Færslur

Lækjargata

Grjóthleðsla og torf, sem fannst við framkvæmdir nýs hótels á lóð Íslandsbanka við Lækjargötu, er talið vera ummerki eftir torfbæinn Lækjarkot sem byggður var árið 1799 og var fyrsta íbúðar­húsið sem reist var á þessum slóðum.

Lækjarkot

Uppgraftarsvæðið við Lækjargötu.

Bærinn á sér merka sögu, af honum eru til teikningar og málverk frá fyrri árum og Kristján konungur IX. kom þar inn í Íslandsheimsókn sinni 1874, að því er fram kemur í umfjöllun um uppgröft þennan í Morgunblaðinu.
Sýni voru tekin á svæðinu og eru þau nú til rannsóknar hjá Fornleifastofnun. Sé um bæinn að ræða, er líklegt að svæðið verði rannsakað og grafið upp, að mati Lísabetar Guðmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Fornleifastofnun Íslands.

Fornleifagröftur við hornið á Lækjargötu og Vonarstræti, sem hófst í maí síðastliðnum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar, hefur leitt í ljós það sem virðist vera skálabygging frá tímum landnáms. Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, sem stýrir uppgreftrinum, segir þennan fund breyta miklu um það sem við töldum okkur vita um byggðasögu Reykjavíkur.

Aðalstræti

Skálar í Aðalstræti.

„Við höfum náttúrulega vitað um þessa elstu byggð í Reykjavík þar sem Aðalstrætið er,“ segir Lísabet, en þær bæjarrústir komu í ljós við uppgröft á áttunda áratugnum. „Við töldum okkur vita að aðalbyggðakjarninn hafi verið á því svæði, en okkur bara datt ekki í hug að það væri eitthvað þarna við Lækjargötuna. Og það var eiginlega það sem var svolítið skemmtilegt.“

Áfram var grafið í sólinni í dag.Vísir/Andri MarinóUppgröfturinn átti upphaflega að taka um fjórar vikur en sú áætlun breyttist skiljanlega þegar skálinn fannst í síðasta mánuði. Fyrir var vitað að bærinn Lækjarkot, sem byggður var árið 1799, hafði staðið á lóðinni, sem og timburhús sem reist var árið 1887.

„Þegar við vorum búin að klára að grafa þær byggingar upp, þá var náttúrulega slatti eftir,“ segir Lísabet.
Lækjarkot.„Það var með svona ofsalega flottu landnámstorfi í veggjum, þannig að það virtist vera frekar gamalt. Við erum náttúrulega ekki komin með aldurinn á hreint ennþá,en það kemur bara þegar við förum í úrvinnsluna.“

Lísabet segist búast við því að uppgröfturinn muni standa yfir í um tvær til þrjár vikur til viðbótar. Hún telur ekki líkur á að áform um hótelbyggingu raskist nokkuð vegna fundarins en segir viðræður þegar hafnar við framkvæmdaraðila um varðveislu grjóts, hellna og varðeldar úr skálanum.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/06/merkur_baer_ur_felum_vid_laekjargotu/
-https://www.visir.is/g/2015314513d
-http://www.torfbaeir.com/Tomthus/T-Laekjarkot.html

Lækjarkot

Mynd Jóns Helgarsonar af Reykjavík árið 1836, trúlega máluð nálægt 1890. Lækjarkot sést lengst til vinstri á myndinni suðaustan við Dómkirkjuna. Efst á myndinni má sjá Hlíðarhús og torfbæi i Grjótaþorpi og við Vesturgötu. Lækjarkot var reist árið 1799 austast á Austuvelli. Runólfur forstjóri Innréttinganna bjó þar en drukknaði í Tjörninni 1811 “aðeins mjög lítið drukkinn” samkvæmt annálum. Meðal seinni ábúenda má nefna Þórð malakoff, sem var um margt sérkennilegur og bjó þar um 1870. Bærinn var rifinn árið 1887. Bærinn stóð þar sem nú er Lækjargata 10a sem er óbyggð lóð í dag. Fornleifauppgröftur árið 2015 sýndi ekki aðeins merki um bæinn Lækjarkot heldur einnig áður ókunnan landsnámsbæ.

Reykjanesskagi

Þegar forleifaskráningar einstakra svæða eru skoðaðar mætti ætla að forfeður og -mæður hefðu farið í þyrlum frá einum stað til annars því sjaldnast er þar getið um vegi, götur eða leiðir þeirra á millum.

Kristborg Þórsdóttir

Kristborg Þórsdóttir.

Í grein Kristborgar Þórsdóttur,í riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2012 má m.a. lesa eftirfarandi um “Fornar leiðir á Íslandi: tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu”:
“Landslag Íslands er afar fjölbreytt. Það hefur vafalaust mótað Íslendinga og haft mikil áhrif á það hvernig þeir ferðuðust og höfðu samskipti hver við annan. Strax eftir komu manna hingað til lands hafa þeir þurft að sigrast á helstu farartálmunum og finna hentugar leiðir milli sveita og landshluta.

Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur samgöngukerfið verið í stöðugri þróun. Það hefur smám saman þéttst eftir því sem íbúunum fjölgaði og línur skýrst eftir því sem búseta, valdamiðstöðvar og stofnanir festust í sessi.

Reykjanes - fornar leiðir

Reykjanesskagi – fornar leiðir (ÓSÁ).

Þær leiðir sem Íslendingar hafa þrætt í gegnum aldirnar geyma fjölbreytilegar og mikilvægar upplýsingar um heim fortíðar, hvernig fólk hefur sigrast á hindrunum í vegi sínum, hvert farið var og í hvaða tilgangi.
Rannsóknum á fornum leiðum á Íslandi hefur hingað til verið lítið sinnt. Leiðir hafa ekki verið skráðar nægilega markvisst eða skipulega en það má að hluta til rekja til skorts á hentugri aðferðafræði við öflun gagna og úrvinnslu þeirra. Þetta efni hefur þó ekki verið hundsað með öllu og hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir, bæði af fornleifafræðingum og sagnfræðingum, sem lúta að leiðum og samgöngum fyrri alda.

Reykjanes

Reykjanes og Rosmhvalanes – fornar leiðir (ÓSÁ).

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvaða ávinning má hafa af því að skrá leiðir með skipulegum og samræmdum hætti og hvaða rannsóknir er hægt að gera sem byggja á skráningunni. Augljóst er að leiðir á að skrá eins og aðrar fornminjar. Þær eru áhugaverðar í sjálfu sér og jafnréttháar öðrum fornminjum. Það sem leiðir geta sagt okkur um fortíðina er margþætt þar sem þær hafa tengt öll athafnasvæði manna og ættu að endurspegla mikilvægi áfangastaða og breytingar á því. Samgönguminjar á leiðum eru spennandi rannsóknarefni og er hægt að kanna gerð þeirra og aldur.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Við höfum litla vitneskju um hvernig samgöngumannvirki voru gerð og úr hverju, hverjir stóðu fyrir framkvæmdum við þær og hverjir unnu við þær. Rannsóknir á leiðum geta hjálpað okkur við að finna svör við spurningum á borð við: Hvernig endurspeglar samgöngukerfið völd? Hvert var fólk að fara og til hvers?
Hvernig hafa breytingar á loftslagi og landslagi breytt samgöngukerfinu? Hvernig hefur gerð og viðhald vega og samgöngumannvirkja breyst í gegnum tíðina?
Rannsóknir á samgöngum fyrri alda má byggja á heildstæðu gagnasafni um allar þekktar leiðir og vísbendingar um þær. Slíkt gagnasafn verður ekki til nema með því að taka aðferðir við skráningu fornra leiða til gagngerrar endurskoðunar.

Vegagerð

Vegagerð.

Leiðir eru flóknar minjar og ýmsar ástæður eru fyrir því að þær hafa ekki verið skráðar með fullnægjandi hætti. Leið er minjastaður á sama hátt og sel og þingstaður að því leyti að henni tilheyra ýmsar staðbundnar minjar sem geta haft ólík hlutverk og verið ólíkar að gerð. Leið er hins vegar ólík flestum öðrum minjastöðum að því leyti að hún er línuleg og teygir sig oft um mjög langa vegu, yfir margar jarðir, auk þess sem hún er oft illgreinanleg eða ósýnileg á löngum köflum. Um leiðir ættu þó að gilda sömu reglur og um aðra minjastaði. Svo virðist sem í flestum tilfellum séu leiðir ekki skráðar sem minjastaðir, heldur séu staðbundnar samgönguminjar sem eru hluti af tilteknum leiðum skráðar innan hverrar jarðar. Það virðist ekki vera algengt að þessar minjar séu tengdar við skilgreindar leiðir og eru þær því teknar úr samhengi við minjastaðinn – leiðina.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða. framundan.

