. Tóftin er um 80 m vestur af brú yfir Hraunsholtslæk sem er framhald
göngustígs frá Lindarflöt. Aðhald var VSV við tóftina er þar er lægð í hrauninu. Tvenn beitarhús er einnig að finna í landi Urriðakots. Annað þeirra var byggt af Guðmundi Jónssyni bónda við hraunkraga sem myndar vesturbrún Flatahrauns. Beitarhúsið er hlaðið úr hraungrýti sem hefur verið tilhöggið í múrsteinslaga kubba. Hitt beitarhúsið er Fjárhústóftin syðri sem er um 470 m NV af Selgjárhelli. Beitarhúsið er hlaðið við náttúrulegt bjarg sem myndar að hluta til suðurvegg hennar. Á Vífilsstöðum eru tvenn beitarhús og er annað þeirra fremur illgreinanlegt. Hitt beitarhúsið, Vífilstaðabeitarhús er hlaðið úr hraunhellum sem sumar hverjar hafa verið höggnar til.

Urriðakot

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Í landi Garðabæjar eru skráð níu fjárskýli en tvö þeirra hefur verið fjallað um framar í skýrslunni í tengslum við selstöðu. Það eru Selgjárhellir og Sauðahellir í landi Urriðakots. Hin fjárskýlin sjö eru á tveimur jörðum. Á Vífilsstöðum eru skráð þrjú fjárskýli, þar af tveir hellar. Sauðahellirinn nyrðri er lítill og náttúrulegur hellir. Hlaðnir kampar eru beggja vegna við hellismunann en þar var sauðum gefið á gadd og heyið borið frá bæ. Maríuhellar eða Vífilsstaðahellar eru á mörkum Vífilsstaða og Urriðakots. Þetta eru tveir hellar sem voru að öllum líkindum einn hellir í fyrndinni en hrun úr loftinu skipti honum í tvennt. Um 25 m eru á milli munna hellanna, sá nyrðri tilheyrði Vífilsstöðum en hinn Urriðakoti. Fjárborgin, er um 3 m austur af Vífilsstaðabeitarhúsi. Fjárborgin var aldrei fullbyggð, átti að vera hringlaga og opnast til norðausturs. Í landi Garða eru skráð fjögur fjárskýli. Búrfellshellir er sunnarlega í Búrfellsgjá. Munni hellisins er 5-6 m breiður og snýr til suðurs. Hleðsla er fyrir honum og dyr á henni miðri. Fjárborg er á hraunbrún Gálgahrauns, beint andspænis Görðum. Undirstöðurnar eru einungis eftir. Heimildir eru einnig um Fjárborgir í landi Garða sem voru á svæði sem kallast Gjá og fyrir neðan þær voru hellar sem kölluðust Selhellar.

Urriðakot

Urriðakot – stekkjarrétt við Stekkjartún.

Alls eru sex stekkir skráðir í landi Garðabæjar en þeir hafa verið fleiri. Í landi Urriðakots eru raskaðar leifar stekks. Hann er í viki sem gengur í vesturbrún Flatahrauns fast vestan við golfvöll. Það eina sem er eftir af stekknum er um 5 m langt garðbrot. Á Vífilsstöðum eru varðveittir tveir stekkir og sést til þeirra beggja.
Finnsstekkur er undir suðvestur horni Smalaholts. Máríuvellir eða Stekkatún er lítil flöt í hraunjaðri Flatahrauns, fast uppi við Vífilsstaðahlíð. Þar er stekkjartóft. Í Hraunholti er stekkur er kallast Stekkurinn. Hann er í svokallaðri Stekkjarlaut. Þetta eru líklega leifar stekksins en töluverðar framkvæmdir hafa verið í og umhverfis lautina og stekknum mögulega raskað. Bakkastekkur er í landi Bakka, á svokölluðu Bakkastekksnefi. Stekkurinn er hringlaga og hlið er á honum austanverðum. Þaðan til austurs liggur aðhaldshleðsla. Í landi Hofstaða er heimild um stekk sem kallaðist Stekkurinn. Hann var við mýrarjaðar austan bæjar, þar sem nú er þétt byggð.

Túngarðar

Arnarnes

Arnarnesbærinn 1958 – loftmynd.

Eins og gefur að skilja, þegar haft er í huga að í landi Garðabæjar er nú risið þéttbýli, er lítið eftir af ósnortnum túnum. Ekki er ólíklegt að túngarðar hafi á einhverjum tíma verið umhverfis heimatún flestra ef ekki allra bæja og býla innan núverandi marka Garðabæjar, í það minnsta þeirra sem áttu á annað borð einhverja túnskika umhverfis bæina. Leifar túngarða hafa varðveist á flestum jörðum.
Innan Garðabæjar eru leifar túngarða að finna á Setbergi, Urriðakoti, Vífilsstöðum, Arnarnesi, Hraunsholti og Garðahverfi. Ástand Setbergstúngarðs er misjafnt en þeir hlutar sem eru best varðveittir eru norðarlega, meðfram austurjaðri túnsins í landi Garðabæjar. Vesturpartur garðsins sem er í landi Hafnarfjarðar er kominn undir byggð.

Urriðakot

Urriðakot – Túnakort 1918.

Urriðkotstúngarður er vel varðveittur og afmarkar sama svæði og sýnt er á túnakorti frá 1918. Hæstur er Urriðakotstúngarður um 1 m en víða er hann öllu signari. Miklar líkur eru á að uppbygging byggðar á Urriðaholti komi til með að raska garðinum en minnt er á að honum má ekki raska nema að fengnu leyfi Fornleifaverndar ríkisins. Þannig er Garðastekkur skráður sem rétt vegna þess að hlutverk hans breyttist í tímans rás.
Vífilsstaðatúngarður er að mestu horfinn en þó má finna slitrur af honum meðfram austurjaðri gamla túnsins, mestmegnis eru það grjótnibbur í reglulegri röð en allra nyrst er enn torf í garðinum. Leifar tveggja túngarða er enn að finna á Arnarnesi. Annars vegar Arnarnestúngarð sem er vel greinilegur á óbyggðum lóðum Mávaness 3 og 5 en afgangur hans er kominn undir byggð eða sléttaður. Hinsvegar er túngarður Litla Arnarness sem er um 11 m austur af bæjarhól Litla-Arnarness og er suðvesturendi um 40 m ANA af Súlunesi 33. Túngarður Litla Arnarness er sigin og greinist sem gróin aflöng bunga í þýfinu og sem röð af meðalstóru grjóti. Vísbending um að garðurinn sé að líkindum nokkuð gamall er að hann er klipptur þvert af gamalli leið. Að auki var í landi Arnarness svonefnt Gerði sem var kofatóft og garðbrot á grænum bletti og er jafnvel talið að þar kunni að hafa verið akurreitur áður fyrr. Fornleifarnar eru nú horfnar undir byggð á Arnarnesholti, en árið 2006 fór fram björgunaruppgröftur á minjunum en niðurstöður hans eru óbirtar.

Hraunsholt

Hraunsholt – Túnakort 1918.

Hraunsholtstúngarður hefur að mestu leyti verið sléttaður en er þó greinanlegur um 150 m austur af bæjarhól sem grjótfyllt „renna” í jörðinni og er stærsta grjótið allt að 0,5 m að ummáli. Til eru heimildir um fimm aðra túngarða innan núverandi byggðarmarka Garðabæjar sem ekki eru sjáanlegir ofan svarðar lengur. Þar af eru tveir í landi Hraunsholts sem búið er að slétta úr, Garðlagið gamla og Gerðisgarður sem báðir voru að líkindum nærri þeim túngarði sem enn sést til.
Túngarðar Hofsstaða, Hagakots og Selskarðs með öllu horfnir undir byggð eða verið raskað með öðrum hætti. Ekkert túnakort er til af Hagakoti og því er ekki hægt að staðsetja Hagakotstúngarð í þéttri byggð Flatahverfisins en samkvæmt Sigurlaugu Gísladóttur á Hofstöðum eru talsverðar líkur á að leifar Hofstaðatúngarðsins leynist undir sverði á grónum sléttuðum fleti suðaustan við Tónlistarskóla Garðbæjar og norðvestan við Hofslund, þar sem enn er óbyggt svæði.
Talsverðar leifar túngarða er að finna í Garðahverfi. Veglegasta garðlagið er Garðatúngarður. Í fornleifaskráningu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu Tetzschner frá 2003 segir: „Talað var um Austurgarð austur frá Garðahliði en Vesturgarð vestur frá því. […] Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður.

Garðar

Garðar – túngarður – Hlíð utar.

Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta.
[…]. Ætla má að allir íbúar Garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari.” Garðatúngarður hefur girt af mest allt Garðahverfið, þ.e. tún Garða og hjáleiga. Vestur af Garðatúngarði voru hlaðnir margir minni garðar sem hólfuðu niður tún einstakra býla og eru þau garðlög mörg hver jafnframt sjóvarnargarðar er verja tún, enda talsvert landbrot á þessum slóðum og eru þeir hlutar sem liggja að strönd meiri mannvirki.

Önnur garðlög og gerði

Garðaholt

Garðaholt – túngarður. Hlíð framundan.

Auk túngarða og sjóvarnargarða voru skráð 36 garðlög í landi Garðabæjar. Af þeim sjást um 30 á yfirborði. Einn gamall kirkjugarður er þekktur innan marka bæjarins, Garðakirkjugarður en umhverfis hann er grjóthlaðinn garður. Elstu minningarmörkin sem fundist hafa í garðinum eru frá 17. öld, en víst er að kirkja hefur staðið á Görðum allt frá fyrstu tíð. Tveir landamerkjagarðar voru skráðir á vettvangi.
Annar garðurinn, skilur milli Setbergs og Urriðakots og liggur um 750 m til NNV frá Urriðakotsvatni. Hann er siginn og hefur seinna meir verið bættur með gaddavírsgirðingu sem nú er fallin. Hinn landamerkjagarðurinn er skráður í landi Urriðakots og skildi milli þeirrar jarðar annarsvegar og landa Hagakots, Vífilsstaða, Hraunsholts og Setbergs hinsvegar. Garðlagið kallast í daglegu tali Fjárréttargirðing og hefur því jafnframt þjónað sem vörslugarður. Samkvæmt Svani Pálssyni heimildamanni er Fjárréttargirðingin horfin undir byggð og malbik að nokkrum hluta, en þó má enn rekja garðlagið um 800 m í Hafnarfjarðarhrauni. Annar vörslugarður er skráður í landi Garðabæjar og er hann einnig að finna í landi Urriðakots, nánar til tekið frá rétt, yfir Flatahraun og liggur hann í að Vífilsstaðahlíð. Mögulega er um að ræða aðrekstrargarð í réttina.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Túnakort 1918.

Talsvert ítarlegar heimildir eru um kálgarða í Garðabæ og kemur þar helst til að þeir eru gjarnan merktir inn á túnakort sem teiknuð voru af flestum túnum á svæðinu árið 1918. Margir þessara kálgarða eru sjálfsagt ekki mjög fornir en þó má gera ráð fyrir að elstu garðarnir geti jafnvel verið frá fyrstu árum kálræktar á Íslandi. Samtals eru skráðir 24 kálgarðar í landi Garðabæjar, flestir upp af áðurnefndum túnakortum og eru leifar 15 garða enn sjáanlegar. Í Urriðakoti, skammt vestan við bæjarhúsin, sjást leifar kálgarðs sem er merktur er á túnakort. Kálgarðurinn er alls um 30×30 m stór. Á Vífilsstöðum sést enn kálgarður sem sýndur er á túnakorti fast sunnan og austan við gamla bæinn. Garðurinn er grjóthlaðinn og einungis sést móta fyrir leifum tveggja veggja, suður og austur. Á túnakorti Hofsstaða eru sýndir tveir kartöflugarðar sem báðir eru nú horfnir undir byggð. Annar kartöflugarðurinn var áður þar sem nú er bakgarður og sólpallur við síðasta bæjarhús Hofsstaða, sem stendur enn. Hinn kartöflugarðurinn var kallaður Kristjánsgarður og var þar sem nú er leikskólinn Kirkjuból. Á túnakorti Arnarness eru sýndir tveir kálgarðar fast við bæjarhúsin. Þeir eru báðir horfnir en bæjarhóll Arnarness og túnið allt var sléttað þegar byggð var skipulögð á nesinu. Í Hraunsholti voru samkvæmt túnakorti þrír kálgarðar árið 1918 og sést einn þeirra enn. Garðbrot er um 5 m suðvestan við bakgarð Hraunsholtsvegar 2 og er þar sami garður og sýndur er á túnakorti um 80 m vestur af bæjarhúsi Hraunsholts. Hinir tveir kálgarðarnir sem sýndir eru á túnakorti Hraunsholts eru nú horfnir, annar var um 10 m suður af bæ en hinn var um 20 ASA af bæ. Nú eru leifar seinni tíma girðingar á þessum slóðum, fúnir timburstaurar og vír.

