Færslur

Staðarhverfi

Grindavík hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sagan er svo til við hvert fótmál og minjar allsstaðar. Saga jarðfræðinnar (tiltölulega ný, en síendurtekin landssköpun) er hvergi eins áberandi og í nágrenni Grindavíkur og útivistar- og gönguleiðir eru þær fjölbreyttustu á öllu landinu.

Grindavík

Grindavík – brim.

Má í því sambandi nefna að vestanverðu Junkaragerðið ofan við Stórubót, Gerðisréttina, Virkið, Staðarbótina, Staðarbótarflórgólfið, Stóra-Gerði, Kóngsklöppina, Staðarbrunninn, fiskibyrgin ofan við Húsatóttir og “Tyrkjabyrgin” við Sundv. Miðsvæðis bendir í dag ekkert á þyrnirunnan, Einarsverslunina eða gröftinn í gegnum eiðið inn í Hópið. Að austanverðu eru minjarnar í Þórkötlustaðanesinu og fiskigarðarnir, þurrkgarðarnir í Slokahrauni, dysin ofan við Hraun, Gamlibrunnur, kapellan frá því um 1400, Húshellir sá sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur, Hraunsvörina o.fl.

Hraunssel

Hraunssel.

Að norðanverðu eru merkar minjar vegagerðarinnar, s.s. við Hesthúsabrekkuna, steinbyrgin við Bláalónsafleggjarann, í Arnarsetri, sunnan Selsvalla og víðar, Innra-Njarðvíkurselið við Seltjörn ásamt hlöðnum mannvirkjum, uppgerður Skipsstígurinn að hluta á bak við Lágafell o.fl. o.fl. Þá eru ótaldir Gálgaklettarnir og Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli, Hópsselið utan í Selshálsi, Baðsvallaselið í hraunkantinum á Baðsvöllum og jafnvel Hraunselið utan í Núpshlíðarhálsi. Selið er merkilegt fyrir það að það var síðasta selið, sem aflagt var í Grindavík, eða árið 1914.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Þá eru í landi Grindavíkur ýmsir aðrir merkilegir staðir, s.s. Selatangar, sem eru heimur út af fyrir sig, með sjóbúðum, þurrkbyrgjum, viðveruhellum, Smíðahelli, 5 hlöðnum refagildrum og hlöðnu fjárskjóli.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg/virki.

Að ekki sé talað um Óbrennishólma með tveimur fjárborgum, líklega þeim elstu á landinu, hlöðnum garði, sem Ögmundarhraun rann að um 1150, leifar af fornum garði o.fl. Húshólmi er með, auk tótta gömlu Krýsuvíkurkirkju, tóttir gamla bæjarins, forns skála, sem hraunið stöðvaðist við, miklar garðhleðslur, sjúbúð, fjárborg, stekk, selsstíg og gerðis utan í hraunkantinum. Utan í Borgarhól er gömul fjárborg skammt frá veginum. Ofan við Selöldu eru tóttir Fitja, fjárhúss á Strákum, tóttir bæjarins Eyri og tóttir Krýsuvíkursels. Utar á heiðinni er Jónsbúð og fallega hlaðið hús. Í Krýsuvíkurhrauni er m.a. Arngrímshellir, en hans er getið í þjóðsögunni af Grákollu. Þá eru dysjar Herdísar og Krýsu þar ofar, auk fjölmargra annarra mannvirkja. Ofan Ögmundarhrauns eru rúningsrétt í Stóra-Hamradal, fallega hlaðinn fjárhellir sunnan Vigdísarvalla, auk Vigdísarvallabæjarins.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegur.

Á öllu þessu svæði eru fjölmargar gönguleiðir, bæði fornar og nýjar. Má í því sambandi nefna Prestastíginn frá Höfnum, Skipsstíginn frá Njarðvíkum, Sandakraveginn yfir að Skála, Drumbsdalaveginn yfir á Krýsuvík, Skógfellaveginn frá Vogum o.fl. Þá eru svæðin sunnan Vigdísarvalla mjög fýsileg, s.s. Bleikingsdalur og hraunið ofanvert, auk svæðisins í kringum Lat. Í hrauninu undir honum er fallega hlaðið sæluhús. Fagradalsfjallið hefur upp á fjölmargt að bjóða. Þar er mjög fallegt umhverfi inni í og utan með fjallinu. Gígurinn nyrst í því er einstakur, auk þess sem útsýni yfir Merardali, Þráinsskjöld og upp á Selsvelli er hvergi fallegra í góðu veðri.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Í Geldingadal á Ísólfur á Skála að hafa verið dysjaður. Sunnan Borgarfjalls er t.d. Borgarhraunsborgin, gamalt mannvirki frá Viðeyjarklaustri, auk hleðslna utan í hraunköntum. Þar er og fallega hlaðin Borgarhraunsréttin utan í hraunkanti. Uppi við Nautshóla, í Fagradal, er Dalssel, eitt seljanna frá Grindavík, a.m.k. um tíma. Jarðfræðiskoðun er hvegi betri en í Eldvörpum, í Arnarsetri, á Núpshlíðarenda, í gígum Ögmundarhrauns og sunnan við Stóra-Skógfell.
Framangreint er sett fram til að minna á hið fjölbreytilega umhverfi, er einungis brot af því sem Grindvíkingar hafið að bjóða fólki. Þrátt fyrir það hefur einungis verið lögð áhersla á lítið brot af öðru, s.s. Bláa lónið, Saltfiskssafn og hvalaskoðun. Það á að sjálfsögðu einnig rétt á sér, en ekki má gleyma hinu, sem skiptir, þegar á heildina er litið, ekki minna máli ef vel er á haldið. Grindavík hefur upp á allt að bjóða, sem áhugasamt útivistarfólk sækist eftir.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

https://ferlir.is/grindavik-innsiglingin/https://ferlir.is/grindavikurvegir/

https://ferlir.is/hof-i-grindavik/https://ferlir.is/fram-af-grindavikurslod-gisli-brynjolfsson/

https://ferlir.is/grindavik-tyrkjaranid-2/https://

ferlir.is/grindavikurstridid-undanfari/

Helgadalur

Gengið var að Helgadal, framhjá opi Níutíumetrahellis, niður skástigu gömlu Selvogsgötunnar, framhjá opi Vatnshellis og áfram upp að sögðum gömlum tóttum í austurhlíð Helgadals. Sjá má hvar gamla Selvogsgatan hefur beygt að vatninu í Dalnum og síðan haldið áfram á ská upp eftir hlíðinni, sunnan við tóttirnar. Svo virðist sem þarna gætu hafa verið nokkur hús. Sjá má móta fyrir stíg niður að vatninu, hugsanlega garði sunnan við tóttirnar og tótt niður við vatnið.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Gamall skáti sagði að Skátafélag Hafnarfjarðar (Hraunbúar) hafi á sínum tíma ætlað að byggja skála í Helgadal þar sem skemmtileg skátamót voru haldin um tíma. Rótað hefði verið og grafið fyrir uppistöðum, en síðan hafi verið horfið frá skálabyggingunni. Hvar það var nákvæmlega í dalnum er ekki alveg ljóst á þessari stundu.
Tóttarsvæðið í Helgadal sést vel, en erfitt er að greina einstaka tættur. Vatnsverndargirðingin liggur fast við þær. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1907 (áhíf 1908) kemur fram að þær hafi ekki verið vel greinanlegar þá, fyrir tæpri öld síðan, en hann lýsir þeim á þessum stað, sbr. meðfylgjandi mynd. Í þeirri frásögn lýsir hann og heimtröð og garðlagi við Skúlatún sunnan við Helgafell.
Fróðlegt væri að láta einhvern tíma grafa í tóttirnar til að fá úr því skorið hvað þarna hafi verið og hversu gamalt það er.
Gangan tók u.þ.b. 45 mínútur í ágætu veðri.

Helgadalur

Helgadalur – uppdráttur ÓSÁ.

Eldvörp

Í Fréttablaðinu árið 2012 er umfjöllun;  “Gengu fram á óþekktar minjar“, eftir  Óla Kristján Ármannsson. Fjallað er um minjar í og við Eldvörp ofan Grindavíkur.

Óli Kristján Ármannsson

Óli Kristján Ármannsson.

“Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, fornleifafræðingur og áhugamaður um náttúru og menjar á Reykjanesi, telur að mannvistarleyfar í Eldvarpahrauni við Grindavík kunni að vera enn eldri en talið er. Í félagi við annan gekk hann fyrir nokkrum árum fram á byrgi sem enginn hefur komið nálægt í hundruð ára. Hann leiddi blaðamann og Gunnar V. Andrésson ljósmyndara um svæðið og fræddi um kenningar sínar. Minjarnar séu „Tortóla“ verkafólks við útgerð.

Fornminjar í Eldvarpahrauni þarf að rannsaka mun betur áður en tekin er ákvörðun um aðrar framkvæmdir á svæðinu, sem er í nýtingarflokki í drögum að rammaáætlun. Eldvörp eru norðvestur af Grindavík, ekki ýkja langt frá Bláa lóninu. Þar er að finna lítt rannsakaðar mannvistarleifar.

Gunnar V. Andrésson

Gunnar V. Andrésson.

„Og aldrei að vita hvað annað kæmi í ljós ef fram færi gagnger rannsókn á svæðinu,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur, sem safnað hefur margvíslegum fróðleik um náttúrufar og minjar á Reykjanesi. Hann telur að minjar sem er að finna í Eldvörpum séu jafnvel enn eldri en leitt hefur verið líkum að áður, því þær kunni að tengjast útgerð í Grindavík, en heimildir eru um verstöð þar frá miðöldum, allt frá tólftu og fram á fimmtándu öld.
„Menn hafa velt upp alls konar hugmyndum um þessi hlöðnu byrgi, þar á meðal hvort þarna kunni að hafa verið felustaðir sem fólk hafi komið sér upp eftir Tyrkjarán af ótta við fleiri árásir,“ segir hann, en telur sjálfur útilokað að þarna sé um einhverja mannabústaði að ræða, einkum smæðar þeirra vegna.