Ekki er vænlegt til árangurs að búta minjar sem ná yfir fleiri en eina jörð niður eftir landamerkjum og hengja þær á jarðirnar sem þær tilheyra því að það gefur ranga mynd af fjölda minja í landinu og slítur þær úr samhengi við aðrar minjar sem þær tengjast. Það á einnig við um minjar sem ná yfir sýslumörk.
Hverskonar staðbundnar minjar eru til vitnis um samgöngur? Fljótt á litið virðast samgönguminjar á Íslandi vera harla fátæklegar; vörður á stangli, óljósar götur og leifar af kláfferju eða gamalli brú. En hvers konar minjar er hægt að telja til samgönguminja? Þær minjar sem tengjast samgöngum á sjó eru fyrst og fremst hafnir, lendingar og siglingamið. Þær minjar sem eru til vitnis um samgöngur á landi eru vörður sem vísa veg, götur, upphlaðnir og ruddir vegir, brýr af öllum gerðum, göngugarðar, ferjustaðir, vöð, traðir og þannig mætti áfram telja.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn – með vegvísi til norðurs.

Þetta eru ekki svo fáir minjaflokkar þegar nánar er að gáð. Það sem gerir það að verkum að samgönguminjar virðast vera fátæklegar er að þær eru sjaldan mjög sýnilegar, þær eru brotakenndar og strjálar. Sumar þessara minja eru ekki mannvirki (t.d. götur, vöð og ferjustaðir) og getur það gert skráningarmönnum erfitt fyrir þar sem oft sést lítið til slíkra minja.
Fornleifar eru oft óhlutbundnar í þeim skilningi að engin mannaverk eru sýnileg á þeim. Slíkar fornleifar eru staðir sem hafa menningarlega tengingu vegna þess að þar hafa átt sér stað ákveðnir atburðir, endurteknar athafnir, þar hafa ákveðin verk verið unnin eða þeim fylgir trú eða sögn.
Aðrar minjar sem tengjast samgöngukerfinu og geta gefið vísbendingar um ferðalög og legu leiða verða hér einnig taldar til samgönguminja.

Hvað er leið?

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjáselsstígur.

Forsenda þess að hægt sé að fjalla um fornar leiðir og skráningu þeirra á marktækan hátt er að hafa skýra skilgreiningu á því hvað fyrirbærið leið er og hvaða leiðir teljast til fornleifa. Í víðasta skilningi er það leið sem farin er milli tveggja staða þó hún sé ekki farin nema af einum manni í eitt skipti.
Leiðir sem skráðar eru sem fornleifar þurfa þó að uppfylla fleiri skilyrði. Hlutverkið leið er í leiðbeiningum um fornleifaskráningu skilgreint þannig: Leið er hverskyns skilgreinanleg leið milli tveggja staða sem farin var að jafnaði.
Lykilhugtök í þessari skilgreiningu eru skilgreinanleg leið, milli tveggja staða, farin að jafnaði. Hlutverkið leið sem þessi skilgreining á við er oftast notað þar sem tegund er annaðhvort heimild eða gata/vegur, þ.e. þar sem sýnileg ummerki um umferð hafa myndast eða verið gerð af mönnum og gefa til kynna að leið hafi verið farin reglulega um nokkurt skeið.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur á brún Stakkavíkurfjalls.

Leið þarf að vera skilgreind sem slík af einhverjum og þarf þá að vera heimild um slíkt, munnleg, rituð eða á korti. Leiðin þarf að liggja milli tveggja staða og tengja þá. Leið getur varla talist fornleif nema hún sé farin oftar en einu sinni; að það hafi verið venjan að fara tiltekna leið þegar farið var milli staðanna sem hún tengir hvort sem það hafi verið oft eða sjaldan, af mörgum eða fáum. Orðalagið að jafnaði er helst til loðið en verður látið duga enn um sinn.
Þær leiðir sem talist geta til fornleifa eru leiðir sem farnar voru fótgangandi og ríðandi fyrir tíð bílsins og mannvirkja tengdum honum. Þessi mörk geta verið óskýr þar sem fyrstu bílvegirnir voru oft á lítið breyttum leiðum sem áfram voru farnar á gamla mátann eftir komu fyrstu bílanna.
Leiðir þurfa ekki að vera sýnilegar og þær þurfa ekki að hafa verið farnar oft til að geta talist til fornleifa.

Selvogsgata

Selvogsgata undir Setbergshlíð.

Til þess að hægt sé að skrá fornar leiðir þarf samt eitthvað að gefa vísbendingu um þær. Vísbendingarnar geta verið ýmist á kortum, í rituðum eða munnlegum heimildum, sýnilegar slóðir eða mannvirki á leiðunum. Ef leiðar er getið í heimildum á þann hátt að legu hennar er lýst, staðirnir sem hún tengir eru nefndir eða nafns hennar er getið, er um skilgreinda leið að ræða sem telja ætti til fornleifa.
Þegar það sem hér hefur verið sagt er dregið saman er niðurstaðan sú að leiðir sem talist geta fornleifar eru leiðir sem farnar voru að jafnaði af ríðandi og fótgangandi fólki fyrir tíð bílsins og a) eru skilgreindar sem slíkar í heimildum eða af heimildamanni þannig að þeirra er getið með nafni, legu þeirra er lýst eða staðir nefndir sem leiðirnar tengja eða b) er hægt að skilgreina sem slíkar út frá sannfærandi minjum og staðháttum.

Hvernig eru leiðir ólíkar öðrum fornleifum?

Méltunnuklif

Gamli Krýsuvíkurvegur – Méltunnuklif.

Leiðir eru samkvæmt ofansögðu að miklu leyti huglæg fyrirbæri. Miðað við hversu víða leiðir liggja er mjög lítill hluti þeirra manngerður. Það sem greinir leiðir frá mörgum öðrum fornleifum er að innan þeirra eru minjar – minjar sem tilheyra leiðinni, minjar innan minjanna. Hægt er að segja að leiðir eigi þetta sameiginlegt með t.d. seljum og bæjarhólum en þeir minjastaðir eru mjög afmarkaðir í rúmi og auðveldara að sjá þá í samhengi.
Leiðir geta hins vegar teygt sig um langan veg og erfitt er að hafa yfirsýn yfir leiðir í heild ef þær eru ógreinilegar og flóknar.

Flokkun leiða

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Gagnlegt er að skoða orðanotkun um samgöngur í gömlum heimildum til þess að átta sig á skilningi þeirra sem á undan hafa farið á leiðum og flokkun þeirra.
Líklegt er að orðið gata hafi verið notað um slóðir og troðninga sem myndast hafa milli bæja fyrst eftir landnám Íslands. Þetta orð hafði mjög almenna merkingu, það gat táknað troðninga eftir skepnur, en það var einnig notað um slóðir og stíga sem urðu til af umferð manna í samsetningum á borð við alþýðugata, almenningsgata, reiðgata o.s.frv. Á þjóðveldistímanum virðist orðið braut vera notað um rudda eða hlaðna vegi, sbr. þjóðbraut og akbraut en einnig í örnefnum á borð við Brautarholt. Orðið vegur er hins vegar ekki mikið notað um götur fyrr en í Jónsbók en til forna hefur það oftast verið notað í almennri merkingu; koma um langan veg, vegalengd. Orðið leið er að sama skapi notað í almennri merkingu; fara sína leið.

Alfaraleið

Alfaraleið um Draugadali.

Snemma hefur verið farið að gera greinarmun á leiðum sem voru fjölfarnar og almennar og þeim sem sjaldnar voru farnar. Fyrrnefndu leiðirnar voru kallaðar þjóðleiðir í merkingunni alfaraleið. Einnig voru höfð um alfaraleiðir orðin þjóðbraut, þjóðgata, þjóðvegur eða almannavegur. Þessi orðnotkun hefur haldist óbreytt og hafa þessi orð lengi verið notuð um helstu vegi innan héraða og milli þeirra.