Dysjar

Dysjar, Bakki, Pálshús – Túnakort 1918.

Engar heimildir eru til um kálgarð í Hagakoti vegna þess að ekkert túnakort er til af þeirri jörð og er nú þétt byggð þar sem túnið var áður. Nokkrir kálgarðar eru hinsvegar skráðir í Garðahverfi. Á Dysjum eru tveir kálgarðar sýndir á túnakorti og sést enn til annars. Túnakortið sýnir kálgarð umhverfis bæjarhús Dysja og er hann enn greinilegur, hlaðinn úr torfi og grjóti. Hinn garðurinn var við útihús sem einnig er horfið og sýnir túnakortið garðinn fast við traðir norður af bæjarhúsunum. Túnakort Bakka sýnir kálgarð fast við sjávarbakkann framan við bæjarhúsin, enn hann hefur að líkindum horfið í sjó og sést ekki lengur. Á Görðum eru skráðir tveir samfastir kálgarðar umhverfis bæjarstæði Hóls og voru þeir nýttir áfram eftir að Hóll lagðist í eyði og voru kallaðir Hólsgarðar. Búið er að jafna þá við jörðu og var hleðslugrjótinu ýtt upp í allmikla hrúgu sem enn mun vera sýnileg. Austan og sunnan við Ráðagerðisbæinn er kartöflugarður, hlaðinn úr grjóti, sem jafnframt er sýndur á túnakorti 1918.

Garðahverfi

Garðatúngarður,

Túnakort Miðengis sýnir tvo kálgarða suður af bæjarhúsunum. Vestari garðurinn heitir Fjósgarður en sá eystri Framgarður, báðir voru garðarnir grjóthlaðnir. Í Hlíð voru skráðir fjórir kálgarðar sem allir eru sýndir á túnakorti. Kringum bæjarhúsin í Hlíð var kálgarður sem var samansettur af fimm hólfum.
Við fornleifaskráningu 1984 fannst hluti garðsins sem var þá mjög lág og yfirgróin hleðsla. Þurrabúðin Gata var í landi Hlíðar og við býlið var grjóthlaðin kálgarður sem nú er horfinn. Önnur þurrabúð í landi Hlíðar var Holt og umhverfis hana var kálgarður sem kallaðist Holtsgerði. Holtsgerði er ferhyrndur garður um 32 x 30 m að ummáli. Skammt frá Holtsgerði er Illugagerði sem einnig var ræktað frá Holti, en það gerði Illugi Brynjólfsson ábúðandi á Holti um aldamótin 1900. Illugagerði er grjóthlaðið og fannst við fornleifaskráningu 1984. Í Móakoti var kálgarður við bæjarhúsin sem sýndur er á túnakorti. Grjóthlaðnar leifar kálgarðsins eru beint vestur af bæjartóft Móakots. Á Hausastöðum eru heimildir um kálgarð af túnakorti sunnan bæjarhúsanna, en ekki sést til garðsins lengur. Túnakort Hausastaðakots sýnir kálgarða umhverfis bæjarhúsin og var þeim viðhaldið eftir að býlið fór í eyði. Kálgarðsleifarnar eru raunar greinilegustu leifarnar á bæjarstæði Hausastaðakots. Á túnakort Selskarðs eru teiknaðir tveir kálgarðar. Annar kálgarðurinn er austan við bæjarhúsin en hinn var að öllum líkindum þar sem fornleif er nú að finna.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Í landi Garðabæjar eru skráð 11 garðlög með óþekkt hlutverk, flest þeirra eru gerði.
Í landi Setbergs er lítið garðbrot á svokölluðum Hrauntanga við Urriðakotsvatn. Garðlagið er rúmlega 20 m langt og snýr nokkurn veginn austur-vestur. Garðlagið er afar sigið og gæti verið gamalt. Á Vífilsstöðum er garðlag í úfnu og hálfgrónu hrauni um 5-10 m vestan við Vífilsstaðabeitarhús. Garðlagið er illa hlaðið og virðist grjótinu hafa verið staflað í lengju og í botni gjárinnar endar það í ólögulegri hrúgu en er lögulegra upp suður gjábarminn. Mögulegt er að hey hafi verið gefið undir garðinum. Í landi Hraunsholts er að finna eitt garðbrot með óþekkt hlutverk. Átta þessara garðlaga eru síðan í Garðahverfi. Í landi Pálshúsa er garðlag sem sýnt er á túnakorti frá 1918. Það er sýnt sem ferhyrndur garður með hlöðnum veggjum austan Pálshúsabæjar. Garðlag er í landi Nýjabæjar og sést að hluta. Á Görðum eru fimm garðlög sem ekki hafa skýrt hlutverk. Eitt þeirra er og er sýnt á túnakorti frá 1918. Þessi niðursokkni grjóthlaðni garður fannst líklega við fornleifaskráningu 1984. Annað garðlag er á túnakorti 1918 og sýnt sem tveir samfastir garðar í stæði hjáleigunnar Sjávargötu. Samkvæmt fornleifaskráningu frá 1984 er þetta ferhyrndur grjóthlaðinn garður, annar annar minni grjótgarður gengur úr honum í átt til sjávar en endar við girðingu milli Garða og Miðengis. Þriðja garðlagið er teiknað á túnakort frá 1918 og sést enn. Fjórða garðlagið er einnig á túnakorti frá 1918 og er það grjóthlaðið gerði með stefnuna norðvestur-suðaustur. Fimmta garðlagið í landi Garða er Hallargerði.

Sjóminjar

Álftanes

Álftanes – sjóbúð.

Minjar tengdar sjósókn voru einna algengastar minja í Garðahverfi og þarf það e.t.v. ekki að koma á óvart þegar blómleg sjósókn þar í gegnum aldirnar er höfð í huga. Samtals voru skráðar 54 fornleifar tengdar sjósókn í Garðabæ, þar af voru 47 þeirra í Garðahverfi.
Af þessum fornleifum hefur þegar verið fjallað um 11 sjóvarnargarða en hér að neðan fylgir umfjöllun um aðrar minjar í þessum flokki.
Algengastar sjóminja í Garðabæ eru varir. Samtals voru skráðar 15 varir/lendingar, á átta lögbýlum í Garðahverfi. Nánast allar varirnar eru nú horfnar að mestu eða öllu leyti. Varirnar voru misgóðar og sumar þeirra þurfti að hreinsa reglulega þar sem stórgrýti vildi safnast í þær samkvæmt örnefnaskrá. Mögulega hafa einhverjar þeirra verið náttúrulegar.
Dysjabryggja er náttúrulegur tangi sem lent var við. Hið sama má segja um Bakkabryggju, Miðengisbryggju og Hausastaðabryggju.
Heimildir eru þekktar um uppsátur á níu stöðum í Garðabæ. Líklegt má telja að einhver uppsátranna hafi horfið í sjó en töluvert landbrot á sér stað í Garðahverfi. Á Arnarnesi og Hraunsholti hafa tvenn uppsátur hins vegar horfið undir byggð.

Brúsastaðir

Brúsastaðir – uppsátur.

Sjö naust á sex lögbýlum voru skráð í Garðabæ, öll í Garðahverfi. Í sex tilfellum bera ritaðar heimildir einungis tilvist þeirra vitni og öll ummerki þeirra eru horfin. Í Lambhúsatjörn er vík við norðvesturhorn Gálgahrauns og þar er hleðsla sem líklega eru leifar nausts.

Norðurnes

Norðurnes – sjóbúð.

Þrjár sjóbúðir voru skráðar í Garðabæ og eru þær allar í Garðahverfi. Ummerki um tvær þeirra sjást ekki á yfirborði en Katrínarkotsbúð sést enn og er í landi Hausastaða. Tóftir hennar eru rétt við sjóvarnargarð, nánar tiltekið á svokölluðum Guðrúnarvelli. Þekktar eru heimildir um tvær verbúðir, báðar í landi Hausastaða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um verbúð sem notuð var af Selskarði. Þegar bókin var gerð hafi verbúðin verið notuð í um 30 ár. Staðsetning hennar er óþekkt. Örnefnið Búðarós ber hinni verbúðinni vitni. Nafnið er líklega dregið af verbúð en engar sannanir fyrir tilvist hennar hafa komið í ljós á þessum slóðum. Fleiri minjar um sjósókn en þær sem hér hafa verið upptaldar er að finna í Garðabæ.

Hleinar

Hleinar – hjallur. Hvaleyri framundan og Keilir.

Heimild um einn hjalla er þekkt innan bæjarmarkanna. Hann var í landi Bakka en farin í sjó þegar skráning var gerð þar árið 2003. Árið 1870 var Garðaviti reistur sem mið af sjó fyrir fiskibáta. Áður en vitinn var reistur, var þar fyrir torfvarða og kveikt á lugt til leiðarvísis. Vitinn stóð á háholtinu, fyrir ofan Háteig og var notaður fram til 1912. Á stríðsárunum var vitinn notaður sem skotbyrgi af Bretum en húsið síðan selt. Tóft er byggð utan í klappir alveg við sjávarmál.

Garðahverfi

Garðaviti.

Tóftin er hlaðin úr grjóti og styrkt með sementi og telja má líklegt að hlutverk hennar tengist sjósókn. Heimild um hvalstöð, í landi Garða, er að finna í örnefnaskrá Hafnarfjarðar. Þar kemur fram að hvalstöð hafi verið á Rauðnefstanga en ekki kemur fram á hvaða tíma hún var í notkun en hún lagðist af vegna slyss sem þar varð. Á svæðinu sjást nú um sjö grjóthlaðnar tóftir með görðum á milli. Áttunda tóftin er enn undir þaki með timburstoðum. Leifar lýsisbræðslu eru skráðar í landi Dysja sem norskur maður á að hafa sett upp. Ekki kemur fram á hvaða tíma þetta var gert. Þarna sjást nú tvær tóftir, grjóthlaðin grunnur með grófri steinsteypu og minni tóft norðan við hann.

Arnarnes

Arnarnessker.

Heimild um þangtekju er að finna í landi Arnarness. Þar kemur fram í rituðum heimildum að þang hafi verið tekið á Arnarnesskeri. Það er tangi sem er alþakinn fersku þangi og fer í kaf á flóði. Í Hraunholti er varðveitt hleðsla sem líkist helst hálfmána í laginu. Hleðslan er um 10 m frá sjó, sokkin og bogadregin. Önnur minni hleðsla lokar þeirri stærri að hluta og myndar grjótfyllta rennu. Þetta eru mögulega leifar uppsáturs, herslugarðs eða jafnvel verbúðar.
Þá eru upptaldar þær minjar um sjósókn sem skráðar voru í Garðabæ. Eins og með marga aðra minjaflokka má minna á að ekki er ólíklegt að fleiri minjar leynist undir sverði, í þessu tilfelli við sjávarsíðuna. Rétt er að ítreka að fara þarf varlega í frekari framkvæmdir við sjávarsíðuna.

Leiðir

Fógetagata

Fógetagata.

Alls voru skráðar 120 leiðir, brýr og vöð í Garðabæ. Mikið af heimildum er til um leiðir á svæðinu og munar þar helst um bókina Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar sem og örnefnaskrár lögbýlanna.
Alls voru skráðar fimm leiðir í Garðabæ sem voru e.k. þjóðleiðir. Þær eru sýndar á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 en það var endurbætt í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
Í fyrsta lagi er að nefna alfaraleið frá Álftanesi til Reykjavíkur og Seltjarnarness og kallaðist Álftanesgata eða Fógetagata. Gatan lá frá Álftanesi um Gálgahraun og er nyrst alfaraleiðanna og skráð á þremur lögbýlum í Garðabæ. Gatan sést m.a. á yfir 200 m löngum kafla skammt austan við Súlunes 26 í landi Arnarness. Önnur alfaraleið lá sunnar og var skráð á fimm stöðum í Garðabæ, en einungis sést til hennar á einum þeirra. Leiðin gekk undir nöfnunum Alfaraleiðin og Gömlu Fjarðargötur og lá frá Elliðavatni norðan við Vífilsstaðavatn að Hraunholtslækjarvaði. Það hélt hún áfram um Engidalsnef að svokölluðum Vegamótum, en þar komu saman nokkrar leiðir sem sjást á kortum bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Suðurtraðir.