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

„Mér finnst líklegra að þarna hafi verið fiskigeymslur. Nokkurs konar „Tortóla“ þess tíma þar sem verkafólk gat skotið fiski undan og sótt í þegar vistir þraut. Útvegsbændur áttu ekkert í þá daga – Skálholtsstóll átti allt. Sækja mátti þarna fisk til nauðþurfta. Um tveggja alda skeið sultu Grindvíkingar heilu hungri. Það skyldi því engan undra að þeir hafi reynt að koma einum og einum fiski í skjól til nota þegar í nauðir rak. Fólk þurfti ekkert að hlaða sér felustaði þarna í hrauninu þar sem nóg er um rúmgóða hella þar sem fjöldi fólks hefur getað látið fyrirberast. Auk þess líkjast byrgin í Eldvörpum öðrum fiskigeymslum með ströndinni, hvort sem er í Strýthólahrauni, við Nótarhól eða á Selatöngum.“

Fundu áður óþekkt byrgi
Um leið áréttar Ómar Smári að kenningar þessar kalli allar á mun meiri rannsóknir til þess að nálgast megi lausnina á þeirri ráðgátu sem þessar mannvistarleifar í Eldvörpum eru. Standist kenningin um undanskotið gæti þarna hins vegar verið um að ræða mannvistarleifar frá því ekki löngu eftir að gaus síðast í Eldvörpum 1228.
EldvörpÞá segir Ómar Smári annað benda til þess að hlöðnu byrgin hafi verið notuð undir eitthvað matarkyns. Á svæðinu eru nefnilega um sjötíu hlaðnar refagildrur sem enn sjást. „Og þá hafa menn viljað koma í veg fyrir að refurinn kæmist í eitthvað.“ Að auki voru refaskinn allmikil verðmæti hér áður fyrr og því eftir nokkru að slægjast með því að veiða refinn.
Eins bendir staðsetning byrgjanna til þess að um felustaði af einhverju tagi hafi verið að ræða. „Það fer enginn hingað lengst inn í torfarið hraun án einhvers sérstaks erindis,“ segir Ómar Smári. Enda er það svo að jafnvel nú, með vegi í grennd og göngufólk ágætlega búið, að handleggur er að komast að byrgjunum.
EldvörpNokkur hlaðin byrgi eru þekkt í Eldvarpahrauni og greinilegt að þangað hefur göngufólk komið til að skoða þau. Það svæði hefur verið þekkt frá því það fannst aftur, að sögn Ómars Smára, árið 1872. Seinna fjallaði Ómar Ragnarsson svo um það í einum af Stiklu-þáttum sínum í Sjónvarpinu. Alls er þar að finna um tólf hleðslur, að sögn Ómars Smára, byrgi og refagildrur.
Ómar Smári og félagi hans Óskar Sævarsson römbuðu svo fram á tvö til viðbótar nokkru fjær árið 2006 í einni af gönguferðum þeirra. „Það var eiginlega Óskar sem rak augun í þetta þar sem við stóðum þarna á gjábarminum. Eru þetta ekki hús, sagði hann og benti? Jú, sagði ég. Tvö!“ Einu sporin í mosanum við þessi byrgi eru eftir Ómar sjálfan. „Þarna væri kjörið að taka jarðvegssýni í öðru hvoru byrginu til aldursgreiningar,“ segir hann.

Verðgildi svæðisins gæti aukist
EldvörpByrgin eru hlaðin úr hraunhellum. „Síðan hefur verið hlaðið rekaviði ofan á og fergt með hraunhellum. Við þetta myndast kjöraðstæður til að geyma þurrkaðan fisk, annað hvort í stæðum eða hengja hann í rjáfur,“ segir Ómar Smári, en hraunið er náttúrulega þannig að ofan í það hverfur raki og svo blæs í gegn um hellurnar sem hjálpar til við að halda fiskinum þurrum. „Ofan í þessum byrgjum má núna sjá hellurnar sem hafa hrunið ofan í þau þegar rekaviðurinn hefur fúnað undan þeim í aldanna rás.“
Byrgin eru svo ekki einu leifarnar um mannvistir í hrauninu. Ekki langt frá borholu HS Orku í Eldvörpum er að finna stóran helli þar sem fjöldi fólks gæti látið fyrir berast. „Og inni í hellinum er hlaðinn garður þannig að ekki sést hvað er fyrir innan,“ segir Ómar Smári.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Alveg ofan í borholunni er svo svokallaður Brauðhellir, en hann opnaðist þegar jarðýta braut ofan af honum við framkvæmdir á svæðinu. „En hitaveitan má eiga það að þeir gengu vel frá í kringum hann og pössuðu upp á hann eftir að hann kom í ljós.“ Áður var bara á hellinum lítið op og mikil gufa í honum og hiti sem væntanlega hefur verið nýttur til að seyða brauð og nafnið af því dregið, en í hellinum má líka sjá fornar hleðslur.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

„Allt þetta svæði þarf að kanna í leit að fornminjum,“ segir Ómar Smári og telur að varlega þurfi að fara í frekari orkuvinnslu í Eldvörpum. Í drögum að rammaáætlun eru Eldvörp í nýtingarflokki og áform uppi um að reisa þar allt að fimmtíu megavatta jarðhitavirkjun. „Ef þetta fær að vera óraskað í eitt til tvö hundruð ár þá margfaldast verðgildið í náttúruperlum eins og þessum. Nálægðin við þéttbýli gefur svæðinu líka aukið gildi.“

Eldvörp

Hellir nálægt Bláa lóninu.

Ómar Smári Ármannsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur. Hann er sérstakur áhugamaður um gönguleiðir, náttúru og sögu Reykjanesskagans og heldur úti ferðavefnum Ferlir.is, þar sem boðið er upp á margvíslegan fróðleik um svæðið, auk skipulegra gönguferða fyrir smærri og stærri hópa. Fram kemur á vefnum að upphaflega hafi FERLIR staðið fyrir „FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík“ sem hóf starfsemi árið 1999. Verkefnið vatt svo upp á sig.
„Og ég fór í fornleifafræði, svona til þess að fræðimennirnir gætu ekki slegið mig af borðinu sem áhugamann,“ segir Ómar Smári kankvís.”

Heimild:
-Fréttablaðið, 125 tbl. 15.12.2012, Gengu fram á óþekktar minjar – Óli Kristján Ármannsson, bls. 36.
Eldvörp

Úlfarsá

Í “Fornleifaskráningu Úlfarsárdals, Reykjavík 2017”, segir m.a. um Úlfarsá:

Úlfarsá

Úlfarsá – tóftir gamla bæjarins nær.

“Úlfarsá telst vera hluti af víðáttumiklu landnámi Ingólfs Arnarsonar en hann nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá. Samkvæmt þessu hefur landnám Ingólfs náð yfir alla Gullbringu- og Kjósarsýslu, ef frá er talið svæðið sem liggur milli Brynjudalsár og Botnsár, og Árnessýslu vestan við Ölfusá. Ingólfur gaf svo vinum og vandamönnum er síðar komu hluta af landnámi sínu.1 Svæðið sem jörðin Úlfarsá tilheyrir var því síðar land Þórðar skeggja Hrappssonar en hann hafði fyrst numið land austur í Lóni og búið þar í um tíu ár. Þegar Þórður skeggi frétti að öndvegissúlur hans hafði rekið á land í Leiruvogi seldi hann land sitt Úlfljóti sem þekktur var fyrir að hafa komið með lögin til Íslands. Þórður flutti svo suður og settist að, með ráði Ingólfs, á svæðinu milli Úlfarsár og Leiruvogs.

Úlfarsá

Úlfarsá – gatan að nýjasta bænum.

Við siðbreytinguna urðu þær jarðir sem áður höfðu tilheyrt kirkjunni eign konungs. Úlfarsá er ekki að finna í fógetareikningum, jarðaskiptabréfum né jarðaskrám kirkjunnar frá miðöldum. Jarðarinnar er fyrst getið í jarðabók 1584 og þá undir nafninu Kálfastaðakot og telst jörðin þá vera konungseign. En hvernig má það vera? Ólafur Lárusson hefur komið með skýringu á þessu. Hann taldi víst að jörðin hafi farið undir konung á árunum 1552-1584. Flestar jarðirnar í kringum Kálfakot tilheyrðu Viðeyjarklaustri á miðöldum og því nokkuð líklegt að það hafi einnig átt við Kálfakot. Ólafur bendir á að algengt hafi verið að bæjarnöfn fengju endinguna – kot við það að leggjast í eyði. Jörðin hafi því áður heitið Kálfastaðir en það gæti verið afbökun úr enn eldra nafni, Kálfarrstaðir sem sé þá dregið af karlmannsnafninu Kálfarr.
Hannes Þorsteinsson gerði nafn jarðarinnar einnig að umtalsefni í skrifum sínum um 1923. Hann benti á að jörðin nefnist Kálfastaðakot í jarðabókum frá 1639 og 1696 “og getur vel verið, að það sé upphaflega heitið, kennt við einhverja Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar.” Ólafur Lárusson taldi sennilegt að Kálfastaðir hafi lagst við nágrannajörðina Lambhaga þegar jörðin fór í eyði. Lambhagi tilheyrði Viðeyjarklaustri og fór svo undir konung og þannig hafi Kálfakot komist undir konungshendur. Þegar jörðin var aftur byggð þá var það undir nafninu Kálfastaðakot. Upp úr 1590 er farið að nefna jörðina Kálfakot og árið 1925 er jörðin nefnd Úlfarsá, þá átti hana Sigurjón Einarsson.

Úlfarsá

Úlfarsá (Kálfakot) – tóftir.

