Járngerðarstaðir

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í “Ensku öldinni“og “Tíu þorskastríð“, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
I. hluti – 3. mars 2004.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

“Atvinnuvegir á Íslandi voru aðallega landbúnaður. Þó voru þrjú svæði undanskilin; 1. Vestmannaeyjar, 2. Reykjanesskaginn (mikil hraun – gróðurspildur með ströndinni) og 3. undir Jökli. Á Reykjanesskaganum var þó merkilegur landbúnaður í Grindavík, alveg fram til 1800, en það var garðyrkja, s.s. á Skála og á Hrauni.

Gerðavellir

Gerðavellir við Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Fiskveiðar voru aðallega stundaðar á framangreindum svæðum. Fram til 1300 veiddu Íslendingar aðallega við landið. Skömmu fyrir 1300 gjörbreyttist ástandið. Noregskóngur hafði einkaleyfi á veiðum við allar eyjar er tilheyrðu Noregi. Aðrir þurftu að fá leyfi til að veiða þar eða versla. Yfirleitt var slíkt leyfi ekki veitt. Síðast á 14. öld breyttist þetta ástand. Englendingar urðu fyrstir til að sækja á fiskimiðin við Ísland, en af þessum eyjum Noregskóngs. Fram yfir 1380 voru fiskiskip yfirleitt lítil og yfirleitt ekki vel fallin til úthafssiglinga. Ný siglingatækni kom fram. Norðurlandabúar töpuðu forystunni á höfunum, en Englendingar tóku yfir; fyrst með tvímastra, þrímastra og jafnvel fjórmastra skipum. Fyrir 1400 voru Englendingar farnir að sigla á slíkum skipum hingað. Fyrstu frásagnir af siglingum Englendinga hingað eru frá 1396 er maður í Vestmannaeyjum var drepinn, en skv. frásögnum lágu 6 skip, útlensk, í höfninni þá nótt. Sextán árum síðar kom skip af Englandi er þá statt við Dyrhólaey. Róið var út að því. Reyndist skipið vera frá Englandi. Sögur af Ríkharði nokkrum komu skömmu síðar, en sá hafði “konungsbréf frá Noregskonungi” til siglinga hingað. Árið 1413 er til frásögn skipa enskra í Reykjavík.

Gerðavellir

Tómas Þorvaldsson við virki Jóhanns Breiða ofan við Stóu-Bót.

Fiskur var aðallega hertur. Árið 1432 kom fyrsta þýska skipið hingað, en það var á vegum Hansakaupmanna. Noregskóngur hélt fast í einkaleyfi sitt til vöru-, veiði- og verslunarferða á sínum svæðum. En vegna þess að norsk skip gátu veitt nær markaðinum í Evrópu var hann ekki eins fastheldinn á þennan rétt sinn er fjær dró. Er Englendingar fóru að koma til Íslands bannaði Noregskóngur för þeirra til landsins. Englendingar og Íslendingar tóku ekki mark á því banni. Íslendingar ömuðust að vísu í fyrstu við fiskveiðum Englendinga, en fögnuðu vöruflutningum þeirra og verslun. En fyrir vöruflutninga Englendinganna fengu þeir “þol til fiskveiða”. Englendingar voru sterkastir við landið og víða með aðstöðu, alveg frá Flatey á Breiðafirði og suður með vesturströndinni, en höfuðvígi þeirra var í Hafnarfirði. Réðu þeir uppsátrum og festarhælum í öllum höfnum.

Straumsvík

Straumsvík.

Þjóðverjar, sem komu um 1430 urðu fljótlega vinsælli. Þeir keyptu fisk og skreið á allt að 70% hærra verði og seldu sína vöru ódýrari. Mikil eftirspurn var eftir fiski í Evrópu svo þeir gátu selt hann á margfalt hærra verði þar. Trúarbrögð, fastan, var aðalástæðan. Þjóðverjar voru einnig vinsælli en Englendingar vegna þess að hinir síðarnefndu stálu oft á tíðum fiski frá Íslendingum; fiski sem safnað hafði verið saman til sölu um vorið. Þetta varð til þess að Englendingar töpuðu smám saman öllum höfnum sínum (sem að vísu voru ekki eiginlegar hafnir í okkar skilningi, heldur viðleguaðstaða). Englendingar höfðu haft Hafnarfjörð fyrir aðalhöfn (Grindavík var nr. tvö), en þeir sigldu jafnan til Straumsvíkur.

Básendar

Básendar.