Í landi Vífilsstaða lá gatan um Vífilsstaðamela, á svipuðum stað og malbikaður vegur er nú. Líklegt er að gömlu göturnar liggi þar undir. Gatan lá úr Krossgötum, ofanvert við Hagakotstúnið en þar er hún horfin undir byggð í Flata- og Lundahverfi. Hluti af Gömlu Fjarðargötum sjást á milli lóða í Hraunshólum 6-8. Steyptur göngustígur sem liggur frá Stekkjarflöt að Hraunshólum var lagður yfir götuna. Alfaravegur 1 á af Gömlu Fjarðargötu norður með túngarði og yfir Hraunsholtslæk að Háubrekku sem var vinsæll áningarstaður ferðamanna. Þessi hluti leiðarinnar er horfinn undir byggð. Alfaravegur 2 lá einnig af Gömlu Fjarðargötum, milli hraunbrúnar og túngarðs að fyrrnefndum Krossgötum. Þessi hluti leiðarinnar er einnig horfin undir byggð. Þriðja alfaraleiðin í landi Garðabæjar er Hafnarfjarðarvegur sem var lagður á árunum 1897-1898. Hann lá frá Reykjavík til Hafnarfjarðar og er ennþá í notkun. Innan marka Garðabæjar lá Hafnarfjarðarvegur úr Engidal niður að Arnarneslækjarbrún. Líklegt er að malbikað hafi verið yfir gömlu göturnar við vegaframkvæmdir.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Fjórða alfaraleiðin er Selvogsgata sem lá úr Hafnarfirði um Grindaskarð til Selvogs. Í landi Garðabæjar sést til götunnar fast vestur undir Setbergshlíð innan lögbýlisins Setbergs. Leiðin er að mestu leyti utan merkja Garðabæjar.
Að síðustu ber að að nefna Álftanesveg sem lá frá Suðurtraðahliði á Hraunsholtstúni, með hraunbrúninni í Engidal. Vegurinn lá frá Hafnarfjarðarvegi og sameinaðist Álftanesgötu í landi Garða. Árið 1910 var þetta vagnleið og notuð til flutninga. Gatan er ekki sýnd á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 og því líklega yngri.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Af skráðum leiðum í Garðabæ voru 21 heimreiðar/traðir, þ.e. slóðar sem lágu frá túnjaðri að bæjarstæðum. Flestar heimreiðanna voru skráðar upp af túnakortum frá 1918 og örnefnalýsingum og eru nú horfnar, en leifar einna traða sjást enn. Á Vífilsstöðum eru greinilegar leifar af upphlöðnum tröðum sem lágu frá bæ og niður að læk. Traðirnar sjást enn á kafla norðan lækjarins. Mikið af leiðum eru skráðar innan lögbýla, m.a. brunngötur og leiðir að selum. Heimildir eru til um 36 slíkar leiðir. Það sést til fimm þessara leiða í dag. Í Urriðakoti sést til einnar leiðar, Grásteinsstígs. Gatan er rudd gegnum hraun frá golfveli og hlykkjast áfram talsverðan spöl. Innan merkja Vífilsstaða sést til þriggja leiða.

Jónshellar

Í Jónshellum.

Jónshellnastígur hlykkjast í gegnum hraunbreiðu frá gamla bæjarstæðinu að Jónshellum. Það sést til Vífilsstaðaselsstígs þar sem hann liggur frá Ljósukollslág og upp holtið að selinu. Þessi leið er að hluta til hin sama og Gjáréttargötur. Að síðustu sést Grunnavatnsstígur sem lá frá vatnsósnum, inn með Vífilsstaðahlíð og upp Grunnavatnsskarð. Leiðin sést á um 500 m bili vestan í Grunnavatnsskarði en er fremur ógreinileg. Í landi Garða er ein leið, Garðagata. Gatan lá frá Görðum í Garðastekk og sést til gatnanna um 100 m norðan við hann. Annar slóði liggur frá stekknum til norðausturs og sameinast Álftanesgötu og er það líklega Álftanesstígur sem m.a. er sýndur er á korti á bls. 64 í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

Gera má ráð fyrir því að frá flestum býlum við strönd í Garðabæ og öllu Garðahverfi hafi legið gata að sjó. Heimildir eru hins vegar aðeins þekktar um 10 slíkar leiðir og eru þær allar í Garðahverfi. Í öllum tilvikum sjást leiðirnar á túnakorti Garðahverfis frá 1918. Líklegt má telja að leiðir að sjó hafi einnig verið í Arnarnesi og Hraunsholti þó ekki hafi varðveist heimildir um þær.
Skráðar voru þrjár leiðir að kirkju innan Garðabæjar. Stórakróksgata eða Kirkjustígur lá frá Urriðakoti og að Garðakirkju en ekki sést lengur til götunnar. Leiðin lá norðaustur við Stórakrókshól og þaðan yfir hraunið að Garðakirkju.

Garðahverfi

Gata að Hlíð.

Í landi Garða eru skráðar tvær kirkjuleiðir. Dysjabrú lá frá Mónefi yfir Dysjamýri. Þetta vegbrot átti að auðvelda leið að kirkju meðan Hafnfirðingar áttu kirkjusókn að Görðum. Gálgahraunsstígurinn syðri tók við þar sem Dysjabrú endaði. Þessi leið var að öllu jafnaði farin að kirkju en Kirkjustígur í miklum leysingum99.
Í Garðabæ eru einnig 13 leiðir sem ekki er hægt að flokka í ofangreinda flokka (þ.e. í alfararleiðir/heimreiðar/sjávargötur/götur til staða innan jarða eða kirkjuleiðir). Gott dæmi er Dýrtíðarvinnuvegur sem liggur þráðbeinn yfir hluta Hafnarfjarðarhrauns. Hann var lagður árið 1918 undir járnbraut. Vegurinn var aldrei kláraður og sést það vel þar sem norðaustur hluti hans endar. Þar er búið að ryðja hraunið en eftir að bera grjót í hann. Leið sem liggur yfir Hafnarfjarðarhraun var skráð í Hagakoti. Hún hefst rétt við brúnna yfir Hagakotslæk niður af Lindarflöt 16 og 28. Leiðin endar við Suðurhraun 12 innan merkja Hafnarfjarðar. Þar stefnir hún á gamlar götur sem varðveist hafa bak við Fjarðarkaup og hugsanlega sameinast þeim.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Vífilsstaðagata var á Arnarneshæð en er líklega horfin vegna framkvæmda á svæðinu.100 Gatan hefur, eins og nafnið gefur til kynna, líklega legið frá Vífilsstöðum og tengst Álftanesgötu í landi Arnarness. Vífilsstaðavegur hinn nýji var lagður árið 1908 á milli Hafnafjarðarvegar og Vífilsstaða. Vegurinn er enn í notkun en hefur verið hækkaður og malbikaður. Gjáréttargata lá frá Urriðakoti og upp á Urriðakotsháls. Hún er nú að mestu leyti undir nýrri vegi en afar greinileg þegar komið er í Selgjá. Gjáréttarstígur eða Hraunsholtsstígur lá frá Hraunsholti að Urriðakoti og í Gjáréttir. Stígurinn sést enn hlykkjast áfram í gegnum Hafnarfjarðarhraun. Dýrtíðarvinnuvegur liggur t.d. þvert á stíginn. Krossgötur voru á mel í horni Flatahrauns en þar er nú slétt grasflöt milli Stekkjaflatar og Hraunholtslækjar. Þar komu saman a.m.k. sex leiðir sem heimildir geta um. Í landi Garða var skráður vegur sem er upphlaðinn að hluta. Vegurinn liggur til austurs frá hleðslu en ekki er tekið fram hversu langur vegurinn er eða hvert hann virðist stefna. Mýrarbrú var í landi Hraunsholts en heimildum ber ekki saman um staðsetningu hennar. Gatan er annað hvort sögð hafa verið í Austurmýri eða Lágumýri en á hvorugum staðnum sást til gatnanna. Leiðir milli lögbýla eru þrjár í Garðabæ þó vafalaust hafi aðrar götur einnig verið notaðar í þeim tilgangi. Hagakotsstígur lá frá Hagakoti að Urriðaholti en nefndist Urriðakotsstígur þar. Hagakotsstígur hófst við stiklur sem var vað á Hagakotslæk. Stígurinn hlykkjast yfir Hafnafjarðarhraun og sést vel til hans í landi Hagakots.
Gjáréttarstígur Álftnesinga, einnig kallaður moldargötur, var í landi Urriðaholts og tók við af Hagakotsstíg ef haldið var inn með norðurhlíð Urriðaholtshlíðar að Maríuhellum. Á þessum slóðum er nú malarborinn jeppaslóði en nokkuð rask hefur orðið á leiðinni vegna bygginga við Kauptún.

Engidalsgata

Engidalsgatan gamla.

Innan Garðabæjar voru skráð 12 vöð og sjö brýr, en meirihluti þeirra er nú horfin. Þessar minjar voru dreifðar um skráningarsvæðið en flestar eru utan Garðahverfis.
Að samanlögðu má skipta gatnakerfi Garðabæjar í þrennt. Þetta eru alfaraleiðir, leiðir innan bæja og svokallaðir tengivegir. Að sunnan og austan hafa legið alfaraleiðir og síðar frá Reykjavík. Frá þessum götum hafa svo legið heimreiðar að flestum bæjum og býlum. Auk þeirra voru víða styttri slóðar innan landareigna, oftast t.d. frá bæ og að sjó. Nauðsynlegt er einnig að skoða Garðahverfið sem eina heild, þar var gatnakerfi á milli lögbýla enda óvenju þéttbýlt þar. Lögbýlin eru öll innan Garðatúngarðs og aðeins hægt að fara inn um nokkur hlið á honum. Segja má að þar sé komin smækkuð mynd af leiðakerfi utan hverfisins, þar eru alfaraleiðir, smærri tengivegir og leiðir milli
bæja.

Vatnsból

Urriðakot

Urriðakot – vatnsþró.

Í Garðabæ voru skráð 27 vatnsból á 15 jörðum. Sjálfsagt hafa vatnsból verið víðar utan Garðahverfis þó staðsetning þeirra sé nú týnd. Lítið er um uppsprettur og læki í Garðahverfi og líklegt að heimildir um vatnsból séu þar nokkuð tæmandi.
Vatnsveita var í Urriðakoti og sjást merki hennar ennþá. Vatnsveitan samanstendur af hlöðnum brunni í mýrarjaðri, rétt utan túns. Frá honum lá Brunnrásin eftir mýrinni og út í Urriðakotsvatn. Brunnrásin sést ennþá og fallin grjóthleðsla sem gæti hafa verið brunnur. Í Urriðakoti er jafnframt heimild um annan brunn í Selgjá.
Á Vífilsstöðum var steyptur vatnsgeymir í hlíð upp frá ósi Vífilsstaðavatns og vatn þaðan var leitt í Vífilstaðahælið. Vatnsból Garðabæjar er í Dýjakrókum en þar í mýrinni eru ótal uppsprettur. Ekki er ljóst hvort að vatn hafi verið tekið þaðan áður en vatnsbólið var byggt. Önnur heimild er um vatnsból í læknum niður undan bæ á Vífilsstöðum.
Auk áðurgreindra vatnsbóla var brunnur í Hagakoti, Hofstaðabrunnur og Lindin voru í landi Hofstaða, Arnarnesbrunnur og Gvendarbrunnur í Arnarnesi og í Hagakoti voru Hraunholtsvatnsbólið og Hraunholtsbrunnurinn en ekki sést til þeirra nú.
Í Garðahverfi voru fimm brunnar skráðir. Á Görðum er Garðalind sem var aðalvatnsból Garðahverfisins alls. Í Garðalind er rennandi vatn og voru tröppur niður að vatninu. Vatnsgjáin er náttúrulegt vatnsból í botni Búrfellsgjáar. Það var notað sem vatnsból Gjáréttar og tröppur hlaðnar niður að vatninu. Í Móakoti er hlaðinn brunnur tæpa 20 m norðaustan við bæ. Katrínarkotsbrunnur er í landi Hausastaða og var grafinn í túnið eftir að hætt var að nota Hausastaðabrunn . Brunnurinn er hlaðinn og voru hlaðnar tröppur niður að honum. Grjótabrunnur er í landi Hausastaðakots, norður frá Grjóta. Þetta er hlaðinn brunnur sem fylltur hefur verið upp. Í Garðahverfi eru heimildir um níu aðra brunna sem ekki sést til. Þetta eru Dysjabrunnur, Pálshúsabrunnur, Nýjabæjarbrunnur, Króksbrunnur, Garðhúsabrunnur, tveir brunnar austan Háteigsbæjar, Miðengisbrunn, Karkur og Hausakotsbrunn.