Samkvæmt jarðabókinni 1704 var jörðin þá konungseign. Ábúendur voru tveir, Salbjörg Gunnlaugsdóttir sem bjó á helmingi jarðar og Einar Sveinbjörnsson sem bjó á hinum helmingnum. Landskuld af allri jörðinni voru xl álnir og skiptist til helminga á milli ábúenda. Landskuld skyldi borgast í fríðu með sama taxta og gilti um Helliskot. Ábúendur skyldu leggja fram við til húsabóta. Kúgildi voru þrjú, eitt og hálft hjá hvorum ábúanda. Leigur skyldu borgast í smjöri heim til Bessastaða eða í Viðey eftir því sem fyrirmæli voru. Ábúendum bar að yngja upp kúgildin. Á jörðinni voru sömu kvaðir og á Reynisvatni nema hvað hestlán varðar en hestlán höfðu ekki verið á kvöð á jörðinni þar sem ábúendur voru svo fátækir að þeir áttu annað hvort engan hest eða einn og þá „lítt eður ekki færan, og fóður minnast menn ei að verið hafi kýr að fullu“. Engjar voru taldar „ærið“ litlar, útigangur lakur og landþröng mikil. Kvikfénaður Salbjargar voru tvær kýr en Einar var með fjórar kýr, eina kvígu veturgamla, einn hest, sjö ær með lömbum, tvær geldar ær, tvo veturgamla sauði og einn tvævetur. Talið var að á allri jörðinni gætu fóðrast sex kýr, 10 lömb og einn hestur. Tveir voru til heimilis hjá Salbjörgu og þrír hjá Einari. Torfskurður til húsagjörðar og eldiviðar var talinn nægilegur.

Úlfarsá

Úlfarsá – fjárborg.

Árið 1882 var jörðin í eigu Jóns Péturssonar „háyfirdómara” og Tómasar Hallgrímssonar „læknaskólakennara” sem bendir til þess að þá hafi eigendur ekki búið á sjálfir jörðinni allt árið. Árið 1909 þegar Herforingjaráðskortið var gert af svæðinu, er Úlfarsáin nefnd Korpúlfsstaðaá og Úlfarsfell Hamrafell. Frá Vesturlandsvegi sem þá var orðinn vagnavegur liggja tveir vegir inn Úlfarsárdalinn að norðan, en við Lambhaga greinast þeir í tvær leiðir, önnur fer upp að hryggnum sunnan við Leirtjörn að Úlfarsfelli og áfram að Reykjarkoti og Syðri-Reykjum, en neðri leiðin fer beint að Kálfakoti.
Samkvæmt manntali frá árinu 1703 til 1920 bjuggu í Kálfakoti ein til tvær fjölskyldur frá 1703 til 1920, fæst fimm manneskjur en flest nítján.

Kálfakot

Kálfakot – túnakort 1916.

Túnakort var gert af jörðinni Kálfakot árið 1916, af Vigfúsi Guðmundsyni frá Keldum. Aðalbærinn er á miðju kortinu undir „Fellinu“ og samanstendur hann af sjö húsum sem hafa verið torfhús með standþili og snúa þau suður. Á hlaðinu eru auk þess tveir stórir kálgarðar, bæjartröðin lá í austur frá bænum. Norðaustur af bænum í Fellinu hefur verið annar bústaður, tvö hús og annað þá greinilega orðið tóft, en við það var lítill kálgarður.
Austur af bænum voru tvö útihús og hefur anað þeirra verið tóft. Suður af bænum neðst í túninu hefur verið lítið timburhús, þar suður af var skeifulaga skjólgarður og lítill kálgarður. Í athugasemdum við kortið kemur fram að timburhúsið neðst í túninu hafi verið byggt til íbúðar (Margrét Zoega) árið 191?, og rifið aftur (Jón Kr.) 1917 og selt til Reykjavíkur. Jaðar túnsins er markaður en einungis hefur verið hlaðinn túngarður frá Gili í austur að bústaðnum en þar hefur tekið við girðing. Í Gilinu hefur verið girðing eða aðhald. Túnið telst vera 3,2 teigar (hektarar) og er um helmingur sléttaður nýlega og kálgarðar hafa verið um 950 m2.

Úlfarsá

Úlfarsá – stekkur.

Á árunum 1915-17 bjó Margrét Zoëga í Kálfakoti, en hún flutti þangað í kjölfar brunans á Hótel Reykjavík, en hún var þá orðiðn ekkja (Einar Zoëga). Margrét átti þá tvær jarðir, Einarsstaði á Grímstaðholti og Kálfakot. Sjálf ræktaði hún garðávexti að Einarstöðum en hafið ráðsmann í Kálfakoti. Margrétt lét byggja lítið timburhús fyrir sig í túnfætinum á Kálfakoti trúlega árið 1915, en þar var síðar reist steinhús á Úlfarsá (1930). Árið 1918 reisti Margrét Zoëga síðan húsið Þrúðvang við Laufásveg 7 og flutti þangað í kjölfarið.
Í framhaldi eignast Jón Kristjánsson prófessor í Reykjavík jörðina árið 1918 og lætur hann rífa hús Margrétar og selur það til Reykjavíkur. Hann var stórhuga í búskapnum, og árið 1918 lét hann þurrka upp tjörn fyrir utan og ofan bæinn (Leirtjörn), sem var 18 dagsláttur að stærð. Þar ætlaði hann, ef honum hefði enst aldur til, að sá í hana höfrum. Að meðaltali fengust 18 hestar af hafragrasi af dagsláttunni hér á landi þá. Auk þess byggði hann, ásamt eiganda Reynisvatns, vatnsveitugarða og ætluðu þeir að veita Úlfarsá yfir allar engjarnar, sem liggja með fram henni.

Úlfarsá

Úlfarsá – stífla.

Í Fasteignamatsbók Kjósarsýslu frá 1918 er jörðin nefnd Kálfá en svo innan sviga (=rkot) þannig að bæði nöfnin hafa verið þekkt á þeim tíma. Að auki hefur nafninu Úlfarsá verið bætt við fyrir aftan og er það líklega gert árið 1930, þegar athugasemdum var bætt inn í bókina. Í matsbókinni kemur fram að jörðin sé norðanvert í Úlfarsdalnum, um 11 km frá Reykjavík, eigandi og notandi sé Jón Kristjánsson. Jörðin er skattsett 200 krónur. Svo virðist sem enginn búi á jörðinni á veturna. Tún voru 3,2 teigar, hölluðu til suðurs og tæplega helmingur var sléttaður og taða var um 130 hestburðir. Sáðreitir voru 800 m2 og uppskeran um 12-15 tunnur. Miðað við stærð sáðreita hefur þetta verið lítill hluti af Leirtjörninni sem sáð var í. Útslægjur voru taldar fremur þýfðar en nokkuð samfelldar og mest var af þeim hafa um 300 hestburði. Land var ekki mikið, og fremur rýrt, sunnan í Úlfarsfelli. Tún var girt á tvo vegu, mest var notast við þriggja strengja vír en restin var grjótgarður. Aðrir kostir eða ókostir voru „varla teljandi“ en mótak talið sæmilegt, vatnsból gott, byggingarefni lélegt og „hægt um tún útfærslu“. Bent er á að foss sé í ánni á merkjum og mögulegt væri að veita á slægjublett. Árið 1918 er engin áhöfn á jörðinni um veturinn en talið að hún fóðri þrjár kýr og einn vetrung, þrjú hross og 100 fjár. Hvað húsakost varðar var hann metinn á 1100 krónur en hann samanstóð af timburhúsi í smíðum úr fremur lélegu efni, 4,4 x 6,9 m metið á 500 krónur, hlaða fyrir 250 hesta metin á 300 krónur, fjós fyrir tólf nautgripi (sumarfjós) metið á 160 krónur, hesthús fyrir fimm hross metið á 40 krónur. Jarðabætur voru metnar á 300 krónur og heildarmat var því um 6000.

Úlfarsá

Úlfarsá – stíflugarður fyrir vorflæðið.

Björn Bjarnason segir svo í riti sínu Sagnir, ljóð o.fl. frá 1931: “Úlfarsá (áður Kálfakot). Þar bjó lengi Guðm. Jónsson á síðari hluta 19. aldar. Síðan hafa ýmsir búið þar, sumir eigendur, þar á meðal Margrét (Tómasd.) Zoega. Hún færði bæinn, er var ofarlega í túni, á lítinn bala neðst í því. Byggði þar timburh. og leiddi vatn inn. Það hús var síðar rifið, og byggt annað minna. Síðar var annað íbúðarhús byggt við það, en eldra húsið gert að geymslu. Fjós og hlaða er nú steypt. Eig. + ábúandi nú Jón Guðnason hefur gert nýrækt allmikla. Túnið að mestu sléttað. Var 3 kúa tún, nú 10-12. Talsvert sauðfé. Girðingar miklar.”
Ljóst er af þessum lýsingum að staðsetning bæjarins hefur ekki verið samfelld á einum bæjarhól. Bærinn var að hluta færður um 1916 þar sem síðar var steypt hús á Úlfarsá. Þar byggði Margrét Zoega fyrst 1915 það hús var síðan rifið og nýtt í byggingu 1918 þegar úttektin fór fram, sjá hér að framan, sama ár létust hjónin Jón Kristjánsson lagaprófessor og kona hans Þórdís T. Benedikts. Jörðin var síðan auglýst til sölu í desember 1918 metin á 12,2 hr. að dýrleika og átti að seljast hvort sem er með eða án áhafnar. Þá virðist ekki hafa fundist kaupandi, því jörðin var boðin upp 8. maí árið eftir og þá eru þar 6 kýr 25 kindur, 2 vagn hestar og 6 hænsni auk vagna, plóga, herfis, reipa og annarra húsmuna.

Úlfarsá

Úlfarsá – kennileiti.

Jón Guðnason og Jóna Þorbjarnardóttir bjuggu á Úlfarsá frá 1927-1944 og byggðu þau upp jörðina. Árið 1930 var búið að byggja tvö íbúðarhús annað úr timbri en hitt steypt, auk steyptar hlöðu og fjóss. Vatnleiðsla lá heim að bænum og búið að stækka túnin frá fyrra mati.
Fjárhús var á jörðinni auk þess sem búið var að ryðja bílfæra braut að bæjarstæðinu. Úlfarsá var í ábúð til ársins 1953.
Á árunum 1948-50 fékk Atvinnudeild Háskólans að gera ræktunartilraunir á Úlfarsá og var dr. Áskell Löve þar fremstur í flokki með ræktun, t.d. á jarðaberjum, eplatrjám ásamt 97 afbrigðum af kartöflum.
Upp úr 1950 var farið að huga að byggingu fyrir drykkjumannahæli í nágrenni Reykjavíkur og árið 1979 var Gæsluvistarsjóður orðinn eigandi Úlfarsár. Jörðin var þá nýtt sem útibú frá Kleppspítala og var drykkjumannahæli þar til ársins 1962. Gestur Björnsson forráðamaður vistheimilisins var skráður fyrir nokkrum skepnum á jörðinni 1980.
Jörðin tilheyrði Mosfellssveit til ársins 2001, þegar sveitafélagsmörkum var breitt. Uppbygging á íbúðahverfi innan jarðamarka Úlfarsár hófst í kjölfar samþykktar á deiliskipulags fyrir Úlfarsárdal árið 2006.”