Skipsstígur

Skipsstígur – endurbættur skv. “nútíma” kröfum.

Í Jónsbók (2004) er kveðið á um það hvernig þjóðgata eigi að vera en hún átti að vera 5 álna breið (um 3 m) og vera þar sem hún hafði verið að fornu fari. Með réttarbót Eiríks Magnússonar frá 1294 varð það hlutverk lögmanna og sýslumanna að ákveða hvar almannavegur var mestur (þjóðgata) og áttu bændur að vinna við að gera þær leiðir færar.

Flokkun leiða í lögum á 18. og 19. öld
Af heimildum að dæma virðist lítið hafa farið fyrir opinberum afskiptum af samgöngumálum á Íslandi fyrr en seint á 18. öld er svokölluð Landsnefnd sem skipuð var af Danakonungi árið 1770 lagði grunninn að tilskipun um samgöngur sem var gefin út af konungi árið 1776.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn.

Í þessari tilskipun er vegum skipt í byggðavegi og fjallvegi (Lovsamling for Island IV, 1854). Mönnum var skylt að vinna við vegabætur án kaups og var vinnukvöðin mjög misjöfn eftir því hversu mikil umferð var á hverjum stað (Lovsamling for Island IV, 1854). C.E. Bardenfleth stiftamtmaður flutti frumvarp um vegabætur árið 1839 þar sem hann leggur til að vegir skuli flokkaðir í þjóðbrautir (lestavegi) og aukavegi (stigu). Einn þjóðvegur (þjóðbraut) átti að vera um hverja sýslu og áttu allir sýslubúar að vinna við þjóðvegi.

Breiðagerði

Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu er vegagerðin skráð sem “garður”?

Þetta fyrirkomulag átti að jafna vinnukvöð manna óháð því hvar þeir voru í sveit settir (Tíðindi frá nefndarfundum íslenzkra embættismanna í Reykjavík árin 1839 og 1841). Skipting Bardenfleths í þjóðvegi og aukavegi var tekin upp í tilskipun um vegi 15. mars 1861. Þjóðvegur var skilgreindur sem leið sem íbúar eins eða fleiri héraða fóru um í kaupstað, fiskiver eða annan samkomustað manna. Einnig áttu alfaravegir milli sýslna (þó ekki væru fjölfarnir) og almennir póstvegir að teljast þjóðvegir (Lovsamling for Island VIII, 1854). Í kjölfar vega tilskipunarinnar frá 1861 urðu fjallvegir að mestu útundan þar sem ekki var gerður greinarmunur á þeim og vegum í byggð og minni ástæða þótti að gera bætur á þeim en byggðavegum (Alþingistíðindi II 1875).

Bollastaðir

Bollastaðir í Kjós – atvinnubótavegabútur án áframhalds.

Í stað vinnukvaðar við þjóðvegi greiddu menn nú þjóðvegagjald og vinnu við þjóðvegi átti að bjóða út (Lovsamling for Island VIII, 1854). Við það að vinnukvöðinni var aflétt við þjóðvegi varð ákveðin tilhneiging í þá átt að fleiri vegir væru flokkaðir með þjóðvegum en áður þar sem kostnaður við þá var greiddur af almannafé en áfram var vinnukvöð á aukavegum (Alþingistíðindi II 1875).
Áfram var skilgreiningum á leiðum breytt og því hver skyldi standa straum af kostnaði við vegaframkvæmdir. Með lögum frá 1875 var vegum skipt í fjall- og byggðavegi og þeim síðarnefndu í sýsluvegi og hreppavegi. Sýsluvegir hétu þeir vegir sem lágu milli sýslna og voru í það minnsta hálf þingmannaleið. Einn sýsluvegur átti að vera um hverja sýslu og ef sýslur voru víðlendar skyldu þeir jafnvel vera tveir.

Svínaskarðsvegur

Svínaskarðsvegur.

Fjallvegir töldust þeir vegir sem lágu milli landsfjórðunga eða sýslna og voru þingmannleið eða lengri. Kostnað við fjallvegi greiddi Landssjóður en vinna við alla byggðavegi var nú greidd af almannafé og síðar einnig með framlögum frá Landssjóði (Alþingistíðindi II 1875, 1875-1876). Í aðalatriðum hélst þessi skipting næstu árin og fram á 20. öld en með lögum 1894 var vegum skipt í fjallvegi, flutningabrautir (helstu vöruflutningaleiðir héraða), þjóðvegi (aðalpóstleiðir), sýsluvegi og hreppsvegi (Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1894 A, 1874).
Stöðugar endurskilgreiningar á leiðum og endurmat á mikilvægi þeirra orsakaðist af því að mikill kostnaður fór í vegabætur og vegagerð og vanda þurfti valið á þeim leiðum sem úthlutun fengu úr sjóðum.

Orðanotkun um leiðir í Sýslu- og sóknalýsingum

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Í Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenzka bókmenntafélags sem safnað var á árunum 1839-1873 er spurt um samgöngur í sýslum og sóknum landsins. Var spurningin um samgöngur í sóknum á þessa leið: Hvar liggja alfaravegir um sóknina og úr henni í aðrar sóknir á alla vegu (fjallvegalengd eftir ágizkun)? – Vegabætur: ruðningar, brýr, vörður, sæluhús o.s.frv.? – Torfærur: hvernig þeim sé varið, og hvort úr þeim verður bætt (áfangastaðir á fjallvegum)? Hverjir bæir standa næstir fjallvegum báðum megin?
Svipuð spurning um alfaravegi í sýslum og úr þeim í aðrar var lögð fyrir sýslumenn. Hér er orðið alfaravegur notað og mun það hafa verið almennt hugtak um leið sem farin var af mörgum. Líklegt er að það nái að minnsta kosti yfir þær leiðir sem flokkaðar eru til þjóðvega í tilskipun um vegi frá 1861 enda er það nokkuð víð skilgreining.

Almenningsvegur

Almenninsgvegurinn um Vatnsleysuströnd.

Lausleg athugun á hugtakanotkun um vegi í sóknalýsingum nokkurra sýslna leiddi í ljós að flestir tala um alfaravegi (enda spurt um þá) eða almannavegi og leggja þá oft að jöfnu við þjóðvegi. Aðrir gera greinarmun á alfaravegi og þjóðvegi en það kann að vera af því að frá 1861 eru í gildi lög þar sem skýrt er kveðið á um hvaða vegir skuli kallast þjóðvegir. Á a.m.k. einum stað (Lýsing Árnessóknar, 1952) er dregið í efa að leið sem farin er af fáum öðrum en sóknarmönnum geti kallast alfaravegur.
Það virðist því hafa verið svipaður skilningur milli manna á hugtakinu alfaravegur – að það hafi verið fjölfarin og almenn leið íbúa eins eða fleiri héraða.”

Framangreind skrif eru ágætt innlegg í umræðuna um mikilvægi samgangna fyrrum sem og varðveislu þeirra sem fornminja til framtíðar.

Heimild:
Kristborg Þórsdóttir. “Fornar leiðir á Íslandi: tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu, rit Fornleifafræðingafélags Íslands 2012, bls. 34- 47.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Hellisheiði

“Frá örófi alda gengu menn að mestu þangað sem þeir þurftu að fara, það má því segja að tveir jafnfljótir hafi verið fyrsta samgöngutæki mannkynsins. Svo var farið að nýta hesta og önnur dýr til að bera menn á milli staða og loks komu annarskonar samgöngutæki, svo sem hestvagnar og bílar komu enn síðar.

Fornagata

Fornagata í Selvogi – hluti leiðar.