Um 1480 ráku Þjóðverjar Englendinga frá Hafnarfirði og Straumsvík (Þýskabúð) og tóku sér fasta búsetu í Hafnarfirði. Reistu þeir kirkju og vöruskála. Staðinn nefndu þeir Flensborg. Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði. Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1532 varð Grindavíkurstríðið” eða “Fimmta þorskastríðið” (sjá Enska öldin og Tíu þorskastríð eftir Björn Þorsteinsson (tvær bækur)).
Fyrsta þorskastríðið var 1415-1425 að sögn Björns. Þá var öllu útlendingum bannað af Noregskóngi að sigla til Íslands. Jafnvel innlendum mönnum var það bannað. Siglingar Englendinga uxu þó heldur, enda tók Englandskóngur ekki undir ósk mágs síns, Danakóngs, um bannið. Ítrekaði einungis að hans menn mættu ekki sigla til Íslands, enda væri fyrir slíku ekki forn venja. Við þetta jókst Englendingum ásmegin. Hirðstjóri Dana og Norðmanna, Hannes Pálsson (danskur, en með íslenskt nafn), var handtekinn hér á landi og fluttur til Englands. Leyfi danska Noregskóngsins var þá skilyrt vöruflutningum með þá heimild til fiskveiða við landið “en bannað aðvífandi aðilum”.

1467-1449 var annað þorskastríðið. Danakóngur lét hertaka nokkur ensk skip á Breiðafirði. Englendingar lofuðu þá að stunda ekki siglingar nema að hafa til þess leyfi konungs. Eftir þetta stríð tengdust Íslendingar alveg Danakóngi.

Básendar

Básendar – festarhringur.

1449-1490 var þriðja þorskastríðið. Þeir, sem keyptu sér leyfi til Íslandsferða, voru í fullum rétti til siglinga til Íslands. Árið 1465 voru öll slík leyfi úr gildi felld. Englendingar létu ekki segjast. Björn Þorleifsson, hirðstjóri að Skarði, fór árið 1467 að Rifi og ætlaði að hindra verslun Englendinga þar, en þeir gerðu sér lítið fyrir, festu hann við staur og drápu. Kona hans, Ólöf hin ríka, gerðist þá hirðstjóri og sagði þau fleygu orð: “Ekki skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna hans”. Lét hún handtaka Englendingana og gerði þeim m.a. að leggja stétt eina mikla að Skarði.
Danir reyndu að hrekja Englendinga héðan, en hömpuðu þýskum. Diðrik Píning hrakti t.d. Englendinga frá Hafnarfirði. Englendingar töpuðu þá flestum höfnum sínum.
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur.

Þá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum. Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Lagt var hald á skipin og aðrar eigur Englendinga. Frásagnir eru af þessum atburði í nefndri bók Björns Þorsteinssonar; “Enska öldin” og sú frásögn er tekin upp í “Sögu Grindavíkur” eftir Jón Þ. Þór. Í kjölfarið sigli þras og síðan friðasamningar á milli Dana, Englendinga og Þjóðverja. Með “Grindavíkurstríðinu” lauk svonefndri “ensku öld” á Íslandi.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir.

Ólafur Ásgeirsson, núverandi þjóðskjalavörður, gerði gangskör í að fá skjöl varðandi átökin frá Hamborg til Íslands er til voru um nefnda atburði, a.m.k. afrit af þeim. Svar þýskra var út í hött í fyrstu, en síðar var Íslandi boðið að fá afrit af skjölunum ef það kostaði afritunina; um 500 arkir skjala (af þeim hafa um 30 verið þýdd). Þau eru flest á latínu, þýsku og 1-2 á íslensku. Engin fjárveiting var til svo Jón Bö. var sendur við annan mann til bæjarstjórans í Grindavík ( fyrir 15 árum) til að leita ásjár. Þeim var vel tekið og samþykkti bæjarstjórn að greiða kostnaðinn. Grindvíkingar fengu síðan filmur af skjölunum 500 og Þjóðskjalasafnið fékk afrit. Filmurnar eiga að vera til uppi á lofti í bæjarskrifstofunum, en enginn virðist vita hvað þær er nákvæmlega. Afrit af skjölunum er þó til á Þjóðskjalasafninu og mun Ólafur Ásgeirsson skýra þau nánar með Jóni í næstu fyrirlestrum. Tvö bréfanna eru undirrituð af Hinriki VIII., þ.á.m. skaðabótakrafan er fylgdi í kjölfar mannvíganna ofan við Stórubót þennan örlagaríka dag í júnímánuði árið 1532”.
Sjá II. hluta.

ÓSÁ skráði – yfirlestur JG – VG og SJF.

Grindavík

Grindavík.