Heimild:
-Fornleifaskráning Úlfarsárdals, Reykjavík 2017.

Úlfarsá

Úlfarsá – brunnur.

Lónakot

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Þorbjarnarstöðum:

Þorbjarnarstaðir
HafnarfjörðurÞorbjarnarstaðir voru ein af svokölluðum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elsta heimild um Þorbjarnarstaði var frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs en þá var jörðin í eyði, þannig hún hefur verið í byggð eitthvað fyrir þann tíma.9 Næst var sagt frá Þorbjarnarstöðum í fógetareikningum frá 1547-48 en þá var jörðin komin aftur í byggð: „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyld iij vether fiske dt. summa iije tals.“
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Þorbjarnarstaða hafi verið óviss og jörðin hafi verið í konungseigu. Jörðin var þá með selstöð sem nefndist Gjásel (2679-16) en þar voru hagar góðir en vatns slæmt. Sagt var að túnrista og stunga hafi verið í slakara lagi á Þorbjarnarstöðum og ekki nægileg en fjörugrastekja var góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði var árið í kring og lending góð en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 166, dýrleiki hennar var 12 ½ hndr. landskuldin 0.75 kúgildin 2 og ábúandi einn, sem einnig var eigandi.
Árið 1869 fluttist Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881. Valgarður L. Jónsson ritaði grein um Ólaf í Íslendingaþáttum Tímans: „[…] Það mun hafa verið árið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnarstaðir í Straumsvík við Hafnarfjör, þar býr hann í 12 ár, sem leiguliði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Satt best að segja átta ég mig ekki hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfist túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum rétt ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á það grafnir.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1918.

Á túnakorti af Þorbjarnarstöðum frá 1919 var sagt að túnin á Þorbjarnarstöðum hafi verið slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2 en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Byggð virðist hafa verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920 en samkvæmt manntölum þá bjuggu þar mest 19 manns árið 1709 en minnst bjuggu þar 3 manns árið 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn var skráður að Þorbjarnarstöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðarker.

Ætla má að þær minjar sem eru hvað mest áberandi á Þorbjarnarstöðum sé komnar frá honum Ólafi en búast má við því að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar við Þorbjarnarstaði tengjast flestar búskap á svæðinu, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög. Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kringum bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktarmörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Finna má tvo aðra grunna til viðbótar fast sunnan við Reykjanesbrautina.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Norðan við bæjarstæðið og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina má sjá leifar þurrabúðarinnar Péturskots. Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raksi vegna Reykjanesbrautarinnar. Finna má lýsingu á Péturskoti í Örnefnaskrá: „ […] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni.“
Tvö sel frá Þorbjarnarstöðum voru skráð, Fornasel og Gjásel. Sagt var frá þeim í Örnefnaskrá: „ […] Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið.
Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar“. „[…] Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög.“
Árið 2001 gerði Fornleifafræðistofan fornleifarannsókn á Fornaseli og var markmið rannsóknarinnar að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols aldursgreinar og til að kanna í hvaða ástandi minjarnar að Fornaseli voru.17 Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að allt benti til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Rannsóknin gaf einnig í ljós að tóftir (2679-10) og (2679-8) voru mannabústaðir, tóft gæti hafa verið það en rýmið sem var rannsakað í henni var að öllum líkindum búr eða eldhús.

Straumur

Straumur

Straumur – túbakort 1918.

Straumur var einnig ein af Hraunjörðunum, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.

Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xiij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Næst var getið um Straum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar var sagt að jarðardýrleikinn hafi verið óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir. Jörðin átti selstöð þar sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og ekki var talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.

Straumssel

Í Straumsseli.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðinni gefið númerið 165, jörðin var þá í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ hndr., landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landamerki fyrir jörðina Straum: „Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til Krísivíkurland tekur við. (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Merkustu minjarnar sem tengdust Straumi voru án efa minjasvæðið við Straumssel. Þar var haft í seli a.m.k. síðan 1703,24 líklega mun fyrr, og svo var byggður þar bær um miðja 19. öldina. Bæði leifar bæjarins og selsins eru mjög heillegar. Í Örnefnaskrá segir: „Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann.“
Einungis voru skráðir ábúendur í Straumsseli í manntali árið 1860, þá bjuggu þar Sveinn Gíslason og Þórdís

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Óttarsstaðir töldust einnig til hinna svokölluðu Hraunjarða, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá árinu 1379 og var vitnisburður Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnessvötnum á milli Hvassahrauns og Óttarstaða: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesin maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvroia vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“

Einnig var sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en þar var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – túnakort 1919.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1073 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin hafi verið í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leiga var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsbóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur. Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilsmenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilsfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi þar sem hagar voru góðir en það gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.

Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu.
Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni, önnur um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 163 (Óttarsstaðakot 164) og var jörðin í bændaeign. Dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1.5, kúgildin 3 og ábúendur voru 1 eigandi og 1 leiguliði.
Þær minjar sem skráðar voru sem helst tengjast Óttarsstöðum voru án efa Óttarsstaðasel og Lónakotssel, en Óttarsstaðir voru með selstöðu í Lónakotslandi á móts við uppsátur sem Lónakot var með í Óttarsstaðalandi og fjallað verður um Lónakotssel í næsta kafla. Í Örnefnaskrá segir: „ […] blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru.32 Snúa dyr í austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilega ver reft yfir þetta skjól og það þá verið hið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparkler með vatni, á annan metra að dýpt.
Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

Lónakot var einnig ein af hinum svonefndu Hraunjörðum, þær jarðir sem voru innan bæjarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot var í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske d.t. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547-1553.

Lónakot

Lónakot – bærinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að dýrleiki Lónakots hafi verið óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenningnum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki til þess að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var þá tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilsmenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var n

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

okkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðsöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almennileg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.

Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0.4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Helstu minjarnar sem skráðar voru og tengjast Lónakoti voru án efa Lónakotssel. Þar höfðu Óttarsstaðamenn einnig í seli á móts við uppsátur Lónakotsmanna á Óttarsstaðalandi. Í Örnefnaskrá segir: „[…] Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði [innskot: það fannst ekki] í flagi og þraut oftast í þurrkatíð“.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Þorbjarnarstaðir. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-X-Hraunjardir-sunnan-Reykjanesbrautar.pdf

Markhella

Markhella – áletrun.

Kaldársel

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Kaldárseli:

Kaldársel
KaldárselKaldársel var við Kaldá og var selstaða frá prestsetrinu á Görðum og tilheyrði Garðakirkjulandi. Elsta heimildin um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703: „Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“10 Í ferðabók sinni sagði Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur í görðum hafði 1791 og líklega er um Kaldársel að ræða: „Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðar bóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“
KaldárselÍ lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju. Árið 1842 keypti Jón Hjörtsson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir, kona hans, voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma sem þau bjuggu á Hvaleyri og höfðu þau sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Selfarir lögðust niður í Kaldárseli eftir að Jón lést árið 1866.
Næst var getið Kaldársels árið 1867 og var þá heilsárs byggð þar. Þá bjó í Kaldárseli Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Líklegast bjó Jón í Kaldárseli í tvö ár og var hann skrifaður þurrabúðarmaður á meðan. Við brottför þeirra úr Kaldárseli lagðist búskapur þar niður í nokkur ár. Árið 1876 voru þrír skráðir til heimilis í Kaldárseli. Það var Þorsteinn Þorsteinsson bóndi,en hann var ókvæntur og barnlaus, með honum var ráðskona og tökubarn. Þorsteinn bjó í Kaldárseli í tíu ár og voru heimilismenn allt frá honum einum upp í sex. Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé en einnig hafði hann eitt til tvö hross. Fé hans hafði nokkra sérstöðu því það var nánast allt ferhyrnt, sem hafði einnig þann eiginleika að vera harðgert og þolið beitarfé.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þorsteinn var í Kaldárseli fram til dauðadags 1866 og við andlát hans lauk fastri búsetu þar og voru þau mannvirki sem enn stóðu í Kaldárseli líklega eftir hann. Ólafur Þorvaldsson lýsti húsakostinum í Kaldárseli í bók sinni Áður en fífan fýkur: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“
Danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 og lýsti hann rústunum: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir […] einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hésthús en ekkert fjós.“

Kaldársel

Kaldársel m.t.t. staðsetningar fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Skömmu eftir andlát Þorsteins voru öll húsin í Kaldárseli rifin fyrir utan baðstofuna en hún stóð þar til um aldamótin 1900 og var notuð sem afdrep fyrir fjármenn Setbergsbænda sem ráku fé sitt á þessum slóðum og Krýsvíkinga sem áttu leið þar um á ferðum sínum til og frá Hafnarfirði. Haustleitarmenn Grindavíkurhrepps nýttu sér einnig baðstofuna sem og hinir fjölmörgu erlendu ferðamenn sem leið áttu til Krýsuvíkur. Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli og var það ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson, sem gerði þá tilraun. Hann byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu og byggði þar fjárhús. Hann hafði lömbin á húsi en ærnar við hella norður af Kaldárseli. Tilraun Kristmundar entist þó einungis í einn vetur en löng ganga milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, músétin lömb og að honum bauðst vist hjá bóndanum á Hvassahrauni þar sem hann gat tekið fé sitt með sér voru ástæður þess að búskapurinn entist ekki lengur en raun ber vitni. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1912 keypti Hafnarfjörður mikið land af Garðakirkju og var Kaldársel þar á meðal. Vatnsskortur var farinn að láta á sér bera í Hafnarfirði og því voru umbætur gerðar árið 1918.
Ákveðið var að flytja hluta vatnsmagns Kaldár í ofanjarðar tréstokk og sleppa því í suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkurinn var um 1.5km á lengd. Vatnið fann sér þaðan leiða neðanjarðar að Lækjarbotnum þar sem vatnsveita Hafnfirðinga var.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Skiluðu þessar umbætur nægjanlegum vatnsbirgðum til Hafnfirðinga. Árin 1949 – 1953 var ráðist í umbætur á vatnsleiðslunni frá Kaldá, gerð var neðanjarðarleiðsla sem náði frá Kaldá og alla leið til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hús til sumardvalar barna.17 Börnin voru flest á aldrinum 8 – 10 ára. Í Vísi 28. júlí 1929 lýsti Sigurbjörn Á. Gíslason dagsferð í Kaldársel. Hann lýsti meðal annars húsakynnum K.F.U.M.: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt, þar eru 24 rúm, þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði.“

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Leifar Gamla Kaldárssels staðsett framan við nýrri bygginuna.