Eitt af sérkennum samgangna á Íslandi er að það urðu almennt ekki til vegir sem gátu annað umferð vagna fyrr en fyrir rúmri öld síðan. Á meðan að góðir, vagnfærir vegir voru í nánast öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, voru hér troðningar sem eingöngu voru færir gangandi og ríðandi umferð.
Vegir sem hlykkjuðust á milli hrauntraða eða þræddu sig eftir þægilegustu leiðinni á milli bæja. Stærri flutningar, sem ekki var hægt að flytja á hestbaki, fóru nánast alfarið fram á sjó.
Fyrsti grunnur að skipulagðri vegagerð á Íslandi varð til með tilskipun árið 1861. Það var svo árið 1904 sem fyrst var hafist handa við að leggja það sem kallast gæti akvegur til Suðurnesja, en það var ekki fyrr en árið 1912 sem Suðurnesjavegurinn var tilbúinn og hægt var að fara með hestvagn frá Reykjavík til Keflavíkur.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu. Fyrsti vagnvegurinn milli Hafnarfjarðar og Voga.

Ári síðar tókst að koma bíl eftir þeim vegi í fyrsta sinn. Allt fram að því voru ekki vagnfærir vegir sem heitið gat á milli byggðarlaga á Íslandi þrátt fyrir rúmlega þúsund ára búsetu.
Út um allar jarðir má finna gamlar götur sem lágu um langan eða skamman veg, sumar voru á milli húsa og til nausta og selja, meðan aðrar lágu á milli landshluta. Á Reykjanesskaganum er margar slíkar götur að finna, en þar liggur ein megingata, í daglegu tali kölluð almenningsvegurinn, meðfram sjónum að norðanverðu og Krýsuvíkurleiðin að sunnanverðu. Það er þó ekki svo einfalt að einungis sé um tvær götur að ræða því að net gönguleiða liggur um öll Suðurnes. Í raun má skipta þessum gömlu götum í tvennt, annars vegar eru það götur sem urðu til á milli bæja og upp til selja. Hins vegar eru verleiðir, götur sem lágu á milli verstöðva víðsvegar um nesið. Þegar skoðuð eru kort af þessum gömlu götum sem lágu á milli verstöðva virðast þær flestar liggja til Grindavíkur.

Kristborg Þórsdóttir

Kristborg Þórsdóttir.

Í ritverkinu “Fornar leiðir á Íslandi” skilgreinir Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur, meðal annars að gömul leið sé „Leið [sem] er hverskyns skilgreinanleg leið milli tveggja staða sem farin var að jafnaði“.
Kristborg segir í grein sinni hvaða skilyrði leið þurfi að uppfylla til þess að teljast til fornleiða. Þær leiðir sem talist geta til fornleiða eru leiðir sem farnar voru fótgangandi og ríðandi fyrir tíð bílsins og mannvirkja tengdum honum. … Leiðir þurfa ekki að vera sýnilegar og þær þurfa ekki að hafa verið farnar oft til að geta talist til fornleiða. Til þess að hægt sé að skrá fornar leiðir þarf samt eitthvað að gefa vísbendingu um þær. Vísbendingarnar geta verið ýmist á kortum, í rituðum eða munnlegum heimildum, sýnilegar slóðir eða mannvirki á leiðunum. Ef leiðar er getið í heimildum á þann hátt að legu hennar er lýst, staðirnir sem hún tengir eru nefndir eða nafns hennar er getið, er um skilgreinda leið að ræða sem telja ætti til fornleifa. Ekki er hægt að skrá leið sem byggir eingöngu á vitnisburði um stakar samgönguminjar án þess að sjá hvert leiðin hefur legið – milli hvaða staða.
Minjarnar gefa til kynna að þær séu hluti af arfleifð.”

Heimild:
-Helgi Valdimar Viðarson Biering, MA ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun – Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga. Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir. HÍ 2024.
-www.ferlir.is
-Kristborg Þórsdóttir. “Fornar leiðir á Íslandi; tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu, rit Fornleifafræðingafélags Íslands. (2012).

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu ofan Grindaskarða.

Hólmsborg

Selin á Reykjanesskaganum, mannvirki þeim tengdum og leiðir að þeim teljast til fornleifa.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Á heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands á Netinu er m.a. fjallað um fornleifar. Þar segir að “fornleifar séu efnislegar minjar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðirnar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?

Húshellir

Í Húshelli.

Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.

Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t. d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur.

Garðastekkur

Garðastekkur – fjárborg.

Á bak við allar fornleifar liggur ákveðin hugmyndafræði og segja má að oftast sé það hin ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins hverju sinni. Hús átti að byggja á ákveðinn hátt, úr ákveðnum efnum og á ákveðnum stöðum. Þessir þættir stýrðust af hugmyndafræðinni og var ekki sjálfgefið að ætíð hafi verið byggt á sem bestan máta, bestu efnin notuð eða besta staðsetningin valin. Inn í myndina komu hefðir og hugmyndir sem voru afrakstur aldalangrar aðlögunar og reynslu. Reynslan var sótt í umhverfið og hugarfylgsni mannanna svo sem trúarlegar hugmyndir og jafnvel hindurvitni ýmiskonar. Allt þetta er falið í fornleifunum.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju.

Eins er dreifing fornleifa í landslaginu ekki afleiðing tilviljana, heldur lágu þar að baki ákveðnar reglur og venjur samfélagsins. Því eru fornleifar einnig vitnisburður um þessa hluti”.

Hvaleyrarvatn

Beitarhús í Húshöfða við Hvaleyrarvatn.

Ef við tökum sem dæmi fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum. Jófríðarstaðir áttu t.d. beitarhús í Húshöfða við norðanvert Hvaleyrarvatn, mjög fjarri Jófríðarstaðarlandi. Tóftin er enn vel greinanleg sunnan í Höfðanum. Önnur beitarhústóft er í Hólmshrauni austan við Hólmsborgina.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur við Þrívörður.

Í Ísafold árið 1883 er fjallað um umhirðu búfjár og þar eru nefndir ´einhölukofar´ en slíkir kofar tóku við af fjárborgunum „ þ.e. mjó hús með einni jötu langsetis öðrum hliðarveggnum.“ Seinna voru svo byggð ´tvístæðuhús´, sem voru með jötum til beggja hliða, og loks ´garðahúsin´ eins og við þekkjum þau. Þetta er ágætt að hafa í huga þegar skoðaðar eru tóftir þó svo að vísast séu fáar svona einhölukofatóftir til því menn hafa líklega notað grjótið í nýrri byggingar. Þessi hús þurfa auðvitað ekki að vera gömul, út af fyrir sig, því fjárhús voru yfirleitt ekki byggð fyrr en á 18. öldinni”.

Hin mörgu hlöðnu fjárskjól á Reykjanesi virðast hafa verið “milligerð”, þ.e. skjól þangað til sérstök hús voru byggð yfir féð. Hlaðið var fyrir skúta eða hraunbólu og þannig myndað betra skjól fyrir veðrum og vindum.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi.

Sjá má dæmi þessa víða á Reykjanesi, bæði í og við selin sem og víðar. Þannig eru hlaðin fjárskjól bæði vestan við Óttarstaði og Lónkot (hafa ekki verið skráð fyrr en nú), ofan við Hvassahraun, í Katlahrauni (skjól frá Vigdísarvöllum (hlaðið um 1910 af fólki frá Vigdísarvöllum) ), í Ögmundarhraunsgígum sunnan Vigdísarvalla, Efri-hellar og Neðri hellar við Gerðisstíg, Kolbeinshæðaskjól, Straumssel Efri-hellar, Straumssels Neðri-hellar, Óttarstaðafjárskjólin (Sigurðarskúti, Sveinsskúti, Norðurskúti, Tóhólaskúti og Rauðhólsskúti) og við Lónakotssel, auk fjárskjóla í Álfakirkju og í Kálfelli.

Eyri

Eyri – tóft.

Fyrsta vinnuregla minjavörslunnar er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Ef fornleifar glatast eru þær horfnar að eilífu. Þær er ekki hægt að laga eða endurgera. Þær eru horfnar veruleikanum og þær eru horfnar vísindunum.

Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa út um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar, er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019. Nú horfið.

Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar. Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar.

Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning. – ÓSÁ

Vigdísarvellir

Fjárskjól við Vigdísarvelli.

