Bessastaðir

“Fornleifauppgrefti á Bessastöðum, vegna framkvæmda sem þar eiga að fara fram, er nú senn að ljúka (18. september, 1991). Verkið hefur staðið í tvö ár með hléum og hafa fundist leifar um mannvist undir gjóskulagi frá því seint á 9.öld. Fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Guðmundur Ólafsson hafa stýrt rannsóknunum.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Fornleifarannsóknir hófust á Bessastöðum árið 1987 þegar verkamenn sem unnu við viðgerðir á gólfi Bessastaðastofu komu niður á húsarústir. Leiddi rannsókn í ljós að hér væri um konungsgarð að ræða, þ.e.a.s. bústað æðsta embættismanns konungs, og voru rústirnar varðveittar í kjallara Bessastaðastofu þar sem þær eru almenningi til sýnis.

Bessastaðir

Bessastaðir – fyrirhuguð uppbygging.

Tveimur árum seinna var ákveðið að endurbyggja staðinn en í kjölfar þeirrar ákvörðunar var Þjóðminjasafninu falið að rannsaka þann hluta lóðarinnar sem yrði fyrir hnjaski vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Hafa þessar rannsóknir að sögn Sigurðar Bergsteinssonar staðið með hléum frá árinu 1989 en þeim lýkur sennilega eftir tvo til þrjá mánuði. Sigurður segir að komið hafi verið niður á rústir alls staðar þar sem borið hefði verið niður. Væru þær elstu frá því snemma á miðöldum (10.öld) en leifar hefðu fundist allt til dagsins í dag.

Bessastaðir

Þá sagði hann að leifar eftir mannvist hefðu fundist undir svokölluð landnámslagi sem er gjóskulag frá því seint á 9. öld. Væri um að ræða móösku og torfusnepla en hvorki hefðu fundist hlutir né leifar af byggingum. Af þeim sökum væri ekki hægt að slá neinu föstu um búsetu fólks á staðnum enda væri ekki getið um landnámsbæ á Bessastöðum í Landnámu. Leifar hafa fundist undir landnámslagi í Suðurgötu í Reykjavík og Vestmannaeyjum.

Bessastaðir

Undir Bessastaðastofu.

Í samtali við Sigurð kom fram að fáir hlutir hefðu fundist í rústunum. Þó nefndi hann sem dæmi að fundist hefði snældusnúður frá því á miðöldum og fjögur sáför (stór matarílát grafin í gólf). Árið 1987 fundust á Bessastöðum meðalaglös frá því á 18. öld þegar Apótek Íslands var staðsett þar um tíma. Leifar frá skólahaldi hafa einnig fundist á Bessastöðum, meðal annars skriftarspjöld skólapilta.”
Sjá meira
HÉR og HÉR.

Heimildir:
-MBL miðvikudaginn 18. september, 1991 – Innlendar fréttir
-Bessastaðir: Leifar um mannvist frá því á 9. öld – Sigurður Bergsteinsson.

Bessastaðir

Bessastaðir.