K.F.U.M. og K. er enn með starfsemi í Kaldárseli þótt húsið sé mikið breytt frá lýsingu Sigurbjörns.
Tóftir Kaldársels standa nú um tæplega 10m vestan við hús K.F.U.M. og K. og er heimreiðin að húsinu alveg upp við þær. Ekki má ráðast í nokkurskonar framkvæmdir sem hafa jarðrask í för með sér án leyfist Minjastofnunar Íslands og í raun ætti að fara með einstakri varúð við allar framkvæmdir við Kaldársel en minjarnar eru friðlýstar og eru þess vegna 100 metra friðhelgað svæði í kringum sig. Fleiri friðlýstar minjar eru á svæðinu, t.a.m. fjárborgarrústir sem liggja á hæð um 280m NVN við Kaldársel.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Töluvert af minjum voru skráðar við Hvaleyrarvatn og tengjast þær flestar seljabúskapi á svæðinu. Þar af er helst að nefna Hvaleyrarsel en það stóð þar sem nú er frekar hár grasivaxinn hóll við sunnanvert vatnið og tvístrast göngustígurinn sem liggur um vatnið og liggur sitthvorumegin við hólinn. Þar mótaði fyrir að minnsta kosti þrem tóftum. Miðju tóftin hefur verið aðal húsið í þyrpingunni og hin tvö mögulega verið búr og skemma.
Hvaleyri var líklega með selstöðu við Hvaleyrarvatn frá upphafi og er jörðin að öllum líkindum elsta bújörð Hafnarfjarðar og hafa fundist minjar frá því í kringum árið 900 á henni.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Að vísu leiddi Sigurður Skúlason líkur að því að Hvaleyrarsel hafi verið við Kaldá og nafnið breyst í Kaldársel20 en það er að öllum líkindum ekki rétt enda er Kaldársel innan afréttar Garðakirkjulands og var Hvaleyrarvatn mun nær bújörð Hvaleyrar. Seljabúskapur í Hvaleyrarseli lagðist niður í kringum 1870 og segir sagan að það hafi gerst eftir að selstúlkan fannst látin við vatnið og talið var að nykur (2662-111) hafði orðið henni að bana: “Selstöðu átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón og Þórunn héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selstúlku og smala. Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur heim á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið var þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð felmtrisleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðist við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. Þau urðu endalok nykursins að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918.“
Jón og Þórunn, sem nefnd voru í sögunni, bjuggu á Hvaleyri frá 1864-1868.
Um 200 metrum austan við Hvaleyrarsel á grasivöxnum bakka í skógarjaðrinum má sjá móta fyrir ógreinilegum tóftum Ássels og rúmlega 450 metrum norð-austan við þær inn á milli trjánna við göngustíg er að finna tóftir Jófríðarstaðasels. Eftir að Hvaleyri hætti seljabúskap við Hvaleyrarvatn skiptu Ás og Jófríðarstaðir með sér landinu við vatnið.

Undirhlíðar

Breiðdalur

Breiðdalur.

Minna var um minjar við Undirhlíðar, enda svæðið að mestu úfið hraun og langt frá byggð. Þó er töluvert um leiðir og stíga á svæðinu. Tvennar þjóðleiðir liggja sitthvorumegin við hlíðarnar, þ.e. Undirhlíðavegur við norðurhliðina og Dalaleið við suðurhlíðina, báðar ganga þær frá Krýsuvík að Kaldárseli. Undirhlíðarvegur var sá vegur sem var mest farinn þegar farið var með hesta til eða frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Frá Kaldárseli „[…] lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melagötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. […]“

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Dalaleiðin var sjaldnar farin, þá helst að vetri til, en var samt stysta og beinasta leiðin. Hún var þó talin sú hægasta og gat verið hættuleg: „Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en vetrarsólhvörf. […] Á þessari leið gátu ísar verið ótryggðir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, – en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 – 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. […] Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið – Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krísuvík missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.
Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. […] En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndast þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin. Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2-4m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hesta nái niðri, ef ofan í lenda.“

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Í sprunginni hæð, sem nefnist Gvendarselshæð, sem gengur í norðaustur út frá Undirhlíðum í átt að Helgafelli er að finna leifar Gvendarsels en þar var haft í seli á 19. öld. Sagt var að þar hafi verið svo þykkur rjómi á trogum að haldið hafi uppi vænni silfurskeið.26 Þar eru leifar fjögurra mannvirka, þrír stekkir og ein tóft sem var túlkuð sem búr. Ekkert íveruhús fannst á staðnum en selið er, eins og áður segir, í og við sprungur í hlíðinni og getur vel verið að þær hafi verið nýttar og þá mögulega einungis tjaldað yfir eða í þeim.
Sunnan við Undirhlíðar liggur Skúlatúnshraun, nefnt eftir um 1.3 hektara grashól sem stendur upp úr hrauninu. Árið 1902 heyrði Brynjúlfur Jónsson sagnir af Skúlatúni og taldi víst að þar væri búið að draga saman nafnið Skúlastaðatún. Brynjúlfur var búinn að vera að leita að bæjarstæði Skúlastaða en Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, á að hafa numið land á milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og á að hafa búið á Skúlastöðum. Fannst Brynjólfi líklegt að Skúlastaðir hafi staðið þarna og að nafnið Skúlatún hafi komið til eftir að hraun flæddi yfir bæinn og landareignina alla. Hann kom til Skúlatúns árið 1907: „[…]Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti ég trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleyfum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmeginn þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvesta-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upphaflega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var í þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum.

Gvendarselshæð

Gvendarselshæð – stekkur.

Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér gefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið Skúlatún, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.“
Brynjúlfur vissi þó ekki að Skúlatúnshraun rann um 900 árum áður en talið er að land var numið og auk þess er staðsetninging ósennileg, ef Ásbjörn á að hafa numið land á Álftanesi öllu væri mun líklegra að bærinn hafi staðið við sjó og þar sem vatnsból væri gott. Engin ummerki um mannvistarleifar fundust við vettvangsathugun. Staðsetning Skúlastaða er þá enn óþekkt en ein kenningin er að landnámsbærinn hafi staðið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Kaldársel. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-IX-Kalda%CC%81rsel-og-na%CC%81grenni.pdf

Kaldárssel

Kaldárssel – fjárhellar.

Krýsuvík

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Krýsuvík:

Krýsuvík
KrýsuvíkElstu heimildir um Krýsuvík má finna í Hauksbók Landnámu, þar sagði að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík.
Þarna er þó verið að tala um Gömlu-Krýsuvík sem líklega hefur staðið í Húshólma en þar má sjá fornar tóftir innan um hraunið sem rann yfir þær um 1151.
Ein kenningin er að eftir að Ögmundarhraun rann yfir Gömlu-Krýsuvík hafi bærinn verið fluttur þar sem Krýsuvíkurkirkja stendur enn í dag, inn á land Gestsstaða, sem var þá í eigu Krýsuvíkurkirkju. Við það hafi nytjar Gestsstaða rýrnað eftir því sem Krýsuvík þurfti meira land undir sinn búskap og Gestsstaðir á endanum lagst í eyði.
Næst var minnst á Krýsuvík í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar, sem er frá því um 1200, og sagt að kirkja hafi verið í Krýsuvík.
Krýsuvík var einnig nefnd í máldögum Viðeyjarklausturs árin 1234 og 1284 í sambandi við hvalreka, ef hvalreka varð vart í Krýsuvík ætti að festa hvalinn þannig að hann ræki ekki aftur út og senda orð um rekan til Viðeyjar innan þriggja daga.
Í rekaskrá Strandakirkju 1275 var sagt: „fra mijgander grof og til bergs enda eiga strendur allan reka ad helminge vid stadenn j krijsevijk: Sa ger mældage æ herdijsarvijkur fiorum ad stadur j skalhollte a halfann vidreka. allan annan enn auxar talgu vid j millum Selstada oc hellis firer austan riett til marks vid strandar land.
Stadur j skalhollte og herdijsarvijk eigu iiij vættar huals og skal vega enu fiordu med brioske og beine: enn þridiung i öllum ef meire kiemur. Enn strandarmenn tuo hlute.
Skalhollt oc krijsevijk æ halfann allann reka under fuglberge vi strandar land.
Millum wogs og hellis´strandur land iiij vætter en ef meire er þa æ skalhollt oc krijsevijk flordung j öllum hval.
Enn firer austan wog til vindass æ stadur j skalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter enn ecke ellegar.“
Svo sagði í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík: „Maríu kirja í Krýsuvík á heimaland allt. Herdísarvík. ix. mæla land á Þórkötlustöðum. Hálfan hvalreka í Raunnesi millum Rangagjögurs og marks við Bedstædinga [Bessastaðamenn] og eingja grasnautn með. Þrjá hluta hvals enn Viðeyingar fjórðung. Enn frá migandi gröf til kirkju fjöru eiga staðir í Skáholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn. Krýsuvík á allan reka á kirkjufjöru. Enn frá kirkjufjöru og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn.