Ásfjall

Þegar farið er yfir Fornleifaskráningar fyrir Hafnarfjörð er ljóst að þar er margt miskráð eða jafnvel rangt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Tökum dæmi: Í Fornleifaskráningunni fyrir Ásland má lesa eftirfarandi um skráða fjárborg í norðurhlíðum Ásfjalls, skammt ofan húsa nr. 8-10 við Brekkuás. Þar segir m.a.;
Sérheiti: Borgin.
Tegund: Hleðsla.
Hlutverk: Fjárborg.
Hættumat: Engin hætta.
Ástand: Illgreinanleg/hrunin.
Aldur: 1550-1900.
Lengd: 17.2m.
Breidd: 14.4m.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Vegghæð: 0 – 0.4m.
Breidd veggja: 1.2m.
Lýsing: Fjárborgin er hrunin. Ytra lag hennar er enn greinanlegt en er ógreinilegra innan í henni. Inngangur hefur að öllum líkindum verið í NV horni. Veggjahæð er frá 0 – 0.4m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1.2m.
Heimildir: Katrín Gunnarsdóttir. (2005). Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði. Hafnarfjörður: Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Örnefnaskrá – Ás.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur úr fornleifaskráningunni 2005.

Í tilvísaðri Fornleifaskráningu í landi Áss, Hafnarfirði, árið 2005 er getið um “Borgina”; “Fjárborgin er miðja vegu milli hesthúshverfis við Kaldárselsveg og nýrar íbúðabyggðar” og vísað í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás. Gísli minnist hins vegar ekkert á þessa “fjárborg” í sinni lýsingu, ekki frekar en hin skotbyrgin 6 á fjallinu.

Þegar “Borgin” er skoðuð er augljóst að um herminjar er að ræða. Hleðslunum er hrófað upp án röðunar og innan þeirra eru hlaðin skjól. Ekkert gras er í eða við fjárborgina, sem er jú sterk vísbending. Mannvirkinu svipar mjög til skotbyrgisins á Flóðahjalla þarna skammt norðar. Hlutverk þess hefur auðsýnilega átt að vera varðstöð gegn mögulegri ógn úr norðri.

Mikilvægt er að skrá fornleifar og ekki síður að skráningin sé rétt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Kaldársel

Hafnarfjörður á einkar fallega og fjölbreytilega landskosti.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg.

Í bænum sjálfum eru bæði sögulegir staðir og minjar, sem varðveittar hafa verið, bæði meðvitað og ómeðvitað. Má í því sambandi nefna letursteinana á Hvaleyrarhöfða, garðana ofan við Langeyri, fiskireitinn uppi á Hrauni, stekkinn í Stekkjarhrauni, fjárskjólið utan í Gráhellu í Gráhelluhrauni og fjárborgina á Höfða við Kaldársel. Hins vegar er fjölmargt, sem ganga þarf í, segja frá á aðgengilegum stað, kortleggja og merkja síðan á vettvangi. Að hluta til hefur það verið gert í Hraununum við Straum, en óvíða annars staðar. Í hrauninu ofan við Hraunbæina eru nokkur sel, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel, Lónakotssel og Brennisel með tilheyrandi mannvirkjum, hlöðnum fjárhellum, stekkjum, kvíum, gerðum og nátthögum. Stígar liggja að öllum þessarra mannvirkja og þau eru í mjög stuttu og aðgengilegu göngufæri frá byggð. Þannig er ekki nema u.þ.b. 20 mínútna gangur í Straumssel. Með Óttarstaðaselsstíg eru t.d. nokkur mjög falleg fjárskjól, en öll ómerkt. Við Hvaleyrarvatn er Hvaleyrarsel og í Kaldárseli var Kaldársel. Enn má sjá móta fyrir tóttum selsins.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól.

Mannvirki eru allt í kringum Hvaleyrarvatn og svo er einnig um Kaldársel, s.s. fjárborgin, fjárhellarnir, nátthaginn og gerðin. Gamla vatnsleiðslan er dæmi um mannvirki, sem áhugavert er að skoða.
Þá eru hellarnir nálægt Helgadal ekki síðri, s.s. 90 metra hellirinn, 100 metra hellirinn, Fosshellir og Rauðshellir. Mikið er gengið um svæðið nálægt Valahnjúkum, s.s. í Valaból, og um Helgafell. Á því svæði eru einnig mjög áhugaverðar jarðmyndanir, ekki síst sunnan Helgafells.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Gvendarsel er í Gvendarselshæð, en gígarnir utan í hæðinni eru líklega með áhuguverðustu skoðunarstöðum áhugafólks um jarðfræði. Fallegur fjárhellir er í Óbrennishólum, en hann mun væntanlega fljótlega hverfa undir malarnámið verði ekkert að gert. Mikilvægt er að merkja gömlu Selvogsgötuna frá tilteknum upphafsstað, s.s. í Lækjarbotnum við gömlu stífluna. Svæðið norðan og sunnan Sléttuhlíðar býður upp á mikla möguleika, en þar eru m.a. Kershellir, Hvatshellir, Ketshellir og fjárhellar Setbergssels og Hamarkotssels. Við Krýsuvíkurveginn er stutt í Hrauntunguna, en þar er fallega hlaðið fjárskjól í jarðfalli, og Þorbjarnarstaðafjárborgina. Sveifluhálsinn er útivistarmöguleiki út af fyrir sig, sem ástæða er að mæla með. Margir þekkja möguleikana í kringum Kleifarvatn og Hveradal.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Þar var sel frá Krýsuvík. Þá er orðið aðkallandi að merkja staði í Krýsuvík, s.s gömlu bæina í kringum Bæjarfellið, t.d. Snorrakot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ, Stóra-Nýjabæ, Suðurkot, Arnarfell, og niður við Selöldu. Arngrímshellir er í Krýsuvíkurhrauni, en frá honum er sagt í þjóðsögunni um Grákollu. Þar skammt frá er Bálkahellir og Krýsuvíkurhellir neðar. Dysjar Herdísar og Krýsu eru undir Stóru-Eldborg og dys Ögmundar er í Ögmundarhrauni. Minjarnar í Húshólma og Óbrennishólma eru líklega með þeim merkilegustu hérlendis. Í Húshóma má sjá leifar eftir fornan skála, gömlu Krýsuvíkurkirkju, gamals bæjar, forns garðs, sjóbúð, stekk og gerði, sem hraunið hefur runnið að. Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, líklega með þeim elstu á landinu, auk garðlags, sem hraunið hefur runnið að, og leifar af fornum garði.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Undir Selöldu eru tóttir Krýsuvíkursels og bæjanna Eyri og Fitja. Í Strákum er hlaðið fjárhús. Á Krýsuvíkurheiði er Jónsbúð og fallega hlaðið sæluhús sunnan í henni. Fjárborg er vestan í Borgarholti og Hafliðastekkur utan í Bæjarfelli. Gestsstaðir eru líklega næst elstur bæja í Krýsuvík, utan Kaldrana. Merkja þarf tóttir Gestsstaða, sem eru undir hæðunum sunnan við Krýsuvíkurskóla. Aukþess er forn tótt utan í Sveifluhálsi nokkru sunnar.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Flestir aka framhjá tóttum Kaldrana, án þess að veita þeim gaum, en þær liggja undir hæðinni austan við gatnamótin að Hverahlíð. Fjölmargir stígar og gamlar þjóðleiðir liggja um þetta svæði, s.s. Drumbsdalavegur yfir að Vigdísarvöllum, Sveifluvegur, Hettuvegur og Ketilsstígur, Vatnshlíðarstígur um Hvammahraun og Austurvegur um Deildarháls að Herdísarvík. Þá eru leiðir um Almenninga ekki síðri, auk Markhelluhóls og Búðarvatnsstæðisins. Í Sauðarbrekkum eru mjög fallegir gjallgígar og er einn þeirra holur að innan. Hann hefur að öllum líkindum verið notaður sem íverustaður um tíma. Ofar, á Hrútardyngjusvæðinu, eru á annan tug langra manngengna hraunhella, sem eru sértaklega fallegir, en vandmeðfarnir.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Að sumu þarf að gera gangskör að, s.s. að finna og merkja Góðholu og Kaldadý, vegna upphafs vatnsveituframkvæmda í bænum. Hingað til hefur skógrækt þótt merkisfyrirbæri og óþarfi er að gera lítið úr henni. En hins vegar er mikilvægt að gæta þess að skógræktin skemmi ekki minjar og gönguleiðir, eins og farið er að bera á. Þá þarf að huga að merkilegum svæðum, en sum þeirra hafa verið skemmd að undanförnu. Nýjasta dæmið er Alliansreiturinn við Hrafnistu. Honum var mokað á brott á hluta úr degi fyrir skömmu. Vert er að minnast Hraunsréttarinnar, sem var fjarlægð á svo til einum degi. Svo var einnig með eystri fjárborgina í Kaldárseli. Hrauntungusel er í jaðri iðnaðarsvæðisins við Molduhraun. Búið er að moka hluta að því í burtu, en eftir stendur hluti tóttar utan í Hádegishól.