Herminjar

Garðaholt

Camp Gardar Tilloi.

Í Garðabæ voru á hernámsárunum fjögur braggahverfi og eru þau sýnd á korti í bókinni Ísland í hershöndum. Þau voru Tilloi og Garðar sem voru við Garða, Slingsby hill í Hranholti og Russel á Urriðaholti. Ólíkt flestum öðrum þéttbýlisstöðum hér á landi þar sem umsvif hersins voru mikil urðu ekki til íslensk braggahverfi í Garðabæ eftir stríðslok.
Nú er einungis eitt þeirra varðveitt, Camp Russel í Urriðaholti. Slingsby Hill, við Hraunholt, er horfið undir byggð en ekki er vitað hvað varð um braggahverfin við Garða. Hætt er við að staðsetning slíkra minjastaða, sem alveg eru horfnir af yfirborði og sáust e.t.v. aðeins um stutt skeið, týnist fljótt niður þéttbýli. Þrátt fyrir að braggabyggðin hafi fljótt horfið í Garðabæ leynast herminjar enn víða og voru samtals skráðar 18 slíkar minjar á níu bæjum.
Í Setbergi eru varðveittir tveir minjastaðir sem tengjast mannvirkjum seinni heimsstyrjaldar. Á Flóðhjalla þar sem hann rís hæstur eru leifar vígis frá Bretum sem ætlað var til varnar mögulegri innrás Þjóðverja í Hafnarfirði. Mannvirkin samanstanda af garðlagi og tveimur greinilegum tóftum innan þess. Mögulega hafa verið fleiri mannvirki innan garðlagsins en þau sjást ekki greinilega. Á náttúrulegan stein innan garðlagsins hefur verið klappað ártalið 1940 og fangamörkin J.E. Bolan og D.S..

Camp Russel

Camp Russel – kort.

Skotbyrgi er á norðausturbrún Setbergshamars, um 60 m frá steinsteyptum landamerkjasteini. Skotbyrgið er grjóthlaðið, nánast hringlaga og hrunið að mestu.
Í Urriðakoti er varðveitt steypt vatnsból frá hernum austur af Dýjamýri. Jafnframt eru heimildir sem greina frá því að tvö skotbyrgi hafi verið í landi Urriðakots. Enn eru samt ótaldar umfangsmestu minjarnar á Urriðakotsholti sem og Garðabæ öllum. Þetta eru leifar Camp Russell og þar má greina fjölmarga húsgrunna og aðrar minjar. Í skýrslu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu K. Tetzschner frá 2005 eru kort sem sýna staðsetningu minja á svæðinu og eru þær um 40 talsins.

Hnoðraholt

Hnoðraholt – skotbyrgi.

Á Vífilsstöðum hafa varðveist tvö skotbyrgi. Á svokölluðu Hnoðraholti er steinsteypt, hálfniðurgrafið skotbyrgi. Gott útsýni er frá því, einkum til norðurs og austurs. Hitt skotbyrgið er í norðurenda Vífilsstaðahlíðar, um 50 m vestan við vörðu sem í seinni tíð gengur undir nafninu Gunnhildur og er líklega dregið af enska orðinu „Gunhill”. Skotbyrgið er niðurgrafið og er veggur hlaðinn úr hraungrýti umhverfis innganginn.
Ógreinilegar leifar skotbyrgis eru að finna í landi Arnarness. Skotbyrgið er um 100 m sunnan við Arnarnesbrúnna og sést sem gróin upphækkun í grýttu og blásnu umhverfi. Heimild um annað skotbyrgi í landi Arnarness í svokölluðum skotmóa sem er á mörkum Kópavogs og Garðabæjar en ekkert sést til þess nú.

Hafnarfjörður

Langeyri – leifar bragga.

Í Hraunholti eru leifar tveggja mannvirkja úr síðari heimsstyrjöld. Annað þeirra er skotbyrgi. Það er um 7 m suðvestur af botni Lækjarfitjar og enn undir þaki. Byrgið er steinsteypt, niðurgrafið og þarf að fara niður nokkrar tröppur til að komast inn en það hefur nú verið fyllt af rusli. Herminjar með óþekkt hlutverk eru um 10 m SSV af brú yfir Hraunholtslæk. Þetta er steyptur grunnur sem er nánast ferkantaður. Hér er mögulega um tvö mannvirki að ræða. Þar sem leifar braggahverfisins eru líklega horfnar undir byggð eru þetta einu minjarnar sjáanlegar á yfirborði um veru hersins á lögbýlinu.
Í landi Bakka er getið um tvö loftvarnarbyrgi í örnefnaskrá sem séu að fara í sjó. Í fornleifaskráningu frá 1984 segir að tóft hafi verið byggð ofan í eitt þeirra en þau hafi verið mörg með skotgröfum á milli. Líklega sést ekkert til þeirra lengur.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – örnefni.

Á Görðum eru ummerki um tvær herminjar. Þrír steyptir grunnar, líklega undirstöður undir bragga, eru sitthvoru megin við Herjólfsgötu, þar sem hún mætir Herjólfsvegi og Garðabraut. Þessar leifar kunna að vera það eina sem eftir er af braggahverfinu sem var á svæðinu og fyrr var minnst á. Tvö samtengd skotbyrgi eru ofan Garðakirkju, beint útfrá útsýnisskífu. Þau eru steinsteypt, ferhyrnd og á milli þeirra hlykkjast skotgröf sem sést enn vel. Jafnframt var aðal loftvarnarbyrgi Breta efst á Garðholtsenda en þar er nú hús og ekkert sér til herminja. Í Hausastaðakoti eru tvö mannvirki tengd hernaði. Annað þeirra er byggt ofan í tóft sem sýnd er á túnakorti frá 1918. Lögun mannvirkisins og tóftarinnar eru óljós. Hitt mannvirkið eru þrjár sambyggðar tóftir. Þær eru á spildu sem merkt er á túnakort frá 1918 sem eign Hausastaðakots. Tóftirnar eru byggðar inn í hól og líklega verið skotbyrgi.

Urriðaholt

Langeyri – herminjar.

Elliðavatnsvegur eða Flóttavegur var lagður af Bretum á stríðsárunum. Vegurinn liggur á milli Hafnafjarðar og Suðurlandsvegar. Leiðin er skráð á tveimur stöðum í landi Vífilsstaða og lá frá Urriðaholti, um Vífilsstaðaland, Rjúpnadal og ofan Vatnsenda við Rauðavatn. Þessi leið er enn notuð og hefur verið malbikuð. Lagning þessa vegar hefur hins vegar líklega raskað eldri götum sem fyrir voru á svæðinu.
Ljóst er að umfang og staðsetning herminja í Garðabæ býður vel uppá að kynna þennan hluta sögu sveitarfélagsins fyrir almenningi og gera minjarnar aðgengilegar. Ekki er ólíklegt að fleiri minjar um hersetu séu að finna innan merkja Garðabæjar þó mikið hafi án efa horfið í þéttbýlið.

Verndun og kynning minja á skráningarsvæðinu

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni.

Eins og kemur fram í kafla um fornleifaskráningu þá teljast minjar í heimatúnum bæja sem eru enn í byggð sem og minjar innan bæjarmarka þéttbýlis að jafnaði í hættu. Því töldust flestar þær fornleifar sem skráðar voru í Garðabæ í hættu vegna ábúðar, þ.e. vegna nábýlis við þéttbýli enda hafa ýmsar framkvæmdir við vegi, byggingar og annað það umrót sem fylgir þéttbýli skemmt fjölmargar fornleifar í Garðabæ síðustu áratugi. Einnig töldust fjölmargar fornleifar vera í stórhættu á skráningarsvæðinu. Það er í flestum tilvikum tilkomið vegna fyrirhugaðra framkvæmda annars vegar og landbrots sem verður við sjávarsíðuna hins vegar. Þrátt fyrir góðan vilja yfirvalda í Garðabæ til þess að rannsaka og varðveita fornleifar hafa talsvert margir minjastaðir horfið af yfirborði innan bæjarmarkanna frá því að fornleifaskráning fór fyrst fram árið 1984. Í eldri skráningum er því oft getið um minjastaði sem þá sáust á yfirborði en síðan verið skemmdir. Það er því rétt að ítreka að til að gagn sé í fornleifaskráningu sem þessari þarf hún að vera nýtt í skipulagsgerð og ef vel á að vera, kynnt framkvæmdaaðilum, bæjarstarfsmönnum og almenningi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir, garðar og götur.

Garðabær í heild sinni býður upp á fjölmarga möguleika í minjavernd og kynningu á minjum. Svæðin ofan byggðar s.s. Heiðmörk, Búrfellsgjá og Selgjá eru vinsæl útivistarsvæði og þar eru víða skipulagðar gönguleiðir og -stígar. Einnig hafa verið gerð kort yfir helstu hlaupa- og gönguleiðir innan bæjarins og sýnt hvar upplýsingaskilti og útsýnisskífur eru staðsett. Þetta er mjög gott framtak en betur má ef duga skal. Eflaust mætti setja fleiri skilti með upplýsingum um minjar t.d. í Selgjá. Innan Garðabæjar er einnig fjöldi herminja sem mætti nýta til kynningar fyrir almenning sem og minjar um sjósókn í Garðahverfi. Á vegum bæjarins var unnið að því að gera niðurstöður rannsókna á Hofsstöðum sýnilegar og í þeim tilgangi reistir gagnvirkir upplýsingaskjáir og útlínur tóftanna byggðar upp. Framtakið er gott og gerir minjarnar mun aðgengilegri fyrir bæði almenning og ferðamenn sem leggja leið sýna til bæjarins. Gagn væri einnig að því að reisa upplýsingaskilti á vettvangi annarra fornleifarannsókna á svæðinu og koma þannig upplýsingum til almennings sem á leið um svæðið hvað var verið að rannsaka.

Garðabær

Garðabær – bæjarmerkið.

Þrátt fyrir að þéttbýlt hafi verið í Garðabæ um áratugi er þar enn að finna talsvert af fornleifum. Einhverjar leifar sjást enn í tæpum helmingi minjastaða sem þar eru þekktir. Allar þær fornleifar sem skráðar voru í Garðabæ hafa varðveislu- og minjagildi en þær sem eru yngri en 100 ára hafa ekki jafna stöðu á við hinar samkvæmt ramma laganna. Þessar fornleifar eru þó engu að síður mikilvægt að varðveita og má í því samhengi minna á skemmtilegar herminjar víða á svæðinu.
Innan merkja Garðabæjar er að finna þrjár friðlýstar fornminjar. Allar voru þær friðlýstar af Kristjáni Eldjárn árið 1964. Þetta eru Gjárétt, Selgjá og Norðurhellar.
Gjárrétt er í enda Búrfellsgjár og er merkilegur minnisvarði um fjárbúskap í Garðahreppi. Þar var fjárskilarétt hreppsins á 19. og 20. öld en rétttin var hlaðin árið 1840. Í réttinni sést vel hvernig menn hafa nýtt sér til fullnustu náttúruna við byggingu réttarinnar. Aðhald tengist Gjárétt með garðlagi en nýtir náttúrulega hraunveggi úr öllum áttum nema til austurs. Hraunbrúnin slútir yfir vesturhluta aðhaldsins og myndar þannig grunnan helli eða byrgi í vesturhluta þess.

Selgjá

Selgjá

Selgjá.

Selgjá er framhald Búrfellsgjár og er þar að finna fjölmargar tóftir, sumar í landi Urriðakots en flestar í landi Garða. Litið var á Selgjá sem eitt samfellt minjassvæði vegna þess hversu landfræðilega afmörkuð hún er. Því var hún öll skráð undir einu númeri og fellur í þessari skráningu undir númer Urriðakots. Í gjánni eru samtals 33 tóftir í 11 sambyggingum sem flestar eru byggðar upp að brúnum gjárinnar. Þetta eru m.a. stekkir, hleðslur, garðlög, hellar og sel. Staðurinn er án efa einn allra merkilegasti minjastaður Garðabæjar enda mannvirkin minnisvarði um sauðfjárbúskap og ómetanleg heimild um selstöðu allt fram á 18. öld. Selgjárhellir markar nyrsta hluta Selgjár.
Norðurhellar voru friðlýstir ásamt Selgjá. Selstæðið vestan í Selgjánni gekk undir nafninu Norðurhellar. Þeir eru skammt norðan við Selgjá og ættu Selgjárhellir og Sauðahellir efri að teljast með þeim, enda hlutar af sama hellakerfi. Alls fundust á svæðinu átta hellar fyrir utan þá fyrrnefndu.
Fjöldi annarra athyglisverðra minjastaða er að finna í Garðabæ og hér verða nefndir nokkrir minjastaðir- og –flokkar sem teljast, fyrir einhverra hluta sakir sérstaklega áhugaverðir.