Krýsuvíkurkirkja

Enn í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viðar við Krýsuvík. Þriðjung hvalreka eigu staðir báðir saman til marks við Strandarmenn. Enn fjórðung hvals við Strandamenn til Vogs. Hálfan tólftung hvals á Krýsuvík í Strandar hluta. Ein messuklæði, kaleik, klukkur, ij bjöllur, ij glodarkier, altaraklæði, iij kross steindur, sacrarium, munnlaug, paxspjald, vij kýr, xvj ær og xx iij hross. Kúgildi viijc, j metfie, iij merkur vax, c vadmála, item iiij ær.“
Í bréfi dagsettu 13. maí 1367, sem voru vitnisburðir Þorbjarnar Högnasonar um máldaga og eignir Strandarkirkju í Selvogi, var einnig talað um hvalreka sem var í eigu Krýsuvíkur og Skálholts.35 Og í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum á Ströndum frá sama ári var sagt að Maríukirkja í Krýsuvík ætti heima land allt „herdijsarvijk, ix mæaland á þorkotlustodum.“
1397 reiknaðist kirkjunnar góss í Krýsuvík „að auk fornra máldaga, vc, portio vmm, ij, är hälf, viiij alin.“37 Einnig var sagt í máldaga Viðeyjarklausturs árið 1413 að staðurinn í Viðey ætti fjórðung í hvalreka í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur.

Í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík frá 1477 var sagt að kirkjan ætti heimaland allt Herdísarvík, ix mæla land á Þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Raunnesi milli Rangagjögurs og mark við Bessastaðamenn, svo voru eigur kirkjunnar taldar upp.39 Í bréfi frá 1479, sem var vitnisburður Arngerðar Halldórsdóttur um ítök upp í Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, var sagt að kirkjan í Krýsuvík ætti þar j x hrundruð í jörðinni.
1487 var svo gerður vitnisburður um reka Viðeyjarklausturs á Krýsuvíkurfjörum og var hann svipaður og áður.
Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa frá 1491-1518 sagði að viðarhögg í Geldingasteini, fjöru í Keflavík að helmingi við Krýsuvíkurstað að öllum reka. Sauðhöfn í Krýsuvík og húsrúm manna í að geyma þar sauðfé.42 Biskup var svo fenginn til að meta kirkjuna í Krýsuvík árið 1496 og virtist honum kirkjan x hundruðir og staðin allan með hjáleiguhúsum innan garða xv hundruðir. Árið 1525 sagði Ögmundur biskup að Viðeyjarklaustur skyldi eignast þann part í Vatnsleysulandi sem Krýsuvíkurkirkja hafði átt.

Krýsuvík

Krýsuvík 1881.

Í bréfabók Gizurar frá 1539 stóð að vitrir menn hafi sagt að sigla skyldi í suðvestur undan Krýsuvíkurbergi til að komast til Nýjalands. Ekki er víst hvaða land er átt við en ein kenning er að Nýjaland hafi verið partur af austurströnd Grænlands.
Í máldaga Kaldaðarneskirkju í Flóa 1553-54 var sagt það sama og í máldaganum 1491-1518, og máldagi Maríukirkju í Krýsuvík 1553-54 var mjög svipaður máldaganum 1477.
Árið 1563 var sóknarkirkjan í Krýsuvík lögð niður af hirðstjóra eftir beiðni Gísla biskups Jónssonar: „Það meðkennumst ég Páll Stígsson kongleg Maiestatis Bidalningzmann yfir öllu Íslandi, að á Bessastöðum um haustið mánudaginn næstan fyrir Michaelsmessu, kom fyrir mig herra Gísli Jónsson Superintendes Skálholts Sticktis. Spurði mig ráða og tillagna hver nauðsyn mér þætti á þeirri kirkju sem haldin hafði verið í Krýsuvík. Þá tók ég með mér þessa heiðurs dánimenn Jón Bjarnason, Loft Narfason og Jón Loftsson prestmenn. Item Orm bónda Jónsson Gísla, Sveinsson og Níels skrifar Ólafsson. Þótti mér með þessum fyrrnefndum dánimönnum í fyrstu engin þörf eða nauðsyn vera eður verið hafa að í þessari nefndri Krýsuvík alkirkja væri. Því það má enginn sóknarkirkja kallast sem engin samkunda til liggur. Því leist oss svo best fara og sannlega staðfestum að þessi

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurkirkja aflagðist enn lægi til Strandar kirkju bæði tolla og tíundir og alla aðra rentu svo sem aðrir almenningsbæir skyldugir eru sínum sóknarkirkjum að veita. Enn umboðsmenn dómkirkjunnar í Skálholti skyldu Krýsuvík byggja til fulls landgildis og aftekta Skálholts dómkirkju vegna. Svo og líka Herdísarvík og annað það fleira sem þessum Krýsuvíkur stað hefur fylgt. Enn sökum þess að þessi oftnefnda Krýsuvík liggur nokkuð í fjarska að vegalengd til Strandarkirkju þá þótti oss vel fara þó í Krýsuvík stæði lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt: Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja svo að Guðs orðs þjénari mætti þar huld nætur saka hafa þá hann þar kæmi eða þyrfti að koma Guðlegrar hjarðar að vitja. Skyldi þetta vort álit og gjörningur óbregðanlega standa hér eftir.“

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

1627 áttu hin svokölluðu Tyrkjarán sér stað. Eiga þeir að hafa komið á land í Krýsuvík og sagt var frá því í Þjóðsögum Jóns Árnasonar hvernig séra Eiríkur í Vogósum, sem sagður var göldróttur, hrakti þá í burt: „Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðar heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi inn og mælti hátt: „Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“ Prestur mælti: „Viljið þið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“ Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra: „Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“ Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar sem þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn nú (1859).“

Eyri

Tóftir Eyris undir Selöldu.

Eitt sel var skráð í suðaustur hlíðum Selöldunnar, ekki skal fullyrt um að Tyrkir hafi drepið þar matseljuna en þjóðsagan virðist staðfesta selið. Einnig stendur Eiríksvarða enn á Arnarfelli, þó hún hefur verið bætt á seinni tíð.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Krýsuvík sögð kirkjustaður og var hún annekteruð til Selvogsþinga. Jarðardýrleikinn var óviss og eigandinn dómkirkjan í Skálholti. Landskuldin var i hundraðir þrjátíu álnir og borgaðist með fiski ef hann var til, annars með peningum eða landaurum upp á danskan taxta. Ábúandi átti rekavið frjálsan til uppbóta á húsum nema ef um stór tré var að ræða, þá tók dómkirkjan í Skálholti helminginn. Þá sagði Jarðabókin einnig frá sex hjáleigum, Nýjabæ, Litla Nýjabæ, Norðurhjáleigu (seinna Norðurkot), Suðurhjáleigu (seinna Suðurkot) Austurhús og Vesturhús.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík á árunum 1752 – 1757 og sögðu að Krýsuvík væri kunn á Íslandi og meira að segja erlendis vegna brennisteinsins sem hafði verið safnað þar til útflutnings og gerðu þeir greinagóða lýsingu á hverasvæðinu í Seltúni.

Selalda

Selalda – uppdráttur ÓSÁ.

Henry Holland kom til Krýsuvíkur árið 1810 og lýsti staðarhaldi þar sem heldur slæmri upplifun: „Til Krýsuvíkur komum við kl. 5. Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við ræturnar á stakri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja, 18 fet á lengd og 8 á breidd, en hæðin er 5 fet og 8 þumlungar undir bita. Við höfðum ráðgerðt að búa í kirkjunni, meðan við dveldumst í Krýsuvík, og í því skyni fengum við kirkjulykilinn léðan. En við höfðum naumast litið inn í hana, er við hurfum frá því ráði. Svo mátti heita, að þar kæmu saman öll þau ógeðugheit, sem framast væri að hugsa sér, skítur, myrkur og óþefur af fiski á öllum mögulegum herzlustigum o.s.frv. Gólfið var óslétt, að við hefðum naumast getað skorað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani.“
Árið 1818 svaraði séra Jón Vestmann, prestur í Selvogi, bréfi konunglegu nefndarinnar, Commissionen for oldsagers opbevaring, sem hafði sent fyrirspurn um fornleifar í landinu. Þar skrifar hann um þær fornminjar sem hann þekkir en nefnir engar í núverandi landi Krýsuvíkur.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Þó minnist hann á fornminjar í Ögmundarhrauni: „Húshólmi niður við sjóinn í hama hrauni; hefur þar verið mikil byggð áður en brann, sem sést af húsa tófta brotum, að hvar um hraunið gengið hefur, að norðan – vestan – sunnan, og næstum saman að austan-verðu; er þar 1 tóftarform 12 feta breitt, og 24 feta langt, innan niður fallinna veggja rústa; húsið hefur snúið líkt og kirkjur vorar, meinast gamalt goða-hof; fundið hafa menn þar nokkuð smávegis af Eyrtægi; þar er tvísett túngarðs form með 20 faðma millibili, hvar nú er lyng mói; enn graslendi innan innri garðs, austanvert við hraunið.“

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja hin nýja.

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna eftir íkveikju þann 2. janúar 2010 og í framhaldi á því fór fram fornleifarannsókn á kirkjugrunninum vegna undirbúnings fyrir nýju kirkjuna sem Iðnskólinn í Hafnarfirði smíðaði og stendur sú kirkja þar í dag.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Krýsuvík. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-XII-Kry%CC%81suvi%CC%81k.pdf

Selalda

Selalda – Strákar; fjárskjól.

Langihryggur

Hér á eftir, líkt og svo margsinnis fyrrum,  verður fjallað um meintan “þjófnað” á tilteknum minningarmörkum stríðsáranna á Reykjanesskaga. Fjallað verður sérstaklega um einn staðinn af öðrum fjölmörgum, og það að gefnu tilefni.
Lög um minjavernd árið 2012 virðast hafa verið samþykkt af mikilli skammsýni. Am.k. var ekki í þeim hugað að mikilvægum fornleifum framtíðarinnar.
Hingað til hefur minjasamfélagið t.d. horft framhjá því að svonefndir “safnarar” hafi farið ránsferðir um stríðsminjasvæðin, hirt upp einstaka hluti, komið þeim fyrir í einkageymslum eða jafnvel boðið þá upp á Ebay í hagnaðarskyni. Fyrrum var í “þjóðminjalögum” bann við einstaklingsbundinni notkun málmleitartækja, eins vitlaust og það nú var, en fátt í núgildandi lögum hamlar “söfnurum” að fara ránshendi um sögustaði framtíðarinnar.