Alfararleiðin á milli Innesja og Útnesja var með þeim fjölfarnari á öldum áður. Hún er sæmilega vörðuð í dag frá Þorbjarnarstöðum og vestur um Hvassahraun (Rjúpnadalshraun) og ennþá vel greinileg. Hins vegar er með hana eins og svo margt annað. Tiltölulega fáir vita um tilvist hennar. Svo er einnig með veginn undir járnbrautina, sem stóð til að leggja yfir Garðahraun. Gamla þjóðleiðin um Engidal á bak við Fjarðarkaup er einnig að glatast, en hún er enn vel greinileg.
Hafnarfjörður hefur alla burði til að gera sögu sína, minjar og möguleika opinbera bæjarbúum og öðru áhugasömu fólki.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

https://ferlir.is/hafnarfjordur-2/https://ferlir.is/hafnarfjordur-verslun-og-utgerd/

Ás

Hvalsnesleið

Þeir eru ekki margir núlifandi er hafa fengið tækifæri til að skoða fornleifarnar innan girðingar varnarsvæðis Keflavíkurflugvallar.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Að beiðni Stefáns Gunnars Thors hjá VSÓ ehf. fyrir hönd Isavía tóku skýrsluhöfundar, Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson, að sér fornleifaskráningu á Miðnesheiði innan girðingar Keflavíkurflugvallar vegna aðalskipulags flugvallarins árið 2014.
Á hinu skráða svæði er að finna fornar leiðir, vörður, byrgi, fjárborgir, selstöðu og fjöldann allan af ummerkjum um veru hersins á stríðsárunum auk yngri byrgja frá hernum. Heiðin hafði verið nýtt sem beitiland í gegnum aldirnar, leiðir hafa legið þar í gegn og auk þess skipt sköpun fyrir mið sjómanna áður en nýtísku staðsetningartæki leystu þau af hólmi.

Hvalenesleið

Hvalsnesleið – varða.

Skýrsluhöfundar töldu auk þess nauðsynlegt að skrá minjar að hluta til utan við girðinguna til að gæta samhengis, enda skiptir máli að skoða minjaheildir sem slíkar. Eins reyndist það nauðsynlegt til að rekja aðrar götur á heiðinni: Hvalsnesveg/Melabergsgötur, Stafnesleið yfir heiðina framhjá Háaleiti til Keflavíkur, Fuglavíkurleið og Gömlu Fuglavíkurleiðina.

Svæðið er ekki aðgengilegt fyrir almenning og voru fornleifarnar skráðar í fylgd öryggisvarða.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið – vörður.

Ómar Smári hafði áður fengi nokkrum sinnum leyfi til að fara inn fyrir varnagirðinguna og skoða svæðið vegna fornleifa, m.a. í fylgd með Sigurði Eiríkssyni frá Norðurkoti sem er fæddur og uppalinn í Fuglavíkurhverfi. Sigurður er manna fróðastur um örnefni og fornleifar á svæðinu. Auk þess veitti Jón Ben Guðjónsson frá Stafnesi gagnlegar upplýsingar.
Þeim og öðrum, sem veittu aðstoð við gerð þessarar fornleifaskráningar, er þökkuð aðstoðin.
Með skýrslunni fylgir fornleifaskrá og stafrænn hnitagrunnur.

Sjá skýrsluna HÉR.

Hvalsnesleið

Vörður við Hvalsnesleið – Ási.

Staðarhverfi

Grindavík hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sagan er svo til við hvert fótmál og minjar allsstaðar. Saga jarðfræðinnar (tiltölulega ný, en síendurtekin landssköpun) er hvergi eins áberandi og í nágrenni Grindavíkur og útivistar- og gönguleiðir eru þær fjölbreyttustu á öllu landinu.

Grindavík

Grindavík – brim.

Má í því sambandi nefna að vestanverðu Junkaragerðið ofan við Stórubót, Gerðisréttina, Virkið, Staðarbótina, Staðarbótarflórgólfið, Stóra-Gerði, Kóngsklöppina, Staðarbrunninn, fiskibyrgin ofan við Húsatóttir og “Tyrkjabyrgin” við Sundv. Miðsvæðis bendir í dag ekkert á þyrnirunnan, Einarsverslunina eða gröftinn í gegnum eiðið inn í Hópið. Að austanverðu eru minjarnar í Þórkötlustaðanesinu og fiskigarðarnir, þurrkgarðarnir í Slokahrauni, dysin ofan við Hraun, Gamlibrunnur, kapellan frá því um 1400, Húshellir sá sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur, Hraunsvörina o.fl.

Hraunssel

Hraunssel.

Að norðanverðu eru merkar minjar vegagerðarinnar, s.s. við Hesthúsabrekkuna, steinbyrgin við Bláalónsafleggjarann, í Arnarsetri, sunnan Selsvalla og víðar, Innra-Njarðvíkurselið við Seltjörn ásamt hlöðnum mannvirkjum, uppgerður Skipsstígurinn að hluta á bak við Lágafell o.fl. o.fl. Þá eru ótaldir Gálgaklettarnir og Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli, Hópsselið utan í Selshálsi, Baðsvallaselið í hraunkantinum á Baðsvöllum og jafnvel Hraunselið utan í Núpshlíðarhálsi. Selið er merkilegt fyrir það að það var síðasta selið, sem aflagt var í Grindavík, eða árið 1914.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Þá eru í landi Grindavíkur ýmsir aðrir merkilegir staðir, s.s. Selatangar, sem eru heimur út af fyrir sig, með sjóbúðum, þurrkbyrgjum, viðveruhellum, Smíðahelli, 5 hlöðnum refagildrum og hlöðnu fjárskjóli.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg/virki.

Að ekki sé talað um Óbrennishólma með tveimur fjárborgum, líklega þeim elstu á landinu, hlöðnum garði, sem Ögmundarhraun rann að um 1150, leifar af fornum garði o.fl. Húshólmi er með, auk tótta gömlu Krýsuvíkurkirkju, tóttir gamla bæjarins, forns skála, sem hraunið stöðvaðist við, miklar garðhleðslur, sjúbúð, fjárborg, stekk, selsstíg og gerðis utan í hraunkantinum. Utan í Borgarhól er gömul fjárborg skammt frá veginum. Ofan við Selöldu eru tóttir Fitja, fjárhúss á Strákum, tóttir bæjarins Eyri og tóttir Krýsuvíkursels. Utar á heiðinni er Jónsbúð og fallega hlaðið hús. Í Krýsuvíkurhrauni er m.a. Arngrímshellir, en hans er getið í þjóðsögunni af Grákollu. Þá eru dysjar Herdísar og Krýsu þar ofar, auk fjölmargra annarra mannvirkja. Ofan Ögmundarhrauns eru rúningsrétt í Stóra-Hamradal, fallega hlaðinn fjárhellir sunnan Vigdísarvalla, auk Vigdísarvallabæjarins.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegur.