Selgjá

Selgjárhellir. Einnig nefndur Þorsteinshellir.

1. Sauðahellir efri/syðri er örskammt norðvestur af Selgjárhelli. Hann tilheyrir víðáttu miklu hellakerfi, en margir þeirra voru notaðir sem fjárskýli og hlaðið framan við op þeirra. Sauðahellir er mestur þeirra en við hellisopið hefur verið hlaðið upp J-laga inngangi og þannig myndast um 3 m langur gangur með 3-4 þrepum sem liggja niður í hellana. Við enda gagnanna greinist hellirinn í tvo minni hella. Hellirinn sýnir vel hvernig náttúran var nýtt til búskapar og hefur mikið varðveislu- og kynningargildi.

2. Kjöthellir og umhverfi hans eru þekkt selstaða frá því á fyrri hluta 16. aldar. Tvær tóftir eru í næsta nágrenni við hellinn og telja verður líklegt að þær tengist selstöðunni. Annar hellir, Kershellir er í tæplega 200 m fjarlægð og líklega einnig verið sel. Hann er stærri en Kjöthellir og tveir hellar ganga inn af honum. Í báðum þessum hellum hafa verið hleðslur sem skiptu þeim í tvennt. Minjarnar eru sérstakar, fornar og áhugaverðar og hafa því sérlega gott varðveislu- og kynningargildi.

Flóðahjalli

Tóftin á Flóðahjalla.

3. Stríðsminjar upp á Flóðahjalla og víðar. Eins og fram kemur í kaflanum um herminjar leynast þær víða. Ástand þeirra er í heildina séð nokkuð gott en töluvert af þeim hefur þó vafalaust glatast. Þær herminjar sem eftir standa hafa því flestar varðveislugildi og jafnframt gott kynningargildi. Sem dæmi um svæði sem mætti kynna almenningi eru víðtækar minjar á Urriðaholti og aðrar sértækar minjar í góðu ástandi annars staðar líkt og vígið á Flóðhjalla.

4. Garðalind. Aðgengi að ferskvatni er eitt af þeim höfuðatriðum sem landnámsmenn þurftu að hafa í huga þegar þeir settu niður bæjarstæði. Gera má ráð fyrir að oftast hafi menn reynt að setja bæi niður við lækjarsprænur eða fersk vötn en þar sem slíku er ekki fyrir að hafa skiptu brunnar höfuðmáli. Í Garðabæ sést vel hvernig bæir hafa verið staðsettir í nálægð við vatn en einnig eru brunnar við sjávarsíðuna. Allt Garðahverfið sótti vatn í einhverju magni í Garðalind. Umhverfi lindarinnar er greinilega manngert og reynt að gera aðgengi auðvelt með tröppum og steini til skjóls. Brunnurinn hefur gott varðveislu- og kynningargildi.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

5. Litla Arnarnes og umhverfi þess er dæmi um svæði sem er nokkuð óraskað innan þéttbýlisins. Bæjarhóllinn er að öllum líkindum óraskaður, um 13x3m og mest um 1,5 m á hæð. Ekki er vitað neitt um aldur kotsins en það var ekki í byggð þegar Jarðabók Árna og Páls var skrifuð 1703. Túngarður kotsins er varðveittur að hluta og er hann m.a. skorin af götu sem bendir til þess að hann sé nokkuð forn. Í næsta nágrenni við bæjarhól kotsins eru einnig þrjár dysjar, m.a. Þorgautsdys. Þar á að vera dys sakamanns er líflátinn var á Kópavogsþingi. Líklegt má telja að fleiri minjar séu undir sverði á svæðinu það hefur því í heild mikið
varðveislu- og rannsóknargildi.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla.

6. Hausastaðaskóli og húsagarður umhverfis hann eru minjar skóla, þess fyrsta hérlendis fyrir fátæk alþýðubörn. Til beggja þessara minja sést enn. Skólinn var rekinn á árunum 1791-1812 og átti að hýsa 12 börn af báðum kynjum í heimavist. Þar fór fram kennsla í lestri og guðsorði ásamt garðrækt og fleiri greinum. Áþreifanleg ummerki skólahalds varðveitast sjaldan sem gerir þessar minjar enn merkilegri. Hausastaðaskóli hefur því mikið varðveislu-, og rannsóknargildi auk þess sem sögulegt gildi hans er talsvert. Svæðið býður upp á mikla möguleika til fræðslu fyrir almenning.

Garðahverfi

Garðatúngarður.

7. Garðatúngarður sem og Garðahverfið allt er einn af merkilegustu minjastöðum Garðabæjar. Garðatúngarður liggur þvert fyrir ofan Garðahverfið ásamt því að aðgreina byggðina frá nytjalandi. Garðatúngarður var hlaðinn á seinni hluta 18. aldar og þá voru fjarlægðir aðrir garðar sem voru þar fyrir. Það voru líklega varnargarðar um akurreiti. Garðahverfi er einstakt dæmi um menningarlandslag sem sýnir byggðaþróun allt frá landnámi til okkar tíma. Býlin þar eru svo þétt að tala mætti um vísi að litlu þorpi sem girt var af með garðlögum. Varnargarður lá meðfram sjávarsíðunni og hlið á honum niður að naustum og vörum. Hlið voru á Garðatúngarði og leiðir til býlanna lágu þar í gegnum og stjórnuðu samgöngum um hverfið. Staðurinn hefur í heild sinni mikið varðveislu- og rannsóknargildi sem auðvelt að er kynna almenningi. Þar eru m.a. merkilegar minjar um búsetu, sjósókn, búskap, samgöngur og skólahald. Á svæðinu mætti kynna fleiri minjastaði en nú er gert með tiltölulega litlum tilkostnaði, t.d. með því að setja upp skilti á helstu bæjarstæðum og öðrum áhugaverðum stöðum ásamt því að skipuleggja og merkja gönguleiðir.

8. Hofhóll. Hóllinn er grasivaxinn öskuhaugur, líklega frá Hofstöðum. Jónas Hallgrímsson gróf í hólinn á 19. öld og sagði þetta vera öskuhaug. Hóllinn er á opnu, grænu svæði sem haldist hefur óraskað innan þéttbýlisins hingað til. Hóllinn hefur varðveislu- og rannsóknargildi enda eini minjastaður sinnar tegundar sem þekktur er innan Garðabæjar.

Hausastaðir

Hausastaðir. Bæjarstæði Hausastaða og Katrínarkots.

9. Katrínarkotsbúð er sjóbúð og ein af fáum áþreifanlegum minjum sem varðveist hafa um sjósókn í Garðabæ. Einungis ritaðar heimildir og túnakort bera flestum hinna minjastaðanna vitni. Tóftir Katrínarkotsbúðar eru nálægt sjó og eru á svokölluðum Guðrúnarvelli í landi Hausastaða. Tóftirnar hafa mikið varðveislu- og rannsóknargildi.

Garðahverfi

Móakot – bæjarhóll.

10. Bæjarhólar og bæjarstæði. Þrátt fyrir þéttbýli í Garðabæ hafa varðveist fjölmörg bæjarstæði og –hólar á svæðinu. Þeim hefur ekki verið raskað að ráði og eru slíkir staðir einna mikilvægustu minjastaðirnir. Í allt voru skráðir rúmlega 50 bæjarhólar eða býli og sjást bæjarhólar um 40 þeirra ennþá. Þeir geyma mikinn fróðleik um fortíðina sem er ómetanlegt fyrir sögu Garðabæjar og þróun byggðar þar. Þessir staðir hafa því allir mikið varðveislu- og rannsóknar- og kynningargildi.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garðabæ 2009.

Garðar

Garðar og nágrenni – örnefni. ÓSÁ.

Fornagata

Fé hefur frá landnámi verið brautryðjendur í að leggja götur um holt og hæðir og hafa því ómetanlega reynslu. Gott var fyrir vegamálastjóra síðari tíma að hafa slíka ráðgjafa. Fjárgöturnar mörkuðu fyrstu þjóðleiðirnar fyrrum og því miður reyndist öðrum vegfarendum lengi framan af erfitt að finna aðrar greiðfærari leiðir.

Straumsselsstígur

Fornaselsstígur og Gjáselsstígur – dæmi um gleymdar menningarminjar.

Selstígar frá örófi alda voru fjárgötur. Stígar um fjöll og hlíðar voru fjárgötur. Maðurinn fetaði sig eftir þeim því þær voru þær einu merkjanlegar sem til voru. Það var ekki fyrr en löngu seinna að mennirnir fóru að leggja vegi, en þá jafnan á milli fjárgatnanna. Það var ekki fyrr en með tilskipunum konungs eftir miðja 19. öld að byrjað var markvisst að leggja brautir eða vegi millum helstu þéttbýlis- og verslunarstaðanna.
Enn í dag byggjast merktar gönguleiðir fyrir fólk ofan byggða á gömlu fjárgötunum. Í Þórsmörk t.d. er leiðin á milli Bása og Skóga gömul fjárgata. Oft vill gleymast, þrátt fyrir sögulegar staðreyndir, að kindin á miklu mun auðveldar með að fóta sig í bröttum skriðum og hlíðum fjalla en maðurinn. Þrátt fyrir það hefur áhugafólk um úrbætur á ferðamannastígum þráast við að feta sporið út fyrir kindagötunar, en reynt að halda í fyrri hefðaleiðir þeirra.
Fjárgötur eru jafnan krókóttari en leiðir mannanna, sem hafa haft tilhneigingu til að stytta leiðir á milli einstakra staða og sníða þá að fótum og fararskjótum sínum, í fyrstu hesta, síðar vagna og loks bíla…

Sjá meira um fornar leiðir á Reykjanesskaganum HÉR og HÉR.

Þorbjarnastaðir

Í Fjarðarpóstinum 1989 er fjallað um Þorbjarnarstaði í Hraunum og spurninguna um hvort þeir skyldu friðaðir:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur.

“Skipulagsnefnd hefur rætt um friðunarmál í nágrenni Hafnarfjarðar. Að sögn Jóhannesar Kjarval skipulagsstjóra hefur hann lagt til, að Þorbjarnarstaðir og næsta nágrenni verði sett á fornleifaskrá.
Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti, kannaði og skráði rústirnar að Þorbjarnarstöðum á árunum 1976 til 1980. Hann lagði til að réttast væri að friðlýsa þær minjar í einu lagi, eða áskilja sér rétt til að hafa hönd í bagga, ef eitthvað ætti að gera þar. Kristján sagði að þarna væri heilleg mynd, upplögð til að nota í eins konar sýnikennslu. Þó ekki sé langt síðan þarna var búið eru minjarnar ekki síður dæmigerðar fyrir byggðina hér um slóðir.
Þorbjarnarstaða er getið í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1548.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Um býlið hefur Kristján Eldjárn skrifað: „Þorbjarnarstaðir, nú í landi Hafnarfjarðar. Rétt fyrir ofan Straum eru rústir eyðibæjarins Þorbjarnarstaða, sem fór í eyði. Þetta hefur verið dæmigert Hraunbýli, tún ræktað á hraununum, allt með holum skvompum og túngarður umhverfis, allur hlaðinn úr hraungrjóti. Hann stendur að miklu leyti enn, en utan um hann er svo einfaldur og lágur garður úr steinum, sem teknir hafa verið úr gamla garðinum og haft sem undirlag undir gaddavírsgirðingu. Þetta er merkilegt að sjá. Á eina hlið er ágætlega hlaðin og skrítin rétt. Bæjarrústir eru snyrtilegar og grónar, en svolítill kofi stendur enn uppi. Heim að bænum er ágætar traðir, þótt þær standi ekki í fullri hæð nú. Eitthvað kann að vera af rústum útihúsa á túninu, en a.m.k. eitt fjárhús hefur verið sambyggt bænum; það er með jötum eins og öll gömul fjárhús hér á Reykjanesi.”

Ekki er að sjá í gögnunum að framangreindum vilja hafi verið fylgt eftir skv. orðanna hljóðan.