Langihryggur

Langihryggur- flugslysið er birtist þeim er fyrstir komu á vettvang.

FERLIR hefur nokkrum sinnum áður fjallað um mikilvægi varðveislu stríðsminja á Reykjanesskaganum til framtíðar litið, ekki síst sem hluta af sögu svæðisins. Nefna má t.d. frásögnina um “Minjar stríðs“, Stríðsminjar,  stríðsminjar sminjar-2/II og  auk þess umfjöllun um “Helgi flugvélaflaka“.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Eitt dæmið um hirðusemi “safnara” er t.d. þegar nokkrir þeirra fóru á þyrlu upp að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum og fjarlægðu þaðan hreyfil af flugvél er þar fórst á stríðsárunum. Hreyflinum komu þeir fyrir framan við aðstöðu þeirra á Leirunum í Mosfellsbæ og þar hefur hann síðan verið að grotna þar niður, fáum öðrum en þeim til fróðleiks í hinu sögulegu samhengi.

Í “Lögum nr. 80 29. júní 2012 – lögum um menningarminjar” er litlum gaum gert að “verðandi fornleifum” hér á landi. Í 20. gr. er reyndar fjallað um “Skyndifriðun” þar sem segir: “Minjastofnun Íslands getur ákveðið skyndifriðun menningarminja sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi”, en í huga forsvarsmanna þeirrar stofnunar hafa þó ekki verið friðlýstar framangreindar “fornminjar” eða þær notið  lögbundinnar friðunar, sé hætta á að minjunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt, líkt og segir.

Gamla Grána

Gamla Grána – slysavettvangur í Bláfjöllum.

Skyndifriðun tekur gildi þegar Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum um ákvörðun sína með tryggilegum hætti. Ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur. Ráðherra ákveður hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar áður en skyndifriðun lýkur að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.” Svona einfalt er það?! Núgildandi “lög um menningarminjar” vernda augljóslega ekki verðandi fornleifar með sögulegt gildi utan áhugasviðs forsvarsfólks stofnana ríkisins, a.m.k. virðist það ekki hafa haft hinar minnstu  áhyggjur af slíkum minjum á Reykjanesskagnum hingað til.

Njarðvík

Nýlega var auglýst STRÍÐSMINJASÝNING á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar í Rammahúsinu – Njarðvík; “Safnahelgi á Suðurnesjum 16-17. október” (2021). Uddirskriftin var “Stærsta sýning af þessu tagi sem haldin hefur verið á íslandi. Um tíu aðilar víðs vegar af landinu sýna muni úr einkasöfnum. Skotvopn – skotfæri, Orður, Skjöl, Ökutæki og fleira verður á staðnum. EKKI MISSA AF ÞESSU.”

Skoðum forsöguna, sem m.a. má sjá á https://ferlir.is/fagradalsfjall-langihryggur-flugvelabrak-3/

Langihryggur

Langihryggur – flugslys.

“Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið “74-P-8” hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur öðrum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafist í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.

Langihryggur

Langihryggur – slysavettvangur.

Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir “74-P-3” og “74-P-9” lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10.
SlysstaðurÖllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í veg fyrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið. Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.”

Njarðvík

Langihryggur – hreyfillinn í langri fjarlægð frá upprunanum. Gísli Sigurðsson horfir agndofa á dásemdina.

Í skrám hersins um slysið segir:
Martin Mariner PMB 3D
Flugvélin flaug í 800 feta hæð og brotlenti í suðausturhlíð Fagradalsfjalls, Langahrygg og gjöreyðilagðist í árekstrinum og eldi. Skyggni var slæmt.
Allir um borð létust í slysinu:
-Ens. G.N. Thornquist catpt.
-Ens. C. Bialek, pilot

Langhryggur

Langihryggur – Gísli í viðtali við einn þeirra er fjarlægði vettvangsminnismerkið – í óþökk landeigenda…

-2/Lt. William P. Robinson, pass (US Army 10th Infantry)
-Aviation Machhinists´s Mate 1st Class, Vern H. Anderson
-Aviation Machinists´s Mate 1st Class, Walter V. Garrison
-Radioiman 1st Class, Oran G. Knehr
-Seaman 2nd Class, M. Ground
-Seaman 2nd Class, E.L. Cooper
-Aviation Machinists´s Mate 1st Class (Naval Pilot), Coy. M. Weerns
-Radioman 2nd Class, Joseph S. Wanek
-Aviation Machinists´s Mate 3rd Class, Andrew R. Brazille
-Aviation Ordnanceman 3rd Class, W. Gordon Payne

Langihryggur

Hreyfillinn að grotna niður í geymslu “safnaranna”….

Flugvélin:
-Framleiðandi: Glenn L. Martin Company, PBM-3D Mariner
Skráningarnúmer: 74-P-8
Bu.No: 1248
Tilheyrði: Us Navy, Squadron VP-74

Í umfjöllun á https://ferlir.is/langihryggur-fagradalsfjall-dalssel/ segir frá slysinu í Langahrygg.

Langihryggur

Langihryggur – þeir er létust í slysinu…

Í annarri frásögn á vefsíðunni segir: “Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu. Fylgt var gömlu leiðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn. Kíkt var í Drykkjarsteininn, sem Símon Dalaskáld orti um á sínum tíma og getið er um í annarri FERLIRslýsingu. Skárnar voru stútfullar af tæru regnvatni.
Haldið var áfram upp með Bratthálsi og Lyngbrekkur og stefnan tekin á Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill.

Langihryggur

Langihryggur – hreyfillinn.

Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.
Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stóra Hrút. Stóri Hrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stóra Hrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.

Þann 17.10.2021, í “Landanum” skoða 21;24 mínútuna, var m.a. fjallað um framangreindan “þjófnað” á hreyflinum í Langahrygg, án þess að þáttarstjórnandinn virðist kveikja hið minnsta á “perunni”, a.m.k. ekki hvað forsöguna né staðarminjagildið varðaði.

Hafa ber í huga að minjar er lúta að lífslokum þeirra þátttakenda er gerðu sitt besta til að uppfylla skilyrðislausar kröfur yfirmanna sinna á stríðsárununum ber að varðveita að verðleikum á vettvangi, þótt ekki væri til annars en til að minnast þeirra þar er hlut áttu að máli hverju sinni…

FERLIRsfélagar hafa t.d. fylgt afkomendum slyss í Núpshlíðarhálsi og öðrum slíkum á slysavettvangá Sveifluhálsi. Allir þeir voru afskaplega ánægðir með að að fá dvelja um stund með leifum flugvélanna á vettvangi. Einn afkomendanna í Sveifluhálsi hafði borið með sér gyltan hnapp, sem herstjórnin hafði sent fjölskyldunni að honum látnum. Hann dró  hnappinn fram úr vafningi, gróf hann niður í svörðinn, hélt stutta bæn og rótaði síðan yfir. Ólíklegt má telja að safnarar mubu finna gripinn þann, sem betur fer….

Heimildir m.a.:
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/landinn/30779/95h066< – (21:24 mín)

Langihryggur

Hreyfillinn í Langahrygg – helsta minningarmerkið um atburðarrásina á vettvangi þessa sögulega slyss, áður en það var fjarlægt og fyrirkomið i innilokaðri geymslu í Njarðvík er fáir koma til að berja það augum í framtíðinni…

Aspar

Svo virðist sem lítið sé aðhafst við að spyrna í verki við fótum og höndum þegar samspil skógræktar og fornleifa eru annars vegar.

Fornasel

Við Fornasel 2008.

Í 3 gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012 segir um “Fornminjar“:
Fornminjar” samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
Forngripir” eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
Fornleifar” teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem:
a. búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,

Baðsvellir

Selstóftir í skógi á Baðsvöllum.

c. tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,
d. vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
e. virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
f. þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
i. skipsflök eða hlutar þeirra.
Fornminjar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Í 4. gr. er fjallað um “Byggingararfinn“:
Til byggingararfs samkvæmt lögum þessum teljast hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, svo sem:
a. stök hús eða hlutar þeirra og húsasamstæður, hvort sem er til íbúðar eða menningar- og atvinnustarfsemi í þéttbýli eða dreifbýli, húsaþyrpingar og götumyndir,
b. kirkjur og bænhús, ásamt tilheyrandi mannvirkjum, svo sem klukkuturnum, garðhleðslum og sáluhliðum, klaustur, samkomuhús, skólahús og nánasta umhverfi þeirra, aðrar opinberar byggingar, íþróttamannvirki og sundlaugar,
c. brýr og hvers konar samgöngumannvirki, virkjanir, stíflur, dælustöðvar og önnur orkumannvirki, hafnarmannvirki, vind- og vatnsmyllur, vitar, slippir, hjallar, manngerðir hellar og réttir.

Rósel

Rósel 2020.

Í 21. gr. um “Verndun fornleifa” segir m.a.:
Fornleifum, sbr. 3. mgr. 3. gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Eigendur og ábúendur jarða skulu hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.
Minjastofnun Íslands gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær. Ef nauðsyn krefur lætur Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.
Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.

Hvalsnesleiðin forna

Hvalsnesleiðin forna 2008.

Í 22. gr. laganna er fjallað um “Friðhelgun og merkingar“:
Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið.
Minjastofnun Íslands skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjastaðir séu auðkennd með sérstökum merkjum. Upplýsingaskilti eða aðrar merkingar við friðlýstar fornleifar skulu vera í samræmi við reglur sem stofnunin setur og skal staðsetning þeirra vera háð samþykki stofnunarinnar.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

“Meðal þess sem er nýtt í lögunum og við fögnum hjá Minjastofnun er að friðhelgað svæði í kringum friðlýstar minjar er nú 100 metrar, en það var 20 metrar í eldri lögum. Þá er nýjung í minjaverndarlögum að inn kemur ákvæði um 15 metra friðhelgað svæði kringum friðaðar minjar en slíka mörkun skorti í eldri lögum” skrifar Kristín Huld Sigurðardóttir í “hugleiðingum sínum um breytt umhverfi minjaverndar í Árbók HIF 2012 (2013).