Á öllu þessu svæði eru fjölmargar gönguleiðir, bæði fornar og nýjar. Má í því sambandi nefna Prestastíginn frá Höfnum, Skipsstíginn frá Njarðvíkum, Sandakraveginn yfir að Skála, Drumbsdalaveginn yfir á Krýsuvík, Skógfellaveginn frá Vogum o.fl. Þá eru svæðin sunnan Vigdísarvalla mjög fýsileg, s.s. Bleikingsdalur og hraunið ofanvert, auk svæðisins í kringum Lat. Í hrauninu undir honum er fallega hlaðið sæluhús. Fagradalsfjallið hefur upp á fjölmargt að bjóða. Þar er mjög fallegt umhverfi inni í og utan með fjallinu. Gígurinn nyrst í því er einstakur, auk þess sem útsýni yfir Merardali, Þráinsskjöld og upp á Selsvelli er hvergi fallegra í góðu veðri.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Í Geldingadal á Ísólfur á Skála að hafa verið dysjaður. Sunnan Borgarfjalls er t.d. Borgarhraunsborgin, gamalt mannvirki frá Viðeyjarklaustri, auk hleðslna utan í hraunköntum. Þar er og fallega hlaðin Borgarhraunsréttin utan í hraunkanti. Uppi við Nautshóla, í Fagradal, er Dalssel, eitt seljanna frá Grindavík, a.m.k. um tíma. Jarðfræðiskoðun er hvegi betri en í Eldvörpum, í Arnarsetri, á Núpshlíðarenda, í gígum Ögmundarhrauns og sunnan við Stóra-Skógfell.
Framangreint er sett fram til að minna á hið fjölbreytilega umhverfi, er einungis brot af því sem Grindvíkingar hafið að bjóða fólki. Þrátt fyrir það hefur einungis verið lögð áhersla á lítið brot af öðru, s.s. Bláa lónið, Saltfiskssafn og hvalaskoðun. Það á að sjálfsögðu einnig rétt á sér, en ekki má gleyma hinu, sem skiptir, þegar á heildina er litið, ekki minna máli ef vel er á haldið. Grindavík hefur upp á allt að bjóða, sem áhugasamt útivistarfólk sækist eftir.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

https://ferlir.is/grindavik-innsiglingin/https://ferlir.is/grindavikurvegir/

https://ferlir.is/hof-i-grindavik/https://ferlir.is/fram-af-grindavikurslod-gisli-brynjolfsson/

https://ferlir.is/grindavik-tyrkjaranid-2/https://

ferlir.is/grindavikurstridid-undanfari/

Bessastaðir

Sú hugmynd hefur komið fram að nýta megi fornleifar í þágu þjóðarinnar – á þann hátt, sem flestir gætu verið sammála um. Hugmyndin gengur út á það að peningar fáist fyrir verðmæti, sem þegar eru til eða verða til með tímanum.
FornleifarÞar sem svo lítill áhugi er yfirleitt á gildi fornleifanna meðal almennings, og jafnvel ráðamanna, væri ekki úr vegi að reyna að gera verðmæti úr því sem þó er til, a.m.k. þessa stundina, og gera þannig tilraun til að efla áhuga þeirra sömu á efninu og samræma um leið tvennt; annars vegar varðveislu og nýtingu og hins vegar eyðingu gegn gjaldi. Flestir ættu að geta samþykkt það – a.m.k. miðað við núverandi stöðu. Reynslan hefur jú sýnt að peningar eru það sem málið snýst um – þegar upp er staðið. Mikið af fornleifum hafa farið forgörðum í gegnum tíðina, án þess að nokkur hafi sagt nokkurn skapaðan hlut – eða gjald komið fyrir.
Stjórnmálamenn reikna gildi hlutanna út frá hagnaði, eða kostnaði, eftir hvernig á það er litið. Áhuginn vex í réttu hlutfalli við mögulegan arð, eða minni kostnað. Ef gerð yrði gangskör í því að koma núverandi fornleifum í verð myndi skapast svigrúm til að leita að öðrum – til að selja. Þannig myndi vinnast a.m.k. tvennt; annars vegar peningar, sem hingað til hefur vantað, og hins vegar myndu “nýjar” og áður óþekktar fornleifar finnast, en hingað til hefur ólaunað áhugafólk fundið flestar “óhefðbundnar” fornleifar, sem merkilegar geta talist hér á landi.
Fornleifar Þetta fyrirkomulag kallar á nýja hugsun – nýja nálgun á viðfangsefninu – ódýrari nálgun en áður hefur þekkst. Núverandi stofnanir yrðu með því óþarfar. Það myndi spara umtalsverða opinbera fjármuni. Auk þess myndi verkið verða boðið út og meginsöluandvirði minjanna renna i ríkissjóð. Sem sagt; ekki bara útgjaldasparnaður heldur og tekjumyndun. Hvaða þingmaður gæti mælt gegn slíkum rökum?
Verktakar, sem fengju úthlutað einstökum framkvæmdum, s.s. vegagerð, virkjunum eða byggingu annarra mannvirkja, ættu kost á að kaupa fornleifar á framkvæmdarsvæðunum og ráðstafa þeim að vild (eins og reyndar er gert er í dag), en andvirðið myndi renna í ríkissjóð. Þannig myndi vinnast a.m.k. tvennt; annars vegar getur ekkert komið í veg fyrir framgang framkvæmda og hins vegar gætu fornleifar á svæðinu orðið til þess að verktakinn þyrfti sjálfur að taka þátt í kostnaði við framkvæmdina. Einungis það myndi auk alls þess, sem að framan greinir, draga úr útgjöldum ríkissjóðs og fela í sér aukin sparnað. Hvaða alþingismaður gæti mælt gegn slíku?
Hvers virði eru þá, ef tekið er mið af öllu framangreindu, hinir huglægu þættir fornleifanna – áþreifanlegu tengsl Fornleifarnútímamannsins við fortíðina, í aurum talið? Svar stjórnmálmannsins ætti ekki að þurfa að verða erfitt: “EINSKIS VIRÐI”.

Að vísu hefur allnokkrum óarðbærum fjármunum verið sóað í að grafa upp minjar, sem vitað er hverjar eru. Hvers vegna ekki að nýta frekar féð í að finna “nýjar” minjar, sem hægt er að gera úr einhver verðmæti? Og hvers vegna ætti að varðveita þekktar fornminjar með miklum opinberu tilkostnaði? Og það á tímum hraðþróun alþjóðavæðingar þegar fæstir innfæddir og engir aðfluttir hafa áhuga á hinum gleymdu leifum eða gömlum minjum hvors sem er! Og hverjir eru þá eftir? Örfáir meðvirkir og einstaka fræðimaður – og nokkrir ferðamenn, sem vantar myndefni. Þessir fáu ættu þó varla að koma í veg fyrir að framangreind hugmynd næði fram að ganga. Myndefnið verður til staðar eftir sem áður – í eigu einkaðila.
Örfáir menn – og konur – hafa lagt mikla áherslu á mikilvægt gildi fornleifanna, einkum vegna þess að þær sýna við hvaða ólýsanlegu aðstæður forfeður og -mæður vorar þurftu fyrrum að takast á við til að koma okkur, nútímafólkinu, til manns. Hugsjónin er eitt (og einskis virði) – verðmætamatið annað (og enn norkkurs virði). Nú er því rétti tíminn til að selja “hlutabréfin” í fornleifunum.
Að sjálfsögðu er hér um að ræða frumlega framsetningu, en öllu gamni fylgir jú einhver alvara – einkum ef tekið er mið af núverandi stöðu þessara mála.

Dómhringur

Dómhringur.

Húshólmi

Til hvers er verið að grafa og hvaða merkingu hafa heimildir fornleifafræðinnar? Hvernig getur einstakur gripur sagt sögu? Hefur orðið þróun aðferða við uppgröft og úrvinnslu á langri leið? Er til kenning í íslenskri fornleifafræði?

Þingvellir

Búðartóft á Þingvöllum.

Svarið að augljóst: Líkt og í fornleifafræði þeirra landa, sem öllu jöfnu er miðað við, hefur íslensk fornleifafræði engu minni sess, þegar til ”heimanmundar” er litið. Hér á landi hafa orðið til ”einstakir” áfangar fornleifafræðinnar og má þá nefna bæði gjóskulaga- og frjókornarannsóknirnar. Líklegt er að ófyrirséð tímamótakenningasmíð í fornleifafræði verði þróuð enn frekar hér á landi á næstu árum og áratugum. Til að auka líkur á skjótari þroska mætti vel hugsa til breytilegri afbrigða, s.s. með því að snúa við sönnunarbyrðinni, sem jafnan hefur hvílt of þungt á fræðigreinininni. Sagnfræðin er mun ”opnari” og umburðarlyndari í dag en hún var fyrir einungis nokkrum árum. Hvers vegna ekki að opna fornleifafræðigreinina fyrir nýjum ”þolanlegum” hugmyndum (ideas) og reyna að laða þær fram í stað þess, kannski með fljótfærni, að ”slá” þær jafnóðum út af laginu. Nýjar hugmyndir og kenningar þurfa svigrúm og ”þolinmæði”. Án þeirra, eða áræði ”hugmyndasmíðanna”, verður engin þróun.Án kenningar er fornleifafræðin einungis magn gagna (upplýsinga). Án aðferða er enginn skipulagsmynd eða samhengi í beitingunni. Kenning og aðferð fara saman sem frumstig ástæðna þegar gera á eitthvað í fornleifafræði þegar framkvæmdin sjálf skipar annað sætið. Áður fyrr var hún í fyrsta sæti, en í ljósi reynslu, þróunar og möguleika verður ekki hjá því komist að nýta sér hvorutveggja, ekki síst þegar litið er til nýrra möguleika í túlkun gagna, bæði eldri sem og á vettvangi nýrri uppgrafta. Bæði markmið og hlutlægni fornleifafræðinnar hafa breyst líkt og tilgangur mannfræðinnar hefur þroskast með tímanum.