Sögulegar heimildir um Þorbjarnarstaði

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls VídalínsIII, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignumViðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.Hjáleiga 1703: Lambhagi (sjá GK-167).
Landkostir 1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.
1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefu r hún so bjarglegamikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einiberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavonnæsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundumað gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leið til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kring. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertíð. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið í næstu þrjú ár. Inntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi í næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III,166.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Þess má geta að Ísal sóttist eftir því á áratugi síðustu aldar við Hafnarfjarðabæ að fá að kaupa jörðina Þorbjarnarstaði. Þá stóð fyrir dyrum möguleg stækkun álversins til suðurs og þar með tilheyrandi færslu Reykjanesbrautarinnar. Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, lagði tilboðið fram á bæjarstjórnarfundi, án nokkurs fyrirvara. Þegar fulltrúi FERLIRs, sem þá var jafnframt fulltrúi Alþýðuflokksins, óskaði eftir nánari skilgreiningu á mörkum þess, sem um ræddi, varð fátt um svör. Hann óskaði þá eftir að málinu yrði frestað til næsta fundar. Það var samþykkt.
Á þeim næsta fundi lagi Magnús fram uppdrátt að mörkum þess lands, sem bærinn ætlaði að selja. Fulltrúi FERLIRs lagði þá til að bærinn myndi, ef sölunni yrði, halda eftir heimatúni Þorbjarnarstaða innan garða, enda væru innan þeirra ómetanlegar mannvistarleifar til framtíðar litið. Auk þess lagði hann til að Byggðasafni Hafnarfjarðar yrði falin forsjá svæðisins með í huga mögulega endurbyggingu þessa síðasta torfbæjar innan núverandi lögsagnarumdæmis. Bæjarstjórnin féllst á tillöguna. Af framangreindri ástæðu á Hafnarfjarðarbær í dag Þorbjarnarstaði í Hraunum – innan túngarða. Eignin er þó ekki talin til bæjarins í gildandi aðalskipulagi, einhverra hluta vegna!?

Í umsögn Umhverfisstofnunar við aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þann 11. ágúst 2020 segir m.a.:
“Umhverfisstofnun bendir á að hraunin, sem tillagan nær til, kallast Hrútargjárdyngja og Kapelluhraun falla undir lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Í 61, gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrfyrirbæra sem undir greinina falla, ema brýna nauðsyn ber til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi…
Umhverfisstofnun bendir á að innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá og nefnist Straumsvík og er númer 12 sem aðrar náttúrminjar. Svæðinu er lýst á eftirfarandi hátt: “Fjörur, strendr svo og tjarnir með fersku og ísöltu vatni við innanverða Straumsvík, frá urtartjörn vestan Straums suður fyrir Þorbjarnarstaði að athafnasvæði Ísal.” Náttúruverndargildi svæðisins eru tjarnir með einstæði, lífsskilyrðum og allmiklu fuglalífi.”

Engan sérstakan fróðleik er að finna á vef Umhverfisstofnunar um Þorbjarnarstaði og nágrenni sbr. framangreinda friðlýsingu á fornleifaskrá. Byggðasafn Hafnarfjarðar virðist ekki, hingað til a.m.k., hafa sýnt tilþrif í þá átt…

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 27. tbl. 21.09.1989, Þorbjarnarstaðir friðaðir, bls. 3.
-Fornleifaskráning vegna tvöfuldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.
-https://www.researchgate.net/publication/347489182_Fornleifaskraning_vegna_tvofoldunar_Reykjanesbrautar_41_fra_Hvassahrauni_ad_Krysuvikurvegi_II
-https://fornleif.is/wp-content/uploads/2020/10/FS803-20151_Fornleifaskr%C3%A1ning-vegna-tv%C3%B6f%C3%B6ldunar-Reykjanesbrautar-41-fr%C3%A1-Hvassahrauni-a%C3%B0-Kr%C3%BDsuv%C3%ADkurvegi.pdf

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta ÓSÁ.

Arnarfell

Fornritin eru almennt talin til hinna mestu gersema. En hvað um minjarnar á vettvangi?
Á Reykjanesi býr yfir helmingur Íslendinga, á einu fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins, en Handritjafnframt því vannýttasta. Á svæðinu er mikill fjöldi ómetanlegra minja, bæði náttúruminja og menningarminja. Flestar lýsa menningarminjarnar sögu þjóðarinnar frá upphafi norræns landnáms, stig af stigi, sem og búskapar- og atvinnuháttum liðinna alda. Ótaldar eru náttúruminjarnar á Reykjanesi, sem margar hverjar eiga hvergi sína líka.
Minjasagan lýsir m.a. einkennum þjóðarinnar og hvernig hún nýtti landkosti og efni öðruvísi en aðrar þjóðir, hvernig dreifing útvegsbændabyggðarinnar var með ströndum landsins, nýting innlandsins og önnur hagnýting landsgæðanna. Á Reykjanesskaganum er hægt að sjá bæði þróun híbýlanna hér á landi og upphaf steinhúsabygginganna á 19. öldinni. Um þetta og ótalmargt annað er fjallað á vefsíðu þessari.
HúshólmiGönguhópurinn FERLIR hefur nýtt undanfarin misseri til að ganga um einstök svæði á Reykjanesi. Upphaflega var markmiðið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta, en þrátt fyrir tæplega 1100 ferðir, sem að jafnaði hafa tekið 1-5 klst hver, eru enn stór svæði ógengin og óskoðuð.
Hópurinn hefur á ferðum sínum um Reykjanesið leitað til fólks, sem fætt er eða uppalið á hinum ýmsu svæðahlutum. Hvarvetna hefur hópnum verið vel tekið og fólk verið ótrúlega áhugasamt og viljugt að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Berlega hefur komið í ljós að þetta fólk býr yfir bæði mikilli og ómetanlegri vitneskju um minjar og sögu staðanna. Þessu fólki fer því miður fækkandi og líklega kemur að því að margt af því, sem vitneskja er um í dag, hverfi með tímanum.
FERLIRTil gamans má geta þess að þátttakendur hafa fram að þessu skoðað um eitt hundrað og áttatíu sel á svæðinu frá Suðurlandsvegi að Reykjanestá, auk allra mannvirkjanna, sem þeim fylgja, s.s. stekkir, kvíar, fjárskjól, gerði, brunnar, vatnsstæði og leiðir, gamlar hlaðnar réttir, um 350 hella og nafngreinda skúta, fjölmargar gamlar leiðir, gamla hlaðna brunna, letursteina og áletranir, vörður, sem tengdar eru einhverjum sögum, hlaðnar refagildrur sem og margt annað er ætti að þykja áhugavert.
Mest um verð er þó sú innsýn, sem þátttakendur hafa öðlast á landssvæðið, breytingar á því í gegnum aldirnar, aðstæður fólksins og dugnað þess við takmarkaða möguleika og erfiðan kost. Þetta fólk á skilið mikla virðingu frá okkur afkomendunum. Mikilvægt er og að láta ummerkin um það lifa áfram á meðal þeirra sem eiga að erfa landið – og vanda til allra ákvarðana um nýtingu þess til langrar framtíðar.
Fólk er hvatt til að kynna sér efni vefsíðu FERLIRs – www.ferlir.is – með von um aukna vitund á verðmæti Reykjanesskagans, hvort sem um er að ræða náttúruleg eða söguleg, svo og minnkandi líkur á eyðileggingu þeirra.

Framangreint erindi var haldið á Ferðamálaráðstefnu Ferðamálasamtaka Suðurnesja á Hótel Sögu þriðjudaginn 27. mars. 2007.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

 

Þinghóll

Ef litið er á sögu fornleifafræðinnar á Íslandi þá er hún í rauninni ekki mikið styttri en hefur gerst og gengið annarstaðar í heiminum. Hins vegar hefur kannski minna gerst og þróunin orðið hægari hér en víða annarsstaðar. Það hefur þó varla komið að sök í ljósi stöðu greinarinnar. Hún hefur tekið allmiklum breytingum í seinni tíð með tilkomu nýrra og áreiðanlegri rannsókna í hinum ýmsu stuðningsgreinum hennar. Virkni fornleifafræðinnar hefur enn aukist á allra síðustu árum með tilkomu aukins fjármagns frá yfirvöldum þótt vissulega megi deila um forræði og skiptingu þess til tiltekinna verkefna.

Í þróunarsögu fornleifafræðinnar hér á landi er stuðst að nokkru við frásagnir í kennslugögnum HÍ í fræðigreininni. Í þeim kemur m.a. fram að aðdragandi að kenningarsmíð og hugmyndafræðikenningum í fornleifafræði hér á landi sé bæði tilkominn vegna áhuga, reynslu og þekkingar útlendinga á fornleifum (Danska fornminjanefndin, Kålund, Daniel Bruun) sem og heimamanna, einkum á fornsögulegum staðbundnum mannvirkjum (Hið íslenska bókmenntafélag, Jónas Hallgrímsson) og skráningu fornminja. Með skráningunni voru efnisflokkar fornminja m.a. afmarkaðir, s.s. haugar, þingstaðir, rúnasteinar og hof. Og hvað sem ólíkum rannsóknaraðferðum leið, þá var ljóst að á árunum 1860-’75 hafi fornleifaskráning verið á blómaskeiði hér á landi.
Eftir miðja 19. öld hélt fræðimaðurinn Hans Hildebrand (1842-1913) röð fyrirlestra í Stokkhólmi um sögu og menningu Íslendinga til forna Árið 1867 komu þeir út í bók sem nefndist “Daglegt líf á Íslandi á söguöld”. Í bókinni reynir höfundur að láta heimildir fornleifafræðinnar tala sínu máli um hina sögulegu tíma. Hún stendur eins og minnisvarði um stöðu rannsókna og heimilda á þessum árum. Horfa ber til þess að höfundi var þá og þegar ófært að gefa yfirlit yfir fyrstu aldir Íslandssögunnar því hér á á landi voru ekki hafnar reglubundnar rannsóknir, hvort heldur uppgröftur eða skráning á fornleifum, enda kvartaði hann undan skorti á gögnum um fornleifar.

“Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi fór fyrst fram á vegum Konunglegu dönsku fornminjanefndarinnar. Árið 1817 sendi hún út spurningalista til allra sóknarpresta í landinu og eru svör þeirra enn eina heildstæða yfirlitið sem til er um íslenskar fornleifar á landsvísu.
Undir miðja 19. öld var annarri fornleifaskráningu ýtt úr vör. Hið íslenzka bókmenntafélag sendi sóknarprestum spurningalista árið 1838, en viðbrögð presta voru öllu minni en fyrr á öldinni og töldu margir þeirra engar fornleifar að finna í sínum sóknum. Er líða tók á 19. öld fór þjóðerniskennd Íslendinga vaxandi og henni fylgdi aukinn áhugi á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum, en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem hægt var að fella saman við lýsingar í fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna.
Það var danski norrænufræðingurinn Kristian Kaalund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í þeim tilgangi að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-1882 (íslensk þýðing Haraldar Matthíassonar var gefin út 1984-1986 undir heitinu Íslenskir sögustaðir), er enn þann dag í dag undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir.
Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra víðsvegar um landið næstu þrjá áratugina. Þar voru í broddi fylkingar Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kaalunds; að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöldinni.
Um aldamótin 1900 voru einnig á ferð hér danski kafteinninn Daniel Bruun og skáldið Þorsteinn Erlingsson, en þeir beittu til muna hlutlægari aðferðum en þeir Sigurður og Brynjúlfur höfðu gert. Báðir reyndu þeir að lýsa mismunandi tegundum fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum frá síðari tímum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar, burtséð frá því hversu merkilegar þær kunna að þykja á hverjum tíma, hófst fyrst í Reykjavík á 7. áratugnum og hefur staðið þar með löngum hléum síðan. Ólíkt fornleifakönnun á 19. öld, sem hafði það að meginmarkmiði að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðastliðin 20-30 ár fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði.
Auk fornleifaskráningar á vegum opinberra aðila, hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Síðast en ekki síst er rétt að minnast á að víða um land hefur áhugasamt fólk skráð fornleifar að eigin frumkvæði og á eigin kostnað. Slíkar skrár eru misjafnar að gæðum, enda upplýsingar skráðar á ýmsan hátt og misnákvæmlega, en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.”
Daniel Bruun var afkastamesti fornfræðingurinn á árunum 1894-1910. Hann rannsakaði minjastaði í öllum landshlutum , og ekki aðeins víkingaaldarminjar, heldur frá öllum tímaskeiðum íslenskrar menningarsögu.
Kristján Eldjárn var fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut sérstaka menntun erlendis í fornleifafræði og þjálfun í fornleifarannsóknum undir leiðsögn fornleifafræðinga – (einkum í fornleifafræði Norðurlanda) á afmörkuðum fornminjum, s.s. kumlum , má segja að aðstaða hafi skapast til nánari skilgreininga á aldri, tilurð og uppruna þeirra. Einnig voru gerðar tilraunir til að horfa til þess frá hvaða fólki þær voru komnar, við hverjar aðstæður og reynt að leita svara við spurningunum “hvernig” og af hverju”. Á litlu öðru en skriflegum heimildum var þá að byggja lengi framan af – og í sumum tilvikum allt til vorra tíma. Í seinni tíð hefur athyglinni verið beynt að húsum og híbýlum þess fólks, sem hér nam land um og eftir 870 og síðar, þróun þeirra og gerð.
“Upp úr jarðvegi fornmenningaráhugans uxu tvær öflugar rannsóknarstefnur. Var það annars vegar um að ræða rannsóknir á hinum sameiginlega fornnorræna menningararfi frá lokaskeiði járnaldar, þ.e. hin svokallaða “víkingamenning”, og hinsvegar mjög þjóðleg fræði þars em áhersla er lögð á þjóðleg einkenni; þjóðmenningu”. Segja má því að þjóðmenningaráhuginn hafi verið undanfari menningarumleitunnar í fornfræðilegri merkingu. Hæg þróun var þó í þeirri viðleytni þangað til á allra síðustu árum. Hin menningarsögulega áhersla snerist fyrst og fremst um söfnun og varðveislu forngripa. Kristian Kålund skráði allt sem hann gat fundið um daglegt líf til forna(P.E.K. Kålund, Familielivet på Island í den förste sagaperiode (indtil 1030), Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1870) og Valtýr Guðmundsson tilfærði hverja vísun í húsagerð og húsbúnað og skrifaði um það heila doktorsritgerð en þetta eru aðeins dæmi um annars fjölskrúðuga fræðahefð þeirra daga.
Mikilvægt skref var tekið þegar athyglin beindist fyrst og fremst að forngripunum sjálfum og menningarsögulegu samhengi þeirra, en eftir sem fyrr í rómantísku ljósi. Í stað fornmenningar var sjónum nú beint að “venjulegri” bændamenningu og þekking um hana fengin úr áþreifanlegum munum, sem oft voru skýrðir með hliðsjón af gömlum hefðum, gömlu verklagi eða visku sem gamalt fólk bjó yfir og kunni. Nú hefur þessum þætti fornleifafræðinnar enn fleygt fram hvað áhuga, þekkingu og áreiðanleika varðar. Þar kemur að þætti hinnar kennilegu fornleifafræði – nálgun með nýjum hætti.
Klæði, tréskurður, íslenski torfbærinn og grafir sem og einstakir gripir eru m.a. nokkur af viðfangefnum kennilegrar fornleifafræði. Það er athyglisvert sérkenni á íslenskri fornleifafræði hve sjaldan hefur verið reynt að taka saman árangur rannsókna og draga upp þann heildarsvip sem vitnisburður fræðigreinarinnar hefur af sögu lands og menningar. Kaalund reið á vaðið árið 1882, en þá var frá litlu að segja. Bruun hafði gert sér grein fyrir gagnsemi þess, en enginn Íslendingur reyndi að draga fram heildarmyndina fyrr en á s.hl. 20. aldar. Það féll í hlut Krisjáns Eldjárns að semja fyrsta, frumlegasta og langítarlegasta yfirlitið um alla helstu þætti fornleifarannsókna hér á landi. Var það í tilefni af 1100 ára búsetu hér á landi; Saga Íslands. Þar er að finna jarðsögu Íslands, sögu veðurfars, gróðurs og eldvirkni, vitnisburð fornleifafræðinnar um landnám mannsins og menningu, og upphaf allsherjarríkis, upphaf kirkju og samskipti við útlönd. Hlutverk fornleifafræðingsins í þessu riti var mikilvægt og hefur framlag hns að geyma heildarmynd sem enn hefur ekki verið hrakin þótt vissulega hafi ágreiningur vaxið um einstök atriði á síðustu árum þar sem nýjar áherslu hafa komið fram. T.a.m. hafa fundist leifar af kornrækt, áhöld, rauðablæstri og ýmslegar aðrar efnislegar leifar manna. Kristján og samverkamenn hans skilgreindu fornleifafræðina fyrst og fremst se aðferð til að afla heimilda um verkmenningu, en ekki t.a.m. andlegt líf, samfélagsgerð, efnahag og fleira. Áherslan var lögð á að lýsa þeim þáttum daglegs lífs sem finna mátti áþreifanleg ummerki um. Þótt engin áhersla hafi verið lögð á að rannsaka samfélagið eða samfélagsgerð, þá er ljóst að menningarsögurannsóknir byggja á annarri pólitískri afstöðu en t.d. rómantíski skólinn. Rannsóknarsviðið er víðtækara, fornmennirnir verða nafnlaus almúgi, höfuðbólið er ekki tekið fram yfir hjáleiguna, hvert mannsins verk er jafnmerkilegt, ekki aðeins skrautmunir eða vopn. Það er alþýðumenningin sem verður lykilatriði. Virðing er borin fyrir lítilmagnanum í sögulegri framvindu. Það kostaði Kristján hörku að sannfæra menn um gildi smárra hluta, um verklag, um hag fátækrar alþýðu.
Uppgraftartækni, aldursgreiningar, byggðaþróun, áhrif veðurfars og meðvitund um gildi efnahags hefur knúið fram breytta hugsun; nýjar og þróaðri aðferðir. Framan af takmarkaðist hinar hefðubundnu spurningar í íslenskri fornleifafræði við hag þjóðarinnar, þ.e. hvers vegna ákveðnar byggðir lögðust í eyði, og hvers vegna járngerð, kornrækt og svínarækt lögðust af. Í stað mjög almennra rannsóknaspurninga um búsetuþróun, hefur orðið mikill vöxtur í nýjum upplýsingum um bústeuskilyrði á öllum tímum. Í stað þess að einblína á afdrif og örlög einstakra búsetuþátta hefur athyglin beinst að heildinni, hinu efnahagslega kerfi sem þróaðist í landinu frá landnámi og fram til iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar. Starf fólks er ekki lengur skoðað sem fornir landbúnaðarhættttir eða verklag, heldur sem framleiðsluþættir, orka og afurðir, neysla og vöruviðskipti. Spurt er hvernig var kerfið, hvernig virkaði það, hvað olli breytingunum. Til þessar rannsókna hefur verið, sem fyrr sagði, notast við margvíslega tækni, s.s. frjókornagreininu, dýrabeinagreiningu og jarðvegsathuganir. Frjókornamælingar staðfesta að birkiskógar hopa fyrir graslendi og helstu dýrabein úr úrgangslögum landnámsbæja birta heildarsvip hefðbundins búfénaðar á hverju býli; nautgripir, sauðfé, geitur, svín og hestar. Jarðvegsrannsóknir á áhrifum mannsins á umhverfið sýna að framvindan þegar á landnámsöld hafi ekki aðeins verið hröð heldur hafi landnám mannsins haft mikil og afgerandi áhrif á gróður, jarðveg og landslag.
Rannsóknir á dýrabeinum og öskuhaugum hefur fleytt fram síðustu ár og árangur þeirrar myndar meginstofn heimilda um lífsviðurværi og afkomu fólks á fyrri tíð. Rannsóknir og greining á einstökum efnisleifum, s.s. keramiki, málmi og gleri, geta orðið sagt bæði til um tímatilurð og upprunastað og þar með um verslun og viðskipti sem og jafnvel um innihald. Nýjustu rannsóknir á ískjörnum geta mögulega auðveldað túlkun á breytingum sem birtast í t.d. húsagerð, landnýtingu, bústetumynstrum, samsetningu búfjárstofna eða mataræði.
Af fornvistfræðirannsóknum eru það einkum dýrabeinarannsóknir sem upp úr standa. Dýrabein eru heimild um efnahag til forna og þau endurspegla lífsviðurværi fólks á ýmsum tímum, þ.e. sýna hvaða veiðar voru stundaðar og hver var bústofn heimilanna.
Engar ritaðar heimildir eru til um lífsviðurværi þjóðarinnar fyrr en á síðari öldum og eru allar rannsóknir á þessu sviði því vel þegin viðbót fyrir aðrar vísbendingar sem forleifafræðin gefur um hina sögulausu fortíð. Beinin er talin og flokkuð og greind til dýrategunda, stærð og aldur dýranna metinn og jafnvel áverkar á beinunum, sem stundum gefa til kynna verkunaraðferð eða slátrun. Á grundvelli talningarinnar er hægt að áætla hlutföll á milli mismunandi tegunda og skoða vægi þeirra, s.s. fiðurfénaðar og fiska, sauðfé, nautgripa og svína. Þessi rannsókn býður upp á nýtt sjónarhorn til að skoða efnahag fólks á forsöguskeiðum. En hún kallar jafnframt á töluverða fyrirhöfn og enn er langt í land að hægt sé að lýsa með nokkurri nákvæmni lífsviðurværi eða afkomu þjóðarinnar á grundvelli beinarannsóknanna. Þó er ljóst að með þessum rannsóknum verður unnt að komast nær um ýmsa þætti, s.s. þátt veiðimennsku í upphafi landnáms og á síðari tímum, efnahagslegan mun á stórum býlum og smáum og í hverju hann felst, þróun sauðfjárbúskapar, nýtingu sjávarafurða, stærð og samsetningu búpenings á ýsum tímum, áhrif veðurlagsbreytinga á þjóðarhag og þróun íslensks efnahags frá landnámi fram á síðustu aldir.
Auk rannsókna á fornleifum og beinum og plöntuleifum, hafa einnig verið gerðar nýstárlegar athuganir á öllum smærri einingum, sem finnast við fornleifarannsóknir. Er þar annarsvegar um að ræða athuganir á leifum skordýra, sem varðveist hafa í jarðvegi, og hinsvegar míkróskópískar athuganir á innihaldi gólfefna húsa. Ýmis skordýr hafa fylgt manninum og tekið þátt í mannlífinu á ýmsa vegu í dul smæðar sinnar. Í undirlaginu spretta fram heillandi myndir af lítt könnuðum hliðum mannlegs eðlis, s.s. fornum mannasaur og innihaldi hans, hland, lýs og flær. Þessar athuganir sýna líf fólks og samfélag þeirra í nýju ljósi. Árangur umhverfisrannsókna í þágu fornleifafræðinnar er fyrst og fremst fólginn í nýrri aðferðafræði og umbótum á þessum aðferðum. Þessi fræði eru enn í mótun. En hafa ber í huga að ekki dugir að einblína á raunvísindalegar niðurstöður sem sýna breytingar eða þróun og orsakasamband milli náttúru og mannlífs, heldur þurfi einnig að þróa kenningar sem gera ráð fyrir samfélagslegum og pólitískum áhrifum breytinga eða kyrrstöðu. Vandinn liggur í fjölbreyttum möguleikum á túlkun gagnanna og reynslan á eftir að leiða í ljós að hve miklu leyti fornvistfræðin mun breyta núverandi hugmyndum um efnahag og áhrif umhverfis á hann á fyrri kynslóðir, eða staðfesta ríkjandi skoðanir sem sprottnar eru af sagnfræði og hefðbundinni fornleifafræði.

Heimildir:
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 195-198.
-Úr “Lesköflum í íslenskri fornleifafræði” – handrit – HÍ, Adolf Friðriksson tók saman – 2003.
-Hans Olof Hildebrand, Livet på Island under sagotiden, Stockhom, Joseph Seligmanns bokhandel, Jos, 1867.
-http://www.instarch.is/instarch/rannsoknir/skraning/saga/
-Daniel Bruun, Fortidsminder og Nutidshjem paa Island (2°édition), Kaupmannahöfn, Gyldendal, 1928.
-Í handriti að varnarræðu Kristjáns við doktorsvörn hans 1956 sést að hann var undir handleiðslu Johannes Bröndström hjá National Museet í Kaupmannahöfn.
-Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé 2, útg. 2000.
-Adolf Friðriksson – Leskaflar í fornleifafræði – HÍ – 2003.
-Valtýr Guðmundsson, Privatboligen paa Island I Sagatiden samt delvis I det övrige Norden, KH, 1889.
-P:E:K: Kaalund, Islands fortidslævninger, Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1882.
-Daniel Bruun, Fortidminder og nutidshjem paa Island, 1987 og 1928.
-Sigurður Línda ritstj., Saga Íslands, Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, Sögufélagið, I – 1974.
-Andrew J. Dugmore, Anthony J. Newton, Guðrún Larsen og Gordon T. Cook, Tephrochronology, Environmental Change and the Norse Settlement of Iceland, Environmental Archeaology, 2000.
-Thomas Amorsi, An Archaeofauna from Storaborg, Southern Iceland, Unpublished report on file at the National Museum and Hunter College, 1986.

Húshólmi

Minjasvæði í Húshólma.