Á vesíðu Minjaverndar segir m.a. um framkvæmdir við friðlýstar fornleifar: “Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar og á fornleifunum sjálfum eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands”.

Hvaleyrarsel?

Hvaleyrarsel – stekkur.

Í riti um “Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga” er m.a. fjallað um áhrif skógræktar á menningarminjar: “Það er gert við mat á áhrifum skipulagstillögunnar á umhverfið. Sem dæmi má nefna að skógrækt getur haft áhrif á gróðurfar, ásýnd lands og nærveður og einnig á svæði sem njóta verndar, s.s. vegna vatns, náttúrufars
eða menningarminja”.

Í umsögn Minjastofnunar um lýsingu vegna gerðar landsáætlunar í skógrækt LSK2020 til Umhverfis og Auðlindaráðuneytisins þann 30. janúar 2020 segir m.a.: “Nýrækt skóga getur haft í för með sér umbyltingu lands og raskað einstökum fornleifum sem og haft áhrif á minjaheildir og menningarlandslag. Því er nauðsynlegt að festa í sessi samvinnu skógræktar og minjavörslu til að tryggja hagsmuni minjaverndar.

Seldalssel

Seldalssel.

Í 1. mgr. 21. gr. laga um menningarminjar segir: “Fornleifum […] jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðurnar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr sdtað nema með lyfi Minjastofnunar Íslands”.
Mikilvægt er að það sé skýrt að allar fornleifar (sem uppfylla skilyrði 3. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012) er friðaðar og taka þarf tillit til þeirra og þess menningarlandslags sem þær tilheyra þegar horft er til skógræktar. Í 4. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 segir: “Nánar tiltekið skal í áætluninni gerð grein fyrir: a; forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags.”

Húshöfði

Húshöfði – stekkur.

Á Reykjanesskaganum hefur skógræktarfólk litla virðingu borið fyrir menningarminjum og öðrum fornleifum. Eftirlit með að trjám og öðrum gróðri sé plantað í einstakar fornleifar eða jafnvel heilar menningarheildir hefur hingað til verið ábótavant, eins og eftirfarandi nokkur dæmi sanna:

1. Í friðlýsta Fossárréttina hefur verið plantað trjám með þeim afleiðingum að gamla réttin sést nú varla í landslaginu.
2. Í Fornasel ofan Brunntorfa í Hafnarfirði hefur trjám verið plantað fast við selshúsin að norðanverðu.
3. Trjám hefur verið plantað í selin á Baðsvöllum ofan Þorbjarnar í Grindavík. Nokkrum húsanna hefur verið raskað.
4. Plantað hefur verið trjám í tóftir Njarðvíkurselsins austan Seltjarnar í Njarðvíkurlandi.

Húshöfði

Húshöfði – Beitarhús og Jófríðarstaðasel.

5. Selið í Selbrekkum (nú Sólbrekkum) í Njarðvíkum er nú þakið trjám.
6. Önnur selstaðan við Róselsvötn ofan Keflavíkur er nú horfin í trjágróður.
7. Trjám hefur verið plantað í gömlu Hvalsnesleiðina ofan Keflavíkur.

Hamarskotssel

Hamarskotssel – stekkur.

8. Trjám hafði verið plantað í Snorrastaðaselið við Snorrastaðatjarnir, en þau voru fjarlægð eftir að athygli var vakin á því.
9. Trjám hefur verið plantað þétt upp við megintóft Hvaleyrarsels við Hvaleyrarvatn ofan Hafnarfjarðar.
10. Trjám hafði verið plantað í stekk Hvaleyrarsels sunnan vatnsins. Þau hafa að hluta til verið fjarlægð eftir ábendingar.

Heiðmörk

Fjárborg og fjárhús í Heiðmörk.

11. Trjágróður þekur nú stekk Seldalssels norðan Seldals milli Selhöfða og Stórhöfða.
12. Trjágróður þekur nú stekk Jófríðarstaðasel í Húshöfða ofan Hafnarfjarðar.
13. Trjám hefur verið plantað fast við beitarhúsatóft Jófríðastaða í Húshöfða sem og við seltóftirnar þar skammt frá.

Hamarskotssel

Hamarskotssel – trjárækt.

14. Tré þekja nú stekk Hamarskotssel norðan Sléttuhlíðar ofan Hafnarfjarðar.
15. Tré þekja rústir fornbýlisins Holukots í Botnsdal í Hvalfirði.
16. Fjárborg og fjárhús í Heiðmörk eru þakin og umkringd gróðursettum trjám.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

17. Trjám hefur verið plantað framan við munnan að Hamarskotsselsfjárhelli.
18. (Reykja)Víkurselið í Öskjuhlíð er nánast horfið í skóg.

Á nokkrum minjasvæðum hafa tré orðið sjálfsáð með þeim afleiðingum að minjarnar eru nánast horfnar, s.s. við Gránuskúta sunnan Gjásels, við Hrauntungufjárskjólið í Hrauntungum, við innganginn í Neðri-Straumsselshella, Sveinsfjárskjól ofan Hafnarfjarðar sem og Öskjuholtsskjólið ofan Vatnsleysustrandar. Lítið virðist við því að gera.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – plöntuniðursetning.

Það er ekki til bóta að einstaklingar dundi sér við að planta trjám í fornleifar, án vitundar um hvaða reglur gilda um slíkt. Nýjasta dæmið er að finna í Óttarsstaðaseli ofan Hafnarfjarðar. Þar hefur einhver fundið sig tilknúinn til að planta aspartrjáarsprotum umhverfis meginseltóftirnar, væntanlega með þeim afleiðingum að þær hverfi í gróður þegar fram líða stundir, auk þess aspir eru aðskotaviðbót við ríkjandi trjágróðurinn í Almenningum. Óttarsstaðaselið er menningarheild. Þar er, auk selshúsanna, að finna, nátthaga, tvö fyrirhlaðin fjárskjól, stekki og vatnsból. Óvíst er hvort hlutaðeigandi láti sér nægja að nýplanta í selstóftirnar, eða hvort það sé einungis upphafið að stórtækari trjárækt á svæðinu?

Heimildir:
-Lög um menningarminjar nr. 80/2012, 3., 21. og 22. gr.
-Ný lög um minjavernd – hugleiðingar um breytt umhverfi minjaverndar, Kristín Huld Sigurðardóttir. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2012 (2013).
-https://www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/Arbok-HIF-181-196.pdf
-https://www.minjastofnun.is/minjar/fridlystar-fornleifar/
-https://www.skipulag.is/media/attachments/Skograektogskipurlag_2017_lores.pdf
-Umsögn Minjastofnunar um lýsingu vegna gerðar landsáætlunar í skógrækt LSK2020 til Umhverfis og Auðlindaráðuneytisins þann 30. janúar 2020.
-https://www.google.is/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&source=web&cd=&ved=2ahUKEwjzw4ar36HzAhVB3KQKHR_8CukQFnoECBYQAQ&url=https%3A%2F%2Fwww.stjornartidindi.is%2FPdfVersions.aspx%3FrecordId%3D6c07557e-44ee-4c82-9cf7-6cbad986b536&usg=AOvVaw3BNZGa_ub3-gTWUbowFUhZ

Fossárrétt

Fossárrétt 2009.

Fossárrétt

Fossárrétt 2011.

Ómar

Í Fjarðarfréttum í janúar 2020 segir ritstjórinn, Guðni Gíslason, frá endurnýjaðri vefsíðu FERLIRs (www.ferlir.is) undir fyrir sögninni; “Vefsíða sem getur verið uppspretta að ókeypis leið til að hreyfa sig”.  Þar segir m.a.:

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Í upphafi árs horfir fólk gjarnan til lýðheilsu sinnar fyrir reglubundna áeggjan fjölmiðla.

„Svo virðist sem fréttaflutningurinn sé fyrst og fremst runninn undan rótum líkamsræktarstöðvanna, sem er jákvætt, en með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ómar Smári Ármannsson sem heldur úti fróðleikssíðunni www.ferlir.is og segir hann að til séu miklu mun ódýrari leiðir að sama marki.

FERLIR stóð upphaflega fyrir Ferðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víkka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði, „þótt undarlega megi teljast, þrátt fyrir fjölbreytileikann“ segir Ómar Smári.

Ný endurbætt vefsíða með hafsjó af fróðleik – www.ferlir.is

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Ómar setti upp vefsíðuna ferlir.is þar sem hann skráði inn fróðleik og ferðalýsingar sem söfnuðust saman eftir því sem ferðirnar urðu fleiri. Nýlega var síðan uppfærð og er nú betur aðgengileg í símum og öðrum snjalltækjum. Síðan verður uppfærð og fleiri myndir gerðar aðgengilegar en öll vinna við skráningu og innsetningu efnis á síðuna hefur verið unnin í sjálfboðavinnu.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Yfir fjögur þúsund gönguferðir

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4.000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, því að kostnaðarlausu, á einstökum afmörkuðum svæðum og segir Ómar að því fólki verði seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni www.ferlir.is.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar.

Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið að sögn Ómars Smára. „Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágætan fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Björn Hróarsson, Ferðamálafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk frá elstu tíð, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið mjög áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert og gott fordæmi því talsverður tími hefur farið í ferðir um víðfeðmin umdæmin,“ segir Ómar Smári.

Minjar skráðar ásamt mikilvægum fróðleik

Ölfus

Selvogur – örnefna og minjakort (ÓSÁ).

Safnað hefur verið miklum fróðleik um Reykjanesskagann, skráðir GPS-punktar á minjar í sérstakar hnitaskrár, hellar, skútar, sel, sögulegir staðir, flugvélaflök frá stríðsárunum, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fróðleiksfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Sjá má því nánast óteljandi möguleika til ókeypis hreyfingar og heilsubótar á www.ferlir.is.

Ómar Smári Ármannsson er Hafnfirðingur, fæddur í Grindavík. Hann er fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og er lærður fornleifafræðingur og leiðsögumaður.

Fjarðarfréttir mun nánar segja frá fróðleik á www.ferlir.is.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, Guðni Gíslason, 5. janúar 2020.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.