FornleifarNafn Ians Hodders er í hugum margra fornleifafræðinga nátengt síðvirknishyggju og rannsóknir í aðferðarfræði fornleifafræðinnar, einkum á dreifingu fornleifa (gripa, staða) með aðferðum rúmfræði og tölfræði. Hann samdi eitt fyrsta ritið (Reading the Past, 1986) sem kom út um kennilega fornleifafræði, en þar gerir Hodder grein fyrir kennilegum nálgunum á fornleifafræði og setur fram gagnrýni á virknishyggjuna. Ennþá er þó sú skoðun algeng meðal fornleifafræðinga að kenningar séu bæði óþarfi og tímasóun.
Á seinni árum hefur Hodder lagt áherslu á tækifærin sem nútímafjölmiðlar, einkum og sér í lagi Internetið – opna fyrir miðlun fornfræðilegra upplýsinga, og hvaða áhrif bættur aðgangur almennings – ekki síst í þróunarlöndum – hefur og mun hafa á það hvernig upplýsingar eru túlkaðar. Þegar internetið er skoðað í dag má ljóst vera að fornleifafræðin er farin að tileinka sér það í mun ríkari mæli en áður til að vekja athygli á viðfangsefnum og fræðum þeim er að henni lúta. Einstakar fræðastofnanir og einstakir fornleifafræðingar nýta netið til að koma upplýsingum um sig og skrif sín á framfæri. Má þar nefna til sögunnar Ian Hodder. Hins vegar en netið enn vannýttur möguleiki sem tengslanet milli fræðigreinarinnar og almennings. Þó má segja að hafi verið gerð svolitlar tilraunir til þess hér á landi, sbr. vefsíður Þjóðminjasafnsins og Fornleifastofnunar Íslands . Þá má benda á tilraunir áhugafólks um fornleifastaði á afmörkuðu svæði landsins .
Ef litið er yfir þróun kennilegrar fornleifafræði síðustu árin er ástæða til bjartsýni við upphaf nýrrar þúsaldar. Fornleifafræðingar eru nú, meir en nokkru sinni fyrr, meðvitaðir um að kenningar eru forsenda gagnasöfnunar, greiningar og röðunar. Eins eru menn meðvitaðri nú en áður um allar þær ólíku kennilegu nálganir sem mögulegt er að beita. Og því skyldi ekki slíkt og hið sama gilda hér á landi?

FornleifarMargir telja Binford einn helsta áhrifavald í fornleifafræði síðustu hálfa öldina. Í bókinni In Pursuit of the Past, fjallar Lewis Binford (f. 1930) m.a. um kenningar og hugmyndir í fornleifafræði. Hans framlag til “Nýju fornleifafræðinnar” (New Archaeology) breytti fræðigreininni og þróun vísindalegra forsenda hennar, hvort sem um var að ræða uppgrefti eða túlkun gagna. Bókin var fyrst gefin út fyrir tveimur áratugum, en var síðast endurútgefin árið 2002. Binford skýrir hugmyndir sínar fyrir nemendum og almennum lesendum sem og skilning hans á fortíð mannsins. Í gegnum bókarina spyr Binford spurninga um gamlar hugmyndir og leggur fram nýjar kenningar, byggðar á samanburðafornleifafræðilegum og mannfræðilegum (comparative archaeological and ethnographic) rannsóknum í Norður-Ameríku, Evrópu, Suður-Afríku og Ástralíu.
En líkt og Hodder leggur Binford, eins og svo margir aðrir, einungis fram kenningar um meginatriði, en aðrar ”kenningar” um smáatriði eða nánari túlkun byggja að mestu á hugmyndum (ideas), tillögum (proposals) eða ályktanunum (suggestions). Hodder leggur áherslu á það, í annars sérfræðilegum skrifum sínum, að vera sannfærandi fremur en fræðandi. Hugmyndir hans og ”kenningar” bera keim af því. Svo er reyndar um aðra fornleifafræðinga. Meðan t.d. Hodder leggur áherslu á innri þætti (internal) samfélaga og samfélagsmótunar (cultural) leggur Binford áherslu á hina ytri (external) og sögulegu (historial) áhrifaþætti hennar.

Fornleifar

“Fornleifafræðin hefur gengið í gegnum miklar kennilegar hræringar undangegna hálfa öld og sjá má í þeim umbrotum þroskaferil fræðigreinar, sem er sífellt að bæta við sig nýjum aðferðum og hugmyndum. Stærstu stökkin flelast annars vegar í virknishyggju sjöunda áratugarins þegar fornleifafræðin gleypti í heilu lagi aðferðir félagsvísinda og umhverfisvísinda og bætti þeim í sitt áhaldasafn og hins vegar í síðvirknishyggju níunda áratugarins þegar afstæðishyggja og túlkunarhyggja bættust við. Með aðferðum virknishyggju var fornleifafræðin ekki lengur einskorðuð við að lýsa einkennum horfinna samfélaga heldur gat hún í fyrsta skipti sett fram rökstuddar hugmyndir um skipulag slíkra samfélaga – um stjórnskipun þeirra, félags- og hagkerfi. Það er ótrúlegt vísindaspekilegt stökk þegar haft er í huga að heimildirnar sem slíkar hugmyndir byggja á eru lítið annað en ósjálegir haugar af leirkerabrotum, afhöggum steináhaldasmiða og múrsteinshrúgur. Með aðferðum síðvirknishyggjunnar er fornleifafræðin farin að takast á við þá þætti mannlegs samfélags sem menn hefðu síst ætlað að hægt væri að að spá í út frá úrgangi hversdagslífs venjulegs fólks; hugmyndafræði, fagurfræði, tilfinningar og hvatir – þætti sem hafa ekki síður áhrif á hegðun og ákvarðanir mannanna en umhverfi og efnahagur.
Mikilvægasta framlagið til fræðilegrar umræðu innan sívirknishyggjunnar hefur sennilega verið frá femeniskri fornleifafræði og kynjafornleifafræði sem hafa verið undir miklum áhrifum frá öðrum greinum. Femenísk fornleifafræði hefur skýr pólitísk viðmið og kappkostar að vinna á karllægum hugsunarhætti í greininni, einkum hinni vestrænu hugmynd um verkaskiptingu kynjanna.

Þessi síðari bylting í fornleifafræði er ennþá í gangi í þeim skilningi að aðeins hefur verið sýnt fram á möguleikana. Enn hafa ekki komið fram sannfærandi samfélagslýsingar sem byggja á þessum grunni. Þær liggja hins vegar í loftinu og er óhætt að segja að það séu spennandi tímar í fornleifafræði.”

Heimildir:
-Leskaflar í íslenskri fornleifafræði, Fornleifastofnun Íslands, Sagnfræðiskor HÍ, Adolf Friðriksson, haust 2003.
-Umfjöllunar um nýja framsetningu um “Gamla sáttmála” í Fréttablaðinu þann 2. nóv. 2005 þar sem sagnfræðingar við H.Í segja skoðun sýna á nýframkominni véfenganlegri kenningu um ritun og tilgangi hans.
-www.saa.org/
-www.stanford.edu/dept/anthroCASA/people/faculty/hodder.html
-www.natmus.is/thjodminjar/fornleifar/
-http://www.instarch.is/
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 195-211.
-Lewis R. Binford: In Pursuit of the Past, California News, 2002, 260 bls.
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 206.
-Orri Vésteinsson, Staða íslenskrar fornleifafræði, Ritið, Tímarit hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 65-66.

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti – skáli.