Gálgahraun

Nokkuð hefur verið skifað um áætlað landnám hér á landi, hvort sem um er að ræða út frá rituðum heimildum eða nærtækari vísindaaðferðum, s.s. gjóskulagarannsóknum eða geislakolsgreiningum. Páll Theódórsson, Vilhálmur Örn Vilhjálmsson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, Karl Grönvold og Ingrid Olson hafa m.a. fjallað um þetta viðfangefni út frá viðkomandi fræðigreinum.

Húshólmi

Skáli í Húshólma.

Árný lýsir aldursgreiningum með geislakoli, nálgunum og leiðréttingum, s.s. trjáaldursgreiningu, sjávar- og samsætuleiðréttingum. Sjávarleiðréttingin lýtur t.a.m. að leiðréttingum upp á ein 400 ár. Aðferðin sjálf er tiltölulega einföld, en margs ber að varast, hvort sem er við öflun sýna og meðferð þeirra. Þá ber að hafa margt í huga er leitt getur til skekkjumarka. Hér verður aðferðinni ekki lýst enda auðvelt að nálgast gögn um hana í neðangreindum heimildum.
Páll segir í grein sinni að “þótt grundvallaratriði aðferðarinnar séu einföld er af sögulegum ástæðum nær ávallt farin nokkuð flókin leið til að útskýra hvernig aldur sýnir er fundinn af geislavirkni kolefnisins.” Vísindin sem slík eru ekki markmið fornleifafræðinnar heldur menningarsagan. En varpa má ljósi á söguna með aðstoð vísindanna.
Öll lífræn efni taka til sín kolefni úr andrúmsloftinu. Þegar þau deyja byrjar kolefnið að dvína. Helmingunartími þess er um 5700 ár. Þannig er hægt með varfærni og ákveðnum aðferðum að mæla áætlaðan aldur lífvera s.l. 200 til 50.000 ár og jafnvel lengur. Þótt hægt sé að greina aldur allra lífvera er öruggast að aldursgreina bein af húsdýrum og mönnum.
Tvö öskulög hafa einkum verið notuð í fornleifarannsóknum, svokallað landnámslag, sem samkvæmt C14 greiningum er talið vera frá um 890, og öskulagið H-1 eða H-1104 úr gosi í Heklu. Rannsóknir á borkjörnum í Grænlandsjökli gefa gos til kynna á þeim tíma, en einnig árið 871 (sem virðist vera hið eiginlega landnámslag). Ef það er rétt gæti þar verið komin skýringin á öskulaginu yfir mannvirkjum í Húshólma í Ögmundarhrauni, sem haf skv. því verið reist um og eftir 871.

Óbrennishólmi

Virki eða fjárborg í Óbrennishólma.

Páll telur að “vísbendingin um landnám snemma á áttundu öld sé orðin svo sterk að íslenskir fræðimenn komist ekki hjá því að taka hana alvarlega.” Tekur hann m.a. mið af uppgötvunum á aldri landnámslagsins að tilstuðlan gjóskulagafræðinnar, árhringjagreiningar, geislakolsgreiningar og frjókornarannsókna.
Ingrid Olson segir að “út fá þeirri þekkingu sem við búum við nú á dögum er mögulegt að álykta að hin hefðbundna tímasetning á landnáminu sé rétt, en líklegra er þó að upphaf landnámsins sé eldra.” Sýni, sem tekin voru við uppgröft í miðbæ Reykjavíkur og í Vestmannaeyjum, bentu við geislakolsmælingu til þess að væru eldri en sögulegar heimildir um landnám gefa til kynna. Þannig virtist landnámslagið vera yfir mannvistarleifum á þessum stöðum er aftur gæfu til kynna að landnám hafi veirð hafið hér á landi nokkuð fyrir árið 870, eða nokkru áður en “hið skráða” landnám gefur til kynna. Spurningin er bara “hversu löngu” áður? “Landnámið greinist yfirleitt eldra en söguleg hefð (874) segir til um. Ef horft er á stöðuna ein og hún lítur út í ljósi þeirrar þekkingar sem við búum yfir í dag um C14 aldurgreiningar, getur landnám mjög líklega hafa hafist einhvern tímann frá lokum 8. aldar og fram til loka 9. aldar. Nákvæmari tímasetning út frá C14 aldurgreiningum er ekki möguleg miðað við núverandi aðstæður.”
Karl Grönvold segir að “eldgossins, sem myndaði landnámslagið er hvergi getið í heimildum og því hefur nokkuð verið litið til geislakolsgreininga. Landnámslagið er auðþekkt öskulag sem fallið hefur rétt um landnám en er hvergi getið í heimildum og kemur geislakol þar nokkuð við sögu. En enginn vafi er hins vegar á því hvar lagið liggur í hinum afstæða öskulagatímaskala. Sigurður Þórarinsson fann þetta öskulag fyrst við rannsóknir sínar í Þjórsárdal en á Suðrvesturlandi er það tiltölulega auðþekkjanlegt vegna þess að það er tvílitt, hvítt og svart (dökktvígrænleitt), og kallaði Sigurður það upphaflega VII a og b. Í Grænlandsísnum reyndust vera vera tveir greinilegir leiðnitoppar, annar við 871 og hinn við 898. Það var hins vegar aldrei haldið fram sem vissa að annar þeirra ætti við landnámslagið heldur bent á það sem möguleika.”
Vilhjálmur segir að “allmargar niðurstöður, sem fengist hafa við kolefnisaldursgreiningar á sýnum á Íslandi benda til þess að landnám hafi hafist fyrr en hingað til hefur verið haldið.” og jafnframt að “löngu áður en niðurstöður sumra kolefnisaldursgreininga gátu bent til landnáms fyrir þann tíma, sem ritaðar heimildir segja til um, höfðu verið settar fram kenningar um fasta búsetu fyrir tíma hefðbundins landnáms. Hingað til hafa ekki fundist neinar fornminjar við rannsóknir eða á söfnum, sem geta bent til keltneskrar eða norrænar búsetu, miklu ledri en frá þeim tíma sem ritaðar heimildir segja til um. Fornleifarannsóknir, fornminjar og aldursgreiningar á Íslandi geta þó á núverandi stigi bent til eldra landnáms á Íslandi en hins norræna í lok 9 aldar.”

Af framangreindu má sjá að með frekari rannsóknum má vænta óvæntra tíðinda er varpað geta með meiri nákvæmni en áður á landnám hér á landi.
Í ljósi alls þessa skýrist sú varfærni þegar komist er að orði í eftirfarandi kynningu um fornleifarnar í Aðalstræti í miðborg Reykjavíkur: “Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.” Hér er ekkert minnst á “hið fyrsta landnám” í Reykjavík, enda óljóst að svo hafi verið ef tekið er mið af vísindalegum niðurstöðum.
Svo virðist sem nefndur Ingólfur, sem hampað hefur verið sem “hinum fyrsta landnámsmanni” og settist að í Reykjavík, hafi komið á eftir ýmsum öðrum, sem hér höfðu dvalið um allnokkurt skeið, enda virðist það bæði staðfest af ýmsum örnefnum sem og þeim minjum, sem einn á eftir að skoða, ekki síst á Reykjanesskaganum og á sunnanverðum Austfjörðum. Alla jafna hafa fornleifar verið rannskaðar á stöðum með sögulegar skírskotanir. Ef horft yrði framhjá skráðum heimildum og einungis tekið mið af þeim minjum, sem vitað er um og þekktar eru af staðkunnugum um land allt, er ekki ólíklegt að ýmislegt gæti komið þar fram er varpað gæti ljósi á upphafið og tilurð þess – með aðstöð vísindalegra möguleika.

Heimildir:
-Páll Theódórsson. 1997. Aldur landnáms og geislakolsgreiningar. Skírnir, 171. 92-109.
-Páll Theódórsson. 1992. Aldursgreining með geislakoli. Takmarkanir og möguleikar. Árbók hins íslenska fornleifafélags. 59-75.
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. 1990. Kolefnisaldursgreiningar og íslensk fornleifafræði. Árbók fornleifafélagsins. 35-70.
-Árný Erla Sveinbjörnsdóttir. 1996. Aldursgreiningar með geislakoli. Um landnám Íslands (ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir). Vísindafélag Íslendinga. Ráðstefnurit V. Bls. 59-75.
-Ingrid Olson og Erla Vilmundardóttir. 2000. Landnám Íslands og C14 aldursgreiningar. Skírnir, 174. 119-149.
-Karl Grönvold. 1995. Öskulagatímatalið, geislakol, ískjarnar og aldur fornleifa. Nokkrar athugasemdir við skrif Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar. Árbók hins íslenska fornleifafélags. 163-184.

Einihlíðar

Landnámsmaður í Einihlíðum.

ísólfs

Eftirfarandi eru friðlýstar fornleifar og minjastaðir á Reykjanesskaganum:

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Þingvellir, Alþingisstaðurinn forni. Þar var Alþingi Íslendinga háð frá því um 930 til ársins 1798. Á Þingvöllum eru friðlýstar allar þingbúðarústir og aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað beggja vegna Öxarár ásamt rústum fornra býla. Þingvellir er fyrsti þjóðgarður Íslendinga frá árinu 1928.

Þingnes gengur fram í Elliðavatn, fyrir ofan Reykjavík. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir. Tilgátur erum að Kjalarnesþing hafi verið háð þar.

Herdísarvík. Allar fornleifar á jörðinni Herdísarvík voru friðlýstar 1977. Þar er að finna fiskigarða, verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshús og önnur útihús. Þar eru líka leifar af rústum sels í Seljabót.

Selatangar

Selatangar.

Selatangar. Rústir fornrar verstöðvar á milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Þar var útræði á vegum Skálholtsstóls fyrr á öldum.

Básendar á Suðurnesjum var verslunarstaður sem fór í eyði í mesta sjávarflóði sem sögur fara af aðfaranótt 9. janúar 1799. Þar eru greinilegar leifar kaupstaðarins og hafnarinnar. Roskin kona drukknaði í hamförunum og kaupmaðurinn danski varð gjaldþrota.

Bessastaðir

Bessastaðir – FERLIRsfélagar í heimsókn.

Bessastaðir á Álftanesi eru fornt höfuðból. Fornleifarannsóknir á árunum 1987 til 1996 leiddu í ljós mikla byggð allt frá 10. öld. Þar var aðsetur fulltrúa konungs frá 14. öld til loka 18. aldar. Þar hafa ríkisstjóri og forsetar Íslands setið frá 1941 og er forsetabústaðurinn á Bessastöðum eitt elsta hús á Íslandi, reist sem amtmannssetur úr steini á árunum 1761-1766.

Bessastaðakirkja var reist á árunum 1777-1823. Bessastaðaskans er norðarlega á Bessastaðanesi við Dugguós (heitir nú Bessastaðatjörn). Þar var hlaðið virki til varnar í Tyrkjaráni 1627.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – fyrirmyndar frágangur eftir uppgröft.

Hofstaðir í Garðabæ. Þar hafa verið grafnar upp rústir myndarlegs skála frá 10. til 12. Aldar með stóru hringlaga gerði. Ýmsir merkilegir gripir fundust við fornleifarannsóknina, m.a. bronsnæla. Á Hofsstöðum er nú minjagarður um hina fornu byggð.

Kapella. Kapelluhraun er milli Hafnarfjarðar og Straums. Árið 1950 fannst þar við uppgröft líkneski frá 15. Öld af heilagri Barböru og bendir það til að þar hafi verið bænastaður í kaþólskum sið. (Lambhagi. Kapellutóft forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938).

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Kópavogsþingstaður. Einn af fjórum þingstöðum í Gullbringusýslu var Kópavogur. Þar hafa verið gerðar fornleifarannsóknir. Við Kópavogsþingstað er minningarsteinn um Kópavogseiðana árið 1662. (Þinghússtóft syðst á túninu og fangakofatóftir skamt frá. 2. Dysjar austan túns, nefndar Hjónadysjarnar og Systkinaleiðin. Sbr. Árb. 1929: 29-33. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 16.11.1938).

Af húsum í umsjá Þjóðminjasafnsins má nefna:

Seltjarnarnes

Nesstofa.

Nesstofa við Seltjörn. Fyrsti íslenski landlæknisbústaðurinn, hlaðinn úr tilhöggnu grjóti á árunum 1761-63. Þar var einnig fyrsta opinber lyfsala á Íslandi. Höfundur húsins er danski hirðsteinsmiðurinn Jacob Fortling. Í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1979. Í húsinu er læknaminjasafnið Nesstofusafn.

Krýsuvíkurkirkja. Turnlaus timburkirkja, reist 1857 af Beinteini Stefánssyni smið. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64. Í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1964.

Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands – 2004.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.